Fiðlari á þakinu? Hljómar það undarlega?

Gyðingaofsóknir í rússneskri Úkraínu – þar sem hnefarétturinn ríkir, pogromin vofa yfir og hvert þorpið er tæmt á fætur öðru, fólk er sent á vergang og örlög einstaklinga og þjóða hanga á bláþræði. Misskipting, upplýsing, ástir í meinum, basl og fátækt og yfirvofandi byltingar. Einhvern veginn finnst manni einsog Fiðlarinn á þakinu flytji með sér ansi mikla aukamerkingu árið 2024, þegar stríð geisar bæði í Úkraínu og í Ísrael, þar sem stjórnvöld ástunda álíka ofsóknir gagnvart Palestínumönnum og íbúar Anatevka verða fyrir af hendi rússneskra yfirvalda í leikritinu, yfirvalda sem nú reyna nú í raunveruleikanum að sölsa aftur undir sig þá Úkraínu sem þau áttu þá. Í heimi þar sem flóttamenn og hælisleitendur ráfa um álfur bjargarlitlir og landlausir. Og allt er þetta auðvitað varið með hugmyndinni um stöðugleikann – siðvenjuna – og óttann við náungann. Og þótt þar véli um önnur lögmál og önnur ógn en grimmd mannsins þá er Íslendingum nú ekki alveg ókunnugt um þá sorg heldur þegar heilt samfélag þarf að yfirgefa sitt heimaþorp. *** Eitthvert gáfnaljósið sagði að mannkynssagan endurtaki sig aldrei en hún rími – og má til sanns vegar færa. Atburðir gerast ekki í tvígang, ekki eins, en þeir geta snúið aftur og haft á sér kunnuglegan blæ, einsog maður sem ber gamlan ættarsvip. Annað ekki síðra gáfnaljós sagði að maður stigi aldrei tvisvar í sömu ána, því eðli árinnar væri síbreytilegt – hún bókstaflega flæðir fram. En þeir vita það sem hafa vaðið á að skrefunum svipar engu að síður yfirleitt saman. Það sem ég vildi sagt hafa: Munurinn skiptir máli – en það gera líkindin líka.
***
Einsog ég held ég hafi nefnt hérna einhvern tíma þá er ég að leika/syngja/dansa í uppsetningu Litla leikklúbbsins og Tónlistarskóla Ísafjarðar á Fiðlaranum á þakinu. Ég leik bóksalann, Avram, er talsvert á sviðinu, fæ nokkrar línur á stangli og syng meira að segja eitt stutt sóló. Þetta kemur mér allt saman a.m.k. jafn mikið á óvart og ykkur, enda vissi ekkert okkar að ég væri söngvari og dansari, og allra síst ég. Bergþór Pálsson, sem leikur Tevje, tók mig einfaldlega á löpp í sánunni í haust og áður en ég vissi af var ég kominn í raddprufu hjá Beötu Joó, sem sagði að ég gæti sungið, og ekki rífst ég við hana, enda hefur hún talsvert meira vit á því en ég. Augnabliki síðar var svo sjálf Þórhildur Þorleifsdóttir mætt og manni er nú bara hollast að gera einsog hún segir. Þórhildur tók með sér danshöfundinn Chantelle Carey, sem er – ofan í að vera skapandi og skemmtileg – einsog prófessjónalisminn holdi klæddur og hún hefur ekki gert neinar alvarlegar athugasemdir við mín dansspor. Ég er auðvitað skíthræddur en það er samt talsverð hughreysting að vera í jafn færum höndum. *** Auðvitað getur verið að einhverjum þyki skrítið að hópur gojim Ísfirðinga (og nærsveitamanna) klæði sig upp sem Gyðinga og mazeltovi í allar áttir, þótt það sé á leiksviði. Þannig hefur það ekki alltaf verið – þetta er söngleikur sem hefur verið settur upp um víða veröld af öllu mögulegu fólki – en þannig er það nú. Það urðu talsverð læti af því síðasta sumar þegar fyrstu myndir bárust úr kvikmyndinni Maestro og í ljós kom að Bradley Cooper léki Leonard Bernstein með gervinef. Cooper er heldur ekki gyðingur. Svo er líka skammt að minnast uppsetningar Íslensku óperunnar á Madame Butterfly, en þar ollu búningar nokkru fjaðrafoki. Þetta er samt ekki glæný viðkvæmni. Það þótti ekki heldur kosher þegar Norman Jewison – sem þrátt fyrir nafnið er ekki gyðingur – var fenginn til þess að leikstýra bíómyndinni um Fiðlarann árið 1971. Hann mun hafa gert sér sérferð til Ísrael og lagt mikið upp úr því að „fást samþykktur“. Og sennilega hefði einhverjum þótt skrítið ef höfundur Tevjes hefði verið … ja segjum bara dönsk kona af mótmælendatrú. Ekki þar fyrir reyndar að búningar fólks í Anatevka undir lok 19. aldar eru alls ekki óáþekkir búningum Ísfirðinga um svipað leyti – aðallega snjáð spariföt og hattar. Og ég á ekki von á því að neinn verði með gervinef. Við förum samt upp á svið og segjumst vera Gyðingar í vel ríflega tvo tíma, syngjum klezmer músík, dönsum gyðingadansa og förum með gyðingabænir. Til viðmiðunar er hér gömul mynd af sjálfum mér, að leika ekkert nema sjálfan mig, og með sama hatt og ég mun nota í sýningunni. Og örlítið síðara skegg. Ég segi þetta bara aftur. Munurinn skiptir máli, en það gera líkindin líka. Og með skáldskap skilur maður fleira en bara sjálfan sig. Til þess er hann. *** Ég las bók Sholems Aleikhems, Tevje kúabóndi og dætur hans , fyrst á menntaskólárunum og endurlas hana á helginni. Þetta er smásagnasafn skrifað á fremur löngu tímabili og í henni er það Tevje mjólkurbóndi sem ávarpar Sholem Aleikhem beint og segir honum sögurnar – og klykkir gjarnan út með því að biðja Sholem að vera nú ekki að setja þetta í bækurnar sínar og ef hann geri það þá megi hann gjarnan kenna þær við einhvern annan en sig, hann vilji helst ekkert að þetta berist mikið út. Fimm sagnanna, af átta, segja af makamálum sjö dætra Tevjes, og eru það allt nokkrar harmsögur, a.m.k. fyrir rest. (Vilji maður koma kaldur að Fiðlaranum er best að hætta að lesa núna fljótlega – en hafa má í huga að hér að neðan er lýst söguþræðinum í smásögunum, vel að merkja er nokkuð vikið frá þeim í söngleiknum. Annars er hægt að skrolla hratt niður að næstu stjörnumerkingu líka, þar sem hætt verður að rekja söguþráð.) Fyrsta sagan segir af því hvernig Tevje, sem þá er skógarhöggsmaður, hjálpar nokkrum vegalausum konum heim til sín, og gjalda ættingjar þeirra honum ríkulega fyrir, bæði í rúblum og með því að gefa honum kú. Tevje söðlar því um og gerist mjólkurbóndi. Í næstu sögu er Tevje farinn að þéna dálítið og lætur frænda konu sinnar, Mendel, sannfæra sig um að fjárfesta hjá sér – þeir peningar glatast allir. Þá er komið að makamálunum og fá fimm af sjö dætrum Tevjes um sig slíkan kafla. Þrjár þeirra sagna eru í Fiðlaranum (í örlítið breyttri mynd). Fyrst er Tzeitel sem giftist Motel, fátækum klæðskera (þrátt fyrir að hafa boðist ríkur slátrari), sem svo deyr úr tæringu og skilur hana eftir með sæg af börnum. Næst er Hodel sem giftist Perchik, menntamanni frá Jehúpets (Kíyv), byltingarsinnar, sem er sendur í fangabúðir í Síberíu, þangað sem hún eltir hann og ekkert spyrst til hennar frekar. Þriðja, Khava, fremur hinn versta glæp þegar hún giftist kristnum manni, Fjedka, og skiptir um trú – henni afneitar Tevje og bannar öllum í fjölskyldunni að nefna hana á nafn. Sú fjórða, Sprintze, verður ástfanginn af ríkum manni, Aronsík, og þau ætla að giftast – en fjölskylda Aronsíks er mótfallin brúðkaupinu, reynir að múta Tevje, stöðva hjúskapinn og Sprintze drekkir sér í ánni. Loks er það Bélka sem nær því göfuga markmiði að giftast ríkum manni, Podotsúr, en hann skammast sín svo fyrir tengdaföður sinn að hann mútar honum með stórfé til þess að láta sig hverfa og fara til helga landsins, Ísrael. Einsog kemur fram í síðustu sögunni verður reyndar aldrei neitt af því að Tevje fari, því einmitt um það leyti sem hann ætlar að leggja af stað deyr klæðskerinn Mótel, og Tevje verður að taka að sér Tzeitel og hennar börn. Þá er Golda vel að merkja líka látin og Tevje orðinn ekkjumaður. Tevje er því enn á staðnum þegar rússarnir í bænum tilkynna honum að þeir muni fljótlega þurfa að berja svolítið á honum og sennilega brjóta rúður í húsinu hans – það sé ekki illa meint, en gyðingaofsóknir séu hálfgerð skylda núorðið og það gæti virst grunsamlegt ef þeir sýndu ekki einu sinni lit („Siðvenja! Siðvenja!“). Augnabliki síðar kemur lögreglustjórinn og tilkynnir gyðingum bæjarins að þeir hafi þrjá daga til að pakka sínum pjönkum saman og láta sig hverfa. Tzeitel segir að þau geti ekki farið án Khövu (sem einsog áður segir skipti um trú og Tevje afneitaði), hann verður alveg brjálaður en jafnar sig þegar í ljós kemur að Khava hefur yfirgefið Fjedka og ætlar að fylgja fjölskyldu sinni í útlegð. Þessum átta sögum er svo púslað saman í eina í leikritinu. Þar eru Sprintze og Bélka bara börn og giftast engum – og Tevje leikhússins getur talið dætur sínar á fingrum annarrar handar, því Teibl og önnur ónefnd dóttir, hafa gufað upp. Svo er ýmsu fleiru hnikað til í söguþræði sem ég fer ekki út í hér. *** Ég hjó eftir því í formála bókarinnar að byltingarsinninn Perchik og Sholem Aleikhem eiga það sameiginlegt að hafa verið kennarar á heimilum – Sholem hjá ríku fólki, en Perchik fyrir matarbita hjá Tevje – og að hafa í framhaldi af því tekið saman við dætur húsráðenda. Aleikhem var ekki jafn lánsamur og Perchik að fá leyfi og þurftu hann og hans kærasta, Olga Loev, því að hlaupast á brott. Þá hét Olga ekkert annað en Hodel að millinafni. Annars lýsir sagan þeim heimi sem Sholem Aleikhem hefur alist upp í – samfélaginu í litlum gyðingabæ á seinni hluta 19. aldar. Hann var sjálfur fæddur í Pereiaslav og alinn upp í Voronkiv, nálægt Kiyv. Hann flúði sjálfur pogromin og ofsóknirnar þar um slóðir árið 1905 og bjó eftir það mest í New York og Sviss. *** Önnur áhugaverð saga úr þessum sama formála – sem minnir á ólíkindalætin í Tevje – er að faðir Sholems varð ekkjumaður með tólf börn, þegar Sholem var 13 ára, gifti sig svo aftur án þess að segja nýju frúnni frá börnunum sínum, en laumaði þeim svo einu og einu inn á heimilið í tímans rás. Við takmarkaðan fögnuð nýju konunnar í hvert sinn. *** Æfingar á söngleiknum ganga bara furðu vel – enda leikhópurinn meira og minna mannaður hálfgerðum snillingum og valinn maður í hverju rúmi í hljómsveitinni. Og manni finnst maður vera í afar styrkum höndum hjá þeim Þórhildi, Beu og Chantelle. Það eru enn rúmar tvær vikur í frumsýningu (1. febrúar) og hafandi alls ekki nokkurt vit á því ímynda ég mér samt að þetta geti bara hreinlega gengið upp.