Untitled

Á sama tíma og fjölmiðlun verður grynnri, einfaldari og ótrúverðugari – vegna þess að blaðamenn bera ekki meiri virðingu fyrir lesendum sínum en svo að þeim finnst alltílagi að matreiða bara ofan í þá grímulausan áróður fyrir eigin skoðunum – verður sagnalistin meiri skemmtun, hlátur, snappíheit, grátur og kaþarsis, og minni list, minni óþægindi og furðulegheit. Þetta er ekki allt hreint Hollywood – ekki allt vondir læra villu síns vegar eða góðir verða fyrir illsku heimsins . Sem er sósíalrealíska módelið.   Eins konar bylting-í-krafti-meðlíðunar – trú fyrir sakir passíu Krists. Margt af þessu er fyrst og fremst nógu kunnuglegt að byggingu til að valda okkur ekki nema passlegum óróleika – eitthvað svona voðalega eru allir breyskir og áhugaverðir , en samt á máta sem er þægilega fyrirsjáanlegur. Sögupersónur eru „samkvæmar sjálfum sér“ og koma aldrei á óvart, ekki í raun og veru. Það er alltaf verið að fróa okkur. (Og sennilega er ástæðan ekki sú að við lifum öll svo skelfilegum lífum, með fullri virðingu fyrir þeim sem eiga um sárt að binda). Verk einsog t.d. Three Billboards verða fyrir þessari lesblindu – eru sökuð um að „skorta hjarta“, einsog einn íslenskur rithöfundur orðaði það (á svona 20 ólíkum facebookþráðum). (Jói Heiðdal tók verkið og sagnamódel þess fyrir á Starafugli á dögunum.) Vegna þess að þessar sögur einfalda ekki heiminn niður í eina af sirka fimm mögulegum sögum. Eða tíu. Í mesta lagi tólf. Reyndar var Three Billboards innan þess mengis, ein af þessum tólf, það vildi bara til að við höfðum ekki heyrt hana um hríð og héldum að hún væri þar með ófyrirgefanlegt sorp.