Untitled

Ég er á Air Iceland Connect netinu. Það er voða svipað og gamla flugfélagsnetið, nema kannski dálítið nútímalegra. *** Í tengdum fréttum var Apple að hleypa af stokkunum vörunni sem mun endanlega gera út af við íslenskt mál. Homepod kemur að vísu ekki í sölu fyrren í desember og verður fyrst um sinn bara á einhverjum enskum málsvæðum. En samt. Þá ætti maður fljótlega að geta farið að tala ensku við handmálaða Dolce & Gabbana ísskápinn sinn, sem maður kaupir í Costco fyrir peninginn sem maður sparaði á því að kaupa klósettpappírinn í Costco. *** Ég ét aldrei eins mikið og á ferðalögum. Ég held að ostborgarinn sem ég er að bíða eftir sé tólfta máltíð dagsins. *** Það er sjaldgæfur munaður í lífi mínu að komast vestur sama dag og ég kem til landsins. Í kvöld sef ég heima hjá mér þökk sé Air Iceland Connect. Ég er ennþá lasinn. En ég keypti brjóstsykur sem linar hóstann. *** Ég horfði á kvikmyndina Arrival í flugvélinni. Hún málfræðitryllir um vísindamann sem er fenginn til þess að túlka fyrir hóp geimvera. Þrátt fyrir ágætis spretti og áhugavert upplegg þá var hún kannski aðallega dálítið banal. Það er gaman að sjá kvikmynd þar sem tungumálið spilar jafn stóra rullu en það hefði mátt hamra aðeins minna á klisjum og lokin hefðu mátt vera aðeins minna fantastísk. *** Á morgun verð ég vonandi bara í rúminu. *** Ég rakst líka á Friðrik Sólnes, eina af skærustu stjörnum Starafugls, í flugrútunni. Hann var að koma frá Stokkhólmi í stutt borgarkikk. Við ræddum Svíþjóð og Reykjavík og bókmenntir og hemspråk og fleira. Við vorum held ég sammála um að Svíþjóð og Reykjavík séu báðar eins að því leyti að þær hafi mjög gentrifieraða miðju – þar sem allt er hreint og fínt og dýrt, og að einhverju leyti áhugavert og skemmtilegt – en úthverfi sem eru fyrst og fremst misleiðinleg. Það er hugsanlegt samt að ég hafi haldið þessu fram og hann bara nikkað fyrir kurteisis sakir. *** Maður réðst á lögregluþjón við Notre Dame í dag. Með hamri. Og æpti „þetta er fyrir Sýrland“. Það er svona tíu mínútna göngutúr frá hótelinu mínu. Kannski er það samt minna áhugavert en hitt, að þetta skuli komast í heimsfréttirnar. Nú var maðurinn að vísu skotinn og hann hefði áreiðanlega getað meitt einhvern, en samt. Ætli hafi verið sagt frá því í fréttunum í París þegar sveitungi minn í Hnífsdal tók konuna sína í gíslingu um árið? Eða þegar vitleysingurinn í Þorlákshöfn fór um bæinn og hleypti af haglabyssu út í loftið? Og hvað ætli margir hafi ráðist á einhvern með hamri í dag – af 7 milljörðum jarðarbúa?