Ég sendi Aram Nóa tvisvar sinnum út í sjoppu eftir mogganum í gær en hann var aldrei kominn. Og hann var heldur ekki til þegar ég fór sjálfur í Nettó. Hafði ég þó líka augastað á miðvikudagsmogganum, sem var ekki til á miðvikudaginn þegar ég keypti þriðjudagsmoggann. Ekki veit ég hvernig fólk fer að. Alltaf með sömu stjörnuspána, dag eftir dag – að lesa bækur . Ég neyddist því til að lúslesa betur þær síður í mánudagsmogganum sem ég átti eftir. Þar uppgötvaði ég meðal annars að vinkona mín Fríða Ísberg hefði fengið Bjartsýnisverðlaun Forsetans. Sem ég vissi nú ekki einu sinni að væru til. Ég sá ekki betur en þetta væri milla – sem er nú 2/3 af bókmenntaverðlaununum sem Fríða fær ekki fyrir Merkingu (en kannski hluta af fyrir Olíu sem hún skrifaði í samyrkju með öðrum). Það held ég komi sér nú áreiðanlega vel í búið og er auðvitað mjög vel verðskuldað. Þótt ég hafi reyndar ekki hugmynd um fyrir hvað þessi verðlaun eru veitt, nú þegar ég hugsa út í það. Ekki er það fyrir bjartsýni – Fríða er nýbúin að gefa út hræðilega dystópíu. Ætli forsetinn sé ekki bara bjartsýnn á að Fríða eigi eftir að gera það gott? Það held ég flestir séu. Svo má reyndar spyrja sig hvort það væri ráð að veita líka svartsýnisverðlaun. Þau væru þá veitt einhverjum sem væri vís með að fara í hundana. Þá fengi þau til dæmis rithöfundur sem virtist á hraðri niðurleið – kannski við það að gefast upp – kannski útbrenndur? Eða bara eitthvað algerlega vonlaust keis sem væri að stíga fyrstu skrefin? Kannski frekar svona týpa sem er alveg á barmi þess að fara að sturta úr öllum skúffum skrifborðsins ofan í eitthvað vanity-prójekt í fallegu bókbandi. Það yrði svo að útfæra það hvort millan (því það yrði auðvitað líka að vera milla – nema það væri milla í skuld, viðkomandi fengi bara reikning?) færi í að koma skáldinu aftur á réttan skáldakjöl eða til þess að það hefði ráðrúm til að finna sér nýjan vettvang í lífinu. Gamli kvikindislegi Eiríkur hefði nú sagt að það væri samfélagslega ábyrgt að borga sumum höfundum fyrir að finna sér eitthvað annað að gera – en leiðir okkar hafa skilist, okkar kvikindisins, hér er ekkert nema kærleikur alla daga og ég sit því á strák mínum og segi ekkert.