Ég bauð eftirlegukindunum úr útgáfuhófi Einlægs Andar heim í Tangagötu og gaf þeim að drekka. Eðlilega var vínið hið yndislega Hans Baer hvítvín en annars var drykkur hússins Fluffy Duck – sem Andri Pétur skírði „andastél“ eftir að ég hafði bönglast með „hnoðrönd“ allt kvöldið. Það er dálítið flækjustig hérna – maður fær ekki hollenska eggjapúnsið advocaat á Íslandi svo maður þarf að búa það til sjálfur. Til allrar lukku er það furðu auðvelt og erfitt að klúðra drykknum annars. Og hann er fáránlega góður. Við byrjum á púnsinu. Advocaat Tíu eggjarauður (ég keypti gerilsneyddar í plastflösku – það er þá einn bolli) 1/2 tsk salt Rúmur bolli af sykri Kanill eftir smekk – ég tek svona hálfa teskeið, sem er frekar mikið Bolli af brandíi 2/3 bolli af vodka 2 tsk vanilludropar Maður tekur eggjarauðurnar, saltið, sykurinn og kanilinn og hrærir saman þangað til það er orðið ljóst og fremur þykkt. Síðan hellir maður áfenginu út í og hrærir á meðan. Næst setur maður skál yfir vatnsbað og hellir blöndunni út í. Hrærir þar til blandan er aftur farinn að þykkna – 8 mínútum mælti uppskriftin sem ég eltist við með . Ef maður er með hitamæli má hætta þegar blandan er orðin 55 gráðu heit. Þá slekkur maður undir. Hrærir vanilludropunum út í, hellir í flösku og kælir í ísskáp í a.m.k. 6 klukkustundir. Þetta geymist í mánuð. Andastél 30 ml triple sec (ég sérpantaði það en skilst það sé fínt að nota líka cointreu, jafnvel grand marnier eða orange curacao) 30 ml appelsínusafi 45 ml advocaat 45 ml gin Klaki og sódavatn. Fyrst hellir maður fyrstu fjórum hráefnunum í kokteilhristara ásamt klaka. Hristir vel. Síar út í sæmilega rúmgott glas fullt af klaka og fyllir það síðan með sódavatni. Þetta má skreyta með appelsínuhýði.
Á fjarlægum ströndum
Nadja gaf mér bókina Á fjarlægum ströndum – Tengsl Spánar og Íslands í tímans rás. Hún kvartar reglulega undan því að það sé erfitt að gefa mér bækur af því ég bæði kaupi mér margar bækur og fæ margar gefins og svo eru margar bækur sem ég á sem koma aldrei heim – eru bara á skrifstofunni – svo það er ekki einu sinni auðvelt að athuga hvað ég eigi fyrir. Á fjarlægum ströndum er sennilega ekki bók sem ég hefði keypt mér sjálfur en svo er nánast einsog hún hafi verið skrifuð fyrir mig. Mikið af þessari sögu á sér stað hér í næsta nágrenni – baskavígin auðvitað, og orðasafnagerðin, en líka saltfiskverslunin (að mjög miklum hluta). Fyrir utan kafla um það eru margir kaflar um bókmenntir – þar á meðal grein eftir manninn sem hefur þýtt bæði Hans Blæ og Illsku, Enrique Bernárdez, og grein um spænskan gítar og Ísland þar sem móðurbróðir minn, Tryggvi Hübner, kemur meðal annars lítillega við sögu (hann lærði gítarleik á Spáni). Þá er grein um sólarlandaferðir Íslendinga til Spánar en mér telst til að ég hafi sjálfur farið í einar níu slíkar – þriggja vikna langar – á gullöld slíkra ferða, frá 1984 til 1994 (eitt árið fórum við til Ítalíu). Bækur, matur, gítarleikur, Vestfirðir, tungumál, ferðalög, sólarlandarómantík. Þetta eru bara öll áhugamálin mín í einni bók. Sem ég vissi ekki einu sinni að væri til fyrren ég opnaði pakkann.
*** Ég ætla að blogga miklu meira á næsta ári. Og ég ætla að vera minna á samfélagsmiðlum. Og draga úr fréttalestri líka. Og spjallforritahangsi. Hafa símann bara í flugmóð. 2022 verður árið þar sem ég held þræði. Svona mestmegnis að minnsta kosti. Það var útlit fyrir að bókmenntaflakkið væri að byrja aftur. Ég á að fara til Frakklands í febrúar. Mér fannst nú alveg garanterað að ég kæmist þegar mér var boðið en ég get ekki sagt ég sé jafn sannfærður núna. Annars er nú allt mjög rólegt í útlandadeildinni. Ég fylgdi Brúnni aðeins eftir í Svíþjóð en náði ekkert að elta Hans Blæ til Frakklands eða Spánar eða Óratorrek til Grikklands og það hefur heldur ekkert annað bæst við – a.m.k. ekki sem kemur út í ár (það er von á ljóðasafni á finnsku 2023 líklega). Það er reyndar einhver makedónsk Illska í pípunum sem ég veit ekkert hvenær kemur út – hún átti að koma fyrir löngu en frestaðist. Það væri gaman að fara til Makedóníu. En það væri gaman líka að fá bara ró í kollinn sinn.
Tagínulán
Ég fékk tagínu í jólagjöf. Sem þýðir að það verður einhvers konar berbaþema hérna um áramótin. Í kvöld verða hins vegar jólaafgangapizzur. Það er hugmynd sem ég fékk rétt áðan og ég eiginlega lofa því að hún á eftir að eldast illa, þessi hugmynd meina ég, pizzurnar eldast sjálfsagt bara einsog þær gera venjulega. Ég fékk líka slangur af bókum. Djúpið eftir Benný Sif, bók um samskipti Íslands og Spánar í gegnum tíðina, nýju Jordan Peterson bókina (mamma þýddi hana) og sitthvað fleira. Svo fékk ég gjafakort á 9 líf og heimalagaða polkagrísi og Macintoshdollu frá litla trommaranum og tvíhliða málverk (með jólamálverki öðrumegin og hversdagsmálverki hinumegin) frá Aino. Og fjöltengi. Og rauðkál. Og margt fleira. Ég hef annars átt betri daga í eldhúsinu. Síðustu daga hef ég verið lasinn og haltur – eða, haltur lýsir því eiginlega ekki, ég er bara eilíflega þreyttur í hnjánum. Bæði því krossbandslausa, sem er enn að þjálfast upp, og hinu sem ber þá hitann og þungan af burði mínum daginn út og inn. Og fór einhverjar styttri leiðir til að hlífa mér. Stressaði mig minna en ég hefði kannski þurft að gera. Hangikjötið sauð ég sennilega of lengi. Það var allavega ólseigt. Steikti mörg laufabrauðanna of stutt líka (og brauðið sem við keyptum í bónus stenst ekki gæðasamanburð við brauðið sem við keyptum alltaf í gamla bakaríinu). Franskbrauðið bara hefaðist ekki og fór í ruslið (átti bónusfranskbrauð sem var þá með laxinum). Gróf aldrei lax, keypti bara. Graflaxasósan varð pínu beisk – góða repjuolían gerir þetta stundum þegar maður hrærir hana, ég man það alltaf of seint. Svipuð sósan í sinnepssíldinni var miklu betri. Súkkulaðifondantarnir gusu allir fyrir tímann. Rækjukokteillinn var samt mjög góður og andaconfitið líka og jarðarberjasósan og mér skilst að vegan-hangikjötið hafi verið fínt. Sósurnar (hvíta með kartöflunum og brúna með öndinni) voru of þykkar. Sennilega er þetta nú samt ekkert stórmál. Maturinn varð góður. En stundum er flækjustigið aðeins of mikið, jafnvel þótt maður kaupi bara laxinn tilbúinn og sé ekki með neitt brjálæðislega flókið. Þetta voru of margir réttir og ég einfaldaði ekki nóg til að vega upp á móti orkuleysinu. Ég reiknaði auðvitað ekkert með því að verða lasinn – hrundi í rúmið 21. des og fór í PCR próf en þurfti svo að rísa úr rekkju 22. (covidlaus) til að díla við jólin og náði aldrei alveg heilsu aftur. Í gær var ég hvínandi þreyttur strax upp úr 21. Í dag sváfum við svo til hádegis. Það fór enginn fram úr fyrren 12. Ekki þannig að jólin hafi verið eitthvað ómöguleg. Ég var bara rólegur allan daginn að sinna matnum á þeim hraða sem ég réð við og naut síðan kvöldsins mjög mikið. Mamma og pabbi voru hjá okkur og allir voru í skýjunum. Maturinn var líka langt í frá ónýtur, þótt hann stæðist ekki væntingar mínar. Ég var bara þreyttur af því ég er haltur og lasinn. Í stað þess að lesa út í jólanóttina lá ég síðan með símann og gúglaði tagínuuppskriftir, staðráðinn í að gera betur á áramótunum. Finna eina eða í mesta lagi tvær (ef ég geri kjöt- og kjötlaust) traustar uppskriftir.
Ástríða gagnrýnenda & syndir Egils
Í gær fór af stað hellings umræða um fagmennsku í bókmenntagagnrýni eftir frétt á Vísi um að Páll Winkel fangelsismálastjóri væri farinn að skrifa dóma fyrir Morgunblaðið. Í viðtali kom fram að hann væri enginn sérstakur fagmaður en væri í vinfengi við starfsfólk Morgunblaðsins sem hefði boðið honum starfið. Þá hafði hann ekki fengið greitt og virtist ekki vita hvað eða hvort hann fengi laun fyrir þetta. Nú þarf svo sem ekkert að hafa langar ræður um það hér að bókagagnrýni er sennilega eitt verst launaða djobb sem maður getur tekið að sér. Og vel flestir þeir sem því sinna eru ekki fagmenn heldur einmitt áhugamenn. Og auðvitað má líka til sanns vegar fær að helstu meðmæli bókmenntagagnrýnanda séu að hán hafi einlægan áhuga á bókmenntum, jafnvel meiri áhuga á bókum en peningum. Hins vegar þurfa gagnrýnendur einsog aðrir að lifa og borga leigu og svona. Þar koma tekjur í góðar þarfir. En hvað er fagmaður í bókmenntagagnrýni þá? Einfaldasta útskýringin er auðvitað sú að maður sé orðinn fagmaður þegar maður er farinn að fá greitt – þar skilji milli fagmanna og áhugamanna – og það því rangt hjá Páli að hann sé enn áhugamaður eða amatör (nema Mogginn hafi ekki hug á að borga honum). Önnur kenning væri að fagmaður sé sá sem hafi lært eitthvað – en þá mætti gjarnan halda því til haga að maður getur hafa lært ýmislegt án þess að hafa neitt diplóma til að veifa. Þá er bókmenntagagnrýni alls ekki eitthvað eitt – hún er greining á verki, innlegg í fagurfræðilegan (og heimspekilegan og pólitískan) debatt, hún er gæðastjórnun eða taste-making og hún er skemmtiefni og list í sjálfri sér. Og eitt og annað fleira. Ég er ekki viss um að maður verði „góður“ í neinu af þessu, af því einu og sér að hafa útskrifast úr bókmenntafræði. Þetta er hæfileiki, einsog svo margir aðrir, sem maður tileinkar sér fyrst og fremst með einlægri ástundun á löngu tímabili. Með því að reyna aftur og aftur og aftur að gera hlutina vel og af ástríðu. Og sennilega er það krísa íslenskrar menningarumfjöllunar – sem mér skilst að Auður Jónsdóttir geri að umtalsefni í viðtali í Stundinni í dag (en ég get ekki lesið vegna áskriftarleysis) – hversu fáir endast þar í starfi. Ef við viljum eiga góða menningarumfjöllun þarf einhver að sinna henni – og best er auðvitað ef viðkomandi lítur á það sem sitt fag, en ekki aukabúgrein meðfram því að skrifa bækur eða stýra fangelsi, eða eitthvað til að dunda sér við tvær vikur á ári. Þar er að vísu ekki við þá gagnrýnendur sem fást til að sinna þessu fyrir lítil laun og litlar þakkir að sakast, heldur er þetta samfélagslegt vandamál – það vantar bakbeinið í bransann, bæði hugsjón hjá fjölmiðlum og fjárstyrk. ___ Annars skrifaði Egill Helgason mér bréfkorn í gær til að segja mér að hann væri með samviskubit. Hann hafði mætt í Gísla Martein á föstudaginn með lista af bókum sem hann ætlaði að mæla með sem bókum ársins og í öllu havaríinu gleymdi hann Einlægum Önd! Þar fór jólasalan, jólahýran. Krakkarnir fá ekki iPhone í skóinn á meðan jólasveinninn lepur dauðann úr skel. Jóla-confitið verður frá KFC. Ég föndra eitthvað fyrir Nödju úr bjórdósaflipum. Og svo gengur bara betur næst. —– Hérna er annars dómurinn úr Kiljunni. Þau voru voða glöð. Og fagmannleg, auðvitað.
Andardráttur
Lífið er ljúft en ég væri að ljúga ef ég tæki ekki fram að ég er svolítið þreyttur. Þó er liðin heil helgi frá útgáfuhófinu, bæði laugardagur og sunnudagur. Eitthvað af því er spennufall. Fátt finnst mér jafn taugatrekkjandi og að spila músík – og fátt skemmtilegra heldur. Kurt Vonnegut sagði einhvern tíma að allir rithöfundar sem hann þekkti væru misheppnaðir tónlistarmenn. Enda myndi engin heilvita manneskja skrifa bækur ef hún réði við að spila fallega tónlist. En útgáfuhófið tókst vonum framar. Ekkert klúðraðist nema einhver alger smáatriði – ég komst meira að segja í gegnum næstum allt lagið mitt svona sirka á réttum nótum (endirinn fór eitthvað í handaskolum en það var bara alltílagi). Svo var ég svo hæper að ég gleymdi að hjálpa til við að róta þegar við hættum að spila. Ég fæ stundum nafnablakkát þegar ég á að árita bækur en það lét mig alveg vera núna (held ég). Ég varð óðamála en það var bara af því ég var glaður. Myndirnar hér að neðan tók Baldur Páll Hólmgeirsson. —– Ég er ekki með í neinum af þeim ritdeilum sem nú geisa, nema að Hermann Stefánsson heldur því fram í grein sinni á Vísi að það lesi eiginlega enginn þetta blogg. Sem er auðvitað mælanlega satt, en stundum má satt kyrrt liggja. Ég hef líka tilfinningar. Svo þekki ég auðvitað Finnboga Hermannsson ágætlega – hann er einn af rithöfundunum á svæðinu og skrifstofan mín var einu sinni skrifstofan hans. En ég hef ekki lesið bók seðlabankastjóra og ekki heldur Svarta víkinginn. Nýju bókina hans Bergsveins, Kolbeinsey, las ég hins vegar og hún hitti mig óþægilega fyrir – hún er kraftmikil og ég var eiginlega miður mín eftir lesturinn. Ég meina það vel, ég var miður mín einsog maður getur verið eftir góða bók, ekki eftir lélega. Ég las bók Braga Páls líka og hún er að sönnu bæði hrottafengin og skemmtileg, en mér finnst nú ekkert æðislega illa farið með Arnald í henni miðað við drengina í 70 mínútum. Það er gengið ansi nærri þeim og þeirra líkamshelgi. Ekki í sjálfu sér ólíkt því hvernig einn þeirra – Gillzenegger – skrifaði um hóp íslenskra femínista fyrir ekki svo mjög löngu. Kött Grá Pje benti á það á Twitter, þeim annars undarlega miðli, að þetta væru allt karlar að takast á. Guðni, Hermann, Bergsveinn, Ásgeir, Bragi Páll, Arnaldur, Guðmundur Andri, strákarnir í 70 mínútum, Finnbogi o.s.frv. Ég veit ekki hverju það stýrir en karlar og konur eiga mjög ólíkan átakakúltúr. Stelpur fljúgast minna á á skólalóðum – en það þýðir vel að merkja ekki að þær takist ekki á. Það sló mig reyndar hvort að útilokunarkúltúrinn væri kvenlægari – þetta að flokka fólk í innangarðs og utangarðs, og mögulega baktal líka – en strákar væru meira í beinna einelti. Kannski er kvenfólk bara minna gefið fyrir leiðindi samt, það gæti líka vel verið. Ég hugsa reyndar að ég myndi frekar humma það fram af mér í svona prívatfýlu ef kona gerði að mér atlögu en karl. Það er bara ekki mjög gott lúkk að vera að dissa konur. Og sennilega er versta beiskjan í þannig átökum. Það rennur reyndar upp fyrir mér að einu sinni var ég drepinn í ljóðasafni eftir konu. Eða því hótað einhvern veginn – ég man ekki alveg hvernig það var orðað og á ekki eintak, finnst ég eiginlega ekki hafa rétt á því. Ég tók því nú samt alls ekkert illa, enda var ég búinn að vinna fyrir því að láta skammast svolítið í mér, og bókin var bara frekar góð, svona það af henni sem ég þorði að lesa. Þetta eru rosalega vafasamar slóðir til að vera að delera um annars, svona ábyrgðarlaust, og milljón breytur í þessu aðrar en kyn auðvitað, og tilfinning mín fyrir þessu mótuð af tiltekinni lífsreynslu sem er ekki endilega algild; allri lífsreynslu fylgja fordómar og alhæfingar eru aldrei meira en afar grófgerðar myndir af veruleikanum – og allir hinir fyrirvararnir í bókinni. ——- Annars, talandi um höfunda á svæðinu, þá sló það mig um daginn hvað væri orðið mikið af rithöfundum hérna á stór-Ísafjarðarsvæðinu. Fyrir utan okkur Finnboga þá er auðvitað hún Didda, Guðlaug Jónsdóttir, sem er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir sína fyrstu bók, Í huganum heim. Þá eru að minnsta kosti þrír höfundar hér af erlendum uppruna – hin finnskættaða Satu Rämö, sem hefur gefið út ótal ferðabækur og verður með reyfara næsta vor sem heitir „Hildur“ og gerist á Ísafirði; hin litháískættaða Greta Lietuvninkaité, sem gaf út skáldsöguna Slepynes fyrir nokkrum árum og mun væntanleg á ensku og Helen Cova, sem hefur gefið út tvær bækur, Sjálfsát og barnabókina Snúlla finnst gott að vera einn, á íslensku, ensku og spænsku. Þá mætti líka telja með Carmen Quintana Cocolina, sem er eins konar tengdadóttir Ísafjarðar – gift Nonna Gunnars og þau eru hérna oft. Hún gaf út bókina Felicidad fyrir nokkrum árum, sem er söguleg skáldsaga um eftirstríðsárin á Spáni, ef ég er ekki að misskilja eitthvað. Svo var Jón Hallfreð að gefa út vísur og kvæði í minningarriti um frænda sinn og nafna. Að síðustu mætti nefna alla þá höfunda sem eru starfandi og eiga sterk tengsl við bæinn, eru héðan eða hafa búið hér lengi eða eiga hér frístunda/vinnuhús – svo sem Eyvind Pétur Eiríksson (sem á einmitt afmæli í dag), Rúnar Helga Vignisson, Braga Valdimar, Huldar Breiðfjörð, Ólínu Þorvarðardóttur, Elísabetu Jökuls og sjálfsagt einhverja fleiri. Það liggur eiginlega við að við þyrftum að fara að eiga okkar eigið rithöfundasamband. Eða héraðsfélag innan RSÍ. Eða bara góða facebook-grúppu og árlegt jólaglögg. ___ Svo las ég í fréttunum að einhver tískuhönnuður væri að gera föt sem væru innblásinn af skáldsögunni On The Road eftir Jack Kerouac. Og þá fór ég að hugsa hvað væri langt síðan ég hefði lesið Kerouac, sem ég hélt mikið upp á einu sinni og held að ég myndi gera núna líka, þótt það sé reyndar mikið í móð að „þroskast upp úr“ honum. Ég hef bara ekki þroskast nein lifandis ósköp og það sem mér fannst sjarmerandi við bækurnar hans – einhver kontrast milli þess fínlega og þess óhamda í prósa, og löngunarinnar til þess að lifa frjáls og afleiðinganna af því – held ég að myndi enn tala til mín. Ég ætti eiginlega að taka bækurnar sem ég raðaði alltaf sjálfur upp í þríleik – On The Road, Dharma Bums og Big Sur – og renna í þær aftur. Í þeirri fyrstu er hann gleðikúrekinn sem rífur sig af stað út í einhver ævintýri – svolítið hangandi aftan í hömluleysi vina sinna, sérstaklega Neal Cassady. Í Dharma Bums er það orðið þreytt og hann leitar að ró, hangandi aftan í zeni vina sinna, aðallega Gary Snyder, og dettur ofan í búddismann (sem gerði Burroughs óðan – hann kallaði búddisma „andlega geldingu“). Í Big Sur er hann svo bara orðinn súrrandi dysfúnksjónal – reynir að halda sig frá partíunum og ruglinu en ræður ekkert við það, endar alltaf einhvern á gólfinu búinn að gubba yfir sig allan. Kerouac skrifaði aldrei neitt um þessi fáu ár sem hann átti eftir – sem einkenndust af beiskju og reiði og drykkjuskap. Hann þoldi ekki bítkynslóðina og þoldi ekki að vera kenndur við hana og þoldi ekki alla ungu hippsterana sem tjölduðu fyrir utan hjá mömmu hans, þar sem hann átti sjálfur heima. En þessi bók er svona upptakturinn að þeim árum. Gjaldþrot örgeðja og hrifnæms manns. Kannski er samt ágætt að eiga svona í minninu bara. Ég horfði á The Mask um daginn, alveg handviss um að hún væri ennþá geggjuð, og þá var hún bara ágæt. Ekkert hræðileg. Bara ágæt, sem voru vonbrigði. Footloose, sem ég horfði líka á, var hins vegar frábær og gaman að sjá hana aftur. En þetta er hættuspil.
Nú er mér svo gott sem öllum lokið
Ég ákvað snemma í haust að ég myndi binda enda á jólabókaflóðið þann 10. desember. Það er á morgun. Frá og með laugardegi verður jólabókaflóðið sem sagt bara að redda sér án mín. Þetta hlýtur að hafa spurst út á ritstjórnum landsins því nú hrannast dómarnir inn – ég fékk í Víðsjá og Kiljunni í gær og í Fréttablaðinu í morgun. Tveir afar jákvæðir (Kiljan og Fréttablaðið) og einn afar neikvæður (Víðsjá). Í öðrum þessum jákvæða kom reyndar fram að bókin væri „sennilega ekki allra“ – sem útskýrir sennilega þriðja dóminn. En Þorgeir og Kolbrún í Kiljunni sögðu reyndar að bókin væri furðu aðgengileg þrátt fyrir einhverjar bókmenntalegar pírúettur og stæla. Víðsjárdómurinn átti reyndar þessa fallegu línu, sem mér finnst endilega að verði að fá að komast á framfæri (enda lýsir hún bókinni ágætlega): Undir lok bókarinnar erum við komin svo djúpt ofan í naflann á Eiríki Erni að ég er ekki viss um að við komumst nokkurn tímann út aftur. Ég gæti átt von á einum dóm í viðbót strax á morgun – þá kemur Stundin og þau voru allavega að reyna að falast eftir mynd af mér í vikunni. Svo veit maður aldrei með bloggin. Á morgun er síðan útgáfuhófið. Uppskeruveislan. Partíið. Það er langbest að gera það síðast. Þá fer maður ekki þunnur af stað í jólabókaflóðið. Mætir ekki skjálfandi, rjóður og þvalur í settið til Egils. Þess í stað er maður bara þunnur heima í sófa, treður í sig smákökum, íbúfeni og jólaöli. Það verður mikið um dýrðir í þessu boði, sem verður haldið í Dokkunni klukkan 20. Í fyrsta lagi verður auðvitað frír Dokkubjór (á meðan kúturinn endist). Áfengislaust fyrir þá sem það vilja. Og svo nóg af bjór (og áfengislausu) til sölu eftir það. Í öðru lagi verða fríar baðendur (jafn margar og sóttvarnarlæknir leyfir af fólki). Í þriðja lagi verður ritlistarleikur með upplestri og bókmenntabrennu. Í fjórða lagi verða fjögur stutt tónlistaratriði – ég ætla að leika jólalag, Skúli frændi/mennski tekur eitt lag, einsog Andri Pétur/Gosi og Mugison mætir með nikkuna . Í fimmta lagi verður bóksali á svæðinu og bæði Einlægur Önd og Brúin yfir Tangagötuna á tilboði. Í sjötta lagi er rúsínan í pylsuendanum. „Hljómsveitin Bubbi Morthens“ leikur fyrir söngi. Í þessari sveit erum við Örn Elías (trommur), Skúli (gítar) og Rúna (bassi). Söngur verður í höndum (eða munnum) gesta.
Síðasta flugferðin
Jæja. Nú fer að hægjast á jólabókaflóðinu, fyrir mína parta a.m.k. Það er búið að vera mjög gaman en aðalpartíið er samt eftir. Útgáfuhófið verður haldið á Dokkunni á Ísafirði næsta föstudag. Einlægur Önd verður auðvitað þemað en ég hugsa að ég lesi ekkert upp úr henni – nema ritlistaræfinguna sem ég ætla að láta gesti þreyta. Ég er enn að raða upp tónlistaratriðum en botninn í kvöldið slær sing-a-long hljómsveitin „Bubbi Morthens“, sem leikur bara lög eftir Bubba Morthens – en í henni erum við Rúna Esradóttir, Skúli „Mennski“ Þórðarson og Örn Elías Mugison. Ég er svona næstum ákveðinn í því líka að spila sjálfur jólablúsinn hans Bobs Dylan sem ég tók upp fyrir Blús Mánaðarins síðustu jól (en verð þá að rifja upp – ég man þetta ekki). Mig vantar enn þrjú stutt tónlistaratriði önnur en það er ekki vegna þess að ég hafi engan að spyrja. Ég á 65 baðendur og fólki verður boðið að taka eina með sér heim – og þá munu samkvæmt sóttvarnarhámörkum a.m.k. 15 endur ganga af. Ég reikna a.m.k. með því. Núverandi takmarkanir gilda fram á miðvikudag og mér finnst sennilegt að þær haldi sér – ef það verður ekki einhver omíkron sprenging, Þórólfur er með fingurinn á gikknum. Mér finnst a.m.k. mjög ólíklegt að það verði einhverjar rýmkanir – ekki að maður þurfi þær mikið í bókabransanum. Fyrst og fremst á þetta bara að vera veisla. Ekki auglýsing fyrir bók, ekki plögg, ekki afsökun til að herja á samfélagsmiðla, heldur veisla. En það verður samt bóksali á svæðinu! Ég sit annars á Reykjavíkurflugvelli. Hér er krökkt af öllum helstu skemmtikröftum landsins – ég gæti best trúað því að á Ísafirði sé löng biðröð af menntaskólanemum á leiðinni í hraðpróf einhvers staðar. Ef þessi vél hrapar verður það svartur dagur fyrir íslenskt grín, íslenskt rapp og íslenskt indí. Ég sagði við einhvern um daginn að frá því ég eignaðist börn hafi ég varla farið upp í flugvél án þess að verða hræddur um líf mitt. Þetta eru auðvitað ýkjur – ég svitna ekki og þarf ekki róandi og þetta er ekki alveg undantekningalaust – það var svo rólegt að fljúga hingað í fyrradag að ég varð aldrei hið minnsta órólegur. Annars er ég alltaf sannfærður um að sennilega sé vélin að fara að hrapa og tek því bara frekar æðrulaus – þetta hefur komist upp í vana. Hugurinn tekur við og minnir mig á að þetta hafi ég nú líka sagt síðast – það sé hreinlega ekkert að marka mig.
Jólablús
Ég er svolítið blúsaður. Það er reyndar á dagskránni að dusta fljótlega rykið af blúsblogginu (sem verður þá bara hér innanum) enda sagt að ekkert lækni blús einsog blús. Aðra hverja nótt sef ég sama og ekkert og þá næstu ligg ég gersamlega rotaður. Það var mikið að gera í síðustu viku og núna er allt pollrólegt. Að vísu er ég að fara suður á morgun í upplestra og svo aftur á Flateyri á laugardag. Í næstu viku þarf ég svo að klára að skipuleggja útgáfuhófið mitt – sem á að binda endi á jólabókaflóðshasarinn fyrir mína parta. Einsog mér finnst gaman og endurnærandi og inspírerandi að tala um bókmenntir og hitta lesendur og aðra höfunda – sem margir eru góðir vinir mínir, og ég hitti alltof sjaldan – þá setur þessi athyglis- og upphefðarkeppni mig svolítið á hliðina. Ég hef aldrei átt í heilbrigðu sambandi við hégómann í sjálfum mér og veit ekki einu sinni hvernig slíkt samband ætti að líta út. Ég íhugaði það fyrr í ár að gera bara ekkert í jólabókaflóðinu – best væri að fara bara úr landi og skilja símann eftir. En beilaði á því með þeirri afsökun að forlagið yrði sennilega brjálað ef ég gæfi bara skít í þetta allt saman, en sannleikurinn er sennilega líka sá að ég væri líklegur til að eyða þá bara jólunum í að naga mig í hnúana. Það sem ég geri yfirleitt til að vinna bug á þessum blús (sem eltir mig alltaf svolítið) er að hlaupa og stunda jóga – og spila blús. Hlaupin og jógað eru úr myndinni út af hnénu (slitið krossband) – ég get farið á þrekhjól, en á í mestu vandræðum með að staulast í ræktina í þessari færð, það er flughált og snjólag yfir – og hef haft undarlega litla eirð í mér til að spila upp á síðkastið. Á eftir fer ég í fyrstu sjúkraþjálfunina – og við Nadja ætlum að borða tvö í kvöld. Svo ætla ég að reyna að eyða deginum í að lesa bara. Sennilega er það mest þreytan sem er að leika mig svona. Og hnéð. Jólablús dagsins á þessum fyrsta þriðjudegi í aðventu er með Butterbeans & Susie.
Hafnarferð
Það er svartur föstudagur – myrkir markaðsdagar – og ég hef ekkert keypt í allan dag ef frá er talin ein kókómjólk og roastbeefsamloka í morgun. En í gær keypti ég mér nýja vettlinga, í staðinn fyrir par sem týndist á Höfn, og í fyrradag pantaði ég tvær bækur á netinu og í hittifyrradag keypti ég nýjan bakpoka, í staðinn fyrir þann sem skemmdist um árið, og daginn þar á undan keypti ég nýjan plötuspilara í staðinn fyrir þann sem var farinn að spila allar plötur alltof hratt. Svo það er ekki einsog ég sé neitt langt á eftir ykkur hinum í neyslukapphlaupinu. Ég geri þetta bara allt saman á mínu eigin tempói. Annars er allt ágætt að frétta. Ég fór til bæklunarlæknis í morgun og hann vill nú hafa mig undir einhverju eftirliti en líst ágætlega á þetta samt. Ef ég hætti að sýna karatespörk og vera með fíflalæti læknar þetta sig kannski – jafnvel líklega – með aðgát og æfingum. Ég má meira að segja fara í ræktina og svona og ætla að nota tækifærið á eftir. Það var mjög gaman á Höfn. Auk þeirra sem voru að lesa upp á kvöldinu – Sölvi Björn, Haukur I, Þórunn Jarla og Kristín Ómars – birtust Ófeigur Sigurðsson, kominn alla leið ofan af Öræfum með sinni frú, Kristínu Karolínu, og Arndís Þórarinsdóttir, sem var að kenna ritlist á svæðinu. Þá voru heimamennirnir Soffía Auður og Gímaldin okkur til halds, trausts, skemmtunar og leiðsagnar. Þetta er ekki alveg leiðinlegasta fólkið sem maður umgengst, það verður nú bara að segjast einsog er. Næst á dagskrá er Opin bók á morgun. Svo fer ég suður á miðvikudag og les upp á Bókasafni Hafnarfjarðar ásamt Sigrúnu Páls og Kamillu Einars á fimmtudag – og eitthvað morgungigg líka hjá Þjóðskrá (en það er nú áreiðanlega harðlokað – allavega fyrir þá sem eru ekki í þjóðskrá). Svo er komið nýtt og verra afbrigði. Það verður engin uppkosning. En ég er bara heima að drekka kaffi og hlusta á Fleetwood Mac á nýja plötuspilaranum. Í kvöld ætlum við að borða pizzu og fara á Ghostbusters í Ísafjarðarbíó. Það er ekki verri leið en hver önnur til að þreyja þennan hægdrepandi heimsendir.
Einlæg, sprenghlægileg og á brýnt erindi
Ragnhildur Þrastardóttir skrifaði afar lofsamlegan dóm um Einlægan Önd í Morgunblaðinu í vikunni og gaf bókinni fjórar og hálfa stjörnu. Einlægur Önd er einlæg, stundum sprenghlægileg saga, þar sem höfundur afhjúpar sjálfan sig, eða einhverja útgáfu af sjálfum sér, og tekst á við erfiðar spurningar sem eiga brýnt erindi við samtímann.