Daginn eftir

Í heimi þar sem línur væru skýrar myndi dagurinn eftir útgáfuhóf bókar vera dagur endurfæðingar. Þá er maður loksins búinn að skila af sér. Ég svæfi kannski út, fengi mér síðan drjúgan morgunverð áður en ég færi ferskur af stað á skrifstofuna þar sem ekkert biði mín annað en auð blaðsíða full af möguleikum. Veruleikinn er allt annar. Mín bíða fimm ókláraðar bækur og ég veit ekkert í hverri þeirra ég á að vinna eða hvað í ósköpunum ég ætla að að gera með þær. Svo á ég reyndar tvö önnur handrit líka sem ég er tæknilega séð búinn að „henda“ en tek alltaf upp af og til og velti fyrir mér hvort ég eigi að lífga þau við. Yfirleitt finnst mér það frábær hugmynd í svona sólarhring og svo hræðileg hugmynd eftir það. Og það er hræðileg hugmynd. Ónýtar bækur eiga bara að fá að vera ónýtar í friði. Í ruslakistunni. Með lokið á. Jólabókaflóðið er líka bara rétt að byrja. Ég veit svo ekkert hvað ég geri fleira. Það er í alveg nýtt fyrir mig að vera í barnabókabransanum. Og hryllingsbransanum og jólabransanum. Mér finnst ekkert ólíklegt að það verði eitthvað hóað í mig í aðventunni en veit ekki hvernig það verður. Barnabækur fá yfirleitt fáa dóma og litla umfjöllun. Ég fór reyndar í örlítið viðtal í Fréttablaðinu – ég held það hafi verið aukakálfur um Hrekkjavökuna. En svo eru þetta þrjú útskot í einu – jólamenning er ekki alltaf viðeigandi, barnamenning er ekki alltaf viðeigandi og hryllingsmenning er ekki alltaf viðeigandi. Mjög oft er að minnsta kosti eitt af þessu þrennu alls ekki viðeigandi. Það eru heldur engar Reykjavíkurferðir fyrirliggjandi. Ég hef stundum átt leið í gegn og stundum gert mér sérferð til að kynna en það er bæði dýrt og hefur reynst erfitt að skipuleggja þær þannig að ég hafi nóg að gera til að réttlæta fjarveruna – það hjálpaði ekki til þegar Ríkisútvarpið setti þá reglu að maður mætti helst ekki vera í fleiri en einum þætti í sömu vikunni. Ef maður byggi í Reykjavík gæti maður mætt í einn þátt á viku alla aðventuna og minnt á sig – en það stendur reyndar fáum það til boða hvort eð er. Í sjálfu sér er það líka skiljanlegt að það sé ekki alltaf sama fólkið í útvarpinu og sjónvarpinu (nóg finnst manni það nú samt vera þannig) að tala um sömu hlutina aftur og aftur. Hvað um það. Það besta við að vera ekki á leiðinni neitt er að geta þá ekki heldur falið sig fyrir handritunum. Ég þarf bara að velja – í raun eru það fyrst og fremst þrjú sem eru líkleg og eitt þeirra eiginlega langlíklegast. Nema auðvitað ég rjúki til, einsog einhver stakk upp á, og skrifi strax framhald af Frankensleiki. Það er þá bara spurning hvort það verði „Frankensleikir lifir“ eða „Brúður Frankensleikis“. Eða bara eitthvað allt annað. Ég gæti byrjað á sjálfsævisögunni. Eða ort sonnettusveig. Skrifað kvikmyndahandrit. Það er svo margt hægt.