Ég las mjög lítið meðan ég var í hringferðinni – ef frá er talið sem sagt að ég las náttúrulega upphátt í allt að tvo tíma á dag – en er að komast aftur í gír og rútínu og hef klárað nokkrar bækur síðan ég kom heim, nú síðast The Silent Woman eftir Janet Malcolm. Þetta er hálfgerð meta-ævisaga – ævisaga um ævisögur – um ævisögurnar sem skrifaðar hafa verið um Sylviu Plath og aðilana sem standa að arfleið hennar, ekki síst systkinin Olwyn og Ted Hughes. Janet Malcolm ræðir ekki allar ævisögurnar í þaula en skoðar frekar atburði og leikendur í þessu drama – bæði fyrir og eftir sjálfsmorð Plath (og raunar á meðan líka) – og gerir manni kannski minna ljóst hvað var satt í því öllu saman og meira hvað sannleikur fólks getur verið súbjektífur og hvernig „sagnafólk“ laðast oft mest að því sem ævintýralegast hljómar. Malcolm gengst ítrekað við eigin hlutlægni og játar að hún sé meira í því að verja Olwyn og Ted – sem hún málar engu að síður upp sem áhugavert en mjög erfitt fólk, og þá sérstaklega Olwyn, sem hafði lítinn áhuga á Sylviu meðan hún lifði en tók svo að sér að sjá um réttindamálin og dánarbúið eftir að hún dó, vegna þess að Ted var ófær um það. Snerist líf Olwynar í raun upp frá því um líf og dauða Sylviu. Olwyn álítur Sylviu auðvitað stórfenglegt skáld (sérstaklega fyrir Ariel) en er í þessum viðskiptum fyrst og fremst varðmaður bróður síns og þær Janet rekast mikið á. Janet fer líka í saumana á árekstrum Olwynar við ljóðskáldið Anne Stevenson, sem skrifaði ævisöguna Bitter Fame um Plath (en grein um þá bók varð kveikjan að Silent Woman ). Olwyn stýrði því með harðri hendi hvað segja mátti í þeirri bók með því að stýra því í hvað Stevenson mátti vitna, hversu mikið og í hvaða gögn hún fengi að glugga – var oft á staðnum og settist bara sjálf við ritvélina og skrifaði ef henni leist ekki á það sem Stevenson ætlaði að segja. Stevenson sá sig á endanum tilneydda til þess að geta þess í formála að Bitter Fame væri eiginlega sameiginlegt verk þeirra tveggja (sem Olwyn vildi alls ekki, af því þá færi hlutleysisstimpillinn). Og sat svo alla ævi uppi með ásakanir um að hún væri „minniháttar skáld“ full af afbrýðissemi í garð þess „meiriháttar skálds“ sem Sylvia Plath væri – og var þessi meinta afbrýðissemi jafnvel tekin upp í ritdómum í virtum tímaritum einsog Times Literary Supplement. Annars staðar kemur fram að ef það hefði ekki verið fyrir fjárhagslegar skuldbindingar – einsog að hafa þegið háar fyrirframgreiðslur sem hún hefði aldrei getað greitt til baka – þá hefði Stevenson aldrei gefið bókina út, eða einu sinni klárað hana. Ég las einhvern tíma einhverja af ævisögum Sylviu Plath en það er mjög langt síðan – og maður þarf alls ekki að hafa lesið neina til þess að njóta þessarar (þótt sennilega sé betra að þekkja aðeins til og hafa lesið Ariel og Bell Jar a.m.k.). Ég man ekki hvaða ævisaga það var sem ég las á sínum tíma en sú sýndi Sylviu í fremur rósrauðu ljósi og málaði Ted ljótum litum og einhvern veginn hefur sú mynd bara setið í mér án þess að ég hafi neitt spáð í það meira. Hér verður myndin ívið margbrotnari – og hallar talsvert meira á Sylviu og það er meiri samúð en ég er vanur að sjá með þeim sem þurftu að díla við hana og veikindi hennar í rauntíma. Maður lærir samt engin ósköp um Sylviu Plath á Silent Woman þótt eitthvað af ljóðum hennar opnist, en verður vel ljóst að þær myndir sem birst hafa af þeim hjónum – sem skipta gjarnan með sér hlutverkum engils og djöfuls – eru kennslubókardæmi um einföldun í sagnamennsku ef ekki hreinlega bara æsiblaðamennsku. Þá snýst ein af áhugaverðari hugleiðingum Malcolm um þau kaflaskil sem verða almennt í umfjöllun um fólk þegar það deyr og hvernig þau lýsa sér í tilviki Sylviu. Malcolm lýsir því þannig að þegar Sylvia deyi fái heimurinn skyndilega leyfi til þess að glugga í öll hennar skjöl, dagbækur, bréf til móður hennar, og svo framvegis, og delera allan fjárann út frá þeim upplýsingum án tillits til þess að þetta séu nýskeðir atburðir og flestir leikendur í sögunni enn í fullu fjöri – eigi mjög mikið líf eftir, mikinn feril, Ted hefur ekkert getað skrifað sem ekki hefur verið skilið í ljósi Sylviu, börnin auðvitað bara börn – og án þess að Sylvia sé sjálf til staðar til þess að mótmæla (sem eina raunverulega yfirvaldið um eigin frásögn). Þau sem standa henni næst eru heldur ekki í stöðu til þess að mótmæla – þótt þau geri það, og segi ítrekað að fólk hafi alls ekki „rétta“ mynd af Sylviu (sem aftur vekur upp spurningar um hvaða hliðar séu „réttar“ á nokkrum manni) – vegna þess að hin nojaða/reiða/veika Sylvia hefur ásakað þau öll í bréfum sínum, verkum og dagbókum, og allar athugasemdir hljóti þar með að skiljast sem sjálfsvörn hinna seku. Og svo bætist við, sem Malcolm ítrekar og Ted segir best á einum stað sjálfur, að þegar fólk byrji að delera um Sylviu átti það sig seint á því að helmingurinn af því sem það er að segja sé alls ekki um hana heldur um hann, enda líf hennar samtvinnað hans (og hans líf líka samtvinnað hennar, langt fram yfir andlát hennar). Bréfin séu ýmist til hans eða frá honum, og skrifin stundum um hann og stundum bara túlkuð þannig að þau sé um hann þótt þau séu það ekki (og hann viti betur, en enginn tekur mark á honum). Og þar með fái hann eiginlega fullan skammt af þessari meðferð sem yfirleitt er spöruð fyrir látið fólk. Malcolm ræðir það ekki sem slíkt en mér fannst áhugavert að velta því fyrir mér líka hvernig tvær vinsælustu narratífurnar í kringum Plath eru þekktar klisjur, hvor úr sínum heiminum en líka hvor á sínum pólnum – annars vegar um „konuna“ sem þjáð fórnarlamb feðraveldisins, sem fái ekki að njóta sannmælis, sé haldið heimavið, jafnvel gerð óstöðug („gaslýst“) svo hafa megi stjórn á henni; og hins vegar um „skáldið“ sem snilling sem eirir engu í kringum sig í hamslausum eltingarleik við fegurðina og sannleikann. Ég man ekki hver það var í bókinni sem sagði einmitt að ef Plath hefði fundið einhvers staðar mann sem hefði getað hjálpað henni (meira en Ted) að verða betra skáld hefði hún án nokkurs vafa yfirgefið Ted á punktinum og aldrei litið um öxl. En hvort hlutverkið Sylvia fær að leika – gerandann eða þolandann – stýrist af því hvaða sögu ævisagnaritarinn vill segja. Og svo virðist sem það sjaldnast rými til þess að segja báðar – eða ímynda sér einhverja allt aðra (sem væri sjálfsagt alveg hægt). En kannski sprettur krafturinn í „sögunni um Plath“ – og þar með túlkun ljóðanna – úr því að hún flytji með sér þessa illsamræmanlegu þversögn.