Ég er í lest á leiðinni á Littfest í Umeå. Einsog í gamla daga. Raunar eru bara þrjú ár síðan ég fór síðast og tæknilega séð á maður held ég alltaf að þurfa að bíða fimm ár milli heimsókna en af einhverjum orsökum er skortur á útlenskum rithöfundum í landinu. Hátíðin verður með „breyttu sniði“ – ég átta mig ekki á því hvað það verða margir á svæðinu þegar ég les en þeir verða ekki margir. Síðasta haust fór ég í svona ferð til Malmö og las upp fyrir kvikmyndatökumann, hljóðmann, kynninn og tvö önnur ljóðskáld. Það er ekki alveg það sama. Fyrir Covid mætti yfirleitt aldrei neinn – mjög yfirþyrmandi að hafa allt þetta fólk standandi yfir sér. Svo eru víst enn fleiri að horfa á eitthvað streymi. Ég ætlaði að vera með tvær bækur um jólin – af ólíku slagi – en það er búið að fresta annarri þeirra fram á jól 2022. Ég er enn undir feldi að hugsa um hvað mér finnst um það. Covid hefur farið einhvern veginn þannig með mig að mér finnst einsog ég sé að þrauka allt – lífið sé bara spurning um að halda í sér andanum og bíða þangað til það er búið. Eða a.m.k. þangað til Covid er búið. Þetta er alveg áreiðanlega ekki besti tíminn heldur fyrir mann sem vinnur einn að flytja til annars lands. Í kvöld hitti ég Per vin minn og það verður í fyrsta sinn síðan ég hitti nokkurn sem er ekki í tengdafjölskyldunni minni síðan í október. A.m.k. sósíalt – og í meira en þrjár mínútur. En ég er ekki kaupsýslumaður og ætla ekki að láta einsog ég sé það. Hef ekkert vit á þessu. Mér finnst bara leiðinlegt að bíða. Finnst ég bíða svo mikið. *** Blúsplata vikunnar er Lonely Soul með sveitinni GA-20 frá 2019. Það er ekki alltaf hægt að vera í klassíkerunum og þótt þetta sé ekki tía þá er platan mjög skemmtileg og ég hafði aldrei heyrt á sveitina minnst. Kannski verð ég kominn með leið á þessu eftir viku en í dag er hún að gera sitt. Þá kemur heldur ekki að sök að ég uppgötvaði hana „analóg“ – las viðtal við einn meðlim sveitarinnar í norska tímaritinu „Blues News“ og leitaði hana svo uppi á Spotify (og vínyllinn er í Discogs-innkaupakörfunni minni). Aðalmennirnir í GA-20 eru gítarleikararnir og ofsahipsterarnir Pat Faherty og Matthew Stubbs, en sá síðarnefndi hefur meðal annars getið sér gott orð sem aðalgítarleikarinn í sveit Charlie Musselwhite síðasta áratuginn eða svo. Báðir eru mjög mikið með sólgleraugu og í gallaefni, sem er auðvitað stór plús. Lonely Soul er mjög rokkuð plata í hinum forna skilningi þess orðs – það er fiftís í þessu, sving og búggí – og gítarsólóin eru flest stutt og öll hnitmiðuð og ekonómísk, sándið passlega drullugt, bjagaðir magnarar, mikið tremolo og mikið reverb, talsvert attitúd en aldrei neitt drama, lagasmíðarnar einfaldar og beint að efninu. Hér er ekki verið að finna upp hjólið. Nokkur laganna eru kover – þarna er Crackin’ up eftir Bo Diddley, I feel so good eftir JB Lenoir, Got Love if You Want it eftir Slim Harpo og My Soul eftir zydeco-blúsarann Clifton Chenier. Áhrifin í lagasmíðum þeirra hipsterbræðra eru síðan augljós – það er talsverður Musselwhite fílingur í One Night Man t.d. og þeir hljóma oft einsog aðeins meira old school Black Keys (ekki síst af því einsog Black Keys eru þeir ekki með bassaleikara – svo heitir líka eitt frægasta lag BK Lonely Boy). Þetta eru live útgáfur bara af því það er skemmtilegra í „myndmiðli“.