Nautn í flagi

Það er endurtekið efni að fólk játi á sig að finnast eitthvað ekki skemmtilegt sem öðrum finnst skemmtilegt, sérstaklega í tónlist. Ég hef nú aldrei þolað Bítlana/Bob Dylan er sjálfsagt algengasta formið af þessari íþrótt. Ég rakst á tvær svona sennur í vikunni, annars vegar sagðist rithöfundurinn (bankamaðurinn?) Sverrir Norland ekki fíla Tom Waits og einhverja fleiri tónlistarmenn – ég er svo sjúkur Tom Waits aðdáandi að mér sortnaði bara fyrir augum og missti alveg af því hverja aðra hann fílar ekki. Hitt var grínistinn Bill Burr ásamt einhverjum vini sínum á YouTube að tala um vinsæl en óþolandi lög – þar sárnaði mér líka eitt og annað, Blister in the Sun er kannski ekki besta lag Violent Femmes og áreiðanlega ofspilað, en það eru nú margir sem verðskulda svona spark meira en þeir (þær?).

Jú og svo sat ég í gömlum vinahóp fyrir nokkrum vikum þar sem fór mikið púður í að ræða hvað hitt og þetta væri leiðinlegt og ofmetið – bíómyndir og tónlistarmenn aðallega.

Hvað um það. Ég er ekki illa haldinn af neinu svona óþoli sem er ekki nánast úniversal – getur einhver hlustað a Lemon Tree lengur? Mmm mmm mmm? Don’t Speak? Kannski er það persónubundnara en ég hef talið hingað til – ég veit það ekki. En svo hljóta svona „ofspiluð“ lög líka að hverfa með annarri útvarpshlustun. Hvað er yngsta raunverulega „ofspilaða“ lagið? Shake it off? Eurovision lögin? Raunar segir það talsverða sögu að fari maður á ball með til þess gerðu ballbandi eru litlar líkur á því að bandið spili lag sem er yngra en 10-15 ára. Kannski eitt (Shake it off? Það er 11 ára). Á gullöld ballbandanna – segjum 1987 til 1997 – voru áreiðanlega sjaldan spiluð lög sem voru eldri en 15 ára. Og sveitaballaböndin spiluðu bara líka Rage Against the Machine ef þeir skriðu upp vinsældalistana (sem er ástæðan fyrir því að Eyþór Arnalds getur sungið það á valdeflingarsamkomum Sjálfstæðisflokksins, einsog það væri Piano Man með Billy Joel (sem er frábært lag!)).

Altso – við eigum enga sameiginlega poppupplifun lengur og þar með hverfa bæði súperhittararnir sem lifa af og þeir sem hverfa í mók vandræðaleikans og heiftarský óþolsins. Eftir sitja einhverjar svona opnar spurningar – hefur þú heyrt í Viagra Boys? Wet Leg? Hvað er þetta Benson Boone?

Það eru svo sem til gamlar vinsælar hljómsveitir sem ég hef ekki náð sambandi við. Oasis til dæmis. En það er alls ekki þannig að mér standi ekki á sama þótt öðrum finnist hún skemmtileg – og ekki heldur þannig að ég skipti um rás ef hún kemur í útvarpinu. Fínt band. Svo er alls konar dót sem ég hef reynt að hlusta á í gegnum börnin mín. Það var þarna Imagine Dragons tímabil sem var dálítið erfitt. Og tónlist sem er samin fyrir börn – það er furðu mikið af því metnaðarlaus leiðindi. Alls ekki allt auðvitað – en það er hægt að ná athygli barna með því að keyra froðuna bara í botn. En það er svo blessunarlega músík sem þau gleyma hratt sjálf (einsog við gleymum megninu af öllum poppkúltúr – þess vegna finnst okkur horfnir áratugir svona glimrandi fínir, við munum bara gullin en ekki innanhola síbyljuna).

Annars er ég líka viðkvæmur fyrir þessu. Þegar fólk segist ekki fatta mína eftirlætis tónlist – hvort sem það eru Guns eða Waits eða Son House eða Art Blakey. Ég þarf meira að segja að verja – sjúgandi upp í nefið – tónlist sem er augljóslega búið að útjaska. Mér finnst nú Piano Man bara fínt lag. Ég fór á Green Day og Weezer tónleika í sumar með Aram og hef hálfskammast mín fyrir hvað mér fannst það gaman. Líka á Green Day segi ég þegar vinir mínir fitja upp á nefið. Sumum þeirra finnst svo alveg jafn ómögulegt af mér að finnast gaman á einhverjum tilraunadjassi. Ég er engin alæta á músík, ég laðast að því sem ég laðast að og held hinu frá mér, en ég hef frekar breiðan smekk og ég hef áhuga á tónlistarsögu og því að mennta sjálfan mig, skilja hvað það er sem ég fíla og hvernig tónlistarheimur minn getur stækkað – hvernig fagurfræðin hangir saman (þess vegna finnst mér allt með Tom Waits skemmtilegt – af því það hangir saman, hvert einasta lag segir eitthvað um hin – ég hef ekki þannig áhuga á öllum tónlistarmönnum en ég held að það ættu allir að eiga a.m.k. einn þannig eftirlætis listamann).

Á hinn bóginn hef ég getað verið mjög esóterískur og dómharður í málum ljóðsins – og finnst margt af því sem er haft í miklum metum vera mjög ómerkilegt. Þar er mikið leitað í lága samnefnara – að fella ódýrar keilur og predika fyrir kóra. Ég er hins vegar nær alveg hættur að tjá mig um það og kannski hreinlega hættur að spá í því. Á löngu tímabili las ég alveg óhemju af ljóðum – öllu sem ég komst í – einsog maður sem spænir sig í gegnum mykjuhaug í leit að gylltum tannstöngli. Og lét mykjuna fara í taugarnar á mér. Nú leita ég miklu minna – pirra mig minna en það er líka færra sem kemur mér á óvart. Les bara það sem ég veit að gleður mig.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *