id““:““ai20s““

Who made Who er náttúrulega ekki nein venjuleg breiðskífa – heldur að hálfu leyti best-of, 20% instrumental, 20% endurreisn tveggja laga af hinni misheppnuðu Fly on the Wall og svo titillagið, Who made Who – sem vill til að er besta lag sveitarinnar í 2,9 plötur, frá fyrsta lagi For Those About to Rock (en slær þó ekki út nema eitt og eitt lag af þeim sem AC/DC gaf út fyrir þann tíma). *** Platan var gefin út sem soundtrack fyrir bíómyndina Maximum Overdrive sem Stephen King skrifaði og leikstýrði sjálfur – gersamlega útúrkókaður. Ég hef ekki séð myndina og King kallar hana sjálfur „moron movie“ en hann sem sagt hélt og heldur sennilega enn mikið upp á AC/DC (sennilega verið of kókaður til að heyra mikið hvað var að gerast á þessu niðurlægjandi tímabili í ferli sveitarinnar). Myndin er einhvers konar sci-fi dystópía þar sem alls konar tæki lifna við í kjölfar þess að einhver halastjarna fer of nálægt jörðinni (eða álíka, söguþráðurinn er svo mikil steypa að mér sortnaði fyrir augum þegar ég reyndi að lesa hann). *** En platan þá. Mér heyrist vera búið að poppa svolítið upp mixið á Hells Bells og For Those About to Rock en ég myndi ekki hengja mig upp á það. You Shook Me All Night Long var alltaf poppað. Ride On er eina lagið hérna sem Bon Scott syngur. Sennilega þurfti kontrast fyrir myndina og þetta er eini kontrastinn, sirkabát, sem AC/DC eiga í handraðanum. *** Gítarlögin tvö – D.T. og Chase the Ace eru bæði príma, enda leysir það ansi mörg vandamál hjá bandinu að þurfa ekki að eltast við söngmelódíur og þess lags hégóma. Sérstaklega er Chase the Ace flott – rosalegt gítarsóló. Hér að neðan má líka sjá brot úr bíómyndinni. *** *** Lögin tvö af Fly on the Wall – Nervous Shakedown og Sink the Pink – eru skömminni skárri í rímixinu. En ég veit ekki hvort það er eitthvað meira. Sennilega er Sink the Pink alltílagi lag og Nervous Shakedown undir meðallagi. *** Í titillaginu byrjar svo að móta fyrir gítarstefinu fræga í Thunderstruck. Angus er svolítið gjarn á að endurtaka sig og fullkomna það smám saman – þannig mótar líka fyrir For Those About to Rock stefinu í Shoot to Thrill, einsog ég nefndi áður. Þetta er ekki endilega spurning um sömu nótur heldur svipaða tækni og stemningu. Lagið er annars einsog ég segi mjög fínt, þótt þeir megi fara að hrista af sér eitísið sem fór þeim aldrei vel, og textinn aldrei þessu vant ekki vandræðalegur. who made who, who made you
who made who
ain’t nobody told you
who made who, who made you
if you made them and they made you
who pick up the bill and who made who Og myndbandið er frábært (Stephen King leikstýrði því ekki). *** #ACDC

id““:““8m3uo““

da Dum dum dum. Þótt flestir blúsar séu tólf bör með viðsnúningi (turnaround) er það samt yfirleitt þetta sem kemur fyrst upp í hugann þegar fólk almennt hugsar um blústónlist. da Dum dum dum. Eða da Dum da Dum dum. Stundum kallað i-iv-iii framvinda og hefur verið endurtekin svo oft með litlum breytingum að þeir sem eru viðkvæmir fyrir blústónlist fá útbrot í öðrum hljómi, en hinir gæsahúð. Frá Hardworkin man með Cramps  yfir í Rocky Mountain Way með Joe Walsh yfir í Bad to the Bone með George Thorogood yfir í milliriffið í Murrmurr eftir Mugison (með tvisti). Það mætti jafnvel bæta hérna við Green Onions riffinu – sem er næstum því da Dum dum dum riffið aftur á bak – og er varíant sem sést næstum jafn oft. Fyrsta da Dum dum dum lagið er auðvitað Hoochie Coochie Man með Muddy Waters en samið – einsog nánast annað hvert blúslag á 20. öldinni – af bassaleikaranum Willie Dixon. Muddy Waters fæddist í Mississippi – var skírður McKinley Morganfield, en fékk drullupollsviðurnefnið eftir sínu helsta áhugasviði í æsku (að leika í drullupollum) – og bjó þar og vann fram á fullorðinsaldur, á Stovall-plantekrunni í þessum einherbergiskofa. Hann byrjaði að spila á gítar þegar hann var sautján ára og var undir miklum áhrifum frá Son House og sótti í að sjá hann spila við hvert tækifæri. Hér verður maður enn og aftur að hafa í huga að Son House var ekki vinsæll tónlistarmaður fyrren eftir að hann „enduruppgötvaðist“ 1964 – hann tók upp sín helstu lög rétt um það leyti sem kreppan skall á og plötubransinn hrundi og náði ekki meiri vinsældum en svo að af þeim fjórum plötum sem hann gaf út (fjórar plötur = átta lög – hann tók upp níu lög en það níunda var ekki gefið út) er bara til eitt einasta eintak af tveimur þeirra. Að hann skuli hafa haft náið samneyti og mikil áhrif á tvo frægustu blúsmenn seinni tíma – jafn líka og ólíka og Robert Johnson og Muddy Waters – er eiginlega með ólíkindum. Þegar maður svo bætir því við að Son House lærði sjálfur mikið af Charley Patton – sem var sá þvottekta deltablúsari sem mestum vinsældum náði á sinni tíð – er óskiljanlegt að hann skuli ekki hafa vakið meiri athygli samtímamanna sinna annarra. En það er önnur Ella! Þegar þjóðfræðingurinn Alan Lomax birtist á Stovall plantekrunni 1941 og vildi taka upp Muddy Waters var Muddy þegar árinu eldri en Robert Johnson var þegar Robert dó – 28 ára gamall. Þá lék Muddy enn í deltastílnum – en var sparsamur á nótur, duglegri á bassanóturnar en háu nóturnar, og leyfir röddinni að njóta sín. Meðal laganna sem hann spilaði fyrir Lomax var eitt sem heitir einfaldlega Country Blues. Textinn þar er að mörgu leyti sá sami og í Walking Blues eftir Son House, sem Robert Johnson hafði tekið upp og er gjarnan kennt við hann, og laglínurnar skyldar, en Muddy hefur áreiðanlega lært af höfundinum. Þegar Eric Clapton tekur upp Walkin’ Blues fyrir Unplugged plötuna sína notar hann hvorki útsetningu Son House eða Robert Johnsons heldur einmitt þetta Country Blues eftir Muddy. Þá útsetningu lærði ég sjálfur í Tónlistarskólanum á Ísafirði þegar ég var svona 15-16 ára og spila enn af og til. Hún er mjög fín, hvað sem líður áliti manns á Unplugged-plötu Claptons. Muddy fékk síðan tvö eintök af plötunni og tuttugu dali. Hann fór með hana beint í næsta glymskratta, lék hana aftur og aftur – sagði frá því sjálfur að það hefði verið ólýsanlegt að heyra sjálfan sig syngja og spila á upptöku – fyrst þá hefði verið óhugsandi að sinna öðru en tónlist. Tveimur árum síðar, 1943, var Muddy svo mættur til Chicago, tilbúinn til að takast á við framtíðina. Einsog svo margir aðrir var hann mörg ár í harki – keyrði vörubíl og vann í verksmiðju á daginn en spilaði um kvöld og helgar. Hann komst hins vegar fljótlega í vinfengi við vinsælasta blúsarann á svæðinu, Big Bill Broonzy, og fékk að hita upp fyrir hann og tók síðan upp einhverja tónlist fyrir Chess með settlegu kombói. Á þessum tíma var rafmagnsgítarinn að ryðja sér rúms í blústónlistinni, þótt menn væru ekki alveg búnir að uppgötva hvers hann var megnugur – það sem heillaði var fyrst og fremst meiri hljómstyrkur á fjölmennari tónleikum, böllum og partíum. Plötufyrirtækin höfðu hins vegar takmarkaðan áhuga á skerandi hávaðanum í rafmagnsgítarnum – svo lítinn raunar að helsti gítarleikari Chicagotímabilsins, Buddy Guy, sem byrjaði að spila fyrir Chess-útgáfuna 1959, fékk ekki vinnu nema sem sessjónleikari í bakgrunni hjá öðrum fram til 1967. Af því hraður gítarleikurinn var einfaldlega afgreiddur sem hávaði. Muddy var hjá Chess einsog Buddy og svo margir aðrir og fékk fyrstu árin ekki að nota sína eigin hljómsveit í stúdíóinu. Sú hljómsveit, sem fylgir honum loks á plötum frá 1953, er einhver frægasta blússveit allra tíma. Little Walter á munnhörpu (og svo Junior Wells), Jimmy Rogers á gítar, Elga Edmunds á trommur, Otis Spann á píanó og oftar en ekki Willie Dixon á bassa. Fyrir utan Elga er enginn þarna sem á sér ekki sína eigin hittara – fyrir utan að vera í þessu ofsalega bandi – og þegar hann leikur fræga tónleika á Newport Jazz Festival sjö árum síðar eru allir í bandinu nema Otis (sem var orðinn hljómsveitarstjórinn) komnir með sólóferil í fúll svíng. Eftir að Muddy tók upp Hoochie Coochie Man með þessu bandi árið 1954 – og slær þá fyrst endanlega í gegn, 41 árs gamall – kom annar Chicago-blúsari, líka fæddur í Deltunni, Bo Diddley með lagið I’m a Man og notaði sama (eða svipað) da Dum dum dum riff til að bera það uppi. Það er einhver ruglingur með það hverjir nákvæmlega spiluðu undir hjá Bo en að öllum líkindum var píanóleikarinn sá sami og hjá Muddy – Otis Spann. Í sjálfu sér er þetta mjög ólíkt öðrum lögum Bos – sem voru mikið til leikin í sérstökum takti sem kallaður er Bo Diddley-bítið (nema hvað). Þessu svaraði Muddy ári seinna með laginu Mannish Boy – sem er hans frægasta, auk Hoochie Coochie Man og I Got My Mojo Working – og aftur er það sama riffið sem ber lagið uppi. Því hefur stundum verið velt upp hvers vegna það sé ekki í höfundarétti – hvers vegna hver hljómsveitin á fætur annarri megi bara velta sér upp úr því óbreyttu án þess að borga kóng né presti. Í því sambandi er áhugavert að athuga að á meðan Hoochie Coochie Man er skrifað á Willie Dixon og I’m a Man er skrifað á Bo Diddley er Mannish Boy skrifað á Muddy Waters og Bo Diddley – en ekki Willie Dixon. Þar munar sennilega öllu að textinn í Mannish Boy er unninn beint upp úr I’m a Man en textinn þar er bara rétt svo „innblásinn“ af Hoochie Coochie Man. Willie virðist ekki hafa gert neitt mál úr þessu (en kærði og vann Led Zeppelin löngu seinna, fyrir að stela úr You Need Love fyrir Whole Lotta Love). Maður verður að hafa í huga að frumleiki er ekki endilega grunntónn blússins, eða í það minnsta ekki frumleiki í sömu merkingu og lögð er í orðið frá og með Bítlunum, sirka. Blústónlistin er alþýðutónlist – folk – og sem slík er höfundarréttur ekki aðalatriði og hreinlega óljóst hver samdi hvað. Margir helstu blústónlistarmennirnir voru vanir því að spinna mikið á staðnum – úr brunni riffa og ljóðlína – og meðal annars þess vegna er merkingin í mörgum eldri blúsanna svolítið mikið á reiki. Ljóðlínur rekast á af því höfundarnir eru margir og sömu erindin rata inn í mörg lög og öllum var skítsama hver samdi hvað. Þá fengu þeir sem tóku upp lög fyrir plötufyrirtækin borgað per lag – og síðan ekki söguna meir. Höfundarréttur var yfirleitt skráður á hvíta manninn sem tók lagið upp. Hvítu mennirnir gerðu kröfu um lágmarksfjölda frumsaminna laga – yfirleitt fjögur – þegar þeir bókuðu tónlistarmenn í upptökur. Þannig myndaðist þrýstingur á tónlistarmennina að hámarka fjölda frumsaminna laga með öllum tiltækum ráðum – Big Bill Broonzy tók upp ábyggilega 200 lög, en ef þú myndir þurrka burt lög sem eru „næstum eins“ og eitthvað annað sætu ekki eftir nema svona 50 stykki. Solid lög að vísu. Á böllum var kannski sama lagið leikið samfleytt í hálftíma – hent inn erindi hér og þar, sum frumsamin, önnur stolin – og það var ekkert í heiminum eðlilegra en að vísa í eitthvað annað lag með því að hirða úr því línu og línu eða byggja nýtt lag á gömlum grunni. Þessa sér svo stað í alls konar tónlistartrakteringum á 20. öld – frá því hvernig Bob Dylan leyfði sínum eigin lögum og koverum að vera fljótandi og breytast ár frá ári yfir í það hvernig Public Enemy stöfluðu saman vísunum með því að sampla austur og vestur. Frumleikinn sem sótt er í og menn stæra sig af er meira frumleiki í merkingunni „primal“ – og hefur að gera með sánd og einkenni og heilindi. Þennan eiginleika að það er alveg sama hvað Muddy Waters myndi reyna að dulbúa sig – því við myndum þekkja þetta mojo hvar sem er.

id““:““95bl““

Í gær horfði ég á Rocky Horror Picture Show kvikmyndina frá 2016, með Laverne Cox í aðalhlutverki. Það eru sennilega ekki nema 2-3 vikur frá því ég horfði aftur á orginal kvikmyndina með Tim Curry. Mér fannst hún mjög góð – einhvern veginn hressilega ómórölsk. En nýja myndin er satt að segja ömurleg. Hún er svo vond að mann langar að meiða sig. Ég veit ekki alveg hvað veldur – handritið er svo til óbreytt, þetta er bara sviðsett með nýjum leikurum – en hugsanlega hefur það einfaldlega eitthvað með samtímann að gera. Hún flúttir ekki. Það fyrsta sem truflar mann er hvað hinn íhaldssami mórall – hreinlyndu sálirnar Brad og Janet og heimurinn sem þau tilheyra – er úreltur. Hann var það auðvitað líka árið 1975 en ég ímynda mér að hann hafi samt verið til, á annan máta, verið konsekvent afl í heiminum. Íhaldssemi samtímans er miklu líkari Söruh Palin og Donald Trump – og móralisminn hefur hreiðrað um sig víðar, og einfaldlega breyst, lítur öðruvísi út, virkar öðruvísi. Að millistéttarplebbar óttist dragdrottningastemningu og búningadrama – meðan þau raða í sig bókum Tracy Cox (óskyld Laverne) og 50 gráum skuggum og frásögnum Ragnheiðar Eiríksdóttur úr Swingpartíum eða mökunarlýsingum Köru Kristelar – á sér einfaldlega enga stoð í raunveruleikanum. Millistéttarplebbar þyrpast auk þess á Rocky Horror sýningar um veröld alla. (Það munaði minnstu að upprunalega myndin floppaði – vinsældir hennar komu loks, öllum að óvörum). Næst truflar fegurð leikaranna. Í upprunalegu útgáfunni er eitthvað fríkað við leikarana. Meira að segja Brad og Janet eru pínu off – eins falleg og þau eru – og þótt Frank sé sannarlega hott er hann ekki fullkominn. Leikararnir í nýju sýningunni líta allir út einsog þeir hafi fengið einkaþjálfara í skírnargjöf. Við sköllótta fólkið veltum því líka fyrir okkur hvers vegna allir eru alltaf svona vel hærðir í Hollywood. Nýi Riff Raff reynir síðan bókstaflega að herma eftir gamla Riff Raff. Og gerir það vel. En það er svolítið einsog að fá Örn Árnason til að leika Davíð Oddsson – það er skopstæling. Fagurfræði sýningarinnar er í samræmi við þetta slétt og felld – mixið er ofmixað, allt er flatt og agnúalaust, ef frá er talinn performans Tims Curry sem afbrotafræðingurinn. Curry fékk heilablóðfall fyrir nokkrum árum og leikur hann af fremsta megni, hikandi og af erfiðleikum – einsog Johnny Cash að syngja Personal Jesus, maður á sínum síðustu andardráttum – og einmitt vegna þess að hann er ekki fullkominn er hann langsamlega bestur. Það er líka eitthvað saklaust við nekt fullkomins fólks – eitthvað sem er ekki afhjúpandi, þegar líkaminn hefur verið undir það búinn frá fæðingu að birtast nakinn. Eða – þið vitið – hálfnakinn. Þegar Susan Sarandon stóð á náttkjólnum var hún allsber – nýja Janet (ég nenni ekki að gúgla nafn leikkonunnar) er ekki naktari en fótósjoppuð Kim Kardashian á forsíðu Paper. Í þriðja lagi – ég veit ekki hvort transgressjónin er minni í nýju myndinni, hvort það er beinlínis gengið skemmra (senan þar sem Frank nauðgar/tælir Brad og Janet er umtalsvert sakleysislegri – það er einsog leikstjórinn hafi ekki getað ákveðið sig hvort Frank ætti að penetrera eða penetrerast og þau Brad enda á að liggja saman og slá hvort annað á fullklæddan rassinn). En tilfinningin fyrir hættunni er engin – tilfinningin fyrir leiknum er engin. Kannski er Rocky Horror í samtímanum alltaf bara eitthvað kits – fólk að LARP-a ógn, klætt einsog krossfarar, einhvers konar períóðustykki, fólk að spila á lútur og rifja upp nostalgíu sem það á ekkert í (bróðurpartur áhorfenda var ekki fæddur 1975). Kannski er þetta bara ekki hægt, alveg sama hvað lögin eru góð, jafnvel þótt leikararnir væru betri og handritið eitthvað uppfært – það hjálpar í það minnsta ekki hvað þessi uppfærsla var skelfilega geld (no pun intended) og ógnarlaus. En það er hægt að horfa á orginalinn – það er meira að segja fínt og sannfærandi. Og Tim er guðdómlegur. *** Annars veit ég ekki hvort Frank er trans – hann er náttúrulega geimvera og alveg óvíst hvort hann sé þar með kynjaður yfir höfuð. En í upprunalega textanum segist hann vera „transvestite“ – þ.e.a.s. klæðskiptingur – og hvernig það fer saman við að vera trans veit ég ekki. Ef maður skiptir um eða leiðréttir kyn líkama síns svo það samræmist hinni ytri kyntjáningu er maður sennilega ekki klæðskiptingur lengur – en maður getur auðvitað stundað klæðskipti í hina áttina. Vandamálið við Frank er að hann klæðir sig ekki í samræmi við neina standard kyntjáningu karla eða kvenna. Hann ögrar skilgreiningunum. Það er mikilvægt líka að hafa í huga að þegar Frank segist vera frá „Transsexual, Transylvania“, er hann að tala um plánetuna Transsexual í vetrarbrautinni Transylvania – það er komma þarna, hann er hvorki frá kynfráu né kynsegin Transylvaníu, einsog það hefur verið þýtt. Hvort nafngift plánetunnar sé meira lýsandi fyrir íbúana en Grænhöfðaeyingur eða Hvít-Rússi veit ég ekki heldur og það best ég hef getað tekið eftir, kemur það aldrei fram.

id““:““b7vmd““

Black Ice kom út árið 2008 og fékk blíðar móttökur víðast hvar – sumir sögðu hana aðeins of langa (hún er lengsta plata AC/DC) en flestir voru sammála um að þetta væri besta plata sveitarinnar frá Razors Edge – og í Guardian, minnir mig, fór hann hreinlega aftur til Back in Black. Besta platan í 28 ár. Það er ekkert annað. *** Skemmst er frá því að segja að þetta er húmbúkk og vitleysa. Black Ice er alls ekki góð plata. Það eru á henni 4-5 fín lög, sérstaklega á seinni helmingnum – Big Jack, Stormy May Day, Black Ice, Decibel og það er eitthvað áhugavert við Rock’n’Roll dream – það er næstum powerballaða og slíkt er ekki daglegt brauð hjá AC/DC – en það vantar allan skít í sándið, alla elektríska viðkvæmni, óróann, og lagasmíðarnar eru of fyrirsjáanlegar, meira að segja fyrir bandið sem hefur það helst að markmiði að fokkast aldrei í formúlunni. Og lag einsog Anything Goes – sem fór á tónleikaprógramið og fær óskiljanlegt hól frá tónlistarpressunni – er nafna sínum af Appetite for Destruction til mikillar skammar. *** *** *** Riffin eru almennt fín – það eru sönglaglínurnar hérna sem eru bara ekki að gera sig. *** Wheels er líka skammarlegt drasl. *** Þetta er síðasta platan sem Malcolm heitinn spilar inn á. Hann samdi með bróður sínum lögin á næstu – Rock or Bust – en það var Stevie frændi sem spilaði í hans fjarveru. *** Í einni rýninni sem ég las – hugsanlega í Rolling Stone – var því haldið fram að Phil Rudd ætti svo bágt með að tromma skraut að hann fengi Charlie Watts til að hljóma einsog Dave Grohl. Það fannst mér fyndið. *** Annars staðar stóð að loksins hefðu drengirnir látið kynferðislega vafasama/barnalega texta vera. Það fannst rýninum voða góðar fréttir en ekki mér. Að vísu voru þeir textar ekki alltaf frábærir, en það voru gítarriffin ekkert heldur, en hvorutveggja er samt kjarnaatriði í músík sveitarinnar. *** Það má hins vegar hafa í huga að War Machine er sennilega einhvers konar reðurlíking, þótt hún sé dulbúin. Sem gerir það strax bærilegra. *** *** On the Black Ice tour, he was just amazing, even though he had to relearn some of the songs. That was the dementia kicking in; the evil silent thing. You can’t see it with an X-ray machine or anything like that. It is just nasty. It wasn’t so bad during the making of the album. He was still pretty good. He had some great riffs on that one as well. But as the tour went on, it started to dig in. But I will never forget the last night. Malcolm had a fire in his eyes you could spot a mile away. – Brian Johnson um Malcolm. *** Síðasta lagið. Á síðustu tónleikum Malcolms. Við hyllum þig, kæri! *** *** #ACDC

createdTimestamp““:““2024-05-13T14:32:45.811Z““

Hið daglega Veturinn hefur smám saman verið að smokra sér aftur inn í líf okkar. Í Västerås var komið vor. Ekki þar fyrir að snjófölin sem þekur göturnar þætti ekki merkileg á Ísafirði – klukkan er orðin níu að morgni og hún er varla sjáanleg lengur. En það er skítakuldi og hefur verið í nokkra daga. Þetta er allt öðruvísi kuldi líka, svona sléttukuldi – og þurr. Hér er varla nema 20% raki í húsum, hef ég séð á rakamælinum í gítartöskunni minni. Ég geri varla annað en að klóra af mér skorpna húðina. Við erum með gest næstu vikurnar. Besti vinur Arams, Halli Golli Hála Halla Goll (Ingólfur gat Hálfdán sem gat Hálfdán sem gat Hálfdán Ingólf) er kominn í heimsókn frá Íslandi. Þeir tala viðstöðulaust. Mikið af því er á ensku, af því að tíðin er þannig, og vegna þess að Halli Golli átti heima í Bandaríkjunum í eitt og hálft ár – og þangað heimsótti Aram hann rétt áður en kórónaveiran brast á. En stærstur hluti af því sem þeim fer á milli er samt sérnöfn á pokémonum. * * * Hálfdán: „Siri – how do you pronounce “seismic toss”?“ Siri: „Here’s what I found.“ Aram: „Pabbi – hvernig pronánsar maður “seismic toss”?“ Pabbi: „Maður pronánsar það „hvernig ber maður fram““ Aram: „Ha?“ * * * Fréttir frá Svíþjóð Kórónaveiran geisar bara og geisar í Svíþjóð. Annarri bylgju var varla lokið þegar þriðju var lýst yfir. Eða þannig – ég veit ekki hvort það er búið að lýsa neinu yfir formlega, en það er búið að segja að hún sé í startholunum. Og Tegnell hefur sagt að hún verði hugsanlega verri en fyrstu tvær. Ríkisstjórnin var að lýsa yfir vilja til að tvöfalda það fjármagn sem lagt er í kaup á bóluefni – dýrt, segja þau, en ekki jafn dýrt og veiran er fyrir þjóðfélagið. Stundum er ég bara hissa á fréttunum og finnst einsog forsendurnar sem var búið að gefa upp séu bara kjaftæði. Ég hélt til dæmis að það væru bara allir að kaupa jafn mikið af bóluefni og þeir fengju afgreitt – verksmiðjurnar væru allar á fullu. Og svo væru einstaka djúspokar að yfirbjóða til að fá meira fyrr. En Evrópusambandsþjóðirnar væru saman í sínu yfirboði. Kannski eru Svíar þá að hugsa um að fara að yfirbjóða sjálfir. Það var í fréttum líka á dögunum – og gagnrýnt – að Svíar hafa staðið gegn því að patent verði gefin frjáls svo þriðja heims þjóðir eigi hægara með að útvega sér bóluefni. Frá áramótum hafa gilt harðari reglur í Svíþjóð en fyrr. Fyrst mátti ekki afgreiða áfengi eftir klukkan átta á kvöldin og svo urðu allir veitingastaðir að loka hálfníu. Það eru líka takmarkanir á fjölda fólks inni í verslunum. Ég átta mig illa á hlutföllunum í því – sérstaklega í minni búðum, sem mega sumar vera með 15 viðskiptavini og aðrar bara 2, án þess að ég sjái mikinn stærðarmun. En þetta er einhver hlutfallsreikningur – þannig getur ein matvöruverslun leyft 97 kúnna en önnur 94 kúnna. Ekki þar fyrir að ég hef bara einu sinni séð einhvern telja inn í búð – fyrir utan Systembolaget, þar er alltaf einhver að telja (nema þegar það er bókstaflega ekkert að gera). Það er búið að sprauta milljón sprautum í landinu. Miðað við að hver þurfi tvær sprautur og það séu tíu milljón manns í landinu þarf þá að sprauta 19 milljón sinnum í viðbót. Mínus börn og unglingar reyndar, sem er ábyggilega slatti. Meghan og Harry hafa verið mikið í fréttum hér einsog annars staðar. Mér sýnist Svíar heldur skeptískari á parið en Íslendingar. Ekki að þeir taki afstöðu með krúnunni – sem royalistarnir í landinu gera þó áreiðanlega, en ég er meira að hugsa um krítíska vinstrimenn – heldur virðast þeir einfaldlega sínískari gagnvart ameríska sensasjónalismanum en Íslendingar. Mér finnst þetta allt áhugavert einsog manni getur bara gert þegar manni stendur eiginlega alveg á sama. Það er eitthvað í þessari baráttu hinna grátklökku ameríkana og hinna samanbitnu breta sem kjarnar og undirstrikar (stórveldis)eðli beggja. Oprah er auðvitað drottning í Bandaríkjunum, Meghan afkvæmi hennar samkvæmt einhverri frægðarlógík, og Archie er þá erfinginn sem mun með tíð og tíma sameina konungsveldin tvö. En ég ætlaði ekki að segja fréttir frá Bretlandi. Afsakið. Næstkomandi laugardag velja Svíar framlag sitt í Eurovision eftir ótal undanúrslitakvöld. Það er reyndar mjög fyndið að í hverjum þætti voru sjö lög – af þeim komust tvö beint áfram og tvö fóru á „andra chans“. Sem þýðir að minna en helmingur var dæmdur úr leik í hverri umferð. Það voru fjögur þannig kvöld þar sem hópurinn var skorinn niður úr 28 í 16 lög. Þá var komið að „andra chansen“ – sem var síðasta laugardag – og það er einvígiskvöld þar sem þessi átta lög sem komust á séns eru pöruð saman og látin mætast. Fjögur eru úr leik og fjögur fara áfram. Eftir fimm kvöld er þá búið að fækka lögunum úr 28 í 12 – en á laugardag er bara einn sigurvegari. Þetta er mikil pródúksjón og margt skemmtilegra í dagskránni en lögin sjálf – mér skilst líka að forkeppnin hérna sé umtalsvert vinsælli en keppnin úti. Ég get ekki sagt að ég sé yfir mig heillaður af neinu framlagi. Aram hélt grjótharður með þungarokkssveitinni Lilla syster sem var send heim úr andra chansen – hann trylltist fyrir framan sjónvarpið. Og raunar skiljanlega því sá sem vann einvígið var alveg framúrskarandi glataður – þótt textinn væri svolítið skemmtilega lélegur („Viva la forever / you and me together / when the sun goes down we keep on bailá bailá“). Það er helst að Dotter heilli mig. Sá sem er sigurstranglegastur er samt maður sem heitir því óheppilega nafni „Tusse“ – ég reikna með að það verði 20 sekúndna töf á Gísla Marteini ef hann þarf að kynna hann í aðalkeppninni. *** Blúsplata vikunnar Blúsplata vikunnar er safnplatan Black Betty með Leadbelly. Huddie Ledbetter – þekktur sem Leadbelly – fæddist 1888 og er sennilega sá fyrsti af köntríblúsurunum til þess að slá í gegn þegar sú stefna var að öðlast uppreisn æru á árunum í kringum seinna stríð. Hann hafði leikið með Blind Lemon á þriðja áratugnum en ekki náð áheyrn svo heitið gæti – sérstaklega ekki í samanburði við Blind Lemon – en svo döluðu vinsældir þessarar tónlistar og það hallaði heldur undan fæti hjá okkar manni, sem leiddist á glapstigu og drap á endanum mann. Þjóðlagasafnarinn John Lomax fann hann í fangelsi þegar hann var að safna vinnusöngvum í byrjun fjórða áratugarins – fangelsin voru víst langbesti staðurinn til að taka upp vinnusöngva blökkumanna vegna þess að yfirmenn á plantekrum voru ekki par hrifnir af því að það væri verið að trufla mennina við vinnu. Hann vakti strax nokkra athygli og þegar hann var laus úr grjótinu fór hann að spila fyrir fína fólkið í New York á vegum Lomax. Svo kom upp eitthvað ósætti milli þeirra vegna peningamála – Leadbelly kærði Lomax og vann – og þá var konan hans umboðsmaðurinn hans í einhvern tíma. Það er á þeim tíma, 1937, sem það birtist fræg grein í Life Magazine – sem vakti þannig athygli á honum að varla varð aftursnúið. „Bad Nigger Makes Good Minstrel“ var fyrirsögnin – þar birtist mynd af konunni hans og svo nærmynd af höndum Leadbelly að spila á tólf strengja gítar, með myndatextanum: „These hands have killed a man“. Leadbelly átti nokkur lög sem gerðu það gott meðan hann var á lífi en var kannski oft meira „fyrirbærið“ – blökkumaðurinn og morðinginn sem syngur einsog engill – hann kom oft fram í fangabúning og gerði talsvert úr bakgrunni sínum. Hann átti ekki miklum vinsældum að fagna meðal almennra blökkumanna í Harlem en hins vegar talsverðum í kreðsum tónlistaráhugamanna – hvítra og svartra – og eftir að sonur Johns Lomax, Alan Lomax, tók við umboðsmennskunni lék hann mikið með Josh White, Sonny og Terry, Woody Guthrie og Pete Seeger og fleirum í þeirri kreðsu folk-tónlistarmanna og róttæklinga. Skömmu eftir að hann lést árið 1949 tóku The Weavers upp lag hans Goodnight, Irene og áttu ofsa-smell sem vakti almennari athygli á honum og verkum hans. Á næstu áratugum voru svo ótal laga hans leikin af hvítum, vinsælum tónlistarmönnum – t.d. varð breska skiffle-tónlistin bókstaflega til upp úr útgáfu Lonnie Donegans af Rock Island Line. Black Betty varð þekkt með Ram Jam. Cotton Fields þekkja allir Íslendingar í útgáfu Árna Johnsen – Kartöflugarðarnir heima – og mín kynslóð táraðist yfir Where Did You Sleep Last Night sem Nirvana spiluðu á MTV-Unplugged tónleikum sínum (og raunar tárast dóttir mín yfir því líka – það er í miklu uppáhaldi). Mikið af lögum hans voru reyndar þjóðlög sem enginn veit hver samdi – og meðal þeirra laga sem hann átti þátt í að koma á kortið voru Pick a Bale of Cotton, House of the Rising Sun, Bottle Up and Go og Take This Hammer. Plata vikunnar inniheldur öll þessi lög og fleiri til á tveimur 180 gramma vinylskífum. Ég keypti hana á dögunum og hún kom í póstinum í gær frá Stokkhólmi. Ég átti fyrir eina gamla Leadbelly plötu – Leadbelly Sings Ballads of Beautiful Women and Bad Men / With the Satin Strings – þar sem er að finna eitt eða tvö lög sem eru líka hér, en er talsvert lúnari plata sem ég fann á einhverjum skranmarkaði. Það er unun að hlusta á þessa – þótt plötuspilarinn minn hérna sé reyndar óttalegt drasl (sérstaklega er hann lélegur ef tónlistin er mjög dýnamísk – kannski er eitthvað að honum, en ég veit ekki hvað það er, og ég keypti hann bara til að hafa eitthvað – ég er með mjög hógværar græjur heima reyndar, en þær eru ekki svona, ég geri engar sturlaðar hi-fi kröfur). Lagið sem ég vel til sýnis af þessari plötu er samt ekki eitt af þeim frægari heldur lag sem ég hafði ekki heyrt áður og heillaði mig mjög þegar ég heyrði það nú.

id““:““553cj““

Það var ekkert blúsblogg í síðustu færslu – fyrst og fremst vegna þess að „tíminn hljóp frá mér“ einsog skáldin orða það. Í dag syng ég blúsinn sjálfur (eða eiginlega tók ég þetta upp í gær). Lagið er eftir Blind Gary Davis og heitir Death Don’t Have No Mercy. Umfjöllunarefnið er ekki endilega víðs fjarri færslunni sem lagið hefði átt að fylgja. Dauðinn eirir engum í þessu landi . Fleiri lög er að finna á blúsrásinni minni.

createdTimestamp““:““2024-05-25T23:30:18.085Z““

Þessi vika hefur verið svo löng að ég man varla hvar hún byrjaði. En jújú, sennilega byrjaði hún á danssýningunni í Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar (LRÓ). Aram og vinir hans áttu stóran þátt í að semja sýninguna og plottið var fremur kynjað hjá þeim. Hópur drengja kemur að litlu systrum sínum í tölvunni hans Arams, heima hjá okkur, svo finna þeir gamla tösku sem „pabbi hans Arams“ á og ferðast í gegnum hana inn í aðra vídd – tölvuleikjavíddina. Þar væflast þeir um en finna loks „skrítinn karl“ (sem Matta í Edinborgarhúsinu lék, ein fullorðinna á sviði) sem reddaði þeim til baka með einhverjum skrítnum aðferðum. Hvort hann sendi þá ekki eftir einhverjum töfragrip og þeir töfruðust til baka. Inn á milli voru svo dansatriðin – aðallega í tölvuleikjavíddinni. Þetta var allt saman mjög skemmtilegt þótt við kynjameðvitaða fólkið hefðum látið hlutverk „pirrandi litlu systra“ gera okkur gramt í geði. Aram og félagar fengu líka mikið hól. Í tölvuleikjavíddinni var Aram klæddur einsog Link í Zelda. View this post on Instagram Aram Link eftir danssýningu. A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on May 21, 2019 at 11:04am PDT //www.instagram.com/embed.js

Aino átti að vera í sýningunni líka en hún veiktist og gat ekki farið. Hún tók það merkilega lítið nærri sér miðað við hvað hún var búin að vera spennt fyrir þessu. Sennilega er hún bara svona stóísk. Ekki veit ég hvaðan hún fær það en það kemur sér ábyggilega vel í lífinu. Þær höfðu frjálst búningaval – af því þær voru ekki í tölvuleikjavíddinni heldur okkar megin – og Aino ætlaði að fara í körfuboltagallanum. Var meira að segja komin í hann áður en hún fékk skyndilega verk í eyrað og lagðist flöt með hita. *** Næst voru tónleikar í þeim sama LRÓ. Daginn eftir sennilega. Aino var búin að jafna sig og lék Maja átti lítið lamb og Óðinn til gleðinnar á píanó. Þetta er fyrsta árið hennar á píanó og það hefur svolítið rokkað hvað henni finnst þetta skemmtilegt en hún endar árið áhugasöm. *** Ég las Dyr opnast eftir Hermann Stefánsson og Stormfugla eftir Einar Kárason. Ég hafði reyndar lesið þá fyrrnefndu í handriti og fékk hana alveg fríkeypis. Ég man ekki eftir nema einni einustu athugasemd og það gladdi mig að Hermann hafði ekki farið eftir henni heldur fundið aðra lausn sem var ennþá skemmtilegri. Ég ætla ekkert að segja ykkur hvað það var enda trúnaðarmál. En bókin er mikið fyrirtak – líka hin hneykslanlega saga um Vitaverðina sem woke-liðið ranghvolfdi augunum yfir. Stormfuglar er líka merkileg bók. Það hefur verið furðu lítið um alvöru fagurbókmenntir um sjómenn og þeirra ævintýri – sérstaklega ævintýri þeirra á hafi úti. Ég ræddi þetta við Smára vin minn í hádeginu og við breinstormuðum eitthvað um ástæðurnar fyrir þessu. Smári hélt að kannski væri þetta bara of nálægt okkur ennþá – of mikið af sjómönnum frá hetjuárum íslenskrar sjómennsku. Þegar þeir fara að deyja verður kannski hægt að segja sögurnar ótruflaður. Svo eru auðvitað (nánast) engar konur um borð og þá er a.m.k. heterónormatífa rómantík úr sögunni. En það er líka bara að áhöfn skips er eitt lið í átökum við hafið og þá vantar eitthvað í spennuna – vantar „fólkið á næsta bæ“ eða einhvern kontrast. Í Moby Dick er þetta leyst með því að hafa skipstjórann snargalinn, en meira að segja þar er söguþráðurinn nokkurn veginn bein lína. Það er eitt markmið og það þarf að nást og það gerist ekkert mikið annað en bara það. Stormfuglar er ólíkt styttri – og kannski líkari Gamla manninum og hafinu en Moby Dick en þær eiga það allar sameiginlegt að vera svona einn þráður. Það er einsog hafið bjóði ekki upp á flókna söguþráði með neinum vendingum. Þar er bara farið fram og til baka – einsog í síðustu Mad Max mynd, þeirri frábæru ræmu. Í Stormfuglum er markmiðið bara að lifa af. Eða deyja ekki, þrátt fyrir að vera alltaf á barmi þess. *** Á laugardaginn lék hin víðfræga sveit Hatari á Ísafirði ásamt palestínska tónlistarmanninum Bashar Murad. Þeir buðu mér að hita upp fyrir tónleikana með upplestri og Högni Egilsson lék á flygil meðan gestir tíndust út – svo var DJ en ég missti af honum. Þeir voru mjög þreyttir að sjá þegar við Aram fórum og hittum þá í hljóðprufunni en ekkert nema orka og einbeiting á sviðinu. Þetta vel smurð vél, vél smurð vel. Við Hálfdán Bjarki fórum með Aram, Hálfdán Ingólf og Christakis, son Dóra Eró og Sigurlaugar. Þeir fóru vægast sagt sáttir heim. Annars var mjög breitt krád í salnum – fólk á öllum aldri og héðan og þaðan. Þetta voru, það best ég veit, einu tónleikarnir á túrnum þar sem ekki var aldurstakmark. Það var engin óhemja af börnum, enda tónleikarnir seint, en samt slatti. Úti í smók rakst ég á náunga – Patreksfirðing – sem kynnti sig með því að segjast vera 58% síonisti og 42% hitt. Tók það svo til baka og sagðist vera 56% síonisti og 44% hitt. Svo talaði hann um ofsóknir gegn gyðingum og sagði svo sem ekkert svívirðilegt – það var meira að niðurstaðan væri skrítin. Að vera síonisti. Ég las Ljóð um forgangsröðun úr Óratorreki. Það er tíu mínútur í flutningi og tekur svolítið á – það er ljótt í því og það er endurtekningasamt (einsog öll ljóðin i bókinni). Einar trommugimp (sem er núna þriðji eftirlætis trommari Arams á eftir Nicko McBrain og Alex Van Halen) trommaði mig inn á sviðið, svo las ég og hann kom aftur inn í endann. Ég fékk svo það hlutverk að kveikja á tónlistinni þegar ég gekk út af sviðinu. Þessu var almennt vel tekið – mikið klappað og mikið hrópað og mikið talað við mig á eftir. En það voru ekki alveg allir jafn rosalega ánægðir með mig. Alveg ofan í mér á sviðinu var að minnsta kosti einn aðili – kona, sem ég sá aldrei en skilst að sé Ísfirðingur, nokkuð við skál. Og allan tímann sem ég las heyrði ég hana segja stundarhátt hluti einsog „Nei, heyrðu nú vinurinn, ert þú ekki eitthvað að villast?“ og „Hálfdán Bjarki, viltu stoppa manninn!“ Og svo framvegis. Þetta var hilaríus en af því að annars var þögn í salnum átti ég allt eins von á að öllum hefði bara þótt þetta glatað. Enginn er spámaður í eigin föðurlandi og svona – ég les sjaldan upp hérna og aldrei fyrir tónleikakrád. Þegar við komum heim var Aram mjög forvitinn um þessa konu. Ég er ekkert viss um að hann hafi vitað neitt hvað honum átti sjálfum að þykja um upplesturinn – þetta er mjög langt og ruglandi fyrir börn, en honum fannst mjög spennandi að Hatari skyldi biðja mig að gera þetta. Hann vildi vita hvort ég væri ekki reiður eða sár. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að sennilega hefði ég farið í kerfi ef þetta hefði gerst fyrir 10-15 árum en núorðið væri mér alltaf meira og meira sama um svona. Sá sem höfðar til allra höfðar ekki mjög mikið til neins og ég reyni ekki að miða á fjöldann. Svo er líka fullt fólk bara oft einsog algerir bavíanar. Og ég fór síðan á útskriftarball í menntaskólanum að hitta Nödju (sem er frönskukennarinn) og fékk að segja söguna af fullu röflandi kellingunni nokkrum sinnum og það var bara gaman. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði á spænsku bíómyndina Toc toc. Nadja valdi – en hún var ekki síst valin fyrir að a) vera á spænsku b) á netflix og c) ekki mjög löng. Myndin fjallar um hóp fólks sem hittist á skrifstofu frægs sálfræðings. Þau eiga fyrir mistök öll bókaðan tíma samtímis og í ofanálag er sálfræðingurinn, sem ekkert þeirra hefur enn hitt, seinn fyrir. Öll þjást þau af áráttu- og þráhyggjuröskun (sem er skammstöfuð TOC á spænsku). Einn þarf að reikna út allt sem fyrir nef hans rekur, önnur endurtekur allt sem hún segir, þriðji er með tourettes (sem furðulegt nokk hinir virðast bara aldrei hafa heyrt um), fjórði er með hreinlætisæði o.s.frv. o.s.frv. Myndin er byggð á leikriti og ber þess merki – sennilega verið vinsæll farsi einhvers staðar. Ég gat ekki séð að myndin fjallaði um neitt sérstakt eða hefði neinn annan tilgang en að reyna að stytta manni stundir – sem tókst ekki nema rétt svo bærilega. *** Við Aram og Aino kláruðum Flóttann mikla eftir Indriða Úlfsson. Aram valdi og Aino velur næstu bók. Flóttinn mikli fjallar um ungan dreng, Loga, sem er munaðarleysingi og elst upp hjá stjúpa sínum, illmenninu Þorláki frá Gili (sem Aram hefur stundum kallað Þorstein frá Hamri – hann las ljóð eftir Þorstein á framsagnarprófi í morgun) eða Svarta-Láka, sem lemur stjúpson sinn og kemur almennt mjög illa fram við hann. Svarti-Láki á vin sem heitir Bjössi Blátönn og saman skipuleggja þeir innbrot í skartgripaverslun. Þegar Logi heyrir óvart ráðabrugg þeirra ákveða þeir að gera hann samsekan með því að taka hann með. Í miðju innbroti flýr Logi svo undan þeim og gengur út í sveit. Þeir elta og hann húkkar sér far og kemur sér fyrir á bóndabæ, þeir finna hann og hann flýr aftur, fer á annan bóndabæ, hittir laxveiðandi leynilögreglumann sem heitir Hansi, þeir finna hann aftur, Hansi bjargar málunum og stingur Bjössa og Láka í steininn og Logi er tekinn í fóstur á seinni bóndabænum. Sagan er mjög spennandi í upphafi en missir svolítið dampinn. Bókin er gamaldags – hún kom út 1974 og ber þess ekki mikil merki að hafa komið út á þeim annars upplýstu tímum. Það er mikil sveitarómantík í henni – óhamingjan er í sollinum (þeir stjúpfeðgar búa á Vesturgötu, sem virðist hálfgert slömm) en hamingjan meðal bænda. Karlar eru ýmist góðmenni eða illmenni en konur eru allar góðmenni – ekki síst látin móðir Loga sem virðist hafa verið einhvers konar dýrðlingur og hafa viljað bjarga Svarta-Láka frá sjálfum sér. Áður en hún svo dó. Ég man eftir að hafa sjálfur lesið bækur Indriða Úlfssonar þegar ég var lítill. Hélt mikið upp á Kalla kalda. Man ekkert eftir henni samt. Ég get ekki sagt að upp hafi sprottið miklar og nostalgískar tilfinningar við lestur Flóttans mikla heldur – þótt ég hafi áreiðanlega lesið hana (hún er í láni frá mömmu og pabba og það er óhugsandi að í því húsi séu barnabækur sem ég hef ekki lesið). Aram fannst Flóttinn mikli skemmtileg og Aino líka – þótt hún hafi ekki náð öllum söguþræðinum. Mér finnst alltaf gaman að fá svona innlit í annan tíma – ekki bara sjálfan sögutímann heldur líka hugarfar höfundar. 1974 er bæði svo nýlega og fyrir svo langa löngu – það er kyrfilega í nútímanum í mörgum skilningi en samt ekki. Og ég held að það veki líka athygli þeirra – síðustu bækur sem við höfum lesið, Elías og Sitji guðs englar trílógían eru allt svona innlits bækur (þótt hinar hafi verið nútímalegar í öðrum skilningi – Auður betri höfundur en Indriði svo mjög miklu munar og Guðrún Helgadóttir … er bara ekki í sömu deild og aðrir barnabókahöfundar, og trílógían ómetanlegt listaverk). *** Gítarleikari vikunnar er Slash.

createdTimestamp““:““2024-12-06T14:58:30.918Z““

Ég hef verið að taka upp hljóðbók síðustu vikur. Illsku – loksins. Það kom til tals að gera það á sínum tíma, eða fljótlega eftir að hún kom út, en þá féllust mér hendur að dvelja lengur í þessum heimi. Hún er alveg ægilega löng líka. Mér sýnist hljóðbókin ætla að verða 25 tímar. Upptökur fara fram í Studio Västerås hjá afskaplega fínu fólki. Þetta er stórt og fallegt tónlistarstúdíó sem eigendurnir tóku yfir þegar Sænska Ríkisútvarpið flutti sig um set fyrir einhverjum árum. Ég sit í trommuklefanum og les. Hljóðmaðurinn Stephan situr svo í mixerherberginu og dundar sér á meðan – hann editerar ekki neitt af því hann skilur ekki tungumálið, sú vinna fer öll fram á Íslandi, hlustar bara með öðru eyranu og svo fáum við okkur kaffi í pásunni. Ég les í kannski þrjár klukkustundir á dag. Þetta er svolítið spes. Ég er nýbúinn að vera að lesa yfir sænska þýðingu á Brúnni yfir Tangagötuna og er að fara að lesa yfir athugasemdir við nýja skáldsögu sem kemur í haust. Þannig að það hefur fátt verið á dagskránni annað hérna en að lesa eigin bækur. Ég er nú óvenju skemmtilegur, einsog mér verður tíðrætt um, en maður getur nú samt fengið leið á þessu – þetta er svolítið solipsískt, að vera svona fastur í sjálfum sér. Stephan og Vladi spurðu mig líka í gríni hvort ég myndi ekki vilja gera breytingar á bókinni. Og það er nú ekki svo – mig klæjar ekki að breyta neinu. Einhvern veginn á ég meira að segja erfitt með tilhugsunina um smávægilegar breytingar þegar ég hef lokið við bók – þegar ég hef gengið frá henni. Ég hef auðvitað gert leiðréttingar á málfari og þannig – frá einni prentun til annarrar og ef það hafa komið upp villur við þýðingar og í sjálfu sér er eitthvað smotterí þannig núna líka. Það er alveg óhemja af smá-skyssum sem er hægt að finna í einni bók. En það kemur alls konar upp þegar maður fer yfir bók sem kom út fyrir rúmum átta árum (og ég byrjaði að skrifa fyrir tæpum þrettán). Til dæmis er í tvígang talað um „kynskiptiaðgerð“ – sem er ekkert gert lengur (heldur kynleiðréttingu) og í einu tilfelli er nefnd manneskja sem hefur síðan skipt um nafn og komið út sem trans. Afstaða mín til þess er bara sú að þetta séu ekki endurskriftir heldur upplestur á bók sem kom út tiltekið ár þegar veruleikinn var sá sem hann var þá og þar með geri ég engar slíkar breytingar. En ef það stendur óksöp þar sem á að standa ósköp segi ég ekki óksöp. Þegar Óskabörnin settu leikritið á svið þurfti að uppdatera verkið – ekki síst til þess að koma Sigmundi Davíð að. Enda hefði verið undarlegt að leikverkið kommenteraði ekki á hann. Það var 2016 og ég man að við hugsuðum öll þá hvað væri skrítið að hann hefði nánast ekki verið til – ekki sem þessi fígúra – 2012. Og núna 2021 er fáránlegt að hugsa til þess að Trump hafi ekki einu sinni náð að vera með í leikritinu. Ég man ekki hvort hann kom eitthvað við sögu á endanum – verkið var margsinnis uppfært á sýningartímanum – en ég held hreinlega ekki. Ef ég ætlaði að endurskrifa Illsku – færa hana tíu ár fram í tímann – væri Trump fyrsta viðbótin. Agnes hefur auðvitað áhyggjur af því alla bókina að ritgerðin hennar – um popúlisma í samtímanum – sé að verða úreld vegna þess að allir hafi misst áhugann á útlendingahatri í kjölfar hrunsins. Svo er auðvitað kórónaveiran og orðræðan í kringum hana önnur eins gullkista af þjóðrembingi – hvort sem það eru hetjurnar sem slá sér á brjóst fyrir einstakan árangur og samstöðu þjóðarinnar eða illmennin sem atast að Pólverjum úti á götu. En þetta segir líka sitthvað um mismuninn á bókmenntaverki og leikverki. Leikverkið á sér stað aftur og aftur – en bókmenntaverkið á sér bara stað einu sinni og er eftir það dokúment. Leikverkið hættir að vera til – gufar upp. Og samtímabókmennt – alveg sama hvað hún er körrent – verður að eins konar sagnfræði. Þannig er Illska ekki lengur samtímabókmennt af því samtími hennar er liðinn – eða að minnsta kosti smám saman að líða – en það segir vel að merkja ekkert um hversu vel hún á við. Hún getur þess vegna átt betur við. Eða verr. *** Plata vikunnar í blúshluta bloggsins er Ice Pickin’ með Albert Collins. Þetta er ein af fyrstu plötunum í blússafninu mínu – ég man ekkert hvenær ég keypti hana eða hvar en sennilega keypti ég hana fljótlega eftir að ég keypti mér aftur plötuspilara fyrir svona fimm árum. Ég heyrði fyrst í Albert Collins á einhverjum svona „gítartónleikum“ sem voru sýndir á Stöð í byrjun tíunda áratugarins. Ég var eitthvað að reyna að gúggla þessu en finn það ekki. Það eina sem ég man var að Joe Walsh var líka og þetta er ekki Jazzvisions þáttur sem var á dagskrá 1988 – heldur eitthvað stærra dæmi, seinna, sennilega nær dauða Collins (1993). En það gengur sem sagt ekkert að gúggla því. Kannski ég gæti fundið VHS spóluna á heimili foreldra minna ef ég legðist í rannsóknir en þetta skiptir sennilega ekki öllu máli. Ice Pickin’ kom út árið 1978 – árið sem ég fæddist – og er svokölluð gegnumbrotsplata fyrir tónlistarmann sem hafði lengi verið á sjónarsviðinu, orðinn 46 ára gamall, en fyrsta breiðskífan hans kom út 1965. Hann hafði ekki fullt lifibrauð af tónlist – þrátt fyrir aðdáun blúsnörda á borð við Canned Heat – og vann mest sem iðnaðarmaður þar til Ice Pickin’ kom út. Platan var tilnefnd til Grammy verðlauna – í flokki sem þá hét „ethnic or traditional“ – en tapaði fyrir Muddy Waters, sem var með live plötu (sem er alltílagi en ekkert meistaraverk á borð við Ice Pickin’ – þetta var þriðja árið í röð sem Muddy vann, en fyrsta árið fékk hann fyrir Hard Again, sem er ein af hans bestu). Albert Collins er með mjög sérstaka rödd á gítarnum – og raunar í munninum líka. Hann lætur telecaster gítarinn nísta hærra en aðrir megna – og því er þessi ísnálslíking ekki alveg úr lausu lofti gripin og fylgdi honum lengi. Lagið sem ég heyrði hann spila á þessum tónleikum sem ég nefndi er af síðustu breiðskífunni hans og heitir einmitt Iceman. En lagið sem við ætlum að heyra hér í dag heitir Master Charge og fjallar um mann sem hefur gert þau hrapalegu mistök að leyfa konunni sinni að fara út að versla með nýja kreditkortið sitt. Textinn er einsog hann er – en tilfinningin er sönn, lagið stendur fyrir sínu, þetta band sem er með honum er æði og kúlið svoleiðis drýpur af mínum manni.

id““:““4gjh““

Ég áttaði mig á því seint í gærkvöldi að sennilega minnti Millilending Jónasar Reynis mig á Mike Leigh bíómyndina Naked (hún er öll á YouTube) . *** *** Nema minna brútal. Ekki endilega með meiri von – kannski jafnvel vonlausari. Persónurnar í Millilendingu eru svo uppburðarlitlar í níhilisma sínum að þær nenna varla að æmta. Og gera sosum engum mein heldur. *** Ég ætla ekki að kvarta neitt undan Norður og niður, sem ég sá ekki – nema lagið með Ladda – en það er ekki ástæðan fyrir því að ég ætla ekki að kvarta, ég á kannski eftir að horfa á þetta og mun samt ekki kvarta, af því að sellóleikarinn í bandinu hjúkraði mér einu sinni þegar ég hrundi blindfullur niður steintröppur, og stundum verður maður bara að haga sér einsog maður og sýna dálítið þakklæti í verki.