createdTimestamp““:““2024-06-07T08:03:34.629Z““
id““:““74h5m““
Í gærkvöldi horfði ég á In Einem Jahr mit 13 Monden eftir Rainer Werner Fassbinder. Kvikmyndagagnrýnandi New York Times sagði að fyrir óinnvígða Fassbinderáhorfendur væri þetta sennilega einsog að horfa á „martröð um martröð“ – og það má til sanns vegar færa, að minnsta kosti um hluta af myndinni, sem er bæði fýsískt og andlega brútal. Myndin fjallar um Elviru / Erwin. Ég veit ekki hvernig væri best að kynja Elviru / Erwin – öll fornöfn eru hugsanlega röng, en hér nota ég hán í krafti þess að það geti líka verið meira hlutlaust fornafn en þriðjakyns. Í opnunarsenunni er hán í karlmannsfötum að reyna að kaupa kynlífi af vændiskarli. Þau fara í hörkusleik en þegar vændiskarlinn uppgötvar að hán er ekki með typpi verður hann reiður og hann og vinir hans í hórbransanum berja Elviru/Erwin, sem hrökklast heim til sín þar sem háni mætir kærastinn. Sá hefur verið fjarverandi síðustu sex vikurnar og verður reiður að sjá hán í karlmannsfötum, þau rífast og hann kallar hána aumingja og viðurstyggð og feita og ljóta, pakkar svo saman og fer. Elvira/Erwin eltir hann út í örvæntingu, endar uppi á húddi bílsins, kastast af og er svo hughreyst af vændiskonunni Rote Zore. Þau fara að spjalla saman og kemur upp úr kafinu að hán hefur áður starfað sem slátrari. Það finnst Zore vera dauðabransi, en Elvira/Erwin mótmælir, og býðst til að fara með hana í sláturhús. Sláturhússenan er fáránlega brútal – kýrnar fara lifandi í vél, eru hengdar dauðar upp og skornar á háls svo blóðið fossar út úr þeim, og svo eru þær húðflettar og verkaðar. Það er ekkert gert til að hlífa áhorfandanum – og allan tímann flytur Elvira/Erwin ljóð eftir Goethe yfir konsert eftir Händel. Næst fara þær að mig minnir í klaustur þar sem Elvira/Erwin var sem ungur drengur og ræða við nunnuna. Nema að senan þar sem barnsmóðir Elviru/Erwins kemur hafi verið næst. Þá kastar hún blaði með viðtali við hán í hán – þar sem hán hefur sagt alls konar hluti um einhvern valdamikinn mann, sem hán lofar að fara að tala við og lempa svo dóttir þeirra þurfi ekki að óttast („hefur hún ekki mátt þjást nóg!“ æpir móðirin). Á endanum kemst hán til þessa valdamikla manns, sem reynist vera samstarfsfélagi háns úr slátrarabransanum. Dag einn, í gamladaga, hafði hán játað ást sína á honum og hann svarað: Ef þú bara værir stelpa. Þá tók hán sig til og fór til Casablanca og lét breyta sér. Ég ætti kannski ekki að segja allan söguþráðinn? Þetta endar í öllu falli ekki vel og það er erfitt að henda reiður á öllu, ekki endilega vegna þess að söguþráðurinn sé svo flókinn heldur vegna þess að senurnar eru oft svo skrítnar og ógurlega hlaðnar – maður veit aldrei með hverju maður á að vera að fylgjast. Kvikmyndagagnrýnandi New York Times, sem ég vitnaði í áðan, skrifaði dóm 1979 sem var áhugaverður að mér þótti – ekki bara vegna þess að hann sé að mörgu leyti skynugur og ástríðufullur, heldur líka vegna þess hve sjónarhornið er gamalt. Þannig eyðir hann púðri í að tala um að Elvira/Erwin sé vaxið einsog „quarterback“ og því geti engir hormónar breytt, sem er í senn auðvitað transfóbískt en líka bara líffræðilegur misskilningur. Þótt Hollywood stjörnur árið 1978 hafi verið næstum jafn grannar og fitt og þær eru í dag (en samt ekki alveg – einsog sjá má á muninum á leikurunum í Rocky Horror 1975 og 2016, meira að segja hinn fimmtugi Páll Óskar er ábyggilega í betra formi en hinn 29 ára Tim Curry) þá voru konur samt alveg jafn alls konar í laginu þá og nú, og þótt karlar séu heilt yfir sennilega kubbslegri, þá hef ég líka þekkt fullt af kubbslegum konum í gegnum tíðina. Hitt sem sló mig er að gagnrýnandinn kallar Elviru/Erwin alveg umbúðalaust skrímsli . Það sló mig vegna þess að ég hafði velt því fyrir mér sérstaklega á meðan ég horfði á myndina hvort hán væri presenterað sem slíkt og komist að öndverðri niðurstöðu. Hán er vissulega kaos og jafnvel úrhrak – en úrhrak er maður fyrir sakir þess að aðrir sjá mann sem skrímsli, ekki vegna þess að maður sé skrímsli í eðli sínu eða ákvörðunum. Hán er fórnarlamb nær óskiljanlegrar hvatvísi, sennilega ástsjúkt og bælt og guð veit ekki hvað – en hán er samt ekki skrímsli og (að mínu afar faglega mati) ekki heldur geðsjúklingur af neinu tagi, heldur bara þjáð. Þá verður skrímslaeinkunnin enn óskiljanlegri þegar tekið er tillit til þess að kvikmyndin er viðbragð við sjálfsmorði eins af elskhugum Fassbinders, Armins Meiers, sem mun hafa drepið sig eftir að honum var ekki boðið í 33 ára afmæli meistarans. Myndin er meistaraverk og sympatísk – en ég veit ekki hvort það er hægt að tala um að hún fjalli beinlínis um trans eða kyn, nema sem aukabúgrein sorgarinnar og líkamans. Elvira/Erwin er fyrst og fremst samkynhneigður karlmaður – hán kaupir sér kynlíf klætt einsog karl vegna þess að þá skammast hán sín síður, háni finnst það eðlilegra – sem tók mjög afdrifaríka og örvæntingarfulla ákvörðun. „One way ticket“ sagði alltaf læknirinn heimildamyndinni Made in Bangkok, sem ég horfði á um daginn – það er að vísu ekki alveg satt, en það er sama. Kynskipti – og þetta hljóta að teljast kynskipti frekar en nokkur „leiðrétting“ – eru ekki fullkomlega óafturkræf en maður snýr aldrei aftur í sama líkama og maður yfirgaf. Þá er erfiðara að búa til limi en píkur, skilst mér. Hún spyr samt auðvitað að kyni. Ég t.d. veit ekkert hvað ég á að segja um kyn háns. Það kemur heldur hvergi beinlínis fram að hán vilji ekki vera kona – ekki frá hán að minnsta kosti, þótt aðrar sögupersónur ræði það. Rote Zore neitar t.d. þeirri kenningu vinar síns að Elvira/Erwin hafi alltaf verið kona innra með sér. Verður maður kona bara fyrir að vera með píku? Verður maður trans bara fyrir það að skipta um líkamskyn? Ég bara veit það ekki. En það þarf svo sem ekki að vera hægt að svara öllum spurningum heldur. En myndin fjallar fyrst og fremst um örvæntingu og sorg og einmanaleik – og, einsog margir hafa sosum bent á, fjallar hún líka um sálarlífið í eftirstríðs Þýskalandi (einsog næstum allt sem gerðist þar í fimmtíu ár). Um eftirköst helfararinnar í lífi gerendanna, að vera úrhrak meðal þjóða, um klofna þjóð, um frið og stríð og kaos og kreppta hnefa, grátur og gnístran tanna.
createdTimestamp““:““2024-05-11T20:58:36.554Z““
Ég er stundum að reyna að skilja raforkumálin. Þá kemur sér ekki alveg nógu vel hvað ég er heimskur. Því ég skil bara ekki neitt. Einn segir að það verði að virkja til þess að Vestfirðingar geti fengið rafmagn, annar segir að það sé til nóg rafmagn, þriðji segir að það megi nú samt ekki menga landið með rafmagnslínum (og þess vegna ekki hægt að flytja það vestur, nema í jörð fyrir trilljónir sem enginn tímir), og fjórði að það sé búið að selja allt þetta rafmagn til útlenskra stórgróssera, og þá segir fyrsti að það myndi duga að loka einu stóriðjuveri á austfjörðum til þess að rafmagna alla vestfirði og þá spyr fimmti hvort vestfirðingar ætli í raun og veru að láta loka heilum vinnustað á austfjörðum, við sem þekkjum svo vel afleiðingarnar af því þegar stórir vinnustaðir leggjast í eyði. En þurfum við þá að virkja, spyr ég, og er sagt að nei við þurfum ekki rafmagn, svo fremi sem við höfum internet og „hugvit“ – sem er held ég það sem Bandaríkjamenn kalla „startup“ og er rekstur sem einkennist af miklum vaxtarmöguleikum en talsverðri fjárfestingarþörf, altso, hann þarf pening og borgar lítið útsvar og það þarf útsvar til þess að lappa upp á Húsmæðraskólann, sem er að grotna niður og leggja götustein í Tangagötuna, sem er að leysast upp í holufyllingarbútasaum, að ég tali nú ekki um göturnar í nágrannabyggðalögunum – úthverfunum – hvort við megum ekki fara í einhvern rekstur sem er líklegur til að borga skatt – það þarf auðvald til að skattpína, til lítils að skattpína favelurnar – og þá er mér sagt að við ættum náttúrulega að hafa fellt kvótakerfið fyrir löngu, og ég segi að það hafi nú verið reynt ansi lengi, með litlum árangri, og þá reiðist viðkomandi og spyr hvers vegna við höfum selt frá okkur kvótann og ég segist engan þekkja sem seldi kvóta, en mér ég skiljist að það hafi nú ekki alltaf verið gert af gróðafíkn heldur til þess að halda fyrirtækjum gangandi, án þess að ég viti það, eða til að borga upp þrotabú, skulduð laun og svo framvegis, sjálfsagt hafi líka margir fengið glýju í augun af peningunum og svikið bæjarfélögin – ég þekki það ekki, en það sé til lítils að skamma okkur sem vorum börn þegar kvótinn var seldur fyrir að hafa selt kvótann, mér líður svolítið af þessu einsog það sé verið að kenna mér um galdrabrennurnar á Kirkjubóli, hér í firðinum, þar sem Jón brenndi Jón og Jón, einsog frægt er. Svo kemur eitthvað meira. „Þið þurfið bara að keyra á túrismann, miklir vaxtamöguleikar þar“, segir einhver (og gefið í skyn að það sé græni kosturinn). „Gefið handfæraveiðar frjálsar“ segir einhver annar og ég segi „já, takk, ókei – er það sem sagt á borðinu?“ Nei, nei, það sem er á borðinu er að fjársvelta menntaskólann og háskólasetrið og heilsugæsluna og svelta okkur á rafmagni þar til búið verður að virkja hverja einustu sprænu upp og niður djúpið, þá verður byggðin lögð niður og þessi 40MW, sem mér skilst að vanti uppá, seld í stóriðju á suðurnesjunum. En það viljum við auðvitað ekki, segja fyrsti til fimmti, eða að minnsta kosti annar til fimmti, okkur þykir svo vænt um landsbyggðina, amma mín er nú fædd í Viðey, og ég er giftur konu sem ólst upp á Bíldudal, og við förum reglulega í Ásbyrgi, sem okkur finnst vera fallegasti staður á landinu og við prentuðum út alla fossana hans Tómasar læknis – og ekki bara í prentaranum heima heldur hjá fagmanni, ég veggfóðraði skrifstofuna mína með þessu, þar sem ég framleiði einmitt áðurnefnt hugvit, viltu ekki bara krossfesta þig við sjávarþorpið þitt, djöfulsins væl.
createdTimestamp““:““2024-05-13T05:35:38.113Z““
id““:““2p6ne““
Ég fór á Vísindaport um raforkumál Vestfjarða í hádeginu. Þar mælti Orkubússtjórinn – og brá upp fremur neikvæðri mynd án Hvalárvirkjunar. Sem sagt virkjun eða fjárfesting upp á 6-10 milljarða – við tvöföldun Vestfjarðalínu. Það er boðið. Það sárvantaði einhvern á fundinn sem hafði vit á tölunum og var ósammála Orkubússtjóra, sem skorti aðhald – sum okkar voru lost, aðrir ekki í stöðu til að tjá sig, og hinir bara virkjunarsinnar. Ég held mig við þá afstöðu að þarna megi ekki virkja nema það sé á einhvern hátt tryggt að orkan verði ekki bara svolgruð af einhverri stóriðju við hringveginn. *** Í Dagblaðinu Vísi – ekki fréttasíðunni Vísi, heldur Dagblaðinu Vísi, DV – er dómur um Sprungur Lomma þar sem hann fær þrjár og hálfa stjörnu. Ég hefði gefið honum fjórar en ég hefði heldur ekki sagt eiginlega neitt af því sem stendur í dómnum. Textinn er eiginlega ekki upp á meira en tvær stjörnur, topps, en hugsanlega hefur ritdómara bara þótt hann (þ.e.a.s. hún) hafa verið fullneikvæð í textanum og viljað bæta upp fyrir það með stjörnugjöfinni. Jafna þetta út. *** Stjörnugjöf er áhugaverð. Ég held að fólk noti hana misjafnlega. Ég var á tímabili eitthvað að myndast við að vera Goodreadsari og þá þarf maður að gefa stjörnur. Ég gaf eiginlega engu meira en fjórar stjörnur. Fimm gat bók kannski fengið ef hún hafði varanlega umturnað lífi mínu og ég fann ennþá til hennar í brjósti mér 10 árum eftir að ég las hana – og ekkert lát á kraftinum. Fjórar stjörnur var meistaraverk. Þrjár og hálf gat verið besta bók ársins. *** Mér finnst eitthvað óþægilegt þegar það er misræmi milli texta og stjörnugjafar. Þegar mér finnst einsog ritdómarinn hafi verið of vægur í stjörnugjöfinni miðað við stemninguna í textanum. En svo þekki ég það reyndar líka að skrifa dóm og finna bara gallana – þótt manni finnist verkið gott. Ég var að myndast við það fyrir nokkrum árum að skrifa dóm um bíómyndina Málmhaus og sá texti var ekkert nema aðfinnslur – en ég kom ekki orðum að því hvað mér fannst gott við myndina. Það hefði verið eitthvað off, fannst mér, að birta textann en bæta það upp í stjörnugjöf (solítt þriggja stjörnu mynd). Maður þarf að geta komið orðum að gæðunum, finnist manni þau yfir höfuð til staðar. *** „Bókin er afsprengi ákveðinnar kynslóðar ljóðskálda sem hafa tekið það að sér að pönkast í ljóðinu og reyna sitt besta við að finna ljóðrænu í því sem alla jafna er ekki talið ljóðrænt.“ Segir í áðurnefndum ritdómi. Ég velti því dálítið fyrir mér hvaða kynslóð þetta væri, hverjir væru með honum í þessari kynslóð. Jón Örn er fæddur 1983 – fimm árum yngri en ég – gefur út fyrstu bókina sína (með Arngrími Vídalín) 2008. Þá eru tíu ár liðin frá því Steinar Bragi gefur út Svarthol. Nýhil er sex ára og á sirka eitt ár eftir af almennilegri starfsemi (seinni bók Lomma, Gengismunur, er sennilega síðasta kjarnabók Nýhils – síðasta sem er lýsandi fyrir starfsemina). Það eru fjögur ár í að Bragi Páll gefi út sína fyrstu bók. Sama ár kemur fyrsta Meðgönguljóðabókin. *** Ég reikna með að það sé meint eitthvað svona. Transgressjónin. Bergsveinn Birgisson var einn af þeim fyrstu til að veita Nýhil athygli og skrifaði útvarpspistil um selskapinn þar sem hann líkti Nýhil við ógeðsskáldskap – poetry of disgust, minnir mig að hann hafi kallað það og vísað í einhvern enskan hóp sem ég þekki ekki. *** En þetta er auðvitað hægt að túlka miklu víðar. Bónusljóð er líka tilraun til að finna ljóðrænu í því sem alla jafna er ekki talið ljóðrænt. Raunar má segja að stærstur hluti ljóðsögunnar gangi út á þetta – eða í það minnsta átök milli hamslausra rómantíkera, sem finnst nóg að nefna blómið og fegurð þess, og þeirra sem leita fegurðarinnar á óvenjulegri stöðum: í slorinu, furðum tungumálsins, drykkjunni, hatrinu, dauðanum, skúmaskotunum. Þetta á líka við um sonnettuskáldin, hækuskáldin og módernistana – þessi átök eru alls staðar – og eiga sér yfirleitt ekki stað milli ólíkra kynslóða heldur einmitt innan sömu kynslóða. *** *** Ljóð skáldsins Su Hui (fjórðu öld) eru til dæmis palindrómur (sennilega þær fyrstu) sem gersamlega brutu niður öll þekkt viðmið í ljóðlist. Ljóð hennar er hægt að lesa í margar áttir og fá alls kyns ólíkar frásagnir og ólíka ljóðrænu – það munu vera alls 7.839 leiðir í gegnum þetta ljóð. Þetta kalla ég að finna ljóðrænu í hinu óljóðræna (ljóðið fjallar annars um framhjáhald), að hafa róttæka afstöðu til tungumálsins, brjóta það niður og byggja það upp samtímis, leyfa því jafnvel að gróa saman sjálft að einhverju leyti. Lommi er svolítið einsog þessi kelling. *** Svo fannst mér líka dálítið einsog dómurinn sneri, meðvitað og ómeðvitað, meira að ljóðatröllinu Lomma en ljóðabókinni Sprungum. Einsog það væri verið að skamma Lomma fyrir það hvernig hann hefði hagað sér á internetinu í gegnum tíðina („Lommi, farðu heim!“) frekar en að viðkomandi hefði lesið bókina. *** *** Annars er dómurinn hérna , fyrir þá sem vilja lesa þriggja og hálfrar stjörnu ljóðabókardóm. *** Ég ætlaði að blogga um eitthvað allt annað þegar ég vaknaði. Nú man ég ekki einu sinni hvað það var. Er, hvað það er, það er sjálfsagt þarna ennþá.
id““:““ebu6o““
Það var grein um grát karlmanna í Svenska Dagbladet sem ég las með kvöldmatnum. Dálítið dýpra blik inn í þetta klassíska með að karlar gráti ekki nóg og hvers vegna það sé ekki nógu gott. *** Meðal annars var því haldið fram að karlmenn hefðu grátið mikið fram að Upplýsingu þegar Kant hefði kennt þeim að þeir yrðu að vera yfirvegaðir ef þeir ætluðu að sjá heiminn skýrt. Upp frá því hafi hið opinbera og hið yfirvegaða/rökræna orðið umdæmi karlmannsins en heimilið og hið tilfinningalega orðið umdæmi konunnar. *** Sennilega hefur einhver þurft að elska börnin, jafnvel þegar það meikaði ekkert sens. Fromm talar um að ást feðra sé skilyrt en ást mæðra skilyrðislaus (og vill raunar meina að allir þurfi að alast upp við hvorutveggja). *** En þarna fyrir Upplýsingu. Til dæmis grétu karlar víst mikið saman. Það voru tiltekin dæmi úr bókmenntum þar sem vinslit urðu með körlum og þeir hættu að gráta saman. Það var helsta teiknið: Hví grætur þú ekki með mér lengur, erum við ekki vinir? *** Og svo grétu þeir með konum. „Sínum“ konum og mæðrum „sínum“ og svo framvegis. *** Fysiológískt getur lítill grátur haft mjög neikvæð áhrif á hormónabúskapinn og tilfinningalífið almennt. Það safnast einfaldlega fyrir streituhormón (ef ég skildi þetta rétt) sem fara ekki vel með mann. Sálrænt getur maður líka allur endað í hnút af því að sleppa þessu eðlilega ferli allra sorga. *** Lítill grátur er ekki heldur einfaldlega val – það er lærð hegðun sem er erfitt að vinda ofan af. Maður ákveður að maður eigi ekki að gráta og svo getur maður það ekki. Og þetta er ekkert sem karlmenn hafa einkarétt á – það eru dæmi um konur í opinberum stöðum, til dæmis, sem hafa sagst hafa tamið sér sams konar sjálfsstjórn og misst með því getuna til að gráta. *** Litlum gráti fylgir líka lítill hlátur. Tilfinningalífið er samhangandi held, og tilfinningar hafa innbyrðis verkan hver á aðra. *** Ein kenning sem kom fram í greininni var að ástæðan fyrir því að karlmenn eru svo stór hluti af ofbeldiskúltúrnum – sem gerendur og þolendur, vil ég nefna – og ástæðan fyrir því að þeir eru líklegri til að misnota eiturlyf og áfengi og/eða fremja sjálfsmorð – sé þessi bæling. Hún valdi yfirdrifnum viðbrögðum. *** Karlmenn gráta sjaldnar en þeir gráta af meiri ofsa. Þeir lyppast niður og orga. Og oft er það tákn um uppgjöf, frekar en einfalda sorg. Þegar þeir hafa misst stjórn á aðstæðum sínum. Þegar þeim finnst einsog harmurinn muni drekkja þeim. *** Einsog þeir óttist hann. Óttist að hann muni drepa sig. *** Margir karlmenn segjast vilja gráta meira. Samfélagið nútildags styður þá í þessu. Margir karlmenn skammast sín meira fyrir að gráta ekki en að gráta. Sérstaklega eftir að unglingsárum lýkur. Þeir fara í jarðarfarir og óttast að fólk taki eftir því að þeir gráta ekki. Gera sér jafnvel upp vol. Finnst þeir afbrigðilegir. Enda allir í hnút. *** Það er gott fyrir fólk að gráta. Fólki líður betur ef það grætur. En því líður ekki betur ef það grætur í samfélagi sem er líklegt til þess að gera lítið úr því fyrir vikið. Ef það er híað. Það þykir víst alveg sannað. Þá er betra að harka af sér. *** Maður gæti ímyndað sér að þetta væri pólitísk afstaða. Að íhaldssamir repúblikanar vilji að karlmenn séu hörkutól sem gráta og að meðvitaðir femínistar vilji að karlmenn séu „í tengslum við tilfinningar sínar“. En línurnar eru alls ekki svo skýrar. *** Í fyrsta lagi er mikið af íhaldskúltúr miklu þolinmóðara gagnvart dramatískum karlmönnum – ég leyfi mér að nefna amerískan köntríkúltur sem dæmi. ***
*** *** Í öðru lagi eru femínistar alls ekki barnanna bestir þegar kemur að afmaskúleringu sem vopni í samræðu. Útgangspunktur greinarinnar í SVD er það sem kallað er „male tears“ – meme sem femínistar nota til að gera lítið úr umkvörtunarefnum svokallaðara karlréttindasinna. *** *** *** Búhúhú, viltu ekki bara fara að grenja? *** Línurnar eru sem sagt úti um allt og skarast. Sama fólkið segir „harkaðu af þér“ og „gráttu bara væni“ – og sama fólkið segir „vertu í tengslum við tilfinningar þínar“ og „ég nærist á væli þínu“. *** Ef ég man rétt stóð að karlmenn grétu að meðaltali 6-10 sinnum á ári en konur að meðaltali 30-64 sinnum á ári. Mér finnst það ekki mikið. Ég ætti kannski að taka það fram. En ég græt sjálfur eiginlega aldrei.
id““:““229qo““
Þegar Roseanne Barr var rekin fyrir sinn annars alræmda strigakjaft í síðustu viku spurði ég sjálfan mig fyrst af öllu hvort það væri of seint að setja hana á listann yfir fyrirmyndir? Svona í ljósi þess að bókin er alveg, alveg, alveg að verða tilbúin. Sennilega væri enn vafasamara að kalla hana eftirmynd – hún hefur verið að þessu frá því áður en Hans Blær fæddist (hvort heldur sem litið er til fæðingarárs persónunnar eða tilurðar sögupersónunnar). Ekki get ég útskýrt heldur hvers vegna mig langar svona að hafa hana á þessum lista – nema bara til að benda á skyldleikann. Roseanne Barr hefur alla tíð – frá fyrsta degi – stundað list óheflaðrar transgressjónar og dónaskaps. Hún er myndlíkingin um fílinn í postulínsbúðinni holdi klædd. Sjónvarpsþættir hennar frá níunda og tíunda áratugnum eru viðstöðulaus brussugangur – og nýmæli einmitt þess vegna. Roseanne var feit og dónaleg lágstéttarkelling með hvínandi kynhvöt og jafn grimmilegan húmor fyrir sjálfri sér og öllu öðru . Nýju þættirnir – sem er búið að aflýsa – eru af sama meiði og jafnvel enn mikilvægari í dag, einsog bent hefur verið á, vegna þess að þeir eru svo til eini snertipunkturinn milli rauðra og blárra kjósenda í Bandaríkjunum, eini staðurinn þar sem eru átök sem eru ekki bara fyrirlitning . Ég rifjaði af þessu tilefni upp það þegar hún söng bandaríska þjóðsönginn á fótboltaleik árið 1990 – svo falskt að það lá við að veröldin stöðvaðist. Eg man eftir þessu úr fréttum, og þau okkar sem eru nógu gömul til að muna tímann fyrir internet vita að það komust ekki allir heimsins smáskandalar inn á borð á litla Íslandi árið 1990; það þurfti eitthvað sérstakt úmf til. Meira að segja Bandaríkjaforseti – George Herbert Bush – sá sér ástæðu til að nefna hvað þetta hefði verið ósmekklegt. Fyrir tæpum áratug pósaði hún líka í Hitlergervi á forsíðu gyðingatímaritsins Heeb – við takmarkaðar vinsældir, Bill O’Reilly úthrópaði hana fyrir að gera lítið úr helförinni. Sem hún auðvitað gerði – en þar er aftur spurning hversu mikið olnbogarými listamenn fá. Það hefur aldrei verið búið til listaverk sem snerti við helförinni sem ekki gerði lítið úr henni – þótt margir hafi verið nærgætnari en Roseanne. Og þá getur maður líka spurt sig hvort nærgætnin sé alltaf besta leiðin til þess að hantera viðkvæma hluti. Mitt svar er alla jafna nei. Nærgætni verður mjög auðveldlega klámfeng og melódramatísk og sérhlífin – og þá er hún verri en heiðarlegt kaos. Fyrir utan auðvitað að vera drepleiðinleg. Sem þýðir vel að merkja ekki að umrætt tíst – þar sem hún lýsti fyrrum ráðgjafa Obama, sem er hálf írönsk og hálfur svartur-bandaríkjamaður, sem afkvæmi Bræðralags múslima og Apaplánetunnar – sé réttlætanlegt. Og það var svo sannarlega ekki það fyrsta og eina sem Roseanne hefur sagt á Twitter sem var gersamlega yfir strikið. Þetta varð mér síðan tilefni til að velta því fyrir mér hvort að grínistar nútildags (eða sirka eftir 1990) hefðu meiri þörf fyrir trúnað og tryggð áheyrenda sinna. Þar er spurt um eitthvað annað en nærgætni, vel að merkja. Margir af grínistum áttunda og níunda áratugarins – George Carlin, Eddie Murphy, Richard Pryor, Roseanne Barr, Bill Hicks, Andy Kaufmann, Rodney Dangerfield o.s.frv. o.s.frv. – voru ekki bara á einhverri siðferðislegri grensu heldur virtist þeim algerlega fyrirmunað að svara spurningunni um hvort þeim væri alvara eða hvort þeir væru „bara“ að grínast. Í mörgum tilvikum hafði maður góðar og gildar ástæður til þess að efast um andlegt heilbrigði þeirra. Post-Simpsons og post-Friends er einsog grínistar leiti meira að skiljanlegra samhengi – traustari fótfestu. Að þeir vilji að við vitum hvað þeim finnst í raun og veru . Simpsons eru (eða voru) oft pínu grófir en maður vissi alltaf sirka hvar þeir stóðu. Þegar Apu-málið kemur upp á síðustu misserum þá efast maður samt ekkert um að Matt Groening meini vel – við vitum að hann meinar vel – en veltum fyrir okkur hvort hann sé ekki bara orðinn risaeðla. Og sama gildir um endurmat Friends þáttanna – það er ekki einsog nokkrum detti í hug að þau hafi öll verið pípandi fordómafífl, þau voru bara svolítið lost. En það var aldrei hægt að vita hvort að Roseanne, Andy Kaufmann eða Rodney Dangerfield meintu vel – og það var (en er ekki lengur) málinu algerlega óviðkomandi. Það er helst mér detti í hug að Rick & Morty séu á þessu óþægilega rófi – en þeir þykja heldur ekki par fínir í góðu kreðsunum, enda gæti maður þá óvart verið að hlæja í kór með einhverjum sem er ekki í góðu kreðsunum. Kaldhæðnin er auðvitað ekki dauð – en þessi hysteríska meinhæðni í listum er það kannski, í það minnsta alvarlega löskuð. Í dag eru flestir þeir grínistar sem nokkurrar velgengni njóta mjög augljósir í afstöðu sinni – það á líka við um Milo Yiannapoulus, sem kallar sig gjarna grínista. Colbert, John Oliver, Samantha Bee og aðrir sporgöngumenn Jons Stewarts eru allir að djóka í nafni réttlætisins – það er sárasjaldan sem maður efast um afstöðu þeirra. Kaldhæðni þeirra er kaldhæðnin einsog hún var skilgreind í Reality Bites: Að segja eitt og meina augljóslega eitthvað annað. Kaldhæðni Roseanne Barr, Andy Kaufmanns og alls þess gamla skóla var kaldhæðni þess sem segir eitt og enginn veit hvað í andskotanum hann, hún eða hán er að meina.
id““:““e4j5n““
Í samtímablús dóminerar listform rafmagnsgítarsólósins. Blúslag er tvær mínútur af söng og tólf af gítarsólóum – sumum til mikillar mæðu en öðrum til andlegrar uppljómunar. Ég er sjálfur í einhverri millikategóríu. Ég elska góð gítarsóló meira en margt annað en mér finnst alltof lítið í mörg þeirra lagt. Suma gítarleikara – Angus Young, til dæmis, eða Alvin Lee – get ég horft á núðla stefnulítið á gítarana sína dögum saman alveg dáleiddur, nánast í hugleiðsluástandi. Aðra, Joe Bonamassa eða Eric Gales, þoli ég bara mjög skamma stund. Og ég tek fram að mér finnst Bonamassa mjög sympatískur gaur, ég hef ekkert óþol gagnvart týpunni – hann elskar blúsinn og elskar gítara. Hann er bara of bissí og of smooth. Vantar allt pönk í hann. En ég skil ekki heldur þá sem bara þola ekki gítarsóló – mér finnst það álíka gáfulegt og að þola bara ekki söng. Fólk alltaf eitthvað að góla yfir lagið! Fyrsta alvöru rafmagnsgítarsólóið í blúsnum lék Floyd Smith árið 1939. Floyd’s Guitar Blues er instrúmental og eftir hann en leikið af sveitinni Andy Kirk & His Clouds of Joy. Sólóið byrjar þegar sirka 20 sekúndur eru liðnar af laginu, tekur á flug eftir um það bil mínútu, stendur lagið á enda og er ekki undir litlum áhrifum af Hawaiiískum slidegítar. Floyd var annars aðallega djassgítarleikari – og byrjaði feril sinn á ukulele. Það hljómar kannski undarlega en það er alveg í stíl við svo margt annað í sögu blússins. Hann er alltaf á einhverju rófi og þrífst oft vel þar sem maður á alls ekki von á honum. Gítarleikarinn T-Bone Walker gaf út nokkur lög á kassagítar 1929 og svo heyrðist ekkert til hans í rúman áratug, ekki fyrren platan Mean Old World kom út 1942. Þá var T-Bone (sem hét Thibeaux að millinafni – T-Bone) búinn að skipta kassagítarnum út fyrir rafmagnsgítar. Við talsverðan fögnuð tónlistarunnenda sem þyrsti í hávaða og læti. T-Bone gefur svo út aðra plötu 1946 og 1947 kemur Call It Stormy Monday (But Tuesday’s Just As Bad) – sem er hans allra frægasta lag. Þessi lög hans T-Bone eru enn frekar djassskotin einsog allur hljómsveitarblús fram til þessa og þótt móta megi fyrir útlínum þess sem fljótlega varð Chicagoblúsinn – fyrsti alvöru rafmagnsblúsinn – þá er hann ekki alveg kominn í ljós. Enda er þetta Los Angelesblús, svona ef við ætlum að fara í landafræðina – og má rifja upp að fyrsti stóri deltablúsgítarleikarinn, Blind Lemon Jefferson, var frá Dallas (einsog T-Bone – sem flutti bara til Los Angeles). Fleiri byrjuðu að leika þetta eftir þarna undir lok áratugarins. Arthur Crudup gefur út It’s Alright, Mama árið 1946 – sem varð auðvitað síðar frægara með Elvis Presley. Í eyrum okkar í dag hljómar það bara einsog rokk og ról en ég held það sé alveg óhætt að fullyrða að árið 1946 hafi þetta verið blúslag – einsog önnur lög Crudups. Stór hluti textans er þá kominn úr Black Snake Moan eftir Blind Lemon Jefferson. Svona tónlist var að vísu stundum kölluð R&B og stundum blús og stundum eitthvað annað og þá ber að hafa í huga að þessi heiti eru ekki síst markaðslegs eðlis – ef þú vilt að eitthvað hljómi einsog nýjasta nýtt þá býrðu til nýja skilgreiningu undir það (frekar en að segja að það sé eðlilegt framhald af þessu gamla). Þannig var Crudup sjaldan kallaður annað en blústónlistarmaður en Big Mama Thornton, sem söng hinn hittarann hans Elvis fyrst – Hound Dog – aldrei kölluð annað en R&B. Sennilega ekki síst bara af því hún var 20 árum yngri en Arthur – hún var bókstaflega nýrri. Þegar lag Crudups var orðið svolítið vinsælt var það svo endurútgefið – sem R&B – 1949. Það er til útgáfa af laginu sem er enn deltablúsaðri – á Spotify – en mér hefur ekki tekist að finna út úr því hvort hún er yngri eða eldri. Þessi hér er allavega sú sem kom út 1946. Aðrir mikilvægir blúsarar í þessari þróun eru til dæmis Floyd Jones og Johnny Young– sem var einn af mjög fáum mandolínleikurum í blúsheiminum. Þessir menn eiga það flestir sameiginlegt að hafa fæðst í deltunni og flutt til Chicago á fullorðinsárum. Og tónlistarmenn í deltunni lærðu gjarna að hantera allra handa strengjahljóðfæri og kunnu margir eitt og annað á píanó líka – Lonnie Johnson þótti t.d. mjög fínn á bæði píanó og fiðlu, en bara séní á gítar. Mandolínin og ukulelein höfðu mikið af kostum gítarsins en skorti kannski svolítið dýptina og hljómstyrkinn – við verðum að muna að þessi tónlist var á þessum tíma leikin á dansleikjum, ekki tónleikum. Hér er miklu yngri upptaka af Johnny Young – þetta er tekið upp í París árið 1970 en tónlistin hafði ekki breyst mikið. Þarna eru löng og mikil mandolínsóló og gaman að horfa á hann hantera hljóðfærið – þetta er svo kunnuglegt og samt svo ókunnuglegt. Það er svo gamall þvottekta deltablúsari, Muddy Waters, sem kemur öllu heim og saman með plötunni I Can’t Be Satisfied árið 1948. Þá er hægt að segja að rafmagnsblúsinn sé kominn til að vera og á næstu árum birtast upptökurnar í kippum – Howlin’ Wolf, Lightnin’ Hopkins, John Lee Hooker, Jimmy Reed, Elmore James, Johnny Guitar Watson og félagar, auk þess sem munnharpan lendir í meira burðarhlutverki á vörum manna eins Little Walter og Sonny Boy Williamson. Aðalstuðið var samt ekki í upptökunum heldur í klúbbum og í leigupartíum (þar sem fólk hélt partí til að eiga fyrir leigunni) og oft var leikið alveg svívirðilega hátt – svo það ýldi í öllum gítörum og surgaði og suðaði. Penu fólki þótti þetta ekki mjög fínt og fræg er sagan af breska tónlistargagnrýnandanum sem flúði inn á klósett á tónleikum Muddy Waters í London – af því hann sagðist ekki geta heyrt í tónlistinni fyrir hávaðanum í salnum. Hann flutti sig fyrst aftar og aftar í salnum en endaði svo þarna á dollunni, í hnipri með pappír og penna. Svo var auðvitað allt fullt af reyk, allir fullir, skakkir og graðir og þetta endaði oft með miklum ósköpum. Það er svolítið fyndið að lesa um það í bók Elijah Wald um Robert Johnson að foreldrar hans hafi ekki viljað að hann, sextán ára gamall, væri að hanga á blúsböllum við fótskör Son house, einsog hann gerði, vegna þess að þar var alltaf verið að skjóta fólk. Það var ekki léttúðin og drykkjan og þaðan af síður sígarettureykurinn. Heldur vegna þess að stundum skutu gestir hver annan. Það má svo auðvitað nefna að foreldrar Roberts reyndust hafa á réttu að standa – Robert var drepinn á balli – og rétt einsog á böllunum sem hann stundaði þarna 11 árum fyrr var öllum skítsama um enn einn dauðann blökkumann og ekkert var rannsakað (fyrren löngu, löngu síðar að það var rannsakað í drep). Ég held það sé svo ástæða til þess að taka hvern áratug rafmagnsblússins bara fyrir sig. Við byrjum þá næst um miðja síðustu öld.