Það er kominn hvítur reykur. Þegar þetta er skrifað er samt ekki vitað hver verður nýr páfi. Svíar þykjast líklegir til sigurs – og gætu þar með unnið bæði Páfagarð og Eurovision sömu vikuna. Eurovisionlagið – Bara bada bastu – er samt eiginlega næstum finnskt. Ég hef ekki heyrt það – hef varla heyrt Væblagið.
Ekki langar mig í kreddur kaþólsku kirkjunnar. En það er ekki laust við að ég öfundi fólki af andlegri sannfæringu. Og að traustar stofnanir vekji með manni aðdáun á upplausnaröld – a.m.k. þegar upplausnin er mestanpartinn fasísk.
* * *
Fagurbókmenntir eru að víkja fyrir léttmeti. Lestur er að víkja fyrir hlustun. Íslenskan er að víkja fyrir ensku. Skáldsagan að víkja fyrir sjónvarpinu. Ritlistin að víkja fyrir gervigreindinni. Og það er allt útlit fyrir að lærdómi verði útvistað til hennar líka – á svipaðan hátt og upplýsingum var útvistað til internetsins. Það er að segja, lærdómur hættir ekki að vera til frekar en upplýsingar eða upplýsingamiðlun, heldur leysist hann upp og við firrumst honum – í marxíska skilningnum – einsog maður firrist öllu verki við að beita stórtæku verkfæri, einsog það er ekki það sama að smíða borð með höndum og smíða borð með mannlausri verksmiðju. Að ýta á takka og fá borð. Að ýta á takka og fá ritgerð. Ýta á takka og fá skáldsögu.
Hvaða tilgangi þjóna þá listrænar bókmenntir? Eru þær einhvers konar viðnám? Rými þar sem annars konar veruleiki, lærdómur, upplifun getur átt sér stað? Eða eru þær bara lútuleikur á öld tölvunnar? Eða bæði?
Á öld sjálfsins og representasjónarinnar – fulltrúunar – er kannski ekkert eðlilegra en að við fáum öll klæðskerasniðnar sögur um okkar eigin sjálf. Mamma mín hefur skrifað þannig sögur fyrir barnabörnin sín öll – með myndum, þar sem þau geta séð sig sjálf í bókum. Það er fjarska fallegur gjörningur. Ég er ekki viss um að það verði jafn fallegt á stórum skala.
Annars væri áhugaverð spurning – fyrir Black Mirror höfunda, ef engan annan – hvort fólk myndi heldur vilja skáldsögur um sig og sín vandamál eða fantasíur? „Skrifaðu 300 blaðsíðna sögu um hálffimmtugan tveggja barna föður á Ísafirði sem er að æfa fyrir maraþon og er alltaf að slíta á sér kálfavöðvana“ vs „Skrifaðu 300 blaðsíðna sögu um hálffimmtugan geimriddara í fjarlægu sólkerfi sem sigrast á geimfasískum öflum“. Hefðbundið hlutverk sagna er að gera þetta tvennt – stundum bæði í einu. Að veita einhvers konar fulltrúun – sem getur verið að segja sögur þeirra sem fá annars ekki sagðar um sig sögur, en líka að greina og ræða vandamál einstaklinga og hópa í tilteknum (sögulegum) aðstæðum – og hjálpa okkur að stíga út úr kvíðvænlegum raunveruleika. Sem er ekki bara að veita skemmtun, en er líka að veita skemmtun (listrænar skáldsögur eiga líka að veita skemmtun; léttmeti þarf ekki að veita neitt umfram skemmtun).
En svo stendur sagnamennska ekki og fellur með bókmenntum. Þörfin til þess að segja og heyra sögur er ´óháð miðli og gæti reynst óháð því hvort sögurnar eru sagðar af mönnum eða vélum. Það á eftir að koma í ljós.
Það sem helst kemur í veg fyrir að klæðskerasniðnar og persónulegar sögur taki yfir „bókamarkaðinn“ er þörf okkar til þess að upplifa sameiginlegan veruleika – til þess að ræða Dallasþáttinn frá því í gær eða bókina efst á vinsældalistanum. Og það sem ver höfundinn fyrir gervigreindinni er einfaldlega seleb-kúltúr – enda eiga frægustu höfundar samtímans það allir sameiginlegt að vera á einn veg eða annan fjölmiðlavænir. M.a.s. þeir sem spila Pynchonleikinn vekja áhuga fyrir að vera dularfullir og lítt gefnir fyrir að fara í viðtöl. Það er líka múv – þótt það sé áreiðanlega útgefandans/agentsins að gera það áhugavert. En við viljum að höfundurinn sé „persóna“.
Annars er alveg líka spurning hversu mikið maður eigi að vera að velta þessum dauða fyrir sér – því er eins farið um dauða bókmenntanna og dauða manns sjálfs að hann kemur þegar hann kemur og ef maður eyðir tíma sínum í að hafa áhyggjur af honum er allt eins líklegt að maður missi af því sem skipti máli: lífinu.
* * *
Nýr páfi er: Robert Prevost. Leó fjórtándi.
Þú last það fyrst hér.