*** Ég kalla þessa mynd „Mikilvægur áfangi í sjálfstæðisbará …“. *** Nadja segir að kaffið sem ég helli upp á eftir kvöldmat sé sterkara en kaffið sem ég helli upp á eftir morgunmat. Sem er forvitnilegt því ég tel mig hella upp á það á alveg sama máta. Jafn mikið kaffi, jafn mikið vatn í mokkakönnuna. Sama kaffitegund. Kannski er það bara kvöldið. Kaffi er sterkara þegar klukkan er orðin sjö að kvöldi. [Hér ætlaði ég að bæta við einhverju skáldlegu um hvernig myrkrið blandast korginum – en það er bara aldrei neitt myrkur, enda miður júní]. *** Ég vaknaði með þrálátan verk fyrir brjóstinu. Hann er þarna enn. Nadja segir að sennilega hafi ég bara sofið eitthvað undarlega. Ég gúglaði „mild chest pain“ og fann fyrirsögnina „Three types of chest pain that won’t kill you“. Mér finnst hughreystandi að af öllum þeim ótal ástæðum sem gætu verið fyrir brjóstverkjum mínum séu allavega þrjár ekki banvænar. Mér er mikið létt. *** Mér finnst einsog þetta sé í annað skiptið á frekar stuttum tíma sem ég spái eigin andláti á þessu bloggi. Það gekk víst ekki eftir síðast. Nú trúir mér enginn. (Svo held ég reyndar að það lesi enginn þetta blogg).