Í gærkvöldi ætluðum við Nadja að horfa á The Dinner sem gerð er eftir samnefndri skáldsögu eftir Herman Koch. Eða Het diner heitir skáldsagan auðvitað. Nadja var að lesa hana í bókaklúbbi sem verður haldin í kvöld og ég las hana sjálfur fyrr í ár. Nema hvað. Myndin var ekki til á Netflix sem stakk þá upp á „skyldum“ myndum í staðinn. Þar var efst á blaði sjónvarpsþáttaserían The Sinner . Ég held að þessi sería eigi fátt annað skylt með myndinni en að titlarnir innihalda næstum sömu stafi í sömu röð. Þeir sem sagt ríma. Það var samt sennilega blessun að myndin var ekki til. Hún er með 4,5 í einkunn á IMDB. Ég reyndar hallast meira og meira að því að maður verði að fara að hunsa þessar einkunnagjafir á síðum einsog IMDB og Goodreads og Storytel og öllu hinu. Því þótt þær séu vissulega stundum til marks um að hlutirnir séu einfaldlega vel eða illa gerðir þá rek ég mig alltaf á það af og til að eitthvað sem er skrítið eða óvenjulegt fær illa útreið í þessum vinsældakosningum. Og alls konar tíðarandafróandi froða fær fullt hús. Svo eru þessar einkunnagjafir líka færar um að stýra því hvað manni finnst gott – þær styrkja þá tilhneigingu okkar að móta smekk okkar eftir smekk annarra. Af því menning er félagsleg athöfn og manni finnst maður heimskur og vitlaus ef maður er of mikið á skjön (fyrst og fremst ef maður er á skjön við vini sína / sína kreðsu). Algóritminn styrkir þetta svo enn frekar með því að ota að okkur því sem allir hinir eru að horfa á og hlusta á og lesa. Mér datt annars í hug áðan hvort það væri ekki sniðugt að velja einhvern fjölmiðilinn sem er með stjörnugjöf og taka þær einfaldlega saman – reikna út meðaltal jólabókaflóðsins á Þorláksmessu. Ég held að ég sé að segja satt þegar ég segi að öllum dómum sem ég hef lesið í haust (sem eru ekki margir – 6-7) hafi fylgt fjórar eða fjórar og hálf stjarna. Það er svolítið þröngur skali. Versta bókin fær fjórar stjörnur og sú besta fjórar og hálfa. Ekki þar fyrir að það sem ég hef lesið úr þessu flóði er allt mjög fínt. The Dinner er annars Hollywood mynd. Mér finnst ólíklegt að hún sé bara svona listræn. Hún er ábyggilega misheppnuð. Bókin er samt fín – ábyggilega mjög góð bókaklúbbsbók. Og Nadja segir að The Sinner sé líka mjög góð.