Untitled

Ég skil ekki alveg þá sem eru mótfallnir því að glæpamenn fái uppreist æru. Sennilega eru lögin úrelt og kerfið náttúrulega alls ekki nógu gott. En mér finnst samt hugsunin rétt. Að maður eigi endurkvæmt til samfélagsins. Ef við viljum ekki að fólk geti snúið aftur – það geti lifað eðlilegu lífi á ný – þá er einfaldast og heiðarlegast að sleppa því bara ekkert út úr fangelsi. *** Og mér finnst ekkert skrítið að fólk skuli skrifa upp á fyrir vini sína. Mér finnst það í hæsta máta eðlilegt og sé ekki neitt samasemmerki milli þess og að það leggi blessun sína yfir voðaverkin sem mennirnir voru dæmdir fyrir. *** Þegar búið er að leggja niður uppreist æru verðum við samt að gæta að því að fólk fái einhvers konar endurhæfingu – sálfræðimeðferð og svo framvegis – og svo verðum við að vera tilbúin til að styðja það í að endurreisa æru sína. Ekki bara þeirra vegna heldur okkar vegna. Ærulaus maður er hættulegur maður. Hann hefur engu að glata – voðaverkin kosta hann ekkert. Dyrnar inn í mannlegt samfélag þurfa að standa opnar. *** Og nei, auðvitað er æra ekki stimpill og auðvitað þarf að hafa auga með fólki sem hefur gerst sekt um barnaníð. Og auðvitað ætti augljós iðrun að vera frumforsenda fyrir uppreistri æru. Og auðvitað eiga menn ekki endilega tilkall til sama lífs og þeir áttu áður. Fjárglæframenn ættu ekki að fá að sýsla með peninga og barnaníðingar ættu ekki að vinna á leikskólum. Og svo framvegis. En samfélag sem kann ekki að fyrirgefa er handónýtt. *** Annars hef ég það bara gott í London, takk fyrir að spyrja. Pínu þunnur. Pínu pons. Og leikurinn var víst markalaus. En þetta er góður fótbolti.