Heimferðardagbók: Dagur 2

Í dag losnuðum við við dálítið af húsmunum úr íbúðinni hér við Karlsgötu. Svo hef ég verið að garfa í pappírum. Ég hef líka verið að skoða hvort það sé skynsamlegra að Nadja og börnin fljúgi suður og skilji bílinn eftir fyrir austan hjá mér eða hvort það sé skynsamlegra að ég fljúgi á eftir þeim þegar ég losna. Mér finnst bara ekki svo auðvelt að sjá út úr því hvenær ég losna. Það er talað um 2-3 daga á heimasíðu Norrænu – af því að bátsferðin telst líka vera sóttkví. Annars fór ég út að hlaupa í 30 gráðu glampandi sólskini og gerði næstum út af við mig. Það var gert til þess að viðhalda geðheilsu minni. Eða það var hin opinbera útskýring. Þegar ég segi þetta svona finnst mér það alls ekki meika sens. Þetta getur ekki verið gott fyrir geðheilsuna. En það er kannski mikilvægt líka að leggja rækt við geðveilurnar sínar. Ég hlakka mikið til að koma heim. Eiginlega svo mikið að ég hugsa að heimkoman geti varla annað en valdið mér vonbrigðum. Vinir mínir og fjölskylda geta varla verið jafn skemmtileg og mig minnir. Veðrið – ég er enn ekki orðinn svo firrtur að halda að veðrið verði „gott“, en það verður kannski þægilegra skokkveður. Fjöllin – eru þau blá? Eldhúsið mitt – gítararnir mínir – nýi kebabstaðurinn sem ég hef aldrei prófað. Steikarlokur í Hamraborg með Smára. Bjór á Húsinu. Búrbon og Límonaði hjá Cat og Dan. Lagavullin hjá Inga Birni. Sána hjá Hála. Að heyra í Hauki Magg tala í símann fyrir fjögur horn í kyrrlátum firðinum. Grill hjá pabba og mömmu. Kaffikortið mitt á Heimabyggð – var ég ekki nærri kominn á næsta fríbolla? Skrifstofan mín. Spjall „á förnum vegi“. Matarboð og veislur. Pizzurnar á Mömmu Ninu bíða sennilega, af því mig langar að baka pizzur sjálfur – og Dóra systir er að hóta því að bjóða mér í pizzu líka og maður getur ekki borðað pizzu á hverjum degi. Svo á ég von á litlu frændsystkini – Dagný Vals bróður er kominn á steypirinn – það gæti þess vegna komið á undan mér.