Ár og andvökur og Intermezzo

Þann 22. júlí 2012 – ári eftir hryðjuverk Anders Behring Breivik – var ég svo gott sem einn í litlum smábæ skammt frá Þrándheimi, eftirlegukind eftir Fjósafestivalið, fjölmenna listahátíð Melhúsabæjar, allir aðrir farnir heim en ég enn að bíða eftir sæmilegu flugi til Íslands eða hugsanlega Finnlands – ég er hreinlega ekki viss hvar ég bjó þetta sumar. Í öllu falli fór ég út á bensínstöð, keypti öll dagblöð sem ég fann – kannski hefur þeim fækkað síðan en norðmenn studdu dagblöðin sín vel og þau voru mörg – rölti með þau heim á hótel og las svo allt sem skrifað var um hryðjuverkin og Breivik. Ég man að mér ofbauð svolítið – eða kannski fannst mér það mest bara fyndið – hvað þeir voru sjálfumglaðir. Nærri því allt sem skrifað var fjallaði nefnilega um það hversu vel þeir, norðmenn, hefðu staðið sig, hvað þeir hefðu höndlað þetta vel, hvernig þeir hefðu staðið vörð um siðgæði, lýðræði og réttlæti og ekki leyft barbaríinu að taka völdin – ekki leiðst út í öfgar eða vitleysu. Þeir hefðu sýnt að það borgaði sig að hafa prinsipp. Ég á marga norska vini og veit að þetta var ekki endilega afstaða allra – margir voru til dæmis mjög ósáttir við að Breivik væri ekki skoðaður sem framhald þeirra öfgastefna sem hann kenndi sig við, heldur sem undantekning frá heiðarlegum útlendingahöturum. Og kannski voru margir þeirra mest ósáttir við að það mætti ekki einu sinni ræða það – það væri hreinlega mikið af tabúum í umræðunni, margir veggir, mörg stopp – svo sumum fannst einsog þeir væru að kafna alltaf þegar hann kom til tals. Í dag er liðið ár frá hryðjuverkunum 7. október í Ísrael. Þess vegna stakk þess Melhúsaminning upp kollinum. Ég veit ekki hvað ég vil segja. Að ég sé þakklátur fyrir að norðmenn hafi ekki elt upp alla rasíska og incelíska Call of Duty spilara, jafnað hverfin þeirra við jörðu og myrt þá ásamt nágrönnum sínum í nokkurra kílómetra radíus? Fyrst og fremst er þessi harmleikur allur saman bara komin langt út yfir minn skilning. Og þá meina ég ekki að þetta sé svo flókið að það sé ekki hægt að taka skilyrðislausa afstöðu með vopnahléi strax – ég meina bara að ég skil ekki hvers vegna það er ekki borðleggjandi, hvers vegna það eru nánast engar líkur á að það verði einu sinni tekið til alvarlegrar umræðu nema með einhverjum brjálæðislegum þvingunaraðferðum. *** Það er í sjálfu sér ekki við því að búast að ég skilji margt annars. Ég hef ekki fest blund síðan á aðfararnótt laugardags – það eru tvær heilar nætur af árangurslausum byltum. Í kjölfar þess að ég fékk gubbupest á föstudag. Reyndar alveg án þess að uppúr mér – eða niðrúr – gengi. Ég er með einhvers konar stálmaga og æli varla nokkurn tíma (nema einu sinni þegar ég ældi beinlínis af þeirri orsök einni að ég var að ljúga mjög ljótri lygi – en það er önnur og skrítnari saga). Ég engdist bara við klósettskálina. Fékk svo háan hita í sólarhring. Og missti hæfileikann til að festa svefn. *** Ég lauk í gær við Intermezzo, nýju bókina hennar Sally Rooney, sem fólk keppist ýmist við að hæla eða lasta – eða kannski meira bara gera lítið úr, einsog þetta sé ekki nógu fínt – sumum finnst hún Joyce endurborinn og öðrum finnst hún meira einsog ef Colleen Hoover gæti vitnað í Hamlet. Í sjálfu sér held ég að eitthvað sé til í báðu. Hún er ekki þungur höfundur, ekki einu sinni þegar hún er að skrifa vitundarflæðistexta – þeir renna alltaf vandræðalaust, maður er aldrei ringlaður, þarf aldrei að hafa mikið fyrir því að að lesa þá – og stundum eru bókmenntalegar vísanir hennar meira einsog skraut eða rammi en ógurlegar dýpkanir. Sem – eigi maður að vera alveg heiðarlegur – er kannski oftast raunin þegar bókmenntalegar vísanir eru annars vegar. Það á líka við um Hómersvísanir Joyce. Hins vegar gefur höfundurinn manni þá „leyfi“ (sem maður þarf ekki) til þess að spegla sögupersónur hans í öðrum sögum og það getur verið gaman, svona einsog það er gaman að velta því fyrir sér hvaða Friendspersóna maður sé, eða hvaða Friendspersóna Raskolnikov sé. Sem er í sjálfu sér alltaf einhvers konar dýpkun – meira að segja þegar samlíkingin er út í hött. Intermezzo fjallar um tvo bræður – Peter og Ivan Koubek – sem mér finnst liggja beint við að spegla í bræðrunum þremur, Ivan, Mitja og Aljosha Karamazov; og konurnar í lífi þeirra, Sylviu – sem er fyrrverandi ástkona Peters, núverandi vinkona, sem hætti með honum af því hún hætti að geta notið kynlífs í kjölfar slyss, og lifir við mikla verki – Naomi, sem er ung og flippuð ástkona Peters – og Margaret, sem er eldri ástkona Ivans. Líkt og í Karamazov er hjartað í bókinni samskipti bræðranna og samskipti þeirra við föður sinn – sem er dáinn þegar bókin hefst, en andlát hans setur sögunni ramma, og þeir eru að syrgja hann alla bókina. Ivan er að mörgu leyti einsog nafni sinn Karamazov – hann er afturbata incel, sem er stundum ósannfærandi af því hann virðist (einsog allir karakterar Rooney) hafa svo mikla tilfinningagreind, og af því hann er líka einsog Aljosha, yngsti Karamazovinn, heilagur og ljúfur og dásamlegur. Peter er síðan einsog Mitja í aðra röndina – hamslaus alkóholisti með tvær í takinu – en líka með dálitla níhilista hugsjónamannataug einsog Ivan Karamazov. Fyrir sína parta er pabbi þeirra, sem við fáum samt varla nema óljósa mynd af, mjög ólíkur Fjodor Karamazov – einhvers konar ljúfmenni sem er fastur í fjölskyldu með eintómum fyrirferðarmiklum frekjudósum, „stórum persónuleikum“, og sem er helst talið það til lasts að meðan hann lifði þurftu allir alltaf að vera að sýna honum tillitssemi. Þetta er hins vegar miklu „minni“ bók en Karamazov – hún er „domestic“ svo notað sé orð sem helst má ekki nota um bækur eftir konur, þetta er stofudrama þótt það gerist í nokkrum ólíkum stofum og það er stundum erfitt að draga línurnar upp þannig að þetta sé „stór heimspeki“ um „eðli mannsins“ – einsog liggur beint við að gera við Karamazov. Þetta er einkaleg bók, ekki um innstu myrkur mannsins, heldur um hversdagsleg trámu sem við þekkjum öll – sorg, persónulega upplausn, áfengisvanda, hvernig fortíðin eltir okkur, hvað það þýði að vera karlmaður, bróðir, sonur, hvað það þýði að vera náinn öðrum, um einkvæniskúltúrinn og aldursmun í samböndum (samt bara áratug, sem virkar ekki mjög trámatískt á mig – en út frá því er samt gengið í bókinni að það sé rosalegt). Hún fjallar um stöðu mannsins í félagslegum raunveruleika frekar en stöðu mannsins gagnvart sjálfum sér. Og kannski er það sem veitir henni dálítinn léttmetisblæ ákveðinn sjálfsvorkunnartónn – ekki í Rooney, heldur persónum hennar – sem virðast helst velta því fyrir sér hvers vegna allt þurfi alltaf að vera svona erfitt fyrir þær sjálfar (sem er einmitt, vel að merkja, líka grunnafstaða margra sögupersóna Dostojevskís). Ég las á dögunum ritgerð eftir David Foster Wallace um sjónvarpsgláp þar sem hann skilgreindi lágmenningu sem menningu sem þarf að þóknast fólki til þess að hafa af þeim fé . (Mér finnst gagnlegra og gagnlegra í mínu eigin lífi að skipta menningu í hámenningu og lágmenningu – þótt það sé bannað – eða jafnvel bara setja hana upp í tíu, tuttugu þrepa kerfi – ekki endilega vegna þess að ég haldi að lágmenning sé bara heimskulegt rusl, heldur til þess að skilja að það sem er í lægstu þrepunum er ekki endilega það sama og það sem er í efri þrepunum, það sem krefst meira af mér og það sem á að skila mér meiru, sem ég þar af leiðandi geri meiri kröfur til). Ég held ekki að Sally Rooney þurfi eða sé að reyna að þóknast fólki – ég held að prósinn sem hún skrifi geri meiri kröfur til lesandans en nánast hvaða vísitölumetsölubók sem er. Og vinsældir hennar – sú staðreynd að hún hefur af fólki fé fyrir sögur sínar – eru einsog aðrar vinsældir, einhver blanda af hæfileikanum til að tala til fólks og hreinni tilviljun og því að fólk (ég meðtalinn) laðast að því sem er vinsælt ; það sem er vinsælt er vinsælt af því það er vinsælt og þess vegna verður það vinsælt og heldur áfram að vera vinsælt. Og menningin er líka og á að vera að einhverju leyti sameiginleg upplifun – sem þýðir að við getum ekki öll verið að lesa sitthvora bókina (að vísu finnst mér hressandi að spjalla við franska bókaunnendur, sem öfugt við íslenska, sem spyrja alltaf hvort maður sé búinn að lesa bókina sem er vinsælust þá og þá stundina, mæla yfirleitt ástríðufullir með einhverju sem maður hefur helst aldrei heyrt minnst á – en segjum að bæði sé mikilvægt). Ég var allavega ánægður með Intermezzo – síðustu tvær bækur Rooney eru hennar bestu, hún sækir í sig veðrið. *** Í morgun las ég líka bókadóm um nýjustu bók Malcolms Gladwell – sem ég hef aldrei gerst svo frægur að lesa, vel að merkja – í Guardian. Hann var heldur neikvæður, sem er auðvitað undantekning núorðið – ég finn það meira að segja á sjálfum mér að mér finnst dónalegra og dónalegra að vera að finna að því hvað einhver hefur skrifað, einsog það sé ekki bara frábært að fólk sé að hugsa yfir höfuð, frábært að fólk sé að skrifa þegar það gæti verið á Tik Tok eða eitthvað. En þarna í þessum dómi kom gagnrýnandinn inn á eitthvað sem ég þykist hafa séð víðar, sennilega mest í blaðaskrifum, sem er ákveðinn svona kæruleysislegur tónn fullur af ofnotuðum frösum: Along the way there are plenty of interesting facts and thought-provoking ideas but Gladwell introduces them with prose that has evolved (or devolved) from a variation of the middle-highbrow New Yorker house style into something much more folksy and podcast-like. His sentences are littered with phrases such as “Oh my” and “Are you kidding me?” and “You guessed it”, as though his readers are looking for conspiratorial bonhomie, as though, in other words, they are fans. Og þegar ég las þetta rann upp fyrir mér að eitt af því sem við missum af þegar ritdómarar hætta að fetta fingur – einu sinni var mjög algengt að jafnvel í jákvæðum dómum væri tíndur til einhver agnúi, eitthvað sem gerði verkið minna en fullkomið – er skrá yfir óþolandi tendensa almennt. Og skilgreining á þeim. Að einhver bendi á þá, gefi þeim nafn. Sem er ákveðin þjónusta við ritmálið sem slíkt.