createdTimestamp““:““2024-05-24T06:46:14.224Z““

Frá því á sunnudag fyrir viku hef ég gengið með grímu utandyra. Ég geng ekki með hana innanhúss á skrifstofunni og þegar ég fer út að hlaupa læt ég duga að hífa buffið upp fyrir vitin þegar ég mæti einhverjum. Ég fer heldur ekki víða. Ég skýst yfir á Heimabyggð eftir kaffi, í Hamraborg eða Thai Tewee eftir mat og fer í Nettó á leiðinni heim. Bara einsog venjulega. En það eru engin matarboð og engar heimsóknir og verið þannig lengur fyrir mig en flesta – af því ég lá í flensu allan febrúar ofan í hitt. View this post on Instagram A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 22, 2020 at 9:04am PDT Grímuna keypt ég í Víetnam fyrir fimm árum, sennilega bara rétt eftir að við komum og þá í Hanoi frekar en Hoi An. Þar eru grímur af þessu tagi staðalbúnaður – ekki vegna sjúkdóma og flensu heldur vegna mengunar. Í Da Nang, Hanoi og Saigon og öðrum stórborgum var mjög þægilegt að hafa grímu í umferðinni – á vespum eða reiðhjólum. En í Hoi An var það hálfgerður óþarfi og við notuðum þær aldrei mikið. En þær hafa legið í búningakörfu krakkanna síðan við komum hingað. Sunnudaginn sem ég setti hana upp í fyrsta sinn á kórónatímum var ég á leiðinni að hitta mann. Engan annan hef ég hitt nema í augnablik og augnablik síðustu vikur og við ákváðum að hittast úti og fara í göngutúr. Svo ég gróf upp þessa grímu og setti hana upp og hef notað hana síðan. Í göngutúrnum keyrði framhjá okkur bíll með tveimur farþegum sem voru báðir með grímu og sennilega sá ég sama fólkið í Nettó nokkrum dögum seinna en annars hef ég ekki orðið var við grímur nema á afgreiðslufólki – sumir í Nettó og svo kallinn sem rekur Thai Tewee. Ég átti von á því að þeim myndi fjölga en sú hefur ekki verið raunin. A.m.k. ekki á Ísafirði. – Hvað heldurðu að fólk hugsi, spurði Nadja mig í gær þegar við vorum í göngutúr. Hún grímulaus, vel að merkja. Þegar það sér grímuna, bætti hún við. – Alls konar, sagði ég. – Heldurðu að fólk haldi að þú sért veikur? – Að ég sé í sóttkví? Já, ábyggilega. Maður á ekki að fara í búðir þegar maður er í sóttkví en það gera það víst margir. En sumum finnst þetta bara fyndið, held ég. Að ganga með grímu. Margir bókstaflega þrá að taka þetta ekki alvarlega, að þetta sé ekki neitt neitt – fólk vill bara slappa af. Og þá hlær það annað hvort eða setur upp skelfingarsvip. Þetta er líka áminning um dauðann. Margir hugsa líka hvort þeir ættu sjálfir að vera með grímu. Margir hugsa ábyggilega líka að ég hljóti að vera mjög hræddur við að veikjast. – Ertu hræddur við að veikjast? – Nei. En ég er mjög hræddur við að bera smit. Ég held það væri ekki gaman að uppgötva seinna að maður hafi verið smitaður og maður hafi ekki farið eins varlega og manni var unnt. Þannig lagað. Auðvitað gæti ég líka bara sleppt því að fara í búðina eða kaupa kaffi á Heimabyggð og fara í göngutúra. En mér finnst ágætt að finnast ég vera að gera eitthvað. Og mér finnst ágætt að ástandið sjáist – á mér – það eru áhöld um hversu mikið gagn grímurnar geri, þótt þær geri áreiðanlega eitthvað, en það er ábyggilega gagn í því að vera sýnileg áminning. Og svona töluðum við áfram. Það var að vísu erfitt að heyra hvað við vorum að segja af því það var svo mikið rok og dálítil umferð og ég auðvitað með grímu fyrir andlitinu. *** Einn vinur minn á Facebook er með það á heilanum að Svíar séu svo miklu krítískari í sinni Covid-umræðu en Íslendingar. (Þegar ég segi „með það á heilanum“ á ég við að hann hefur ábyggilega nefnt það tvisvar – eða allavega ekki sjaldnar en einu sinni. En ég sé fyrir mér að hann hugsi um þetta viðstöðulaust. Þannig virkar bara internetið.) Ég hef ekki orðið var við þessa hörðu krítík í fjölmiðlum nema að litlu leyti – og ekkert hjá sænskum vinum mínum. Lengst af voru efnahagsfréttir alltaf efstar og enn eru sænsku miðlarnir þeir einu sem ég dett inn á – af íslenskum, amerískum, breskum, dönskum og finnskum – sem eru ekki alltaf með Covid sem efstu frétt. Og mér finnst Svíar bara mjög uppteknir af því að verja afstöðu sína – eða afstöðu Tegnells, sóttvarnalæknis. Enda sosum kannski ekki skrítið. Það langar engan að trúa því að samfélagið sem á að vernda hann – yfirvald eða fólk – sé brostið og allt sé á leiðinni til andskotans. Og blöðin – fréttir, ekki bara pistlar – full af einhverjum svona bendingum um að á meðan aðrir séu að taka „pólitískar“ ákvarðanir séu Svíar að taka „vísindalegar“ ákvarðanir. Einsog það séu ekki sóttvarnalæknar sem taki þessar ákvarðanir í öðrum löndum eða það hafi ekki tvö þúsund (!) sænskir vísindamenn skrifað undir opið bréf um að Tegnell ætti kannski að hugsa sinn gang – og a.m.k. annað eins af sérfræðingum víðs vegar að. Þá eru Svíar líka einir um að malda í móinn og segja að það sé nú óþarfi að fara að stilla upp svona þjóð gegn þjóð í þessu, það séu allir að reyna sitt besta. Milli þess sem þeir lýsa viðbrögðum Dana og Norðmanna sem fullkomnum fasisma, þar sem herinn ráði lögum og lofum, en Svíar ætli einir að standa vörð um hið borgaralega frelsi. Sem er mjög áhugavert og til marks um að líberalisminn hafi náð miklu meiri tökum á Svíum en ég hafði áttað mig á – þeir einblína mjög hart á að þeir treysti fólkinu til að fara eftir ráðleggingum og ætli ekki að setja neinar „óþarfa“ reglur. Hvað sem manni finnst um það per se er það augljóslega ekki í anda sósíaldemókratíunnar þar sem ákvarðanir eru teknar miðstýrt með hagsmuni heildarinnar fyrir augum – alveg ískalt og í trássi við vilja einhverra „einstaklinga“ – í sósíaldemókratíunni er það ekki upp á samvisku hvers og eins hvort hann pissar laugina heldur er það einfaldlega bannað. Af því við búum öll í sömu folkhemmets-lauginni. Þetta með borgaralega frelsið er líka yfirleitt afstaðan sem Danir taka – grunnstilling þeirra – en Svíar verja hitt. Í norðurlandarígnum. Það eru Svíar sem yfirleitt segja að það sé gott og gilt að úthýsa Svíþjóðardemókrötum þannig að þeir geti ekki leigt sér sal undir ársfund (að vísu er það meira en tíu ára gamalt dæmi – times have changed) en Danir sem segja að maður verði að debatera þá í blöðunum og láta þá viðra af sér skítinn. Niðurstaðan hefur að vísu alltaf verið sú sama – og ef horft er á tölurnar gildir sama um kórónavírusinn. Danir gera einsog Norðmenn en uppskera einsog Svíar. Svíþjóð er líka eina landið hvaðan ég fæ enn fb-boð á viðburði. Útgáfuhóf og svona. Nú er búið að þrengja samkomubannið hjá þeim úr 500 manns í 50 en 50 er ennþá hellingur – allir minni viðburðir ganga enn upp. Eitthvað heyrist mér að viðbrögð í skólum séu misjöfn – skólakerfið í Svíþjóð er miklu líberalíseraðra heldur en hið íslenska og skólarnir ólíkari og frjálsari um að sinna sínu (og rosalega misgóðir – foreldrar í endalausum eltingaleik við að koma börnunum í betri skóla). En það virðast allavega ekki vera neinar miðstýrðar reglur – ég veit um skóla þar sem kennarar eru enn að hitta fleiri hundruð nemendur sem allir éta upp úr sama salatbarnum. Og ég veit um kennara sem vilja ekki vera að kenna við þessar aðstæður en fá bara ekki að sleppa því. Og ég sé líka Svía sem finnst þetta mjög erfitt og sem eru mikið heima. Auðvitað er þetta ekki þannig eðlisólíkt – hin persónulega afstaða er áreiðanlega svipuð milli landanna. Fólk sprittar sig, gætir að fjarlægðum, heldur fjarfundi og vinnur heima ef það getur. Margir Stokkhólmsbúar hafa víst flúið borgina, þar sem veiran geisar, og kvarta undan því að verða fyrir fordómum þar sem þeir koma – það sé komið fram við þá einsog smitbera. Sem þeir gætu auðvitað verið. Íslendingar halda stundum að hér sé rígur milli borgar og landsbyggðar en það er ekkert í samanburði við Svíþjóð. Lattélepjandi Söderbúi trompar lattélepjandi miðborgarrottu án þess að blása úr nös. Við skulum nú ekki einu sinni nefna fólkið sem býr í Gamla Stan eða Östermalm! Og þegar þessi lattélepjandi efri-millistéttartrefill er líka hugsanlega að dreifa smiti um landið sem annars væri lókalíserað er hætt við að fjúki í einhvern. Svíar segja líka að það sé ekki hægt að testa svona stóra þjóð – Kári var í viðtali í DN og hundskammaði þá fyrir að testa ekki. Enda veit ég ekki betur en að Þjóðverjar leggi líka áherslu á að testa og þeir eru eitthvað aðeins fleiri en Svíar. En Tegnell segir þetta samt einsog það sé bara staðreynd. Hvað varðar Tegnell sem slíkan finnst mér alveg ástæða til að hugsa um þetta einsog önnur mál sem ég hef ekki nægt vit á sjálfur (og hafa í huga að þetta er margra ára nám og sérhæfing) t.d. loftslagsvandann. Ef næstum allir sérfræðingarnir segja A (þetta er grafalvarlegt og við þurfum að bregðast við með mikilli festu) en einn og einn segir B (rólegan æsing, við viljum ekki setja efnahaginn á hliðina eða blása þetta upp meira en þörf krefur – örfáar gráður hafa aldrei drepið neinn, mestu skiptir að við sínum persónulega ábyrgð hvert í sínu lífi) þá hallast ég að því að útvista kunnskapnum og trúa bara meirihlutanum. Það þýðir ekki að meirihlutinn hafi rétt fyrir sér – þetta er bara tölfræðiveðmál hjá mér. Og ætti þá auðvitað frekar að halla mér að þýska sóttvarnalækninum en Víði. En svo er kannski líka rúm fyrir að aðstæður séu ólíkar milli landa. Á Ísafirði er skóli til 12 – krakkarnir koma á 40 mínútna bili í kringum átta svo það verði ekki troðningur, fara allir í sínar stofur, taka með sér hádegismat og borða í stofunum og rekast ekki neitt á yfir skóladaginn. Fara ekki einir á klósettið o.s.frv. og eiga ekki að leika saman þvert á bekki eftir skóla (Aino skæpar við vinkonu sína sem býr skotspöl frá okkur; Aram leikur við vini sína í tölvunni á netinu). Fara einu sinni út yfir daginn í bekknum sínum að leika ef veður leyfir – og þá mikið til út af skólalóðinni, sýnist mér. Og ég veit um kennara sem hafa bara farið í sjálfskipaða sóttkví og það best ég veit er því sýndur skilningur. Sennilega er þetta mismunandi eftir skólum líka. Ég varð var við mikla gremju hjá reykvískum foreldrum fyrstu dagana en það hefur nú eitthvað lempast. Ég hélt þetta myndi ekki ganga en sennilega var rétt, sem mér var bent á, að þetta þyrfti bara að venjast. Mér finnst þetta hughreystandi. Kannski er það fölsk hughreysting en samt. Þetta ástand getur varað lengi og sennilega skiptir miklu máli að reyna að setja ekki þjóðfélagið þannig af sporinu að það verði ekki hægt að halda aðgerðunum áfram meðan þess gerist þörf. Kannski er ástæða til enn harðari aðgerða – kannski er allur varinn góður – en maður þarf ábyggilega að eiga einhvern fúnkerandi infrastrúktur (og pening) þegar og ef bóluefni finnst. Kreppan sem tekur við af þessu bitnar líka alveg áreiðanlega mest á þeim sem mega síst við því – það er verkefni sem við verðum að taka mjög alvarlega þegar þessu lýkur. Við gætum annars hæglega setið uppi með mikið ójafnaðarsamfélag. Og að sama skapi þarf að gæta þess gríðarleg vel að undið verði vel ofan af öllu undanþáguástandi – öllu sem líkja má við herlög eða hjáleiðir í bjúrókrasíu. Það þurfa allir að eyða appinu úr símanum sínum þegar þessu lýkur því ríkinu er almennt ekki treystandi – og það breytist ekki þótt maður neyðist til að treysta því tímabundið. Hluti af því er auðvitað að fylgjast með og skjalfesta allt sem gerist núna og horfa gagnrýnum augum á framvinduna. En svona praktískt er sennilega best að maður fari bara varlega og hlýði næstu vikurnar – og kannski skiptir þá engu hvort maður er Svíi, Dani eða Íslendingur. Bara að maður muni líka að gera hlýðnina ekki að ávana. *** Ég hef annars notað frítíma minn í það sem róar mig. Að smíða og mála gítarinn og taka upp músík þegar gítarinn er að þorna og svona. Bæði er pínu klúðurslegt og svona en mér fer samt fram. Og það er róandi. Ég er bara mjög bærilegur hvað sem líður langlokum og grímum. Hér eru tvö lög – Wang Dang Doodle eftir Willie Dixon (ég er mjög ánægður með sólóið reyndar – stutt og gott) og Chocolate Jesus eftir Tom Waits.

id““:““it4v““

Ég man ekki hvenær ég var síðast svona hressilega lasinn. Ég fann fyrir þessu koma yfir mig alla síðustu viku – hamaðist í ræktinni til þess að koma henni í gang (ég veit ekkert leiðinlegra en að vera hálflasinn í þrjár vikur, betra að ljúka þessu bara af) en gekk ekkert fyrren ég datt frekar kyrfilega í það með Steinari á föstudaginn. Laugardagur fór í að sjá rennsli á Hans Blævi og lifa af. Nú er ég rúmliggjandi annan daginn í röð. *** Það útskýrir sem sagt heilaþokuna. *** Eðli málsins samkvæmt – eða í samræmi við ráðandi móral augnabliksins, in situ 2018 – hefur komið upp spurningin um  hver megi segja hvað , hver megi skrifa um hvern, hvaða „hóp“ og hvernig og svo framvegis. Nánar tiltekið má sísheterókarlmaður (að svo miklu leyti sem fullkomið slíkt eintak er einu sinni til) skrifa um intersex-transa á borð við Hans Blævi – og enn fremur, má skrifa um slíkan einstakling út frá einhverju öðru en kyngervi hánar einvörðungu? Það er að segja: að hversu miklu leyti má Hans Blær vera eitthvað  fleira en kynseginmanneskja og að hversu miklu leyti má saga um hána (verandi obsessífur einstaklingshyggjumaður beygir hán nafn sitt og persónufornafn eftir eigin duttlungum) snúast um annað eða fleira en útkomu- eða tilurðarsögu. Hér er auðvitað ekki síst spurt um vald en líka um staðalmyndir og svo leyfi skáldskaparins – eða jafnvel leyfisleysi, og þá  nauðsyn . Nauðsyn skáldskaparins má skilja tvíþætt – annars vegar þá  þá verður skáldskapurinn  að fást við það sem hann verður að fást við (enda list unnin instinktíft, maður bara eltir á sér halann). Þar er engin afsökun fyrir því að skrifa ekki það sem maður vill/þarf að skrifa – engin afsökun fyrir því að hætta að elta á sér halann. Hins vegar má skilja nauðsyn skáldskaparins sem hálfgerðan tilvistarvanda. Þá gæti maður sagt: Það skiptir kannski engu þótt ég skrifi þetta ekki – en bara að svo miklu leyti sem það skiptir engu máli að við eigum heiðarlegan literatúr. Eða literatúr yfir höfuð. Ég held vel að merkja að list einkennist einmitt oft af tilgangsleysi – fallegu, ögrandi, ljótu, ómerkilegu tilgangsleysi, einhvers konar poti í myrkrinu. *** Það eru til ótal dæmi um bókmenntir og listaverk sem brjóta á siðferðishugmyndum samfélagsins. Klassískust og þau sem flestir eru einfaldlega sammála um að séu „yfir strikið“ eru verk þar sem einhver meiðist líkamlega – Guillermo Vargas svelti hund í galleríi, Teemu Mäki drap kött og fróaði sér yfir skrokkinn. Aðeins nær strikinu eru verk þar sem einhvers konar „val“ á sér stað – einsog þegar Santiago Serra borgar vændiskonum fyrir að mega tattúvera þær. Í þessum tilvikum nær listaverkið inn fyrir hold einhvers annars og flestum ofbýður. *** En listaverk geta auðvitað meitt án þess að rista í holdið og er oft talið það til tekna – ef bók grætir gagnrýnanda er því skellt á bókarkápuna sem hæstu mögulegu meðmælum. Aðrar bækur stefna t.d. að hreinsun fyrir sakir ógeðs – de Sade er eitt, Saga augans eftir Bataille (eftirlætis bók Hans Blævar) er annað. Bókum og listaverkum af því tagi er ætlað að koma manninum í samband við skepnuna sem býr innra með honum, ekki til þess að hún taki yfir vel að merkja – eða í það minnsta ekki endilega, það má jafnvel sjá það sem aflausn eða útrás, leið til að losna við skepnuna úr sínu daglega lífi – en fyrst og fremst til að afhjúpa þann sannleika að við séum fyrst og fremst skepnur og ekki yfir það hafin. Og bækur geta ætlað sér kaþarsis fyrir sakir fegurðar, samstöðu með hinu valdlausu, gáfnaþunga o.s.frv. o.s.frv. *** Mögulegar transgressjónir í frásögnum geta líka snúið að raunverulegum persónum. Þar er satíran samþykktust – þótt hún geti oft verið grimmileg, skemmst er að minnast skrifa Steinars Braga um Jón Kalman í Kötu, þar sem höfundareinkenni JK eru höfð að athlægi og ein sögupersónan endar á að klæða sig í eins konar húðklæði úr líkama Jóns Kalmans. Vægari dæmi er að finna í hverju einasta áramótaskaupi. En transgressjónir inn á „raunverulega persónu“ einhvers annars þurfa ekki að vera settar fram í neinu gríni – Hallgrímur Helgason hefur oft gengið freklega, að mörgum þykir, á líf raunverulegra manneskja, bæði undir eigin nafni og nafni endurskírðra skáldsagnapersóna. Laxness þótti oft ganga hart að sínum fyrirmyndum. Í hvað-ef bókum á borð við Örninn og fálkann eftir Val Gunnarsson er delerað heil lifandis býsn um hvað raunverulegt fólk hefði gert við aðstæður sem aldrei komu upp – og þar hlýtur það fólk ekki alltaf fallegan dóm, eðli málsins samkvæmt. *** Oft er viðmiðið hérna að það megi skrifa satíru um „opinbera persónu“ – en annað viðmið væri að það mætti skrifa um opinbera persónu sem nyti valds. Þannig mætti t.d. segja að fórnarlömb glæpa væru opinberar persónu, hafi mál þeirra verið í fjölmiðlum, en það mætti samt ekki nota þau í satírur – og að einhverju leyti gildi sama um glæpamenn, sem séu oft sjúklingar (ótal dæmi um brot af þessu tagi má finna á fyrstu plötu Rottweiler hundana). Aðrir myndu telja með fólk í mannréttindabaráttu – í raun væri hægt að halda áfram ansi lengi. Segja að grínið verði að vera góðlegt, og því góðlegra sem manneskjan er valdaminni (þarf t.d. grín um Trump að vera góðlegt?) Og hvað gerum við þá við Múhameð – sem er auðvitað valdmikill, og á meðan sumir fylgjenda hans eru augljóslega meðal valdamesta fólks heimsins þá eru aðrir meðal þeirra allra valdaminnstu. Valdagreining er aldrei neitt sérstaklega einföld. *** Hermann Stefánsson notaði Ólaf Jóhann í einni af sínum bókum – og bað að sögn einfaldlega um leyfi og fékk það. En þá var heldur ekkert sérstaklega særandi í gangi þar – og stundum geta bókmenntir þurft að fara á særandi slóðir. Bókmenntir eru ekki bara til fróunar og huggunar, ekki bara skemmtiatriði. Hvað hefði Hermann gert ef bókin hefði leitt hann þangað – og ef Ólafur hefði orðið hvekktur? Hætt við að gefa út bókina? Skrifað plástur á bágtið? Ólafur er náttúrulega rosalega ríkur maður. Getur bara keypt sér sína eigins plástra. *** Önnur transgressjón bókmennta snýr einfaldlega að sanngildi. Þar getur verið um að ræða verk á borð við helfararminningar Mishu DeFonseca, sem sagðist hafa flúið úr Auschwitz og lifað með úlfum, eða dópistasöguna A Million Little Pieces eftir James Frey – sem gabbaði m.a.s. Opruh og var orðinn solítt bókmenntastjarna þegar í ljós kom að þetta var allt lygi. Eða, það er að segja, þetta var allt skáldskapur . Önnur tegund sanngildis er svo nær mörkunum – einsog í skáldsögum JT Leroy, sem voru skilgreindar nær skáldsögunni, en samt gefið í skyn að höfundur byggði á eigin reynslu (af því að vera HIV-smitaður samkynhneigður dópisti í New York) – sem var svo einfaldlega af og frá. Höfundur var amerísk úthverfakona úr efri millistétt sem hafði í besta falli fengið sér advil og hvítvín af og til. *** Sanngildistransgressjóninni lýkur samt ekki þarna. Það er hægt að fara ansi langt. Þannig náði rithöfundurinn Forrest Carter talsverðum tökum á hippakynslóðinni með bók sinni Uppvöxtur Litla Trés – sem til er í þýðingu Gyrðis Elíassonar. Bókin fjallar um dreng sem er að fjórðungi, minnir mig, Cherokee og elst upp hjá afa sínum sem kennir honum um mikilvægi arfleiðarinnar, að bera virðingu fyrir náttúrunni og svo framvegis. Aftur var því haldið fram að hún byggði á reynslu höfundar. Nokkru eftir að bókin kom út kom hins vegar í ljós að höfundurinn, Forrest, átti sér enga greinanlega barnæsku – það voru engar heimildir. Kom upp úr kafinu að hann hafði skipt um nafn og áður heitið Asa Carter, verið útvarpsmaður og ræðuskrifari, háttsettur í Ku Klux Klan og meðal annars skrifað hina fleygu og frægu ræðu George Wallace, þar sem hann lofar því að aðskilnaðarstefnan verði aldrei afnumin: *** Við þetta má svo bæta að það hefur aldrei almennilega fengist úr því skorið hvort að Forrest var að hluta Cherokee eða ekki – en það er ekki endilega neitt í heimspeki bókarinnar sem er í andstöðu við heimspeki KKK. Hann hélt því fram að hann væri Cherokee en Forrest neitaði því einfaldlega alla tíð að hann væri eða hefði verið Asa – en það eru hins vegar til heimildir um að Asa hafi sagst vera Cherokee og það var alls ekkert óalgengt í klaninu að menn teldu sig hafa rætur til innfæddra (rætur á landinu – það gerist auðvitað ekki betra). En gamall vinur Asa úr KKK sagðist hafa komið að hitta hann einu sinni eftir að hann var orðinn frægur og dottið í það með honum og Forrest hefði þá játað því að hafa skrifað bókina til að afhjúpa hvað hipparnir væru grunnhyggnir og vitlausir. Þeir gleypa við hverju sem er, sagði hann. *** Enn eitt dæmi eru ljóðasvindl á borð við Ern Malley – þar sem tveir náungar tóku sig til, bjuggu til módernískt ljóðskáld og ortu bók í hans stað, á einni kvöldstund, til þess að sýna fram á að módernísk ljóðlist væri bara rugl og kræfist hvorki kunnáttu, vinnu né þekkingar. *** Spurningin sem sprettur oftast upp er þá eitthvað á þessa leið: Væri þetta verk  annað verk ef höfundurinn væri önnur manneskja? Ef að Crosby, Stills og/eða Nash hefðu skrifað Uppvöxt Litla Trés, væri það þá önnur bók? Ef að ljóð Erns Malleys hefðu verið ort af einlægni og natni – en væru samt alveg eins – væru þau þá „betri“ (gagnrýnendum þótti bókin alltílagi – og ljóðin eru satt að segja fín)? Ef að Forrest væri Asa en væri  líka Cherokee – hvað þá? *** Nú vill til að flest listaverk sem gerð eru um transfólk sögupersónur eru ekki skrifaðar, leiknar, framleiddar, leikstýrt o.s.frv. af transfólki og þær sögur sem hafa verið sagðar um transfólk eru eins misjafnar og þær eru margar, bæði að gæðum og innihaldi. Auk þess vill til að flestar sögur sem sagðar eru fjalla um fjöldann allan af fólki sem allt á sér sinn eigin bakgrunn, sína eigin sögu, tilheyrir sinni eigin demógrafíu, hefur sín eigin völd, dílar við sitt eigið valdleysi, er fast í sínum eigin mótsögnum – enda eru bækur, líka karakterstúdíur á borð við Hans Blævi, ekki síst um heil samfélög. *** Það er mjög mikið af mér í flestum mínum sögupersónum, sérstaklega þeim sem eru í forgrunni, en samt eru þessar persónur yfirleitt alls ekki ég – og kannski síst af öllu ísfirsku rithöfundarnir í Heimsku og miklu frekar hin litháíska Agnes í Illsku, tranströllið Hans Blær eða Lotta mamma hans, nú eða nasíski sagnfræðineminn Arnór. *** Að því sögðu hef ég heldur aldrei skrifað sögupersónu sem er jafn mikill einstaklingur og einstaklingshyggjumaður og Hans Blævi – öll hánar tilvist snýst beinlínis um það að  tilheyra ekki neinum hópi . Hán er mótþróaröskunin holdi klætt. Og þar með engu líkt. *** Leikverkið verður frumsýnt á miðvikudag. Mér finnst það auðvitað óttalega lítið miðað við bókina – fjögur hundruð blaðsíðna bók soðin niður í 40 síðna leikrit. Textinn er skorinn við nögl. En svo bætir leiklistin auðvitað heilmiklu við (þau ætla ekki bara að leiklesa þessar 40 síður – og hafa raunar líka kokkað þær mikið sjálf, blandað saman senum o.s.frv.). Það var að mörgu leyti auðveldara að stytta Illsku vegna þess að hún innihélt svo margar sögur sem mátti hoppa yfir eða sleppa. Hans Blær er meiri karakterstúdía og núansarnir mikilvægari – einmitt kannski vegna þess að hún er á brúninni. Ég er mjög spenntur að sjá hvernig til tekst á miðvikudag. *** Það vill til að ég er að klára bókina á alveg sama tíma. Ef ég kemst úr rúminu á morgun ætti ég að geta náð að klára leiðréttingar og fix annað kvöld – tek þá með mér útprentið suður og út og færi inn krotið á hótelinu. *** Á fimmtudag flýg ég sem sagt til Umeå í Svíþjóð, þar sem ég átti að vera lesa upp með nóbelsverðlaunakandídatinum Ko Un – sem er einmitt aftur dæmi sem mætti taka í umræðunni um hvort höfundurinn skipti máli. Ég skrifaði helling um Ko Un fyrir Starafugl í vetur í tilefni af þýðingum Gyrðis. Í sem skemmstu máli er hann gamall andófsmaður sem sat lengi í fangelsi og var pyntaður vegna mótmæla gegn suður kóresku ríkisstjórninni og hefur ort mikið af fallegustu ljóðum síðustu aldar. Hann er fjörgamall og var metooaður á dögunum – kemur í ljós að sennilega hefur hann verið dónakall, að því er ég kemst næst svona sirkabát af Dustin Hoffman alvarleika (þ.e.a.s. berar sig, klæmist, káfar og vill hluti, frekar en að hann nauðgi og berji og kúgi) – og suður kóreska ríkið gerði sér lítið fyrir og fjarlægði hann bara úr kennslubókum. Enda, sagði talsmaður ríkisins, hefðu ljóð hans aðra siðferðislega merkingu nú þegar í ljós er komið að hann var ekki góð manneskja heldur vond (einsog ríkið hélt náttúrulega fram, árum saman, með réttu). Og þá er best að ljóðin hans séu ekki til lengur. Hann aflýsti öllum evróputúrnum sínum af heilsufarsástæðum (hann hefur líka verið í uppskurði, að sögn). En ég verð nú samt sem betur fer ekki einn í Svíþjóð. *** Maður verður svolítið óðamála af að liggja svona í rúminu með sótthita. Svona hlýtur Raskolnikov að hafa liðið.

id““:““5khei““

Ég var of lúinn til að færa dagbók síðasta mánudag. Of önnum kafinn. Og á ferðalagi frá Umeå. Og of mikil læti í kringum leikritið. En mér tókst að klára skáldsöguna og senda hana frá mér í fyrradag. Nema það hafi verið í hittifyrradag. Vikan og helgin hafa verið svo sturluð að ég er hreint ekki alveg viss. En ég ætla að fagna verklokum í kvöld. Það er að vísu ýmislegt eftir og sennilega margar breytingar í áframhaldandi ritstjórn – en þetta er samt einhvers konar endir, verkið hefur tekið á sig mynd. *** Leikritið var frumsýnt fyrir tæpum tveimur vikum. Það hafði þegar vakið einhverja athygli – Ugla Stefanía var ósátt við forsendur þess og tjáði sig um það, fyrst á Facebook og svo í viðtali við Gay Iceland vefinn . Fyrirsögnina þar mátti svo skilja að gervallt hinsegin samfélagið væri „furious“ (tryllt, hamslaust, ofsareitt) vegna leikritsins. Sem var sannarlega ónákvæmt. Ósáttin hafði meira að gera með viðtal sem við Vignir leikstjóri fórum í hjá RÚV þar sem ég komst að einhverju leyti óheppilega að orði – og svo afstöðu gagnvart leikritinu, sem ég get ekki skilið og get ekki skilið að neinn sem ekki hefur séð það geti leyft sér. Auk þess hef ég heyrt í nógu mörgum vinum og kunningjum í hinsegin og kynsegin samfélaginu til þess að vita að „samfélagið“ er langt í frá búið að afskrifa mig sem bandamann, þótt Ugla hafi gert það. *** Ég svaraði Uglu líka á sama vettvangi og baðst afsökunar á óheppilegu orðavali og reyndi að útskýra afstöðu mína til skáldskaparins. Ég hafði ákveðið að gefa mér alltaf að minnsta kosti viku til þess að svara nokkrum mögulegum uppákomum vegna verksins – og þá helst alltaf skriflega. Ég sveik þetta með tímann strax í fyrsta skrefi og réttlæti það með því að kynseginsamfélagið ætti annars konar tilkall til þess að ég stæði fyrir máli mínu en t.d. bara Vísir eða DV. Ég hef hins vegar talsvert velt því fyrir mér þessa síðustu daga hvort ég eigi ekki bara að leyfa leikritinu og skáldsögunni að tala eigin máli. Mig langar að bera hönd fyrir höfuð mér vegna þess að ég kæri mig ekki um að vera útmálaður sem óvinur trans fólks – en ég vil ekki að verkið verði smættað niður í sósíalrealískt verk um trans, vil ekki taka þátt í að setja allan fókus á þessa einu hlið þess. Nú hljómar það einsog mótsögn, og sennilega er það mótsögn þótt ég geti ekki alveg útskýrt hvers vegna hún truflar mig ekki, en þótt ég haldi þessa dagbók langar mig í raun ekki nema takmarkað að tjá mig um verkið. Mér finnst einsog ef ég ráði ekki alveg ferðinni sjálfur, þá stígi ég svo auðveldlega í veg fyrir það. Þetta er hugsanlega vitleysa og hugsanlega ber ég ábyrgð á því að fylgja verkinu úr hlaði, reyna að tryggja að viðtökur þess séu í samræmi við vilja minn og metnað. Og gagnvart sjálfum mér – mínum eigin heilindum. Að ég láti ekki troða mér í einhvern kassa. *** En það voru fleiri ósáttir við innslagið í Kastljósi. Nettröllið Lord Pepe hélt um þetta lítinn fyrirlestur á YouTube-rás sinni – kallaði mig „uppstrílaða listaspíru“ og hvaðeina. Hann var sem sagt einna helst óánægður með að ég skyldi kalla Milo Yiannopoulus diet-fasista og segja að það væri þægilegt fyrir íslamófóbana að eiga Ayan Hirsi Ali að, til þess að úthúða múslimunum. Þetta hefst þegar sirka 1 mínúta og 45 sekúndur eru liðnar af myndbandinu. *** Sigríður Jónsdóttir á Fréttablaðinu er eina manneskjan, so far, sem hefur séð verkið og verið ósátt við það . Henni fannst Illska líka hundleiðinleg – þótt hún hefði fengið heilli stjörnu meira á sínum tíma – en sennilega nær fagurfræði okkar Óskabarnanna og hennar ekki vel saman. Hvað um það. Hún skrifaði frekar reiðilegan og – leyfist mér að segja – hneykslaðan pistil um forsendur verksins og hvað hún hefði hneykslast lítið (af langri reynslu er það jafnan bara fólkið sem hneykslast mest sem þarf að hafa orð á því hvað það hafi hneykslast lítið). Eða, svo það sé leyst úr flækjunni, þá hneykslaðist hún  ekki á persónunni Hans Blævi en hún hneykslaðist  mjög á forsendum leikritsins. Ég er henni augljóslega ósammála um forsendurnar og finnst hún harðbrjósta að svitna ekki smá yfir ólátunum í Hans – en það er aukaatriði. *** Það sem truflaði mig mest (og nú er ég að fara að stíga í veg fyrir eigið verk) var sú hugmynd hennar að sögupersónur væru „ósnertar af feðraveldinu“. Hans Blær er intersex manneskja hvers kyn var bælt af samfélaginu í kringum hána; hán er bæði fórnarlamb og gerandi í nauðgunarmálum (og rekur meðferðarheimili fyrir fórnarlömb nauðgana); móðir hánar er gift skipstjóra sem í krafti tekna sinna kemur fram við hana einsog hún sé ekki til o.s.frv. o.s.frv. Ég gæti haldið áfram að telja þetta upp í allan dag. Það er bókstaflega varla einn einasti punktur í öllu leikritinu, handriti, dansi, bendingum, grettum o.s.frv. sem er ekki í beinni snertingu við feðraveldið – og mörg blæðandi sár á eftir. Það liggur við að ég haldi að hún hafi verið á einhverju öðru verki. *** Önnur gagnrýni var jákvæðari. María Kristjáns í Víðsjá , Snæbjörn og Bryndís í Kastljósinu og Silja á TMM voru öll í skýjunum. Sérstaklega fannst mér Maríu takast vel að hugsa með verkinu , frekar en gegn því (þótt slíkur lestur geti stundum líka verið frjór) – en hún hafði líka mestan tíma (gagnrýni í Kastljósi var 3 mínútur – Vignir trompaðist – og Silja birti sína strax daginn eftir). En ég vil þó koma því að – í tengslum við gagnrýni Maríu – að orðið gálkn, sem Hans Blær notar yfir kynfæri sín, er ekki sama og trans píka. Gálkn er í fyrsta lagi uppnefni komið frá móður hánar – ekki ósvipað og sumum konum hefur verið kennt að kalla píkuna á sér „skömm“ eða „ónefna“ eða „tuðra“ – og í öðru lagi alls ekki píka, hvorki trans né sís, heldur millibilskynfæri intersex manneskju. Þetta er ekki útskýrt í þaula í leikritinu þótt það komi fram. Svona hlutir verða samt alltaf skýrari í bók en á sviði, einfaldlega vegna þess að það er hægt að fara dýpra í þá og lesandi getur endurlesið þá. *** Þá hefur eitthvað borið á misskilningi á því hvað Hans Blær er – og skal engan undra – því hán er  í senn kynsegin, trans og intersex. Hán er kynsegin vegna þess að hán upplifir sig á rófinu – mismikið karl, kona og allt þar á milli – trans vegna þess að hán upplifir kyngervi sitt (mismikið) á skjön við líkama sinn og intersex vegna þess að hán er með klitoromegali (ofvaxinn sníp) af óþekktum ástæðum (hán er s.s. ekki greint með neitt annað ástand og klitoromegali getur átt sér margar mismunandi orsakir).

createdTimestamp““:““2024-05-17T01:07:22.277Z““

Lyklaborðið á tölvunni er sjóðandi heitt af sólinni sem skín innum gluggann. Það er eitthvað ríflega 25 stiga hiti. Og mér svíður í fingurgóma vinstri handar af að slá á lyklaborðið vegna þess að í gær spilaði ég svo mikið á gítar. Mikið verandi tæp klukkustund, kannski. Í gítarbúð, sem sagt – prófaði tæplega þúsund skepnur. Einu sinni var ég með sigg á fingrunum – þegar ég spilaði á gítar og vann í rækjuverksmiðju. Ég hætti báðu um svipað leyti, þegar ég hugsa út í það, og byrjaði líka um svipað leyti. Frá 12 til 21 árs. Og nú er ég bara með lúserafingurgóma. Ljóðskáldafingur. Ég ætla að taka næturlestina til Malmö og heimsækja Per vin minn og kaupa mér rafmagnsgítar. Líklega verður það Epiphone SG en ég ætla að prófa allt sem ég kemst í og hef efni á. Síðast átti ég Ibanez Joe Satriani, rjómahvítan. Mest langar mig í Italia Maranello 61 – eða Speedster – en ég hef ekki efni á þeim. Og Epiphoninn er ekki beinlínis leiðinlegur. Það kemst sem sagt eiginlega ekkert annað að í hugsunum mínum. Miðaldrakrísan, ha? Ég get þó alltaf huggað mig að vera ekki sprangandi um í leðurjakka, einsog sumir. En ég ætla að pikka upp alla Appetite for Destruction plötuna. Í dag eru einmitt liðin 29 ár frá því að hún kom út. Annars er ég frekar andlaus eitthvað að tittlingast í nokkrum ljóðum. N&A&A fóru til Rejmyre í dag. Ég er að ganga frá í íbúðinni og búa mig undir næturlestina. Og gítarkaup. Og sánabað með Per og Mats, bjórdrykkju, mat og svo framvegis í Malmö.

createdTimestamp““:““2024-05-14T00:17:30.322Z““

Engar myndir í dag. Ég er fátt búinn að gera annað en að pússa þessa vikuna. Í sjálfu sér var það að meira að segja dálítill óþarfi því ég á eftir að þurfa að pússa sumt af þessu aftur – enda verða einhver átök við skrokkinn áður en yfir lýkur. Ég er að bíða eftir hlyni frá Króatíu og hálsi frá Bandaríkjunum og fékk sendingu með fínum sandpappír og púðum, skapalóni fyrir hálsvasann, dremilstönn og tólhaldi (jig) til að fræsa fyrir bindingunni. Sem ég kalla stundum líningu. Það er margt sem ég veit í raun ekki hvað heitir í þessu öllu saman – sérstaklega á íslensku. Eitthvað get ég samt gert áður en hlynurinn kemur. Ég get borað fyrir ólhnöppunum. Ég þarf að dýpka aðeins rásirnar fyrir snúrurnar. Tala við gullsmiðinn um að grafa í hálsplötuna. Hanna merkingu á hausinn. Prófa að bæsa afgangsspýtur til að sjá hvernig það lúkkar. Ég boraði reyndar fyrir plasthlífinni aftaná. Það gekk bærilega og skrúfurnar sem ég fékk eru allt í lagi aftan á gítarinn en ég þarf að finna einhverjar fallegri til að setja í klórplötuna – sem ég sendi suður til Adda í síðustu viku. Ég boraði líka fyrir innputtinu og þar er allt í fína. *** Ég spilaði líka fyrir framan fólk á föstudaginn. Í fyrsta skipti í þrjú eða fjögur ár, held ég, og við svipaðar aðstæður og þá. Sem sagt í óæfðri partíhljómsveit af stórtilefni – þá var það 10 ára brúðkaupsafmæli vina minna en nú fertugsafmæli annars vinar. Það var mjög gaman þótt ég kynni ekki lögin og væri aðallega að elta hljómsveitarstjórann, Gumma Hjalta. Ég var gríðarlega stressaður og bókstaflega skalf einsog hrísla fyrstu 20 mínúturnar og sneri baki í áhorfendur eins mikið og ég komst upp með. Og hefði ábyggilega ekki farið upp á svið ef ég hefði ekki pínt mig til að taka með mér gítarinn, af því ég var búinn að nefna það við Nödju og afmælisbarnið (sem spilaði á cajon trommukassa) og hefði skammast mín fyrir hugleysið ef ég hefði sleppt því, og  Gummi svo nánast komið og sótt mig þegar þau voru búin að spila 2-3 lög. Stressið fer líka alveg með mann. Maður er talsvert betri gítarleikari heima í stofu að djamma með sjálfum sér. Sennilega skánar maður mjög hratt af því að venjast þessu en það munar ábyggilega alltaf a.m.k. tíund. Ég átti í mestu erfiðleikum með að muna einföldustu hljómaskiptingar og þurfti því að stara á fingurna á Gumma allan tímann – og eyrað, sem er kannski ekkert frábært, var alveg úr sambandi. Ég tók nokkur sóló og hékk bara í fyrstu stöðu pentatóníska blússkalans og var ekkert að flækja spilamennskuna með dýnamík, tvíhljómum eða lærðum likkum, og var alltof frosinn til þess að velta því fyrir mér á hvaða nótum ég væri að lenda í hljómaskiptingum. Hugsaði bara um að lifa af. Í einu laginu, ég man ekki hverju, gekk ómögulega að spila pentatónískan blús og þá lenti ég bara á einhverjum villigötum. En mér tókst svo sem að feika mig í gegnum megnið af þessu. Og það var mjög gaman. Ég væri til í að spila meira – alls konar tónlist í sjálfu sér, en mest blús og blússkotið. Næst væri ég líka til í að vera minna stressaður og með minn eigin magnara og pedalana mína (ekki að fenderinn hans Gumma hafi ekki verið frábær – en það er þægilegra að þekkja sjálfan sig í hátalaranum). *** Gítarleikari vikunnar er Eddie Hazel í Funkadelic og lagið er viðstöðulaust tíu mínútna fönksóló fyrir lengra komna – spunnið frekar en samið. Hljómsveitarstjórinn, George Clinton, ku hafa beðið Eddie Hazel að ímynda sér fyrst að hann hefði fengið fréttir af dauða móður sinnar – en svo að hún væri á lífi og þetta var hin harm- og gleðiþrungna útkoma.

id““:““dillp““

Það er ekki nema mánuður frá því ég ákvað að skoða blúsárið og gera einhvers konar lista yfir bestu plötur ársins. Einsog allir hinir tónlistarbloggararnir. Það er ekki ósvipað að leita að góðum nýjum blúsplötum og að finna góðar nýjar ljóðabækur – ég elska bæði ljóð og blús en verð samt að viðurkenna að það er furðu mikið af efni sem … tja höfðar ekki til mín, skulum við segja, til þess að vera ekki með neinn ruddaskap á þessu annars virðulega bloggi. Það kom mér síðan gleðilega á óvart að ég mér tókst að finna tíu plötur – og raunar ríflega það – sem mér þykja verulega góðar og það var ekki einu sinni neitt æðislega erfitt. Sennilega hefur samtímablúsinn það betra en ég hélt.  Einsog nærri öll ár frá 1970 voru langflestar blúsplötur ársins af því taginu þar sem stórsveit leikur undir, lagasmíðarnar renna hver inn í aðra, og sólóin eru aldrei minna en korter. Þetta er gjöðbilað þegar sannur virtúós heldur um sólógítarinn – og annars ágætt en bara í litlum skömmtum. Sem betur fer er frekar fljótgert að sía það efni einfaldlega út. Joe Bonamassa gaf út ágæta þannig plötu í ár, fyrir þá sem fíla það – Royal Tea – en hún er ekki á þessum lista. Sá sem komst næst því að vera með var Dion með plötuna Blues With Friends, þar sem Bonamassa kemur raunar við sögu, en líka Paul Simon, Rory Block, Billy Gibbons, Samantha Fish og fleiri. Bob Dylan gaf út Rough and Rowdy Ways, sem er að mörgu leyti frábær – þótt hún sé líka svolítið bara Dylan-samur-við-sig-dæmi – en það er líka bara annað hvert lag á henni blúslag.  Lucinda Williams var líka á mörgum topplistum með Good Souls Better Angels og það er áreiðanlega mjög umdeilt en mér fannst sú plata bara alls ekkert sérstök. Og miklu meira generískt ameríkana en blús. Shemekia Copeland gaf út mikla drottningarskífu – og hún er ofsaleg söngkona – en lagasmíðarnar heilluðu mig ekki nóg og textasmíðarnar voru svolítið of topikal fyrir minn smekk, einsog raunar hjá Lucindu líka og víðar. Ég skil að maður sé í öngum sínum yfir Trump – en ég get ekki svona ljóðrænt mál yfir hvað hann sé mikið dick einsog í „Man Without a Soul“ hjá Lucindu eða „Money Makes You Ugly“ eftir Shemekiu (sem lyktar líka af pie-in-the-sky-speki). Textinn við „Apple Pie and a .45“ er reyndar svolítið fyndinn – þótt lagið taki sig svolítið of alvarlega til að bera húmorinn (og þetta á áreiðanlega ekki að vera fyndið).  Apple pie and a .45
Mama’s readin guns n ammo
Sippin lemonade
Baby’s in the backyard
Tossin hand grenades
Grandpa’s shootin dinner
Some possum and some squirrel
Last night they ended up shooting
Our neighbor’s baby girl
Everybody’s so upset
Every person in the town
But that can’t bring a life back
After it’s shot down Ben Levin, Frank Bey og Don Bryant voru báðir með góðar plötur sem komust ekki á listann. Catfish Keith var með plötu sem var svolítið of fyrirsjáanleg – skorti aðeins karakter en hefði getað farið betur, fanta kassagítarleikur. Fantastic Negrito var með einhvers konar tilraun til formbyltingar – sem endaði í ágætis plötu sem fór samt of langt út fyrir rammann, missti tengslin við einhvern blúskjarna.  Ég hef auðvitað ekki verið að hlusta á nýjar blúsplötur í allt ár, heldur fyrst og fremst gamlar, og sennilega ber listinn þess merki að ég er ekki 100% með á nótunum. Ég fór í gegnum aðra árslista, sló upp tónlistarmönnum sem ég hef haft mætur á og reyndi að sjá hvað og hvort þeir hefðu verið að gefa út í ár. Endaði með kannski 40-50 plötur sem ég skar fljótt niður í um 20, sem ég hlustaði betur á og endaði svo með þessar tíu hér að neðan. Ég er búinn að endurraða fyrstu fimm plötunum margsinnis en síðari tíu plöturnar hafa meira og minna setið kyrrar í sínum sætum. Ég held ég sé sáttur í dag en myndi ábyggilega endurraða aftur á morgun.  ____________________________________________________________________ 1. Bobby Rush – Rawer Than Raw Rawer Than Raw er ein af þremur plötum á þessum lista sem inniheldur lag eftir Skip James. Það segir sennilega sitthvað um minn smekk. Bobby Rush er fæddur 1933 sem gerir hann 87 ára – og aldursforseta á listanum. Hann hefur verið að gefa út tónlist frá því upp úr 1970 en leikið hana meira og minna alla ævi. Það var þó ekki fyrren fyrir fjórum árum að hann vann sín fyrstu Grammy-verðlaun – skömmu eftir að hafa vakið athygli í blúsheimildarmyndinni The Road to Memphis sem Richard Pearce leikstýrði en Martin Scorsese pródúseraði.  Bobby hefur í fleiri áratugi ferðast um og leikið tónlist – keyrir sína eigin rútu og spilar meira og minna linnulaust. Yfirleitt hefur hann verið að spila með hljómsveit en á síðustu árum hefur hann einfaldað settið og „farið í ræturnar“ – og leikið blúsinn einsog hann lærði hann í æsku. Þetta er a.m.k. þriðja þannig platan – en sú fyrsta hét bara Raw.  Hér eru alls konar klassíkerar. Fyrir utan Hard Times eftir Skip James er Down in Missisippi eftir JB Lenoir, Honey Bee eftir Muddy Waters og fleiri. Í flestum lögunum er Bobby bara einn á gítar, stappandi fót, munnhörpu og rödd – útsetningarnar eru í senn hefðbundnar og sérviskulegar, einsog vera ber í þessari músík. Það er líka gaman að þótt hann spili roots blús þá eru lögin ekki öll sótt til þriðja eða fjórða áratugarins – heldur í hans eigin rætur, sem liggja nær þeim sjötta og sjöunda.  Bobby hefur ótrúlega magnaða rödd – sem nýtur sín miklu betur í einfaldari útsetningum – og gítarleikurinn er sólítt og tilfinningaríkur, en sjaldan skrautlegur eða hégómlegur.  ____________________________________________________________________ 2. Bettye Lavette – Blackbirds  Það fer meira fyrir reynsluboltum en vaxtarsprotum á þessum lista. Og kemur kannski ekki á óvart. Það er ekki endilega spurning um að blúsinn sé að deyja, einsog maður gæti ímyndað sér, heldur hefur hár aldur lengi verið virtur og jafnvel til marks um að eitthvað sé meira ekta – það sé raunveruleg reynsla að baki, raunverulegur blús, og viðkomandi sé búinn að gjalda sitt – paid his dues. Blúsinn er varla tíu ára þegar hann þykir jafn gamall syndinni og hefur glatað öllu nýjabrumi. Nýliðun í frægðarhöll blússins á sér ekki síst stað meðal ellilífeyrisþega. Þrír þeirra sem eru á þessum lista voru nánast óþekktir fyrir 15 árum.  Bettye Lavette er fædd 1946 og Blackbirds er í grunninn drottningarblús, af skóla Bessie Smith og Ma Rainey, en með alls kyns módern þreifingum. Sándið er oft seventís, slatti af wah wah gítörum og einhverjum farfísum. Röddin er gömul og brostin og reynd – en sannarlega segi ég yður, það er varla neinn sem syngur svona fallega, af jafn yfirveguðum og svölum harmi. Bettye byrjaði að gera tónlist 16 ára en sló ekki í gegn almennilega fyrren 2005 – sem er aftur þetta með aldurinn. Á meðan það hefur enginn áhuga á fertugri rokkstjörnu eru blúsarar oft ekki raunverulega áhugaverðir fyrren eftir sextugt.  Það er ekki heiglum hent að leika eftir Strange Fruit – og enginn mun nokkurn tíma gera það einsog Billie Holiday. En þetta er samt fáránlega gott – og ég tek hattinn ofan fyrir pródúsentinum sem fer öfuga leið við svo til alla nútildags og drekkir ekki þessari fögru rödd í bleytu (reverb og echo) heldur leyfir henni að njóta sín á þurru landi: ____________________________________________________________________ 3. Jimmy „Duck“ Holmes – Cypress Grove Jimmy „Duck“ Holmes er fæddur 1947 og sagður vera síðasti Bentonia-blúsarinn. Mér skilst að það séu fremur hæpnar forsendur fyrir því að kalla Bentonia-blúsinn sína eigin stefnu. Rætur hans og sánd teygja sig í öllu falli langt út fyrir Bentonia og lengst af var annars konar blús vinsælli í þeim bæ. Í grunninn er tónlistin skyld delta eða köntríblús en leikin í myrkri opinni moll-stillingu á gítar – yfirleitt D-moll eða E-moll – og þekktasti tónlistarmaðurinn sem lék bentoniablús var Skip James sem lærði hana af Henry Stuckey. Duck er sagður hafa lært hana líka af Stuckey – en hann hefur samt bara verið rétt 19 ára þegar Stuckey deyr. Sennilega er ekki hægt að vera Bentonia blúsmaður nema maður komi frá Bentonia – þar búa um 400 manns – og helst að hafa lært á gítar hjá Henry Stuckey.  Hvað um það. Platan Cypress Grove kom út seint 2019 (nógu seint til að vera með á þessum fyrsta árslista blúsbloggsins) og inniheldur meðal annars slangur af lögum eftir téðan Skip James. Dan Auerbach úr Black Keys pródúserar og leikur undir hér og þar – Marcus King birtist líka í nokkrum lögum, meðal annars á slide-gítar sem myndi fá Derek Trucks til að svitna. Það er mikið attitúd í þessu og ekki búið að hreinsa gamla manninn of mikið til – einsog verður oft raunin þegar yngra fólk fer að „leggja sitt af mörkum“.  ____________________________________________________________________ 4. Rory Block – Prove It On Me Rory Block er fædd 1949. Fjórtán ára gömul kynntist hún gítarleikaranum Stefan Grossman, sem þá var átján ára. Þau voru bæði miklir deltablúsaðdáendur og voru fljótlega flúin að heiman til að finna síðustu „alvöru“ deltablúsleikarana og læra við fótskör þeirra – sem þau gerðu. Fyrsta plata þeirra, 1967, er kennsluplata – þar gengur Rory undir listamannsnafninu Sunshine Kate. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og þau eru löngu hætt saman – Stefan Grossman varð einn helsti blúsgítarkennari í heimi og sennilega er enginn, nema kannski Rory Block, sem hefur á valdi sínu jafn marga ólíka deltablússtíla. Rory hefur hins vegar ekkert fengið við kennslu (svo ég viti) og hefur aðallega verið að spila lög eftir aðra – með sínu nefi.  Síðustu árin hefur hún gefið út hverja plötuna á fætur annarri þar sem hún tekur fyrir einhvern sérstakan listamann og leikur lög hans með sínu nefi. Á Prove It On Me leikur hún bara lög eftir konur úr blússögunni – eða í öllu falli lög sem konur hafa gert fræg – Elvie Thomas, Memphis Minnie, Ma Rainey, Madlyn Davis og fleiri. Hér er meira köntrí-töts en í mörgu af því sem hún gerir – hún er gjarnan frekar ofsafenginn deltablúsari og misþyrmir gítarnum oft með miklum bravúr, lætur strengina poppa og gítarinn hrýna, en þetta er ljúfara dæmi.  ____________________________________________________________________ 5. Cristina Vane – Old Played New Cristina Vane er ung – ég finn samt ekkert fæðingarár fyrir hana. Líklega á þrítugsaldri. Platan Old Played New er sjálfsútgefin og hefur alls ekki farið hátt. Ég rakst á titilinn á árslista Ted Gioia (þar sem var merkilega lítið um blús) og féll strax fyrir henni. Þetta er sex laga plata með lögum eftir Skip James, Son House, Charley Patton, Rev. Robert Wilkins, Blind Willie Johnson og Cristinu sjálfa. Tónlistin er no bullshit delta blús – bara söngvari og resonator-gítar – sándið er hrátt en spilamennskan fremur fáguð. Fyrsta lagið – Jesus Make Up My Dying Bed – er sama lag og Dylan kallar In My Time of Dying á fyrstu plötu sinni. Annars er þarna Banty Rooster, Cypress Grove Blues, Preachin’ Blues, That’s No Way To Get Along og You Think You Know, sem er frumsamda lagið.  Þann 18. desember síðastliðinn gaf Cristina svo út aðra plötu – The Magnolia Sessions – sem ég hef ekki náð að hlusta á svo heitið geti. Annars virðist hún vera í harki og hefur gefið út þrjár breiðskífur og þrjár stuttskífur síðustu árin – og á helling af alls konar efni á YouTube, mikið kover af klassískum blúsum.  Cristinu tekst að fara einhvern fínan milliveg – hún dregur fram sætuna í lögunum án þess að fara í Larkin-Poe sætt, og dregur fram hörkuna án þess að detta í tilgerð. Hún er frábær gítarleikari og útsetningarnar fara annan milliveg milli þess að vera lærðar og stílíseraðar og þess að vera frjálsar og kaotískar.  ____________________________________________________________________ 6. Watermelon Slim – Traveling Man Watermelon Slim er fæddur 1949. Hann syngur, leikur á munnhörpu og gítar – hóf víst tónlistarferil sinn á sjúkraspítala í Víetnam þar sem hann fann gamlan víetnamskan gítar til að leika á og byrjaði að gefa út plötur nokkrum árum síðar. Það gekk brösuglega og einsog margir á listanum náði hann ekki miklum vinsældum fyrren hann var farinn að reskjast svolítið. Það eru sextán ár frá því hann lagði dagvinnunni sem vörubílstjóri og tók að helga sig tónlistinni einni saman og hann náði talsverðum vinsældum með plötunni Church of the Blues sem kom út í fyrra.  Traveling Man er live plata með alls konar lögum héðan og þaðan. Uppáhalds mitt er þetta, sem er raunar af Church of the Blues (en eftir Cat Iron frá 1958), sem var einmitt í stúdíóútgáfu á Church of the Blues. Þetta er mikið koveraður klassíker en ég held hreinlega að enginn leiki það betur en Watermelon Slim. Þessi útgáfa er ekki alveg eins á Traveling Man en nógu nálægt.  ____________________________________________________________________ 7. Elvin Bishop & Charlie Musselwhite – 100 Years of the Blues Bishop er fæddur 42 og Musselwhite 44. Sá fyrrnefndi var lykilmaður í The Paul Butterfield Blues Band en sá síðari er einn af fyrstu hvítu blúsmönnunum til að vinna sér inn nokkuð nafn – og frægastur fyrir plötuna Stand Back! Here Comes Charlie Musselwhite’s Southside Band með ódauðlegri blúsútgáfu af Christo Redemptor eftir Duke Pearson.  100 Years of the Blues er bara þeir tveir og píanóleikari a.m.k. megnið af tímanum – þeir leika gömul lög eftir sjálfa sig og aðra. Svo sem ekki nein formbylting en það er sennilega ekki það sem neinn er að leita að hér. Þetta hangir – og flýgur – á óumdeilanlegum talent og sjarma.  ____________________________________________________________________ 8. New Moon Jelly Roll Freedom Rockers – Volume 1  Hér kemur Charlie Musselwhite aftur við sögu en auk hans eru í sveitinni Luther Dickinson, Cody Dickinson, Jimbo Mathus, Alvin Youngblood Hart og Jim Dickinson (sem er píanóleikari og pabbi hinna tveggja Dickinsona – sem sjálfir eru frægir úr North Mississippi Allstars). Platan var tekin upp árið 2007 en týndist – þetta var algert aukaprójekt, tekið upp á 2-3 dögum á einhverju hlöðulofti og það spáði enginn sérstaklega í það fyrren upptökurnar dúkkuðu óvænt upp og reyndust vera svona líka æðislegar. Platan hefur fengið frábæra dóma hvarvetna – einsog Musselwhite og Bishop platan fyrir ofan hana á listanum er eiginlega alveg fáránlegt að þessar týpur geti bara sest niður í góðu tómi og dritað þessu niður nánast fyrirhafnarlaust. (En fyrirhöfnin er þá auðvitað áratugir af einhverju striti – það bara fer ekkert fyrir því). Jim Dickinson lést fyrir rúmum áratug og missti alveg af þessari velgengni – en hafði svo sem notið velgengni áður.   ____________________________________________________________________ 9. Robert Cray – Have Mercy! og That’s What I Heard Ég debateraði svolítið við sjálfan mg hvort ég ætti að leyfa Have Mercy! að vera með. Þetta er live-plata tekin upp árið 1978 en ekki gefin út fyrren í ár. Robert Cray er þess utan með aðra breiðskífu í ár, That’s What I Heard, sem er líka ansi þokkaleg. Ég ákvað loks að leyfa þeim báðum að deila einu sæti. Það er líka sérstaklega gaman að hlusta á þær saman – annars vegar upphafið að ferlinum og hins vegar, ja hann er nú sennilega langt frá endalokunum, unglamb á þessum lista (fæddur 1953), en náði hápunkti ferils síns fyrir ríflega 30 árum síðan. Það vill til reyndar að það tímabil – níundi áratugurinn – er vont tímabil í blússögunni, aðallega vegna þess að pródúksjónfagurfræðin sem þá var allsráðandi, hreint sánd og mikið af choruseffektum og öðrum álíka viðbjóði, hentar blúsnum illa. En Have Mercy! er tekin upp áður en það kom allt til sögunnar – eða allavega áður en það var farið að vera skylda – og That’s What I Heard ber í sjálfu sér merki ofpródúksjónar en er engu að síður ekki nærri því jafn „sveipuð munúð“ og eitís dótið.  Og Robert er rosalegur þegar það er ekkert rugl að þvælast fyrir honum. Ég bíð svo bara eftir rótaplötu frá honum á næstu árum.  ____________________________________________________________________ 10. Marcus King – El Dorado Jæja. Loksins unglamb. Vínberið í pylsuendanum. Sennilega nokkuð yngri meira að segja en Cristina Vane – fæddur 1996. Og ábyggilega eini tónlistarmaðurinn hérna sem nokkuð lét finna fyrir sér á hefðbundnum listum. Aftur er það Auerbach sem pródúserar – og Marcus var gestur á plötu Duck sem var nefnd hér að ofan. Einsog við má búast er talsvert af fuzz-tónum hérna, eins strengs riffum, en mætti kannski stundum vera hrárra fyrir minn smekk – minna överdöbb, minna reverb. Það er líka hellingur af John Mayer fíling hérna – og Dereck Trucks – og spurning hvort hann eigi ekki bara eftir að finna sig dálítið. King er með flotta rödd og sans fyrir lagasmíðum, þótt þær vanti stundum eitt skref í frumleika – blúslög þola betur að frumleikinn liggi í útsetningum og þunga sándsins en King á það til að leiðast út í poppaðri smíðar og þær bera bara ekki jafn mikið. En hann er ofsalega sterkur gítarleikari og það er hellings pótensjall í þessu.

createdTimestamp““:““2024-05-14T09:00:02.274Z““

Stundum velti ég því fyrir mér hvort ég ætti ekki að reyna að hafa færri orð um hlutina. Orð eru dýr og það allt saman og svo eru þau líka tímafrek. En þegar ég er byrjaður að tjá mig er oft stutt í að röflmótorinn fari á fullt. Það væri enn tímafrekara að byrja að editera þetta allt saman í leit að einhverjum aðalatriðum. Oft er ég líka svo nýbúinn að lesa/horfa að ég veit ekki almennilega hver kjarni þess sem mér finnst er – þetta er meira ferðalagið en áfangastaðurinn. *** Við börnin kláruðum Kysstu stjörnurnar eftir danska höfundinn Bjarne Reuter. Ég veit ekki hvort það er tilviljun en mér finnst svo mikið af dönskum barnabókmenntum enda í einhverri svolítið heimóttarlegri fantasíu um miðausturlönd. Í búðinni hans Mústafa er eitt dæmi, Hodja og töfrateppið annað og í Kysstu stjörnurnar eru börnin í grunnskólanum að setja upp ævintýri úr Þúsundogeinni nótt – svartmáluð í framan, að sjálfsögðu. Bókin er frá 1984 – ég kom fram í blackface sjálfur ekki mikið seinna þegar árgangurinn gerði sérsýningu um Tansaníu á árshátíðinni. Ég myndi ekki segja að þetta geri bækurnar slæmar – þetta eru allt góðar bækur, það er að vísu langt síðan að ég las Hodja en ég hélt mikið upp á hana sem barn. Heimur barna er líka heimur furðu og fordóma – börn eru kannski ekki með fyrirframgefnar hugmyndir um það sem er framandi, því svo margt er þeim framandi, en þau eru rosalega fljótt að draga alls kyns ályktanir og fella hrikalega sleggjudóma. Þess vegna hafa fullorðnir svona miklar áhyggjur af því hvað þau lesa og horfa á. Sýnin á konur er líka mjög „dönsk“ í Kysstu stjörnurnar – svo ég viðri svolitla fordóma um danska menningu. Þær eru annað hvort skyldar manni eða rómantísk viðföng – og alveg sama hvort þær eru grunnskólastelpur, guðdómlega stelpan á kassanum í búðinni, eða skuggalega bardaman sem segist vera kærastan manns og gefur manni svona kveikjara með mynd af konu á sundbol sem afklæðist þegar maður snýr honum á hvolf. Allt er þetta í sjálfu sér líka mjög í takt við sögutíma bókarinnar. Buster – aðalsöguhetja bókarinnar – er mjög skemmtilegur annars. Uppátækjasamur og með ríkt ímyndunarafl og skemmtilegustu senurnar eru þegar hann er bara að delera eitthvað. *** Dark Places er skáldsaga eftir Gillian Flynn, sem er frægust fyrir Gone Girl. Ég held ég hafi lesið Gone Girl en ég er ekki alveg viss og þegar ég lagði Dark Places frá mér – og meðan ég var að lesa hana – fannst mér hún ofsalega spennandi og skemmtileg. Ég gæti samt best trúað að ef þið spyrðuð mig eftir nokkra mánuði hvort ég hefði lesið hana væri ég ekki alveg viss. Hún fjallar um white trash konu sem varð fyrir því sem barn að fjölskyldan hennar var öll myrt. Hún hefur alltaf haldið að bróðir hennar hafi gert það og hann er í fangelsi fyrir það – en svo kemur í ljós að því trúir eiginlega enginn lengur og hún fer eitthvað að grafast fyrir um þetta allt saman. Þú trúir því aldrei hvað gerist næst. *** Persuasion eftir Jane Austen. Fyrir nokkrum árum las ég Sense and sensibility og lýsti því þannig að það væri einsog að detta í slúðurtunnu – og bætti við að þetta hefði verið mikill yndislestur . Ég get því miður ekki sagt það sama um Persuasion. Ég hafði stundum húmor fyrir henni en yfirleitt ekki og ég var næstum búinn að leggja hana frá mér ókláraða – ef þetta væri ekki Jane Austen og þar með einhvers konar skyldulestur þá hefði ég hugsanlega hent henni fram af svölunum í verstu gremjuköstunum. Þetta fólk gerir ekkert nema hafa áhyggjur af því hver getur gifst hverjum og hver sé dyggðugur. Það er líka einsog það sé enginn til í heiminum nema þetta aðalsfólk, enginn annar harmur en að giftast kannski ekki nógu vel. Bíómyndin Clueless var byggð á Emmu og þótti mörgum vel til fundið að færa hana í bandarískan menntaskóla hinna ofurríku því dramað væri eiginlega ekki fullorðinsdrama í dag. Mér liggur við að segja að þetta fólk hafi ekki nægan tilfinningaþroska til að vera í menntaskóla. Ég man eftir svona stemningu þegar ég var tíu ára og allir voru að hvísla hver í annan hverjir væri skotnir og svo framvegis. Þegar veröldin snerist í nokkur misseri ekki um annað en að finna sanna ást. Auðvitað er bókin vel skrifuð og það besta við hana eru setningarnar og sum samtölin – hún er góð bút fyrir bút en sem heild er þetta bara eitthvað efri-millistéttarvæl. *** Kvikmyndaklúbbur barnanna horfði á Paranorman. Hún fjallar um strák sem heitir Norman og sér drauga og öllum finnst hann skrítinn. Yfir bænum hans hefur hvílt bölvun í mörg hundruð ár eða allt frá því bæjarbúar brenndu þar norn. Nornin hvílir á meðan einhver les fyrir hana kvöldsögu einu sinni á ári en annars vaknar hún og reynir að hefna sín. Auðvitað deyr kvöldsögulesarinn og eftirlætur Norman að taka þetta að sér en það klúðrast út af nokkrum eineltisseggjum. Á endanum kemur svo í ljós að nornin var bara góð lítil stelpa sem sá drauga einsog Norman og var brennd af því fólk skilur aldrei það sem rýfur ramma hugmynda þeirra um veruleikann. Fín. Ekkert meira eða minna. Stop-motionið er oft skemmtilegt og fallegt – aðeins öðruvísi lúkk á henni en mörgum af þessum barnamyndum. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á Persona eftir Ingmar Bergman. Að hluta til fannst mér hún frábær og að hluta til fannst mér hún vera samansuða af ódýru existensíalísku bulli og kynferðisfantasíum. Hún fjallar um leikkonu sem verður fyrir áfalli og hættir að tala. Hún fær hjúkrunarkonu til að hugsa um sig. Sú er að jafnaði feimin og inn í sig en opnar sig við leikkonuna og talar viðstöðulítið um lífið og tilveruna. Fyrir rest er farið að gefa sterklega í skyn – mjög sterklega, án þess að það sé fullyrt – að konurnar séu ein og sú sama og kannski sé hjúkrunarkonan bara innri mónólógur hinnar eða hún klofin persónuleiki. Myndmálið, kvikmyndatakan, klippingarnar, leikurinn, lýsingin, senógrafían – allt er þetta í einu orði sagt geggjað. Ógeðslega flott. Handritið er aldrei leiðinlegt, aldrei óáhugavert, en ég er heldur ekki viss um að það sé neitt æðislega mikið vit í því. Heimspekin virkaði stundum dálítið svona Coelho-ísk á mig – existensíalismi sem maður gæti sett á ísskápasegla. Mér fannst samband kvennanna best þegar það fer að minna á svona kulturman-samband sem maður getur ímyndað sér að Bergman hafi sjálfur átt í við alls konar konur – og ég þykist hafa lesið eitthvað um, án þess að ég muni það svo glöggt. Þannig verður hjúkrunarkonan æðislega sár leikkonunni þegar hún uppgötvar að leikkonan hefur skrifað lækninum sínum um hana og orgíu sem hún hafði farið í á strönd með ókunnugum mönnum og vinkonu sinni – meðan unnustinn beið grunlaus heima – sem og fóstureyðinguna sem hún fór í í kjölfarið. Þegar hjúkrunarkonan les leikkonunni pistilinn segir hún að hún hafi alltaf haldið að listin væri sprottin af einhverju fallegu og að listamenn væru göfugar verur, gæddar meiri meðlíðan en annað fólk, en að leikkonan hafi nú sýnt henni að svo sé ekki – listamenn séu grimmir og ljótir og beri enga virðingu fyrir mörkum annarra. Þetta má auðvitað heimfæra á höfundinn sem notar ástkonu sína (eða ástmann) sem efnivið í listaverk. Listamaðurinn hefur ekki bara meðlíðan honum ber líka skylda til að miðla mennskunni sem hann upplifir. Og í því felst brot hans – hann er ekki heill gagnvart heiminum nema hann svíki heiminn. Hvað sem göllunum líður eru bíómyndir af þessu tagi vogaðar og sem slíkar miklu skemmtilegri og áhugaverðari en næstum allt annað sem maður sér. *** Gítarleikari vikunnar spilar á banjó. Hann spilar reyndar líka á gítar en hér spilar hann á banjó.