Það er skrítið að ætla að skrifa um bækur sem ég kláraði í Svíþjóð, myndir sem ég sá þar eða eitthvað sem ég gerði á Ísafirði í síðustu viku – úr þessum víggirta kristalskastala hérna í San Pedro Sula, paradísargarðinum Panorama. Sá heimur er horfinn. Það er ekki mánudagur heldur, ég missti af mánudeginum í einhverjum ferðalagsstormi. Við lögðum af stað frá Västerås snemma morguns á mánudegi, vörðum deginum í París og flugum svo til Mexíkó um nóttina. Lentum þar skömmu fyrir fjögur að staðartíma og flugum áfram til San Pedro Sula klukkan níu. Vorum komin í hús upp úr hádegi og eyddum deginum í gær úti við sundlaug, mókandi ringluð af flugþreytu. Þess utan hef ég lítið lesið. Ég er ekki týpan til að koma miklu í verk í flugvélum eða á flugvöllum – ekki einu sinni þegar ég er einn á ferð, hvað þá með börnin í för. Líkaminn fer allur á hold (líkami= hold – lol!) og ég bara bíð þess að vera lentur. Það hefur alveg komið fyrir að ég lesi mikið eða jafnvel skrifi mikið í flugvélum en það er mjög sjaldgæft. En skýrslu skrifar maður samt. Það fyrsta á listanum yfir menningarupplifanir er uppskeruhátíð Fab Lab á Heimabyggð þriðjudaginn fyrir viku. Ég mætti þangað með Endemi, tók lítið spunalag með Dodda (á píanó) og sýndi fólki gripinn. Þar var fólk með alls konar sem það hafði gert að hluta eða öllu leyti í Fab Lab. Dan vinur minn, Iowamaður, mætti með cornhole-brautina sína, Denni – trúbadúr og bóksali – með heimasmíðuðu fiðluna sína, þarna var strákur frá 3X-stál með spíral sem á að koma í staðinn fyrir færiband í laxvinnslu (og hefur það fram yfir færibandið að laxinn er í vatni allan tímann og betra að stýra ástandi hans í vinnslunni), hressir tölvunördar með heimasmíðaða gamaldags spilakassa (með pac man og tetris og fleiru) og svo framvegis og svo framvegis. Þetta var mjög gaman – hefði kannski mátt vera formlegri uppsetning, að allir segðu frá sínu fyrir allan hópinn og ættu tíu mínútur á mann, eða svo, frekar en að maður þvældist bara á milli. Cornhole-brautin hans Dan, sem er frábær, féll t.d. aðeins milli skips og bryggju af því hún var úti á gangstétt (og við öll inni að drekka bjór). En Fab Lab er snilld og ég er með á dagskrá að fara aftur í haust og smíða annan gítar. *** Við slógum saman kvikmyndaklúbbi barnanna og kvikmyndaklúbbi fullorðna fólksins og horfðum á listræna óameríska barnamynd – Ferfættan kastala Haurus eftir japanska leikstjórann Hayayo Miyazaki. Myndin fjallar um unga konu, Soffíu, sem rekst á konu sem gengur undir heitinu Eyðinornin – sú breytir þeirri ungu í gamla kellingu. Soffía flýr út í sveit í leit að lækningu og þar rekst hún á ferfættan lifandi kastala og íbúa hans – Kalsífer (sem er eldurinn sem gefur húsinu kraft og stýrir því), Mike (sem er drengur) og galdrakarlinn Hauru – og fær vinnu við þrif, enda kastalinn mjög skítugur. Á þessum tíma geisar mikið stríð í þessum heimi – tilgangslaust og grimmilegt, háð fyrir ómerkilegan pólitískan ávinning og á sér augljósa samsvörun í Íraksstríðinu, sem leikstjórinn var mjög mótfallinn. Hauru er lykilmaður í að stöðva þetta stríð – hann breytir sér í fugl á hverju kvöldi og fer og truflar báða aðila stríðsins, en þessi hamskipti eru að ríða honum að fullu. Allt fer þetta auðvitað vel á endanum. Sagan er skemmtilega flókin og margbreytileg af barnamynd að vera. Það er ekki að boðskapurinn sé flókinn – þetta er óður gegn stríði, fyrir lífi, gegn aldursfordómum, fyrir krafti kvenna, krafti fórna, fyrir galdri og gegn tækni – en hún leyfir sér margar persónur og marga söguþræði sem þvælast hver fyrir öðrum. Teikningarnar eru allt frá því að vera fremur hversdagslegar yfir í að vera sturlaðar – allar senur með hinum ferfætta kastala eru stórfenglegar, minna á Terry Gilliam og Dali. Hún mæltist líka mjög vel fyrir hjá öllum sem á horfðu. *** Á föstudagskvöldið horfðum við Aram og frændur hans, Simon og Jocke, á Thor: Ragnarök. Hún var fín. Meiri húmor en í mörgum af Marvelmyndunum; aulalegur en vinalegur. Ég er ekki viss um að ég nenni að rifja upp söguþráðinn eða að ég muni hann nógu vel til þess. Hel – sem í myndinni er dóttir Óðins, ekki Loka – ætlar að sigra heiminn en bræður hennar, Þór og Loki, sigra hana með því að setja af stað Ragnarök (sem eyða bara Ásgarði – og hann endurfæðist ekki, a.m.k. ekki í sömu mynd og ekki í þessari (bíó) mynd). Einmitt já, HÖSKULDARVIÐVÖRUN! Er það of seint? Sjónvarpið hans mágs míns, Jocke, er með ægilega háskerpu sem gerir allt einhvern veginn of raunverulegt til að virðast raunverulegt. Þetta truflaði mig mikið. Ég mun aldrei skilja þá stefnu í kvikmynda- og viðtækjagerð að meiri skerpa sé alltaf betri. Þetta er einsog að mixa tónlist og framleiða hljómflutningstæki út frá þeirri forsendu að meira treble sé alltaf betra. Maður endar bara með illt í eyrunum. *** Ég las Kompu eftir Sigrúnu Pálsdóttur eftir að hafa séð Stefán Pálsson rifja hana upp á Facebook. HÉR VERÐA HÖSKULDAR/SPOILERAR. Það var mikið talað um það á sínum tíma að þetta væri fyrsta skáldsaga Sigrúnar og þar með ótrúlega góð. Sem var bæði fyndið og svolítið patróníserandi. Sigrún hafði – 2016 – gefið út að minnsta kosti tvær stórar bækur. Önnur (það best ég veit) er púra sagnfræði og hin eitthvert millibilsstig. Og þar með einhvern veginn fáránlegt að tala um hana einsog byrjanda, jafnt þótt það sé með jákvæðum formerkjum. Svona einsog ef Bubbi Morthens hefði fengið nýræktarstyrk til að gefa út fyrstu ljóðabókina sína. Eða næstum því. Hvað um það – Kompa er frábær bók og hefði verið það hvort sem Sigrún hefði verið tvítugur nýgræðingur eða sjötugur reynslubolti. Hún fjallar um konu sem hefur eytt mörgum árum í að skrifa 600 blaðsíðna ritgerð þegar hún kemst að því að forsendur ritgerðarinnar (að tiltekinn myndlistarmaður fyrr á öldum hafi verið kona) standast ekki nánari skoðun. Við tekur hálfgert hrun veruleikans – stór hluti bókarinnar er einsog hálfgert fyllerí, maður nær tökum á glefsum, missir sjónar á því sem er að gerast, nær því aftur, flettir fram og til baka, ringlast, nær stjórninni og svo framvegis. Konan veit ekki hvað hún á að gera, hvað henni á að finnast, hvernig henni á að líða og svo framvegis, og lesandinn er svolítið í svipuðum sporum. Þetta gæti reyndar haft svolítið með að gera það hvernig lesandi ég er og hvernig bók þetta er (nei, er það?!) Það er lengst af mjög óljóst í hverju misskilningur konunnar er fólgin og þegar maður – ég – veit ekki eitthvað svo miðlægt í bók þá fer maður að lesa mjög hratt. Þá kviknar á glæpasagnalesandanum sem vill bara finna vísbendingarnar sínar. Textinn í bókinni er hins vegar Proustískari en svo að maður græði mikið á því – hana hefði sennilega mátt stytta um þriðjung bara með því að fjarlægja fatalýsingar (sem ég er ekki að mæla með). Þannig rekast á í henni tvö mótsagnakennd eðli – hægi ljóðræni lesturinn og hraði akkorðslesturinn. Ég var alltaf að ryðjast áfram, hægja á mér, bakka, ryðjast svo aftur áfram bara til að hægja á mér aftur. Og þannig fram á enda. Ég er síðan með kenningu um endann sem ég veit ekkert hvort að er alveg út í hött – hún gæti verið það. Þessum ósköpum lýkur á því að konan sálgar sér. Mamma hennar finnur síðuna sem konan reif úr handritinu – síðuna sem inniheldur upplýsingarnar um að listamaðurinn hafi verið karl, þær sem setja konuna svo algerlega af sporinu að hún endar í gröfinni. Þar kemur fram að listamaðurinn hafi verið kallaður í herinn – og það sé disgraise (skrifað svo). Hún fær sams konar áfall og dóttirin og hendir síðunni í ruslið. Síðar sækir hún hana aftur, skoðar hana nánar – síðan er eitthvað skemmd (nú man ég ekki hvort það var eftir ruslafötuna eða eitthvað annað – ég skildi bókina eftir í Svíþjóð og er á hálum ís). Í öllu falli eru sumir stafirnir máðir og alveg hægt að skilja disgraise sem disguise og setninguna þar með svo að hún myndi þurfa að dulbúa sig til að fara í herinn. Og þar með er hún kona. Ef ég hef skilið það sem ég las um bókina rétt er almennt gengið út frá því að hér eigi sér stað fölsun. En það kemur, það best ég veit, aldrei almennilega fram hvað sé satt þarna – hvort hafi raunverulega staðið disguise eða disgraise – við sjáum aldrei setninguna fyrren stafirnir eru orðnir máðir – og þar með algerlega opið fyrir það að konan hafi sjálf mislesið síðuna og sálgað sér fyrir misskilning. Hana plaga efasemdir – og niðurrifsmaður – alla bókina. Ég held ekki að misskilningur eða mistök hafi drepið þessa konu heldur yfirgengilegur sjálfsefinn. Ég var næstum búinn að lesa bókina strax aftur til að staðfesta kenninguna (einsog það væri hægt), af því las hana líka í næstum jafn mikilli móðu og konan er í sjálf, en svo langaði mig að skilja hana eftir – við erum að drukkna í farangri – og lét það eftir mér. *** Mér finnst einsog ég sé að gleyma einhverju. En sennilega er það ekki neitt. Ég hef horft svolítið á sjónvarp, sem ég sleppi hérna (af því það er svo mikið talað um sjónvarp hvort eð er og þetta er víst nógu langt). Já, ég ætlaði að segja eitthvað um ferðalagið. Landarýni. Nei, ég nenni því ekki að svo stöddu. *** Gítarleikari vikunnar er Corey Harris. Mig langar svolítið í svona gítar einsog hann er með. Þetta er Alvarez Artist parlor gítar. En mér sýnist borin von að ég geti fengið hann hérna, einsog ég var að ímynda mér. Hljóðfærabúðirnar hérna eru eitthvað fátæklegri en ég hafði ímyndað mér og erfiðara að panta hingað hljóðfæri og sennilega verð ég að sætta mig bara við hvaða parlor-gítar sem ég get fundið. En Corey Harris er mjög skemmtilegur. Ég hef svolítið verið að velta því fyrir mér hvort gítarinn sé ekki orðinn períóðuhljóðfæri – svona einsog lútan – verkfæri sem er fyrst og fremst ætlað að vekja fram tónlist ákveðins tímabils. Í tilfelli stálstrengjagítarsins, rafmagns- eða kassa-, er það auðvitað 20. öldin. Corey er að spila á öðrum enda hennar tónlist sem var samin á hinum endanum. Kannski var blues-revival hreyfingin í kringum Stones í byrjun sjöunda áratugarins – sem var lykilatriði í þróun rokktónlistar – fyrsta skipti sem gítarinn varð þetta períóðuverkfæri. Ég er vel að merkja ekki að meina að þetta sé allt eitthvað ómerkilegt. Mér finnst Corey Harris frábær og gítarinn elska ég umfram önnur hljóðfæri.