createdTimestamp““:““2024-06-09T05:31:44.238Z““

Það er allt heldur rólegt á menningarfrontinum. Ég er að lesa Palimpsest, sjálfsævisögu Gore Vidal, og hvorki gengur né rekur. Rétt búinn með fjórðung, held ég. Hún er að vísu í lengri kantinum en það er sama. Þetta er engin frammistaða. *** Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Mr. Bean fer í fríið. Ég er ekki alveg viss hver valdi – annað hvort barnið, sennilega Aino. Hún og Vala vinkona hennar horfa víst mikið á Mr. Bean heima hjá Völu. Í þessari mynd vinnur Mr. Bean ferð til Frakklands. Ferðin fer auðvitað ansi spaugilega, honum reynist það ansi örðugt að komast á áfangastað en hann eignast líka góða vini á leiðinni og allt fer vel að lokum. Húmorinn er barnalegur og á að vera það – líka fyrir fullorðna. Mikið af geiflum og slapstick. Hluti myndarinnar er uppgjör við alvarlega kvikmyndalist – Willem DaFoe leikur tilgerðarlegan og sjálfsupptekinn leikstjóra sem gerir myndir með sjálfum sér, eftir sjálfan sig, og reynir að hafa sjálfan sig sem mest í rammanum meðan hans eigið voice-over fílósóferar ljóðrænt um erfiðleika tilverunnar. Þar má ímynda sér að Rowan Atkinson sé að reyna að koma einhverjum boðskap (eða beiskju) áleiðis. Grínistar eru auðvitað ekki alltaf teknir alvarlega enda vinna þeir beinlínis við að láta ekki taka sig alvarlega heldur létt – sérstaklega geiflugrínistar einsog Rowan Atkinson. Þetta hlýtur að vera erfitt. Svo er hitt auðvitað alveg satt að alvarleg list er ekki endilega merkilegri en óalvarleg og hún getur alveg jafn auðveldlega misheppnast – en það er ekki alltaf jafn augljóst. Maður veit að grínmynd er ekki fyndin vegna þess að maður hlær ekki – hlátur er tafarlaust viðbragð. Alvarlegri myndir sækja oftar í heilabúið á manni, eiga að vekja upp hugsanir, og maður veit oft ekki hvort er nokkuð varið í þær fyrren löngu seinna – þegar maður er búinn að ræða þær við fólk og spá og spekúlera svolítið, þegar maður veit hvort þær ofsækja mann eða hvort þær gleymast. *** Við Aram fórum á Spiderman: Far From Home í Cinemark bíóinu í City Mall. Borguðum extra fyrir hristisæti. Það gerði svo sem lítið fyrir upplifunina en var gaman að prófa. Myndin er undir meðallagi Marvelmynd. Plottið er þunnt og persónudramað er of mikil unglingamynd fyrir 9 ára strák og 41 árs karl. Og sennilega bara ekki einu sinni góð unglingamynd. Misterio er leiðinlegur vondi karl. Spiderman er of mikil gelgja og ekki nógu kjaftfor. Það er samt alltaf gaman að fara í bíó með Aram og við skemmtum okkur vel á meðan myndinni stóð (og honum finnst hún ábyggilega ennþá skemmtileg en hann er heldur ekki jafn mikill konnósör á þessa hluti ég snobbhænsnið pabbi hans). *** Við fórum á karókísjó í Tela. Það var dálítið spes. Þetta var utandyra og allir sátu við svið og horfðu beint fram einsog í leikhúsi. En það var enginn á sviðinu – þar var bara tjald með texta. Einhvers staðar í áhorfendahópnum var svo míkrafónn og manneskja að syngja og maður þurfti oft að litast um lengi áður en maður fann söngvarann. Lögin voru öll á spænsku og sennilega mörg hondúrsk. Ég þekkti ekki eitt einasta (enginn söng spænsku útgáfuna af Informer með Snow, sem virðist vera mjög vinsæl hérna þessa dagana). Söngvararnir voru ýmist frábærir eða hræðilegir, einsog gengur. Ég hef samúð með því – ég hef verið að æfa mig að syngja í sumar, ég kann ekkert að syngja en hef látið internetið sannfæra mig um að það geti allir lært þetta og mig langar að kunna að syngja. Ég hef einu sinni sungið í karókí – í partíi hjá Höllu Miu á Ísafirði af því Gunnar Jóns píndi mig til þess – og mér finnst það ekki auðvelt, ekki einu sinni blindfullur í fíflalátum. Ég syng nánast aldrei fyrir framan fólk en ég hef tekið upp nokkur myndbönd þar sem ég syng og spila og póstað á YouTube og það er einhvern veginn auðveldara. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á Paris, Texas eftir Wim Wenders við handrit eftir Kit Carson og Sam Shephard og tónlist eftir Ry Cooder. Harry Dean Stanton leikur Travis, mann sem hefur verið á eins konar „walk-about“ ferðalagi í fjögur ár þegar líður yfir hann í sjoppu í Texas og bróðir hans, Walt, leikinn af Dean Stockwell (Al í Quantum Leap) fær símtal um að hann sé fundinn. Walt og kona hans Anne (Aurore Clément) hafa alið upp son Walts og Jane (Nastassja Kinski), Hunter (Hunter Carson – sonur Kits) síðan þau hurfu bæði bæði. Myndin segir síðan söguna af endurkomu Walts í líf sonar síns – og lífið almennt, hann man lítið af því sem hefur gerst síðustu árin – og smám saman komumst við að því hvað varð þess valdandi að líf þeirra leystust upp til að byrja með. Þar koma miklar tilfinningar við sögu – vonleysi ungrar konu sem vill ekki verða móðir og eldri manns sem er að drepast úr afbrýðissemi og skömm yfir afbrýðissemi og því hvernig allar þessar tilfinningar bera þau ofurliði. Þetta ástfangna og lífsglaða fólk er skyndilega orðið reitt og hrætt og farið að meiða hvert annað – hann sennilega meira hana en hún hann. Á endanum springur allt í loft upp – nánast bókstaflega – og hún skilur drenginn eftir hjá mági sínum, stingur af og Travis fer á sitt walk-about. Þetta er ofsalega kraftmikil mynd. Harry Dean Stanton er dásamlegur í henni og í mjög gefandi hlutverki – hlutverk Nastössju Kinski er erfiðara viðfangs og hún fær miklu minni tíma á skjánum en hún gernýtir hverja sekúndu. Stockwell og Clemént eru líka fyrsta flokks. Ég verð lengi eftir mig af henni og hún ofsækir mig alla daga. Ég hugsaði mikið um það hlutverk listarinnar að auka manni meðlíðan. Þetta er oft sagt á tyllidögum og jafnvel vísað í rannsóknir – aðallega um að bóklestur auki manni meðlíðan, að fólk sem lesi eigi betra með að setja sig í spor annarra, sé síður dómhart og eigi betra með að finna til samúðar. Sögur – líka bíómyndir – veita okkur oft innsýn í veruleika sem við þekkjum ekki vel annars, gefa okkur færi á að finna til með fólki í öðrum sporum en okkar eigin. Þar mætti t.d. nefna alls konar minnihlutahópa – og alveg klárt mál að listin hefur spilað stóra rullu í að leysa upp margs konar fordóma og kúgun í þeirra garð (og á sitthvað eftir inni þar enn). En það er bara hluti jöfnunnar því sögur gera okkur líka ljóst hvað við eigum sameiginlegt með þeim sem lenda á refilstigum – auka samúð okkar með illmennum og gera okkur ljóst að þeir sem gera illt eru yfirleitt ekki illir í gegn. Það er mjög erfitt að finna sársauka illmennis – að finna skömmina – en ég held það sé líka mjög hollt. En það sló mig líka að kannski væri Paris, Texas að þessu leyti mjög ómóðins saga 2019 – þetta væri ekki æskileg innsýn á tímum þar sem fyrirgefningin og uppreistin og endurkoman þykja hálfgerð uppgjöf fyrir illskunni. *** Gítarleikari vikunnar er Molly Tuttle – hún er sturlaður pikkari. Ef þið ætlið að tékka á henni mæli ég frekar með live myndböndum af YouTube – allt „útgefna“ dótið er leiðinlega mikið pródúserað og hún er langbest „hrá“.