Ég fór aftur og keypti moggann í gær. Sennilega fengi ég mér áskrift ef hann bærist manni á morgnana en það er víst ekki. Mogginn sem ég keypti í gær, klukkan 16, var meira að segja mogginn frá því í fyrradag, sem var ekki til í fyrradag þegar ég keypti mánudagsmoggann. Það var margt áhugavert. Sérblað um heilsu. Það sló mig hvað allir voru rosalega jákvæðir. Einhvern veginn einsog heilsan væri fyrst og fremst spurning um viðhorf. Sem er kannski rétt, eins langt og það nær – altso þangað til maður verður fyrir erfiðari heilsubresti. En fyrir okkur meðalmennin skiptir sennilega mestu að vera ekki alltaf sívælandi yfir því sem ekkert er og kunna að fagna hinu. Meira að segja stjörnuspáin mín var á þennan veg. Þar stóð að það þýddi ekkert fyrir mig (krabba) að „liggja með hendur í skauti“ heldur þyrfti ég að „lesa bók eða hlusta á sjálfshjálpardisk“. Nú man ég ekki hvað niðurlagið var – hvort ég átti að gera þetta til að líða betur eða ná árangri í starfi eða hvort þetta var bara svona skilyrðislaust skylduboð, spurning um tilgang í sjálfum sér frekar en leið að markmiði. Það sló mig að svo virðist sem maður megi lesa hvernig bók sem er en bara hlusta á sjálfshjálpar disk. Þýðir ekki að hlusta á sjálfshjálparhlaðvarp eða einhverja skáldsögu á hljóðbók. Það er annað hvort sjálfshjálpardiskur eða einhver bók – hvaða bók sem er – eða þunglyndi og gjaldþrot. Ferillinn í rúst. Ég á því miður engan sjálfshjálpardisk. Ég á ekki einu sinni diskaspilara. Einhvers staðar á ég safn af Tom Waits diskum, Mugison diskum og Skúla mennska diskum – þá tvo fyrstnefndu hlusta ég bara á í gegnum Spotify núorðið og þann síðasta bara þegar hann kemur í heimsókn (hann hefur ekki sett lög sín á Spotify aðdáendum sínum til mikillar gremju). Ég veit ekki hvort neitt af þessu er sjálfshjálp. Sáluhjálp kannski, en það er ekki það sama. Since you’re gone
Deep inside it hurts
I’m just another sad guest
On this dark earth
I want to believe
In the mercy of the world again
Make it rain, make it rain! Lífið er sárt og það eina sem maður getur gert er að skrúfa frá rigningunni. En bækur á ég. Ég kláraði Eld eftir Guðmund Daníelsson í gær og er að dunda mér í gegnum Þagnarbindindi eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur og gott ef mér líður ekki bara betur og næ meiri árangri í starfi en í fyrradag. Ég er ekki frá því.