createdTimestamp““:““2024-05-08T17:16:08.684Z““

Það væri ofsögum sagt að Between Two Ferns: The Movie sé góð og það væri lygi að segja að hún væri slæm. Kannski er hún fyrst og fremst – einsog þættirnir sem hún er byggð á – sérvitur. Zach Galifianakis leikur samnefndar karakter sem er með „public access“ sjónvarpsþátt í Bandaríkjunum þar sem hann tekur viðtöl við frægt fólk (sem kemur til hans af því Will Ferrell, sem birtir viðtölin á Funny or Die og græðir á því peninga, skipar þeim að gera það). Hann er ekki beinlínis heimskur en honum er frekar illa við viðmælendur sína og leyfir fyrirlitningu sinni að skína í gegnum yfirbragð sem annars verður varla öðruvísi lýst en sem algert áhugaleysi. Hann langar að gera þetta – hann segir það oft, þetta er draumurinn hans – en hann langar það samt ekki svona. Honum finnst leikarar heimskir og hégómlegir og oft á tíðum jafnvel hæfileikalausir sem leikarar. Í formattinu afhjúpast samtímis miklir fordómar – bæði gagnvart einhverjum svona útnáratýpum einsog Zach en líka gagnvart Hollywoodleikurum – og það afhjúpast einhverjir sannleikar um hégóma þeirra og lífsviðhorf og kerfislægar aðstæður og valdið milli hinna frægu og hinna ófrægu. Plottið í myndinni gerir ekki mikið annað en að víkka hugmyndina úr þáttunum aðeins út – gera aðstæðurnar aðeins skiljanlegri (ég held að karakterinn hafi aldrei annars sést nema í viðtölunum sjálfum). Það gengur út á að hann þarf að taka 10 nýja þætti á tveimur vikum og koma þeim til Wills Ferrell og þá fái hann alvöru sjónvarpsþátt á alvöru sjónvarpsstöð. Að einhverju leyti minnir myndin á aðra mynd sem fjallaði líka um skrítinn mann á public access sjónvarpsstöð sem þurfti að berjast fyrir tilvist sinni – Weird Al Yankovic myndina UHF. Between Two Ferns er alltaf á jaðri þess að fara að verða listaverk – negla mann einhvers staðar annars staðar en bara í hláturvöðvana, stíga út úr meinstríminu á vit módernískrar sögu um tilgang lífsins, eitthvað svona Hal Hartley hittir On the Road hittir Freddy Got Fingered – en gerir það á endanum ekki (hvort sem það er með vilja eður ei). *** Skáldsagan The End of Eddy (En finir Eddy Bellegueule) eftir Édouard Louis (né  Belleguele) kom út á ensku í fyrra eftir að hafa skekið evrópskt bókmenntalíf árið 2014. Það er mjög skrítið að hún hafi ekki komið á íslensku – sérstaklega af því hún er stutt og því frekar ódýrt að gefa hana út (svona miðað við eitthvað einsog Min Kamp a.m.k.). Bókin er skáldævisaga samkynhneigðs höfundar sem elst upp í fátækt í frönsku smáþorpi. Lýsingar Édouards á ævi sinni eru svakalegar og minna mann frekar á lýsingar þeirra sem ólustu upp á sjöunda og áttunda áratugnum en manns sem er fæddur 1992 – ekki endilega vegna fátækarinnar, sem er svo sannarlega viðvarandi vandamál alls staðar enn í dag, heldur vegna íhaldsseminnar og ofbeldisins og drykkjumenningarinnar í kringum hann. Það eru allir alltaf að slást, blindfullir og æpa eitthvað um ógeðslega homma. Édouard er sjálfur engin undantekning þar og gerir sér far um að leggja yngri strák í einelti fyrir hommaskap – til að losna undan slíkum stimpli sjálfur. Ég veit ekki alveg hverju ég átti von á. Mér fannst einsog hann væri meira á efnahagslegu línunni og bókin myndi afhjúpa eitthvað meira þar – segja mér eitthvað um stéttir. Ég átti kannski bara von á sósíalískara verki. Þetta er götustrákabók og hún segir manni talsvert um frönsku sveitina – smábæina, a.m.k. ef maður tekur hana á orðinu, og sú lýsing er langt í frá fögur. Sem bókmenntaverk er hún nú kannski engin stórtíðindi – hún er ekki fagurfræðilega frábrugðin öðrum álíka bókum og sögur af svona fólki eru í nærri öllum sjálfs- og skáldævisögum. Það þýðir ekki að sagan sé ekki áhrifarík. Og það sem hún hefur þá fram að færa sem tíðindi er að heimurinn sé sums staðar og stundum alltaf eins. *** The Dead Don’t Die er nýjasta mynd Jims Jarmusch. Einsog margar mynda hans er hún skreytt miklum stjörnufansi – Bill Murray, Tilda Swinton, Tom Waits, Adam Driver, Steve Buscemi og Chloe Sevigny eru í burðarhlutverkunum og aukaleikararnir eru ekkert minna sjarmerandi fólk. Hún ber þess merki að vera verk höfundar sem þarf ekki lengur að sanna eitt eða neitt. Framvindan er mjög kæruleysisleg – það er ekkert verið að eyða tíma í útskýringar eða endahnýtingar. Verkinu bara vindur fram, fólkið í henni verður fyrir sögumennskunni, og allt er þetta mjög óeðlilegt og klunnalegt og meikar ekkert sens. Sem svo aftur er allur sjarminn – myndin er bókstaflega frábær fyrir þetta. Snyrtilegri zombímynd (þetta er zombímynd) hefði áreiðanlega ekki staðist neinn samanburð við þetta undarlega verk; heldur verið fyrirsjáanlegt rusl. Samtöl og senur eru öll dásamleg og svo má ekki vanmeta þennan leikarahóp – það eru aldrei minna en tvö hundruð kíló af hreinum sjarma í mynd í einu og stundum miklu meira. *** Ég fór á samtal við rithöfundinn Arundhati Roy á bókamessunni í Lviv á föstudag. Þetta var tveggja tíma viðtal og það var farið um víðan völl. Hún byrjaði spjallið á að hafna öllum skilgreiningum á sér sem bókmenntastjörnu, hún væri bara venjuleg kona sem hefði gaman af að lifa í bókum. Mig langaði svolítið að standa upp og spyrja hvort hún hefði þá líka þurft að sækja um styrk fyrir fluginu sínu (einsog við gestir bókamessunnar á b-farrými þurftum að gera – ég var svolítið pirraður yfir þessu, af því ég hafði fengið að vita það svo seint, löngu búinn að þiggja boðið, og veit enn ekki hvort ég fái styrkinn en augljóslega búinn að leggja út fyrir fluginu, allt mjög bagalegt og hafði ekkert með Arundhati Roy að gera, vel að merkja). Mest talaði hún um indverskt samfélag og sagði meðal annars, sem mér þótti áhugavert, að sennilega tignuðu indverjar hina friðsamlegu baráttu – non-violence – einmitt vegna þess að líf þeirra væru öll mörkuð ástríðu fyrir ofbeldi, ofbeldi væri lausn indverja á öllu. Þá talaði hún líka talsvert um að Indland væri enn koloníserað en nú af hindúum – að vísu með þeim fyrirvara yfirleitt að „margir álitu“ þetta, frekar en að hún væri óhikað að segja þetta sjálf. Hún eyddi líka talsverðum tíma í að ræða hugmyndir um róttæka endursköpun skáldsögunnar sem listforms – og að það væri tilraunin sem væri fólgin í nýju bókinni hennar, The Ministry of Utmost Happiness. Sem mig fór þá að langa að lesa aftur. Ég einhvern veginn náði henni ekki nógu vel á sínum tíma. *** Við Haukur Már skelltum okkur á sýninguna Garten der irdischen Freuden í Gropiusbau í Berlín. Á sunnudag, hefur það verið. Sýningin er með útgangspunkt í verki Hieronymusar Bosch, Í garði hinnar jarðnesku sælu, og hangir miðmyndin í triptýkinni í einum salnum. Í þessum garði „kenndi margra grasa“ einsog maður segir og verkin voru afar misáhugaverð. Ég var því miður of latur að nótera hjá mér nöfn höfunda og kenni flugþreytu (og þynnku) um. Frammi í stóra salnum var margra hæða stofumubla með pottaplöntum og gömlum litlum sjónvörpum og stöku bók á stangli – þær áttu það allar sameiginlegt að vera um kynþáttamál og fyrst og fremst bandarískra blökkumanna. Í sjónvörpunum var verið að ræða svipaða hluti. Við sátum lengi fyrir framan Bosch og töldum fiska, skoðuðum skuggaverur, og reyndum að koma auga á nýja og nýja hluti. Það er auðvitað mjög mikið í þessu. Þetta er hin orgíulausa orgía – erótík án hins skaðlega hungurs, án ástríðu. Í einum salnum var mold á gólfinu og stórir sjónvarpsskjáir á undarlegum fótum sem sýndu grænku og hljóðverk úr hátölurum sem var búið að búa um einsog fuglakofa (setja tréþak á þá og fót). Þessi stemning var góð – ég fílaði þetta – en ég man ekki hvað hljóðverkið var einu sinni. Besta verkið var myndbandsverk sem maður skoðaði með því að leggjast á gólfið og horfa á það í loftinu. Ramminn var egglaga og í honum gerðist ýmislegt – það var svo nátengd Bosch-verkinu að það hlýtur eiginlega að vera byggt á því (verkin voru samt áreiðanlega ekki gerð fyrir þetta sjó). Aftur voru líkamar, nekt, gróður og aftur einhvern veginn alveg berir og í mikilli nærmynd en samt ekki agressífir, ekki gredduvekjandi eða gredda í þeim. Ég man eftir konum í leðjuslag og nærmynd af putta að pota í pung. Oft voru nærmyndirnar samt einmitt þannig að maður var ekkert alveg viss hvað maður væri að horfa á. Yayoi Kusama var með doppuverk. Herbergi fullt af doppum og túlípanar, minnir mig. Mjög doppótt. Eitt verkið var bara brotnar kókflöskur á stórum palli. Merkilega fínt – einhvern veginn aðlaðandi og ljúft. Mann langaði að leggjast í þetta. Og á sama tíma auðvitað alls ekki. *** Í Lviv fór ég líka á samtal við rithöfundinn Mark Forsyth sem gaf út bókina A Short History of Drunkenness. Hann sagði ýmislegt áhugavert – t.d. að upplifun fólks af áfengisvímu væri mjög mismunandi milli menningarheima. Ef maður byggist við því að verða yfirvegaður og fullur af höfgi af áfengi þá yrði maður yfirvegaður og fullur af höfgi, ef maður byggist við því að verða ofbeldisfullur yrði maður það, ef maður byggist við því að dofna dofnaði maður, ef maður byggist við því að æsast upp og fara að dansa og syngja þá gerði maður það. Í menningarheimum þar sem fólk sér ofsjónir í áfengisvímu sér fólk ofsjónir þegar það drekkur; þeir sem fara á vit Guðs í gegnum flöskuna sjá Guð. Að vísu var höfundurinn að staupa sig á sviðinu svo ég veit ekki hvað var að marka hann. Hann nefndi líka að áfengisbannið í Bandaríkjunum hefði verið feminískt prójekt á sínum tíma og sett á til þess að hlífa konum við því að karlarnir færu út á bar með öll launin og kæmu svo fullir heim og berðu þær. Á þeim tíma voru konur víst svo gott sem bannaðar á knæpum (ég reikna með, þótt hann hafi ekki tekið það fram, að vændiskonur hafi verið undanskildar) og þar var mikið slegist. Ég man eftir að hafa lesið í bók um kokteilamenninguna í San Francisco að þegar menn voru að lauma einhverju í glasið hjá fólki á börum á nítjándu öldinni hafi það verið til að ræna karlmenn frekar en nauðga konum. Nema hvað. Drykkju lauk auðvitað ekki með áfengisbanninu heldur færðist inn á hinar svonefndu speakeasys og sagði Forsyth að það hefði í raun verið fyrst þar sem konur fóru að drekka af einhverju viti og sú drykkjumenning sem við þekkjum í dag hafi orðið til. Forsyth, sem er óhætt að segja að sé mikill talsmaður drykkju, var þannig nokkuð óvænt bara mjög ánægður með áfengisbannið og vildi meina að það hafi þjónað tilgangi sínum mjög vel – þegar því lauk hafi drykkjumenningin stórskánað. Ég er sjálfur mikill áhugamaður um knæpur – ekki bara að sitja þar sjálfur að sumbli, þótt það komi fyrir, heldur um fyrirbærið sem rými í veruleikanum þar sem að jafnaði hafa gilt aðrar og frjálslegri reglur en úti á götu. Svona saturday night fever reglur á sumum börum en subbulegri á öðrum – knæpur voru lengi afdrep jaðarfólks (t.d. Stonewall – en líka bara Keisarinn). Þar situr fólk í reykfylltu myrkri með deyfð skynfæri, oft í háværu skvaldri eða tónlist, og segir hluti sem það myndi aldrei segja … ja, t.d. í ræðustól Alþingis … fær útrás (án þess ég ætli að hætta mér neitt út á þá braut að verja klaustursdólgana vel að merkja). Þar ríkir samtímis meira álag og meira umburðarlyndi og einn af grunnkostum knæpunnar sem rýmis er að það er hægt að stíga út úr henni og aftur út í upplýstan veruleikann. Maður velur að vera þar inni – fara þar inn – en auðvitað er maður ekki alltaf alveg viss um hvað maður er að samþykkja með því að fara þar inn eða hverjar félagslegar reglur staðarins eru (og á síðustu 100 árum hafa þær smám saman orðið áþekkari reglunum í hvaða kringlu eða kirkju sem er). Ég veit aldrei alveg hvað mér finnst um tilraunir til þess að hreinsa til á knæpunni – breyta henni í upplýst rými. Aðferðirnar eru margar – í fyrsta lagi er náttúrulega reykingabannið, í öðru lagi breyttar siðvenjur (t.d. held ég að tolerans fyrir klípingum og dónalegum athugasemdum sé alveg fyrir bí), í þriðja lagi öryggismyndavélar, í fjórða lagi símamyndavélar og twitter (við höfum mjög kraftmikið eftirlit hvert með öðru), í fimmta lagi alls kyns dresskóðar og svo framvegis og svo framvegis. Sennilega er (í alvöru) bara tímaspursmál hvenær það verður tabú að vera fullur á knæpu – og jafnvel bara bannað. *** Ég er enn að díla við nýja Stratocasterinn minn – sem er dásemd. Af því tilefni er gítarleikari vikunnar „hinn“ meistari Stratocastersins – Stevie Ray Vaughan.