Sófa só gúdd

Ég ímynda mér að þið hafið margt betra við tíma ykkar að gera en að hlusta á raunir mínar við að finna nýjan mogga – jafnvel „mogga dagsins“ – og hlífi ykkur því við þeim ævintýrum mínum í dag. Nægir að nefna að ég hef enn ekki komist yfir nýjan mogga og er búinn að lesa þann síðasta (4. jan.) í drep. Það berst margt annað til Ísafjarðar, þótt mogginn komi ekki. Til dæmis fékk ég lítið fjöltengi frá Elko í fyrradag, sama dag og stjórnarformaður móðurfélags Elko sagði af sér vegna ásakana um kynferðisofbeldi í heitum potti. Daginn eftir pantaði ég RCA-snúru frá sama fyrirtæki en get ekki borið fyrir mig að þá hafi ég ekki vitað af málinu. Sú snúra er reyndar ekki komin. Sem er bót í máli. Það allra stærsta til að berast hingað – að minnsta kosti á okkar vegum – var þessi sófi. Þetta er 80 rassa tryllitæki – jafn ljótur og gömlu sófarnir okkar voru fallegir, jafn praktískur og þægilegur og hinir voru ópraktískir. Þeir voru gamlir íslenskir sófar úr trésmiðjunni Víði sem ég þurfti að gera við einu sinni á ári. Mér fannst þeir alls ekkert óþægilegir en það fannst sumum öðrum og þegar annar þeirra brotnaði undan hoppandi sykurdrukknum börnum í áramótaveislu ákváðum við Nadja að nú væri komið gott – við myndum eyða aleigunni í nýjan þolgóðan og þægilegan sófa við fyrsta tækifæri. Ferlíkið kom í þremur einingum. Það þurfti að fara með hann inn af pallinum. Og þótt hann væri í svona fáum einingum var nú merkilega mikið moj að setja á hann fætur og festa hann saman. Það hafðist nú samt á endanum, rétt fyrir kvöldfréttirnar og voru þær nýttar til vígslu hans – enda er þetta þvottekta „sjónvarpssófi“. Með svona stóran sófa í húsinu finnst manni svo alltíeinu sjónvarpið vera orðið pínulítið. Þannig vindur smáborgaralífið upp á sig, eitt skref í einu.

Kærleikur alla daga

Ég sendi Aram Nóa tvisvar sinnum út í sjoppu eftir mogganum í gær en hann var aldrei kominn. Og hann var heldur ekki til þegar ég fór sjálfur í Nettó. Hafði ég þó líka augastað á miðvikudagsmogganum, sem var ekki til á miðvikudaginn þegar ég keypti þriðjudagsmoggann. Ekki veit ég hvernig fólk fer að. Alltaf með sömu stjörnuspána, dag eftir dag – að lesa bækur . Ég neyddist því til að lúslesa betur þær síður í mánudagsmogganum sem ég átti eftir. Þar uppgötvaði ég meðal annars að vinkona mín Fríða Ísberg hefði fengið Bjartsýnisverðlaun Forsetans. Sem ég vissi nú ekki einu sinni að væru til. Ég sá ekki betur en þetta væri milla – sem er nú 2/3 af bókmenntaverðlaununum sem Fríða fær ekki fyrir Merkingu (en kannski hluta af fyrir Olíu sem hún skrifaði í samyrkju með öðrum). Það held ég komi sér nú áreiðanlega vel í búið og er auðvitað mjög vel verðskuldað. Þótt ég hafi reyndar ekki hugmynd um fyrir hvað þessi verðlaun eru veitt, nú þegar ég hugsa út í það. Ekki er það fyrir bjartsýni – Fríða er nýbúin að gefa út hræðilega dystópíu. Ætli forsetinn sé ekki bara bjartsýnn á að Fríða eigi eftir að gera það gott? Það held ég flestir séu. Svo má reyndar spyrja sig hvort það væri ráð að veita líka svartsýnisverðlaun. Þau væru þá veitt einhverjum sem væri vís með að fara í hundana. Þá fengi þau til dæmis rithöfundur sem virtist á hraðri niðurleið – kannski við það að gefast upp – kannski útbrenndur? Eða bara eitthvað algerlega vonlaust keis sem væri að stíga fyrstu skrefin? Kannski frekar svona týpa sem er alveg á barmi þess að fara að sturta úr öllum skúffum skrifborðsins ofan í eitthvað vanity-prójekt í fallegu bókbandi. Það yrði svo að útfæra það hvort millan (því það yrði auðvitað líka að vera milla – nema það væri milla í skuld, viðkomandi fengi bara reikning?) færi í að koma skáldinu aftur á réttan skáldakjöl eða til þess að það hefði ráðrúm til að finna sér nýjan vettvang í lífinu. Gamli kvikindislegi Eiríkur hefði nú sagt að það væri samfélagslega ábyrgt að borga sumum höfundum fyrir að finna sér eitthvað annað að gera – en leiðir okkar hafa skilist, okkar kvikindisins, hér er ekkert nema kærleikur alla daga og ég sit því á strák mínum og segi ekkert.

Sjálfshjálpardiskar

Ég fór aftur og keypti moggann í gær. Sennilega fengi ég mér áskrift ef hann bærist manni á morgnana en það er víst ekki. Mogginn sem ég keypti í gær, klukkan 16, var meira að segja mogginn frá því í fyrradag, sem var ekki til í fyrradag þegar ég keypti mánudagsmoggann. Það var margt áhugavert. Sérblað um heilsu. Það sló mig hvað allir voru rosalega jákvæðir. Einhvern veginn einsog heilsan væri fyrst og fremst spurning um viðhorf. Sem er kannski rétt, eins langt og það nær – altso þangað til maður verður fyrir erfiðari heilsubresti. En fyrir okkur meðalmennin skiptir sennilega mestu að vera ekki alltaf sívælandi yfir því sem ekkert er og kunna að fagna hinu. Meira að segja stjörnuspáin mín var á þennan veg. Þar stóð að það þýddi ekkert fyrir mig (krabba) að „liggja með hendur í skauti“ heldur þyrfti ég að „lesa bók eða hlusta á sjálfshjálpardisk“. Nú man ég ekki hvað niðurlagið var – hvort ég átti að gera þetta til að líða betur eða ná árangri í starfi eða hvort þetta var bara svona skilyrðislaust skylduboð, spurning um tilgang í sjálfum sér frekar en leið að markmiði. Það sló mig að svo virðist sem maður megi lesa hvernig bók sem er en bara hlusta á sjálfshjálpar disk. Þýðir ekki að hlusta á sjálfshjálparhlaðvarp eða einhverja skáldsögu á hljóðbók. Það er annað hvort sjálfshjálpardiskur eða einhver bók – hvaða bók sem er – eða þunglyndi og gjaldþrot. Ferillinn í rúst. Ég á því miður engan sjálfshjálpardisk. Ég á ekki einu sinni diskaspilara. Einhvers staðar á ég safn af Tom Waits diskum, Mugison diskum og Skúla mennska diskum – þá tvo fyrstnefndu hlusta ég bara á í gegnum Spotify núorðið og þann síðasta bara þegar hann kemur í heimsókn (hann hefur ekki sett lög sín á Spotify aðdáendum sínum til mikillar gremju). Ég veit ekki hvort neitt af þessu er sjálfshjálp. Sáluhjálp kannski, en það er ekki það sama. Since you’re gone
Deep inside it hurts
I’m just another sad guest
On this dark earth

I want to believe
In the mercy of the world again
Make it rain, make it rain! Lífið er sárt og það eina sem maður getur gert er að skrúfa frá rigningunni. En bækur á ég. Ég kláraði Eld eftir Guðmund Daníelsson í gær og er að dunda mér í gegnum Þagnarbindindi eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur og gott ef mér líður ekki bara betur og næ meiri árangri í starfi en í fyrradag. Ég er ekki frá því.

Piparkökur

Á dögunum sat ég til borðs með fólki þar sem í boði var ein stolin vara og ein keypt. Sammæltist fólkið við þetta borð um að stolna varan væri ívið betri en sú keypta, öfugt við það sem segir í ævintýri Torbjörns Egner um Dýrin í Hálsaskógi. Þetta voru ekki piparkökur og kemur málinu ekki við hvað þetta var, þið verðið bara að reyna að ímynda ykkur það – þetta var einhver ægilegur lúxus og þetta fólk var ævintýralegur félagsskapur. Annars umgengst ég nú ekki mikið þjófa. Ég nefni þetta bara vegna þess að síðasta sólarhringinn hefur staðið bretti af sænskum Göteborgs piparkökum við innganginn að matvöruversluninni Nettó á Ísafirði. Þessar piparkökur eru ekki til sölu og maður getur heldur ekki stolið þeim. Þessar piparkökur eru nefnilega gefins. Sennilega hefur innkaupastjórinn gert innsláttarvillu í jólapöntunina og pantað kíló fyrir hverja teskeið af piparkökum sem til stóð að Ísfirðingar og nærsveitamenn myndu neyta yfir hátíðirnar. Og því fór sem fór. Ísfirðingar eru ekki þekktir af öðru en samstöðu, sérílagi þegar eitthvað mikið bjátar á. Við tökum höndum saman og við vinnum bug á yfirvofandi matarsóun. Við björgum þessum verðmætum. Heima hjá mér er til alltof mikið af (heimabökuðum) piparkökum. Ég gat hins vegar ekki látið mitt eftir liggja – þannig lýsir samstaða sér ekki – svo ég tók eitt box. Boxið geymi ég síðan bara í vinnunni, enda yrði ég sennilega kjöldreginn ef ég kæmi með það heim og bætti því við fjallið sem býður okkar að vinna á þar. Ég er búinn að borða þrjár.

Dagar fávisku og allsnægta

Í gær þegar ég vistaði bloggfærslu dagsins varð mér á að líta á bloggfærslu dagsins þar áður, þessari um að ég hefði skotið flugelda í smettið á mér fyrir dæmalausan fávitaskap, og áttaði mig snarlega á að fávitaskapurinn virðist ætla að fylgja mér langt inn í nýja árið. Mér tókst nefnilega einhvern veginn að eyða fyrstu 2-3 málsgreinunum í færslunni áður en ég póstaði. Og ég tók ekki einu sinni eftir því fyrren degi síðar. Færslan byrjar þannig in medias res einsog við köllum það „í bransanum“. Eða í miðju kafi sem sagt, einsog það er kallað annars staðar en í bransanum. Tölvuskerta lífið gengur annars ágætlega. Í morgun vaknaði ég hálfátta og lá í hálftíma og las Eld eftir Guðmund Daníelsson áður en ég setti á morgunfréttirnar og fór á fætur. Síðan leysti ég hálfa sudokuþraut í mogganum. Í gær hlustaði ég á Spegilinn. Ég hef fengið nokkra tölvupósta en alls ekki nein ósköp. Ég hef ekki rekið mig á neina svakalega veggi. Að vísu þurftum við að losna við tvo forláta sófa, úr Trésmiðjunni Víði, sem henta því miður ekki „nútímafólki“ (sem er í yfirvigt og leyfir börnum að leika í sófum), og það er hægara sagt en gert Facebooklaus (Nadja er ekki heldur á FB og hefur varla verið nema í mýflugumynd fyrir hundrað árum). Við hefðum getað hengt upp auglýsingu í Neista en það er hæpið að neinn hefði séð hana fyrren eftir dúk og disk. Svo við báðum bara mömmu að setja inn auglýsingu fyrir okkur á FB. Þeir ruku síðan út einsog gersemarnar sem þeir eru. Nýi sófinn, sem kemur sennilega í dag eða á morgun, er ótrúlega plebbalegur í samanburði. Rándýrt og risavaxið koddaskrímsli. En það eru allir, sérstaklega unga fólkið, mjög spenntir að fá hann samt. Aram reyndi svo að senda mér tölvupóst í fyrradag til að láta vita að hann ætlaði að vera í mat hjá vini sínum. Ég svaraði um hæl en hann sá aldrei svarið og kom á skrifstofuna til að segja mér það aftur. Aino fór líka óvænt heim með vinkonu sinni eftir sund en þá hafði mamman sent Nödju skilaboð (hún er með síma en mjög góð í að hunsa hann) sem uppgötvaðist of seint. Ég hugsa að ég hefði fengið þau skilaboð ef ég væri ekki búinn að slökkva á því öllu saman. Ég þarf að hafa aðeins meiri tíma fyrir mér ef ég vil hitta einhvern í hádeginu. Þýðir ekki að senda tölvupóst korter í tólf einsog maður gæti gert með SMS. Ég hef síðan skoðað uppskriftir í vinnunni og tekið með mér handskrifaða hráefnislista heim. Hugsanlega set ég þá bestu uppskriftirnar – og heimilisstandardana – í uppskriftabók sem við eigum en er mjög lítið notuð. Planið er síðan að vera duglegri að líta við í kaffi hjá fólki og svona. SMS-leysið er nú sennilega það af þessu sem mun láta undan fyrst. Það truflar fáa nema mig að ég lesi ekki vefmiðlana eða sé í sífelldu spjallforritablaðri og þótt það trufli heimilislífið aðeins að ég sé ekki á Facebook og Messenger þá er Nadja það ekki heldur. En það er óforsvaranlegt að vera alveg símalaus nema svona rétt kannski út janúar. Það sem ég nota enn, fyrir utan þetta blogg og tölvupóst, er streymi – Spotify, RÚV, BBC Radio og Netflix – myndavélin, rafrænu persónuskilríkin og svo heimildavinnugúgla ég heilmikið í vinnunni. Gúglið er reyndar komið yfir á DuckDuckGo. En þetta er mikið allsnægtalíf þótt það kalli á aðeins breytta (þægilegri) rútínu. Og það er meiri ró í kollinum á mér, þótt það sé auðvitað ekkert gefið að hún endist. Hún gæti líka bara verið komin til af tilbreytingunni.

TW/Spoiler alert: In Memoriam

Í gær var Vigga hent í sjóinn af handritshöfundum Verbúðarinnar. Ég veit ekki hvað það átti að fyrirstilla. Þarf alltaf að drepa Vigga? Er það kannski aldrei gert? Ég er kannski bara að verða eitthvað ofsóknarbrjálaður. Mér finnst einsog þetta sé orðin lenska. Samt man ég engin önnur dæmi. Ég hafði hann með í Einlægum Önd en ég drap hann ekki. Gekk kannski aðeins fram af honum en hann fékk að lifa. Ég svaf mjög lítið í nótt. Sólarhringurinn allur í rugli og svo lá ég fram á nótt og las eina og hálfa bók eftir Aðalstein Emil Aðalsteinsson, sem er ekkert skyldur útgefanda sínum Aðalsteini Ásberg, en þess þá meiri frændi mágkonu minnar, Emilíu. Margt af því sem ég las var feykilega gott. Sérstaklega situr í mér smásaga um bíóklúbb eldri manns og yngri og önnur um mann sem fer að vantreysta konunni sinni af feikn og ofsa þegar hann uppgötvar að hún er búin að skipta um pin í símanum sínum (þegar hann ætlar að fara að njósna um samskiptahegðun hennar). Í nokkrum sögunum var trámanu smurt aðeins of þykkt – ég þarf svolítinn forleik áður en ég bjóða mér upp í grát. En ég skil að það sé freistandi. Þannig var reyndar líka versta senan í Verbúðinni í gærkvöldi. Að vísu ekki mjög trámatískt tráma – þetta var svona splatter þáttarins. Einsog handamissir Sveppa í fyrsta þætti og rassfetamínneysla Ingvars E. Kannski var senan þar sem forsætisráðherra klaufast til að skera fingurinn á sér í bandsöginni ekkert vond en mér fannst samt að hún hefði verið svo ótrúlega miklu betri ef hann hefði ekki skorið sig. Einmitt af því þetta var svo óþægilegt og það var búið að leggja þetta svo harkalega upp. Svona einsog það getur verið meira drama í fótboltaleik ef Maradona mætir að galtómu marki og tekst einhvern veginn að skjóta framhjá, en að hann bara leggi boltann í mitt markið. Ég engdist samt alla senuna, hélt fyrir andlitið og stundi einsog tíu ára strákur af vanlíðan. Það getur líka sett svo fallega spennu í alla seríuna ef hún leikur sér að því að bregðast væntingum manns annað veifið. En sem komið er hefur ekkert slíkt gerst – þetta er enn allt einsog Syd Field endurvinnsla á Bubbalagi, nema hvað mér finnst kannski yfirstéttin (stjórnmálamennirnir, skipstjórarnir og eigendurnir) sleppa frekar billega frá þessu. Á meðan verkafólkið sem hefur komist í fókus er allt meira og minna heimskir rugludallar, sem má hafa samúð með en bara sem smælingjum, eru kapítalistarnir „töff og umhyggjusamar konur í karlaheimi“, þingmaðurinn er „breyskur en með gullhjarta“ og ráðamenn á Þorbjörginni eru … hvað eru þeir? Vinalegir lúðar? Leiksoppar? Valdsmennirnir að sunnan – bankastjórarnir – eru reyndar alveg svona klassísk illmenni. Alltaf eitthvað að gefa í skyn að konur eigi nú helst bara að baka kleinur. Og þar sem verkafólkið sem komist hefur í fókus virðist mikið til eiga að vera að sunnan einsog bankastjórarnir má kannski nú leggja þetta upp alveg öfugt við það sem var gert í fyrstu og segja að hér sé sögð sagan um vondu Reykvíkingana og góðu heimamennina sem hefðu ekki getað gert neitt á annan veg. Eru bara að reyna að bjarga sér og sínum. Kannski á eftir að snúa upp á þetta allt saman og gera yfirstéttina svolítið sósíópatískari – það er svona fremur líklegt, myndi ég halda. Eftir því sem þau verða ríkari fjarlægjast þau uppruna sinn. Ég veit ekki hvort það er í takti við raunveruleikann en það er í takti við það hvernig maður segir svona sögu. Annars hef ég ekki skilið kröggur bæjarins ennþá. Þetta er pínulítið þorp með aflahæsta skuttogarann á landinu sem virðist fram til þessa hvergi hafa landað annars staðar. Ég átta mig ekki alveg á því hverju þarf að bjarga. Einsog saga 9. áratugarins blasir við mér þá var allt morandi í peningum í vestfirskum sjávarplássum á þessum tíma – a.m.k. þar sem var góður togari og útgerð. Pabbi minn var á svona togara (Guðbjarti ÍS) og við létum ekki óðaverðbólgu eða neitt annað stoppa okkur í því að fara í frí til Mallorca þetta sumar. En þetta er áfram skemmtilegt. Sögur eru alltaf einhver afskræming á sannleikanum og það er kannski bara ágætt – hluti af endurmati á fortíðinni að skella upp varíöntum. Ég velti því í sjálfu sér alveg fyrir mér hvað það þýðir að gera svona, verk sem er líklegt til þess að verða íkonískt – verða hluti af skilningi mjög margra á tilteknum aðstæðum og tímabili. Verk sem gæti orðið ráðandi ímynd. Sögulegur skáldskapur er alltaf í ákveðinni klemmu gagnvart þessu, en mér finnst einsog það sé nýtilkomið að yppta bara öxlum og segja „þetta er nú einu sinni bara skemmtun“. Sem hangir kannski saman við það sem var að tala um hér í þarsíðustu færslu , að list væri alltaf „bara skemmtun“. Á tíunda áratugnum (þegar ég var í menntaskóla og „heilindi“ – keeping it real, að vera ekki sellát – voru í aðalhlutverki í hugskoti ungs fólks einsog „meðvitund“ – woke – er það núna) man ég eftir heilmikilli umræðu um afbökun Disney og annarra á alls konar sagnaklassík – Mjallhvíti og því öllu saman, en líka sögum einsog Pocahontas, sem höfðu verið sagðar nógu mörgum sinnum til að vera ævintýri út af fyrir sig, en voru líka sögur af raunverulegu fólki af holdi og blóði (sem voru hugsanlega alls ekkert ævintýralegar). Þá var margbent á að auðvitað höfðu öll þessi ævintýri og klassíkerar verið margafskræmd og hver kynslóð átti nánast sína eigin útgáfu. Sem þýddi ekki að breytingarnar væru aldrei problematískar. Það þýddi bara að það væri ekki til nein „sönn“ útgáfa. Sögurnar væru þjóðsögur, ævintýri, í takmörkuðum tengslum við uppruna sinn eða sögulegar heimildir. Í dag eru það reyndar ekki bara þjóðsögur sem flakka – heldur eru t.d. skáldsögur endursagðar fyrir kvikmyndir og leiksvið, lög sem eru útsett upp á nýtt o.s.frv. Nú ímynda ég mér reyndar að það séu ýmsar sögur sem fólki þykir nógu vænt um til að reiðast breytingum á þeim – kvenendurgerðin á Ghostbusters fyrir nokkrum árum er kannski eitt þannig dæmi. Star Wars er (að ég held) ævintýraheimur sem á að vera nokkuð stabíll og því væri kannski illa tekið ef myndirnar yrðu endurgerðar og sögunni breytt. En á móti kemur að í Marvelheiminum er búið að snúa svo mikið upp á sögurnar að sjálfir snúningarnir eru farnir að vera í aðalhlutverki – t.d. í Spiderman – No Way Home og Spiderman: Into the Spiderverse. En sem sagt. Kannski erum við sáttari við listræna afbökun á raunveruleikanum – að keyrt sé niður einstefnugötu í vitlausa átt af því það hentar sögunni, Ís-colaflaskan sé í ramma áður en hún var sögulega búin til einfaldlega af því hún skítlúkkar í settinu – en við erum við listræna afbökun á öðrum listaverkum. Mig rámar til dæmis í mikið fjör í kringum það þegar Tom Cruise var ráðinn til að leika Jack Reacher – sem í bókunum á að vera rúmlega tveir metrar á hæð, kjötfjall með ógurlega handleggi, og þess utan áberandi ómyndarlegur. Dan Brown fékk líka margar gusur yfir sig vegna The Lost Symbol, einmitt vegna þess að þar er fólk alltaf að keyra norður götur sem ganga austur-vestur og þar fram eftir götunum. En bæði þessi dæmi eru nú sennilega ríflega áratugsgömul, vel að merkja. Þá virðist reyndar líka oft lagt meira upp úr því í sögulegum sjónvarpsseríum að leikarar líkist persónunum sem þeir eiga að vera að leika – bæði í gervi og atgervi – en að handritið fylgi dokumenteruðum staðreyndum (eða breytingar séu rökstuddar með öðru en hafa skuli það sem skemmtilegra reynist).

Beint í grímuna

Það versta í þessu er að ég vissi sennilega að þetta myndi gerast. Ég vissi að hausinn væri laus og ég vissi – þótt ég hefði ekki fattað það í hita leiksins – að hann færi ekki upp í loftið. En klukkan er þarna eina mínútu í tólf – við vorum sein að hita foreldra mína og systkini, tempóið er hratt, ég er með nokkra drykki í blóðinu, búinn að hlaupa til og skjóta upp tveimur litlum, blysin höfðu gleymst. Svo er klukkan eina mínútu í tólf og ég gríp þessa sjö þúsund króna sprengju, geng af stað með hana og hausinn dettur af. Fyrst er ég bara hissa – hvernig í ósköpunum gerðist þetta. Ég tek hausinn upp, held á hausi og priki í höndunum í augnablik og hugsa að þar hafi andskotinn hafi það sjö þúsund krónur farið fyrir lítið. Svo sting ég prikinu í gatið og það fer inn, situr kannski ekki grjótfast en allavega ekki alveg laust heldur. Og klukkuna vantar 30 sekúndur í miðnætti – börnin mín standa spennt fyrir aftan mig og bíða þess að pabbi skjóti upp rakettunni og nýja árið taki við. Fokk it, hlýtur að virka. Svo ég haltra af stað staflaus út í snjóbreiðuna og kveiki í skepnunni sem springur síðan úti á götunni fyrir framan mig þegar ég er að skakklappast í skjól. Ég var fljótur að finna góða skapið aftur, svona miðað við – ef þetta hefði verið eitthvert annað augnablik en einmitt þetta, þar sem maður fagnar með sínum nánustu og allir eru glaðir, hefði ég áreiðanlega farið heim í sjokki bara að sofa og skammast mín. Ég veit ekki hvort mér leið svo betur eða verr að frétta af æskuvini mínum sem kveikti óvart á útibombu inni hjá sér, fattaði það ekki fyrren fór að rjúka úr henni og rétt náði með ofsafengnu snarræði að grýta henni út um útidyrnar áður en sprengingarnar byrjuðu. Í sjálfu sér höfum við báðir áreiðanlega séð það svartara – við erum af mikilli bombukynslóð. Það var reglulega hleypt af flugeldum inni í grunnskólanum þegar við gengum í hann og svo var enginn maður með mönnum sem ekki bjó til röra- og meðalaglasasprengjur úr flugeldum. Kynslóðin má sennilega heita góð bara að það vanti ekki á okkur fleiri fingur og augu. Svo má kannski til sanns vegar færa það sem Nadja sagði að slys þar sem engan skaðar þjóni þeim tilgangi að minna mann á að fara varlegar næst. Þegar ekkert fari úrskeiðis í langan tíma verði maður værukær og þá sé hætt við að maður fari sér að voða – en nú er maður ómeiddur og fer varlegar næst. En svo styttist auðvitað í að þetta verði bara bannað. Við erum ekki lengur þjóðfélag sem tignum háska – við tignum öryggi. Og af því að þið spurðuð þá var ég nú bara frekar hrifinn af skaupinu. Um mitt skaup hugsaði ég: þetta er besta skaup frá því ég var barn. Svo var þetta nú eitthvað þynnra í restina, en mér fannst það aldrei neitt undir pari. Mér fannst Kötludjókið frábært en það virðist almennt ekki hafa verið mjög vinsælt. Og raunar hitti ég engan síðar, hvorki um kvöldið né á helginni, sem var mjög ánægður með skaupið. Það á sérstaklega við börn undir tíu sem ég hef rætt við og áður en þið nefnið það vil ég taka fram að þau voru ekki heldur ánægð með krakkaskaupið. Ég er búinn að slökkva á allri netnotkun nema þessu bloggi og tölvupósti (og kannski einhverju vinnutengdu gúgli) svo ég veit heldur ekkert hvað „samfélagsmiðlum“ fannst. Ég las gamlársmoggann, horfði á kvöldfréttir í gær og hlustaði á tíufréttir í morgun og þar kom ekkert fram um samfélagsmiðlaskoðanirnar – þótt fólk á förnum vegi hafi verið spurt í kvöldfréttunum. Það fólk var nú bara svona temmilega misánægt, einsog maður segir. Voða mikið mje. Mogginn kom mér annars á óvart. Hann var mjög fínn bara. Það var meira að segja alltílagi að lesa repúblikanaröflið í Staksteinum og Leiðara. Innsýn í hugarástand sem maður sker annars hjá og fær aldrei nema í sinni allra ýktustu mynd, þegar eitthvað verður viralt. Og í Mogganum var líka grein þar sem Árni Matt bar saman Merkingu og Einlægan Önd og kallaði báðar „afbragðs skáldsögur“ (eða eitthvað álíka). Og grein eftir Mörtu Smörtu með nýyrðinu „arfavinsæll“. Einhver ráðleggingardálkur lögfræðistofu er víst vinsæll einsog arfi. Og viðtal við Isabelle Allende og annað við Chomsky (sem ég er ekki kominn í reyndar). Ársútlegging frá Siggu Kling. Og sitthvað fleira skemmtilegt!

Ögrandi lestur

Ég er varla einn um að finnast að það skipti meira og meira máli – í „umræðunni“, þetta er ekki mín persónulega skoðun – að list sé skemmtileg. Hún hafi ofan af fyrir manni. Í senn er hún þá meinlaus og einhvern veginn eitthvað sem maður getur sleppt – t.d. ef listamaðurinn reynist vera ódó. Listin er aldrei stærri en svo. Dómarnir eru annað hvort þannig að þeir einblína á þetta – hvaða hluti hafi verið skemmtilegur og hvaða hluti hafi verið leiðinlegur (jafnvel hvaða persónur hafi verið leiðinlegar/skemmtilegar – sem mér finnst hálf absúrd) – eða þeir reyna að hefja sig yfir það með því að segja aldrei orð um það hvort nokkra nautn megi fá úr lestri verksins. Áhorfi bíómyndarinnar. Hlustun lagsins. Ég sá á dögunum að einhver deildi status sem var held ég frá einum af þessum höfundum sem ég rétt svo kannast við nafnið á en hef aldrei lesið – hugsanlega einhver sci-fi týpa. Kvótið var eitthvað á þá leið að á næsta ári ætti maður að lesa það sem mann langar og ekki leyfa neinum að líta niður á sig fyrir það. Ég hef talsverða samúð með því sjónarmiði að maður eigi ekki að eyða lífinu í að skammast sín en mér finnst líka að svona markmið feli í sér að maður ætli ekki einu sinni að reyna að gera neitt sem er erfitt – ætli ekki að nota bókmenntir til að víkka út sjóndeildarhringinn heldur fyrst og fremst til þess að fróa hvötum sínum og löngunum. Ég er ekki mótfallinn því síðarnefnda, ég sé bara ekki þörfina á hvatanum. Þarf maður að fara í eitthvað átak til þess? Nei, við erum ekki svona knosuð. Svona bæld. Við erum mjög eftirlátssöm og sérhlífin, flest. Ég held líka að það hafi oft verið tímabil í bókmenntasögunni þar sem við snobbuðum yfir okkur – rembdumst við að vera gáfaðri en við vorum, lögðum jafnvel mikið upp úr því að feika það – og önnur þar sem okkur varð mikið í mun að afsanna snobbið. Sýna hvað við værum alþýðleg og afslöppuð. Ég reyni gjarnan að hafa það að markmiði, bæði sem höfundur og lesandi, að fara einhvers konar bil beggja – þetta á ekki að vera leiðinlegt en ef þetta er bara skemmtilegt þá situr jafnan lítið eftir. Ég vil helst ekki standa upp frá bók með sams konar tilfinningu og þegar stend upp úr sófanum eftir sjónvarpsgláp (svona oftast nær). Að þetta hafi nú verið alltílagi (og ég þurfi jafnvel að beita mig hörðu til að elta ekki beituna og horfa á annan þátt) og svo muni ég kannski ekki hvort ég er yfirhöfuð búinn að sjá þessa seríu þremur mánuðum síðar. Ég vil allavega helst ekki að það verði reglan, einsog mér finnst það vera með sjónvarpið. Ég er reyndar líka ósammála mér í þessu. Það togast á í mér fleiri sjónarmið. En heilt yfir fæ ég aulahroll yfir þessum hugmyndum um að manni eigi ekki að finnast neitt vera drasl, sérstaklega ekki eitthvað meinstrímrugl. Ég vil fá meinstrímfyrirlitningu unglingsára minna til baka, takk. Það er fullt af ágætis dóti sem maður getur alveg látið yfir sig ganga óttalegt drasl. Ég hef rifið í mig bækur sem mér fannst óttalegt drasl, og hent öðrum í gólfið fyrir að vera óþolandi, þótt þær væru alls ekki drasl. Og öfugt auðvitað – ég er ekki nötts, ég ríf frekar í mig góðar bækur og hendi þeim vondu í gólfið. En þetta er ekki alveg einhlítt, kannski af því ég er ekki alveg ekki-nötts heldur. En hvað kann ég þá að meta í bókum, svona umfram að þær séu skemmtilegar (sem mér finnst sem sagt líka skipta máli – þótt ég fyrirgefi örfáum að vera það alls ekki). Kannski að þær séu sérstakar? Óvenjulegar? Ögri mér einhvern veginn? Séu „snjallar“ – stundum get ég auðvitað dáðst að einhverju í list sem er í sjálfu sér handbragð, svona einsog ég get horft á fólk leika listir sínar á hjólabretti. Eða leika handbragð sitt á hjólabretti, meina ég. Fótbragð. Ég veit ekki hvort það fagidíótí eða hvort þetta er eitthvað sem allir gera – fæ víst aldrei aftur að lesa bækur öðruvísi en maður sem hefur skrifað bækur. Og rétt einsog með hjólabrettin vil ég frekar sjá einhvern reyna að gera eitthvað erfitt og renna á rassinn með það en að sjá einhvern renna sér í hringi af „feykilegu öryggi“. En mér sýnist að við – þessi menningarheimur, ekki bara Ísland – verðlaunum frekar þá sem reyna lítið, og þá sem reyna lítið á okkur. Og það finnst mér bara frekar leiðinlegt.

Orrahríð um áramót

Einu sinni var það standard að skrifa áramótaannál á bloggið sitt. Ég hef gert það af og til og stundum voru þeir ægilega langir. Ég nenni því nú ekki núna. Þarf fljótlega að fara að drífa mig heim af skrifstofunni og hita einhverja afganga ofan í lýðinn. Var þetta ekki bara ágætt ár? Mér finnst ég í það minnsta ekki hafa undan miklu að kvarta. Ýmislegt hefði getað gengið betur en það hefði allt getað gengið miklu verr líka. Við vorum í Svíþjóð meira en hálft árið. Ég fór fljótlega eftir áramót til Visby og dvaldist þar í tvær eða þrjár vikur í ótrúlega mikilli ró og kláraði Einlægan Önd – svona mestmegnis. Kom allavega með handrit heim til Västerås og leyfði Nödju að lesa hana – og raunar fékk hún líka eins konar neitunarvald á hana. Bókin er afskræming á mínu lífi og þótt ég hafi skrifað Nödju alveg út úr henni þá er það líka í sjálfu sér afskræming á hennar lífi. En það kom aldrei til þess að því neitunarvaldi væri beitt. Ég tók upp tvær hljóðbækur í stúdíói í Svíþjóð, Illsku og Gæsku – og svo tvær í viðbót eftir að ég kom heim. Fyrst Einlægan Önd, sem ég tók upp heima í stofu, og svo Hugsjónadrusluna sem ég tók upp í stúdíói Forlagsins í Reykjavík. Ég held þetta sé allt nema Öndin komið inn á Storytel. Hans Blær líka, sem ég tók upp 2018 í stúdíóinu hjá Mugison, og Brúin yfir Tangagötuna sem ég tók upp heima í stofu í byrjun covid. Það er þá bara Eitur fyrir byrjendur af skáldsögunum sem ég hef ekki lesið inn. Við ferðuðumst aðeins um Svíþjóð í sumar. Fórum í bústað og til Visingsö, húktum og höngsuðum hér og þar. Spiluðum músík. Vorum dugleg að fara út að borða en hittum sjaldan annað fólk en nánustu ættingja Nödju. Annars leið þessi tími bara einhvern veginn. Ég var orðinn óþreyjufullur að komast heim fyrir rest. Er alltaf svolítið lost í Svíþjóð. Á marga sænska vini en „sænska mentalítetið“ – lagom – á illa við mig. Ég er ofgnóttarmaður. Eina hófið sem ég viðurkenni er veisla. Ferðalagið heim og flutningur á dóti og frágangur á íbúð var líka frekar tíma- og orkufrekt dæmi. Við sendum allt dótið með Eimskip en fórum sjálf í litla bílinn okkar og keyrðum – fyrst til Gautaborgar í PCR próf, svo til Hanstholm í Danmörku í antigen-próf og loks með Norrænu heim. Ég sat í sóttkví í nokkra daga í Reykjavík. Svo vorum við varla komin heim þegar Aram fékk covid og mátti dúsa einn í herberginu sínu í tíu daga – áður en við rukum af stað og ég keyrði hann í skólabúðir á Reykjum. Þetta var svolítið dramatísk heimkoma – það fylgdi líka covidinu alveg svakalegt vetrarveður strax í september. Svo fór ég fljótlega í heilsuátak með haustinu – sem lauk þegar ég asnaðist til þess að slíta krossband í körfuboltaleik. Þeim fyrsta í 25 ár – körfubolti var enginn hluti af þessu átaki, sem snerist mest um hlaup og mataræði. Í sjálfsvorkunn minni vildi ég ekkert nema bjór og hamborgara. Ég er nú farinn að mæta aftur í ræktina og svona og hef meira að segja sleppt stafnum dag og dag en þetta hefur sett svip á jólabókaflóðsþátttöku mína og lífið almennt í haust. Ég átti góða daga á vertíðarflakki annars – það var feykigaman á Höfn í Hornafirði og á þeytingi með Diddu um Vestfirðina. Og mjög gaman að fá vini hingað á Opna bók. Ég fór líka í eina ferð til Slóvakíu sem var mikið stuð. Hélt tryllt útgáfuhóf og fékk að spila tónlist þar með vinum mínum – sem er sennilega hápunktur ársins, svona í samþjöppuðu stuði. Svo spilaði ég líka á tónleikum með börnunum mínum í Sjökvist sem var eiginlega ekki minna stuð. Ég held ég hafi tekið upp blús í hverjum mánuði hingað til en ég á enn eftir að taka upp lag fyrir desember og óvíst hvort það næst. Ég veit ekki hvaða væntingar ég hef til nýja ársins. Ég er með eitt og annað á prjónunum en það er allt frekar óljóst enn. Er mest að spá í vinnuaðferðum og strúktúr og leyfa einhverjum hugmyndum að gerjast svolítið á meðan. Mig langar í senn að taka því rólega og finna nýja ástríðu fyrir nýju verki – verða ástfanginn af hugmynd. Þetta tvennt fer yfirleitt ekki mjög vel saman – maður er oft kominn á alltof mikið skrið strax og hugmyndin nær tökum á manni. En ég er líka í einhverjum langtímapælingum núna – ef hugmyndin sem er í smíðum verður eitthvað lík því sem ég held að hún verði þá verður hún ekkert nærri kláruð í ár og kannski ekki heldur á næsta ári. Það er reyndar alveg pínu hætt við því að ritlaunasjóður hefni manni fyrir þannig tempó, þótt það verði auðvitað að koma í ljós. Ég er allavega búinn að taka til á skrifstofunni, hreinsa stóran vegg fyrir glósur og panta nýjan iMac til að koma í stað þessa sem ég skrifa á nú – sem er jafn gamall syni mínum (en ég hef átt í um ár). Ef ég fæ ekki ritlaun sel ég bara tölvuna og skrifa helvítis bókina með tússpenna á klósettpappírsrúllur.

Því nú: Ver og múður

Allt sem sagt hefur verið um fyrsta þátt Verbúðarinnar er meira og minna satt. Bæði það jákvæða og það neikvæða. Þetta er stórskemmtileg sápa, að hluta til fullkomlega óraunsæ samfélagslýsing en nær samt að kjarna eitthvert svallraunsæi, fordómafull og afskræmd mynd af bæði landsbyggð og fortíð, en líka grimmur og réttur spegill, vel leikin, frekar illa skrifuð en oft fyndin, alltof mikið drama á borðinu í einu (ef Sveppi þarf að vera handalaus hefði verið nær að einhver hefði bara sagt „Sveppi, já, einmitt, hann missti höndina í hausaranum“ í stað þess að troða inn þessu splatterdramatíska vinnuslysi í þátt sem var að fara í allt aðra átt; of mikið af smávillum, allar sögupersónur tala með sömu röddinni sem er blanda af bókmáli og talmáli, blanda af nútímamáli og eitísmáli. „Hví ætti það að ónáða oss, góða besta fokkið þér yður bara í pjölluna á yður, óskammfeilna slordís“. Og hvers vegna í ósköpunum var skipperinn að drekka frostlög á ballkvöldi í bæjarfélagi þar sem allt bókstaflega flóði í göróttum drykkjum? Mér finnst skorta tilfinningu fyrir stéttaskiptingunni í þetta – tilfnningu fyrir hírarkíu sem ég kannast við – skipstjórinn er of mikill lúser og bæjarritarinn/athafnakonan of lágt sett í þjóðfélagsstrúktúrnum. Aflaklær eru í mínum heimi meiri lávarðar – virðulegir hæglátir karlar. Það var ekki óregla sem kallaði bölvun kvótakerfisins yfir bæina – það er mjög léleg söguskoðun. Og bæjarritarar voru fremur virðulegar konur sem verbúðardræsur segja ekki svo létt til syndanna – og þær eru með sínar eigin hlaupatíkur. (Og svo notar fólk síma til að finna fulla karla – til þess var síminn fundinn upp).  Bæði eru greinilega samsett – hann úr Geira á Guggunni eða Hörra á Guðbjarti og svo einhverjum fyllibyttukapteini (sem hefði aldrei verið aflahæsti skipstjóri landsins). Hún er einhvern veginn í senn verkakonan, (nýtilkomin?) framakonan í karlaheimi og húsmóðirin sem hélt samfélaginu saman, stoppaði í götin og sá til þess að krakkar fengu að éta yfir daginn, háttuðu fulla karla og það allt saman. Allar þessar konur voru til – og sú síðastnefnda kannski áhugaverðust því hennar saga er nánast aldrei sögð, þótt við könnumst öll við hana sem erum alin upp fyrir 1990 – en ég held þær hafi aldrei verið ein og sama konan. Verbúðin er sem sagt meira Dallas en The Wire en samt er þetta skemmtilegt og ágætis spegill og ástæða til þess að ræða ýmislegt – meðal annars bara þessa sýn á landsbyggðina, sem er nú kannski ekki beinlínis byltingarkennd – það er voða fátt þarna sem hefði ekki getað verið í hvaða Bubbalagi sem er, eða bara Nýju Lífi. Nú eða í svallsögum þeim sem Vestfirðingar hafa aldrei hikað við að segja um sjálfa sig. Hvort þær séu allar trúanlegar er svo annað mál. Og Dallas er kannski ekki The Wire – en djöfull var Dallas samt fínt. Vinur minn sagði annars við mig á sunnudagskvöldið, þar sem við vorum að sána okkur í staðinn fyrir að horfa á þáttinn, að hann gæti aldrei horft á þetta af því hann hefði einfaldlega of miklar skoðanir á kvótakerfinu og fiskiþorpunum til þess að geta nokkurn tíma verið sáttur. Ég held að það eigi við um marga hérna. Vestfirðingar eru sosum vanir því að bíóið noti þorpin sem einhvers konar ömurðarspegil en þegar við bætist ásetningur um að kryfja kvótakerfið er reitt frekar hátt til höggs – ég veit ekki hversu mikla heimildavinnu Vesturport lagðist í en á Vestfjörðum eru ríflega 7000 sérfræðingar í kvótakerfinu og örlögum sjávarplássins og þeir eru allir meira og minna innbyrðis ósammála. Kvótakerfisfundir á Vestfjörðum eru háværustu fundir sem haldnir hafa verið á landinu – allir að æpa hver upp í annan – sem er ástæðan fyrir því að forystumenn Frjálslynda fólksins voru jafnan þeir sem hæst lá rómur. Það heyrðist ekki í neinum öðrum. Þetta er kannski sambærilegt við það ef hið vestfirska Kómedíuleikhús myndi gera bíómynd um Reykjavíkurflugvöll. Eða aðförina að fjölskyldubílnum (sem var einmitt kölluð helför í einhverri grein í dag). Loksins verða þessi mál útskýrð fyrir ykkur. Svo er auðvitað ekkert í heiminum eðlilegra en að fólk hafi mismunandi sýn á fortíðina. Kannski er það meðal annars þess vegna sem fólk fer að sigta burt það sem bara gengur alls ekki – anakrónismana og það. Til þess að koma skikki á hitt, það sem er túlkunaratriði og þarf kannski að ræða. Vandamál listaverka er oft að þau vilja bæði fá fríspil til að „vera listaverk“ og ekki representatíf fyrir raunveruleikann og að vera tekin alvarlega sem samfélagsspegill – svona var þetta, segja sumir, svona var þetta alls ekki, segja aðrir og því mæta aðstandendur (og sumir aðdáendur) með því að segja að þetta hafi nú aldrei átt að vera nein heimildamynd. En fella þá líka úr gildi innsýnina sem verkið er hugsanlega fært um veita. Skálduð saga er ekki sagnfræði, en hún á ekki heldur að vera kjaftæði – það er a.m.k. engin vörn fyrir listrænt gildi hennar. En að því sögðu eru menn nú ekkert með böggum hildar hérna, það ég get séð. Almenna skoðunin virðist vera sú að þetta sé bara frekar fínt sjónvarp. En greiningin á kvótakerfinu – dickensíska samfélagslýsingin, sem ég held að fólk búist við miðað við lýsingar aðstandenda – er enn ekki komin fram þótt búið sé að sleppa nokkrum spilaköllum lausum. Og þá fyrst lendir sagan á verulega hálum ís.