Frammistöðukarlar

Einhvern tíma í fortíðinni var verið að tala um „performative masculinity“ í Lestinni. Sem var í þessu tilviki ekki að flexa vöðvana eða spila rafmagnsgítarsóló eða setja brilljantín í hárið eða manspreada eða mansplaina eða neitt af því heldur að lesa bækur á opinberum stað í þeim tilgangi að komast yfir konur. Ekki hvaða bækur sem er, held ég, heldur fyrst og fremst eitthvað sem konur gætu talið karla ólíklega til að lesa – Jane Austen, Simone de Beauvoir, eitthvað þannig. Lestur sem páfuglastarfsemi. Mökunardans. Ég ætla ekki að þykjast muna hvað var sagt og hvað var ekki sagt – kannski er ég bara að endurtaka það sem var sagt, þetta var fyrir áreiðanlega mánuði síðan – en mig minnir að það hafi verið gerð frekar skörp skil milli þess sem er annars vegar einlægt og hins vegar þess sem er performatíft. Óþarflega skörp.

Skömmu eftir að ég heyrði þennan útvarpsþátt var ég staddur á kaffihúsi í Zurich. Í fanginu var ég með þverhandarþykkt smásagnarsafn Flannery O’Connor en á borðinu voru Illness as Metaphor eftir Susan Sontag og White Album eftir Joan Didion. Það sem konurnar á kaffihúsinu, sem dáðust að mér, vissu ekki er að ég var að lesa formálann að smásagnasafninu. Sem var eftir karl.

En sem sagt. Einlægni og performans. Auðvitað getur einlægni verið bæði fölsk og performatív, og sönn og performatív. Þegar ég var um tvítugt las ég The Beauty Myth eftir Naomi Wolf (sem er í dag þekkt fyrir að vera hægritröll en var þá helsti hot shot femínistinn). Ég hafði á henni einlægan áhuga, ekki bara til þess að skilja eitthvað um „stöðu kvenna“ heldur líka til þess að skilja eitthvað um eigin hégóma (allt fólk sem gengur með hatt er í eðli sínu páfuglar) – hvað það þýðir þegar maður reynir að vera fallegur, hvað maður er að gera, hverjum maður er að hlýða og hvern maður er að reyna að heilla (maður hlýðir mest heiminum til þess að ganga í augun á sjálfum sér, en það er líka flóknara og fer í hringi, einsog öll sjálfsmyndarlógík). Ég man ekki til þess að hafa lesið Beauty Myth þar sem til mín sást, en í svona tvö ár á eftir nefndi ég hana áreiðanlega við allar sætar stelpur sem ég hitti. Til þess að vinna inn stig. En það breytir engu um hitt, að mér fannst líka bókin áhugaverð, að ég las hana fyrir sjálfan mig – og hún þjónaði líka þeim tilgangi að sía út vitleysingana.

Hið performatíva gerir það nefnilega – það er í senn fagurfræðileg og heimspekileg yfirlýsing til heimsins og ákall á fólkið sem maður deilir lífssýn með. Sá sem sest á kaffihús með Emmu í þeirri von að laða að sér konu, hlýtur að vilja finna konu sem fílar Jane Austen – að finna einhvers konar sálufélaga – ef hann vildi bara stunda kynlíf með einhverjum eru til umtalsvert markvissari leiðir að því markmiði. Sem svo aftur breytir ekki hinu að ungt fólk er yfirleitt enn að finna sig og sá sem heldur eina vikuna að hann fíli Emmu og vilji elska konur með Austenblæti getur verið farinn að lesa Ayn Rand og dagdreyma um Dagny Taggart hálfu ári síðar. Eða hálfum mánuði þess vegna. Einlægni er líka mótsagnarkennd ef hún fær smá tíma.

Þessa dagana er ég auðvitað að lesa Ulysses mjög performatíft. Hún er bók af því tagi sem maður á erfitt með að þegja um – hún leggur mann undir sig. En ég hef alla tíð lesið svona – haft þörf fyrir að nefna það við fólk hvað ég er að lesa. Segja hvað mér fannst. Finnst. Stundum er það bara til að grobba. Svona einsog maður kemur því að í samræðum hvað maður tekur í bekk. Var ég annars búinn að segja ykkur að ég hljóp maraþon í síðasta mánuði?

Hvað um það. Ég er í liði með fólki sem les á kaffihúsum. Og í lestum. Og á bekkjum. Sá sem hefur ekki gengið á ljósastaur niðursokkinn í bók – og vakið með því athygli umheimsins, ef ekki aðdáun – hefur ekki lifað. Og ég er líka í liði með þeim sem eru að leita sér að sálufélaga. Bólfélaga. Einhverjum til að tala við.

***

Annars er ég í lest. Sem var að renna inn í Höör. Á leiðinni til Karlskrona. Sænski bókatúrinn er búinn og nú bíður mín Pólland. Ég á káetu í skipi til Gdynia í kvöld og verð kominn þangað í fyrramálið. Mér finnst það klassi – í síðustu viku gengum við forleggjarinn minn fram á unga, dálítið drukkna konu í Stokkhólmi sem var að leita sér að eldi til að kveikja í sígarettu, og hún hafði á orði að við litum út einsog „20. aldar rithöfundar“ (s. nittonhundratalsförfattare). Að fara með skipi til næsta lands til þess að fylgja eftir annarri bók er einmitt eitthvað sem 20. aldar rithöfundur gæti tekið upp á að gera.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *