Untitled

Epískur bugunardagur. Við Aino vöknuðum seint. Ég þurfti beinlínis að draga hana á fætur einsog þunglyndan ungling klukkan 10. Hún er fjögurra ára. Og sofnar klukkan átta á kvöldin, vandræðalaust, vaknar ekki á nóttunni eða er með annað svefnvesen. Haustið er bara að gera út af við okkur. *** Sjálfur er ég líka orkulaus. Vanmáttugur. Liðleskja á sál og líkama. Ég veit ekki hvað veldur. Nema það séu fjármálin. Þau eru í hönk. Ég byrjaði daginn á því að skipta kreditkortareikningum og senda út neyðartölvupósta til þeirra sem skulda mér fé. Ég á von á hellings peningum – búinn að selja Óratorrek til Svíþjóðar, Gæsku til Frakklands og Illsku til Spánar – en guð einn veit hvenær þeir skila sér. Uppgjör vegna sölunnar á Óratorrek hér á landi kemur ekki fyrren í júní. Og ég fékk einhvern lífeyrissjóðsreikning í hausinn og einhvern skatt og alls kyns óvænt rugl. Þarf að gæta mín í matarinnkaupum þennan mánuðinn. Og ekki kaupa neinn óþarfa, ekkert neyslurugl! *** Það er svo mikið rugl að vera í svona óreglulegum tekjum. Og það venst aldrei. Aldrei, aldrei, aldrei. *** Haukur Már er með svaka fínt viðtal við tölvukubb í Kvennablaðinu í dag. *** Halla Mía var með magnaða úttekt á Hvalárvirkjunarruglinu á RÚV-vefnum í gær. Langt, ítarlegt, væmni- og hlutlaust – og afhjúpar vitleysuna, sem er ekki síst fólgin í ósnortnum víðernum af óvissu, heilu hálendunum af giski um mögulega framvindu mála á næstu árum og áratugum. Enn sem fyrr segi ég þetta: Mér finnst einsog hér ætli menn að selja sig ódýrt. *** Ég vil samt ekki vera sérfræðingur að norðan (Árneshreppur er nærri því jafn langt frá Ísafirði og Reykjavík). Og mér finnst eitthvað kjánalegt við að „verndun“ þessara svæða sé alltaf á forræði lífsleiðra fínimanna í Reykjavík – forstjóra og lækna. Rosa nýlendufílingur í þeim samskiptum öllum. Og heimamenn fastir á milli IKEA forstjórans öðru megin og Barón von Bongó Liebenstein, eða hvað hann aftur heitir sá ágæti maður, hinumegin. *** Það er líka tómt mál að tala um þjóðgarða og friðlönd sem tekjulind að svo stöddu. Meir að segja þar sem eru friðlönd – einsog á Hornströndum – fylgja því engar tekjur.  Það er einfaldlega engum peningum veitt í þetta. Ef menn vilja múta Árneshreppingum væri miklu nær að taka upp einhvers konar skattaundanþágur – fella niður tekjuskatt í sveitarfélaginu. Eða eitthvað. Tekjur sveitarfélagsins af virkjuninni, þegar hún er komin í gagnið, eru bara 15 milljónir á ári. Það er sennilega einsog samanlagt útsvarið af Tómasi lækni og forstjóra IKEA. *** IKEA í Árneshreppi? Legudeild? Er ekki hægt að vinna eitthvað með þessar hugmyndir? *** Sennilega verður Hvalárvirkjun reyndar að veruleika. Kapítalið ræður, að minnsta kosti þegar rétt fólk á hagsmuni sína undir og HS Orka er í klíkunni. Ef það væri einhvers konar hrein vinstristjórn í kortunum er séns að virkjunin færi út – en einsog niðurstaðan var úr kjörkössunum er það eiginlega jafn útilokað og að Teigskógarmálið leysist á næstu árum. Það verður virkjun og það verður enginn vegur og mér finnst svona heldur sennilegra að það verði sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. *** Ég keypti mér súkkulaðisnúð. Hef séð fyrir mér að hann, og kaffi, muni vinna bug á bugun minni. Falleg setning annars. Muni vinna bug á bugun minni.