„Sársaukinn byggði brú / milli okkar sem vígðumst eldi“. Bubbi Morthens – Tunga svipunnar *** Ég er að fara á Bubbatónleika í kvöld og hef verið að hlusta á plötuna. Muy bueno. Við Nadja ætlum að taka mömmu og pabba með okkur. Þetta verður stuð. *** Asli Erdogan hefur fengið ferðafrelsið aftur. Hún getur yfirgefið Tyrkland. Sagan segir að hún hafi á sínum tíma átt að verða ICORN-höfundur í Reykjavík en afþakkað sökum veðráttu. Það var áður en henni var hent í fangelsi, eftir valdaránstilraunina í fyrra. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það, vel að merkja. Ég hef aldrei hitt hana sjálfa en við eigum sameiginlega vini og ég hitti einu sinni mömmu hennar. Og ég hef ekki spurt neina vini hennar út í þessa sögusögn. En einsog ég nefndi í vikunni og eru svo sem ekki ný sannindi, þá eru sögur ekkert verri þótt þær séu haugalygi. *** Í öllu falli fögnum við ferðafrelsi Asli Erdogan. Nú vantar bara að kærurnar gegn henni – sem snúast að mig minnir um almennan andróður gegn tyrkneskri fósturjörð (les: Erdogan forseta, sem er vel að merkja ekki skyldur henni) – verði felldar niður. *** Áður en við förum á Bubba ætlum við út að borða. Ég þarf að bóka borð. Það er bara þannig á sumrin. Og þá þarf maður að velja hvert maður ætlar. *** Á Húsinu hefur ekki verið skipt um matseðil í háa herrans tíð – og hann var aldrei sérlega langur. Maturinn er góður en ég er kominn með leið á seðlinum. *** Hótelið er of dýrt ef maður ætlar ekki að sitja lengi (við ætlum auðvitað á tónleikana). *** Thai Koon og Thai Tawee er ekki treystandi til að vera með fisk- eða grænmetisrétt (sem er fáránlegt) og Nadja borðar ekki kjöt. *** Crepesvagninn er úti og það er kalt. Ég er að spá í að prófa hann í hádeginu. *** Portúgalski / Kaffi Ísól er svo stopult opinn. Ég held hann hafi ekkert verið opinn í vikunni. *** Hamraborg er … náttúrulega fyrst og fremst sjoppa. Meira staður til að mæta á þunnur á sunnudegi en út að borða með frúnni á föstudegi. *** Tjöruhúsið – sama og með hótelið, maður þarf að sitja lengur. Svo er ekkert ólíklegt að þar sé bara allt uppbókað. *** Nágrannabæirnir – Talisman, Vagninn o.s.frv. er of langt í burtu og mig langar að fá mér bjór með matnum. Nadja drekkur sjaldan og lítið en vill líka oft fá sér með matnum, og jafnvel þótt hún sleppti því þá er hún ekki með bílpróf. *** Þá er held ég bara Edinborg eftir. Ég veit ekki hvort þau eru með sama matseðil, hann er nú eitthvað stokkaður til annað veifið, en það hefur verið upp og ofan með gæði kokkana í eldhúsinu. Stundum hafa það bara verið krakkar sem kunna ekkert að elda. En það er gott þegar Gummi eldar. Svo skilst mér að það sé kominn kokkur frá Króatíu, en ég hef ekkert heyrt af hæfileikum hans enn. *** Viðbót: Ég kannaði málið með Crepesvagninn og hann er lokaður þessa vikuna. Sennilega eru efnaverkfræðingarnir bara eitthvað að efnaverkfræða.