Á mig sækir efinn. Ætli það sé bara vegna þess að það er mánudagur og ég var (einsog áður segir) mjög duglegur á smakkbásunum á bjórhátíðinni í Hveragerði? Ég er að lesa Stúlka, kona, annað eftir Bernardine Evaristo og finnst hún oftast eiginlega alveg hræðileg. Inn á milli koma kaflar sem hreyfa við mér. En einhvern veginn er mikið af þessu hálfgerðar tékklistaklisjur – sögupersónur sem manni finnst maður hafa séð þúsund sinnum áður, skrifaðar á þreyttri tilgerðarlegri urban-ljóðrænu, og flestar sögurnar voða beisikk sápuóperur. Harmur á háskaslóð. En svo er þetta áreiðanlega líka dagsformsspurning hjá mér. Það er stutt í óþolið hjá mér. „Er þetta ekki bara drasl?“ ómar í höfðinu á mér, alveg sama um hvað ræðir. Og svo þegar ég átta mig á því hvað ég er ósanngjarn breytist spurningin í „ert það ekki bara þú sem ert drasl, góði?“ Svo var líka maður þarna í Hveragerði sem gekk um og hellti úr jägermeisterflösku beint upp í fólk. Eða – „beint“ er svolítið orðum aukið. Eiginlega hellti hann mest bara yfir hvítu skyrtuna sem ég hafði keypt mér í Kormáki og Skildi um morguninn í staðinn fyrir þá sem ég skildi eftir á hótelherbergi í Frakklandi um daginn og hina sem ég fékk lánaða helgina þar á eftir og eyðilagði þegar það sprakk penni í innanávasanum mínum (sams konar blettur, en nokkuð minni, var einmitt líka á skyrtunni sem týndist í Provence). Ég sem er nýbúinn að ákveða að það fari mér svo vel að vera í hvítum skyrtum. (Nú las ég þessa færslu yfir og hugsaði: „voðalegt drasl er þetta“ – jæja, það kemur ekki í veg fyrir að ég pósti).