Ég er enn að lesa Infinite Jest. Man ekki hvenær ég byrjaði en það eru ábyggilega svona þrjár vikur, var sennilega rétt eftir mánaðamót. Mér sækist hún ekki illa ég bara les hana hægt og finnst erfitt að lesa hana hratt, missi fljótt þráðinn ef ég dríf mig. Hún er um þúsund síður auðvitað, en það er ekki bara það – hún er líka þéttskrifuð, það er ekki mikið hvítu á síðunum, stafirnir eru litlir og meira að segja sjaldan greinarskil. Í sjálfu sér er hún samt líka þannig skrifuð að ef maður missir af einhverju samhengi kemur það oft fljótt aftur, það er hægt að skimlesa hana og missa ekki af meginplottinu – hann endurtekur og útskýrir allt, bókin er óðamála, en líka drifin áfram af „leiftrandi gáfum“ – sjálfsagt væri háð að lýsa nánast hverjum sem er öðrum með þessum orðum en það er ekki þannig meint hér. David Foster Wallace hefur verið mjög vel gefinn og ekkert gefinn fyrir að fela það – sem er alltílagi af því hann er líka mjög skemmtilegur og hefur húmor fyrir eigin gáfnarúnki. Sem minnir á James Joyce (Ulysses er rétt svo helmingurinn af lengd Infinite Jest en erfiðari aflestrar, þótt hún sé ekki endilega hæglesnari). Og einsog í Ulysses er fegurðin hérna ekki síst í þessari ofgnótt. Þegar ég skoða lista yfir langar bækur kemur mér á óvart að uppgötva að Infinite Jest er styttri en Atlas Shrugged eftir Ayn Rand. Atlas Shrugged las ég fyrir sjálfsagt áratug og þurfti að pína mig niður hverja síðu – og skiptist samt á að hlusta á hljóðbókina og lesa og hafði engan áhuga á að lesa hana „vandlega“ vegna þess að mér varð fljótt ljóst að allt sem hún hafði við mig að segja, sem var ekki bara sápuóperuplott, hafði hún þegar sagt á fyrstu síðunni og hélt svo bara áfram að segja mér það aftur og aftur. En ég vildi samt klára. Hún var ekki erfið aflestrar, bara löng og leiðinleg. Það er umtalsvert meira innsæi í mannlegt eðli hjá Wallace og Infinite Jest ögrar bæði sjálfri sér og lesandanum miklu reglulegar – en mestu munar samt um húmorinn. Það munar alltaf mestu um húmorinn. Ég bara skil ekki húmorslausar bækur, frekar en ég skil húmorslaust fólk. Ætli ég klári hana ekki samt fyrir mánaðamót. Ég ætla allavega að taka góða rispu á helginni og gotta mig í henni. *** Það er hræðilega dimmt á skrifstofunni minni. Eiginlega janúardimmt. Alveg við gluggann er mjög stór runni – eða tré eiginlega – með miklu laufi sem byrgir innsýnina á veturna. Sem er ágætt, það er mikill umgangur hérna á sumrin og mér finnst gott að vera í friði. Og þegar það er sólríkt birtir nú líka aðeins til hérna þrátt fyrir runnatréð. En nú er sífellt skýjað og þá er ægilega dimmt og birtan af tölvunni og borðlampanum býr til svona ljóshjúp á vinnusvæðinu mínu, upplýstan blett í myrkrinu. Sem er í senn kósí og svolítið þunglyndislegt, svona í miðjum ágúst. *** Í tilefni af þessu rifjaði ég upp textann við Jakkalakka eftir Bubba. Jakkaklæddir menn
kúra bak við borð
við græna ljósið frá tölvunni
éta tölvuprentuð orð. Og svona löngu seinna (þetta er af Von frá 1992) er ég helst hissa á því að birtan hafi verið græn. Mig minnti að þetta væri „föla ljósið“ eða eitthvað. Ég held reyndar líka að birtan af tölvuskjáunum hafi ekki lengur verið græn 1992. Allavega ekki heima hjá mér. Hvaða tölvur voru þetta annars með grænum stöfum? Við áttum Amstrad frá sirka 1988 og svo PC fljótlega upp úr ’90 og það var áreiðanlega ekki græn birta af þeim.