Kvikmyndaklúbbur barnanna gerði sér lítið fyrir að þessu sinni og fór í bíó í Cinemark í City Mall. VIP-sæti – s.k. letipiltsstólar. Það var mjög vel loftkælt og við illa klædd. Myndin sem við sáum var endurgerð hinnar sögufrægu Lion King. Ég sá hana sennilega oft með frændsystkinum þegar ég var lítill en líklega aðeins of gamall til að hafa áhuga á henni sjálfur sem barn. Við höfum líka séð hana uppsetta sem söngleik í M.Í. Ekki er brugðið neitt út af sögunni svo ég hafi tekið eftir og sumar senurnar eru ramma fyrir ramma nákvæmlega einsog í teiknimyndinni. Þetta er óttalegt rúnk og rúnkað í allar áttir. Ef kjósendur Obama og kjósendur Trumps geta mæst einhvers staðar þá er það á þessari mynd – og sennilega allir gengið glaðir eða reiðir út eftir því hvernig þeir voru stemmdir þegar þeir komu inn. Þetta er bæði algert PC Gone Mad dæmi og hálfgerður prótófasískur áróður. Repúblikanarnir geta fagnað testósterónboðskapnum (ef þú drepur kónginn ertu kóngur) og því hvernig útlenda hyskinu (hýenunum) er haldið úti. Demókratar geta fagnað áróðri fyrir skordýraáti og vináttu meðal spendýra og ákveðnum svona fjölbreytileikaboðskap. Þá eru auðvitað woke-hetjur á borð við Beyoncé og Donald Glover í aðalhlutverkum. Rojalistar fá eðli málsins samkvæmt líka talsvert fyrir sinn snúð. Glover er lélegur í sínu hlutverki. Ég hugsaði ítrekað hvers vegna þau hefðu ekki bara fengið Kanye. Hann er mjög sannfærandi í mikilmennskubrjálæði sínu. Donald Glover er frábær gamanleikari og óhuggulega snjall handritshöfundur en hann hefur ekkert í svona dramatískt hlutverk að gera (hann leikur Simba). Virkar aldrei sannfærandi. Mér fannst Svarthöfði heldur ekki góður sem Múfasa – hann var líka í fyrri myndinni og ég man bara ekki hvernig hann var þar. Restin stóð sig ágætlega. Endurgerðir laga voru alltílagi – enginn Elton samt. Það er líka eitthvað sjúklega mikið kits við að færa svona teiknimynd yfir í „raunverulegri“ mynd. Og antropómorfíseringin kominn á eitthvað annað level. Og er viðeigandi því Lion King er myndin sem hóf þessar Aesópsku trakteringar í annað veldi á sínum tíma (og börnin sem ólust upp við að horfa á hana eru öll veganar). *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins missti úr síðasta sunnudag. Við komum dauðþreytt heim frá Copán seint að kvöldi og ætluðum að taka þetta bara daginn eftir en svo langaði okkur að klára þriðju seríu af Fargo. Við þurfum að ná okkur aftur á strik í kvöld (veit ekki hvernig það gengur; Nadja er á köfunarnámskeiði í allan dag og verður sennilega mjög þreytt). Ég hef ákveðið að segja eitthvað um sjónvarpsseríur þegar ég klára þær. Dokumentera áhorfið (ég veit að hér eru fáir lesendur en þetta er ekki beinlínis skrifað fyrir neinn nema sjálfan mig; ég bið þá sem ráða ekki við sig að lesa líka það sem þeim finnst leiðinlegt velvirðingar og ef það er ekki nóg fer ég bara aftur að blogga líkamshita mínum og innbyrtum kalóríum og hananú). Fargo var mjög fín. Hugsanlega besti árgangurinn hingað til. Einsog fyrri seríur og bíómyndin er þetta bærilega plottað farartæki fyrir góða leikara til að láta ljós sitt skína. Ewan McGregor, í hlutverki tvíbura, er smástund að venjast en nær sér á flug áður en yfir lýkur – Carrie Coon (úr Leftovers) er frábær í aðalhlutverkinu og Mary Elizabeth Swango líka. David Thewlis er hins vegar ekkert minna er stórkostlegur; ég man varla eftir öðrum eins performans úr sjónvarpsseríu, ekki frá því Omar Little var skotinn. *** Ég las The Green Mile eftir Stephen King. Þetta er mikil plebbavika (eða næstum tvær frá síðustu skrifum) og ef Jóhann Helgi les þetta kjöldregur hann mig sennilega. Ég var nefnilega byrjaður á A Tale of Two Cities og nennti svo ekki að lesa hana. Aram er svo mikið með kindilinn minn (kominn í Hungurleikana ofan í sænsku fantasíurnar) að ég neyðist til að sætta mig við hið takmarkaða úrval bóka sem hér er hægt að fá keyptar. Grænu míluna sá ég auðvitað í bíó fyrir þarna 20 árum eða hvenær það var og þótti sosum ekkert merkileg og bókin er áreiðanlega ekki heldur ein af betri bókum Kings. Það er í henni svipuð stemning og í Shawshank (sem ég man samt sem nokkuð betri bók). En það er einbeitingarskortur í mér þessa dagana – stundum held ég að ég sé með árstíðabundin athyglisbrest – og þægilegt að lesa eitthvað þar sem ég þekkti söguna og gerði ekki miklar kröfur á mig. Sagan, einsog oft hjá King en ekki alltaf, er fyrst og fremst bara saga. Það er ekki í henni nein sérstök „sögn“ – hún er ekki að leitast við að kryfja hið mannlega eðli eða gera neinar byltingar í félags- eða fagurfræði. Það mætti ábyggilega lesa eitthvað mjög rasískt í hana og hefur sjálfsagt verið gert af fólki með fleiri háskólagráður en ég, en hún er eiginlega of meinlaus til að það taki því – eða, orðið er kannski ekki meinlaust heldur „decent“. Stephen King, og mikið af aðalsöguhetjum hans, virka á mann sem svo almennilegt fólk að jafnt þótt það beri með sér alls konar fordóma tekur maður þá ekki alvarlega. *** Hér er sennilega rétt að taka fyrir uppistand Aziz Ansaris. Sem við Nadja horfðum á í vikunni. Right Now, heitir það. Það er mjög skemmtilegt og Aziz virkilega naskur í átökum sínum við woke-stemninguna. Hann er bljúgur gagnvart sjálfum sér og fortíðinni og fer í gegnum gömul listaverk – á borð við Hangover-myndina – og hvernig þau myndu ekki þykja ásættanleg í dag, áratug síðar, en líka hvers vegna við ættum ekki að leggja woke-mælikvarða 2019 á alla hluti. Græna mílan er 20 ára gömul og maður tekur strax eftir því sem væri „viðkvæmt“ í dag – fyrst og fremst noble savage frumskógarfábjáninn með lækningamáttinn sem stendur í miðri mynd. Við börnin lásum líka Ævintýri úr þúsund og einni nótt – og ekki veit ég hvað maður gerir við hana ef Hangover er yfir strikið. Ég fékk allt heila klabbið í jólagjöf frá ömmu minni þegar ég var 9, 10 og 11 ára – þrjú hnausþykk og falleg bindi sem ég gúffaði í mig fyrir áramót á hverju ári og á enn í dag. Ég kíkti á þetta fyrir nokkrum árum og þetta er sannarlega ekki mikið barnaefni – ekkert nema sifjaspell, klám og ofbeldi ofan í vafasaman boðskap. Þessi bók sem við lásum er bara nokkur ævintýri og alls ekki þau verstu – en t.d. bara þá koma konur varla fyrir nema sem gjaldmiðill. Ævintýri af þessu tagi eru börn síns tíma og bla bla bla en þetta eru líka sögur sem börn í dag spegla sig í og það er pínu óþægilegt. Af því, einsog Aziz bendir á, nú er 2019 og á þeirri spýtu hangir eitt og annað. Ég myndi heldur ekki lesa Hans Blævi fyrir 9 ára transbarn. Ég held reyndar vel að merkja ekki að börn séu svo viðkvæm að þau bara molni niður og verði aumingjar eða rasistar eða kvenhatarar af því að lesa „rangar“ bækur – eða svona. Almennt held ég að við vanmetum börn og ofmetum fullorðna. Þúsund og ein nótt fer ekki nærri jafn illa með barnsheilann og Græna mílan fer með fullorðinsheilann. Eða eitthvað. Ég er hálft í hvoru að grínast og veit aldrei alveg hvað mér finnst um þessa hluti. En þeir brjótast um í manni. Í lok uppistands síns fer Ansari að tala um hversu glaður hann sé að fá að standa þarna og tala við fólk – hversu þakklátur hann sé fyrir forréttindastöðu sína og svo framvegis. Hann var auðvitað metoo-aður – það var frekar mikið diet-dæmi, hann var fyrst og fremst sakaður um að vera svolítið ónærgætinn á stefnumóti – en átti að vera afboðaður eftir mikla grein í einhverju stóru blaði en fékk svo aftur að vera með. A.m.k. ef eitthvað er að marka vinsældir uppistandsins. Þetta er að mörgu leyti mjög óþægileg sena, þótt hún hafi átt að vera hugljúf. Ansari er að þakka heiminum fyrir að hafa ekki tekið sig af lífi (fyrir hálfgerðan tittlingaskít). Þá er líka áhugavert að þótt hann ræði talsvert afboðunarkúltúrinn í uppistandinu þá lætur hann vera öll þau mál sem hugsanlega væri hægt að verja. Hann tekur bara grófustu málin – Jackson kemur fyrir, R. Kelly, Cosby – en ekki t.d. kollegar Ansaris, Louis C.K. eða Woody Allen. Það er eitthvað maóískt við alla þessa auðmýkt og þakklæti. *** Ég byrjaði svo aftur A Tale of Two Cities. Las hálfan en hugsa að ég láti bara gott heita í bili. Engar aðfinnslur sem gætu ekki átt við hvaða Dickensbók sem er – hann er orðmargur (look who’s talking) og þetta er auðvitað á köflum mikið melódrama. En mig langar bara ekki að lesa hana núna – hugurinn hafnar henni í sífellu – og við það situr. Sorrí, Jói, segi ég af innilegri og maóískri auðmýkt. EKKI HATA MIG. *** Gítarleikari vikunnar er Eddie Van Halen.