Hálar brekkur

Einbeiting er enn í lágmarki. Eða kannski væri nær að segja að athafnagleði væri í lágmarki. Mér finnst ég yfirleitt vera hálfgerð liðleskja þótt ég viti að það standist ekki nána skoðun – ég virðist allavega koma ýmsu í verk, svona af og til. Ég veit bara ekki hvenær ég geri hluti því alltaf þegar ég lít upp virðist ég ekki vera að gera nokkurn skapaðan hlut. Í dag hef ég fengið mér lúr og hann var ekki einu sinni langur – kannski 10 mínútur. Það var svipað uppi á teningnum í gær. Afkastaði engu nema lúr og hann var enn styttri og ómerkilegri en sá í dag. Ég hef líka fjarska lítið lesið upp á síðkastið. Hangi á félagsmiðlum og íhuga bugun mína. Er ég bara 5% bugaður? Eða er ég 45% bugaður? Hver eru krítísk mörk bugunar – hvenær er brekkan orðin svo brött að maður komist ekki upp aftur nema með aðstoð? Hvernig er færðin – er brekkan hál? Mig vantar GPS staðsetningu og veðurspá. Hugsanlega hef ég bara verið einn heima of lengi – í þessu flensuveseni. Félagsfærni mín (sem var ekki mikil fyrir) hefur rýrnað. Ég ætla ekki að halda neitt útgáfuhóf. Við Tapio Koivukari verðum með viðburð í Edinborgarhúsinu þann 19. mars og ég ætla bara að láta það duga. Ég er eitthvað að íhuga að gleðja mig bara með einhverju gítardóti í staðinn. Mig langar mikið að kaupa mér resonator-gítar . En þá þarf ég eiginlega líka að finna mér aukatekjur. Ekki það, þetta er ekkert æðislega dýr gítar (50 þúsund), en ég er bara (einsog venjulega) í holu. Gítarsmíðin gengur líka hægt. Þar er um að kenna blöndu af leti og þolinmæði. Á ég kannski of marga gítara – þeir eru allir ólíkir – ég á þrjá og bráðum fjóra rafmagnsgítara og tvo kassagítara, þar af hefur annar eiginlega bara tilfinningagildi? – má ég „safna“ gítörum? Í gítarleikaragrúppunum á FB pósta karlrembur reglulega einhverjum bröndurum um hvernig konurnar þeirra hindri þá í gítarsöfnun – sem er frekar óþolandi (húmorinn s.s.) en auðvitað er þetta kostnaður og svona. Og fyrir, einfaldlega, fjórðungur stofunnar er undirlagður (reyndar líka fyrir trommurnar hans Arams og hljómborðið sem Aino er hætt að læra á). Nadja hefur að vísu ekki hreyft neinum háværum mótmælum. Og auðvitað kostar þetta líka en í sjálfu sér er það engin ósköp miðað við hobbí almennt, sennilega ódýrara en kort í ræktina, og endursöluverð á flestu er ágætt (sérstaklega miðað við allt annað – tölvudót og húsgögn og svoleiðis, sem tekur varla að gefa) – kannski helst að heimasmíðuðu gítararnir færu fyrir minna en maður leggur í þá. Mér skilst að sé maður ekki alvöru gítarsmiður fái maður varla fyrir íhlutunum – og hvað þá fyrir vinnunni. Það skiptir mig auðvitað engu af því mig langar ekkert að selja þá. En ég er ekki tónlistarmaður og mér finnst erfitt að réttlæta að eiga svona mikið af græjum – mest fyrir sjálfum mér. Sérstaklega þegar ég á ekki fyrir því. Í dag þarf ég að svara þessu viðtali sem ég hef nefnt í síðustu tveimur færslum og halda áfram að þýða eitt ljóð. Og eiginlega þyrfti ég að skrifa endurskoðandanum líka. Við sjáum til hvernig það gengur allt saman. Ég gef skýrslu síðar.