Það er talsvert rætt um stjörnugjöf í Svíþjóð eftir að Aftonbladet tók hana upp. Í morgun las ég svo þýdda grein eftir norskan sérfræðing sem bar saman reynsluna af því þegar NRK tók upp stjörnugjöf – mig minnir að það sé meira en hálf öld síðan – og sagði hana ekki góða. Ekki endilega vegna þess að henni fylgdi skýr gildiseinkunn heldur vegna þess að þessa gildiseinkunn er hægt að nota tölfræðilega til að skapa „meðaltal“. Þannig fá bíómyndir ekki lengur bara þrjár eða fjórar stjörnur – þær fá 7,1 á IMDB og fólk forðast það sem fer undir 7, sem er ekki bara það sem er illa gert, heldur líka það sem er óvenjulegt eða skrítið og kannski ekki ætlað öllum. Þannig ýtir þessi einkunnakúltúr undir meðalmennskuna og verðlaunar áhættufælni listamanna. Þá hefur þetta líka í för með sér að fjölmiðlar vilja helst ekki annað en fimm stjörnu gagnrýni eða slátrun – vegna þess að mælingar sýna að það er það sem fólk les. Það hefur enginn áhuga á að vita hvers vegna einhver bók fékk þrjár og hálfa stjörnu. Einhver fjölmiðill í Noregi (ég finn ekki greinina) bauð meira að segja gagnrýnendum sínum að velja sjálfir verk til að fjalla um (sem er talsvert algengara á Íslandi) og bað þá sérstaklega að velja helst verk sem þeir töldu líklegt að fengi eina eða fimm stjörnur og láta hitt vera. Og vegna þess að fólk vill helst ekki slátra – gagnrýnendum finnst það ekki gaman – völdu eiginlega allir bara fimm stjörnu verk til að fjalla um. Og hitt fékk einfaldlega enga umfjöllun. Þetta hljómar auðvitað einsog ákveðin mótsögn – en kúltúrinn hefur ólík áhrif á skaparana (sem miða á nógu háa einkunn til að ná) en miðlana (sem vilja helst fella eða útnefna dúxa). Mér er þetta hugleikið af því ég tók upp á því nýverið að gerast virkur á samfélagsmiðlinum Goodreads. Þar gefur maður stjörnur – og velur sér auðvitað bækur sjálfur, sem eru gjarna bækur sem maður er spenntur fyrir, og þær fá varla minna en þrjár af fimm nema maður þekki sjálfan sig og smekk sinn þeim mun verr. En kannski ætti maður að hætta að gefa stjörnur?