Skúr minninganna

Ég eyddi helginni í tiltekt og skipulagningu. Aðallega úti í bílskúr. Það er undrunarefni hvað manni tekst að safna af drasli í einu mannlífi, sem er nú ekki einu sinni nema rétt svo hálfnað. Síðan er svo ægilega gaman að sjá allt þetta dót að maður heldur að svona eigi þetta bara að vera. Að á fimm ára fresti standi maður upp undir axlir í óbeislanlegu öngþveiti vasadiskóa, dagbóka, ljósmynda, fótóapparata, útprentaðra greina, ljóðahátíðadagskráa, sósíalískra tímarita, myntsafna, barmmerkja, plakata og allra handa minninga – meyr og síandi, meyr og síandi, einsog pungsveittur kolaverkamaður. Mest af þessu er samt alltaf bara drasl. Ég fann alveg líka IKEA-bæklinga og brotna playmokalla og spýtnabrak og Pottþétt 25 . Og það sem maður vildi helst hafa fundið finnst auðvitað ekki. Við Nadja skrifuðumst á sem unglingar og einhvers staðar á ég þykkt umslag merkt henni þar sem er að finna bréfin sem hún sendi. Ég fann umslagið hans Mella, umslagið hans Hauks Más, umslagið hennar Karenar og hennar Amöndu – en ég fann ekki umslagið hennar Nödju, sem ég hef tekið frá og geymt á mjög öruggum stað (sennilega með upprunalegu Appetite for Destruction plötunni minni – sem er líka týnd – en hana er hægt og raunar búið að kaupa aftur). Að vísu fann ég slangur af útprentuðum tölvupóstum og eitt handskrifað bréf frá 1994 – utan umslags. Þá hafði Nadja nýverið flutt frá Linköping til Västerås og farið í bíó með nýju vinum sínum, á rómantíska gamanmynd með Nick Nolte og Juliu Roberts, sem henni fannst ekkert spes. Hún vildi líka vita hvort svo vel vildi til að ég væri balletdansari, hún væri svo hrifin af balletdönsurum. Sem ég var auðvitað ekki og því tók það mig tólf ár í viðbót af viðstöðulitlu daðri áður en hún leit við mér. Það var minn ritlistarskóli. Sennilega hefði verið fljótlegra að læra bara ballet. Mest fór í ruslið af geisladiskum og pappírum. Ég ætlaði að henda fílófaxinu mínu en Nödju fannst það eitthvað svo sætt að ég held hún hafi hirt það upp úr ruslakassanum. Megnið af því sem var ekki hent fór svo í geymslu á þannig staði að við því verður sennilega aldrei hreyft aftur. Stór hluti af því er handskrifaður skáldskapur, uppköst og krot. Það kom sjálfum mér á óvart hvað ég hef skrifað mikið í höndum – stórir hlutar af Illsku eru frumskrifaðir í höndum. Ég mundi að Ísafjarðarkaflinn var það en það er talsvert meira og stórir hlutar líka sem enduðu aldrei í bókinni nema sem skuggi – tugir síðna um barnaskólakennara Agnesar og nasískar árátturaskanir hennar. Það er skrítið að vera búinn að gleyma svona miklu úr fullorðinslífi sínu. Ég hef líka staðið á því fastar en fótunum að ég hafi byrjað á Illsku sumarið 2008 – eftir að ég fór til Jurbarkas – en ég á dagsettar glósur sem sýna að það hefur varla verið komin nein mynd á það fyrren í janúar 2010. Sem þýðir að ég skrifaði þessar 600 síður á tveimur árum en ekki fjórum. Ég á líka eina Heimsku handskrifaða – hún er allt, allt, allt, allt, allt öðruvísi en sú sem kom út. Önnur bók um annað fólk – en með sömu forsendum, að miklu leyti. Og helling um Felix Ibaka og Arbítreu líka, sem er lítið líkt því sem birtist í Einlægum Önd (hann fer á Hamingjuráðstefnu á Íslandi, í Hörpu). Þegar ég var unglingur skrifaði ég síðan hálfa skáldsögu um mann sem er í einhvers konar hliðarheimi þar sem tilfinningar hafa líkamnast – ég held það sé búið að gera barnamynd með svipuðu konsepti, mín var einhvers konar bóhemskt krísuævintýri og alls ekki fyrir börn og helst ekki fyrir fullorðna heldur, bara fyrir ofurdramatíska unglinga. Ég skrifaði hana í fyrstu alvöru tölvuna sem ég eignaðist og þessa bók hef ég greinilega margskrifað, prentað út, krotað og krotað og krotað í handritið, skrifað aftur, krotað og krotað og krotað í handritið og svo framvegis. Ég hef verið miklu vinnusamari og einbeittari unglingur en mig minnti (eða einkunnir mínar bera vitni um) – og samt enn langt í að ég „ákveddi“ að verða rithöfundur (það var í október, 1999 – ég var skipreka í landluktri stórborg og fékk mömmu til að senda mér ritvél). Fílófaxið var líka fullt af athugasemdum einsog: „Lesa Böll, Ambjörnsen, Proust“ og svo framvegis. Ég hef nú varla lesið Proust enn, svo heitið geti. Þyrfti helst að skrifa hjá mér einhvers staðar að fara að koma því í verk. Kannski í Notes. Talandi um lestur og leit að glötuðum tíma þá hefur vef- spjall- og samfélagsmiðlabindindið sparað mér svo mikinn tíma að nú les ég hartnær bók á dag. Og allt samt utan eðlilegs vinnutíma – ég les helling á skrifstofunni líka en það er bara hingað og þangað, smá í þessari bók, smá á þessari heimasíðu, doldið í þessu tímariti, og svo framvegis, og telur ekki í bókatalningunni. Mér líkar þetta fyrirkomulag afar vel. Á morgun ætla ég engu að síður að kveikja aftur á símanum (vonandi ekki vísir að falli) og þá verður hægt að hringja í mig. Ekki samt hringja öll í einu.