Sjón er farinn / Sjón er að koma

og heimkynnin sem þú yfirgefur
eru aldrei heimkynnin sem þú vitjar á ný

Söngur breytinganna – Sjón

Það hanga gjarnan uppi plaköt á Ísafirði með orðunum „Sjón er að koma“. „Sérstök tilboð fyrir íbúa.“ Plakötin eru tekin niður á um það bil þriggja mánaða fresti og mánuði síðar birtast þau á ný. Þá kemur Sjón í bæinn og selur fólki gleraugu og svo fer Sjón aftur og plakötin hanga uppi þar til einhver tekur þau niður. Á þessu hefur gengið árum saman. Sjón kemur og Sjón fer. Nú er Sjón t.d. nýfarinn. En/og Sjón kom ekki í dag.

Í dag átti Sjón að koma til Ísafjarðar. Næturverkaskáldið. Oscar nominee Sjón. Það er bókmenntahátíð á Flateyri og ég hafði tekið að mér að sækja minn kæra kollega á flugvellinn í rauðabýtið en einsog þeir vita sem horfðu á Kiljuna í síðustu viku eru eilíf vandræði á flugsamgöngum. Fyrst var seinkað til 11.15, svo 12.15 og þannig koll af kolli þar til það var seinkað til 16.25 og sú er staðan ennþá, ef marka má heimasíðu Flugfélagsins. Sem er ekkert að marka – órannsakanlegir vegir þeirrar stofnunar liggja allir bara eitthvað út í loftið. Það er engin flugvél. Það er ekkert flug og það fer í loftið fyrir klukkustund síðan. Þetta eru óhrekjanlegar staðreyndir málsins.

En það kemur annar dagur og það verða fleiri flug – allavega eitt ár í viðbót (en svo verður allt flug víst lagt niður, í kjölfarið verða símalínur rifnar úr jörðu og samskiptamöstrin felld, það verða engin myndsímtöl, engin sms, engar samgöngur eða samtöl, bensínið er að klárast einsog jöklarnir, ástundun vísinda verður hætt, háskólum lokað und so weiter und so weiter).

Samtali okkar Sjóns sem fara átti fram í dag hefur samt bara verið frestað til morguns. Það er gálgafresturinn. Heimurinn ferst einhvern annan dag.

Tveir aðrir viðburðir verða í kvöld – Maó Alheimsdóttir, Elías Knörr og Gerður Kristný eru í panel klukkan hálfátta og Angela Snæfellsjökuls Rawlings og Elee Kralji Gardiner spjalla þegar klukkuna vantar 20 mínútur í níu. Þar ætla ég að vera.

Skildu eftir svar