Heilindi/Leiðindi

Stundum eru þessar færslur mínar hérna alveg frámunalega leiðinlegar. Ekki veit ég hvað veldur. Það er ekkert samhengi milli þess að það sem ég hafi verið að skrifa um daginn hafi verið leiðinlegt – það er einsog þetta gangi á einhverjum allt öðrum mótor. Af og til hvarflar að mér að hætta að blogga og fara frekar að skrifa vandaðri pistla – eitthvað með byrjun, miðju og endi, eitthvað með samfelldri röksemdafærslu – og stundum meira að segja heiti ég sjálfum mér að byrja á því. Í sjálfu sér snýst það ekki um vettvanginn – þessir pistlar gætu allt eins birst hér – en það skiptir engu máli af því ég fell alltaf frá þessum áformum hvort eð er.

Það sem er leiðinlegt er ekki endilega leiðinlegt fyrir mig samt. Náttúrulögmálin hafa fengið mjög lofsamlega umfjöllun í Svíþjóð og voru „boktips“ frá Mariu Maunsbach í Babel – sænsku kiljunni – á helginni. Það er gaman fyrir mig. En mjög takmarkað gaman fyrir aðra, sérstaklega ef þeir eru ekki einu sinni Svíar og vita ekki hvað Babel er, hafa aldrei heyrt minnst á Mariu Maunsbach. Svo hljóp ég líka 30 km í gær, með Nödju, sem var ekki gaman fyrir mig og enn minna gaman fyrir ykkur. En samt gaman fyrir mig. Samt ekki gaman fyrir ykkur.

Á laugardaginn verða Tom Waits heiðurstónleikarnir endurteknir. Það er gaman fyrir mig og verður gaman fyrir ykkur – ef þið mætið – en er áreiðanlega ekkert gaman að heyra mig tala svona mikið um. Plögg er leiðinlegt. Samt er eiginlega allur samtíminn plögg, það af honum sem er ekki grobb (30km! Babel!).

***

Ég las pistil Sifjar Sigmarsdóttur um bækur sem vörur á markaði – Sérvitringar, afætur og „sellát“ – og varð hugsi um margt. Það er þarna ákveðin mótsögn í afstöðu minni til þessara spurninga. Jafnvel margar mótsagnir.

  1. Bækur eru vara en bókmenntir eru það ekki, sögur eru það ekki, hugsanir eru ekki vara. Að minnsta kosti ekki vara einsog hver önnur vara. Ekki einsog smjörlíki. Og línan sem skilur bókina frá bókmenntunum er augljóslega ekki skýr.
  2. Það er samt absúrd að ríkið geti ákveðið einhliða hvað það greiðir fyrir afnot af bókum – útlán á bókasöfnum. Sem ríkið sem sagt gerir. Á hverju ári kemur ný tala – þetta er það sem fæst fyrir útlán. Svona virka ekki heldur aðrir menningarstyrkir – ekki t.d. endurgreiðsla kvikmyndaiðnaðarins. Eðlilegast væri að samið væri við RSÍ um tiltekna tölu og hún svo bundin einhverri vísitölu.
  3. Sellát-ásakanir minna mig alltaf á níunda áratuginn. Þá var mikið ákall um hreinleika, og stigveldi – Offspring voru selláts og póserar, Green Day ekki, Green Day voru selláts og póserar, Nirvana ekki, Nirvana voru selláts og póserar, Pavement ekki, Pavement voru selláts og póserar nema þarna einn meðlimurinn (ekki Malkmus, hann er ofmetinn) og kannski eitt lag, sem var live og bara til á bootleg, og þú hefur ekki heyrt, bara ég, það er mjög vanmetið. Og svo framvegis.
  4. En ég sakna þess líka að listamenn hafi ákveðin heilindi. Sé eftir öllu samneyti Nýhils við Landsbankann, það var glatað og illa launað. Og það voru líka allar hinar bankaauglýsingarnar með listamönnum á fyrirhrunsárunum. Og allt #samstarfið á instagram í dag. Og öll skemmtilegu lögin í bílaauglýsingunum. Af því það er líka eitthvað heilagt við þær tilfinningar sem maður bindur listaverkum (og by association listamönnum) sem vanhelgast þegar tilfinningatengingin er víruð föst í eitthvað drasl. Eitthvað smjörlíki. Einhvern bílstuðara sem rýkur með mann af stað. Ég lagði ekki ást mína á lagið til þess að láta það lokka mig til að eyða pening í dót sem mig langaði ekki í.
  5. Og samt er sennilega betra að selja lag í auglýsingu en að eiga ekki fyrir leigunni. Að ég tali ekki um að eiga ekki fyrir mat. Og þótt það væri bara eitthvað af þeim minniháttar lúxus sem við köllum að geta notið þess að vera til – skór sem halda vatni, námskeið fyrir börnin, útaðborða á brúðkaupsafmælinu. Það er ekkert rómantískt við að vera fátækur, ekkert gaman.
  6. Og endurtökum það samt. Bókmenntir eru ekki vara. Listamenn eiga að heiðra heilindi sín – en þau mega vera þeirra heilindi, maður skilgreinir það sjálfur, og aðdáendur þeirra mega verða fyrir vonbrigðum með hetjurnar sínar, listamennirnir mega verða fyrir vonbrigðum með sjálfa sig og hetjurnar sínar.

Kannski er það allt og sumt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *