Beta gengur laus

Ég hef lítið lesið Gunnar Gunnarsson. En samt aðeins gluggað hér og þar. Alltaf verið á leiðinni að gera eitthvað í því. Fyrir einhverjum árum áskotnaðist mér svo bókin Beta gengur laus – ég man ekki hvar, sennilega á fornbókamarkaði, kannski gefins einhvers staðar. Ég vissi ekkert um hana – hafði aldrei heyrt á hana minnst og þar sem hún var kápulaus vissi ég ekki einu sinni um hvað hún væri. Þegar ég tók hana upp í síðustu viku vakti tvennt athygli mína í fyrstu. Hið fyrra var að hún virtist skrifuð á íslensku en ekki dönsku og hið síðara að hún virtist vera eitt það síðasta sem hann hefði skrifað, 1973 (ég mundi ekki hvenær hann dó en sló því upp síðar og það var 1975). Þegar ég hóf lesturinn áttaði ég mig fljótt á því að þetta væri mjög ólíkt öðrum verkum Gunnars – í stað epískrar sveitarómantíkur var hér kominn klámfenginn ofsi á borgaralegu heimili (sem ég sá alltaf fyrir mér að væri Gunnarshús). Í sem stystu máli þá segir hér af hjónum. Ólafur er „skólamaður“ – háskólakennari í málvísindum – svolítið íhaldssamur og svolítið áfengissjúkur, giftur Betu, sem er vergjörn mjög. Þau hafa verið gift í átján ár. Þá flytur frændi Ólafs, Aðalsteinn, inn til þeirra – hann sækir Verzlunarskólann og stundar innflutning á vörum og verður fljótt mjög fjáður. Aðalsteinn er feitur og mikill og ungur og sveitalegur og tekur fljótt að ríða konu frænda síns. Sá endar í einhvers konar taugaáfalli og fer á Klepp – hugsanlega láta Beta og Aðalsteinn bara læsa hann inni til að fá næði til að ríða í friði. Allt kom þetta mér mjög spánskt fyrir sjónir. Þetta var alls ekki sá söguþráður eða sá stíll sem ég átti von á – þótt mér þætti þetta reyndar á köflum alveg meistaralegt, kannski ekki síst fyrir það hvað þetta var ólíkindalegt. Ég hugsaði oft til Felix Krull eftir Mann, því þótt það sé allt öðruvísi bók er hún einmitt mjög galsafengið lokaverk annars alvarlegs rithöfundar. Ef ég man söguna rétt var Mann hættur að skrifa og henti bara í þetta svona að gamni sínu – fyrir sjálfan sig – og þess vegna er hún ekkert nema fíflalæti þar til hún endar hún alveg rosalega bratt. Hann setur eiginlega bara punkt þegar hann nennir ekki að skrifa lengur. Ég hugsaði líka oft til annarrar stuttrar skáldsögu frá svipuðum tíma, Leigjandans , eftir Svövu Jakobsdóttur, sem kom út 1969. Hvort þetta væri táknsaga með svipuðu uppleggi – hinn ungi heildsali stingur undan menntamannsfeðraveldinu. Hið nýja auðvald mætir hinu gamla hefðarvaldi. Og fjallkonunni – hinni íslensku þjóð – er alveg sama hver fremur verknaðinn á meðan hún er tekin með stæl og bravúr. Ég veit ekki hvort ég varð svo fyrir vonbrigðum þegar ég var búinn með bókina og fór að grennslast fyrir um viðbrögðin við henni á sínum tíma og uppgötvaði að þessi Gunnar Gunnarsson var alls ekki hinn stórfrægi Gunnar Gunnarsson, metsöluhöfundurinn sem fundaði með Hitler, heldur var þessi Gunnar Gunnarsson 26 ára blaðamaður þegar Beta gengur laus kom út. Og þar með kannski meira Bragi Páll sinnar kynslóðar en Thomas Mann í elligalsa. Gunnar þessi skrifaði nokkrar bækur sem fóru meira og minna allar framhjá mér, þótt titlarnir séu kunnuglegir – flutti til Svíþjóðar og sneri sér fljótlega að því að skrifa krimma, á því tímabili sem það var mjög óvinsælt. Það er við svona aðstæður sem maður myndi vilja getað framkvæmt samanburðarrannsókn á sjálfum sér annars vegar og sjálfum sér hins vegar. Vilja geta lesið bókina aftur í fyrsta sinn, nema nú vitandi hver skrifaði hana í raun, og borið saman lesturinn. Hefði mér þótt hún jafn góð? Hefði það verið sama bókin? Sennilega hefði ég síður treyst 26 ára blaðamanni á fyrstu bók en áttræðum nóbelsverðlaunakandídat. Hefði kannski frekar reiknað með því að það skrítna væri mistök en vísvitandi furðulegheit. En ég breyti þessu ekki héðan af – ég las Beta gengur laus eftir Gunnar Gunnarsson, höfund Fjallkirkjunnar , en ekki Beta gengur laus eftir Gunnar Gunnarsson, blaðamann, og þar við situr. Beta gengur laus fékk fremur litlar viðtökur á sínum tíma – fáa dóma – en er þó tekið fram síðar að hún hafi „vakið mikla athygli“. Ef það hefur ekki bara verið spuni hefur sú athygli þá mestmegnis átt sér stað á mannamótum – fólk hefur þá hvískrast á um hana því lítið er skrifað um hana í blöð. Sjálfur sagði Gunnar þessi síðar að hún ætti frekar erindi á sakaskrá sína en í bókmenntasöguna

Snjólskin

Þegar ég fór heim af kontórnum í gær – í ofboði, vegna þess að ég hafði gleymt að ég átti að skutla tveimur stúlkum á skíðaæfingu – varð ég fyrir fyrstu sólargeislunum frá því einhvern tíma í haust. Ég held það hafi að vísu skinið eitthvað á bæinn inn á milli lægða en þá hef ég verið innandyra og verð ekki einu sinni var við það úr skrifstofuglugganum, sem veit í austur (á þessum árstíma kemur sólin upp í suðri – ofan við Engidal – upp úr eitt). Ég yfirgaf skrifstofuna klukkan fjögur, vestan megin, og þá blasti hún bara við. Blastaði mig. Ofboðið rann af mér í augnablik og ég stóð bara kyrr í augnablik og saug hana í mig. Og var samt ekki of seinn með stelpurnar á æfingu.

Heyrnarlaus á ystu þröm

Ég lá flatur í gær í sófanum, heyrnarlaus á öðru eyra af merg, buxnalaus undir sæng, með hálfgerðu óráði. Þetta gerðist fyrst fyrir akkúrat tveimur árum, rétt þegar covid var að byrja, og þá endaði ég uppi á spítala þar sem skolað var úr eyranu. Svo gerðist þetta aftur fyrir akkúrat einu ári þar sem ég var í Visby að leggja lokahönd á Einlægan Önd. Þá keypti ég mér eitthvað sprey sem ég notaði samviskusamlega í nokkra daga á meðan þetta var að losna. Þetta er sem sagt orðið árlegt. Og ég er búinn að hringja upp á heilsugæslu og á von á boði í skolun. Á sama tíma var ég að berjast við að komast í gegnum greiðslumat fyrir nýjum bíl og lesa Skáldið á Þröm eftir Gunnar M. Magnúss, ævisögu Magnúsar Hj. Magnússonar, fyrirmyndarinnar að Ólafi Kárasyni ljósvíkingi. Og áttum við báðir auðsjáanlega bágt. Hann sveitarómagi sem fær ekki leyfi hreppsins til þess að setjast neins staðar að nema hann gifti sig og fær ekki leyfi til að gifta sig vegna þess að hann skuldar óborganlega háan sveitastyrk eftir veikindi í æsku; ég hálfheyrnarlaus smábæjarómagi sem fær ekki að kaupa sér nýjan bíl af því tölvukerfið hjá Arion er eitthvað bilað. Báðir áttum við þó skáldskapinn okkur til huggunar. Það er svolítið annað að lesa þennan þurra texta – þessa upptalningu – en að lesa Heimsljós. Þó er manni alveg ljóst að Gunnari hefur þótt vænt um Magnús. Ég las Heimsljós reglulega í menntaskóla, uppfullur af rómantík, tók hana svo aftur upp nokkrum árum seinna og fannst hún alger vella og svo enn aftur rétt fyrir þrítugt og fannst þá fyrst sprenghlægileg og svo eiginlega bara ljót. Einsog Laxness væri að hía á aumingjann. Þetta er vel að merkja eiginlega eina bók Laxness sem ég hef átt í einhverju svona „sambandi“ við. En það var kannski meira einhver persónuleg hugmynd um Ólaf sem ásótti mig – þegar ég bjó í Reykjavík átti ég það til að stoppa við leiði hetjunnar hans, Sigurðar Breiðfjörð, (sem ég hef aldrei getað lesið mér til gamans) í Suðurgötukirkjugarði til að íhuga eilífðarmálin. Skáldið á Þröm er minni manngervingur en Ólafur og meiri maður, einfaldlega, og saga hans verður aldarfarslýsing frekar en kraftbirtingarmetafóra. Hún birtir okkur bæði mynd af því hvernig við sem byggjum þetta land höfum smíðað okkur mannvonskukerfi sem úthýsir fólki og gerir því ómögulegt að lifa – kerfi sem minnir kannski ekki svo lítið á þann aðbúnað sem hælisleitendur mega þola í dag, að því leytinu til að það miðar nánast að því að banna mönnum sjálfsbjörg og veitir þeim engar lausnir, og öryrkjar auðvitað – og hvernig við sem byggjum þetta land höfum þurft að eyða ótrúlega mikilli orku í að bæta upp fyrir þessi mannvonskukerfi sem við smíðum með hinni hendinni. Það er ekki þannig að Magnús komi alltaf að lokuðum dyrum hjá fólki – hann er víðast aufúsugestur, þykir skemmtilegur, er „talandi skáld“ og margir verða til þess að hjálpa honum, sem er umkomulaus kerfisins vegna. Þá vinnur hann miklu meira heldur en ég hafði haldið – örorkan háir honum mismikið eftir tímabilum og hann er oft í þesslags vinnu sem flestir hraustir nútímamenn myndu sannarlega barma sér undan, svo sem löngum sjóróðrum. En sveitaskuldin gerir hann að réttlausum manni – hann má ekki neitt og hrekst um milli vosbúða vegna hennar. Og þótt Súðavíkurhreppur viti að hann muni aldrei geta borgað skuldina er honum ítrekað neitað um niðurfellingu hennar eða aðra samninga sem létti henni af honum – og hann reynir bókstaflega allt. Ef það fólk sem þar réði átti sér einhverjar málsbætur koma þær a.m.k. ekki fram. Ef það væri ekki fyrir nauðgunina væri Magnús sennilega einhvers konar öryrkjadýrlingur. Einsog hann segir þá sögu skreið hann, afar óvanur drykkjumaðurinn, skelþunnur og skjálfandi upp í til 14 ára stúlku þar sem hann gisti í Bolungarvík, kyssti hana og missti svo sæði áður en til samræðis kom. Hann hélt því fram að stúlkan hefði logið ýmsu um sig og að hann hefði játað á sig verri sakir en hann átti skilið – hann játar samræði fyrir rétti en hafnar því í dagbókum sínum – og var henni reiður fyrir að hafa klagað sig. Magnús er dæmdur í ársfangelsi og situr af sér í grjótinu við Skólavörðustíg, en er sleppt snemma vegna heilsuleysis. Fljótlega eftir að hann kemur aftur vestur fær hann loks nokkurs konar uppreisn æru – sveitarstjórinn á Suðureyri beinlínis brýtur lög með því að leyfa honum að koma sér þar fyrir upp á full mannréttindi. Hann dó svo 1916 – jafngamall mér, 43 ára, sem komst á endanum handvirkt í gegnum greiðslumiðlun og var að fá símtal um eyrnaskolun á heilsugæslunni klukkan 13.

Nokkrar ísfirskar bækur og nokkrar útfirskar

Ég er heldur lufsulegur í dag. Annað hvort svaf ég illa eða mótefnin í þriðju sprautunni, sem ég fékk í gær, eru að berja í pípurnar. Eða ég er með covid. Eða krabbamein. Þegar ég hugsa út í það er ég með öll einkenni einhvers banvæns á byrjunarstigi. Slappleiki, treg einbeiting, lágur hiti. Farvel, grimma veröld. Síðustu daga hef ég lesið Ísafjarðarbækur Njarðar P. Njarðvík –  Í flæðarmálinu og Hafborg –  Tomorrow I’ll be Twenty eftir Alain Mabanckou, Nautnastuld eftir Rúnar Helga, Fugl/Blupl eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur, Hómó Sapínu eftir Niviaq Korneliussen, Veður öll válynd eftir Hagalín og Þunga eyjunnar eftir Virgilio Piñera. Njörður var hugljúfur – „rithöndin“ stöðug og traustvekjandi. Hann lýsir hverju handtaki um borð í Hafborginni og maður treystir því fullkomlega að hann viti hvað hann er að tala um. Þó er ég ekki viss um að Njörður hafi verið meira til sjós en 2-3 sumur í mesta lagi. Bókin gengur ekki fyrir neinu brjálæðislegu drama eða slarki þótt eitt og annað gangi á – og það sé jafnvel fyllerí á sumum sjómannanna, framhjáhald á konunum þeirra, og meira að segja eitt frekar alvarlegt vinnuslys (sem minnir á svipað slys sem pabbi minn varð fyrir – skipið fær á sig brot og maðurinn kastast, þessi brýtur lærið en pabbi fór með hnéð). Þetta er fyrst og fremst lýsing á tilvistinni á tilteknum stað og tilteknum tíma – og glímu fólks við þessar aðstæður, þennan tíma, og sjálft sig. Einkunnin hugljúfur á frekar við um Í flæðarmálinu en Hafborgina . Og er hún þó líka sár – sérstaklega fyrsta sagan, sem er minning átta ára drengs af því að vera vakinn til þess að fylgja fullum föður sínum í rúmið, enda geti enginn annar gert það, hann hlustar ekki á aðra. Það gerist ekkert meira en þetta, strákurinn fer á fætur og leiðir pabba sinn inn í svefnherbergi. Og maður hágrætur bara ofan í bókina. Það sló mig að Njörður lýsir Ísafirði aðallega út frá hafinu og fjörunni, sérstaklega í fyrri hluta bókarinnar, og nefnir sjaldnar fjöllin – ekki fyrren þau rumska. Sjálfur hugsa ég alltaf fyrst til fjallanna en tek nú betur eftir hafinu og fjörunni. Það er frískandi að hann sjái sér ekki ástæðu til þess að breyta bænum í exótíska staðleysu – hér er ekkert Pláss, engin Tangakaupstaður, eða Sandfjörður. Ég held reyndar að kráin Litlibar, sem virðist standa við Silfurtorg, sé tilbúningur – a.m.k. finn ég engar heimildir um hana. Annars er Ísafjörður bara Ísafjörður. (Ef einhver er með ábendingu um skáldsögur sem gerast í svona tilbúinni Reykjavík – einhverri Gufuvík eða Þokubæ eða álíka þá er kommentakerfið opið ellegar hægt að senda mér tölvupóst: eon@norddahl.org). Stærsti galli Njarðar sem rithöfundar er sennilega sá sami og stærsti kostur hans – hann skrifar aldrei neitt óvart. Það útilokar (næstum) mistök – líka þau sem svo reynast himnesk. Tomorrow I’ll be Twenty er byggð á æskuminningum kongóska rithöfundarins Alain Mabanckou – sem er frægastur fyrir bókina African Psycho. Drengurinn „Michel“, sem á samnefnda foreldra og Alain, mátar sig við fullorðinslífið og fylgist með samfélaginu í kringum sig – og fréttum umheimsins í gegnum útvarpið (hann hefur miklar áhyggjur af Íranskeisara og hatar Idi Amin af krafti). Hversdagurinn snýst í kringum stelpuna sem hann er skotinn í og fjölskyldurnar tvær sem hann tilheyrir – faðir hans á tvær konur: með annarri á hann fjölda barna, en með hinni bara Michel. Michel fer sjálfur til hinnar fjölskyldunnar alltaf ef móðir hans er vant við látin og hangir þar með systkinum sínum. Frábær bók. Nautnastuldur er bók um ofsa og þráhyggju – aðallega klofþráhyggjur manns sem virðist engu að síður þrá að komast upp í andlegri hæðir. Og hata sjálfan sig – eða í það minnsta líta niður á sig fyrir aumingjaskap. Þetta er „amerískari“ bók en Ekkert slor – eða í það minnsta meiri Roth og minni Faulkner. (Nú gúglaði ég og sá að á útgáfutíma bókarinnar hefur RHV bæði þýtt og skrifað um Roth – go figure). Bók um greddu og getuleysi og vanmáttar- og ofmáttarkennd. Fínt stöff – sérstaklega fyrri hlutinn, stíllinn á sirka fyrstu fimmtíu síðunum er massífur. Fugl/Blupl – ég var að endurlesa hana. Steinunn Arnbjörg er í miklu uppáhaldi hjá mér. Skrítnasta og skemmtilegasta röddin í íslenskri ljóðlist. Hómó Sapína eftir Niviaq Korneliussen. Ég hef verið á leiðinni að lesa þessa bók lengi. Hún fjallar um hóp af einstaklingum sem eru allir að finna sig og eiga það sameiginlegt að finna sig í einhvers konar hinseginleika. Gerist í Grænlandi og er tíðrætt um Grænland – en einhvern veginn fannst mér það ekkert aðalatriði – og eiginlega því miður, þótt ég hefði nú síður viljað að þau færu í sleðaferð eða eitthvað álíka. Og sennilega er þetta ungmennalíf bara ansi áþekkt á milli norðurlandanna. En andinn í bókinni var einhvern veginn danskur – og minnti að mörgu leyti á ljóð Maju Lee Langvad (sem ég held mikið upp á og hef þýtt). Sennilega er Hómó Sapína þýdd úr dönsku – höfundurinn frumskrifaði á grænlensku en þýddi sjálf á dönsku og væntanlega telst sú þýðing þar með jafn rétthá, en hugsanlega smitast eitthvað þar á leiðinni inn í stílinn. Maður fær ekki nema væga tilfinningu fyrir lífinu handan þessa fólks sem sagan einblínir á – gott ef allir sem eru nefndir á nafn fá ekki fókusinn alveg á sig einhvern tíma, eða tilheyra a.m.k. hinseginsamfélaginu á einn eða annan veg. Þar með vantar einhvern spegil eða kontrast. Bókin er samt betri en aðfinnslur mínar hér gefa til kynna. Veður öll válynd eftir Hagalín. Þetta eru nokkrir þættir af Vestfirðingum. Þær eru svolítið misjafnar að efni og gæðum – veigamest er Þáttur af Neshólabræðrum, þar sem segir af tveimur afar þrjóskum og erfiðum bræðrum og samskiptum þeirra við heimasætu á næsta bæ, sem enda með ósköpum. Aðallega vegna þess að allir eru svo fáorðir og þunglyndir og lífið er svo mikill djöfuls barningur alltaf hreint. Hún situr sennilega í mér lengi. Þungi eyjunnar eftir kúbanska skáldið Virgilio Piñera í þýðingu Kristínar Svövu. Kraftmikil bók – maximalísk í orðfæri og myndmáli og sennilega þyrfti maður að lesa hana tíu sinnum til að ná almennilega utan um hana. Og kannski er manni alls ekkert ætlað að ná utan um hana, heldur fljóta bara um, ölvaður og örvaður – það er allavega hægur leikur. Fyrirtaks þýðing, það best ég get borið vitni um, og fróðlegur eftirmáli. Ég les hana áreiðanlega fljótlega aftur.

Skúr minninganna

Ég eyddi helginni í tiltekt og skipulagningu. Aðallega úti í bílskúr. Það er undrunarefni hvað manni tekst að safna af drasli í einu mannlífi, sem er nú ekki einu sinni nema rétt svo hálfnað. Síðan er svo ægilega gaman að sjá allt þetta dót að maður heldur að svona eigi þetta bara að vera. Að á fimm ára fresti standi maður upp undir axlir í óbeislanlegu öngþveiti vasadiskóa, dagbóka, ljósmynda, fótóapparata, útprentaðra greina, ljóðahátíðadagskráa, sósíalískra tímarita, myntsafna, barmmerkja, plakata og allra handa minninga – meyr og síandi, meyr og síandi, einsog pungsveittur kolaverkamaður. Mest af þessu er samt alltaf bara drasl. Ég fann alveg líka IKEA-bæklinga og brotna playmokalla og spýtnabrak og Pottþétt 25 . Og það sem maður vildi helst hafa fundið finnst auðvitað ekki. Við Nadja skrifuðumst á sem unglingar og einhvers staðar á ég þykkt umslag merkt henni þar sem er að finna bréfin sem hún sendi. Ég fann umslagið hans Mella, umslagið hans Hauks Más, umslagið hennar Karenar og hennar Amöndu – en ég fann ekki umslagið hennar Nödju, sem ég hef tekið frá og geymt á mjög öruggum stað (sennilega með upprunalegu Appetite for Destruction plötunni minni – sem er líka týnd – en hana er hægt og raunar búið að kaupa aftur). Að vísu fann ég slangur af útprentuðum tölvupóstum og eitt handskrifað bréf frá 1994 – utan umslags. Þá hafði Nadja nýverið flutt frá Linköping til Västerås og farið í bíó með nýju vinum sínum, á rómantíska gamanmynd með Nick Nolte og Juliu Roberts, sem henni fannst ekkert spes. Hún vildi líka vita hvort svo vel vildi til að ég væri balletdansari, hún væri svo hrifin af balletdönsurum. Sem ég var auðvitað ekki og því tók það mig tólf ár í viðbót af viðstöðulitlu daðri áður en hún leit við mér. Það var minn ritlistarskóli. Sennilega hefði verið fljótlegra að læra bara ballet. Mest fór í ruslið af geisladiskum og pappírum. Ég ætlaði að henda fílófaxinu mínu en Nödju fannst það eitthvað svo sætt að ég held hún hafi hirt það upp úr ruslakassanum. Megnið af því sem var ekki hent fór svo í geymslu á þannig staði að við því verður sennilega aldrei hreyft aftur. Stór hluti af því er handskrifaður skáldskapur, uppköst og krot. Það kom sjálfum mér á óvart hvað ég hef skrifað mikið í höndum – stórir hlutar af Illsku eru frumskrifaðir í höndum. Ég mundi að Ísafjarðarkaflinn var það en það er talsvert meira og stórir hlutar líka sem enduðu aldrei í bókinni nema sem skuggi – tugir síðna um barnaskólakennara Agnesar og nasískar árátturaskanir hennar. Það er skrítið að vera búinn að gleyma svona miklu úr fullorðinslífi sínu. Ég hef líka staðið á því fastar en fótunum að ég hafi byrjað á Illsku sumarið 2008 – eftir að ég fór til Jurbarkas – en ég á dagsettar glósur sem sýna að það hefur varla verið komin nein mynd á það fyrren í janúar 2010. Sem þýðir að ég skrifaði þessar 600 síður á tveimur árum en ekki fjórum. Ég á líka eina Heimsku handskrifaða – hún er allt, allt, allt, allt, allt öðruvísi en sú sem kom út. Önnur bók um annað fólk – en með sömu forsendum, að miklu leyti. Og helling um Felix Ibaka og Arbítreu líka, sem er lítið líkt því sem birtist í Einlægum Önd (hann fer á Hamingjuráðstefnu á Íslandi, í Hörpu). Þegar ég var unglingur skrifaði ég síðan hálfa skáldsögu um mann sem er í einhvers konar hliðarheimi þar sem tilfinningar hafa líkamnast – ég held það sé búið að gera barnamynd með svipuðu konsepti, mín var einhvers konar bóhemskt krísuævintýri og alls ekki fyrir börn og helst ekki fyrir fullorðna heldur, bara fyrir ofurdramatíska unglinga. Ég skrifaði hana í fyrstu alvöru tölvuna sem ég eignaðist og þessa bók hef ég greinilega margskrifað, prentað út, krotað og krotað og krotað í handritið, skrifað aftur, krotað og krotað og krotað í handritið og svo framvegis. Ég hef verið miklu vinnusamari og einbeittari unglingur en mig minnti (eða einkunnir mínar bera vitni um) – og samt enn langt í að ég „ákveddi“ að verða rithöfundur (það var í október, 1999 – ég var skipreka í landluktri stórborg og fékk mömmu til að senda mér ritvél). Fílófaxið var líka fullt af athugasemdum einsog: „Lesa Böll, Ambjörnsen, Proust“ og svo framvegis. Ég hef nú varla lesið Proust enn, svo heitið geti. Þyrfti helst að skrifa hjá mér einhvers staðar að fara að koma því í verk. Kannski í Notes. Talandi um lestur og leit að glötuðum tíma þá hefur vef- spjall- og samfélagsmiðlabindindið sparað mér svo mikinn tíma að nú les ég hartnær bók á dag. Og allt samt utan eðlilegs vinnutíma – ég les helling á skrifstofunni líka en það er bara hingað og þangað, smá í þessari bók, smá á þessari heimasíðu, doldið í þessu tímariti, og svo framvegis, og telur ekki í bókatalningunni. Mér líkar þetta fyrirkomulag afar vel. Á morgun ætla ég engu að síður að kveikja aftur á símanum (vonandi ekki vísir að falli) og þá verður hægt að hringja í mig. Ekki samt hringja öll í einu.

Skáldað á Ísafirði: Arnrún frá Felli

Það er barið að dyrum.
„Já!“ segir Þóra. Enginn kemur.
„Gerið svo vel!“ segir hún hátt. Hurðinni er lokið hægt upp, og inn kemur Jón skósmiður.
„Hér er þá enginn“, segir hann og skimar í kringum sig.
„Kallið þér mig engan“, segir Þóra brosandi, og snýr í skyndi við á sér svuntunni.
„Enginn gestur átti ég við; mér heyrðist þér vera að tala við einhvern og segja já.“
„Góði Jón minn! Það var rétt, að ég sagði „já“, en vitið þér ekki að það þýðir: Gerið svo vel að ganga í bæinn.“
„Ég hefi nú vanist því, að fólk segði þá: „Kom inn“; ætíð var það sagt á honum Ísafirði.“
Jón var alinn upp á Ísafirði.
„Já, á Ísafirði“, segir hún og grettir sig. „En hér í Reykjavík segja allir mentamenn: „já“. Einn læknirinn byrjaði á því, og þá sögðu allir: Já!“ Það er ekki nema með dálitlum fimleikum sem ég geri Arnrúnu að Felli að ísfirsku skáldi – þarf kannski ekki reyk og spegla, en aðeins þarf ég nú að teygja mig samt. Hún hét réttu nafni Guðrún Tómasdóttir. Hún var fædd árið 1886 að Einifelli í Mýrasýslu og fór þaðan 19 árum síðar til þess að nema ljósmóðurfræði í Reykjavík. Þar var hún í tvö ár áður en hún hélt til Kaupmannahafnar til frekara náms. Að því loknu fór hún til Ísafjarðar og var þar ljósa í ein átta ár – nær allan þrítugsaldurinn. Það er á þessu tímabili sem hún hefur að birta eftir sig ljóð og smásögur í tímaritum, sem margar gerast á „Sandfirði“ sem á ýmislegt sameiginlegt með Ísafirði, og a.m.k. ein á „Brimtanga“ sem á sér sennilega fyrirmynd í Bolungarvík. Aðrar sögur hennar gerast í Reykjavík og í Ameríku – en frá Ísafirði hélt Arnrún til Bandaríkjanna, þar sem hún kynntist miklum menntamanni, Charles F. Bjarnason, málvísindaprófessor við Harvard. Í minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu í byrjun árs 1973, hálfu ári eftir að hún lést, kemur fram að í hjónabandi þessu hafi henni gefist „verðug tækifæri til að þroska það sem í henni bjó“ – enda hafi hún fengið að vélrita alla fyrirlestra þessa gáfaða manns í nærri 30 ár. Sögur Arnrúnar birtust einkum í Iðunni og Eimreiðinni framan af en síðar í tímaritum Vestur-Íslendinga í Ameríku. Mér sýnist hún smám saman hætta að gefa út eftir því sem líður á þriðja áratuginn – sennilega vant við látin að vélrita fyrirlestra – og tekur ekki saman sögur í bók fyrren 1956, sjötug að aldri, og hefur þá verið ekkja í sjö ár. Þó virðast sögur hennar og skáldskapur hafa notið nokkurra vinsælda og þegar hún kemur til Reykjavíkur frá Ísafirði með Lagarfossi 1917 er þess sérstaklega getið í Morgunblaðinu að hún sé komin, skáldkonan. Þá er eitthvað rýnt í sögur hennar í dagblöðum og um þær rætt, þó engin sé bókin til að fjalla um. Í skáldkvennatali skald.is er sagt um smásagnasafn Arnrúnar, Margs verða hjúin vís , að þar séu 13 sögur sem séu með fyrstu Reykjavíkursögunum (og er þá væntanlega miðað við útgáfutíma í tímaritum en ekki útgáfu safnsins): Aðalpersónur flestra sagnanna eru ungar, fjörmiklar stúlkur og má segja að um nýja kvenmynd sé að ræða. Guðrún skrifaði stíl sem samsvarar vel sögusviði og efni. Hún notar „nýtískulegt“ málfar með orðatiltækjum og slettum úr borgarmáli. Hún nær upp hraða í frásögn með því að sleppa smáorðum og tengingum, t.d. í samtölum. Frásagnarmáti hennar er víða gamansamur, jafnvel þótt efnið sé „háalvarlegt“. Þá ber að halda því til haga að einungis tvær sagnanna í Margs verða hjúin vísari falla að þessari lýsingu. Fjórar gerast í Reykjavík en þar af er ein um stúlku sem er dauðveik og alls ekki fjörmikil og ein fjallar eiginlega bara um karla – það er Einkennisbúningur Reykjavíkur sem er dásamleg saga, hittir á einhvern fagurfræðilegan skurðpunkt súrrealískrar snilldar og íslenskrar fyndni. Tvær – Bifreið nr. 13 og Fiskur í alla mata – fjalla síðan um dálítið frakkar dömur, a.m.k. á síns tíma vísu, en fjörmestu stúlkurnar í skrifum Arnrúnar birtast í tveimur smásögum sem hún undanskilur í safninu – en hefðu verið með því besta þar, ef þær hefðu fengið að fljóta með. Annars vegar er það sagan Þóra , sem vitnað er til hér í upphafi færslunnar og birtist í Iðunni vorið 1917, og hins vegar Ragna , sem birtist þar tveimur árum síðar en ku hafa legið óbirt á skrifstofu tímaritsins í þrjú ár. Hér verður sennilega að nefna að þrátt fyrir sitt dásamlega fjör er Þóra kannski ekki lengur „stúlka“ – a.m.k. er hún ekkja. Árið 1917 gat kona reyndar hæglega orðið ekkja fyrir tvítugt en því er sennilega ekki fyrir að fara hér. Sagan Þóra er örstutt ástarsaga með hröðum stíganda – léttleikandi og dásamleg – og mér fannst strax einsog ég væri að lesa eitthvað eftir formóður Kristínar Ómarsdóttur. Það var þessi saga sem kveikti mér forvitni að lesa meira eftir Arnrúnu og finna bókina hennar – sem fannst í kjallara Bókasafnsins. Ragna er annars eðlis og hortugri og sennilega séð um að skapa Arnrúnu það orðspor sem vísað er til í skáldkvennatalinu – enda var hún svo svakaleg að það þurfti að birta hana með formála: Reykjavíkurdrós, rifin upp úr roði, hortug og ófeilin – það lýsir því ágætlega. Þessi saga ætti að vera í öllum yfirlitsritum, ásamt helst Þóru og Einkennisbúningi Reykvíkinga líka og jafnvel Fyrsta fundinum. Mér sýnist svo að eftir því sem Arnrún eldist og þroskast aflæri hún mörg af áhugaverðustu höfundareinkennum sínum – sögurnar verða lengri og líkari „einhverju öðru“. Það er í sjálfu sér algengt – og stundum kallað ritlistarheilkenni, því slíkt umhverfi getur fóstrað tendensinn – að höfundar sem ekki er sérstaklega hampað fyrir það sem skilur þá frá öðrum höfundum fari fljótlega að líta á það sem vankanta og agnúa sem þurfi að sníða burt. En Arnrún verður þrátt fyrir þessa tilhneigingu aldrei neitt sérlega lík neinum öðrum. Sögur Arnrúnar eru allar áhugaverðar, bæði að frásögn og stíl, og þótt þær séu ekki undantekningalaust frábærar eru þær líka sprúðlandi heimild um þann heim sem hún lýsir. Þessi innsýn í borgaralegt líf sæmilega velmegandi Vestur-Íslendinga var alveg ný fyrir mér þótt ég næði minni tengingu við Ameríkusögurnar flestar. Þá þótti mér sagan Fyrsti fundurinn – sem fjallar um fund í sandfirska kvenfélaginu Vonarljós áhugaverð ekki síst vegna þess að Arnrún var mikilvirk í ísfirska kvenfélaginu Ósk á Ísafirði, sem stofnaði Húsmæðraskólann (þar sem Arnrún kenndi heilsufræði). Í sögunni leysist fundurinn eiginlega upp í slúður og baktal – í hvert sinn sem einhver hinna góðu frúa þarf að bregða sér afsíðis byrja hinar að baktala hana miskunnarlaust. Sem er auðvitað sprenghlægilegt. Fínu frúrnar sem keppast svo mikið um að vera merkilegar að þær verða fyrir rest alveg hræðilega ómerkilegar. Og þá fær „Snæmundur læknir“ sem sagður er fullur af innihaldslitlu „alþýðuskjalli“ líka gusur – þar hlýtur Arnrún að vera að vísa í Vilmund landlækni, sem var líklega ekki samtíða henni á Ísafirði nema þá í augnablik (hann kom árið sem hún fór). Þó má geta þess að kvenfélagið Vonarljós fær gott umtal um sig í annarri sögu – þær stöllur veita fátækri og sárveikri stúlku á Brimtanga styrk, þótt félaginu sé nú eiginlega bara ætlað að starfa í Sandfirði.

Þrífari vikunnar er alltaf einn

Í fyrradag lá ég uppi í rúmi og las úr fjórða bindi Harry Potter seríunnar af símanum fyrir börnin mín, sem máttu þola að ég kíkti reglulega inn á RÚV-appið til þess að sjá hver fengi íslensku bókmenntaverðlaunin í ár – eða í fyrra, réttara sagt. Fengi þau í ár fyrir árið í fyrra. Vefmiðlabindindi mínu fylgir ákveðin hlýðni við línulegan tíma og ég var eiginlega alveg viss um að ég myndi gleyma því að horfa á tíu-fréttirnar, af því ég geri það aldrei, og hélt að þá myndi ég ekki fá að vita þetta fyrren í morgunfréttunum klukkan 8. Sem hefði auðvitað verið hræðilegt. Svo hræðilegt raunar að þetta var ekki einu sinni í morgunfréttunum daginn eftir. Var einfaldlega hætt að vera frétt. Allir sem vildu vita þetta áttu að vera löngu búnir að komast að því. Ég sá svo fyrir tilviljun að það var mynd af sigurvegurunum á forsíðu Fréttablaðsins – sem liggur annars ekki á lausu hérna (og er eiginlega of mikið þunnildi til að ég nenni að eltast við það). Ég hef ekki séð Moggann síðan á mánudag – held samt að það hljóti að hafa komið moggi í gær. Ég hefði að öllu eðlilegu fengið fréttirnar þar. Ónefnd manneskja af erlendum uppruna í mínu lífi dæsti þungan yfir því annars þegar Bergsteinn Sigurðsson upplýsti glaðbeittur í sjónvarpsfréttunum hvernig allt tilnefnda fólkið væri meira og minna skylt og gæti þannig sett hin og þessi venslamet. Við erum auðvitað ekki nema fimm á þessu landi og öll skyld, þetta finnst útlendingum skrítið. Sem betur fer fyrir hneykslunargirni minnar ónefndu manneskju fengu engir ættingjar þetta – Kamilla Einarskáradóttir fór tómhent heim og Gunnar Helgason var ekki tilnefndur í ár og Melkorka og Svikaskáldin fengu ekki, bara mamma hennar, Sigrún Helgadóttir (sem er ekki systir þeirra bræðra, það ég viti). Ég veit ekki hvort maður er skyldur sjálfum sér en Hallgrímur setti met með því að fá bikarinn í þriðja sinn í sama flokki – en Andri Snær hefur líka fengið verðlaunin þrisvar, í öllum flokkum. En Andri á held ég enga ættingja sem hafa fengið. Sem er áreiðanlega yfirsjón hjá dómnefnd, frekar en eitthvað annað. Ég held annars skenslaust að það hljóti að vera mjög undarleg tilfinning að fá svona verðlaun fyrir fyrsta og annað bindi af þremur. Sennilega alltaf gaman samt – bara skrítið. Yrði ekki hálfgert krakk að fá svo kannski ekki fyrir þriðja og síðasta bindið – hápunktinn? Börnin voru – þrátt fyrir að eiga bágt með að þola vinnslustoppið í Potternum – spennt að vita hvort Didda, heimilisfræðikennarinn þeirra, fengi verðlaunin í barnabókaflokki. Svo var ekki en Aram hafði nýfengið Akam, Annika og ég frá ömmu sinni og byrjaði á henni strax eftir Potter og er mjög ánægður. Annars er ég sjálfur mjög illa lesinn í verðlaunabókunum í ár, þótt ég hafi lesið talsvert í flóðinu. Eða svona. Búinn að lesa sennilega 70% af tilnefndum skáldverkum – en það var allt í einni og sömu bókinni. Þarf eiginlega að fara að bæta úr þessu. Hugsa að ég bíði samt með Hallgrím þar til ég get hámlesið hann allan.

Vestfirsk skáldsaga: Djúpið

Ég lauk við Djúpið eftir Benný Sif í gær. Það er ofsalegur sogkraftur í henni. Mér fannst svo sem síðustu 50 síðurnar, þegar verið er að skila sögunni í land, ekkert sérstakar en 250 síðurnar þar á undan er þetta fullkomlega dáleiðandi ferðalag. Og aðalsöguhetjan, Valborg, er áreiðanlega með eftirminnilegri sögupersónum síðari ára. Með ofsalega átröskun, sem liggur einhvern veginn að baki öllu, og er samt aukaatriði – Valborg er alltaf stærri en átröskunin. Og Djúpið verður þar með aldrei beinlínis að bók um átröskun – frekar en hún er bók um „ósnortna náttúru“ eða „stóriðjuplön“ – heldur persónu- og þjóðfélagslýsing. Og kannski tíðaranda – ég er auðvitað ekki dómbær á hversu trúverðug, ég var mínus fjögurra ára 1974 (og Benný var sjálf plús fjögurra ára), en hún virkar fyrir mig. Og kannski segir Djúpið manni bara fullt um átröskun – og tráma og breyskleika – einmitt með því að detta aldrei í einlæga vikublaðastílinn (sem tröllríður bókstaflega öllu síðustu árin – allri list og allri fjölmiðlun). Upplegg bókarinnar er auðvitað til þess að æra óstöðugan Vestfirðing. Hópur (bókstaflegra) sérfræðinga að sunnan kemur sér fyrir í heimavistarskólanum í Reykjanesi (sem er samt aldrei nefnt) til þess að vinna bug á búseturöskun í Ísafjarðardjúpi. Fulltrúar heimamanna er annars vegar gráðugur þingmaður sem ku ætla að selja rússum Djúpið undir stóriðju og hins vegar (leynileg) barnsmóðir hans, sem er einhvers konar róttækur og dálítið ístöðulaus náttúruhippi – eitt af því sem illa gengur upp í sögunni er hvernig þeim tókst eiginleg að láta sér líka hvert við annað nógu lengi til að geta barn. En fólk dettur svo sem í það og missir bæði ráð og rænu. Jú og dóttirin er þarna að þvælast – en hún lætur jafn lítið fyrir sér fara í bókinni og hún er sögð gera í raunveruleikanum. Seen but not heard, svona að mestu. Eitthvað aðeins sést svo glitta í sveitafólkið sem á að bjarga en ekki svo maður fái neina tilfinningu fyrir því. Þetta truflaði mig merkilega lítið. Ég fór afar sjaldan í mótþróaröskunargírinn sem mér er samt svo eðlilegur í þessum málum – ég hefði svo auðveldlega getað byrjað að klóra af mér andlitið hérna, en það kom aldrei til þess. Í mesta lagi að ég stryki mér mjúklega um hökuna af og til. Djúpið er bók um konur – fyrst og fremst Valborgu og Ellen. Karlarnir í bókinni eru ansi flatir og ég veit ekki hvort það er bara vegna þess að þeir hafi átt að vera óspennandi luntalegar týpur eða hvort þetta er eitthvað öfugt kynjasyndróm – karlar eru alræmdir fyrir að skrifa flatar kvenpersónur – eða jafnvel einhvers konar svar við fáeinum öldum af lítt spennandi kvenpersónum í karlabókum. Eða vegna þess að þetta er ekki bók um karla heldur konur. Karlarnir í Djúpinu eru ekki allir viðföng langanna kvennanna (þótt þeir séu það sumir stundum) – frá þessu sjónarhorni er meira einsog karlarnir séu viðföng löngunarframköllunarlanganna kvennanna. Svona meta-löngunar þeirra. Að þeir séu þarna til þess að sýna viðbrögð þegar Ellen blikkar þá eða Valborg grennist (af því að gubba öllum mat út um gluggann á herberginu sínu) – en í raun eigi maður að geta án þessara viðbragða verið. Þeir eru hins vegar mjög mikið í því að sýna óviðunandi viðbrögð. Bæði nenna þeir fæstir að vinna þetta starf með þeim – þær eru þarna svo það sé hægt að hafa konur með í fréttatilkynningu, enda ár kvennabaráttunnar – og þótt þeir snúist í kringum flissið í Ellen þá er hún ólétt og lofuð, og þegar einn þeirra skríður ítrekað upp á Valborgu er það samræðulaust í skjóli nætur, svona einsog hann sé að læðast út til að reykja í laumi. Hún virðist láta það yfir sig ganga af því það sé skemmtilegra en að gera ekki neitt, en við fáum í raun enga útskýringu á athæfi hans aðra en að hann sé bara graður og dónalegur. Sá sem hún þráir sýnir henni svo ekkert nema fálæti, nema þegar hann sýnir henni dálítinn kvikindisskap – útskýringin á því hvers vegna, sem kemur þarna í hnútahnýtingunum í lokin, hefði mátt missa sín fyrir mér. Annars varð mér hugsað til sögunnar áðan þegar ég rakst á þessa frétt í rétt ríflega aldargömlu blaði (Íslending, 20.01.1922). Ég er ekki alveg viss hvers vegna en samt finnst mér tengingin blasa við.

Blúsbloggið: Árslisti, færsla 3 af 3

Jæja. Efstu fimm sætin. 5. GA-20 –  Try it … You Might Like It: GA-20 Does Hound Dog Taylor GA-20 er þriggjamanna Chicagoblúsband frá Boston sem nefnt er eftir frægum magnara frá Gibson. Þeir gáfu út sína fyrstu breiðskífu, Lonely Soul, fyrir tveimur árum og fylgja henni eftir með þessari – þar sem þeir leika einvörðungu lög af fyrstu tveimur breiðskífum Hound Dogs Taylor í tilefni af 50 ára afmæli fyrstu (og goðsagnakenndri) breiðskífu Hound Dogs, Hound Dog Taylor and the House Rockers . Það var sömuleiðis fyrsta breiðskífa Alligator Records – sem Bruce Iglauer bókstaflega stofnaði til þess að gefa út Hound Dog, þegar Delmark, þar sem hann vann, neitaði honum um gefa hann út þar. Hound Dog er í miklu uppáhaldi hjá mér – hrár og skrítinn og pönkaður – og ég hafði aðeins heyrt til GA-20 áður og þeir gera fara fjarska vel með efnið (þótt þeir kannski sýni því fullmikla virðingu). 4. William the Conqueror – Maverick Thinker William the Conqueror er svolítið einsog ef John Fogerty og David Byrne myndu stofna blúsband í anda JJ Cale. Það svínvirkar. Skoskt tríó – frontmaðurinn Ruarri Joseph átti talsverðan feril áður en hann stofnaði þetta band. 3. Cedric Burnside – I Be Trying Cedric er dóttursonur R.L. Burnside – sem Linda Burnside eignaðist með trommara pabba síns. Cedric var svo sjálfur farinn að spila í bandinu þrettán ára gamall (1991 – hann er jafn gamall mér, altso í það allra yngsta fyrir blúsmann). Geggjuð plata. 2. Delgrés – 4.00 AM Ég lenti óvart á Delgrés-tónleikum á 100-club í London fyrir nokkrum árum – þegar ég missti af miðum á Ry Cooder fyrir vítavert gáleysi. En ef það hefði ekki verið fyrir þetta vítaverða gáleysi hefði ég kannski aldrei kynnst tónlist Delgrés og ekki orðið mér til skammar í tveggja tíma danstransi á þessum virðulega blúsklúbb. Þetta er tríó (þriðja tríóið á topp fimm) sem gerir út frá París en frontmaðurinn, Pascal Danaë, er frá Guadalupe og syngur (mest) á kreólafrönsku. Fyrsta platan þeirra, Mo Jodi (Mourir aujourd’hui – að deyja í dag) er í gríðarlegu uppáhaldi hjá mér. Þessi er ívið rólegri og ég myndi sennilega ekki svitna jafn hressilega þótt ég dansaði hana á enda – en þó eru þarna nokkur sem setjast beint í dillandina í mér. 1. Sunny War – Simple Syrup Sunny War er er einsog … ef Elizabeth Cotten hefði eignast barn með Jimi Hendrix og það barn hefði gengið í tónlistarskóla Jeffs Buckley. Ég heyrði í henni í The BBC Blues Show einhvern tíma síðasta vor og keypti strax báðar plöturnar hennar. Mama’s Milk er hittarinn en Like Nina er lag ársins. Svona lítur þá listinn út í heild. 11. sæti: Fire it Up – Steve Cropper 10. sæti: Sharecropper’s Son – Robert Finley 9. sæti: The Blues Album – Joanna Shaw Taylor 8. sæti: Delta Kream – The Black Keys 7. sæti: Heavy Load Blues með Gov’t Mule 6. sæti: Nowhere Sounds Lovely – Cristina Vane 5. sæti: Try it … You Might Like It: GA-20 Does Hound Dog Taylor – GA-20 4. sæti: Maverick Thinker – William the Conqueror 3. sæti: I Be Trying – Cedric Burnside 2. sæti: 4.00 AM – Delgrés 1. sæti: Simple Syrup – Sunny War Þrjár sólókonur, þrír sólókarlar – fimm bönd, þar af einn dúett, þrjú tríó og einn kvartett. Ein skosk plata, ein bresk, ein guadalúpísk-frönsk og átta bandarískar. Fjórar koverlagaplötur. Það er minna af bæði deltablús og chicagoblús en í fyrra – meiri köntrí-, folk-, soul- og poppskotið. Ég á fjórar af þessum ellefu á vínyl og ætla að panta a.m.k. 3-4 í viðbót.

Enn ein ísfirsk skáldsaga: Ekkert slor

Það seigflýtur allt í heilabúinu á mér í dag. Einsog grautur í hvolfdri skál. Í vísitöluvikunni er ég fremur góður á mánudögum – ferskur eftir helgina, með nýjar hugmyndir til að vinna úr og starfsþrek til að sinna þeim. Það eru yfirleitt miðvikudagar sem leggjast verst í mig. Þá er farið að súrna í hugmyndunum – svo hressist ég þegar nær dregur helginni. En í dag er mánudagur og ég er ekkert ferskur, bara tregur. Í gær las ég enn eina ísfirsku skáldsöguna – sem einnig var prentuð í Ísrúnu þótt Forlagið gæfi hana út (og mamma mín setti hana). Þetta var Ekkert slor, fyrsta skáldsaga Rúnars Helga, sem sagt er að gerist í „Plássi“ einu sem er mjög Ísafjarðarlegt og persónur eru kallaðar eitt og annað þótt Ísfirðingar þykist geta borið á þær kennsl, ekki síst „Hemma“, sem er eiginlega bara Maggút heitinn ljóslifandi kominn. Rúnar segir sjálfur í viðtali á þessum tíma að sjái maður „beinar fyrirmyndir“ að sögupersónunum verði maður að gera það á eigin ábyrgð – en auðvitað verði sögupersónur ekki til úr engu, fremur en fiskafurðir. Maggút var nágranni minn alla barnæskuna, góðvinur pabba og rak okkur krakkana af túninu fyrir framan húsið sitt oft á dag, stamandi og gargandi. „A a a andskotans krakrakkakrakkagemlingar!“ Af því að við vorum að spila fótbolta og hann lagði bílnum sínum alveg þarna hjá og það hefur áreiðanlega gerst af og til að boltinn færi í bílinn. Húsið stendur reyndar ekki lengur – strætó keyrði á það á tíunda áratugnum og það skekktist allt – og á túninu byggði sonur Maggúts sér myndarlegt hús, svo nú leikur enginn þar fótbolta. En það er önnur saga. Rúnar Helgi „nær honum“ andskoti vel – of vel til að eiga góða fjarvistarsönnun fyrir því að hafa ekki nýst við „beinar fyrirmyndir“ – ekki bara staminu heldur talsmátanum og karakternum öllum, hvernig hann var stöðugt að rífast við alla en samt aldrei af neinum illindum. Eða a.m.k. sjaldan. Þessum undarlega gorgeir, sem var einhvern veginn þess eðlis að manni þótti vænt um hann – sem er nú yfirleitt ekki tilfellið með gorgeir. Ég gæti best trúað því að sagan væri sönn af því þegar hann veðjar brennivíni upp á að togarinn sé með undir 180 tonn – hann sjái það á stestestefninu stefninu – og gefur sig ekki þegar þau reynast 184, enda sé alltaf vivivitlaust tatalið talið uppúr þessu hehehelvíti. En Ekkert slor er fleira en Maggút. Ekkert slor birtir safn skyndimynda frá einu sumri í slorinu – það er farið inn og út úr heilabúum ólíkra sögupersóna sem allar eiga það sameiginlegt að vinna í „Fiskhúsinu“ svo úr verður býsna góð lýsing á vinnustað og verkafólkinu sem þar starfar. Fáeinir þræðir ganga í gegnum bókina þótt framþróun sé í sjálfu sér lítil, á þessum stutta tíma, ekki síst kemur greddan í ungu strákunum oft við sögu. En líkt og í Grjóti og gróðri eftir Óskar Aðalstein er sárasta augnablik bókarinnar fósturlát konu – sem hér kennir sér sjálf um að hafa unnið of mikið og þannig valdið fósturlátinu. Í Grjóti og gróðri ætlar Bjarni bækill að drepa sig fyrir að hafa verið svo mikill aumingi að konan hans hafi þurft að slíta sér út og því misst fóstur, en hér er það eiginmaðurinn, togarasjómaður, sem stappar stálinu í sína niðurbrotnu konu. Annars er þetta ekki örlagasaga. Að minnsta kosti ekki örlagasaga einstaklinganna. Margir hafa að sönnu unnið í Fiskhúsinu lengi og eru samvaxnir einhvers konar slorstriti en tilfinningin sem maður fær af lestri bókarinnar er að þeir geti auðveldlega snúið sér að öðru striti annars staðar án þess að sjálft verksmiðjulífið breytist mikið – þau eru peð sem eiga sér örlög, en þau eru ekki bundin frystihúsinu, þar sem maður kemur í manns stað, og þau geta hæglega fengið vinnu í öðru slori annars staðar. Að minnsta kosti ein sögupersóna er þegar horfin að öðru þegar sögu lýkur – eða við það að stinga af. Frystihúsið virðist stærra en þau og þótt stórveldistíð þeirra í íslensku menningarlífi hafi liðið undir lok fljótlega eftir sögutíma bókarinnar, sér þess hvergi stað þarna. En svo litast sýn manns á þessa bók, sem kom út 1984 (sama ár og Verbúðin hefst), eðlilega líka af því að þekkja söguna. Ungt fólk í svona störfum á þessum tíma hefur horfið úr þeim – það var þegar miklu minna um vinnu fyrir ungt fólk þegar ég reyndi að fá vinnu í fiski (og fékk svo í rækju) 6-7 árum seinna. Frystihúsin reyndust ekki eilíf og þeir sem hófu vinnu þarna á níunda og tíunda áratugnum hurfu langflestir að öðru áður en langt var um liðið. Einn skemmtilegasti kafli bókarinnar er kaflinn þegar skemmtiferðaskipið birtist og túristarnir flæða yfir bæinn „einsog engisprettur“ (sem eru einmitt nefndar til leiks í Brúnni yfir Tangagötuna líka, af svipuðu tilefni). Ekki endilega vegna þess að það sé besti kaflinn – kannski er honum meira að segja ofaukið í söguheimi bókarinnar, við lestur árið 1984, það er ekki útilokað – heldur vegna þess að ég var sjálfur búinn að gleyma að þessar skipakomur hefði verið byrjaðar (ég var náttúrulega bara sex ára) – svo þetta verður allt dálítið súrrealískt. Og heimsóknin verður líka táknræn þegar hún er skoðuð í ljósi orða verkalýðsforingjans Hallgríms Jónmundssonar í sjómannadagsræðunni: … því hljótum við að óska þess að einhver atvinnuvegur skapist í landi sem leyst geti sjómennskuna af hólmi sem þýðingarmesti atvinnuvegur þjóðarinnar … Ég sé á blöðum að bókin hefur fengið hlýrri móttökur hjá eldri kynslóðinni en þeim yngri – Erlendur í Mogganum og Jón Þ. Þór skrifa lofsamlega um hana – en hinn ungi Páll Valsson, sem er þá 24 ára, ári yngri en höfundurinn Rúnar Helgi, og skrifar í Þjóðviljann, ber sig illa af lestrinum þótt hann taki fram að bókinni sé ekki alls varnað. Finnst honum bæði að sagan segi sér lítið sem ekki hafi verið vitað fyrir og að frásagnaraðferðin mistakist og Rúnari hefði farnast betur ef hann hefði fylgt færri persónum lengur eftir. Það er kannski fullseint í rassinn gripið að fara að rífast við Pál um þetta núna, þegar hann er skriðinn yfir sextugt, en ég er ósammála þessu. Mér finnst styrkur bókarinnar einmitt liggja í því að láta ekki hið einstaka glepja sig – er þetta ekki líka Faulknerískt? Ég veit ekki hvort Rúnar hefur verið lagstur í Faulkner þegar hann skrifar Ekkert slor en hann er auðvitað mikilvirkastur íslenskra Faulkner þýðenda – og svo hefur Haukur Ingvars nýlega sýnt fram á sérstök tengsl Faulkners við vestfirskar bókmenntir í gegnum Guðmund Daníelsson og Hagalín og mér finnst alveg ástæða til að skoða hvort Grjót og gróður og Ekkert slor megi ekki teljast þar með, bæði vegna næms eyra Óskars og Rúnars fyrir töluðu máli, og þeirri áherslu sem lögð er á það, og fyrir að flakka milli margra sögupersóna til þess að lýsa stærra „ástandi“ eða „sögusviði“. Óskar staðnæmist að vísu við heimilismenn og Rúnar fer ekki út fyrir heilabú starfsmanna Fiskhússins – hvorugur tekur til ólíkra stétta, kynþátta eða heillrar sveitar – en frásagnaraðferðin er engu að síður ekki óskyld aðferð Faulkners (og Guðmundar). Í öllu falli er það frásagnaraðferðin sem veitir bókinni listrænt gildi sitt og hefur hana upp úr því að vera einfalt melódrama eða þorrablótsrevía um graða karla. Maður þarf að sönnu að fylla upp í ýmsar eyður sjálfur sem lesandi, sem er sjálfsagt auðveldara ef maður hefur einhverja innsýn í þennan heim en ætti ekki að vera neinum þrautalestur, og sumar persónurnar minna á aðrar – sem er nú bara frekar raunsætt, og væri ekki öðruvísi þótt vinnustaðurinn væri skrifstofa uppi í háskóla. Það geta heldur ekki allir verið Maggút.