Untitled

Eftir skötuna í dag hjá pabba greip mig skyndileg áfengissýki svo ég ákvað að skjótast í ríkið og kaupa mér fullt af víni og bjór. Þegar ég gekk þar inn, vaskur á svip en með þorstann í augunum, varð mönnum hvekkt við. Þeir hlupu um og hnusuðu, og sögðu hver ofan í annan, einsog einhverjir rassálfar, „hver var í skötu? hver var í skötu? af hverju var hann í skötu“. Svo opnuðu þeir dyrnar upp á gátt. *** Ég skáskaut mér eitthvað og vandræðaðist áður en ég viðurkenndi þetta, það var ég, ég var sá sem var í skötu. *** Þetta er nýtt á Ísafirði. Ég hef a.m.k. aldrei lent í því að fólk sé opinskátt um fyrirlitningu sína á skötu. Nema Gunnar Jóns og eitthvað svona lið. Einhver lýður sem er alltaf að reyna að vera öðruvísi. *** Annars sagðist Aram ekki trúa því að við Gunnar hefðum ekki þekkst sem börn. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að þegar ég var á Arams aldri þá hefði Gunnar hreinlega ekki verið fæddur. Hann væri heilum tíu árum yngri en ég. Þetta fannst honum enn ótrúlegra. Gunnar væri svo ellilegur. Hann liti út fyrir að vera að minnsta kosti jafn gamall og ég. *** Svo hefur mér ekkert gengið að verða fullur. Eitt staup og einn lítill bjór. Á rúmlega tólf tímum. Þetta er engin staðfesta.