Áramótaheitið mitt er að smíða rafmagnsgítar. Það verður ekki sérlega erfitt að halda það, ég iða í skinninu að byrja og mun sennilega njóta þess mjög, en það verður erfitt að gera það vel. Upphaf þessa má rekja til þess að ég sá auglýst námskeið hjá Gunnari Erni gítarsmiði í Iðnskólanum og var farinn að gæla við að skella mér á eitt slíkt – þegar ég áttaði mig á því að ég þyrfti nánast að flytja til Reykjavíkur um hálfan vetur til að það gengi upp. Í staðinn fór ég að kanna hvort ég gæti með nokkru móti lært þetta af bókum, greinum og youtube-myndböndum. Það virðist ekki alveg vonlaust. Ég ætla að kaupa hálsinn – sem er sennilega erfiðasta stigið – en restin er alveg nógu erfið, sérstaklega þegar haft er í huga að ég hef ótrúlega lítið smíðað áður. Eiginlega bara slædgítarinn, sem ég gerði í haust og er frekar hrár og grófur – þótt hann reyndar sándi vel. . Ég er búinn að planleggja ýmislegt og kaupa flesta íhlutina. Eitt af því sem ég brenndi mig á við slædgítarinn var að saga t.d. út fyrir pikköppinum eftir máli af netinu frekar en að bíða bara eftir að hann bærist mér með póstinum. Það borgar sig að hafa þetta allt við hendina. Hálsinn pantaði ég af Warmoth. Bakið er úr Wenge-við sem er oft fallega munstraður en fingraborðið úr Pau Ferro. Upphaflega ætlaði ég að hafa rósavið en það eru alls konar takmarkanir á innflutningi og þótt Warmoth sé með vottun þá er það samt vesen. Fleiri og fleiri gítarsmiðir eru líka farnir að nota Pau Ferro – sem er samt ekki alveg nýr, hann var t.d. notaður í Stratocasterinn hans Stevie Ray Vaughan. Ef það dugði Stevie er það sennilega innan marka fyrir mínar þarfir. Skalalengdin verður Gibson – 24 3/4 þumlungar, fremur breiður (59 roundback með 10/16 þumlunga radíus). Stór bönd og graphtech-hneta. Útlitið tekur mið af Italia Maranello ’61 – þetta þykir mér alveg fáránlega fallegur gítar. Minn gítar verður sennilega ekki jafn fallegur – en ég ætla samt að reyna að vanda mig og gera hann eins fallegan og mínum klaufalegu höndum er unnt. Búkurinn verður úr tveimur spýtum og hálfkassi – eða eiginlega kvart-kassi, bara opið inn að ofan. Skrokkurinn sjálfur úr mahónívið en svo ofan á því þunnur hlyntoppur. Hálsinn er með rjómalitri líningu og það verður líka rjómalituð líning á búknum – ég vona bara að ég fái líningu í alveg sama lit. Það verður 3-way switch – staðsettur svipað og á Les Paul, ekki einsog á Maranello ’61 – og einn hnappur fyrir tón og annar fyrir hljóðstyrk, báðir silfurlitaðir. Ég gældi við að hafa gulllitaðan búnað en verðið hækkar svolítið óþarflega mikið við það – og krómið er flott. Pottarnir (sem stýra hljóði og tón) eru CTS 500K og pikköpparnir eru Seth Lover humbökkerar frá Seymour Duncan. Læsanlegar Grover stilliskrúfur. Og já, það verður Bigsby-sveif á honum og þá tune-o-matic brú, sem þýðir væntanlega að ég þurfi að sveigja hálsinn aðeins aftur. Eða réttara sagt gera vasann fyrir hálsinn aflíðandi (Maranello er reyndar með „set-neck“ sem gengur inn í búkinn – en ég er með minn boltaðan á). Sennilega fræsi ég samt vasann flatann og set síðan svokallað skífu á milli háls og búks til að ná réttum halla. Þá get ég líka verið með nokkrar ólíkar skífur og miðað við hvað ég þarf – ef ég fræsi vitlaust sit ég uppi með vondan halla. Ég á eftir að leysa fáein hönnunaratriði. Til dæmis veit ég ekki hvernig ég hanna eða kaupi góða plötu framan á hann – scratchplate. Ég veit heldur ekki alveg hvað ég vil hafa hann þykkan. Ég ætla að byrja á því að gera prufu úr einhverjum draslvið og kannski ákveð ég það bara þegar hún er tilbúin. Ég ætla svo að reyna að dokumentera ferlið hérna. Það skal tekið fram að ekkert af því sem ég geri er ekki endilega til eftirbreytni – þetta er ekki kennslublogg og ég geri ráð fyrir því að gera ótrúlega mörg skelfileg mistök og jafnvel þurfa að byrja oftar en einu sinni eða tvisvar alveg upp á nýtt. Ég ætla að gefa mér árið í þetta en vonandi næ ég að gera fúnksjónal – ómálað og frágengið – eintak áður en við förum til Hondúras í sumar, þar sem við verðum í alveg tvo mánuði og þá verður eðli málsins samkvæmt hlé á vinnunni. Ég hef auðvitað bara 1-2 tíma í þetta á góðum degi, og svo eitthvað aðeins meira á helgum. Já og svo er ég með nýja skáldsögu í hausnum – maður veit aldrei með svoleiðis, þær eiga það til að éta upp ansi mikið meira en bara 9-5 skrifstofutíma. En ég ætla líka að reyna að skrifa svolítið rólegar í ár. Ábendingar og ráðleggingar (um gítarinn, ekki skáldsöguna) eru gríðarlega vel þegnar. Ég veð þetta voða mikið í myrkri, kann ekkert og veit ekkert.