Í morgun vaknaði ég slappur og hugsaði nei andskotinn, ætlar mér aldrei að batna þessi helvítis flensa – sem ég var búinn að þríprófa við kórónaveirunni. Það var þó örlítil bót í máli, fannst mér, að nú fengi ég loksins að vera einn veikur heima í rólegheitunum – eftir samveikinda- og fjarvinnuviku í síðustu viku – og þyrfti hvorki að sitja yfir símafundum eða fjarspiluðum tölvuleikjum og söngli. Því einsog ég elska nú börnin mín þá fylgir nú börnum samt alltaf vinnuálag. Svo gæti ég kannski bara rölt í Hamraborg í hádeginu, fyrst þetta er ekki covid, og náð mér í mat og þyrfti þá í raun ekki einu sinni að hugsa um sjálfan mig. Ég tók enn eitt heimaprófið með morgunkaffinu og um leið og ég lét hordropana falla í mæligapið bárust smáskilaboð frá grunnskólanum. Öll börn send heim vegna veðurs (veðrið er enn ekki orðið hræðilegt – en miðað við aflýsingar síðustu vikur fer maður að spyrja sig hvort það fari ekki bara að verða fullreynt að halda úti skólastarfi hérna, og þar með byggð, að vetrarlagi?). Jæja, ég sting þá af á skrifstofuna hugsa ég – þar er allavega ró og friður – og ég get tekið til eftir þau þegar ég kem heim. Eða reynt að sannfæra þau um gildi þess að taka til eftir sjálfan sig (sem er ekki alltaf jafn erfitt). Og verður mér þá litið á covidprófið sem er loksins orðið jákvætt. Ég hafði svo sem spáð því að þegar hinni flensunni lyki tæki covid strax við, fyrst það var komið í húsið. En alveg burtséð frá því hvað ég verð lasinn (ég er með hita og hor) þá er þessi andskotans einvera farin að taka á. Ég hitti fólk lítið þarna rétt í kringum Frakklandsferðina, af öryggisástæðum, og fór svo beint inn í þetta – hef t.d. ekki hitt foreldra mína, sem búa í næstu götu, í sennilega meira en mánuð núna. Og einhvern veginn hefur þetta verið ástandið miklu lengur, þegar maður hugsar út í það. Þessi einvera. Ég hef tönnlast á því síðustu misserin að ég vilji fara að bjóða fólki í mat og hitta einhvern en ef frá er talið útgáfuhóf Einlægs Andar og áramótin hefur varla komið (fullorðinn) vinur inn í þetta hús frá því við komum heim. Jú og það var hérna einn skáldabröns eftir Opna bók í nóvember. Annars er einvera – eða fjölskyldubúbblan – orðin regla. Það snýst um að einhvern veginn hentar það aldrei. Það kemur alltaf eitthvað uppá. Það er ekki bara manns eigið covid sem getur verið vandamál heldur annarra líka og þess á milli langar mann ekkert nema liggja á bakinu og stara upp í loft.
Heima
Ef hugurinn er í eðli sínu engu bundinn, þá
er líka heima og heiman sama súpan. Po Chü-i í þýðingu Vésteins Lúðvíkssonar Ég er alltaf að velta því fyrir mér hvar ég eigi að draga línuna í því sem ég kalla „ísfirskar bókmenntir“. Hversu langt kemst ég frá sjálfum Ísafirði og hversu lítil þarf tengingin að vera. Mér finnst sjálfum augljóst að ég dragi línuna ekki við bæjarmörkin – þetta er persónulegt og Ísafjörður huga míns nær út fyrir bæjarmörkin, telur líka til bæjarfélaganna í kring. Það réttlætir í sjálfu sér ekki að ég kalli bók skrifaða af bolvíkingi um Þingeyri „ísfirskar bókmenntir“. Það heiti sprettur einfaldlega af sjálfum mér, minni rökmiðju, sem dregur upp radíusinn frá Tangagötu og Sundstræti. Við getum orðað það sem svo að ég sé að hugsa um Ísafjarðarsýslur, Ísafjarðardjúp og Ísafjarðarbæ – það er ónákvæmt en það kannski dugar. Og tengingin – það dugir mér að stór hluti sögunnar gerist á svæðinu eða að höfundur hafi sterk tengsl við svæðið. Ég veit ekki hvort ég hef neinn áhuga á því heldur að draga fram einhver einkenni eða setja fram einhverjar kenningar – ég er mest bara að skoða landslagið, sem ég hef svo mikið hunsað í gegnum tíðina, og dokúmentera fyrir sjálfum mér hvaða bækur þetta séu. Ég las Feigð eftir Stefán Mána í gær. Hún gerist að miklu leyti í Súðavík og eitthvað smá á Ísafirði en annars fyrir sunnan. Þetta er ein af Harðarbókunum. Ég, mamma og pabbi eigum örlítinn þátt í henni því Stefán hafði samband þegar hann var að skrifa hana (fyrir 13 árum) og var með lista af spurningum sem hann þurfti að svara – ég vísaði mörgu af því áfram til mömmu og pabba og okkar er allra getið á þakkarlista. Það er því pínu kaldhæðnislegt að ein af fáum villum í bókinni er stafsetningin á eftirnafni okkar pabba, h-ið er fellt út. „Hin villan“ sem ég kom auga á var að Stefán þrefaldar einhvern veginn vegalengdina yfir Steingrímsfjarðarheiðina, úr ríflega 20 km í 60-70 km – sem er sennilega vegalengdin frá því Ísafirði (innsta firðinum í Djúpinu – bærinn Ísafjörður stendur við Skutulsfjörð) sleppir og þar til maður er kominn til Hólmavíkur. En megnið af því er nú bara á láglendi. Í rúmlega 500 blaðsíðna skáldsögu sem er stappfull af fakta er þetta nú bara mjög vel sloppið (ekki það ég sjái auðvitað allt). Auðvitað skáldar hann svo fullt og breytir og straumlínulagar og sumt í söguþráðinum virkar hæpnara en annað – en ekkert af því registerast hjá mér sem feilar. Feigð tekur á nokkrum afar viðkvæmum málefnum og gerir það nú bara býsna vel. Í fyrsta lagi er það snjóflóðið í Súðavík og eftirköst þess og í öðru lagi óhapp og mannslát sem verður á sjó í tengslum við tryggingasvik. Ég veit ekki hvort það eru tengslin við sögusviðið en mér fannst bókin langsterkust í fyrsta hlutanum, þegar Hörður er enn ungur í Súðavík. Mér fannst lokakaflinn ívið dramatískur og ótrúverðugur – eða a.m.k. upp að því marki að ég sá aldrei hvað Hörður sá sjálfur í Maríu, Bíbí eða Þóru. Ég skildi unga Hörð, sem var graður og vitlaus og dálítið viljalaus, en þessi eldri Hörður – með sitt innsæi, sín þursalæti og sínar þráhyggjur – var mér alltaf meira framandi. Þá fannst mér bílferðin suður, á rétt um fjórum tímum í janúar, á Chevrolet Chevelle 1969 (sem hafði enga ástæðu til að vera á vetrardekkjum) – og það í gegnum skafla – í það hæpnasta. En ég keyri svo sem einsog héri sjálfur og hef ekkert vit á bílum. Maður gleymir því síðan stundum hvað Stefán er annars góður höfundur – frekar en endilega krimmahöfundur – hann skrifar helvíti góðan prósa þegar hann vill vera að því. Stundum er hann kannski að drífa sig fullmikið og plottin vilja verða dálítið ofhlaðin sálrænum kveikjum – en kaflar einsog fyrstu 200 síðurnar í Feigð eða öll Hótel Kalifornía og fleira álíka efni sýnir bara hvers hann er megnugur þegar hann er í formi. Það segir líka sína sögu að ég tók hnullunginn á bókasafninu upp úr tvö, var ekki kominn heim fyrren klukkan að verða þrjú og lauk við hana upp úr miðnætti – og hafði þá samt líka fengið mér ríflega klukkustundarlúr, horft á Narcos og eldað og borið fram heimalagaða blómkálssúpu á milli lota. Og meira að segja glamrað svolítið á gítarinn. En það er tempó í henni – og er það ekki það sem krimmar eiga að gera líka? Fá mann til að klára sig.
Vitleysukórónan og veröld blíðunnar
Ég er enn eina ferðina ekki með covid. Sem er miður vegna þess að Nadja er með covid og ég er lasinn, sennilega lasnari en Nadja, þótt ég sé reyndar að koma til. Aram er líka lasinn en hann er ekki heldur með covid. Aino er hress og covidlaus. Ég reikna fastlega með því að strax og ég er búinn að hrista af mér þennan vírus sem ég er með skapist rými fyrir covid-19 vírusinn. Þetta er einsog að láta flengja sig meðan maður bíður þess að vera hýddur. Ég hef verið að lesa sveitasögur. Alveg óviljandi, reyndar, þær bara duttu svona í fangið á mér. Meðal annars Svaninn eftir Guðberg og Blítt lætur veröldin eftir Hagalín. Hagalín náði meiri tökum á mér – kannski fannst mér Svanurinn bara full „ljóðrænn“ (þótt hann væri nú aldrei neitt nálægt því að vera kalmanskur), sérstaklega beint í kjölfarið á Það rís úr djúpinu eftir sama mann, sem ég las á undan (og greip reyndar vegna þess að ég fann ekki Svaninn þá stundina). Sú bók er kraftmeiri, fannst mér – en veigra mér eiginlega við að segja það vegna þess að ég veit hve margir halda upp á Svaninn . Blítt lætur veröldin fannst mér eiginlega mögnuð. Hún segir sögu ungs drengs að vestan sem fer í sveit og kynnist þar ungri stúlku – Jonni er barn en Fía eiginlega kona. Hann saknar móður sinnar og byrjar á að sækja í kúna á bænum, Stórhyrnu, og hefur ímugust á Fíu í fyrstu og það líður heillangur tími áður en þau ná saman í vináttu. Í aðra röndina, og á yfirborðinu, er þetta því saga saklauss drengs sem finnur kærleikann hjá ungri stúlku sem tekur hann að nokkru leyti að sér – en það sem glittir í alla leið í gegnum bókina og er svo undirstrikað í endann er hversu hrottalegu lífi aumingjans Fía lifir, hvernig hún er alltaf undir hælnum á einhverjum (líka þegar hún er sem best og blíðust í sveitinni). Kraftmesti kaflinn – svo mann svimar – er þegar vinnumaðurinn Jói Daníels kemur til Jonna og vill að hann hjálpi sér að fá Fíu til að giftast sér, af því hún geri allt sem Jonni biður. Jonni ákveður að spila með Jóa og fer í samningaviðræður við hann um hvað hann eigi að fá í staðinn – hversu mikið saltað ket og hvaða kindur og hvaða hest og munnhörpu eða harmonikku og hvort Jói haldi að Jonni muni láta Fíu í hendurnar á einhverri nískunös. Ekkert verður úr samningum og Jonni segir Fíu frá þessu skellihlæjandi – en hún tekur frásögninni ekki vel. Þessar samræður eru allar mjög átakanlegar – hysterískar og grátlegar og sprenghlægilegar allt í senn. Mér sýnist ritdómarar mest hafa einblínt á fagra vináttu Jonna og Fíu – sem er reyndar mikið lýst sem fallinni konu – og ýmislegt annað göfugt í fari þeirra (einn talar um að hún hafi fengið að „láta meðfædda móðurblíðu sína njóta sín hluta úr sumri“ – frekar en að hún hafi eiginlega gerst sjálfviljug ambátt smástráks, sem henni er jafn mikið í mun að gleðja og marga aðra karlmenn, sérílagi þá sem hafa hafnað henni einsog Jonni gerir í upphafi bókar). Í sjálfu sér er kannski ekkert af því rangt – þau eru líka göfug og fögur og saklaus og syndug og einhvers staðar nýtur maður sín líka við að gera öðrum gagn, sérstaklega þeim sem manni finnst að megi sín minna. Blíðan er tvíbent eða margræð en hún er sennilega mest góð. En það er ekki bara að Hagalín hafi hér innsæi í slíkar mannlegar hvatir heldur hefur hann líka innsæi í strúktúrana sem stýra hvötum okkar. Þá er hann – einsog Guðbergur – snillingur í að láta náttúruna og húsdýrin spegla manninn.
Umhverfisráðherrann (chairman of the bored)
Mánudagur, sjöundi mars, tvöþúsundtuttuguogtvö. Á Jules-Verne-málþinginu í Nantes var því meðal annars velt upp hvort það þætti enn tilkomumikið að fara í umhverfis jörðina á 80 dögum. Sem það þótti vitaskuld ekki. Einhver stakk upp á því að kannski væri tilkomumeira – eða æskilegra, í ljósi nútímalegra lifnaðarhátta, óslökkvandi upplifunarþorstans – að fara umhverfis jörðina á 80 árum og skoða allt gaumgæfilega. Að mér hvarflaði þá hvort tilkomumest væri kannski að vera bara mjög intensíft heima hjá sér í 80 ár. Fara ekkert en gaumgæfa allt innan mjög lítils radíuss af mikilli nákvæmni. Upplifa nærrými sitt ástríðufullt. Ég hugsaði líka talsvert um þetta á heimferðinni. Auðvitað kæmist maður auðveldlega umhverfis jörðina á 80 dögum ef það væri það eina sem vekti fyrir manni og peningar væru engin fyrirstaða. En hvar gæti maður lent og hvar ekki – maður lendir ekki í Úkraínu þessa dagana eða flýgur einu sinni yfir landið. Síðustu tvö árin hefur heldur ekki verið sjálfsagt að maður fari frá borði, jafnvel í löndum sem tilheyra sama sambandsríkinu, og annars staðar hefur það auðvitað ekki verið sjálfsagt frá því við fórum að nota blessuð vegabréfin til að hamla heimsförum reisur sínar. Ég hefði ekki komist óbólusettur til Nantes. Þá eru ótaldar viðjar veðurfars – ég þurfti að keyra suður á mánudegi til þess að vera viss um að komast í Parísarflug á fimmtudagsmorgni (og hefði ekki komist ef ég hefði ekki gert það). Og þótt lítið mál sé að stökkva á milli helstu alþjóðaflugvalla heims þá þýðir það ekki að jafn greiðfært sé milli allra ólíkra útnára. Veröldin er ekki endilega neitt miklu minni þótt það séu góðir tengipunktar hér og þar. Það segir sína sögu að maður er alla jafna talsvert lengur á leiðinni frá Seyðisfirði til Tórshavnar, eða Ísafirði til Nuuk, en maður er frá Stokkhólmi til Barcelona. Ég flaug til Tromsø fyrir ekki svo löngu síðan og mig minnir að það hafi kostað mig tvo heila daga og fjögur flug (Ísafjörður-Reykjavík; Keflavík-Osló; Osló-Þrándheimur; Þrándheimur-Tromsø). Loks verður að nefna líka að ferðalög eru orðin alveg hryllilega leiðinleg. Og þar er við ekkert að sakast nema átákanlegan vilja mannsins til þess að gera allt sem ætti að vera skemmtilegt og spennandi fullkomlega óbærilega leiðinlegt. Í stað þess að standa í stafni gufuskips andaktugur yfir sístækkandi sjóndeildarhring, eða sitja yfir ostrum og kampavíni (og morðgátum) í Síberíuhraðlestinni, mætir maður þremur tímum fyrir brottför í yfirfulla flugstöð til að standa í löngum biðröðum, grímuklæddur með vegabréfið og bólusetningarvottorðin sín og útfyllt EPF og erindisbréf og farmiða í síma sem má þar með alls ekki verða batteríislaus, tekur af sér skó og belti og yfirhafnir og hatt, tæmir vasa og setur fartölvuna í sérstakan kassa og úrið og símann og leyfir flugvallarstarfsmönnum að henda 110 ml svitalyktareyðinum í ruslið svo maður sprengi ekki flugvélina í loft upp með honum. Lætur svo kalla sig upp þegar í ljós kemur að vegabréfið varð eftir í einum plastkassanum. Ráfar um í auglýsingahelvíti sálarlausrar fríhafnar, alltaf sveittur og illa lyktandi þótt maður hafi byrjað daginn á sturtu og nýjum fötum, leitar sér að vondum hamborgara og bjórglasi til að setja á Insta og starir ósofinn (af því flugið er alltaf klukkan 6 að morgni) á fjöll af áfengisbirgðum og nammi og veltir því fyrir sér hvort maður þurfi ekki að gefa einhverjum eitthvað eða hvort það sé kominn tími til að endurnýja einhvern lífsnauðsynlegan tækjabúnað og þrammar síðan í 25 mínútur eftir flugstöðvargöngum á sjálfvirkum göngubrautum til að komast að F-hliðunum, sem eru í öðru póstnúmeri. Svo er maður reyrður niður í alltof lítið sæti við hliðina á einhverjum sem virðist vera í enn þrengra sæti, en annars umkringdur ungbörnum á tanntökuskeiði, til þess að átta sig síðan á því að maður er ekki með heyrnartól með eðlilegri snúru og getur því ekki loksins látið af því verða að horfa á Kallakaffi í sætisbakinu. Í staðinn drekkur maður súrt kaffi og gerir síendurteknar en alltaf jafn aumkunarverðar tilraunir til þess að sofna, því þótt svona ferðalög séu í sjálfu sér ævintýraleg þá eru þau fyrst og fremst ævintýralega leiðinleg. Þegar maður lendir má maður svo heita góður að fá töskuna sína aftur (ég beið við bandið í tvo tíma á heimleiðinni) – og allt sem gleymist í vélinni er víst jafn örugglega týnt og tröllum gefið og hefði því verið hent frá borði yfir miðju Atlantshafinu. Þá hvarflar að manni að kannski sé þröskuldur 80 daga ferðalags alls ekki tæknilegs eðlis heldur spurning um líkamlegt og andlegt atgervi. Ég er svo tæpur að ég myndi sennilega skjóta mig á þriðja degi (eða ryðjast æpandi í gegnum öryggisskoðunina og láta tollheimtumennina með hríðskotabyssurnar skjóta mig). Það gæti kannski verið skemmtilegt plott í bók, þótt ég efist um það.
Sáðlát í Stromboli
Þegar ég fór að gefa heimferð minni gaum áttaði ég mig á því að ég hefði bara 80 mínútur á CDG flugvelli á morgun – en Icelandair mælir með þremur klukkustundum, í ljósi covid. Ég benti Frökkunum á þetta og þeir stukku til og útveguðu mér miða í lest í stað flugmiðans frá Nantes til Parísar. Nú verð ég kominn fjórum tímum fyrir brottför og það ætti vel að duga. En ég þarf líka að leggja af stað nokkru fyrr en útlit var fyrir – lestin fer klukkan sex í fyrramálið. Ég er strax orðinn úrvinda og byrjaður að taka út þá andlegu bugun sem örmögnuninni fylgir óhjákvæmilega. Í dag sat ég í mínum þriðja panel – „Ég og minn Jules Verne“ með Dany LaFerriere, Rosu Montero og yðar einlægum. Ég veit ekki hvort ég kom neinu sérlega gáfulegu að. Dany og Rosa tala bæði reiprennandi frönsku, einsog móderatorinn, og ég þurfti að hafa mig allan við bara til að fylgjast með því sem túlkurinn sagði í heyrnartólið mitt. Annars var þetta sennilega mest bara dálítið paint-by-numbers – komið inn á hvernig maður uppgötvar hann sem barn, fordómana gagnvart vísindaskáldskap, ómöguleika þessarar útópísku framfarahugsunar á 21. öldinni og svo framvegis. Ég sagði eitthvað um að fyrir Íslendingum væri Jules Verne ekki bara höfundurinn sem færði þeim sýn á framandi slóðir – tunglið og iður jarðar og höfin og löndin – heldur líka höfundurinn sem færði í augnablik fókusinn á Ísland, sem var ekki sérlega algengt um miðja 19. öldina. Þegar rætt var um kynferðismál í Verne – sem almennt skortir, þetta er allt fremur „gelt“, þannig lagað – stakk ég upp á þeim lestri á Ferðin að miðju jarðar að hún fjallaði um það hvernig mannkyn serðir jörðina og sprautar þremur sæðisfrumum svo harkalega ofan í Snæfellsjökul að þær frussast út í Stromboli. Rosa kom inn á að það væru engar konur í þessum bókmenntum, en Dany og Agnes (kynnirinn) mótmæltu þessu og einhver sagði að það væru alls 250 konur í bókum hans, það hefði verið talið. Ef ég skildi það rétt er samt engin í aðalhlutverki, nema ein í Umhverfis jörðina á 80 dögum. Ég spurði hvort þessi ofsalegu karlaævintýri væru ekki svolítið hómóerótísk – Dany sagði eitthvað sem túlkurinn sleppti því að túlka, en hljómaði einsog „vitleysa er þetta nú“, og svo var málinu eytt. Annars hef ég rekið mig á það við útgáfu Hans Blævar í Frakklandi að tungumálið eða orðræðan virðist mjög „ómóðins“ þegar kemur að öllum hinseginmálum. Þeir eru með hán og ég treysti því nú að Jean-Christophe, þýðandinn minn, sé með þetta allt saman upp á tíu – en í umfjöllun er mikið talað um hermafródítur og karlakonur og transsexúala. Að vísu er erfitt að leggja mat á þetta þegar maður skilur ekki meira af tungumálinu en ég geri – það er hætt við því að þótt orðin hljómi áþekk og á ensku þá sé ekki einfalt samasemmerki milli þeirra. Frakkar hafa líka meiri vara á ensku málfari og kúltúr heldur en margar aðrar þjóðir (sérstaklega norðurlandaþjóðirnar). Það er líka talsvert gert úr því að bókin sé skrifuð (og þýdd) á „inklúsífu máli“. Þeir spyrja hins vegar meira um ídentítet sem heimspekilega stærð – fljótandi og fasta, hvernig það mótast af sjálfsmynd okkar og því hvernig aðrir sjá okkur, hvernig sé hægt að streitast gegn ídentítetinu, skapa það, sprengja það o.s.frv. – frekar en að einblína á bókina sem sósíal-realíska transdæmisögu (þegar það er gert, sem er alltaf af og til, langar mig að hlaupa ítrekað á vegg). Annars er alltaf furðu mikið álag að setja sig aftur í stellingar til þess að segja eitthvað af viti um gamla bók. Frá því Hans Blær kom út á Íslandi hef ég gefið út tvær skáldsögur og er byrjaður á þriðju, sem á auðvitað hug minn allan. Þar að auki hef ég skrifað eina barnasögu og tvær og hálfa ljóðabók, sem er allt óútkomið. Eftir panelinn fór ég út að skokka í fyrsta sinn síðan ég sleit krossbandið. Ég tók því bara rólega en fór ríflega 5 kílómetra og var bara mjög stoltur af mér. Náði að vélasafninu þar sem má meðal annars finna þennan fallega fíl sem birtist hér að ofan. Ég náði ekki að sjá hann fara á röltið en hann gerir það víst – þetta er fúnkerandi vél sem sprautar vatni um ranann og mígur meira að segja á gangstéttina þegar honum er mál. Ég á ekki nema 100 síður eftir af Fjallkirkjunni og er að treina mér þær. Ég er reyndar líka með Brjálsæmiskæki á fjöllum eftir Po Chü-i í þýðingu Vésteins Lúðvíkssonar en annars lesefnislaus þar til ég kem til Keflavíkur – í bílnum bíða mín Svanur Guðbergs og Sjöundi sonur Árna Þórarinssonar (sem er ein af ísfirsku bókunum sem ég er að spá í). Það er ræs eftir sex tíma. Ætli ég leyfi mér ekki samt að lesa helminginn af þessum 100 síðum fyrir háttinn. Nema ég liggi bara yfir BBC fram á nótt. Ég náði vel að merkja sambandi við kunningja mína í Lviv og þau báru sig vel miðað við aðstæður en báðu bara um stuðning og að við öll hérna utan vígvallarins héldum okkur vel upplýstum um gang mála og þrýstum á stjórnvöld að veita allan þann stuðning sem þau geta.
Lu, Longhair og Lviv
Bókmenntahátíðin Atlantide fer fram í upprunalegu verksmiðjunni fyrir LU kexið fræga. Ég ætlaði að vera duglegri að sækja viðburði hátíðarinnar í dag en rak mig á að ekki var boðið upp á túlkun á þeim viðburðum sem mig langaði að sækja – hér tala bara allir frönsku, einsog ekkert sé, nema ég og örfáir aðrir. En ég sat sjálfur í klukkutíma löngu viðtali á sviði og talaði um allt milli himins og jarðar – sagði held ég hálfa ævisögu mína – og fór svo og sat aðra klukkustund við áritun. Ekki svo að skilja að maður sé að árita allan tímann – maður situr bara á rassinum og spjallar eða les og bíður eftir því að einhver birtist og vilji áritun, sem gerist af og til. Eini maðurinn sem ég veit um sem hefur setið og áritað sleitulaust á svona viðburðum er krimma- og fagurbókmenntahöfundurinn Luis Sepulveda heitinn, sem lést úr Covid alveg í blábyrjun faraldursins. Við útgefandi minn, Anne-Marie Metailie, brugðum okkur síðan yfir í næsta hús við LU-verksmiðjuna, sem vill til að er kastali Önnu af Bretagne. Þar röltum við eftir löngum kastalamúrnum og ræddum meðal annars um Sepúlveda, sem var góður vinur Anne-Marie og ég hitti nokkrum sinnum hér, og æskuár hennar í Nígeríu. Það var afar indælt. Seinnipartinn fór ég í annan vínyl-leiðangur og uppskar meðal annars eintak af Crawfish Fiesta með Professor Longhair, þar sem er meðal annars að finna hið dásamlega lag Big Chief. Svo hékk ég á festivalsvæðinu í smátíma – reyndi að finna eitthvað að hlusta á, án árangurs, keypti nokkrar franskar bækur fyrir Nödju og hélt svo upp á hótel til að skoða fréttirnar. Það er svolítið hrottalegt að hugsa til þess að stríðið sé komið til Lviv, sem verandi svo langt frá austurlandamærunum hefur verið að mestu laust við þennan óhugnað. Það er líka bara hrottalegt að hugsa til þess að borgin eigi von á loftárásum í nótt. Ég sé heldur ekki hvernig þessu getur lokið – það eru ofsaleg svik við lýðræðis- og mannúðarsjónarmið að láta það líðast að Pútín taki einfaldlega Úkraínu, einsog hann ætlar sér augljóslega, og það jafnt þótt hann taki ekki völdin prívat og persónulega heldur komi fyrir einhverri leppstjórn. Eina leiðin til þess að koma áreiðanlega í veg fyrir það er að senda þangað NATÓ-heri og það er mjög líklegt til þess að setja af stað þriðju heimsstyrjöldina. Ég held það væri brjálæði að treysta á að Pútín breyti henni ekki í kjarnorkustyrjöld – þá fyrstu og hugsanlega síðustu. Það er ekki gefið en það er sannarlega ekki hægt að útiloka það. Eða að treysta því að Kínverjar og Rússar myndi ekki hernaðarbandalag gegn Vesturlöndum. En það væri líka brjálæði að treysta því að taki hann Úkraínu taki hann ekki líka Eystrasaltslöndin og gangi svo á lagið. Og hvernig sem fer hlýtur þetta að kalla á nýja heimsmynd og langvinnt kalt stríð. Ég gekk fram á fjölmenn mótmæli á flandrinu í dag og gladdist að geta gengið til stuðnings Úkraínumönnum og gegn stríði – en það reyndust þá mótmæli gegn covid-takmörkunum stjórnvalda, þá ekki síst bólusetningarpassanum sem maður þarf að sýna alls staðar hér á veitingastöðum (ef maður ætlar að setjast – það má sækja sér mat). Þótt ég skilji að hér séu einhver prinsipp brotin, sem ætti sennilega ekki að brjóta, þá dæsti ég nú bara mjög einlæglega yfir þessu fólk þegar ég mætti því.
Ekki brjálaður heldur sjúkur
Ég er í Nantes, í Frakklandi, til þess að taka þátt í Atlantide bókmenntahátíðinni. Ég er sennilega ekki að „fara vel“ með Frakklandsferð mína. Ég kom svo dauðþreyttur í gærkvöldi að ég stökk beinustu leið upp á hótelherbergi um leið og ég hafði fengið kvöldverð (tælenskt tartar) og svo sat ég yfir BBC og CNN fram eftir kvöldi áður en ég fór að lesa. Svaf svo af mér morgunmatinn – hékk á hótelherberginu, gerði jóga, hlustaði á fréttir, og fór ekki af stað fyrren ég átti að hitta útgefandann minn og Rosu Montero yfir hádegisverði (hörpuskel og linguini). Við Rosa deildum síðan sviði í panel um fjölskyldur og leyndarmál – ég er að fylgja eftir Hans Blæ , sem heitir Troll á frönsku – og sátum í klukkustund á eftir og árituðum bækur. Ég fékk líka eina áritun sjálfur þegar kúrator hátíðarinnar, Alain Mabanckou, lét sjá sig (ég tók með mér eintak af Broken Glass ). Svo fór ég loksins að skoða þessa fæðingarborg Jules Verne. Rölti um í klukkustund síðdegis og kom við í plötubúð – fann meðal annars einstak af What Are They Doing in Heaven Today? með Washington Phillips, en Denomination Blues af þeirri plötu er eitt fallegasta lag sem ég þekki. Raunar er ansi harkaleg gospelslagsíða á feng dagsins. Svo fór ég bara aftur upp á hótelherbergi og hélt áfram með Fjallkirkjuna (ég er sem sagt að gera alvöru úr því að lesa Gunnar Gunnarsson – þótt Beta gengur laus hafi ekki reynst vera eftir hinn eina sanna GG – og er búinn með bæði Aðventu og Svartfugl ). Í stað þess að halda svo á hátíðina eða skoða bæinn meira skaust ég bara út eftir pizzabita og rétt náði heim fyrir kvöldfréttir á RÚV (nú malar BBC World Service í hótelherberginu – einhver rússneskur diplómat að halda því fram að bandaríkjamenn fjármagni nýnasískar hreyfingar í Úkraínu, sem í raun réttri ráði landinu). Í Fjallkirkjunni er einmitt einn Eiki sem liggur í öllum fötunum uppi í rúmi. Sá harðneitar að lesa bækur, þegar upp á því er stungið. Finnst það ótrúleg vitleysa. Í sjálfu sér var kannski frekar mikið að gera fyrri partinn. Allavega átti ég fremur bágt með að svara símtölum, sem af einhverjum orsökum voru fjölmörg. En ég skammast mín svolítið fyrir að vera ekki duglegri við að sjá hátíðina og borgina en ég er mjög upptekinn af bæði Fjallkirkjunni og fréttunum og frekar lúinn. Svo seinnipartur dags fór að mestu bara í að hvíla sig og ég sé fyrir að það verði svipað á morgun. Ég hef ekki komið nema einu sinni til Úkraínu og þá til Lviv, fæðingarbæjar Leopold von Sacher-Masochs, sem er alveg vestast. En það var mjög eftirminnileg heimsókn (ég hékk ekkert uppi á hótelherbergi yfir bókum og sjónvarpi) og ég veit ekkert hvernig það fólk sem ég kynntist þar hefur það. Hugur minn er samt hjá því, eðlilega. Gáfulegasta og eftirminnilegasta greiningin á þessu ástandi sem ég hef heyrt – og nú er ég búinn að hlusta á mjög marga sérfræðinga tjá sig – kom frá úkraínskri konu í Kænugarði, sem sagði aðspurð um hvort Pútín væri brjálaður: „Putin is not crazy. He is sick.“
Mona og Pola og dularfulla íslenska skáldið
Skáldsagan Mona eftir argentínska rithöfundinn Pola Oloixarac fjallar um perúskan rithöfund, sem heitir einmitt Mona. Hún ferðast til Svíþjóðar á alþjóðlega bókmenntahátíð. Þar eiga þátttakendur að flytja erindi, lesa upp og taka þátt í open mic kvöldum – og lokakvöldið fær svo einhver þeirra virtustu bókmenntaverðlaun Evrópu, Basske-Wortz-verðlaunin (sem voru fjármögnuð af besta vini Alfreds Nobel). Þarna er mikið föruneyti höfunda frá hinum ýmsu heimshornum sem Mona hefur mismikið álit á – og sér í mjög sínísku ljósi. Suður-Amerískir marxistar, finnskir og ísraelskir femínistar, múslimskur höfundur sem boðar heimsyfirráð, ljúfi non-fiksjónhöfundurinn Sven Olle Siggurdsson [svo] frá Svíþjóð og svo hið dularfulla íslenska kraftaskáld, Ragnar, sem þykir ekki bara sigurstranglegastur heldur langsigurstranglegastur. Mona sjálf er drykkfelld, sí-veipandi kannabisefni og reglulega hellast yfir hana heiftarlegar kynferðislegar fantasíur – og ekki bara þegar hún er uppi á herbergi að horfa á klám. Hún er líka glamurös og snjöll og skemmd – mjög New York in the nineties, einhvern veginn. Og reglulega spyr hún sig, án þess að maður fái að vita hvers vegna fyrren í blálokin, hversu lengi marblettir endist á líkamanum – hún á þess utan í mjög erfiðu sambandi við símann sinn, sem pípir mikið á hana og hún vill ekki svara, man ekki alveg allt sem gerst hefur síðustu daga o.s.frv. Maður skilur að það er eitthvað tráma þarna að banka upp á en það er ekki fyrren bókin er að klárast sem dyrnar opnast. Þetta er skemmtileg bók (frekar en hræðileg, þrátt fyrir trámað) en margt skrítið fyrir einhvern sem þekkir til – svona óþarfa smávillur einsog mér verður tíðrætt um og trufla einmitt engan nema þá sem standa sögusviðinu of nærri. Til dæmis hefur múslimski höfundurinn, sem er íranskur að uppruna en skrifar á dönsku, nýþýtt kóraninn að því manni má virðast á sænsku – og er fyrsta þýðingin (ég er ekki viss um að það sé ártal í Monu en hún gerist á tímum Trumps og fyrir covid). En farsi og arabíska eru auðvitað ekki sama tungumálið frekar en sænska og danska og fyrsta sænska þýðingin á kóraninum birtist 1917 – og þær hafa verið ótal margar síðan. Hugmyndin um að Svíar hafi þýtt kóraninn fyrst fyrir fáum árum meikar kannski sens í Buenos Aires en er absúrd í meiri nánd. Hugleiðingar Polu um bókmenntir – ræðurnar sem hún lætur rithöfundana sína halda – eru bestar, hvort heldur sem maður les þær einlæglega eða sem háð, enda fetar bókmenntahvötin alltaf einhvers staðar eftir þeirri egg. Þær rekast auðvitað líka á og Polu tekst að draga fram kostina og gallana í þessum kenningum – án þess að yfirgefa nokkurn tíma skáldskaparvíddina. Hún er ekki að predika þessar hugmyndir eða predika gegn þeim, heldur að gaumgæfa þær á þennan máta sem maður getur bara gert í skáldskap. Þá er Mona frábær persóna og flestir hinna líka – þótt gagnrýnendur skáldsögunnar keppist við að finnast rithöfundarnir allir vera fífl, og þeir séu að sönnu svolítið kjánalegir, þá þótti mér nú alveg vænt um þá flesta. Kannski er líka bara alltílagi að vera svolítið fífl. Og Pola sjálf þakkar í lokin þeim rithöfundum sem hún hefur kynnst í gegnum tíðina – kannski líka til að aftengja sprengjuna; auðvitað eru ósköpin inspíreruð af fólki sem hún hefur hitt og á kannski eftir að hitta aftur, en væntanlega líka til þess að leggja áherslu á að hún kunni í alvöru vel við þetta fólk sjálf, þótt síníkin stýri stundum pennanum. Og þá má heldur ekki gleyma því að hún hlífir ekki „sjálfri sér“ – Mona er þrátt fyrir kosti sína og sjarma jafn gölluð og hinir höfundarnir, jafn brotin, og hennar hugsanir og kenningar eru sams konar blanda af móðukenndum ruglingi og dásamlegri skerpu og hugsanir og kenningar hinna höfundanna. Nadja spurði mig, þegar ég sagði henni hvað ég væri að lesa, hvort þetta væri ekki kunnuglegur heimur – sænska og alþjóðlega bókmenntasenan og ég svona tja-aði eitthvað og sagðist halda að þetta væri kannski aðeins fínna lið en ég, ef mig skyldi kalla og það allt saman, nær því að vera eitthvert Nóbelsboð en Kuopio Sound Poetry Seminar eða Fjøsfestivalen í Melhus (þótt þar hafi nú annars verið mjög gaman). En þegar leið á bókina fóru að renna á mig tvær grímur – ég fékk fyrir það fyrsta fljótlega á tilfinninguna að þetta væri ekki endilega byggt á neinni heimsókn til Svíþjóðar, stemningin var einhvern veginn ekki sérlega sænsk. Og samt var hún eitthvað kunnugleg. Svo þegar halda átti knattspyrnuleik milli „Svíþjóðar og heimsins“ (þ.e.a.s. lókalhöfundanna og alþjóðlegra gesta) small allt saman og ég fattaði að ég gjörþekkti sögusviðið, sem er í Lahti í Finnlandi, þar sem haldin er alþjóðleg rithöfundastefna annað hvert ár. Finnland var Svíþjóð einsog Argentína, heimaland Polu, varð að Perú, heimalandi Monu. Sánan við ströndina, stemningin (sambland af partístemningu og mjög hátíðlegri stemningu), hvíta tjaldið þar sem erindin voru flutt – allt nema verðlaunaspenningurinn, því í Lahti eru ekki veitt nein verðlaun. Ég stökk upp úr sófanum, gagntekinn af forvitni, gúglaði þessu og auðvitað stóð heima að Pola Oloixarac var gestur í Lahti árið 2013 – tveimur árum á undan mér – og þá var einmitt íslenskt ljóðskáld þarna líka, kraftaskáldið heitna Sigurður Pálsson. Kraftaskáldið Ragnar er reyndar með sítt skegg og kannski ívið meiri Mósestýpa en Siggi – og ég reikna nú með því að skáldskapurinn hafi fengið að setja mark sitt á hina höfundana líka. Þegar ég var búinn að komast að þessu öllu saman hljóp ég samt upp í svefnherbergi til Nödju til að láta hana vita, rjóður af ánægju, að ég hefði víst verið á þessari hátíð og þetta fólk væri ekkert fínna en ég. Síðan fór ég aftur niður í sófa til að lesa restina – þar sem Siggi Páls stígur loks inn á sviðið og á stórleik (endirinn fór mjög öfugt ofan í gagnrýnendur bæði á Guardian og NYTimes en mér fannst hann forvitnilegur og vogaður og bið ekki endilega um meira en það).
Pípuhattur á fjallvegum
Stundum, þegar ég hef verið að keyra einn um landið, dettur mér í hug að ég hafi kannski farið út af í síðustu beygju og sé óafvitandi orðinn vofa sem liðist um eftir einhverri eftirlífsútgáfu af landinu. Síðast þegar ég fór suður var það reyndar til þess að selja einn bíl og festa kaup á öðrum sem væri ekki jafn ógnvænlegt að keyra. Súkkan litla fylgdi mér í 9 ár – ég velti henni einu sinni í þannig loftköstum að þakið snerti aldrei jörðina. Og keyrði hana svo suður í viðgerð þegar búið var að draga okkur upp á veg. Ég sat fastur í henni á heiðum. Djöflaðist á upplestra um allt land. Flutti hana svo til Svíþjóðar með Norrænu og svo heim aftur ári síðar. Hér heima var hún mest notuð til að skjótast í sund eða á skíði eða í Bónus. Af og til fór ég með hana á timburlager Húsasmiðjunnar, lagði niður öll sæti og stakk nokkrum spýtum innum skottið og alveg fram undir hanskahólf – og svo stóðu þær aftan úr opnu skottinu og dúuðu meðan ég keyrði afar varlega heim. Yfirleitt með aðra hönd á stýri og hina á spýtunum ef ske kynni að þær færu að renna eitthvað til. Súkkan var fjórhjóladrifin og þess vegna ágæt í snjó en hræðileg í slabbi og þyngslum af því hún var svo létt – þá lét hún ekkert að stjórn. Svo var hún líka voðalega kraftlaus en að sama skapi sparneytin á eldsneyti. Þegar ég keypti hana var mín helsta krafa sú að ég gæti setið uppréttur í henni með hattinn á höfðinu. Nýji bíllinn er eiginlega meira geimskip en bíll. Hann er með rafmagn sem dugar í innanbæjarsnatt. Apple Carplay og stóran skjá og cruisekontról og leiðsögukerfi og dráttarkrók og hita í stýrinu og pláss í skottinu. Og það er líka þaklúga yfir framsætunum – sem kallar eiginlega á að ég fái mér pípuhatt.
Kona fer í fýlu
Ég fór um daginn í viðtal til Ásgeirs á Menningarsmyglinu , ásamt Sigríði Pétursdóttur, kvikmyndafræðingi. Við ræddum Verbúðina – fyrir lokaþátt. Mér fannst fyrstu sjö þættirnir köflóttir. Mjög góðir sprettir hér og þar, epískar senur, alveg æðislegar sumar – ég fíla blóð og fyllerí og æsing – alltílagi melódrama en kannski svolítið bara smurt ofan á hið meinta umfjöllunarefni, kvótakerfið/fiskiþorpið, frekar en í lífrænum tengslum við það. Og vegna þess að þau tengsl skorti var dramað – ástarþríhyrningurinn og svikin – oft í samkeppni við umfjöllunarefnið. Lokaþátturinn þótti mér svo alls ekki góður. Með yfirvofandi skilnað, dauða, lausaleiksbarn og svikna móður í loftinu – einsog Tjekhovska byssu – að ónefndu framsali og eignarhaldi á kvóta og framtíð bæjarins bjóst maður við skotárásum. En þess í stað var vopnabúrinu bara stungið aftur niður í skúffu og aldrei hleypt af. Svikna móðirin hélt bara áfram að vera svikin móðir og lausaleiksbarnið reyndist þýðingarlaust fyrir plottið þegar allt kom til alls. Og endanleg staða barnsins í dramanu – tilfinningalegum bogum verksins – mikilvæg en óraunsæ og þar með ófullnægjandi. Var Harpa með forræði yfir barninu? Hvers vegna gat hún bara stungið af með barnið, þegar faðir þess var látinn? Á því eru áreiðanlega einhverjar útskýringar en það er ofsalegur skalli að láta þær ekki koma betur fram. Sinnaskipti Hörpu voru svo óskiljanleg – eða alltof illa undirbyggð til þess að mér þættu þau trúverðug. Eina stundina er hún stærsti bakhjarl bæjarins, sem aldrei ætlar að svíkja sína heimabyggð, og svo bara „það hata mig allir“ og „ég er bara farin!“ – einsog einhver unglingsstelpa í fýlukasti. Og aftur er saga kvótakerfisins smættuð niður í ástarlíf Hörpu og afleiðingar þess. Plottlausnin var bara kona fer í fýlu . Svo var ýmislegt sem var undarlegt en í sjálfu sér fyrirgefanlegt í skáldskap – senan þar sem Þorbjörgin snýr við í höfninni var kjánaleg en ef það hefði verið betra tempó í sögunni hefði það áreiðanlega lítið truflað mig. Ég skildi heldur ekki af hverju Einar og Freydís treysta Hörpu til þess að útvega sér fisk þegar þau eru búin að stinga hana í bakið (og fiskvinnsla án fisks er verðlaus) en hefði alveg getað lifað án útskýringar ef það hefði verið eini skallinn. Loks er sennilega sjúkleg smámunasemi að finna að því en mér þótti skrítið að horfa á Góa taka skóflustungu að „fyrstu útisundlauginni á Vestfjörðum“ – á Wikipediu stendur að vísu að Suðureyrarlaug sé eina útisundlaugin á norðanverðum Vestfjörðum (hún var opnuð 1992), sem eru sannarlega ekki allir Vestfirðir, en það hefði ekki heldur verið rétt að segja það. Þetta er bara rangt á Wikipediu. Reykjaneslaug er á norðanverðum Vestfjörðum – tilheyrði lengst af Norður-Ísafjarðarsýslu. Þá eru auðvitað fleiri og eldri útisundlaugar á Vestfjörðum (t.d. fín laug á Birkimel frá miðjum fimmta áratugnum). Og buslulaug, pottar og útirennibraut í Bolungarvík – þótt sjálf stóra sundlaugin sé inni. Þetta er tittlingaskítur – ég veit það – en guð hvað það fer samt í taugarnar á mér að fólk nenni ekki að hafa þetta rétt. Og þegar þessar óþarfa fljótfærnisvillur hrannast upp (það hefði engu breytt fyrir sjónvarpsþættina ef Gói hefði bara sagt „geggjaða útisundlaug“) hverfur traustið. Skyssur eru ekki heldur bara „skáldskapur“. Skáldskapur þrífst á trúverðugleika sínum sem er alltaf brothættur, einmitt vegna þess að við vitum að það er verið að ljúga ofan í okkur. Ég las loksins á dögunum Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur – enn eina ísfirsku bókmenntina – sem var fín og hræðileg og ofsa vel plottuð (og guð hvað ég skil að Yrsa skuli halda utan um þetta í excel – og það er kjaftæði að hún skrifi lélegan stíl, einsog maður heyrir oft) en í hvert einasta helvítis skipti sem einhver talaði um kirkjuna „á Súðavík“ þá hrökk ég við og datt út úr bókinni. Tilfinningaþráðurinn slitnaði. Bara svona einsog ég ímynda mér að myndi gerast í höfðum fleiri lesenda ef ég myndi skrifa heila bók þar sem væri alltaf verið að tala um fólkið á Reykjavík. Skyssur trufla alla innlifun – bara einsog bóman hefði alltíeinu verið í mynd eða Sveppi dregið upp iPhone. En auðvitað er líka búið að vera gaman að horfa á þetta og tala um þetta. Ætli sé ekki eitthvað þarna sem kemur yngra fólki á óvart? Einhverjir punktar úr þessari sögu sem voru að gleymast. Og þótt þetta hafi auðvitað ekki gerst alveg svona – heldur kannski fyrst og fremst hægar og með minni látum (lætin út af kvótakerfinu held ég að hafi í raun ekki byrjað af viti fyrren um miðjan tíunda áratuginn – Geiri selur Gugguna 1996 og hún fer ekki úr bænum fyrren 1999, Frjálslyndi flokkurinn stofnaður 1998) – þá eru grófu drættirnir auðvitað réttir.