Það er búið að aftengja fingrafaraskannann í lyftunni og nú kemst hver sem er upp. Þetta var gert fyrir nokkrum dögum. Mér finnst rökrétt að álykta að flugumaður sem starfar fyrir byltingaröflin í landinu leynist á hótelinu. Hugsanlega er það iðnaðarmaðurinn sem brosti óvenju breitt til mín um daginn þegar ég var í skærgula „Anti-Fascista Siempre“ stuttermabolnum mínum. Næsta skref er sennilega að byltingarherinn komi upp með lyftunni og skeri auðvaldið á milli eyrnanna. Þann dag ætla ég að reyna að muna að vera í bolnum góða. Ég er ekki viss um að Let There Be Rock bolurinn geri sama gagn. Annars er allt meinhægt, einsog það á að vera. Ég er svolítið lúinn eftir daginn. Skrítið hvað maður getur orðið þreyttur af þessu. Ég svaraði tölvupóstum í morgun og reyndi að skipuleggja haustið – það verður talsvert af bókmenntareisum – borðaði svo hádegismat. Eftir hádegi sat ég og starði á tölvuna milli þess sem ég dundaði mér og beið eftir að eitthvað gerðist. Dundið fólst mestmegnis í að spá í nýjan stand fyrir gítarfetlana mína sem ég ætla að smíða í haust. Og það tók sennilega þrjá tíma og ég var næstum bara búinn að gefa daginn upp á bátinn þegar allt hrökk í gang og ég skrifaði viðstöðulaust í tvo tíma og kláraði kaflann sem ég er búinn að vera að kljást við. Hann fjallar um innbrot í rækjuverksmiðju. Svo fór ég að hlaupa, borðaði kvöldmat og nú er ég hér að drekka kaffi og borða súkkulaðikex. Við nýttum helgina vel. Á laugardag fórum við á eins konar vísindasafn fyrir börn – það er kallað „Barnasafnið“ – og fræddumst um stjörnurnar, risaeðlur, ólík störf í þjóðfélaginu og hella og fleira. Þetta var mjög gaman en líka mjög gamalt og þreytt og svolítið skítugt og hafði flest verið gefið einhverju öðru safni fyrir fjörutíu árum og svo selt fimm söfnum í millitíðinni áður en einhver góðgerðasamtök splæstu í það fyrir íbúa San Pedro Sula. Stemningin var mjög eitís. Krakkarnir hjálpa til við að púsla saman korti af Hondúras – hérað fyrir hérað. Þá voru líka mjög fáir starfsmenn og hvert svæði var lokað nema þegar maður var með gæd með sér. Það var ekki hægt að ráfa um og uppgötva neitt – heldur var algert möst að fylgja bara sínum gæd. Gædarnir töluðu auðvitað bara spænsku en við reyndum að hjálpa til við að upplýsa börnin og þýða það sem við gátum. Það gekk bærilega. Best var þegar við lágum á bakinu undir hvolfþakssýningartjaldi og horfðum á myndband um sólkerfið við einhverja dúndrandi eitís sjónvarpsklassík. Það var líka svolítið fyndið – við Nadja erum ekki ókunnug alls konar menningarlegum árekstrum. Það er ekki allt eins í Svíþjóð og á Íslandi og mér finnst mjög oft að hlutirnir eigi að vera einsog þeir eru á Íslandi (t.d. að börn byrji í skóla sex ára) en henni finnst að þeir eigi að vera einsog í Svíþjóð (að börn byrji í skóla sjö ára). Alltaf þegar við erum í þriðja landinu bætist þá enn ein vídd í viðbót inn í blönduna: hvað er eðlilegt í Hondúras eða Víetnam eða Króatíu o.s.frv. og hvernig er það samanborið við normin á Íslandi og í Svíþjóð. Við fórum á þetta safn með mágkonu minni og mágbarninu og þá bætist alltíeinu kínversk vídd við. Það gerðist svo sem ekkert sérstakt en ég var mjög meðvitaður um það allan tímann að við værum að upplifa þessa hluti á ólíkan hátt og dæma upplifunina út frá fremur ólíkum forsendum. Hjörtunum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu en það er ýmislegt í þankagangnum sem skilur mann að engu að síður. Svo spilar reyndar líka rullu að mágkona mín er föst hérna lengur en við og á a.m.k. rúmt ár eftir af dvölinni og er held ég orðin mjög þreytt á Hondúras – hægri þjónustu og hitanum og því öllu saman, ofan í auðvitað glæpina og að vera heimavinnandi og alls konar annað. Hún er hérna vegna þess að Yesper verður að vera hérna um sinn og af engri ástæðu annarri. Á sunnudaginn fórum við í Angeli Gardens. Við ætluðum reyndar aldrei að finna það. Google Maps vildi að við keyrðum beint inn í frumskóginn – inn í hnausþykkt kjarrið – en ég heyktist við það og hringsólaði eitthvað þar til ég fann skilti sem vísaði okkur eftir handónýtum steinsteyptum vegi sem leiddi að enn handónýtari moldarslóða sem leiddi okkur að Englagörðunum. Ég hreinlega veit ekki hvað þetta heitir á íslensku – canopy segja heimamennirnir, Nadja segir linbana. Rennibraut? Maður fer upp fjallið á fjórhjóli – upp flennibrattan og ójafnan stíg en kemur niður í sigbelti, rennir sér eftir vír á milli trjánna. Það eru níu stöðvar og maður endar á veitingastað. Þetta var mjög gaman. Fyrst voru starfsmennirnir reyndar í svolítið miklu akkorðsgír – einsog þeim lægi á að drífa okkur niður fjallið, það ætti eftir að slægja 40 tonn af túristum í dag – en þeir róuðust fljótt og þá var skemmtilegra. Starfsmennirnir á barnasafninu voru svolítið þessu marki brenndir líka. Sem er skrítið því almennt er þjónusta frekar hæg í landinu. Kannski er bara reglan að þetta eigi að vera óþægilegt. Krakkarnir fóru með starfsmönnum en við Nadja fórum sjálf. Víða var mjög hátt niður og gott útsýni og sums staðar fór maður líka bara mjög hratt – mikið stuð. Krakkarnir urðu aldrei neitt hræddir samt og varla við Nadja heldur. Loks fórum við á Denny’s – ég er að reyna að prófa eitthvað af þessum amerísku keðjum sem hér eru útumallt og maður hefur aldrei komið á. Denny’s er svolítið einsog McDonalds á sterum – meiri alvöru matur. Á morgun er ég að spá í að kíkja á Wendy’s í hádeginu. Við kláruðum báða dagana á að fara út að laug og tjilla með bók.
Svartar rósir og svartir hundar
Við eyddum helginni í bænum Tela, á hóteli við hafið. Þetta er tveggja tíma akstur og frekar sætur lítill bær sem við sáum lítið af því við vorum bara á ströndinni og við hótelið. Á leiðinni keyrðum við að öðru hóteli sem mági mínum hafði litist betur á til að athuga hvort eitthvað væri laust en þar var þá brúðkaup eða annars konar álíka viðburður. Þegar við keyrðum upp að því svæði lentum við í tvennu áhugaverðu. Fyrst komum við að hópi ungmenna, svona á að giska tvítugra, sem stoppuðu alla bíla og rukkuðu þá um toll/mútur á þeirri forsendu að þau væru að gera við veginn. Þar voru vel að merkja engin verkfæri og ungmennin sem ekki stoppuðu bílana lágu bara í vegakantinum og nöguðu strá og spjölluðu gleðilega sín á milli. Þau sem stóðu við bílana voru ekki beinlínis ógnandi en kannski ekki beinlínis ekki-ógnandi heldur. Vegurinn var hins vegar vissulega viðgerðar þurfi. Við borguðum nú samt þennan smotterístoll og fórum í gegn. Næst komum við að hliði inn að svæðinu – handan hliðsins var slangur af hótelum og nokkrir veitingastaðir. Hliðvörðurinn var lengst af ekki á því að hleypa okkur í gegn. Í fyrsta lagi þá væri alveg klárt mál að þetta hótel sem við vorum að spá í væri uppbókað og í öðru lagi þá ynni hann ekki fyrir hin hótelin eða veitingastaðina og þau skulduðu honum laun svo hann gæti alls ekki opnað fyrir okkur ef við ætluðum til þeirra. Á endanum fór Nadja út úr bílnum til að tala við hann og þá stakk hann upp á þeirri lausn að Nadja myndi sjálf opna hliðið. „Það er alltílagi, þú getur opnað hliðið. En ég get það ekki“, sagði hann. Og það varð auðvitað bara úr. Hér borðuðum við hádegismat á kránni Svörtu rósinni þar sem við hlustuðum á dúndrandi vont teknó og skelltum okkur aðeins í sjóinn á meðan við biðum. Sennilega var maturinn rúma klukkustund á leiðinni og hann var ekkert sérstakur – ég hef lítið fengið af góðum mat hérna. Þetta er þriðja rómansk-ameríska landið sem ég þvælist í gegnum – hin tvö eru Kúba og Brasilía – og þótt þau séu annars öll mjög ólík þá eiga þau það sameiginlegt að þar hef ég lítið fengið af góðum mat. Ekki að hann sé neitt vondur heldur – bara frekar óspennandi. Á meðan við biðum eftir matnum sló það mig hvað þetta nafn á kránni væri undarlegt – Svarta rósin, þetta er einsog úr einhverri Tinnabók. Ég ákvað að taka mynd af skiltinu: Skemmst er frá því að segja að ég deildi myndinni á Twitter og nú er hún komin út um allt internet. Eftir matinn rúntuðum við í gegnum bæinn og að hótelinu okkar, Telamar Resort, og komum okkur fyrir. Svo fórum við út í sundlaugargarð og fljótlega fór að hellirigna – það er rigningartímabil og rignir mikið seinnipartinn og á kvöldin. Krakkarnir létu það ekki trufla sig í lauginni enda mjög hlýtt og við Nadja plöntuðum okkur upp á svalir á sundlaugarkránni fram á kvöldmat (sem var óspennandi hlaðborð). Skæpað við ömmu og afa í rigningunni. Sundlaugargarðurinn. Daginn eftir var sól og blíða og við fórum á ströndina – leigðum bát sem sigldi með okkur út á það sem þeir kölluðu „kóralrif“ en var nú bara ósköp venjulegur sjávarbotn. Þar snorkluðum við og brenndum okkur á marglyttum. Þegar við komum aftur í land lékum við okkur á ströndinni – ég, Aino og Aram vorum ábyggilega vel á aðra klukkustund að kasta okkur í öldurnar og ég veit ekki hvort ég hef nokkurn tíma verið jafn glaður. Ég var hins vegar ekki í bol eða peysu og ekki með neina sólarvörn, annað en börnin, enda óvanur að brenna – hef ekki sólbrunnið síðan ég var barn og þá bara mjög, mjög lítið. Nú brann ég – vægt, en samt – í andliti og á öxlum. Þá fengum við hádegismatarhlaðborð, sem var óspennandi en kannski ekki alveg jafn óspennandi og kvöldverðarhlaðborðið, og lögðum af stað aftur til San Pedro Sula. Á leiðinni komum við við í verslunarmiðstöð nálægt El Progreso og urðum vitni að svona barnafegurðarsamkeppni, þar sem uppstrílaðar sjö ára stúlkur kepptu um hver væri sætust. Einsog það var nú undarlegt þá var eiginlega ekki síður undarlegt hvað allur hávaði – hljóðnemi kynnisins og tónlistin – var mikill. Ég hefði staldrað lengur við til að seðja forvitni mína ef hávaðinn hefði ekki verið svona óbærilegur og ískrandi. Umferðin hérna er svo kapítuli út af fyrir sig. Ég er ekki óvanur kaotískri umferð, af íslenska eða víetnamska skólanum, en hún er samt þægilegri. Á Íslandi er allt í nokkuð föstum skorðum og fólk fylgir umferðarreglunum þótt það keyri hratt og gefi fram úr svíni pínulítið og það sé auðvitað óhemja af bílum. Í Víetnam eru allir á vespum, enginn fer eftir umferðarreglunum en allir keyra frekar hægt og það sem meira er, þeir keyra jafn hratt. Þegar maður hefur fattað lógíkina í víetnamskri umferð er hún mjög þægileg og það verður t.d. hægur leikur að ganga í gegnum kraðak af vespum til að komast yfir götuna. Eða beygja inn í stórfljótið og finna sér stað í þvögunni. Hér keyra allir á karlmennskunni einni saman – ef maður er ekki fastur við stuðarann á bílnum fyrir framan þá treður sér einhver á milli. Að það sé rautt ljós á næstu þvergötu er engin trygging fyrir því að einhverjir bílar eða mótorhjól laumi sér ekki yfir ef það gefst færi. Ef vegarkanturinn er bærilega sléttur má líka allt eins eiga von á því að þar gefi einhver fram úr manni. Og þeir eru stanslaust að gefa fram úr við sjúklega tæpar aðstæður – treysta því bara að bíllinn sem kemur á móti þeim hægi á sér. Þegar ég fletti þessu upp sé ég líka að þótt afríkulöndin séu verst, þegar kemur að dauðsföllum í umferðinni, þá er Hondúras versta landið utan Afríku – með þrisvar sinnum fleiri dauðsföll en á Íslandi og sex sinnum fleiri dauðsföll en í Svíþjóð. Annað er sosum ekki að frétta. Aram og Nadja vöknuðu fyrir allar aldir í gær og fengu far með Yesper, sem var að fara í vinnuna, upp að Coca Cola skiltinu. Eða, upp að göngustígnum. Í gærkvöldi fóru þau svo út til að leika sér að halda bolta á lofti og Aram sparkaði boltanum óvart í andlitið á sér og það triggeraði svolítið mikla sorg, sem sennilega hefur verið að meltast um hríð. Hann kom upp í íbúð alveg ónýtur af heimþrá og söknuði eftir vinum sínum. Hann er sá eini hérna sem hefur engan eiginlegan jafningja. Aino leikur talsvert við Rion og unir sér vel – en þá er hún líka minna með Aram. Þótt hann sé að mörgu leyti líkur mér með að geta unað sér einn – hann ryður í sig bókum hérna, vetrarseríu Hildar Knúts og tveimur fantasíuseríum eftir Rick Riordan á sænsku, og spilar mjög mikið Zelda – þá er hann líka félagslyndari og á mikið af vinum sem hann er vanur að hafa í kringum sig. Hann er líka orðinn mjög vanur ákveðnu frelsi – að vaða bara um allt og þurfa ekki að standa skil á öðru en að mæta í trommutíma og kvöldmat. Mér finnst líka þessi trigger kunnuglegur – að það gerist eitthvað svona fýsískt og það setji af stað allt hitt sem maður hefur ekki getað hanterað. Það næsta sem ég hef komist því að fá taugaáfall var þegar ég barði mig óvart í höfuðið með stálskröpu á kústskafti við vinnu í skipasmíðastöðinni í Þórshöfn skömmu eftir tvítugt – þá var ég úttaugaður af rugli og þreytu, vinnu og djammi, og lagðist bara út í horn á bakvið trollspilið og grét þar til Gorkíska vinnuflautan sendi okkur heim. Við áttum langt spjall um heimþrá og sorgina og hversu mikilvægt það væri að finna hamingjuna í því sem maður hefði og því sem maður gæti gert, frekar en því sem maður hefði ekki – að reyna að njóta þess að vera í Hondúras með Rion og Yi og Yesper og njóta þess svo að vera Ísafirði með vinum okkar og ættingjum þegar við komum þangað. Og hversu mikilvægt það væri að leyfa sér að vera sorgmæddur. Það er ekkert að því að líða illa – það er bara hluti af ferlinu. Í dag svaf hann fram eftir öllu og líður sjáanlega miklu betur. Yi flaug til Tegucigalpa til að sinna erindum í kínverska sendiráðinu og við – eða Nadja og krakkarnir, ég er að vinna – sjáum um Rion á meðan. Við erum að reyna að skipuleggja eitthvað sniðugt að gera – hugsanlega Guatemala, hugsanlega Copán-rústirnar, hugsanlega Útila og meira snorkl, hugsanlega bara einhver bær þar sem er hægt að hangsa. Ekkert af þessu er sérlega ódýrt og við ekkert ofsalega fjáð – Hondúras er dýrara land en við höfðum reiknað með (og auðvitað ekkert kynnt okkur). En nú höfum við verið hér í mánuð og bara mánuður eftir.
Mega Bites
Ég átti afmæli og varð 41 árs. Það er hefð að vekja afmælisbörn í rúminu í okkar fjölskyldu en það er líka hefð að ég sé mjög morgunsvæfur og ég hef átt sérstaklega erfitt með svefn hérna í Hondúras – vaknað að ástæðulausu um miðjar nætur og legið andvaka klukkustundum saman. Svo af tillitssemi við mig var ákveðið að vekja mig seint frekar en snemma. Ég hins vegar vaknaði við umgang – þótt hann hafi alls ekki verið mikill – upp úr sjö eða sirka þegar Nadja læddist fram úr til að fara í búð að kaupa morgunmat. Svo lá ég bara í rúminu og beið þess sem verða vildi. Mér fannst ég ekki geta farið fram úr – og þannig eyðilagt vakninguna fyrir vekjurunum – en það munaði nú nokkrum sinnum litlu. Það vill til að ég er mjög þolinmóður maður og stíg hvort eð er eiginlega aldrei upp úr rúminu um leið og ég vakna. Eitthvað rúmlega tíu komu þau inn til mín með kökur og kjötsamloku og kaffi og pakka. Ég fékk leikfangabyssu, stækkaða ljósmynd af ljóni sem var búið að krota einhverjum málningarklessum á (ásamt boði um að fara og velja mér alvöru málverk í galleríi), ægilegan túristabol merktan Hondúras og kaffikrús. Eftir morgunmat fórum við í galleríið, keyptum málverk af manni með hatt og gítar, og svo í hádegismat á hinn stórgóða veitingastað Mega Bites. Galleríið var í s.k. strip mall – þar mættum við þessum vinalega herramanni sem vísaði okkur réttan veginn. Svona menn eru bókstaflega alls staðar hérna og alltaf með þessar skemmtilegu haglabyssur undir hendinni. Hnakkinn á Aino í glugganum. Mega Bites er nördahamborgarastaður, fullur af alls konar ofurhetju- og tölvuleikjadóti, og við enduðum þar nú eiginlega bara fyrir tilviljun. Aram var dolfallinn – þótt það væri varla hægt að segja að það væri ætur biti fyrir hann að éta þarna (hann er grænmetisæta). Nadja pantaði mozzarellastangir og chili-franskar fyrir þau – án þess að átta sig á því að chili-frönskum er ekki drekkt í pipar eða kryddi heldur chili con carne. Þau fengu franskarnar okkar Ainoar og við tókum chili-franskarnar. Frændi eigandans, sem afgreiddi okkur, talaði mjög góða ensku svo okkur grunaði að hann hefði verið í Bandaríkjunum en verið vísað úr landi – það er mjög mikið af þannig fólki hérna, annar hver leigubílstjóri – en svo reyndist ekki. Hann sagðist oft hafa spáð í að fara en það væri kannski ekki til neins núna, en hver veit. Mestu skipti núna að losna við helvítis forsetann. Um kvöldið fórum við út að borða perúskt. Ég fékk einhvern ægilegan maríneraðan svínabita sem ég torgaði engan veginn en þetta var nú samt mjög gott allt. Ég fékk líka mjög góðan Pisco Sour með snert af ástaraldinsafa og perúskan bjór sem heitir cusqueña. Leigubílstjórinn sem keyrði okkur heim hafði búið í Bandaríkjunum í mörg ár áður en honum var vísað úr landi. Hann virtist fremur ósáttur. Og síðan eru liðin hundrað ár. Ég hef verið frekar slappur alla vikuna – hugsanlega ofgerði ég mér á hlaupabrettinu á sunnudag og er búinn að vera að gúgla alls konar um bætiefni og íþróttadrykki síðan. Ég svitna alveg hrikalega og loftræstingin í ræktinni er léleg en ég drekk líka mjög mikið vatn, bæði fyrir og eftir og á meðan. Ég hljóp mikið úti í Víetnam en þá var ég úti undir beru lofti – hér er ekkert hægt að hlaupa úti án þess að verða rændur – og stoppaði alltaf í lítilli búð í jaðri hrísgrjónaakranna, sem var eiginlega bara heimili með frysti og skilti, og keypti mér íþróttadrykk með öllum helstu steinefnum. Hér er bara svo mikið vesen að komast í búð – þarf helst að byrja á því daginn áður að biðja húsbóndann á heimilinu að skilja bílinn eftir næsta dag – að ég hef enn ekki komist til að kaupa mér bætiefni eða íþróttadrykk. Ég sit stundum úti við laug og skrifa. Þar er stórt borð í skugga en þetta borð er hægt að taka frá fyrir veislur og þvíumlíkt – við hliðina er grill. Í gær var greinilega búið að taka það frá, raða alls konar afmælisdóti á það, svo ég settist bara í steikjandi sólina og skrifaði þar til rauk úr mér. Þá fór ég að synda. Kannski hjálpar slík hegðun ekki til við sleni en stundum hef ég áhyggjur af því að fá ekki nóg d-vítamín af því ég er svo mikið inni og svo mikið annars í skugganum. Í dag ætlum við Aram loksins í bíó. Spiderman-myndin er frumsýnd í dag og við eigum miða í einhver voða fín hreyfisæti klukkan fjögur. Við erum mjög peppaðir – nú er bara að vona að byltingin verði eftir bíó en ekki fyrir einsog síðast.
Coca Cola, pírökur og plokkfiskur
Ég sé á Facebookinu mínu að í sumum Evrópulöndum er ég orðinn 41 árs. Ég er byrjaður að fá kveðjur. Í San Pedro Sula á ég enn sjö tíma eftir sem fertugur maður. Raunar eru ekki nema kannski þrír mánuðir frá því ég hélt upp á fertugsafmælið – með Nödju, sem var líka að fagna 41 árs afmælinu sínu. Það var mjög skemmtilegt kvöld – ég varð ofsalega fullur og gerði ósköpin öll af kokteilum og hló hátt og greip fram í fyrir fólki einsog ég væri ekki í grunninn fyrst og fremst haugur af alls konar félagslegum komplexum (einsog svo margir). Hvað um það. Í gær fórum við Nadja í fjallgöngu upp að helsta kennileiti borgarinnar, Coca Cola skiltinu. Þessi mynd er af internetinu. Maður sér skiltið ekkert mjög vel þarna uppi – bara svona hornin á því. Fjallið heitir El Merendón og upphaflega var víst sett upp skilti þarna fyrir Muebles Capri húsgagnamerkið. Árið 1984. Því var ekkert haldið við og þegar það var fjarlægt fannst fólki eitthvað vanta – skiltið laðaði fólk að. La Cerveceria Hondureña – Vífilfell þeirra Hondúrasmanna – kom til bjargar og reisti þetta skilti, sem raunar er ljósaskilti, neon í rauðu og hvítu, þótt það sé sjaldan kveikt á því lengur. Skiltið er 10 metra hátt og 79 metra breitt og pælingin var að þetta yrði stærsta kókskiltið í gervallri mið-ameríku – ég veit ekki hvort það er það eða var það en það var allavega ætlunin. Skemmst er frá því að segja að við vorum hvorki rænd né drepin á göngunni þarna upp heldur mættum við mikið af vinalegu fólki og buðum þeim góðan daginn – „buenas“, sögðum við, og þau sögðu „buenas“ til baka og það var afskaplega ánægjulegt. Bara einsog maður væri umkringdur fólki sem hefði engan hug á að ræna mann eða drepa. Meðfram stígnum – þetta er um þriggja kílómetra ganga – voru lítil tréskilti með ritningarorðum úr biblíunni. Fólkið sem við mættum var alls konar – nokkuð um yngri pör, íþróttamenn sem hlupu upp og það sem kom mest á óvart, feitir miðaldra karlar (50-60 ára, ekki fertug unglömb, vel að merkja) sem hjóluðu. Svona týpur sem maður sæi aldrei sporta á norðurlöndunum. Ekki nógu feitir til að vera í líkamsrækt að læknisráði en of feitir til að láta sig enn dreyma um sixpakk. Sumir tóku því rólega en aðrir voru greinilega bara í hörkusporti. Við tókum líka fram úr einum og mættum honum aftur á leiðinni niður sem var í ofsalegri yfirvigt – djöfull sem mér fannst hann harður. Þá mættum við hundum og geitum, sem var líka gaman. Á nokkrum stöðum var hægt að kaupa svaladrykki, kókoshnetur og ávexti. Gatorade virtist sérstaklega vinsælt. Þegar við komum að svæðinu þar sem göngustígurinn byrjar keyrðum við framhjá mörgum húsum sem ég held að hljóti að tilheyra glæpamönnum eða stjórnmálamönnum eða öðrum sem þurfa að hafa talsverðar áhyggjur af lífi sínu, af því glæsihýsin við götuna þar sem við lögðum voru flest með risastóra veggi í kringum sig og gaddavír, sem er í sjálfu sér ekki óvenjulegt, en að auki voru byssuhreiður á hornunum. Ég gleymdi auðvitað að taka mynd af þessu en þetta er svolítið svakalegt að sjá – húsin voru ekki bara útbúin til að halda þjófum úti heldur beinlínis til að mæta innrás. Þetta ku ríkasta svæði borgarinnar en eftir göngustígnum voru líka nokkrar flottar villur – en líka bárujárnskumbaldar. Annars var bílastæðavörður líka – gömul kona sem talaði mikið á spænsku og svaraði alltaf frekar furðulega því sem við spurðum. Þegar við reyndum t.d. að spyrja hvort þetta væri einstefna og við ættum að snúa við eða hvort við gætum keyrt niður hana og beygt fyrir hornið sagði hún bara að við ættum að „fara heim núna“. Við göngustíginn var svo hlið og þar var líka vörður. Tvær löggur á sama mótorhjólinu virtust síðan bara rúnta upp og niður stíginn – sá sem sat aftan heilsaði mér alltaf, veifaði. Nadja sagði að það væri augljóst að hann væri að heilsa mér og ekki henni. Mín kenning er sú að hann hafi lesið Illsku sem kom út á spænsku í fyrra. Ég sé ekki að þetta geti stafað af neinu öðru. Annar maður heilsaði mér líka sérstaklega, hálftannlaus bóndatýpa með stráhatt – fyrsti maðurinn sem við mættum á göngustígnum. Hann sagði „What’s up, hermano!“ og var mjög hress. Það er ekki mikið af tveggja metra háum mönnum hérna og enginn þeirra sem ég hef hitt gengur með kúluhatt. Útsýnið. Þarna sést grilla aðeins í hornið á skiltinu fyrir miðri mynd. Annars er það falið í gróðrinum. Þegar við vorum komin upp dáðumst við að útsýninu og hlustuðum á partílætin úr bænum – það var einhvers konar karnival í gangi, sem við vissum ekkert um – og keyptum okkur hvort sinn melónubitann. Eða Nadja keypti melónubita fyrir okkur bæði – ég keypti engan melónubita, en fékk samt. Ég var mjög sveittur. Á leiðinni til baka komum við við í búðinni og keyptum í matinn – til að gera karelskar pírökur og plokkfisk. Það er frekar dýrt að versla í matinn hérna, merkilegt nokk – margt er ódýrara en svona random innkaupakarfa fer auðveldlega upp í 20 þúsund kall. Við fórum í 15 í þessari ferð. Sennilega munar mest um eitthvað svona dót sem er sjaldgæft hérna – seríóspakkinn var dýr, líka quorn-gervikjötið og sápa sem var ekki 99% lyktarefni var dýr. Mjólk var ekki dýr og ekki heldur hvítur fiskur – vel að merkja. Fengum frosinn vartara, sennilega hátt í kíló, fyrir rétt rúmlega þúsundkall. Föt eru ódýr – mikið af fataverksmiðjum í landinu. Í dag gerði ég pírökurnar en á morgun verður eitthvað afmælis og ætli plokkfiskurinn verði þá ekki á þriðjudag. Af bíóferðum okkar Arams er það að frétta að nýja Spiderman myndin verður frumsýnd fjórða júlí og hún kemur vonandi í staðinn fyrir Dark Phoenix plönin. Þá á undan sáum við einmitt með Hauki Má í sérstakri feðgaferð til Berlínar um árið. Það var góð ferð.
Sundhettur og kvennabúr
Nú held ég dagbók þriðja daginn í röð og varla annað hægt. Ég var svo illa fyrirkallaður í gær og allt eitthvað svo hrikalega ómögulegt. En svo rættist nú bara úr deginum þrátt fyrir allt. Fyrst komst ég aftur á skrið í skrifunum og það er einfaldlega allt betra þegar mér gengur að skrifa. Bíllinn var síðan víst ekki á verkstæði og eftir vinnu keyrði ég gengið í eitthvað hoppuland og fór sjálfur í mallið – keypti mína langþráðu gítarstrengi, nýtt slide og þumalneglur, nýja sundskýlu, sundhettu (svo ég brenni ekki á skallanum ef ég syndi í sólinni) og nærföt. Svo brunaði ég heim, pantaði mexíkóskan mat fyrir alla, fór í ræktina, át matinn (sem var góður), las fyrir krakkana, við Nadja fórum út í garð í göngutúr og settumst við laugina og spjölluðum heillengi áður en við fórum aftur upp og kláruðum Chernobyl-seríuna. Svo las ég eitthvað fram á nótt eftir að hún sofnaði. Svaf yfir mig í morgun. Samt vakna ég alltaf síðastur. Stilli vekjaraklukkuna á níu. Í morgun vaknaði ég tuttugu mínútur í tíu og hafði einfaldlega sofið af mér hringinguna. Át morgunmat og skrifaði inni í herbergi – ég þarf að fara að læsa inn til mín, heimadrengurinn Rion ryðst alltaf inn til mín og vill fara að spila á gítarinn minn. Þegar ég missi einbeitinguna – ef ég er þá búinn að finna hana – tekur það mig oft langan tíma að ná aftur tökum á sögunni. Augnabliks truflun á hálftíma fresti getur þannig gert vinnudaginn að engu. Á endanum fór ég niður að laug og vann þar undir svínheitri sólinni – af því ég var að lesa grein um rannsókn þar sem var fullyrt að fólk sem sólaði sig ekki nóg, af því það væri svo upptekið af því að sólskin væri óhollt, dræpist fyrr og fengi krabbamein og ég veit ekki hvað – synti svo minn eina og hálfa kílómetra og fór upp að éta og lesa það sem ég skrifaði í morgun. Niðri við laug var hópur af konum sem sat í skugganum og spjallaði. Ég hef áður sagt að maður sjái sjaldan karlmenn hérna á flandri en það er ekki alveg satt – hér er nokkuð af vinnandi karlmönnum. Þeir ganga um með verkfæri, stiga, kúst og fæjó og ýmsar vélar. Nokkrar konur vinna svo líka í móttökunni og við skúringar innanhúss. Karlar kvennana sem lóna niðri við laug með eða án barna eru svo allir einhvers staðar að reka fyrirtæki, sinna frama í stjórnmálum eða skipuleggja glæpastarfsemina í þessu landi. Flestir sennilega bara að reka lítil fyrirtæki samt – virka allavega meinleysislegir. En það sló mig samt í morgun þar sem ég sat niðri við laug – og vann, vel að merkja! – að Panorama væri einsog hálfgert nútíma harem eða kvennabúr, geymslustaður fyrir konur og börn þeirra sem mega sín mikils. Einu konurnar sem ég þekki hérna eru reyndar hámenntaðar og Nadja er auðvitað bara í sumarfríi og Yi í eins konar síðbúnu mæðraorlofi og það getur vel verið að eitthvað svipað eigi við um margar aðrar konur í húsinu. Ég hef séð á Twitter tilkynningar um mótmæli víðs vegar um landið en það hefur enn ekkert spurst til óeirða hérna. En það gæti átt eftir að breytast í kvöld. Ef allt er í rónni förum við hugsanlega á rand á morgun, kíkjum á markað og eitthvað. Sjáum til.
Fótboltastríðið
Þetta er svolítið farið að leggjast á sálina. Ég hef sama og ekkert skrifað í þrjá daga. Ef ég tel daginn í dag, sem er í sjálfu sér ósanngjarnt – hann var að hefjast. Ég fór líka ekkert niður að laug, sat bara í herberginu okkar og hlustaði á suðið í loftkælingunni þar til mér fannst einsog hausinn á mér ætlaði að springa. Þá slökkti ég á loftkælingunni og sat bara og svitnaði í staðinn. Hér er engin sérstök hitabylgja en samt jafn heitt og í hitabylgjunni á meginlandi Evrópu. Ég hef synt 1,5 kílómetra annan hvern dag og ef ég fer eftir hádegi er laugin hlandvolg og þung gegnumferðar. Það verður ekkert af helgarferðinni á lúxushótelið við ströndina. Ég var svo sem búinn að spyrja að því áður hvort valdaránsafmælið á föstudaginn gæti ekki haft áhrif á ferðaplönin – án þess að fá beinlínis svar – en þegar ég svo spurði við matarborðið í gær þar sem mágur minn var með, hvort það hefði engin áhrif, þá sagði hann bara: Já, nei, einmitt, nei þá förum við ekki neitt. *** Í gær rifjaði ég upp fótboltaleikinn sem olli stríði – þegar El Salvador vann Hondúras 3-2 í þriðja leik liðanna um sæti á HM árið 1969. Það birtist grein á BBC. Í dag eru liðin 50 ár frá leiknum – ég skrifaði fyrst 30 en breytti því svo í 40 og loks í 50. Það eru 50 ár frá 1969. Sem þýðir að allir hippar eru orðnir ellilífeyrisþegar. Þetta var útúrdúr. Þann 27. júní árið 1969 mættust löndin – leikurinn fór fram í Mexíkó og það eru ýkjur ef ekki hreinlega lygi að segja að leikurinn hafi valdið stríðinu. Það hafði verið ansi stirt milli landanna um hríð – aðallega út af innflytjendamálum, merkilegt nokk þá flykktust El Salvadorbúar til Hondúras í leit að vinnu eða ræktarlandi. Bæði löndin bjuggu við talsverðan skort á landi fyrir innlenda bændur – af því amerískir kapítalistar áttu allt – en skorturinn var sýnu verri í El Salvador sem er miklu minna land með nokkuð fleiri íbúa. Sama dag og leikurinn fór fram – en fyrir leik, vel að merkja – slitu El Salvadorsk yfirvöld á stjórnmálasamband við Hondúras. Leikurinn vannst svo á lokamínútunni þegar Pipo Rodriguez laumaði boltanum framhjá markverði Hondúrasmanna, Jaime Varela. El Salvador vann – og rúmum hálfum mánuði síðar gerðu þeir innrás í Hondúras. Stríðið stóð í örfáa daga en talið er að um þrjú þúsund manns hafi látið lífið, meirihlutinn af þeim óbreyttir hondúrasbúar. *** Það gafst heldur ekki tími til að koma bílnum í viðgerð í gær. Þetta er líf margra flöskuhálsa. Við erum að reyna að skipuleggja ferð til Utila og/eða Guatemala en það strandar alltaf allt og virðist vera ómögulegt. Mágur minn fær eðlilega ekki auðveldlega frí – það er eitt (og pælingin er að fara saman). Í öðru lagi er ómögulegt að segja fyrir um ástandið með neinum fyrirvara og ef maður bókar ekki með fyrirvara þarf maður að borga meira en við höfum efni á. Svo er bara alltaf áhætta að keyra – ekki á ofbeldi, vel að merkja, heldur bara á að sitja fastur. Það eru mjög vinsælar mótmælaaðgerðir að loka þjóðvegunum. Annar flöskuháls er svo að hér fara heimilismenn varla úr húsi milli 9 og 15 vegna sólar – mér finnst það alveg í það hysterískasta sjálfum. Við erum yfirleitt ekki búin að borða morgunmat klukkan 9 og síestan teygist oft til 17 – þá er farið út í einn klukkutíma. Í sjálfu sér gæti maður farið út í garð á kvöldin þegar börnin eru sofnuð en það eru allir alltaf svo þreyttir á kvöldin. *** Dark Phoenix virðist vera hætt í sýningum. Svo það verður líklega heldur ekkert úr bíóferðinni sem ég lofaði Aram (og féll niður út af byltingartilrauninni í síðustu viku). Mig langar að fara í mallið í dag. Aðallega til að komast úr húsi – en mig vantar líka betri sundskýlu og þykkari strengi í gítarinn. En mallið er líka svo þrúgandi – viðstöðulaus hávær og viðbjóðslega leiðinleg tónlist og hvergi afdrep.
Pizza Forno og Pizza Escopazza
Við erum búin að endurbóka ferðina á lúxushótelið við ströndina. Ætluðum að fara á síðustu helgi en þurftum að hætta við vegna mótmæla – þjóðvegirnir voru meira og minna lokaðir – en förum nú á laugardag í staðinn. Það er alls ekkert víst að það gangi upp samt. Á föstudag eru nefnilega liðin tíu ár frá því hægrimenn/kapítalistar/herinn stálu hér völdum með fulltingi bandarískra yfirvalda. Ef mótmælendur kjósa að minnast þess, t.d. með því að gera byltingu, þá er ósennilegt að við komumst á ströndina. Einangrunin á Panorama hefur annars bara aukist. Bíllinn er á verkstæði og eina leiðin úr húsi sú að taka leigubíl. Sem er í sjálfu sér ekki stórmál en við höfum ekkert látið það eftir okkur og þar með ekki farið úr húsi síðan í innkaupaleiðangrinum langa á laugardag. Eða ekki út fyrir grindverkið – og varla að ég hafi farið úr húsi í gær heldur, bara í nokkrar mínútur, annars hef ég bara setið uppi á herbergi og skrifað. Fór í ræktina og hljóp svolítið en hún er innanhúss. Í herberginu er stór gluggi – svo að segja einn heill veggur veit út. Fyrir augunum hef ég alltaf frumskóginn og fjallið – þetta útsýni hér (þótt myndin sé tekin af svölunum í stofunni). Það er líka talsverður fuglasöngur – mikið af smáfuglum niðri í trjánum og eitthvað af stærri ránfuglum sem sveima yfir. Ég veit næstum jafn lítið um fugla og ég veit um plöntur en segjum bara að þetta séu kólibrífuglar þarna niðri og kondórar uppi í loftinu. Mér finnst það hljóma sennilega – hljómar mið-amerískt. Nei, djók, þetta er ábyggilega eitthvað allt annað. Þrestir og mávar. Þetta er svo útsýnið í hina áttina – yfir borgina. Upp úr þessu landslagi stendur reykur hér og hvar þegar mótmælin klímaxa. Það eru á að giska tveir kílómetrar niður í miðbæ. Rafmagnið fer reglulega á Panorama. Það er svo sem ekki mikið áfall fyrir Vestfirðing að rafmagnið fari annað veifið en ég velti því fyrir mér hvernig sé þá með rafmagnið í öðrum húsum í öðrum hverfum. Innviðir hérna virðast almennt í tómu rugli – umferðin og umferðarstýring þar á meðal, mikið af gatnamótum þar sem væru augljóslega umferðarljós ef það væru til peningar fyrir þeim. Ónýtar götur, skrítnir botnlangar. Annars tekur fólk líka takmarkað mark á umferðarljósunum og læðist bara yfir ef það gefst glufa. Þá er auðvitað ekki drykkjarvatn í krönunum – en það er svo sem víða þannig. Í gær rákust krakkarnir á einhverja stráka með dólg úti við laug. Þeir voru að sögn fram úr öllu hófi frekir og dónalegir, sífellt að hrindast og með læti. Nadja var eitthvað að íhuga að fara í móttökuna og reyna að komast í samband við foreldra þeirra til að ræða þessa hegðun. Ég sagði ekkert en ofandaði svolítið með sjálfum mér yfir að foreldrar þeirra væru ábyggilega bara einhverjir gangsterar og við myndum öll vakna með hrosshöfuð í rúminu í kjölfarið. Það er slatti af hrossum þarna niðri í skóginum, að því er virðist í lausagöngu, og sveðjur eru staðalbúnaður sem fæst í öllum matvöruverslunum. En svo nennti hún ekki að standa í því og ég andaði léttar. Einn fylgifiskur þess að vera bíllaus er sá að við eigum alltaf minni og minni matvöru. Í gær tókst mér með talsverðri fyrirhöfn að búa til Hondúrskan reikning á Appstore svo ég gæti náð í appið sem maður notar til að panta sér mat hérna. Fyrst pantaði ég pizzu af Forno en þegar hún var ekki komin eftir klukkutíma pantaði ég af Escopazza og það virkaði betur. Hjónin á heimilinu ætluðu út að borða saman og planið var að erfinginn yrði heima hjá okkur en hann strækaði svo algerlega á það – ætlaði reyndar hvorki að fara með mömmu sinni (sem hann hefur nánast aldrei skilist við) leyfa henni að fara. Hélt bara í hana dauðahaldi svo hún færi ekki út – hann ætlaði að fá pizzu, horfa á mynd með okkur en hafa mömmu sína hjá sér. Það endaði samt með því að hann elti þau út. Forno-pizzan er enn ekki komin og ég veit ekkert hvað við borðum í kvöldmat í dag. Kannski deyjum við bara úr hungri á meðan við bíðum eftir að bíllinn komi úr viðgerð. Það er annað hvort það eða hringja á leigubíl.
Bilað fingrafar, Bush forseti og Burger King
Í gær var ég í lyftunni á leiðinni úr bílakjallaranum upp fílabeinsturninn endilangan þegar lyftan staðnæmdist og inn kom trúboðalegur maður – svört jakkaföt, nafnspjald í barminum, grátt hár, snyrtileg miðaldra kona í kjól með honum, bæði með vingjarnlegt en strangt augnaráð. Hann ávarpaði okkur á spænsku en virkaði samt amerískur – kirkjan sem hann var merktur bar spænskt nafn. Eitthvað um Jesú Cristo. Sjálfur maðurinn hins vegar hét „Presidente Bush“. *** Það er ekki alveg laust við að maður fái snert af kofabrjálæði af að vera hérna. Ekki skil ég hvernig þeir díla við þetta auðkýfingarnir sem eiga heima hér allan ársins hring. Þeir láta stjana við sig – leggja ekki í bílastæðahúsinu heldur keyra bara upp að lobbíinu, stíga út með börnin og láta starfsmennina leggja bílnum og bera vörurnar upp í íbúð. Fyrir þetta tipsa þeir – mér skilst að starfsfólkið geri nánast hvað sem er fyrir tips ef hægt er að koma því við. *** Ég var mjög duglegur að læra spænsku með duolingo áður en við komum. En svo þvarr mér þróttur eiginlega strax og ég kom. Ég heyri líka frekar litla spænsku í kringum mig – talsverða sænsku, ensku, íslensku og svo kínversku. Ef frá er talin veitingastaðarferð okkar Nödju í síðustu viku hef ég heldur ekki borðað neitt sem gæti talist „hondúrskur matur“ – við höfum borðað kínverskt og evrópskt hér heima og úti í bæ hef ég étið pizzur og farið á Burger King. Það er mikið úrval af bandarískum keðjum hérna, alls konar sem maður hefur aldrei prófað – Denny’s og Cinnabon og fleira. Annars skilst mér að hondúrskur matur sé bara mexíkóskur matur með engu kryddi. Ég ætla að stinga upp á því við Nödju að við förum næst á einhvern mexíkóskan stað. Ég ætti kannski að nota það sem hvata til að læra meiri spænsku – að geta pantað mér tacos. *** Fingrafarið mitt hætti að virka í vikunni. Bara strækaði alveg. Ég komst ekki lengur upp með lyftunni eða út í garð eða neitt. Þurfti að fara og láta skrá nýjan fingur. Ég hef verið duglegur að grípa í gítarinn – kannski er þetta þess vegna, fingurnir láta á sjá. Almennt hefur trú mín á mátt fingrafaravísindanna líka farið mjög dvínandi síðan ég kom. Það eru allir í stöðugum vandræðum með þetta – stinga fingrinum fimm-sex sinnum í lesarann áður en þeir fá grænt ljós. Ég skil ekki hvernig þetta á síðan að gagnast við að elta uppi glæpamenn – eða hvaða gagn það gerir að skanna fingraförin þegar maður kemur inn í landið ef tækin bera svo bara ekki kennsl á þau þegar þau skjóta upp kollinum næst. Hugsanlega er bróðurparturinn af öllum glæpamönnum heimsins saklaus. Að minnsta kosti þeir sem voru sakfelldir á grundvelli fingrafara (fólk ofmetur líka DNA mjög mikið). *** Stundum ranka ég við mér einhvers staðar og hugsa: Já, einmitt, ég er í Hondúras. Yfirleitt er ég þá kominn út af hótelinu – stend á bílastæði einhvers staðar eða sit fastur á rauðu ljósi á meðan einfættur maður leikur kúnstir með hækjuna sína fyrir framan bílinn og götubörn þrífa hjá mér rúðuna með skítugri tusku. Svo kem ég aftur heim á Panorama, skelli mér í laugina með krökkunum og þá er einsog ég sé einhvers staðar annars staðar.
MEL og JOH og Maiden og Madonna
Ég get ekki lofað því að ég muni senda út daglega tilkynningu um að við lifum enn – en við lifum allavega enn. Og raunar, svo það sé nú alveg rækilega undirstrikað, þá erum við eins örugg og við getum orðið. Það hættulegasta sem gerist í okkar lífum er þegar við hlaupum á sundlaugarbakkanum (sem við gerum auðvitað ekki, það er stórhættulegt og alveg bannað). Mér finnst reyndar líka húsfreyjan hérna svolítið frökk að þíða kjúkling á eldhúsborðinu í 31 stiga hita – og skjóta skökku við að hún vilji geyma eggin og smjörið í ísskápnum – en þetta er ekki mitt eldhús og ég reyni að skipta mér ekki af. Svona gerir maður þetta ábyggilega í Peking og þá verður bara það gott að heita. Fáein atriði sem er ágætt að fá á hreint. 1. Við fjölskyldan – ég, Nadja, Aram og Aino – förum yfirleitt til Svíþjóðar og Finnlands á sumrin. Það er hluti af dílnum sem ég gerði þegar ég dró Nödju til Íslands með mér. Við verðum líka einn vetur – sennilega þarnæsta – í Svíþjóð svo krakkarnir fái að prófa sænskan skóla. Í ár ákváðum við hins vegar að fara til Hondúras í staðinn. Hér býr bróðir Nödju, Yesper, sem vinnur fyrir flóttamannahjálp Sameinuðu Þjóðanna, ásamt konu sinni, Yi, og syni þeirra, Rion. Áður var Yesper í Tansaníu en þar var ekki hægt að hafa fjölskylduna hjá sér. Þá voru Yi og Rion bara í Peking og hittust frekar sjaldan – öðruvísi en í gegnum tölvu. Ég segi stundum að við höfum komið hingað til að kenna kínversku barni sænsku og það er ekki alveg lygi. Rion talar samt alveg svolitla sænsku og skilur svo til allt. Við komum líka hingað til að hanga með Yesper og fjölskyldunni hans enda hittum við þau annars lítið – þegar þau fara til Svíþjóðar erum við á Ísafirði og þegar við förum til Svíþjóðar eru þau í Peking, Tansaníu eða San Pedro Sula. 2. Nafnið á blogginu og slóðin. Hondurass/Hondurumpa. Það sló mig á einhverjum tímapunkti að þetta væri sennilega rakinn dónaskapur – ég væri að kalla landið einhvers konar „anus mundi“ , rassgat heimsins – en þá var það orðið of seint. Hér er lífið vissulega erfitt fyrir flesta en það er líka mjög fallegt og fólk er upp til hópa vinalegt og gott. Þetta er líka góður staður – ekki anus mundi. Nafnið er frá Aino komið – ég held þannig að hún var að útskýra fyrir vinkonu sinni hvert hún væri að fara og þeim fannst mjög fyndið að landið héti rass. Rumpa er reyndar fyrsta orðið sem ég lærði á sænsku. Þá var ég 11 ára – þetta var sumarið 1989 og ég var á Benal Beach á Benidormi, hóteli sem að mörgu leyti svipar til Panorama í San Pedro Sula. Þar kynntist ég sænskum strák sem hét Stefan og var alltaf að reyna að fá mig til að hlusta á Iron Maiden – og ég að reyna að fá hann til að hlusta á Madonnu (innan við ári seinna dömpaði ég Madonnu fyrir Maiden, en það gerðist ekki þetta sumar). Hann spurði mig hvort ég vissi hvað rumpa þýddi á sænsku og þegar ég sagði nei sneri hann sér við í lauginni, fór í hálfan kollhnís og rak rassinn upp úr vatninu. 3. Fyrir nokkrum árum fundust gamlar rústir í Moskitía regnskógunum í Hondúras – talið er að þetta sé frumskógarborgin sem Charles Lindbergh sagðist hafa flogið yfir á sínum tíma. Nú voru menn að finna þar ótal sjaldgæfar dýrategundir og þar af einhverjar sem taldar voru útdauðar, meðal annars tígrisbjöllu sem hafði áður einungis fundist í Níkaragúa. Hundruð fiðrildategunda, tugi leðurblakna, tugi skrið- og froskdýra og svo framvegis. Segið svo að það gerist aldrei neitt spennandi hérna! 4. Lætin eru gengin niður í bili. Óeirðirnar búnar. Ég tók vel að merkja ekki myndirnar sem birtust í síðustu færslu – þetta er bara fengið af netinu. Helsta krafa mótmælenda og verkfallsmanna er að forsetinn, Juan Orlando Hernandez (kallaður JOH) segi af sér – dropinn sem fyllti mælinn var að hann ætlar að einkavæða skóla og heilbrigðiskerfi, en seta hans á valdastóli er þess utan talin ólögmæt af flestum. Í Hondúras var ekki frír skóli fyrir börn – eða matur í skólum – fyrren Manuel Zelaya (kallaður MEL) var kosinn árið 2005. MEL var kosinn sem íhaldsmaður – sonur auðkýfings, úr sömu stétt manna og Trump – en snerist svo bara í embætti og gerðist fljótlega bandamaður Rauls Castro og Hugo Chavez. Einsog ég sagði frá í síðustu færslu var honum vikið til hliðar af auðjöfrum, hernum og Bandaríkjastjórn (sem þóttist samt standa með honum – það kom fram í Hillarypóstunum að í raun unnu þau gegn honum). MEL var líka umdeildur og sakaður um spillingu og margir sem mótmæltu honum og töldu að hann væri að reyna að breyta stjórnarskránni svo hann gæti boðið sig fram aftur – í Hondúras mega forsetar bara bjóða sig fram í eitt kjörtímabil. Hann sagði það sjálfur af og frá og fullyrti í viðtali skömmu fyrir valdarán að hann hefði fullan hug á að sitja bara sitt eina kjörtímabil og ekkert meir. Ég held síðan að það verði samt að hafa í huga að í Mið- og S-Ameríku er varla að finna einn einasta forseta sem hefur ekki verið sakaður um spillingu og þeir voru ábyggilega flestir að minnsta kosti svolítið sekir. Ég reikna fastlega með því að spillingarásakanirnar í garð MEL eigi við rök að styðjast – tölfræðin er þannig að ég tel hann bara sekan þar til sakleysi hans er sannað. Svona er ég sínískur. Á milli MEL og JOH var svo einn forseti (eða tveir, ef maður telur starfandi forseta eftir valdaránið með), Porfirio Lobo Sosa (kallaður Pepe Loba). Loba virðist hafa komist í gegnum sitt kjörtímabil án mikilla vandræða. Hann var íhaldsmaður og bauð sig fram fyrir Þjóðarflokkinn – var gagnrýndur af Human Rights Watch fyrir að láta blaðamenn hverfa en hampað af Obamastjórninni fyrir að stofna sannleiksráð til að grafast fyrir um valdaránið sem kom honum til valda. JOH var kosinn árið 2014. Hann er líka meðlimur í Þjóðarflokknum. Hann er fimmtánda af sautján börnum foreldra sinna og menntaður í Bandaríkjunum. JOH hefur löngum verið talinn gerspilltur á alla mögulega vegu og í síðasta mánuði veittu bandarískir saksóknarar aðgang að skjölum sem sýndu að hann og systkini hans voru alvarlega grunuð um þátttöku í eiturlyfjasmygli og peningaþvætti. Bróðir hans – Antonio, fyrrverandi þingmaður fyrir Þjóðarflokkinn – var handtekinn í Bandaríkjunum í nóvember síðastliðnum fyrir að smygla fleiri tonnum af kókaíni sem hann hafði merkt með upphafsstöfum sínum. JOH sór fyrir að hafa gert neitt rangt sjálfur og sagðist eiga í góðu samstarfi við DEA. Sýnu alvarlegast þykir þó að JOH gerði það sem MEL var sakaður um að reyna. Hann bauð sig fram aftur árið 2017. Greinin um að maður megi það ekki er ein af þremur greinum stjórnarskrárinnar sem er einfaldlega bannað að hrófla við – það heita landráð. Hæstiréttur samþykkti samt framboð hans – með tveimur atkvæðum gegn einu og hann vann kosningar sem alþjóðlegir eftirlitsaðilar töldu engan veginn lýðræðishugsjónum sambjóðandi en Bandaríkjamenn fögnuðu sem stórsigri fyrir lýðræðið á svæðinu. Eitt af stærstu kosningamálum JOH var að senda herlögregluna út á göturnar til að gæta öryggis. Það segir sitt um það hversu öryggir Hondúrasbúar telja sig á götum að það teljist vænlegt til vinsælda að lofa því að setja skriðdreka á öll götuhorn. Síðasta áratuginn – frá því MEL var hrakinn úr embætti – hafa útgjöld til mennta- og menningarmála dregist saman um 40%. Laun hafa verið fryst og allar fjárfestingar bannaðar – hér þarf ekki að spá í mygluðum skólastofum, sumir skólar eru asbestmengaðir og ekkert gert í því. Sama gildir í heilbrigðisgeiranum. Í San Pedro Sula eru engar mæðraskoðanir og bara tekið á móti neyðartilfellum. Það eru ekki einu sinni til sárabindi á spítölunum. 5. Við förum sennilega ekkert á þetta lúxushótel við ströndina á morgun. Frestum því um viku. Það er víst vandkvæðum bundið að komast um þjóðvegina eftir ólætin í gær og fyrradag. Það er óhætt að fara niður í bæ aftur – eða eins óhætt og var, keyrandi og svona – svo við erum búin að versla í matinn og allt í góðu. Væsir ekki um okkur. Útsýnið yfir þetta gúlag kapítalismans er óneitanlega gott héðan af sextándu hæðinni og ef rétt stemning myndast er aldrei að vita nema við hendum nokkrum mólotovkokteilum niður af svölunum – þó ekki væri nema bara til að sýna lit.
Hinn myrki fönix
Það skemmtilega við að blogga frá og um Hondúras er að ef ég blogga ekki í nokkra daga – þrjá núna – fer fólk að gera ráð fyrir að ég hafi verið skotinn. Eða í það minnsta tekinn til fanga – haldið gegn lausnargjaldi. Þetta eykur eftirspurnina eftir skrifum mínum mikið. Ég þarf að finna einhverja leið til að beisla þessa eftirspurn á bókamarkaði. *** Fyrsta áratug þessarar aldar vísuðu Bandaríkjamenn úr landi um fimmtíu þúsund Hondúrasbúum sem gerst höfðu sekir um glæpi, mikið til í tengslum við starfsemi glæpagengja. Þetta er um fimmtungur allra sem hefur verið vísað úr landi til Mið-Ameríku fyrir að brjóta lögin. Útflutningur upp á fimm þúsund gengismeðlimi á ári – bara til Hondúras. Trump vill meina að fara til Bandaríkjanna frá Mexíkó og Mið-Ameríku séu allt meira og minna glæpamenn (og laumu-múslimskir hryðjverkamenn) – en í raun væri sennilega eðlilegra að snúa þessu við, þótt flæðið sé auðvitað í báðar áttir. Gengin sem ráða lögum og lofum í Hondúras – MS-13 og Barrio 18 – eiga nefnilega uppruna sinn að rekja til Los Angeles og tök sín á Mið-Ameríkulöndunum að þakka þessum brottrekstri. Bandaríkjamenn – Bush II, Obama og nú Trump – hafa sturtað glæpamönnum yfir þessar þjóðir á þeirri forsendu að þar séu þeir uppurnir og glæpir þeirra séu á ábyrgð stjórnvaldanna sem gáfu út vegabréfið þeirra. En glæpamennirnir ólust upp á götum Los Angeles – verða sennilega til þar í tómarúminu og fátæktinni sem umlykur óskráða götustráka – þeir eru jafn miklir Bandaríkjamenn og Arnold Schwarzenegger eða Steve Jobs. Fólkið sem flýr til Bandaríkjanna í dag og síðustu tvo áratugina er ekki síst að flýja ofbeldi þessara bandarísku gengja – og afleiðingar þess. Auðvitað eru í dag margir hér í þessum gengjum sem hafa aldrei komið til Bandaríkjanna en þetta er nú samt sú leið sem gengin komu hingað – þetta eru bandarískar keðjur, Burger King og McDonalds glæpaheimsins, og hatrammir andstæðingar sérstaklega vegna átaka um Mið-Ameríkulöndin. Og þau bera ábyrgð á því brjálæðislegri morðtíðninni í Mið-Ameríku. Um það þarf ekki einu sinni að deila. San Pedro Sula gegnir hér sérstaklega stóru hlutverki enda fara næstum allir landflutningar frá S-Ameríku til N-Ameríku í gegnum borgina. Hún er hliðið sem skilur heimsálfurnar að. Flóttamenn, eiturlyf, vopn – allt fer þetta hér í gegn. *** Bandaríkjamenn bera sök á fleiru en bara gengjunum. Þeir hafa alltaf haft mikil undirtök á svæðinu. San Pedro Sula og nágrannasveitir voru yfirráðasvæði bananakapítalista frá síðustu áratugum nítjándu aldar. Samuel nokkur Zemuray stofnaði Cuyamel Fruit Company og varð síðar forstjóri United Fruit (sem í dag er þekkt sem Chiquita), hér hafði hann sínar höfuðstöðvar, og næstum því allt land í nágrenni borgarinnar var í eigu bandarískra auðjöfra – það þýddi lítið að ætla að vera bóndi þótt nóg væri af frjósömu landi, þá fékk maður bara einhverjar morðsveitir í hausinn. Þetta er gömul saga og ný. Þegar auðjöfrunum leist síðan ekki nógu vel á yfirvöld var líka hringt í málaliða og skipt um yfirvöld. Það var ekki nóg með að Hondúras væri sjálft alltaf undir hæl Pentagon – svoleiðis að það var lengi kallað „The Pentagon Republic“ – heldur var San Pedro Sula og svæðið í kring meira og minna fríríki á vegum bananakapítalistana. Hondúras og löndin í kring eru hin upprunalegu bananalýðveldi – hér ráða bara peningar og hafa alltaf gert (og mjög fáir hér eiga nokkra peninga). Nú hefði maður svo sem getað ímyndað sér að margt hefði breyst til hins betra á síðustu áratugum. En í raun þarf ekki að leita lengra aftur en til 2009 þegar herinn framkvæmdi valdarán eftir að Hondúrasbúar kusu yfir sig frjálslyndan, vinstrisinnaðan forseta sem hafði boðið sig fram til að hækka lágmarkslaun og byggja upp lágmarks velferðarkerfi. Í orði kveðnu mótmæltu bandarísk yfirvöld en þau voru fljót að samþykkja samt nýjar (og mjög vafasamar) kosningar sem framkvæmdar voru af hernum, veita Hondúras aukna hernaðaraðstoð, og vinna gegn því að velferðarforsetinn fengi aftur sitt lögmæta embætti. Þetta var ekki Trump – þetta var í valdatíð Obama og það var Hillary (surprise, surprise) sem vann að þessu. Ástæðan er einföld. Frá því stærsta bananatímabilinu lauk hefur Hondúras og sérstaklega San Pedro Sula verið einn stærsti fataframleiðandinn fyrir bandarískar keðjur – séð Bandaríkjamönnum fyrir nærri fimmtungi sinna klæða. Velferð fyrir hondúrska verkamenn hefði kostað þessar keðjur gríðarlegt fé – ekki bara vegna launahækkana heldur líka vegna loforða um fæðingarorlof og öryggi á vinnustöðum (Bandaríkjamenn hefðu þurft að borga meira fyrir fötin sín – eða, sem er ennþá líklegra, merkin hefðu orðið undir í samkeppni við þá sem framleiða föt sín annars staðar). Keðjurnar hótuðu að fara – hondúrskir valdamenn tóku til sinna ráða, hringdu í herinn, og létu Bandaríkjamenn svo kvitta upp á allt saman. Hillary – og Obama – voru handgengin Wall Street og gengu þeirra erinda. Niðurstaðan er sú að nú er fátæktin að gera út af við fólk – ofan í ofbeldið – og fólk fer ef það mögulega getur. Margir þeirra sem fara eru reyndar börn og mörg þeirra eru að flýja óvalkvæða þátttöku í bandarísku gengjunum. Og fátækt. Líkt og flestir flóttamenn í heiminum er fólkið að flýja margbrotna eymd – það er aldrei bara eitthvað eitt. *** Annars er ekki margt að frétta. Ég fór í annan leiðangur í bæinn – nú með Aram og sjálfur búinn að plotta leiðina. Það gekk bærilega. Erfiðast var að finna helvítis bílastæðið í kjallaranum þegar við komum til baka. Síðustu klukkustundir hef ég setið í skugganum úti við laug og skrifað. Ég er svolítið í því að berja af mér moskítóflugurnar og er aðeins bitinn – en blessunarlega eru þær ekki mjög margar, enda skilst mér að til að toppa alla aðra vitleysu hérna þá geysi dengue-pest í bænum – og hún berst með flugum. Beinbrunasótt heitir það á íslensku, segir Snara. Nadja segir að ef ég fái hita verði ég að fara á sjúkrahús. Ég þoli ekki sjúkrahús. Nadja er búinn að bóka eitthvað all-inclusive lúxus hótel fyrir okkur við ströndina á laugardaginn. Meira að segja frítt bús. Kostaði 40.000 kall en ég verð fljótur að drekka fyrir það. Ef það drepur ekki beinbrunasóttina þá gerir það ekkert. *** Megnið hér að ofan er skrifað í gær. Ég gleymdi bara að pósta. Nú er fleira að frétta. Við Aram ætluðum að fara í bíó í dag – ég lofaði honum Dark Phoenix í bíóinu í City Mall – en í dag vöknum við upp við breytta stöðu. Í gær stöðvuðu mótmælendur og verkfallsmenn alla bensíntrukka sem áttu leið í bæinn og það var vitað að sennilega yrðu bensínstöðvarnar bara tómar í dag – og frekar lítið eftir á bílnum. En það hefði þá alltaf verið hægt að taka taxa (þar til þeir verða líka bensínlausir). Staðan er svipuð í höfuðstaðnum, Tegucigalpa, en eitthvað af bensíntrukkum komst þó þar í gegn. Hér eru allir þjóðvegir inn og út úr borginni lokaðir. Í nótt geisuðu síðan óeirðir – brunnu eldar á sjö stöðum um borgina, þar af a.m.k. tveir alveg við City Mall. Þá hefur verið sagt frá því að lögreglan sé að skjóta (á) mótmælendur. Búðir opnuðu í morgun en þeim verður sennilega lokað fljótlega aftur. Meira en helmingur vinnandi fólks er heima í dag, fékk ég að vita frá mági mínum. Það er þá ekki bara að það sé nokkur hætta í því fólgin að fara niður í bæ heldur eru allar líkur á því að umferðin sé meira og minna stopp í allar áttir (hún er mikið stopp hvort sem er – en kannski ekki alveg pikkföst). Þetta er vel að merkja ekkert undantekningaástand og við eigum ansi gott sem tökumst á við það hérna megin við múrinn á þessu víggirta samfélagi – í kristalsturninum. Og í þetta sinn eru það allavega góðu gaurarnir sem eru að skapa vesenið – því fylgja heilmikil skrílslæti og gengin sæta færis til að sinna sínum erindum í ringulreiðinni – en þetta er samt aflið sem er að reyna að breyta einhverju til hins betra hérna. Fyrir utan Cinemark bíóið þar sem við Aram Nói ætluðum að sjá Dark Phoenix klukkan 20.05 í kvöld. Sennilega verður engin sýning.