Í gær hljóp ég lengri leiðina (10 km) niður á strönd í glampasólskini og 26 gráðu hita og uppgötvaði, mér til talsverðrar furðu, að ég er fær um að svitna líkamsþyngd minni á um það bil einni klukkustund. Það hlýtur að vera einhvers konar eðlisfræðilegt kraftaverk. Ég tók líka fullt af myndum, meðal annars af merkilega íslenskri kúahjörð (en ég hleyp annars mest með hænsnum, hundum, uxum, vespum, bílum, gæsum, rottum og eðlum). Nadja og A&A biðu mín á ströndinni (þau fóru saman á einu hjóli, að víetnömskum sið) og þegar ég hafði baðað mig fengum við okkur rándýran kvöldverð á túristaveitingastað (mér reiknast til að hann hafi kostað heilar 2.500 krónur íslenskar fyrir alla fjölskylduna (við fengum okkur að vísu hvorki forrétt né eftirrétt)). Svona er lífið í sósíalismanum, börnin góð.