Untitled

Ég ætlaði að fara að halda því fram að svona stakir vinnudagar – föstudagar eftir almenna frídaga – væru svo erfiðir, maður kæmist aldrei í gang, en svo mundi ég að ég tók mér ekki frí í gær, nema bara um morguninn og vann lengur fram eftir. Svo það er víst ekki afsökunin. Í dag var ég bara lengi í gang, Aino var lengi í gang og við dóluðum yfir morgunmatnum, svo þurfti ég að fara með bílinn á dekkjaverkstæði, síðan fór ég í ræktina og eftir ræktina var fundur í framkvæmdaráði hljóðvarps Vestfjarða og svo er bara hausinn á mér tómur. *** Í fyrradag skrifaði ég senu sem mér fannst alveg sikk góð. Í sjálfu sér var ég bara að endurskrifa hana – taka prósa og breyta í leikrit – en ég var alveg fáránlega ánægður með það hvernig til tókst. Í gær las ég hana yfir og lagfærði og var ekki alveg jafn sannfærður. Í dag þori ég bara ekki einu sinni að líta á hana. Og ætla ekki að gera það. Ætla bara að halda áfram. *** Ég var að kaupa sumardekk og er að skipta. Miljöfanatíkerum er bent á að ég keyri sama og ekki neitt innanbæjar, ég hjóla – og þegar ég ætlaði að gera þetta um daginn, fyrir 2-3 vikum, var ég líka á leiðinni suður fljúgandi og það var ófærð á heiðum og ég sá fram að þurfa hugsanlega að keyra ef flugi yrði aflýst. Og sló þessu á frest. Svo voru dekkin mín ekki til og ég þurfti að bíða eftir að þau kæmu að sunnan. Þannig að ég er afsakaður. *** Eldhúsið er að verða komið í samt lag. Vantar bara vaskinn. Ég er að reyna að hóa saman í strákadinner á morgun. Það er alveg nýtt konsept á mínu heimili. Nadja er í menntaskólaútskrift. *** Ég er að venjast því að vinna undir risastóru málverki af sjálfum mér. Sennilega er megolómanían bara að vaxa saman við mig – bráðum hætti ég að taka eftir því hvað ég er mikill alfahrútur, allur alltaf að gera mig breiðan og klóra mér í pungnum.