Sándið á Let There Be Rock er kannski flatara en á fyrstu tveimur plötum AC/DC. Kannski, segi ég, því það voru svolítið mikil læti í gymminu – ég hlustaði á plötuna (einsog tvær fyrstu) á hlaupabrettinu. En þetta hlaupabretti var ekki í rólegheitunum í Stúdíó Dan heldur einhverri teknórækt í Wembley í London. Sama hvað olli – hún náði ekki sömu heljartökum á mér og High Voltage og Dirty Deeds. *** Sem er furðulegt. Því lagasmíðarnar eru ansi góðar. Dog Eat Dog, titillagið, Hell Ain’t a Bad Place to Be, Problem Child (sem birtist hér aftur) og hið stórfenglega – og sennilega dálítið siðferðislega vafasama – Whole Lotta Rosie (sem fjallar um tasmaníska konu í talsverðri yfirvigt sem mun hafa forfært Bon Scott kvöld eitt í Melbourne – og hlaut afar góða einkunn fyrir hvílubrögð) eru fyrsta flokks. *** Problem Child birtist aftur á Let There Be Rock – í örlítið styttri útgáfu, en ég get ekki heyrt það hafi mörgu verið breytt annars. Þetta er áreiðanlega nákvæmlega sama hljóðblöndun annars. Sem ýtir stoðum undir þá kenningu að þótt hávaðinn í teknóinu hafi ekki heyrst í gegnum tónlistina þá hafi hann farið illa með sándið. *** AC/DC dönsuðu annars alltaf á siðferðislegu línunni og voru kannski ekkert ásættanlegri þarna um miðjan áttunda áratuginn. Maður sér oft fyrir sér að umræðan hafi ekki verið jafn óvægin og eitthvað, en þetta eru auðvitað árin sem Tipper Gore og félagar eru að koma sér í stellingar til að ritskoða tónlist – nokkrum árum síðar kemur Parental Advisory miðinn og Walmart hættir að selja tónlist sem er svo merkt, allir fara að blípa dónaskapinn og úr verður þessi skringilega ameríska úrkynjun þar sem er bannað að segja shit en samhengi skiptir engu. *** Fyrir utan trommarann Phil Rudd voru þetta samt allt frekar góðir drengir, vel að merkja. Ekki síst Angus greyið – sá andsetni – sem hefur varla smakkað áfengi um ævina, giftist æskuástinni fyrir hundrað árum, og er þekktur fyrir að láta sig bara hverfa þegar hann gengur af sviðinu. Hangir heima hjá sér og spilar á gítar, all by his lonesome. *** Bon var auðvitað fyllibytta og hinir flestir frekar blautir, en sennilega ekkert meira en flestir tónlistarmenn – og alls ekki þannig að þeir hafi stært sig af því eða gert einhver lifandis ósköp úr því (einsog t.d. Guns). Malcolm hætti að drekka fyrir löngu samt. Phil var til alls konar vandræða, fyrst og fremst smávægilegra, og var rekinn úr sveitinni – fyrst í áratug og svo aftur um daginn. Brian er annálaður tedrykkjumaður og rólyndisfýr. *** Titillag plötunnar fjallar um tilurð rokksins – það er sköpunarsaga þar sem til leiks mæta hvíti maðurinn og svarti maðurinn. Sá hvíti kemur með „schmaltz“ (óþarfa væmni) að borðinu og sá svarti leggur til blúsinn. Sennilega mætti leggja það þannig út að Bon sé að segja að rokktónlist fjalli um sársauka – sársauki svartra sé réttmætur en sársauki hvítra kannski fyrst og fremst sjálfsvorkunn. En það væri líka óþarflega pólitískur lestur. Sennilega vakti ekkert fyrir honum annað en að benda á staðreyndirnar. Hvít tónlist var seif og leiðinleg og hún var að drepa ungt hvítt fólk úr leiðindum. Og þá kom blúsinn og með honum búggí og djass og rokk og ról. *** Overdose og Bad Boy Boogie eru óeftirminnilegar lagasmíðar – og Go Down er undir getu þótt viðlagið sé fínt. Það besta og versta við AC/DC er að þeir skuli alltaf fylgja skriðþunganum í eigin listsköpun – það gerir það að verkum að þeir miðla aldrei málum eða eltast við tískustrauma og það veitir tónlist þeirra ákveðna þyngd. En það gerir það líka að verkum að stundum fara þeir bara að þramma, framleiða til þess að framleiða, af alþekktu vinnusiðferði (Angus vaknaði alltaf sex á morgnana til að semja – og þeir sömdu yfirleitt á meðan að þeir túruðu, stoppuðu svo stutt til að taka upp, þoldu ekki dútl, og voru svo aftur farnir út að túra). Og þá er útkoman ekki alltaf jafn spennandi. *** Vaknaði, segi ég, einsog hljómsveitin sé hætt. En hún er einsog Bjarni Ben, þessi hljómsveit, hún stendur allt af sér. En þeir hægðu nú eitthvað ferðina – eða tóku sér langar pásur milli langra túra – þegar þeir voru farnir að þéna almennilega á þessu. *** En þetta er samt platan með Whole Lotta Rosie. Það verður aldrei af henni tekið. Og nei, ég veit ekkert hvort þetta er fallegt eða ljótt – þetta er algert brjálæði af löngun, hlutgervingu, fordómum, kærleika og hamslausum losta. Og sennilega er það bæði fallegt og ljótt og hugsanlega er það allt í lagi. *** *** Þetta er líka fínt lag til að staldra við og bera saman söngvarana. Ég ætla ekkert að segja um það í bili – annað en að Axl og Bon eru eiginlega líkari týpur en Bon og Brian. Og þetta er eitt af þeim lögum – segir mér Wikipedia – sem þeir notuðu í áheyrnarprufurnar fyrir Brian. *** *** Þetta er svo ekki frá því að Axl tók við í AC/DC heldur frá því þegar Angus kom og spilaði með Guns á Coachella – eftir að tilkynnt hafði verið að Axl myndi hlaupa í skarðið fyrir hinn heyrnarlausa Brian. Live-upptökurnar af Axl með AC/DC eru svo miklu síðri. *** *** Axl er gamall AC/DC aðdáandi – sennilega fáir tónlistarmenn í meiri metum hjá honum, ef frá eru taldir Elton John og Freddy Mercury – og Guns spiluðu Whole Lotta Rosie iðulega live í gamla daga. Hér er að lokum upptaka frá gullöldinni. *** #ACDC
createdTimestamp““:““2024-05-25T16:44:51.055Z““
id““:““6vt20″“
Ég er farinn að halda að sumarið sé loksins komið til Svíþjóðar. Það hefur að vísu látið sjá sig nokkrum sinnum áður, en óðar flúið aftur til heitu landanna – en nú er það áreiðanlega komið til að vera. Það eru 23 gráður og sól og blíða. Á fimmtudag voru 6 gráður og rok og rigning og alveg svívirðilega kalt á alla mælikvarða. Þann dag kláruðu krakkarnir veturinn í tónlistarskólanum og léku á mannlausum lokatónleikum – við erum enn að bíða eftir að fá að sjá upptökurnar. Þau voru bæði búin að vera mjög dugleg að æfa sig – ekki síst Aino sem kom seint inn í tónlistarskólann eftir að þau sendu út boð um að það vantaði bassaleikara. Hún þurfti auk þess – af sömu sökum – að leika í tveimur hljómsveitum, alls fjögur lög, sem við höfum æft stíft hérna heima síðustu vikur. Í tilefni af því fórum við út að borða á veitingastað að þeirra vali og þau fengu smá gjafir, sem töldust líka síðbúnar sumargjafir (Aram fékk bók um Iron Maiden og burstakjuða; Aino fékk Grease-plötu og stilli-fetil fyrir bassann). Ég var með plön um að hlaupa maraþon í lok júlí. En síðasta sunnudag tókst mér að meiða á mér kálfann og nú veit ég ekki hvernig fer. Hef ekkert hlaupið alla vikuna en er að verða góður í kálfanum held ég. Sem er skjótari bati en ég mátti reikna með. Upprunalega planið var reyndar að hlaupa hálf-maraþon og kannski sný ég mér bara aftur til þess – en það er hálf súrt samt. Ég lék við að taka upp hljóðbókina að Illsku um daginn og hún er komin inn á Storytel. Nú er ég að lesa Gæsku – sem ég hef ekki lesið síðan hún kom út 2009. Ég hef ekki haft ástæðu til að endurlesa bækur mínar nema þegar þær séu að koma út í þýðingu á tungumáli sem ég skil – Gæska hefur bara komið út á frönsku og það hefur lítið upp á sig að ég lesi hana á því máli. En þetta er nú samt gaman. Skemmtilega framandi einhvern veginn – ég skrifaði hana mestmegnis 2006-2008. Þegar ég byrjaði á henni var ég einhleypur blaðamaður á Ísafirði og þegar hún kom út var ég giftur, átti barn og búinn að segja upp dagvinnunni. Fékk einhver smá listamannalaun en var líka bara ofsalega blankur. Gæska fékk mjög góða dóma víðast hvar – en auðvitað situr fastast í mér neikvæði dómurinn í Kiljunni og annað sem misfórst í tengslum við útgáfuna. Dómurinn var líka alveg voðalegur, a.m.k. í minningunni – hún var dæmd í kippu með Paradísarborginni eftir Óttar Martin Norðfjörð og einsog ég man þetta sátu þau Kolbrún, Páll og Egill bara í hring og hlógu að því hvað þetta væri allt ótrúlega lélegt. Á tímabili var bókin líka „uppseld hjá útgefanda“ – vegna þess að upplagið hafði allt verið sent á einu bretti upp í Smáralind í misgripum fyrir einhvern Arnald. Ég bjó úti í Finnlandi en kom heim yfir jólin. Aram var nýfæddur og ég hafði einhvern veginn engan tíma til að sinna þessu – man varla til þess að hafa lesið upp úr henni. Forlagið skipulagði einhvers konar útgáfuhóf í Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi 18. Ég held við höfum verið svona fjögur í því boði, að Nödju og Aram meðtöldum. Þegar ég kom vestur komu þrír ólíkir bóksalar að mér – og hafa aldrei verið fleiri bóksalar á Ísafirði – til þess að kvarta undan því að það hefði ekkert gengið að panta bókina. Ég man ekki hvort hún var þá enn „uppseld hjá útgefanda“ – minnir að það hafi verið einhverjar aðrar ástæður í það skiptið. Til að bæta gráu ofan á svart fannst sumum vinum mínum hún heldur alls ekki góð – eða allavega að það væru of mikil læti í henni (það eru mjög mikil læti í henni) og hún væri kannski svolítið sínísk (hún er svolítið sínísk). Hún seldist ekki neitt og vakti enga sérstaka athygli þótt hún fengi margar stjörnur í öllum dagblöðunum. Hún hefur samt eitthvað mallast út í gegnum árin og fékk líka fullt af stjörnum í Frakklandi og á nokkra eldheita aðdáendur sem láta vita af sér – en hún fer líka ægilega í taugarnar á þeim sem ekki fíla hana. Sem klagar sosum ekkert upp á mig þegar það er ekki í sjónvarpinu. Mér finnst það eiginlega bara mjög skiljanlegt. En hún á samt að vera svona. *** Plata vikunnar er Gran’ mas I’ve Never Had með þeim Precious Bryant og Algia Mae Hinton. Ég heyrði í Precious Bryant í blúsþætti Cerys Matthews á BBC og pantaði plötuna eiginlega strax – fékk Algiu Mae í kaupbæti. Precious er fædd 1942 í Georgíu í Bandaríkjunum og leikur Piedmont blús. Hún tók upp fyrstu lögin sín 1967 en náði ekki máli að neinu marki fyrren um 20 árum seinna – og lék þá meðal annars á Newport Folk festivalinu og túraði eitthvað um Evrópu. Algia Mae Hinton er nokkuð eldri, fædd 1929 í Norður-Karolínu. Hún lærði á gítar 9 ára gömul – Piedmont blús, af móður sinni – en tók ekki upp tónlist fyrren seint á fullorðinsaldri – sennilega ekki fyrren upp úr fimmtugu, ef mér skjátlast ekki. Platan er gefin út af Moi J’Connais Records, sem er að ég held svissneskt plötufyrirtæki, og ég held að platan hafi verið gefin út 2012 – í öllu falli er Precious enn á lífi þegar hún kemur út, en hún dó 2013. Algia lifði til 2018. Annað eiginlega veit ég ekki um hana – nema að hún heillar mig. Einsog venjulega set ég frekar inn tónleikaupptökur – en það ætti að vera hægt að finna þetta á Spotify (eða panta sér plötuna einhvers staðar – ég fann mína í gegnum discogs). Ég finn enga góða tónleikaupptöku með Algiu lagi sem er á plötunni – en þetta er fyrsta lagið og ansi gott. Hér er svo einhver random blús – úr einhverju partíi. Alan Lomax tók þetta upp 1983. Það eru líka myndbönd af Algiu Mae úr þessu partíi að dansa buck dance með gítarinn og spila á hann fyrir aftan bak og með alls konar stæla. Mjög skemmtilegt.
createdTimestamp““:““2024-05-08T17:16:08.441Z““
id““:““59q10″“
Ég á í dálitlum vandræðum. Ég hef áttað mig á því að efnið sem ég vill fjalla um er alltof viðfangsmikið til að ég ráði við það – það er of mikið af rangölum og hætt við að þessir textar verði bara sundurlaus langhundur eftir sundurlausan langhund. Þess vegna þarf ég að finna leið til þess að skipta þessu upp í passlega munnbita. Það verður því ekkert skrifað hér í dag um heilan áratug af blústónlist – 1950-1960 – einsog til stóð heldur ætla ég bara að tæpa aðeins á stemningunni og henda svo seinna í nokkrar færslur um tiltekna tónlistarmenn og þemu. *** Eitt helsta vandamál blússins var (og er) að þrátt fyrir að hann væri menningardíalekt bandarískra blökkumanna, sérílagi í suðurríkjunum, þá þótti hann afar gamaldags – og hefur alltaf sótt trúverðugleika sinn í fortíðina. Það var kostur að vísa svona í ræturnar og auðvitað skapandi fyrir sjálfsmyndina en líka dragbítur ef sjálfsmyndin átti að vera endalaus áþján og störukeppni við þrælahald og ánauðarbúskap og plantekruvæl. Einsog ég hef áður nefnt voru vinsælustu blústónlistarmennirnir fyrir 1950 yfirleitt þeir sem voru nútímalegastir – skáru sig frá fortíðinni – og þá oft mjög djass- og/eða poppskotnir. Billie Holiday, Lonnie Johnson, Bessie Smith, Tampa Red, Eddie Lang o.s.frv. Hinir ómstríðari og meira „orginal“ tónlistarmenn á borð við Robert Johnson, Skip James og Son House voru allir meira og minna fallnir í gleymskunnar dá þarna 1950. Og höfðu í sjálfu sér aldrei baðað sig í athygli meðan þeir voru enn að, þótt þeir hefðu átt nokkru fylgi að fagna á pöbbunum heima hjá sér og dottið inn með eitt og eitt lag í glymskrattana. Einsog einhver sagði þá var líka krepputíminn í Mississippi ekki heldur sá tími sem bandarískir blökkumenn vildu helst minnast – ekki einu sinni meðan hann gekk yfir. Blökkumenn vildu horfa til framtíðar og komast úr sveitinni – sennilega í þeirri von að einn fagran veðurdag í nútímalegri stórborg myndu þeir ekki lengur þykja annars flokks fólk. Ég hef meira að segja séð viðtal við Ruth Brown (frá því upp úr aldamótum 2000) þar sem hún segist vona að fólk hætti að spila blúsinn – sú skuld sé einfaldlega greidd, hún sé búin að borga og nú ættum við að geta snúið okkur að öðru. Blúsinn tilheyri (nú sem fyrr) fortíðinni.
Bróðurpartur Chicagoblúsarana er alinn upp í Mississippi. Upp úr 1916 hefjast mestu þjóðflutningar í sögu Bandaríkjanna þegar blökkumenn taka að yfirgefa suðurríkin fyrir grænni haga stórborganna – New York, Detroit, Philadelphia, Baltimore, Chicago og fleiri. Þetta eru fyrstu kynslóðirnar sem alast upp eftir að þrælahald hefur verið afnumið. Í fyrstu bylgju þjóðflutninganna fara um 1,6 milljónir manns – en á áratugunum eftir 1940 bætast við ríflega 5 milljónir í viðbót. Ef maður horfir á tónlistina sem verður til á þessu tímabili er einsog þessir þjóðflutningar hefjist á nokkurri bjartsýni – það er ómþýður djass- gospel- og poppfílingur í blúsloftinu frá 1930-1950. En svo tekur við sívaxandi óþolinmæði, brostnar vonir og jafnvel ofsi 1950-1975. Stórveldistími Chicagoblússins er í raun furðu langur – ef maður miðar við að hann hefjist með I Can’t Be Satisfied Muddy Waters árið 1948 og standi langt fram á áttunda áratuginn – það má kannski segja að þetta séu 25-30 ár. Jafnvel enn lengri. Fyrir því eru auðvitað alls konar ástæður. Fyrsta áratuginn er hann einfaldlega nýr og spennandi. Þann næsta nær hann vinsældum meðal hvítra og getur af sér bæði nýjan hippablús í Bandaríkjunum og bresku blússprenginguna – þegar Rolling Stones komu til Bandaríkjanna drógu þeir Howlin’ Wolf með sér í sjónvarpið og endurvöktu feril margra helstu blúsmannanna, akkúrat þegar stemningin var að dofna. Loks, upp úr 1970, var farið að dokumentera miklu meira af tónleikum og mikið af því live-efni sem til er af þessum tónlistarmönnum er frá þeim tíma. Chicago-blúsinn er (einsog mikið af blús) partítónlist og átti sér stað á klúbbum og í leigupartíum – plöturnar voru í einhverjum skilningi aukaafurð af tónleikum sem voru lítið sem ekkert dokumenteraðir. Sú orka var ekki beisluð og sett á teip fyrren á áttunda áratugnum og olli endurnýjuðum áhuga. En Chicagoblúsinn hefur ekkert breyst og er raunar miklu einsleitari árið 2020 en hann var árið 1961.
Hinir grænu hagar borganna voru svo auðvitað blekking. Í Chicago svalt fólk alveg einsog í sveitinni – í einni heimildamynd sem ég horfði á talaði maður (sem ég man ekki hver var og finn ekki aftur) um að fátæktin í Chicago hafi líka verið öðruvísi vegna þess að þar gat fólk séð sjónvarpsútsendingar. Í sjónvarpinu svignuðu veisluborðin og það væri öðruvísi að svelta þegar maður hefði þessar vellystingar stöðugt fyrir augunum. Sami maður talaði líka um að gæludýramatur seldist mikið í gettóunum þótt þar ættu fáir ketti eða hunda – einfaldlega vegna þess að hann væri næring sem fátækt fólk hefði efni á. Launin voru vissulega hærri í Chicago en í Clarksdale og þú varst ekki jafn líklegur til að verða þræll lánardrottna þinna einsog leiguliðarnir í suðrinu. En það var líka dýrara að búa þar og kynþáttahatrið varð mönnum ljóst á allt annan og skipulegri máta – hvernig þeim var holað niður í viss hverfi, borguðu hærri leigu en hvítir en fengu lægri laun fyrir sömu vinnu og svo framvegis. Það var áreiðanlega meira þrúgandi að búa í suðrinu og hættulegra frá degi til dags – en hversdagurinn var sennilega að einhverju leyti viðráðanlegri, og hvað sem öðru leið fólu suðurríkin ekki í sér nein svikin loforð, þau komu til dyranna einsog þau voru klædd. Og þessi svik koma berlega fram í tónlistinni. Það hefur stundum verið sagt að blúsinn hafi verið dapurlegur þar til Muddy Waters og félagar komu fram og settu svolítið stuð í hann og það er ekki alveg úr lausu lofti gripið. Þetta er gröð og lífsjátandi músík sem hentar vel til dans. Hins vegar er hreyfingin líka mikið í hina áttina. Tónlistin er ákafari og óþolinmóðari og hærri og meira ógnandi. Móðins blúsinn á fimmta áratugnum er Dinah Washington með Evil Gal Blues og Josh White með St. James Infirmary – þetta eru döpur lög en falleg. Vangadansar. Og þau eru miklu kurteislegri heldur en Chicagoblúsinn: I’m the beggar on the corner, you’ve passed me on the street And I wouldn’t be out here beggin’ if I have a enough to eat And don’t think I don’t notice that our eyes never meet I was born a little different, I do my dreaming from this chair I pretend it doesn’t hurt me when people point and stare There’s a simple way to show me just how much you care Don’t laugh at me, don’t call me names Don’t get your pleasure from my pain Syngur Wolf í stúdíóútgáfunni – þessi live hérna að ofan er eiginlega bara viðlagið og sóló og ofsi. Howlin’ Wolf er ekki bara að segja sögu af fólkinu sem hlær að hinum kúgaða, hann er að setja sig í spor þess kúgaða, og hann er ekki bara að segja að það sé ljótt að hlæja, hann er að banna fólki að hlæja. Með þjósti. Og þegar maður horfir á þennan risavaxna mann segja það langar mann barasta ekkert að hlæja að honum eða þeim minnimáttar aðilum sem hann hefur tekið upp á sína arma. Á þessum tíma er Big Bill Broonzy líka að gefa út Get Back (Black, Brown and White), Floyd Jones gefur út Stockyard Blues aðeins fyrr og Muddy Waters gefur út Mannish Boy – allt eru þetta mjög pólitísk lög og þótt líta megi á blúsinn sem pólitískan í sjálfum sér, eða pólitískan í „hið persónulega er pólitískt“ skilningnum, þá eru lögin fram til þessa alla jafna ekki pólitísk á þennan hátt (þótt pólitíkin hafi aukist jafnt og þétt frá því Billie Holiday gaf út Strange Fruit árið 1939). Stemningin þarna á sjötta áratugnum er samt nokkuð önnur – það er alveg nýr tónn í blúsnum, ekki bara pólitískur, og kannski sjaldnast, en alltaf ákafur og óforskammaður.
createdTimestamp““:““2024-05-24T11:23:15.245Z““
Páskalaugardagur. Ég tek umræðuna á Íslandi nærri mér. Og stöðuna. Ég hafði oft á orði síðasta vor að við þyrftum að gæta okkar – það væri mjög stutt í að við færum að líta á útlendinga (eða aðra hópa) sem skítuga smitbera, og dýrka hið hreina Ísland (eða hugmyndina um hið hreina Ísland). Það er ekki ný saga heldur gömul – og sama hvort það eru gyðingar eða sígaunar eða bara utanbæjarmenn. Akureyringar kunna að þvo sér um hendurnar og smita ekki en það gildir auðvitað ekki um Húsvíkinga sem skíta þar sem þeir éta og hósta í lófann áður en þeir heilsa fólki með handabandi. Og svo er það auðvitað niðurstaðan – gerðist ekki á einni nóttu en við erum búin að tala okkur upp í það. Og satt að segja held ég að fólk óttist orðið meira að einhver af „hinum“ komi af stað smiti svo sundlaugarnar loki, frekar en að það óttist að einhver deyi – ástandið er farið að fæða sjálft sig, einn óttinn drífur annan. Þeir sem vilja komast í ræktina vilja að fólk fari ekki á barinn og þeir sem vilja fara á barinn vilja að fólk sleppi ræktinni. Og tortryggnin er alger. Næg til að yfirvöld læsi fólk inni svo það brjóti ekki lög. Harðar aðgerðir, einsog þeir sem eru í framkvæmd núna með þessi sóttkvíarhótel – og mér þykir brjóta í bága við þau grundvallarmannréttindi að manni sé ekki refsað fyrir þá glæpi sem maður gæti framið heldur þá sem maður sannarlega hefur framið – gera auðvitað gagn. Það er ekki vandamálið. Hvort þær gera nógu mikið gagn – það er enn mikið af fólki að koma frá öruggum löndum og þess utan er möguleiki að komast í gegnum skimanir og sóttkví og smita samt, það eru áreiðanlega einstaklingar á undanþágu frá sóttkví (t.d. vegna annarra veikinda – eða börn ein á ferð) og þegar einn einasti er kominn inn getur hann hóstað á heilan fótboltavöll og sett samfélagið á hliðina – er svo önnur spurning. Og ef maður treystir ekki fólki til að fara sjálft í sóttkví hvers vegna treystir maður því þá fyrir að vera koma beint frá einhverju öruggu landi? Lögreglan gaf í skyn að hún léti fólk sýna sér myndir úr símanum til að sjá hvar það hefði verið. Sem er auðvitað líka snargalið. Svo er aftur spurning hvaða kostnað hinar hörðu aðgerðir hafa í för með sér umfram það gagn sem þær gera. Óttinn er hungruð skepna og hún verður aldrei mett svo vel sé. Það er ábyrgðarhluti að leyfa henni að leiða samfélagið. En sem sagt. Þegar ég var að hugsa þetta síðasta vor hafði ég ekki alveg gert mér grein fyrir því að þetta gæti náð til mín, svona prívat og persónulega. Samt var löngu ákveðið að við tækjum ár í Svíþjóð. Ég hafði bara ekki hugsað út í það. Ég var og er hlynntur sóttkvíarreglum og hefði ekki talið eftir mér að sitja tvær vikur í sóttkví – hef tekið það upp stoltur í samræðum að á Íslandi sé bara fimm daga sóttkví og fólk testað tvisvar. Hið fullkomna fyrirkomulag í erfiðum aðstæðum. En ég vona að ég muni ekki láta það yfir mig ganga að vera læstur inni fyrir að geta hugsanlega orðið sekur um glæp. Það er undarleg tilfinning því raunmunurinn er auðvitað ekkert ofsalegur – ég hafði séð fyrir mér að leigja sumarbústað og hanga þar. Og hugsanlega jafnvel fara á hótel – sérstaklega ef ég þyrfti einn í sóttkví. Nadja er bólusett og ég veit ekki hvort hún eða börnin þurfa að fara í sóttkví. Ég veit ekki hvað það þýðir fyrir okkur, sem þó munum ferðast saman ef þess er nokkur kostur. Eða hvað það muni þýða. Ég hef hins vegar ekki nema takmarkaða trú á því að reglur verði rýmkaðar eða hysterían minnka á næstu mánuðum – mér finnst þvert á móti að nú þegar loksins birtir til sé fólk farið að æsa sig upp sem aldrei fyrr, og krefjist harðari og harðari aðgerða. Það hafa aldrei verið jafn strangar reglur á Íslandi og núna. Sem meikar bara ekkert sens. En ég sem sagt tel það ekki eftir mér að sitja á gluggalausu hótelherbergi í fimm daga sjálfur – ég er mjög góður í þannig hangsi og hef litla þörf fyrir útivist. Been there, done that. En það þyrfti sennilega eitthvað meira til þess að ég legði það á börnin mín. Hins vegar geri ég það ekki undir neinum kringumstæðum ef ég fæ ekki að gera það sjálfviljugur. Ef það er ekki glæpur að ferðast er óásættanlegt að fólki sé refsað fyrir það. Það er bara ekki flóknara en það. Þórólfur segir í viðtali að „ekki komi til greina að breyta þessu fyrirkomulagi“ – og í sjálfu sér áhugavert að hann talar einsog hann ráði þessu sjálfur, frekar en að hann sé ráðgjafi stjórnvalda sem þurfa þess utan að halda stjórnarskrá og alþjóðasáttmála, sem er alls ekkert víst að bakki upp svona aðgerðir. En ef í ljós kemur að fyrirkomulagið er löglegt og því verður ekki breytt finnst mér líklegra en ekki að ég reyna að finna út úr því hvort ég geti ekki verið áfram í Svíþjóð a.m.k. þar til íslenska ríkið fer aftur að virða lágmarks mannréttindi. Svíar hafa verið kolgeggjaðir í sínum covid-viðbrögðum – en þeir eru kannski búnir að taka út mestu klikkunina. Það hlýtur líka að koma að því þessu neyðarástandi verði aflýst á Íslandi – ef það er ekki komið með haustinu þá næsta vetur. En ég lít sennilega svo á að hið klosslokaða Ísland sem fólk kallar eftir sé þá klosslokað fyrir mér líka. Ég hef engan áhuga á neinum undanþágum í því. Mér finnst þetta bölvanleg tilhugsun – ég hef verið með mikla heimþrá alveg síðan við komum. Ég er mjög heimakær maður, sakna vina minna og fjölskyldu og er elskur að dótinu mínu sem varð eftir. En kannski maður hugsi þá bara um Svíþjóðardvölina sem framlengda sóttkví – og líti svo á að það sé bara alls ekki eðlilegt að maður ferðist á milli landa, jafnt þótt maður eigi rætur og heimili annars staðar. Sennilega telja flestir sem sitja í sóttkvíarfangelsinu í Þórunnartúni að þeir hafi ekki minna réttmætar ástæður til þess að ferðast á milli landa en ég. *** Ég er hjá tengdafólki mínu í Rejmyre en plötusafnið á Ísafirði, svo það verður ekki eiginleg plata vikunnar. Hins vegar er hérna lag sem var gefið út á 78 snúninga hljómplötu árið 1927 (sem ég á ekki í mínu safni). Lagið er hálft á hvorri hlið enda tæplega sex mínútur og bara pláss fyrir þrjár á hverri hlið. Það er Washington Philips sem leikur á einhvers konar sítar og syngur – gospel-blúsinn Denomination Blues. Þetta er töfrandi sánd – og nístandi krítík á kirkjuna.
indentation““:0}}
The french speaking magazine LaPresse interviewed me recently about my novel Hans Blær – Troll, in french, just out from Editions Métailié. I answered in English, since my French is not up to snuff. If you wish to read the interview in French , as it was published (edited for brevity), you can find it here – otherwise, my answers in English are here below.
a) Why did you choose to create this character that refuses traditional gender representation ? One of the major focuses of my work has always been the formation of identity – how we are who we are and who we are allowed to be. Agnes (and others) in Illska has her „foreignness“ pushed on her; Áki and Leníta in Heimska have their egos bloated by constant attention/surveillance etc. In Troll I wished to examine what happens when someone dons an identity people disaprove of. Most identities that are marginal or offensive to someone are maintained by building groups and alliances – by creating an „Us against the world“ mentality, so that the participants feel they are fighting the good fight (sometimes – as in the cases of trans people – that is true; in other cases, such as nazi-trolls, it is not – but the feeling within the group is similar). What I wanted to give Hans Blær was an almost irreconcilable identity – two extremes, where one would almost attack the others – and the only way to do that was to give them an intense desire to not fit into society, to be an outlier, a punk with an oppositional disorder, a trans -gressor, to never ever fit into any group, hated by the ultra-right for being trans and hated by the trans for being ultra-right. And thereby, in some strangely contorted way, free – an absolute individual. b) In French, there is a specific pronoun to refer to people who identify as non binary ; in English, it’s they/them/theirs. What is used in Icelandic ? The most common one is „hán“ – but there are a few others floating around. Hán is the one used in the book (but Hans Blær being Hans Blær they conjugate it in their own peculiar way). 2. Hans Blaer is a person who does and thinks and acts as they wish, but there are consequences to these actions, one of them being that the police, among others, is looking for them (even though the police is not the one that scares Hans the most, maybe!)… How much liberty do you think we have in our so-called free-world where it appears that anyone can say whatever they want? We have more power to express ourselves than ever before in history. Anyone with a cheap smart phone and a twitter account can say whatever they want – and has the possibility to go viral. At the same time we are faced with the impossibility of cutting through the noise. If you’ve ever tried reading (different texts) aloud with many other people in the same room you will know the bird-cliff effect – where eventually the only person you hear is yourself, everything else is just noise. This is what social media is. A bird cliff. We are also faced with different possibilities of outrage and social cancellation or even prosecution and – in dictarships – prison or death. If we leave the dictarships aside – as to a certain extent different rules apply there – these are not societies that breed serious or difficult thinking. They refrain from the uncomfortable and breed simple soundbytes, black and white slogans etc. I think there is a general feeling in Europe today of polarization, or the formation of many different insular group-identities, much along the same lines as in the United States, where people are mostly speaking to their own in-groups, their peers, and have little understanding or tolerance for the peculiarities or characteristics of people in other groups. 3. Do you think that social media are dangerous in a way that they can provide an audience to just about anybody, even people who can create toxic debates? I think we’ve always had the audience – and the same toxic discourse has been going on. But it has happened in private. The difference with social media is that a large portion of our private lives are now no longer private – they are a performance intended for others (and as such, maybe always magnified). This can and does infuriate, for good reason. Our private voices – or the voices in our in-group – have always contained much malignance for other groups, both in jest and in seriousness. Not to detract from the toxicity of speaking ill of others, toxic discourse (along the lines of „all men are bastards“/ „all women are whores“) has also been a conduit for general frustration. We can become more polite, more inhibited in our expression, but that in itself will not rid us of the frustrations that triggered the vulgarities. As for social media, in particular, of course it is dangerous. But so is the ocean, so is childbirth – and so is literature. We need to be much more willing to deal with the danger of being alive and to look at eachother unflinchingly and with compassion. 4. Each one of your novels is audacious and provocative in its own way ; what do you think the role of literature should be in general and in 2021? I don’t think I can – or should – speak for literature in general. I can participate in this great project of world literature like a rain drop participates in the rain and try to think of my own flight through the atmosphere and where I wish to land and make a splash. I am continuing on my path – giving my heart to the stories that I see around me, and trying to understand the nature of identity and groups, of love and selfishness, fear and rage. I have a new novel coming out in Iceland in the fall, about the writer Eiríkur Örn, who is a dishonourable and cancelled writer in Reykjavík. It is a not an autobiography, though it may sound like it, it’s a fictionalisation of the repercussions of publishing Hans Blær and becoming a transgressor – of sorts – where it (predictably) offended the right, which doesn’t want to see trans identities, and angered the left, that didn’t want a cishetero white male author writing about trans identities, especially not transgressive ones. So the identity in this novel – up on the chopping block – is my own.
id““:““d5jer““
Skrítnasta plötuumslagið. *** *** Ég skil ekki alveg hvað markaðsmaðurinn á bakvið þetta var að spá. En þetta venst mjög vel og verður bara frekar töff þegar á líður. *** Powerage hefur á sér orð fyrir að vera Bon-plata. Það kemur til af allavega tvennu. Í fyrsta lagi eru það textarnir – Bon yrkir hreinan og þjáðan verkalýðsblús og hann er aldrei betri. AC/DC eru hvítt hyski í konungdæmi hennar hátignar, fulltrúar utangarðsmanna – hinna fullu, gröðu, kjánalegu, kátu – og þeir gefa engan afslátt. Þetta er maður með skilaboð sem yrkir einsog hálfstífur TS Eliot eftir kvartpott af Jack Daniels. *** I know that it’s evil
I know that it’s gotta be
I know I ain’t doing much
Doing nothing means a lot to me
Living on a shoestring
A fifty cent millionaire
Open to charity
Rock ‘n’ roll welfare
Sitting in my Cadillac
Listening to my radio
Suzy baby get on in
Tell me where she wanna go
I’m living in a nightmare
She’s looking like a wet dream
I got myself a Cadillac
But I can’t afford the gasoline
I got holes in my shoes
And I’m way overdue
Down payment blues *** Á þessum tíma lifðu þeir hátt en áttu enga peninga. Þeir voru á viðstöðulausum túr um heiminn og peningarnir fóru allir í það – alltaf þegar þeir komu heim voru þeir blankir og þurftu að leggja af stað aftur. Og fannst það svo sem ekki leiðinlegt. Down Payment Blues er þannig sjálfstætt framhald af Ain’t no fun (waiting around to be a millionaire) af Dirty Deeds. *** I ain’t done nothing wrong / I’m just having fun syngur Bon í Riff Raff. Það er rosalega beisik – ef Bon væri nýaldarmaður að kjarna sig yrði þetta mantran hans. *** Og Bon átti vel að merkja aldrei eftir að verða milljónamæringur og hann átti aldrei fyrir bensíninu á kadiljákinn. AC/DC fóru ekki að skapa neinar formúgur fyrren eftir að hann [SPOILER ALERT!!!!] dó. *** En hafi nokkur maður skemmt sér jafn vel og Bon Scott skal ég hundur heita. *** Powerage er líka fyrsta platan sem Cliff Williams spilar á – bassaleikarinn, sem sagt. Og síðasta platan sem þeir gáfu út á meðan ég var enn ófæddur (hún kemur út 5. maí en ég fæðist rétt tæpum tveimur mánuðum síðar). **** Powerage er líka eftirlætis AC/DC plata Keiths Richards, sem hefur ábyggilega merkingu fyrir einhverjum (ég er voða lítill stónskall). Og útskýringin er í sjálfu sér voða einföld – gítarinn á plötunni er stónslegur. Youngbræðurnir hafa aldrei verið jafn Keithskotnir. Hlustið bara á þetta: *** *** Og þá komum við að annarri ástæðunni fyrir því að þetta er Bonplata: Það fer miklu minna fyrir Angusi. Nú er litli maðurinn í skólabúningnum einhver plássfrekasti gítarleikari sögunnar – á eftir Jimmy og Slash (ég tel ekki með gítarleikara sem fronta bönd sjálfir eða koma fram undir eigin nafni) – og þess vegna fer ekki beinlínis lítið fyrir honum á Powerage. En talsvert minna. Bitið í sándinu er aðeins minna og hann (og/eða Malcolm) eru meira í því að fylla upp í fyrir Bon með óuppáþrengjandi skrauti – og Bon nýtir plássið í botn. Hann tekur meira að segja Robert Plant óp í Kicked in the Teeth! *** *** Powerage er ein allra besta AC/DC platan, en hún er það þrátt fyrir að hún sé hvergi nærri besta gítarplata AC/DC, sem þó er mjög gítardrifin hljómsveit. En þá vill reyndar til að meira að segja á slæmum degi er Angus miklu betri gítarleikari en rest og rusl. Og langtum betri en Keith, sem er ekkert nema lúkkið. *** Það er ein undantekning á þessu með gítarleikinn. Og eiginlega er einsog hún sé forsendan fyrir öllum hinum rólegheitunum. Maður fær það nefnilega svolítið á tilfinninguna að Youngbræður hafi einfaldlega sett allt púðrið í sömu sprengjuna. Og þvílík ósköp. Þessi live-útgáfa er svakaleg. *** *** Sjáiði líka dýrið! Það rennur gerræðisleg rokksturlun um æðar þessa manns. Sjáiði þetta! #ACDC
createdTimestamp““:““2024-05-23T03:12:39.675Z““
Per vinur minn spurði mig á dögunum hvort ég væri enn að skrifa „fréttir frá Svíþjóð“. Ég sagði að botninn væri kannski svolítið að detta úr þessu. Þegar við komum fyrst í vor vorum við til þess að gera nýbúin með fyrstu bylgju á Íslandi og það var forvitnilegt að setja sig inn í það hvernig Svíar hafa hugsað (og ekki hugsað) sín covid-viðbrögð í upphafi annarrar bylgju og bera það saman við það hvernig Íslendingar hafa hugsað (og ekki hugsað) sín covid-viðbrögð. En maður heldur ekki áfram að bera saman sömu hlutina endalaust, samanburðinum hlýtur einhvern tíma að þurfa að ljúka? Mér þykja viðbrögð Svía skiljanlegri eftir ríflega hálfs árs veru hérna. Þeir hafa gætt sín á því að búa ekki svo um hnútana að hér ríki ógnarástand. Akkúrat í augnablikinu virkar óeðlið í hina áttina – ofsafengin viðbrögð við nokkrum smitum á Íslandi og ofsafengin reiðin sem blossar upp í kjölfarið. Helvítis skítar út um allt, fólk sem þvoði sér ekki um hendur, gekk ekki með grímu, útlendingar sem sáu sér hag í því að kaupa dýra flugmiða, dýra hótelgistingu og dýr PCR-próf til að sækja sér atvinnuleysisbætur á Íslandi, helst oft í viku – í sem stystu máli: drulluháleistar út um allt. Maður getur kallað það skiljanleg vonbrigði og eðlilega gremju og holla gagnrýni og hvað sem maður vill – en þetta er samt svolítið stjórnlaus hræðsla stundum og fólk slær frá sér í allar áttir. Ég sá meira að segja fyrrverandi þingmann halda því fram fullum fetum að búið væri að rekja öll smit til einnar verkakonu af pólskum uppruna sem átti að hafa farið í (fullkomlega óþarfa) helgarferð til heimalandsins, með þarlendu flugfélagi sem væri miskunnarlaust að bjóða þangað niðurgreiddar ferðir (sennilega í þeim tilgangi einum að dreifa smiti). Það vantaði bara að hann útvegaði heimilisfang konunnar og kveikti í kyndlunum fyrir skrílinn. Mér finnst líka og hefur alltaf fundist að hugmyndir um að loka landamærunum meira og minna um ófyrirsjáanlega framtíð séu álíka nötts og lockdown til langtíma. Kannski vegna þess að ég tilheyri einni af þessum fjölskyldum sem eru með fót í fleiru en einu landi. Ég skil vel að það sé mikilvægt að komast í sund og ræktina og þurfa ekki að vinna heima – en það er líka mikilvægt fyrir ex-pata/innflytjendur að geta hitt fjölskylduna sína, hitt menninguna sína, talað tungumálið sitt o.s.frv. Ef ástandið væri ekki einsog það er væri ég áreiðanlega búinn að taka skottúr til Íslands. Ég veit að það var þungt fyrir Nödju að geta ekki skotist til Svíþjóðar í vor – því það er einmitt svona ástand sem kallar fram langanir eftir því að vera með sínum „nærustu og kærustu“, ef maður mögulega getur. Ég veit annars ekki hvort Svíar eru almennt léttari en Íslendingar í þessu. Stundum finnst mér þeir bara almennt kærulausari. Ég talaði nýlega við mann (ekki Per, vel að merkja) sem sagðist vera að íhuga að sleppa því að bólusetja sig. Hraustur maður, ekkert að honum – hann langaði bara ekki að þurfa að díla við mögulegar afleiðingar eða beiskjuna. EF það skyldi reynast eitthvað að. Þetta snerist ekki um Astra Zeneca eða eitthvað annað. Sennilega bergmálar hérna narkólepsían sem kom upp hjá fáeinum einstaklingum eftir svínaflensubólusetninguna 2009. Okkur er mjög gjarnt að upplifa stakar sögur einsog þær væru lýsandi fyrir veruleika allra. Að hafi einhver lent í einhverju hljóti allir að vera í hættu. Sem er auðvitað satt – maður er t.d. alltaf í einhverri hættu með að vera rændur úti á götu, tölfræðilegu líkindin eru til staðar. En ef maður ætlar að vera hræddur við það er maður farinn að hræðast allt – maður getur líka orðið fyrir eldingu, dottið í bað, fengið heilablóðfall. Það er mjög hættulegt á internetöld þar sem maður getur í einu vetfangi lesið sögur um 400 manns sem urðu fyrir eldingu bara í vikunni og ályktað að hér sé um faraldur að ræða – eldingastríð – án þess að taka tillit til þess hvað jörðin er stór og fólkið margt. Fyrir utan svo hitt að tölfræðilegu líkindin af því að fara illa út covid – jafnvel fyrir hraustan ungan mann – eru talsvert meiri en að maður fari illa út úr bólusetningu. En það þarf ekki að vera í ökkla eða eyra. Manni er hollast að vera ekki værukær gagnvart vírusnum – en maður má ekki heldur láta hann gersamlega taka sig á tauginni. Ég átti minn fyrsta vinafund í marga mánuði á dögunum – við áðurnefndan Per – annars hef ég ekki hitt fólk (í eigin persónu) nema fjölskyldu Nödju síðan í október. Þetta Svíþjóðarár hefur farið að mörgu leyti öðruvísi en það átti að fara. Ég hafði séð ýmsa kosti við að vera hérna og eitthvað af því hefur staðist þótt flest hafi látið á sér standa vegna aðstæðnanna. Ég hef t.d. haft bærilegan vinnufrið, virðist mér, í öllu falli kláraði ég tvær bækur og hef sinnt alls konar öðru. Svo einhver eru afköstin og ég lofa að ég kastaði ekkert til hendinni. Kostirnir – það sem ég hlakkaði til – var hins vegar t.d. að geta farið á tónleika. Það eru blúsklúbbar í Stokkhólmi og stórar hljómsveitir spila þar mikið. Eric Bibb á sænska konu og á heima þar. Við gáfum Aram Iron Maiden miða í afmælisgjöf – þeir tónleikar eiga að vera í júlí en verða varla. Mér tókst að fara á eina skítsæmilega blústónleika í september en annars hefur náttúrulega ekkert gerst – því þótt hér sé ekki lockdown þá er ekki einsog fólk vaði bara um villt og hósti hvert á annað. Það eru takmarkanir inn í búðir og allt lokað á kvöldin og leikhúsin og bíóin og allt það lokað. Annað var nálægð við alþjóðaflugvöll. Einn stærsti gallinn við að búa á Ísafirði er að þurfa alltaf að keyra til Keflavíkur (eða Seyðisfjarðar) til að komast úr landi. Á venjulegu ári ferðast ég mikið og það er umtalsvert auðveldara að skjótast héðan á Arlanda – varla klukkustundarakstur. Það er meira að segja alþjóðaflugvöllur hérna í bænum – umdeildur aðallega vegna þess að það er taprekstur á honum, getur ekki keppt við Arlanda, sennilega verður honum lokað – og hann er litla tíu mínútna strætóferð í burtu. Svo höfðum við á prjónunum að kynnast fólki og svona, einsog maður gerir. Vorum meira að segja með fólk í sigtinu til að bjóða í mat. En í þessu ástandi er fólk lítið að hittast og svo til enginn er að opna á ný samskipti. Ef fólk hittir einhvern þá hittir það aldavini sína, eðlilega, og nýfluttir – sem þess utan eru ekki komnir til að vera – mæta mjög miklum afgangi. Og þannig mætti halda áfram. Ég hafði hugsað mér að komast á gítarnámskeið eða gítarsmíðanámskeið eða jafnvel söngnámskeið – og þótt ýmislegt af þessu hefði verið tæknilega mögulegt var ekkert af því æskilegt og þar við sat og situr. Við hjónin erum hins vegar að fara til Stokkhólms í dag. Fengum hótelgistingu í jólagjöf og ætlum að nýta okkur gjafakortið. Búin að bóka borð á veitingahúsi – þau eru opin til hálfníu – og ætlum að gera okkur glaðan dag. Og veitir ekki af – ég hef verið afar þungur síðustu vikur, þótt ég sé bærilegur í dag og í gær. *** Plata vikunnar er Final Sessions 1963-4 með Sonny Boy Williamson. Sonny Boy var munnhörpuleikari, fæddur 1912, og lést ári eftir að þessum upptökum lauk, 52 ára – en leit út einsog hann væri áttræður að minnsta kosti og hafði gert lengi. Hann hét Aleck „Rice“ Miller þegar hann fæddist og tók upp þetta nafn eftir öðrum blúsmunnhörpuleikara, John Lee Curtis Williamson, sem var tveimur árum yngri en reis til frægðar á undan Rice. Eru þeir stundum kallaðir Sonny Boy Williamson I (John Lee) og Sonny Boy Williamson II (Rice Miller) til aðgreiningar. Sá fyrrnefndi er aðeins minni fígúra í munnhörpuheiminum en sá síðarnefndi – en það munar ekki mjög miklu og þeir þykja báðir miklir frumkvöðlar í stíl og tækni án þess að ég þekki mikið hvernig munnharpan virkar. Sjálfur sagði Rice að hann hefði tekið upp þetta nafn á undan John Lee – sem virkar undarlega í ljósi þess að Rice hét alls ekki Williamson að eftirnafni – og flestum þótti þetta víst frekar lélegt af honum. En hann var tónlistarséní fyrir því. Platan er tekin upp í tvennu lagi. Fyrra sessjónið er tekið upp „in Europe“ einsog stendur aftan á umslaginu, síðla árs 1963, en það síðara í Chicago í ágúst 1964. Svo virðist sem í Evrópu hafi hvorki verið lönd, borgir né dagatal. Í Chicago var hins vegar ekkert manntal og því veit enginn hver lék á trommur og bassa á þeirri hlið plötunnar. Annars er þetta ofsalegur mannskapur. Í Evrópu er Matt Guitar Murphy á gítar – sem margir kannast sennilega við úr Blues Brothers myndinni, en lék líka með Howlin Wolf, Memphis Slim og fleirum, og er næstfrægasti blúsgítarleikari Chicago-blússins á eftir Buddy Guy, sem leikur einmitt í Ameríkulögunum. Lafaeytte Leake leikur á píanó í Ameríku – en sennilega er enginn honum fremri nema ef vera skyldi þá Otis Spann sem leikur í Evrópulögunum. Þar er svo Willie Dixon sjálfur á bassa og Billy Stepney á trommur. Öll lögin eru frábær og flutningurinn óaðfinnanlegur. Þetta er einfaldlega meistaraverk. Það eru tvær útgáfur af Mattie is My Wife, ótrúlega flott og einföld útgáfa af Robert Johnson laginu Kind-Hearted Woman – en eftirlætið mitt er sennilega langdregin útgáfa af gospelslagaranum Milky White Way. Ég vissi það ekki þegar ég byrjaði að skrifa þetta en platan er ekki á Spotify og ekkert laganna af henni er á YouTube. Så det så, einsog maður segir – ég hef ekkert upp á að bjóða. Nema kannski þetta live-myndband af Sonny Boy að spila allt önnur lög með allt annarri hljómsveit í sænska sjónvarpinu.
createdTimestamp““:““2024-05-14T11:49:40.883Z““
Það er skrítið að ætla að skrifa um bækur sem ég kláraði í Svíþjóð, myndir sem ég sá þar eða eitthvað sem ég gerði á Ísafirði í síðustu viku – úr þessum víggirta kristalskastala hérna í San Pedro Sula, paradísargarðinum Panorama. Sá heimur er horfinn. Það er ekki mánudagur heldur, ég missti af mánudeginum í einhverjum ferðalagsstormi. Við lögðum af stað frá Västerås snemma morguns á mánudegi, vörðum deginum í París og flugum svo til Mexíkó um nóttina. Lentum þar skömmu fyrir fjögur að staðartíma og flugum áfram til San Pedro Sula klukkan níu. Vorum komin í hús upp úr hádegi og eyddum deginum í gær úti við sundlaug, mókandi ringluð af flugþreytu. Þess utan hef ég lítið lesið. Ég er ekki týpan til að koma miklu í verk í flugvélum eða á flugvöllum – ekki einu sinni þegar ég er einn á ferð, hvað þá með börnin í för. Líkaminn fer allur á hold (líkami= hold – lol!) og ég bara bíð þess að vera lentur. Það hefur alveg komið fyrir að ég lesi mikið eða jafnvel skrifi mikið í flugvélum en það er mjög sjaldgæft. En skýrslu skrifar maður samt. Það fyrsta á listanum yfir menningarupplifanir er uppskeruhátíð Fab Lab á Heimabyggð þriðjudaginn fyrir viku. Ég mætti þangað með Endemi, tók lítið spunalag með Dodda (á píanó) og sýndi fólki gripinn. Þar var fólk með alls konar sem það hafði gert að hluta eða öllu leyti í Fab Lab. Dan vinur minn, Iowamaður, mætti með cornhole-brautina sína, Denni – trúbadúr og bóksali – með heimasmíðuðu fiðluna sína, þarna var strákur frá 3X-stál með spíral sem á að koma í staðinn fyrir færiband í laxvinnslu (og hefur það fram yfir færibandið að laxinn er í vatni allan tímann og betra að stýra ástandi hans í vinnslunni), hressir tölvunördar með heimasmíðaða gamaldags spilakassa (með pac man og tetris og fleiru) og svo framvegis og svo framvegis. Þetta var mjög gaman – hefði kannski mátt vera formlegri uppsetning, að allir segðu frá sínu fyrir allan hópinn og ættu tíu mínútur á mann, eða svo, frekar en að maður þvældist bara á milli. Cornhole-brautin hans Dan, sem er frábær, féll t.d. aðeins milli skips og bryggju af því hún var úti á gangstétt (og við öll inni að drekka bjór). En Fab Lab er snilld og ég er með á dagskrá að fara aftur í haust og smíða annan gítar. *** Við slógum saman kvikmyndaklúbbi barnanna og kvikmyndaklúbbi fullorðna fólksins og horfðum á listræna óameríska barnamynd – Ferfættan kastala Haurus eftir japanska leikstjórann Hayayo Miyazaki. Myndin fjallar um unga konu, Soffíu, sem rekst á konu sem gengur undir heitinu Eyðinornin – sú breytir þeirri ungu í gamla kellingu. Soffía flýr út í sveit í leit að lækningu og þar rekst hún á ferfættan lifandi kastala og íbúa hans – Kalsífer (sem er eldurinn sem gefur húsinu kraft og stýrir því), Mike (sem er drengur) og galdrakarlinn Hauru – og fær vinnu við þrif, enda kastalinn mjög skítugur. Á þessum tíma geisar mikið stríð í þessum heimi – tilgangslaust og grimmilegt, háð fyrir ómerkilegan pólitískan ávinning og á sér augljósa samsvörun í Íraksstríðinu, sem leikstjórinn var mjög mótfallinn. Hauru er lykilmaður í að stöðva þetta stríð – hann breytir sér í fugl á hverju kvöldi og fer og truflar báða aðila stríðsins, en þessi hamskipti eru að ríða honum að fullu. Allt fer þetta auðvitað vel á endanum. Sagan er skemmtilega flókin og margbreytileg af barnamynd að vera. Það er ekki að boðskapurinn sé flókinn – þetta er óður gegn stríði, fyrir lífi, gegn aldursfordómum, fyrir krafti kvenna, krafti fórna, fyrir galdri og gegn tækni – en hún leyfir sér margar persónur og marga söguþræði sem þvælast hver fyrir öðrum. Teikningarnar eru allt frá því að vera fremur hversdagslegar yfir í að vera sturlaðar – allar senur með hinum ferfætta kastala eru stórfenglegar, minna á Terry Gilliam og Dali. Hún mæltist líka mjög vel fyrir hjá öllum sem á horfðu. *** Á föstudagskvöldið horfðum við Aram og frændur hans, Simon og Jocke, á Thor: Ragnarök. Hún var fín. Meiri húmor en í mörgum af Marvelmyndunum; aulalegur en vinalegur. Ég er ekki viss um að ég nenni að rifja upp söguþráðinn eða að ég muni hann nógu vel til þess. Hel – sem í myndinni er dóttir Óðins, ekki Loka – ætlar að sigra heiminn en bræður hennar, Þór og Loki, sigra hana með því að setja af stað Ragnarök (sem eyða bara Ásgarði – og hann endurfæðist ekki, a.m.k. ekki í sömu mynd og ekki í þessari (bíó) mynd). Einmitt já, HÖSKULDARVIÐVÖRUN! Er það of seint? Sjónvarpið hans mágs míns, Jocke, er með ægilega háskerpu sem gerir allt einhvern veginn of raunverulegt til að virðast raunverulegt. Þetta truflaði mig mikið. Ég mun aldrei skilja þá stefnu í kvikmynda- og viðtækjagerð að meiri skerpa sé alltaf betri. Þetta er einsog að mixa tónlist og framleiða hljómflutningstæki út frá þeirri forsendu að meira treble sé alltaf betra. Maður endar bara með illt í eyrunum. *** Ég las Kompu eftir Sigrúnu Pálsdóttur eftir að hafa séð Stefán Pálsson rifja hana upp á Facebook. HÉR VERÐA HÖSKULDAR/SPOILERAR. Það var mikið talað um það á sínum tíma að þetta væri fyrsta skáldsaga Sigrúnar og þar með ótrúlega góð. Sem var bæði fyndið og svolítið patróníserandi. Sigrún hafði – 2016 – gefið út að minnsta kosti tvær stórar bækur. Önnur (það best ég veit) er púra sagnfræði og hin eitthvert millibilsstig. Og þar með einhvern veginn fáránlegt að tala um hana einsog byrjanda, jafnt þótt það sé með jákvæðum formerkjum. Svona einsog ef Bubbi Morthens hefði fengið nýræktarstyrk til að gefa út fyrstu ljóðabókina sína. Eða næstum því. Hvað um það – Kompa er frábær bók og hefði verið það hvort sem Sigrún hefði verið tvítugur nýgræðingur eða sjötugur reynslubolti. Hún fjallar um konu sem hefur eytt mörgum árum í að skrifa 600 blaðsíðna ritgerð þegar hún kemst að því að forsendur ritgerðarinnar (að tiltekinn myndlistarmaður fyrr á öldum hafi verið kona) standast ekki nánari skoðun. Við tekur hálfgert hrun veruleikans – stór hluti bókarinnar er einsog hálfgert fyllerí, maður nær tökum á glefsum, missir sjónar á því sem er að gerast, nær því aftur, flettir fram og til baka, ringlast, nær stjórninni og svo framvegis. Konan veit ekki hvað hún á að gera, hvað henni á að finnast, hvernig henni á að líða og svo framvegis, og lesandinn er svolítið í svipuðum sporum. Þetta gæti reyndar haft svolítið með að gera það hvernig lesandi ég er og hvernig bók þetta er (nei, er það?!) Það er lengst af mjög óljóst í hverju misskilningur konunnar er fólgin og þegar maður – ég – veit ekki eitthvað svo miðlægt í bók þá fer maður að lesa mjög hratt. Þá kviknar á glæpasagnalesandanum sem vill bara finna vísbendingarnar sínar. Textinn í bókinni er hins vegar Proustískari en svo að maður græði mikið á því – hana hefði sennilega mátt stytta um þriðjung bara með því að fjarlægja fatalýsingar (sem ég er ekki að mæla með). Þannig rekast á í henni tvö mótsagnakennd eðli – hægi ljóðræni lesturinn og hraði akkorðslesturinn. Ég var alltaf að ryðjast áfram, hægja á mér, bakka, ryðjast svo aftur áfram bara til að hægja á mér aftur. Og þannig fram á enda. Ég er síðan með kenningu um endann sem ég veit ekkert hvort að er alveg út í hött – hún gæti verið það. Þessum ósköpum lýkur á því að konan sálgar sér. Mamma hennar finnur síðuna sem konan reif úr handritinu – síðuna sem inniheldur upplýsingarnar um að listamaðurinn hafi verið karl, þær sem setja konuna svo algerlega af sporinu að hún endar í gröfinni. Þar kemur fram að listamaðurinn hafi verið kallaður í herinn – og það sé disgraise (skrifað svo). Hún fær sams konar áfall og dóttirin og hendir síðunni í ruslið. Síðar sækir hún hana aftur, skoðar hana nánar – síðan er eitthvað skemmd (nú man ég ekki hvort það var eftir ruslafötuna eða eitthvað annað – ég skildi bókina eftir í Svíþjóð og er á hálum ís). Í öllu falli eru sumir stafirnir máðir og alveg hægt að skilja disgraise sem disguise og setninguna þar með svo að hún myndi þurfa að dulbúa sig til að fara í herinn. Og þar með er hún kona. Ef ég hef skilið það sem ég las um bókina rétt er almennt gengið út frá því að hér eigi sér stað fölsun. En það kemur, það best ég veit, aldrei almennilega fram hvað sé satt þarna – hvort hafi raunverulega staðið disguise eða disgraise – við sjáum aldrei setninguna fyrren stafirnir eru orðnir máðir – og þar með algerlega opið fyrir það að konan hafi sjálf mislesið síðuna og sálgað sér fyrir misskilning. Hana plaga efasemdir – og niðurrifsmaður – alla bókina. Ég held ekki að misskilningur eða mistök hafi drepið þessa konu heldur yfirgengilegur sjálfsefinn. Ég var næstum búinn að lesa bókina strax aftur til að staðfesta kenninguna (einsog það væri hægt), af því las hana líka í næstum jafn mikilli móðu og konan er í sjálf, en svo langaði mig að skilja hana eftir – við erum að drukkna í farangri – og lét það eftir mér. *** Mér finnst einsog ég sé að gleyma einhverju. En sennilega er það ekki neitt. Ég hef horft svolítið á sjónvarp, sem ég sleppi hérna (af því það er svo mikið talað um sjónvarp hvort eð er og þetta er víst nógu langt). Já, ég ætlaði að segja eitthvað um ferðalagið. Landarýni. Nei, ég nenni því ekki að svo stöddu. *** Gítarleikari vikunnar er Corey Harris. Mig langar svolítið í svona gítar einsog hann er með. Þetta er Alvarez Artist parlor gítar. En mér sýnist borin von að ég geti fengið hann hérna, einsog ég var að ímynda mér. Hljóðfærabúðirnar hérna eru eitthvað fátæklegri en ég hafði ímyndað mér og erfiðara að panta hingað hljóðfæri og sennilega verð ég að sætta mig bara við hvaða parlor-gítar sem ég get fundið. En Corey Harris er mjög skemmtilegur. Ég hef svolítið verið að velta því fyrir mér hvort gítarinn sé ekki orðinn períóðuhljóðfæri – svona einsog lútan – verkfæri sem er fyrst og fremst ætlað að vekja fram tónlist ákveðins tímabils. Í tilfelli stálstrengjagítarsins, rafmagns- eða kassa-, er það auðvitað 20. öldin. Corey er að spila á öðrum enda hennar tónlist sem var samin á hinum endanum. Kannski var blues-revival hreyfingin í kringum Stones í byrjun sjöunda áratugarins – sem var lykilatriði í þróun rokktónlistar – fyrsta skipti sem gítarinn varð þetta períóðuverkfæri. Ég er vel að merkja ekki að meina að þetta sé allt eitthvað ómerkilegt. Mér finnst Corey Harris frábær og gítarinn elska ég umfram önnur hljóðfæri.