Ég held að heilinn á mér sé enn í sumarfríi. Í gærmorgun tók ég eftir öri eftir nýlegt sár á kinninni á mér – ég mundi eftir sárinu, það er varla nema tveggja-þriggja vikna gamalt, en ég mundi ekkert hvar ég hefði fengið það. Af hverju var ég með sár á kinninni? Ekki var þetta uppklórað skordýrabit? Hafði ég dottið? Rekið mig í hillu? Einhvern veginn klaufað eldhúshníf upp í andlitið á mér (ekki að ég hafi eldað mikið í sumarfríinu)? Þetta olli mér „talsverðum heilabrotum“ einsog maður segir – hvað sem það nú þýðir, heilabrot – ég sem sagt hugsaði um þetta og var farinn að hafa alvarlegar áhyggjur af heilsu minni (sérstaklega eftir að ég ætlaði að taka íbúfen við höfuðverk og mundi ekki hvort ég hefði fengið mér íbúfen eða hvort ég hefði bara fengið mér vatnsglas og gleymt íbúfeninu – ég fékk mér allavega aðra nema það hafi verið fyrsta). Síðan kom kvöld. Og þ´á mundi ég hvað hafði gerst. Ég skar mig við rakstur. Er það ekki svolítið einsog að uppgötva eftir langa rannsókn að það var brytinn sem framdi glæpinn? Hefði það, altso, ekki átt að blasa við? Sár í andliti karlmanns = rakstur? Ég er að vísu ekki vanur að skera mig við rakstur en ég keypti einhvern plastpoka fullan af einnota rakhnífum í Coop Konsum í Rejmyre, Östra Götaland (mitt á milli Finspång og Norrköping) og þeir voru bara alls ekki brúklegir miðað við þá lúxushnífa sem ég á að venjast. Og því fór sem fór. Ráðgátan leyst.
***
700 síður búnar í Books of Jacob. Einu sinni skrifaði ég alltaf jafn ´óðum um þær bækur sem ég var að lesa en var skammaður fyrir að vera að skrifa um bækur sem ég væri ekki búinn að lesa – þótt ég væri bara að skrifa um þær síður sem ég væri þá búinn með. Það eru enn 300 blaðsíður eftir af Books of Jacob og um þær get ég ekki tjáð mig, eðli málsins samkvæmt.
Ég veit ekki hvort ég á neitt að vera að leggja mat á hvað mér „finnst“ – enn sem komið er – það kemur í ljós bara á næstu mánuðum og árum. Þegar rykið sest. Þetta er augljóslega stórvirki og miklu „módernískari“ bók en ég átti von á eftir Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu. Einsog margar – flestar? – svona langar bækur er hún að reyna að vera einhvern veginn komplett og alltumlykjandi, ná utan um bæði augnablikin og aldirnar.
Hún fjallar einsog áður segir um spámanninn/messíasinn Jakob Frank – sem var til – og hana má augljóslega lesa frá mörgum sjónarhornum en eitt sem blasir við mér er að spegla hana í guðspjöllunum. Sem eru auðvitað líka módernísk, á sinn hátt – ef við tökum þeim sem einu verki – þar sem sama sagan er sögð fjórum sinnum með tilbrigðum, en á þveröfugan hátt við Jakobsbækurnar. Hvert guðspjall er frekar stutt og lítið dvalið við hversdagslega hluti heldur vaðið milli kraftaverka, dæmisagna og sögulegra stórviðburða. Jakobsbækurnar eru fimm og þær sem ég hef komist í gegnum fjalla allar um sögulegan tíma ´Jakobs Frank – þótt ég þykist vita að bókin fari nær okkur í tíma í restina.
Saga Jakobs er í grunninn bara saga hvers messíasar – stundum finnst manni hann vera djúpvitur frelsari, jafnvel kraftaverkamaður, og stundum kynóður megalóman og stundum allt í senn – fólkið í kringum hann er ýmist blindað af trú á hann eða í baráttu við efann; þeir sem fjær standa óttast hann eða eru forvitnir. Hann safnar um sig lærisveinum og endar ofsóttur. Þar sem ég er staddur í bókinni er búið að fangelsa hann og lýsa því formlega yfir í dómi að það verði að „eilífu og þeirri ákvörðun aldrei snúið“. Ég þekki ekki sögu Franks nema úr þessari bók og veit ekki hvort hann verður drepinn eða honum sleppt eða hvað. Ég veit það samt af reynslunni að það þarf ekkert mjög margt að gerast á þessum 300 síðum sem eru eftir – en samt allt!
Sjónarhornið er á sinn hátt alsjáandi án þess að vera alviturt – sögumaður er öldruð kona sem liggur fyrir dauðanum og öðlast alsjón – hún svífur beinlínis yfir sögusviðinu. Við fáum litla innsýn í hugarheima fólks nema það sem maður gæti giskað sig upp á út frá svipbrigðum og málrómi og þvíumlöguðu. Hins vegar leitar þessi alsjón uppi allt sem gæti nokkru máli skipti – fer um í tíma og rúmi, alls lags aukapersónur detta inn og út úr fókus, rýmum og hlutum og náttúru og veðri og göngulagi og fatnaði og svo framvegis er lýst í smáatriðum, guðfræðilegar og fagurfræðilegar og heimspekilegar deilur eiga sér stað í samræðum og bréfum. Engar endurtekningar, sem sagt, og í stað þess að söguþráðurinn birtist manni á þrjátíu síðum á hröðu tempói – einsog í þeim guðspjöllum sem maður á að venjast – er hann á þúsund síðum.
Það er mjög hægt.
***
Danirnir koma til mín á morgun. Ég hef ekkert lesið neina danska bók einsog ég ætlaði að gera. Kíkti aðeins á danska duolingo og ætli ég lesi ekki fréttirnar í kvöld á dönsku vefmiðlunum. Og svo bjarga ég mér ábyggilega á sænsku með dönskum hreim og les eitthvað fyrir þá úr þýðingum Nönnu Kalkar.
Það rifjast upp fyrir mér að Melli vinur minn sagði á sínum tíma að það væri ekkert mál að tala sænsku – maður talaði bara dönsku og gerði svona skrítin hljóð á eftir, hann hermdi þau bara – å o å o – svona einsog maður gæti ímyndað sér að selur myndi breima, kannski. En fyrsta setningin sem duolingo kenndi mér á dönsku eftir stöðupróf var „Svenskeren kan ikke førstå danskeren når de taler sammen“.
Ég hef einu sinni talað sænsku í sjónvarpsviðtali í Danmörku. Það gekk alveg en ég veit auðvitað ekkert hvort sjónvarpsáhorfendur skildu mig (það er líka alltílagi þótt fólk skilji ekki alveg rithöfunda). Mestar áhyggjur hef ég haft af fordómum dana og svía gagnvart hvor öðrum – það fylgir því ákveðinn farangur ef danir telja mann sænskan (eða hliðhollan svíum) og öfugt. Að vísu var mér sagt í vor að menningarsvíar væru að verða mjög danskir og menningardanir að verða mjög sænskir – og ef maður veit ekki hvað það þýðir væri kannski gott að rifja upp debattinn í kringum danska höfundinn Yahya Hassan, sem orti fjálglega um ofbeldi í innflytjendasamfélögum og lýsti föður sínum sem „loðnum apa“, og var skammaður fyrir af svíum með áþekkan bakgrunn sem sögðu hann beinlínis vera að hlaða byssur rasistana fyrir þá. Og hafi danir verið beinskeyttir en svíar viðkvæmir hefur það þá snúist við – er mér sagt og sel ekki dýrara en ég keypti það.
***
Ég hef annars veitt því athygli að ég hef ákveðna tilhneigingu síðustu misserin til þess að forðast pólitískar yfirlýsingar. Sennilega er það bara innbyggður mótþrói gagnvart ofsanum sem umlykur mann alla daga – frá Gaza til Washington inn á Alþingi og upp í Bolholt. Ég er orðinn mjög þreyttur á froðufellandi jarðýtum. Ég er líka orðinn furðu mikill both-sider í samræðu – finnst ekki þægilegt að tala í alhæfingum eða of mikilli vissu og hvað þá kraftmikilli hneykslan. Sérstaklega ekki um litlu málin. Þegar kemur að stóru málunum – Gaza er stærst – fyllist ég bara vonleysi og líður einsog húðin ætli að leka utan af mér og ég sökkva ofan í jörðina. Ég man eftir að hafa lesið sannfærandi rök Amosar Oz um að Evrópumenn – sem hefðu barist á banaspjótum árhundruðum saman, í átökum sem hefðu endað með seinni heimsstyrjöldinni – ættu lítið með að lýsa því yfir að það væri „ómögulegt“ að sjá fyrir sér endalok átakanna í Palestínu. En ég er samt svolítið þar. Ég hef ekki ímyndunarafl í að sjá fyrir mér neinn frið eftir atburði síðustu tveggja ára.