Untitled

Þriðjudagur: Vikan byrjaði ekki vel. Stundum er álagið bara svo mikið. Ekki bara bókin – og ég er í fríi frá leikritinu á meðan Óskabörnin kalla ekki – en hún er plássfrekust. Mig langaði að brjóta allt sem ég komst í snertingu við og fannst einsog hver einasta mínúta – hvort heldur var við eða frá vinnu – væri glötuð mínúta. Þetta er ekki gott. Það er undarlegt hvað maður getur kastast á milli þess að finnast maður vera snillingur, fáviti, stjarna og þræll. *** Næst ætla ég að skrifa bók sem fjallar um vonina. Og hvað vonin sé góð. Og um ástina og hvað sé gott að elska. Það verður frábært. *** Miðvikudagur: Það stóð ekki til að fyrsta dagbókarvikan yrði einhver þunglyndisefi. Þetta átti að vera einn viðstöðulaus sigur út í gegn. Ég ætlaði að fara svolítið í gegnum bækurnar sem ég hef verið að lesa og tengjast efninu. En nei. Svo lendi ég bara í einhverri tilvistarkrísu. Einmitt þegar ég hélt ég væri seif. *** Eitt sinn fannst mér auðvelt að skrifa skáldsögu, tilhugsunin hlægileg (nei djók), en svo finnst mér það ekki lengur. Ég fékk mjög fínan lestur frá traustum yfirlesara sem var mjög hrifinn en benti líka á misbresti sem urðu til þess að nú liggur helvítis skepnan úrbeinuð og í milljón bitum úti um allt og ég veit ekkert – EKKERT – hvernig ég á að púsla henni saman þannig að allt gangi upp. *** Fimmtudagur: Efi leystur. Ég er séní. Byrjaður að raða saman þessum bútum og þetta gengur áreiðanlega upp. *** Föstudagur: Keyrði suður. Átti fund með ritstjóra og bókmenntasinnuðum maka hennar á Kaffi Laugalæk. Við erum á sömu blaðsíðu með hvað þarf að gera og hvort það sé eitthvað varið í þetta. *** Laugardagur. Júróvisjón og fyllerí með leikstjóra. Við erum líka á sömu blaðsíðu. Það eru allir á sömu blaðsíðu. Feillinn blasir við. En þetta er allt að koma. Vantar bara að blása lífi í gólemið. Starta vélinni, hreinsa og skrúbba, fara á rúntinn. *** Sunnudagur. Held áfram að raða í mig bókum í þemanu. Var bent á Sigurvegarann – sem verk um narsissisma. Það er auðvitað eitt af vandamálum þessara bókar – sem verður próblematísk jafnvel þó, og kannski einna helst, ef allt gengur upp – að bækur sem eru í grunninn rant úr sjálfhverfum skíthælum eru alltaf … já rant úr sjálfhverfum skíthælum. Og hver nennir að lesa slíkt? Nógu eru þeir leiðinlegir bara svona á kránni (þeir blómstra svolítið á kránni). Ég ætla að reyna að taka einn mánudag á mánuði í einhverja af þessum bókum – sem eru fæstar skáldsögur, vel að merkja. *** Mánudagur: Farinn til Færeyja. Hlustaði á viðtal við Öldu Villiljós á leiðinni til Keflavíkur – það var mjög fínt. Næstu fjóra sólarhringa get ég einbeitt mér að engu nema Hans Blævi. Ég er, einsog ég nefndi, byrjaður að raða bútunum aftur saman, en í sjálfu sér er ég ekki búinn að raða miklu saman – bara rétt blábyrjuninni (eða kafla sem verður a.m.k. frekar framarlega). Ef vel gengur ætti ég að geta púslað hálfri bókinni saman fyrir fimmtudagskvöld – svo kenni ég á námskeiði yfir helgina (en hef kvöldin fyrir mig).