createdTimestamp““:““2024-05-23T03:12:39.675Z““

Per vinur minn spurði mig á dögunum hvort ég væri enn að skrifa „fréttir frá Svíþjóð“. Ég sagði að botninn væri kannski svolítið að detta úr þessu. Þegar við komum fyrst í vor vorum við til þess að gera nýbúin með fyrstu bylgju á Íslandi og það var forvitnilegt að setja sig inn í það hvernig Svíar hafa hugsað (og ekki hugsað) sín covid-viðbrögð í upphafi annarrar bylgju og bera það saman við það hvernig Íslendingar hafa hugsað (og ekki hugsað) sín covid-viðbrögð. En maður heldur ekki áfram að bera saman sömu hlutina endalaust, samanburðinum hlýtur einhvern tíma að þurfa að ljúka? Mér þykja viðbrögð Svía skiljanlegri eftir ríflega hálfs árs veru hérna. Þeir hafa gætt sín á því að búa ekki svo um hnútana að hér ríki ógnarástand. Akkúrat í augnablikinu virkar óeðlið í hina áttina – ofsafengin viðbrögð við nokkrum smitum á Íslandi og ofsafengin reiðin sem blossar upp í kjölfarið. Helvítis skítar út um allt, fólk sem þvoði sér ekki um hendur, gekk ekki með grímu, útlendingar sem sáu sér hag í því að kaupa dýra flugmiða, dýra hótelgistingu og dýr PCR-próf til að sækja sér atvinnuleysisbætur á Íslandi, helst oft í viku – í sem stystu máli: drulluháleistar út um allt. Maður getur kallað það skiljanleg vonbrigði og eðlilega gremju og holla gagnrýni og hvað sem maður vill – en þetta er samt svolítið stjórnlaus hræðsla stundum og fólk slær frá sér í allar áttir. Ég sá meira að segja fyrrverandi þingmann halda því fram fullum fetum að búið væri að rekja öll smit til einnar verkakonu af pólskum uppruna sem átti að hafa farið í (fullkomlega óþarfa) helgarferð til heimalandsins, með þarlendu flugfélagi sem væri miskunnarlaust að bjóða þangað niðurgreiddar ferðir (sennilega í þeim tilgangi einum að dreifa smiti). Það vantaði bara að hann útvegaði heimilisfang konunnar og kveikti í kyndlunum fyrir skrílinn. Mér finnst líka og hefur alltaf fundist að hugmyndir um að loka landamærunum meira og minna um ófyrirsjáanlega framtíð séu álíka nötts og lockdown til langtíma. Kannski vegna þess að ég tilheyri einni af þessum fjölskyldum sem eru með fót í fleiru en einu landi. Ég skil vel að það sé mikilvægt að komast í sund og ræktina og þurfa ekki að vinna heima – en það er líka mikilvægt fyrir ex-pata/innflytjendur að geta hitt fjölskylduna sína, hitt menninguna sína, talað tungumálið sitt o.s.frv. Ef ástandið væri ekki einsog það er væri ég áreiðanlega búinn að taka skottúr til Íslands. Ég veit að það var þungt fyrir Nödju að geta ekki skotist til Svíþjóðar í vor – því það er einmitt svona ástand sem kallar fram langanir eftir því að vera með sínum „nærustu og kærustu“, ef maður mögulega getur. Ég veit annars ekki hvort Svíar eru almennt léttari en Íslendingar í þessu. Stundum finnst mér þeir bara almennt kærulausari. Ég talaði nýlega við mann (ekki Per, vel að merkja) sem sagðist vera að íhuga að sleppa því að bólusetja sig. Hraustur maður, ekkert að honum – hann langaði bara ekki að þurfa að díla við mögulegar afleiðingar eða beiskjuna. EF það skyldi reynast eitthvað að. Þetta snerist ekki um Astra Zeneca eða eitthvað annað. Sennilega bergmálar hérna narkólepsían sem kom upp hjá fáeinum einstaklingum eftir svínaflensubólusetninguna 2009. Okkur er mjög gjarnt að upplifa stakar sögur einsog þær væru lýsandi fyrir veruleika allra. Að hafi einhver lent í einhverju hljóti allir að vera í hættu. Sem er auðvitað satt – maður er t.d. alltaf í einhverri hættu með að vera rændur úti á götu, tölfræðilegu líkindin eru til staðar. En ef maður ætlar að vera hræddur við það er maður farinn að hræðast allt – maður getur líka orðið fyrir eldingu, dottið í bað, fengið heilablóðfall. Það er mjög hættulegt á internetöld þar sem maður getur í einu vetfangi lesið sögur um 400 manns sem urðu fyrir eldingu bara í vikunni og ályktað að hér sé um faraldur að ræða – eldingastríð – án þess að taka tillit til þess hvað jörðin er stór og fólkið margt. Fyrir utan svo hitt að tölfræðilegu líkindin af því að fara illa út covid – jafnvel fyrir hraustan ungan mann – eru talsvert meiri en að maður fari illa út úr bólusetningu. En það þarf ekki að vera í ökkla eða eyra. Manni er hollast að vera ekki værukær gagnvart vírusnum – en maður má ekki heldur láta hann gersamlega taka sig á tauginni. Ég átti minn fyrsta vinafund í marga mánuði á dögunum – við áðurnefndan Per – annars hef ég ekki hitt fólk (í eigin persónu) nema fjölskyldu Nödju síðan í október. Þetta Svíþjóðarár hefur farið að mörgu leyti öðruvísi en það átti að fara. Ég hafði séð ýmsa kosti við að vera hérna og eitthvað af því hefur staðist þótt flest hafi látið á sér standa vegna aðstæðnanna. Ég hef t.d. haft bærilegan vinnufrið, virðist mér, í öllu falli kláraði ég tvær bækur og hef sinnt alls konar öðru. Svo einhver eru afköstin og ég lofa að ég kastaði ekkert til hendinni. Kostirnir – það sem ég hlakkaði til – var hins vegar t.d. að geta farið á tónleika. Það eru blúsklúbbar í Stokkhólmi og stórar hljómsveitir spila þar mikið. Eric Bibb á sænska konu og á heima þar. Við gáfum Aram Iron Maiden miða í afmælisgjöf – þeir tónleikar eiga að vera í júlí en verða varla. Mér tókst að fara á eina skítsæmilega blústónleika í september en annars hefur náttúrulega ekkert gerst – því þótt hér sé ekki lockdown þá er ekki einsog fólk vaði bara um villt og hósti hvert á annað. Það eru takmarkanir inn í búðir og allt lokað á kvöldin og leikhúsin og bíóin og allt það lokað. Annað var nálægð við alþjóðaflugvöll. Einn stærsti gallinn við að búa á Ísafirði er að þurfa alltaf að keyra til Keflavíkur (eða Seyðisfjarðar) til að komast úr landi. Á venjulegu ári ferðast ég mikið og það er umtalsvert auðveldara að skjótast héðan á Arlanda – varla klukkustundarakstur. Það er meira að segja alþjóðaflugvöllur hérna í bænum – umdeildur aðallega vegna þess að það er taprekstur á honum, getur ekki keppt við Arlanda, sennilega verður honum lokað – og hann er litla tíu mínútna strætóferð í burtu. Svo höfðum við á prjónunum að kynnast fólki og svona, einsog maður gerir. Vorum meira að segja með fólk í sigtinu til að bjóða í mat. En í þessu ástandi er fólk lítið að hittast og svo til enginn er að opna á ný samskipti. Ef fólk hittir einhvern þá hittir það aldavini sína, eðlilega, og nýfluttir – sem þess utan eru ekki komnir til að vera – mæta mjög miklum afgangi. Og þannig mætti halda áfram. Ég hafði hugsað mér að komast á gítarnámskeið eða gítarsmíðanámskeið eða jafnvel söngnámskeið – og þótt ýmislegt af þessu hefði verið tæknilega mögulegt var ekkert af því æskilegt og þar við sat og situr. Við hjónin erum hins vegar að fara til Stokkhólms í dag. Fengum hótelgistingu í jólagjöf og ætlum að nýta okkur gjafakortið. Búin að bóka borð á veitingahúsi – þau eru opin til hálfníu – og ætlum að gera okkur glaðan dag. Og veitir ekki af – ég hef verið afar þungur síðustu vikur, þótt ég sé bærilegur í dag og í gær. *** Plata vikunnar er Final Sessions 1963-4 með Sonny Boy Williamson. Sonny Boy var munnhörpuleikari, fæddur 1912, og lést ári eftir að þessum upptökum lauk, 52 ára – en leit út einsog hann væri áttræður að minnsta kosti og hafði gert lengi.  Hann hét Aleck „Rice“ Miller þegar hann fæddist og tók upp þetta nafn eftir öðrum blúsmunnhörpuleikara, John Lee Curtis Williamson, sem var tveimur árum yngri en reis til frægðar á undan Rice. Eru þeir stundum kallaðir Sonny Boy Williamson I (John Lee) og Sonny Boy Williamson II (Rice Miller) til aðgreiningar. Sá fyrrnefndi er aðeins minni fígúra í munnhörpuheiminum en sá síðarnefndi – en það munar ekki mjög miklu og þeir þykja báðir miklir frumkvöðlar í stíl og tækni án þess að ég þekki mikið hvernig munnharpan virkar. Sjálfur sagði Rice að hann hefði tekið upp þetta nafn á undan John Lee – sem virkar undarlega í ljósi þess að Rice hét alls ekki Williamson að eftirnafni – og flestum þótti þetta víst frekar lélegt af honum. En hann var tónlistarséní fyrir því. Platan er tekin upp í tvennu lagi. Fyrra sessjónið er tekið upp „in Europe“ einsog stendur aftan á umslaginu, síðla árs 1963, en það síðara í Chicago í ágúst 1964. Svo virðist sem í Evrópu hafi hvorki verið lönd, borgir né dagatal. Í Chicago var hins vegar ekkert manntal og því veit enginn hver lék á trommur og bassa á þeirri hlið plötunnar. Annars er þetta ofsalegur mannskapur. Í Evrópu er Matt Guitar Murphy á gítar – sem margir kannast sennilega við úr Blues Brothers myndinni,  en lék líka með Howlin Wolf, Memphis Slim og fleirum, og er næstfrægasti blúsgítarleikari Chicago-blússins á eftir Buddy Guy, sem leikur einmitt í Ameríkulögunum. Lafaeytte Leake leikur á píanó í Ameríku – en sennilega er enginn honum fremri nema ef vera skyldi þá Otis Spann sem leikur í Evrópulögunum. Þar er svo Willie Dixon sjálfur á bassa og Billy Stepney á trommur. Öll lögin eru frábær og flutningurinn óaðfinnanlegur. Þetta er einfaldlega meistaraverk. Það eru tvær útgáfur af Mattie is My Wife, ótrúlega flott og einföld útgáfa af Robert Johnson laginu Kind-Hearted Woman – en eftirlætið mitt er sennilega langdregin útgáfa af gospelslagaranum Milky White Way. Ég vissi það ekki þegar ég byrjaði að skrifa þetta en platan er ekki á Spotify og ekkert laganna af henni er á YouTube. Så det så, einsog maður segir – ég hef ekkert upp á að bjóða. Nema kannski þetta live-myndband af Sonny Boy að spila allt önnur lög með allt annarri hljómsveit í sænska sjónvarpinu.