createdTimestamp““:““2024-05-24T11:23:15.245Z““

Páskalaugardagur. Ég tek umræðuna á Íslandi nærri mér. Og stöðuna. Ég hafði oft á orði síðasta vor að við þyrftum að gæta okkar – það væri mjög stutt í að við færum að líta á útlendinga (eða aðra hópa) sem skítuga smitbera, og dýrka hið hreina Ísland (eða hugmyndina um hið hreina Ísland). Það er ekki ný saga heldur gömul – og sama hvort það eru gyðingar eða sígaunar eða bara utanbæjarmenn. Akureyringar kunna að þvo sér um hendurnar og smita ekki en það gildir auðvitað ekki um Húsvíkinga sem skíta þar sem þeir éta og hósta í lófann áður en þeir heilsa fólki með handabandi. Og svo er það auðvitað niðurstaðan – gerðist ekki á einni nóttu en við erum búin að tala okkur upp í það. Og satt að segja held ég að fólk óttist orðið meira að einhver af „hinum“ komi af stað smiti svo sundlaugarnar loki, frekar en að það óttist að einhver deyi – ástandið er farið að fæða sjálft sig, einn óttinn drífur annan. Þeir sem vilja komast í ræktina vilja að fólk fari ekki á barinn og þeir sem vilja fara á barinn vilja að fólk sleppi ræktinni. Og tortryggnin er alger. Næg til að yfirvöld læsi fólk inni svo það brjóti ekki lög. Harðar aðgerðir, einsog þeir sem eru í framkvæmd núna með þessi sóttkvíarhótel – og mér þykir brjóta í bága við þau grundvallarmannréttindi að manni sé ekki refsað fyrir þá glæpi sem maður gæti framið heldur þá sem maður sannarlega hefur framið – gera auðvitað gagn. Það er ekki vandamálið. Hvort þær gera nógu mikið gagn – það er enn mikið af fólki að koma frá öruggum löndum og þess utan er möguleiki að komast í gegnum skimanir og sóttkví og smita samt, það eru áreiðanlega einstaklingar á undanþágu frá sóttkví (t.d. vegna annarra veikinda – eða börn ein á ferð) og þegar einn einasti er kominn inn getur hann hóstað á heilan fótboltavöll og sett samfélagið á hliðina – er svo önnur spurning. Og ef maður treystir ekki fólki til að fara sjálft í sóttkví hvers vegna treystir maður því þá fyrir að vera koma beint frá einhverju öruggu landi? Lögreglan gaf í skyn að hún léti fólk sýna sér myndir úr símanum til að sjá hvar það hefði verið. Sem er auðvitað líka snargalið. Svo er aftur spurning hvaða kostnað hinar hörðu aðgerðir hafa í för með sér umfram það gagn sem þær gera. Óttinn er hungruð skepna og hún verður aldrei mett svo vel sé. Það er ábyrgðarhluti að leyfa henni að leiða samfélagið. En sem sagt. Þegar ég var að hugsa þetta síðasta vor hafði ég ekki alveg gert mér grein fyrir því að þetta gæti náð til mín, svona prívat og persónulega. Samt var löngu ákveðið að við tækjum ár í Svíþjóð. Ég hafði bara ekki hugsað út í það. Ég var og er hlynntur sóttkvíarreglum og hefði ekki talið eftir mér að sitja tvær vikur í sóttkví – hef tekið það upp stoltur í samræðum að á Íslandi sé bara fimm daga sóttkví og fólk testað tvisvar. Hið fullkomna fyrirkomulag í erfiðum aðstæðum. En ég vona að ég muni ekki láta það yfir mig ganga að vera læstur inni fyrir að geta hugsanlega orðið sekur um glæp. Það er undarleg tilfinning því raunmunurinn er auðvitað ekkert ofsalegur – ég hafði séð fyrir mér að leigja sumarbústað og hanga þar. Og hugsanlega jafnvel fara á hótel – sérstaklega ef ég þyrfti einn í sóttkví. Nadja er bólusett og ég veit ekki hvort hún eða börnin þurfa að fara í sóttkví. Ég veit ekki hvað það þýðir fyrir okkur, sem þó munum ferðast saman ef þess er nokkur kostur. Eða hvað það muni þýða. Ég hef hins vegar ekki nema takmarkaða trú á því að reglur verði rýmkaðar eða hysterían minnka á næstu mánuðum – mér finnst þvert á móti að nú þegar loksins birtir til sé fólk farið að æsa sig upp sem aldrei fyrr, og krefjist harðari og harðari aðgerða. Það hafa aldrei verið jafn strangar reglur á Íslandi og núna. Sem meikar bara ekkert sens. En ég sem sagt tel það ekki eftir mér að sitja á gluggalausu hótelherbergi í fimm daga sjálfur – ég er mjög góður í þannig hangsi og hef litla þörf fyrir útivist. Been there, done that. En það þyrfti sennilega eitthvað meira til þess að ég legði það á börnin mín. Hins vegar geri ég það ekki undir neinum kringumstæðum ef ég fæ ekki að gera það sjálfviljugur. Ef það er ekki glæpur að ferðast er óásættanlegt að fólki sé refsað fyrir það. Það er bara ekki flóknara en það. Þórólfur segir í viðtali að „ekki komi til greina að breyta þessu fyrirkomulagi“ – og í sjálfu sér áhugavert að hann talar einsog hann ráði þessu sjálfur, frekar en að hann sé ráðgjafi stjórnvalda sem þurfa þess utan að halda stjórnarskrá og alþjóðasáttmála, sem er alls ekkert víst að bakki upp svona aðgerðir. En ef í ljós kemur að fyrirkomulagið er löglegt og því verður ekki breytt finnst mér líklegra en ekki að ég reyna að finna út úr því hvort ég geti ekki verið áfram í Svíþjóð a.m.k. þar til íslenska ríkið fer aftur að virða lágmarks mannréttindi. Svíar hafa verið kolgeggjaðir í sínum covid-viðbrögðum – en þeir eru kannski búnir að taka út mestu klikkunina. Það hlýtur líka að koma að því þessu neyðarástandi verði aflýst á Íslandi – ef það er ekki komið með haustinu þá næsta vetur. En ég lít sennilega svo á að hið klosslokaða Ísland sem fólk kallar eftir sé þá klosslokað fyrir mér líka. Ég hef engan áhuga á neinum undanþágum í því. Mér finnst þetta bölvanleg tilhugsun – ég hef verið með mikla heimþrá alveg síðan við komum. Ég er mjög heimakær maður, sakna vina minna og fjölskyldu og er elskur að dótinu mínu sem varð eftir.  En kannski maður hugsi þá bara um Svíþjóðardvölina sem framlengda sóttkví – og líti svo á að það sé bara alls ekki eðlilegt að maður ferðist á milli landa, jafnt þótt maður eigi rætur og heimili annars staðar. Sennilega telja flestir sem sitja í sóttkvíarfangelsinu í Þórunnartúni að þeir hafi ekki minna réttmætar ástæður til þess að ferðast á milli landa en ég. *** Ég er hjá tengdafólki mínu í Rejmyre en plötusafnið á Ísafirði, svo það verður ekki eiginleg plata vikunnar. Hins vegar er hérna lag sem var gefið út á 78 snúninga hljómplötu árið 1927 (sem ég á ekki í mínu safni). Lagið er hálft á hvorri hlið enda tæplega sex mínútur og bara pláss fyrir þrjár á hverri hlið. Það er Washington Philips sem leikur á einhvers konar sítar og syngur – gospel-blúsinn Denomination Blues. Þetta er töfrandi sánd – og nístandi krítík á kirkjuna.