Vestfirsk skáldsaga: Djúpið

Ég lauk við Djúpið eftir Benný Sif í gær. Það er ofsalegur sogkraftur í henni. Mér fannst svo sem síðustu 50 síðurnar, þegar verið er að skila sögunni í land, ekkert sérstakar en 250 síðurnar þar á undan er þetta fullkomlega dáleiðandi ferðalag. Og aðalsöguhetjan, Valborg, er áreiðanlega með eftirminnilegri sögupersónum síðari ára. Með ofsalega átröskun, sem liggur einhvern veginn að baki öllu, og er samt aukaatriði – Valborg er alltaf stærri en átröskunin. Og Djúpið verður þar með aldrei beinlínis að bók um átröskun – frekar en hún er bók um „ósnortna náttúru“ eða „stóriðjuplön“ – heldur persónu- og þjóðfélagslýsing. Og kannski tíðaranda – ég er auðvitað ekki dómbær á hversu trúverðug, ég var mínus fjögurra ára 1974 (og Benný var sjálf plús fjögurra ára), en hún virkar fyrir mig. Og kannski segir Djúpið manni bara fullt um átröskun – og tráma og breyskleika – einmitt með því að detta aldrei í einlæga vikublaðastílinn (sem tröllríður bókstaflega öllu síðustu árin – allri list og allri fjölmiðlun). Upplegg bókarinnar er auðvitað til þess að æra óstöðugan Vestfirðing. Hópur (bókstaflegra) sérfræðinga að sunnan kemur sér fyrir í heimavistarskólanum í Reykjanesi (sem er samt aldrei nefnt) til þess að vinna bug á búseturöskun í Ísafjarðardjúpi. Fulltrúar heimamanna er annars vegar gráðugur þingmaður sem ku ætla að selja rússum Djúpið undir stóriðju og hins vegar (leynileg) barnsmóðir hans, sem er einhvers konar róttækur og dálítið ístöðulaus náttúruhippi – eitt af því sem illa gengur upp í sögunni er hvernig þeim tókst eiginleg að láta sér líka hvert við annað nógu lengi til að geta barn. En fólk dettur svo sem í það og missir bæði ráð og rænu. Jú og dóttirin er þarna að þvælast – en hún lætur jafn lítið fyrir sér fara í bókinni og hún er sögð gera í raunveruleikanum. Seen but not heard, svona að mestu. Eitthvað aðeins sést svo glitta í sveitafólkið sem á að bjarga en ekki svo maður fái neina tilfinningu fyrir því. Þetta truflaði mig merkilega lítið. Ég fór afar sjaldan í mótþróaröskunargírinn sem mér er samt svo eðlilegur í þessum málum – ég hefði svo auðveldlega getað byrjað að klóra af mér andlitið hérna, en það kom aldrei til þess. Í mesta lagi að ég stryki mér mjúklega um hökuna af og til. Djúpið er bók um konur – fyrst og fremst Valborgu og Ellen. Karlarnir í bókinni eru ansi flatir og ég veit ekki hvort það er bara vegna þess að þeir hafi átt að vera óspennandi luntalegar týpur eða hvort þetta er eitthvað öfugt kynjasyndróm – karlar eru alræmdir fyrir að skrifa flatar kvenpersónur – eða jafnvel einhvers konar svar við fáeinum öldum af lítt spennandi kvenpersónum í karlabókum. Eða vegna þess að þetta er ekki bók um karla heldur konur. Karlarnir í Djúpinu eru ekki allir viðföng langanna kvennanna (þótt þeir séu það sumir stundum) – frá þessu sjónarhorni er meira einsog karlarnir séu viðföng löngunarframköllunarlanganna kvennanna. Svona meta-löngunar þeirra. Að þeir séu þarna til þess að sýna viðbrögð þegar Ellen blikkar þá eða Valborg grennist (af því að gubba öllum mat út um gluggann á herberginu sínu) – en í raun eigi maður að geta án þessara viðbragða verið. Þeir eru hins vegar mjög mikið í því að sýna óviðunandi viðbrögð. Bæði nenna þeir fæstir að vinna þetta starf með þeim – þær eru þarna svo það sé hægt að hafa konur með í fréttatilkynningu, enda ár kvennabaráttunnar – og þótt þeir snúist í kringum flissið í Ellen þá er hún ólétt og lofuð, og þegar einn þeirra skríður ítrekað upp á Valborgu er það samræðulaust í skjóli nætur, svona einsog hann sé að læðast út til að reykja í laumi. Hún virðist láta það yfir sig ganga af því það sé skemmtilegra en að gera ekki neitt, en við fáum í raun enga útskýringu á athæfi hans aðra en að hann sé bara graður og dónalegur. Sá sem hún þráir sýnir henni svo ekkert nema fálæti, nema þegar hann sýnir henni dálítinn kvikindisskap – útskýringin á því hvers vegna, sem kemur þarna í hnútahnýtingunum í lokin, hefði mátt missa sín fyrir mér. Annars varð mér hugsað til sögunnar áðan þegar ég rakst á þessa frétt í rétt ríflega aldargömlu blaði (Íslending, 20.01.1922). Ég er ekki alveg viss hvers vegna en samt finnst mér tengingin blasa við.