Hálfárið – það er að segja seinni hluti ársins sem er að líða – hófst á nýjum hatti. Ég á afmæli 1. júlí og fékk nýjan kúluhatt frá Nödju af tilefninu – Stetson að þessu sinni, það er sama tegund og fyrsti hatturinn minn og fyrsti Stetsoninn frá því ég var 27 ára (og skipti yfir í Derby Country Gentleman). Ég fór síðan í tívolí, í alla rússíbanana með Aram, og nepalskt út að borða með fjölskyldunni. Tyrkland – Grikkland Fjórum dögum síðar flaug ég aftur til Istanbul. Þá voru liðnir sex dagar frá árásinni á Atatürk-flugvöll. Og mér stóð eiginlega ekki alveg á sama. Enda kom það á daginn að í Istanbul gerði það engum heldur. Stemningin var allt önnur en í fyrri ferðinni og fólk allt á nálum. Í fyrra skiptið var að vísu eitthvað rætt um að vegna Erdogans væri ekki hægt að bjóða hverjum sem er á bókmenntahátíðir sem hlytu styrk frá ríkinu – bæði kæmu andófsskáld ekki og svo væri ekkert ósennilegt að allt fjármagn glataðist. Einn sagðist þekkja vel til máls þar sem nokkrir menn höfðu tekið við hátíð sem látinn lærifaðir þeirra hafði rekið um árabil og þetta hefði komið upp – þeim hefði verið tilkynnt að annað hvort afturkölluðu þeir tiltekið boð eða þeir misstu peningana. Í því tilviki gáfu mennirnir sig – og þá með þeirri afsökun að þetta væri ekki hátíðin þeirra og þeir væru ekki í neinum rétti með að steyta henni á skeri út af prinsippmálum. En nú var stemningin sem sagt verri. Innlend skáld vildu alls ekki spóka sig á klassískum túristasvæðum með hópi vestrænna útlendinga – það væri einsog að líma skotmark á bakið á sér. Stemningin var kannski ekki alveg jafn ofsafengin og þegar ég var í Frakklandi nokkrum dögum eftir Bataclan-árásirnar – en hún var líka langþreyttari. Einsog það hefði nú þegar gengið alltof mikið á frekar en að þessi árás á flugvellinum væri einhver tíðindi í sjálfri sér. Þrátt fyrir þetta skemmtum við okkur nú ágætlega – kannski ekki síst við útlendingarnir. Í þetta sinnið var ég kominn til að hitta hóp af skáldum og ferðast með þeim í rútu frá Istanbul til Þessalónikku og lesa upp á leiðinni. Rútan hafði lagt af stað frá Helsinki einhverjum mánuðum fyrr og skipt um áhöfn vikulega. Þetta var næstsíðasti leggurinn en sá síðasti færi frá Þessalónikku til Kýpur. Mér skilst á þeim sem mættu á þessa viðburði í hinum ýmsu löndum að skipulagningu hafi að mörgu leyti verið áfátt – þótt það hafi líka verið upp og ofan. Skipulagning var alla jafna í höndum heimamanna. Í Tyrklandi var hún satt að segja hlægileg. Í Istanbul vorum um það bil fimmtán manns sem lásum upp í herbergi á stærð við meðalgóða borðstofu. Það voru að mig minnir þrír gestir í þessari fimmtu stærstu borg veraldar. Já og svo var búið að ráða töframann. Kýpverjarnir sem voru yfir túrnum höfðu hafnað öllum hugmyndum um töframann. Tyrkinn sem sá um skipulagningu innanlands sagði já, jæja, ok, það verður þá enginn töframaður og endurskírði viðburðinn einfaldlega „Literary illusions“. Skemmst er frá því að segja að það var ekki gerð minnsta tilraun til þess að bókmennta þessi töfrabrögð neitt upp – hann var bara að festa og leysa bönd í sundur, já og svo drap hann í sígarettu á bindi danska skáldsins, sem var lítið skemmt. Einhver orðrómur gekk um að töframaðurinn væri atvinnulaus frændi skipuleggjandans – því hann var eiginlega ekki mjög sannfærandi töframaður heldur – en hann fékkst aldrei staðfestur. Ein áhugaverðasta minningin frá Istanbul er síðan úr kvöldsiglingu á Bosporussundi. Þar var boðið upp á vín – sem Tyrkir kunna lítið að fara með; það hneykslaði Grikkina í ferðinni ólýsanlega mikið að fá stofuhlýtt hvítvín – og snittur á meðan við sigldum upp sundið og niður. Þegar við vorum að koma til baka og allir, að meðtöldum Tyrkjunum, voru komnir dálítið við skál og byrjaðir að dansa stoppuðum við fyrst asíumegin. Og þarna þar sem við kokteilspókuðum okkur og hlustuðum á Hotel California á fullu blasti, einsog við værum komin á seinnihluta grísaveislu á Costa del Sol árið 1991, byrjuðu bænaköllin í moskunum að blandast tónlistinni. Ég kann ekki að lýsa tilfinningunni – og kannski vil ég bara ekki hefja neinar klisjukenndar ræður um „mót menningarheima“ – þið hafið aðstæðurnar, annað hvort skiljið þið hvað ég á við eða ekki. Næst fórum við til Tekirdag þar sem við lásum upp fyrir Lionsklúbbinn. Það var ekki síður áhugaverð upplifun. Áhorfendur voru nokkru fleiri en í Istanbul og eftir upplesturinn vildu þeir allir láta taka af sér mynd með okkur. Okkur hafði skilist að við þyrftum að vera lögð af stað fyrir einhvern ákveðinn tíma til að ná að landamærunum í tæka tíð – því við áttum svo kvöldverðardeit við hóp af listamönnum í Kavala, Grikklandsmegin. Okkur var líka í mun um að ljúka þessum kurteisisatlotum af hið fyrsta því við vildum komast í göngutúr um bæinn áður en við þyrftum að fara. En þegar við ætluðum að fara í göngutúrinn kom skipuleggjandinn og tjáði okkur að við þyrftum að fara að sjá safn nokkurt – hann hefði lofað að við myndum koma og það væri dónaskapur að mæta ekki. Svo við fórum aftur upp í rútuna, pínu vonsvikin, og brunuðum á safnið. Þegar þangað var komið sagði skipuleggjandinn að við ættum að vera komin aftur eftir fimm mínútur. Við hváðum – og hann endurtók, fimm mínútur, bara inn og út. Við hlupum af stað inn á safnið – þar vorum við beðin um að pósa einsog við værum að skoða safnið á meðan teknar væru af okkur myndir. Sem við gerðum, enda kurteis og vel upp alinn og sennilega að drepast úr meðvirkni. Þegar við komum aftur í rútuna grínaðist ég með að nú færum við sennilega á annað safn. Sem stóð heima. Áður en yfir lauk höfðum við rúntað um öll helstu söfn bæjarins – sex eða sjö talsins – og látið taka myndir af okkur þar sem við þóttumst skoða alls kyns handverk og menningu (ég myndi hafa um söfnin fleiri orð ef ég myndi hvað var þar að finna – en þetta voru of miklar leifturheimsóknir til að nokkuð sæti eftir). Og þá var loks haldið til Kavala. Skipulagningin Grikklandsmegin var talsvert betri og því færri áhugaverðar sögur. Þótt Tyrkneskur matur sé góður – og að mörgu leyti svipaður og Grískur – þá eru Tyrkir meiri hedónistar og á tímabili leið mér einsog nú ætti að drepa okkur með mat og drykk. Við fengum þess utan góðan tíma til að skoða bæði Kavala og Þessalónikku og í Kavala héldum við okkar eigin lesstofu á hótelinu, þar sem við kynntum hvert fyrir öðru hluta af höfundaverki okkar – ég talaði um og las úr Óratorreki. Það var ótrúlega fínt kvöld, þótt þetta sé auðvitað líka mjög lúðalegt, ljóðskáld að lesa hvert fyrir annað og ræða verk sín í einrúmi og einlægni. Í Þessalónikku hittum við síðan hópinn sem tók við af okkur og lásum með stórum hópi fólks – og fyrir mjög stóran hóp fólks – á útisviði í miðbænum. Örfáum dögum eftir að ég kom aftur til Svíþjóðar var svo valdaránstilraunin í Tyrklandi. Ég vakti fram á nótt og spjallaði við vinkonu mína, tyrkneskt ljóðskáld, á Facebook. Það kom mér á óvart hvað fólk var tilbúið til að trúa hverju sem er upp á Erdogan – svo sem einsog að hann hefði fundið upp á þessu öllu sjálfur, sviðsett eigið valdarán, til þess að hafa afsökun fyrir því að sölsa sig undir sig enn meira vald. Hvað sem öðru líður, sannleikanum um það, þá hefur hann notfært sér ástandið til að gera einmitt það. Og það segir sitt um þjóðhöfðingja að óbrjálaðir þegnar hans skuli óhikað trúa slíku upp á forseta sinn. Mér heyrist fólk núorðið bara lifa í viðstöðulitlum ótta. Rafmagnsgítarinn Áramótaheitið mitt í fyrra var að kaupa mér rafmagnsgítar og læra að spila Appetite for Destruction. Ég var duglegur í Svíþjóð að heimsækja hljóðfæraverslanir og skoða gítara. Ég spilaði lengi á gítar þegar ég var unglingur en hef lítið snert hljóðfæri síðustu 15-16 árin, sérstaklega ekki rafmagnsgítara. Í fyrra var mér boðið í tíu ára brúðkaupsafmæli vina minna og þar var ég látinn spila á gítar í hljómsveit – örfá lög – og þá byrjaði löngunin að láta á sér kræla aftur. Ég vildi samt ekki eyða neinum ægilegum fjárhæðum í þetta ef ske kynni að þetta væri bara della sem liði svo hjá. En var hræddur um að ég væri einfaldlega of góðu vanur til að kaupa mér einhvern byrjendagítar. Á endanum keypti ég Epiphone SG PRO fyrir um 40 þúsund – óvenju gott eintak. Skemmst er frá því að segja að ég hef verið mjög duglegur að spila á hann og hef lært margt fleira en bara Appetite. Ég spila ekkert einsog neinn atvinnumaður en ég er samt bærilega lipur og á alveg mín móment. Og mér þykir mjög vænt um SG-inn minn. Í ágúst komum við svo heim og byrjuðum eiginlega á því að fara í útilegu. Nadja hafði aldrei komið á sunnanverða Vestfirðina svo við brunuðum þangað – skoðuðum Dynjandi, Skrímslasafnið (sem er magnað), fórum á Uppsali og í Selárdal að skoða verk Samúels Jónssonar. Gistum svo í tjaldi á Bíldudal. Daginn eftir keyrðum við út á Rauðasand, skoðuðum byggðasafnið og flugvélaflakið á Hnjóti, fórum í sund á Birkimel og átum kvöldmat í Flókalundi áður en Nadja – sem er með æfingaleyfi – keyrði heim yfir heiðarnar í blindaþoku. Við vorum rétt komin heim þegar okkur barst heimsókn frá Svíþjóð – tveir æskuvinir Nödju, sem hafa verið saman frá því að þau voru börn, og börnin þeirra. Með þeim fórum við í Skálavík og upp á Bolafjall (í svartaþoku) og á Ríkharð III í kirkjunni á Suðureyri. Það var ekki síður skemmtilegt. Myglan Hér myndi ég skrifa langa sögu um baráttu mína við mygluna í bílskúrnum og mygluna undir eldhúsvaskinum, mælingar heilbrigðiseftirlitsins, alls kyns ofnæmispróf og læknisheimsóknir, það þegar ég reif upp allt eldhúsgólfið, henti því og flotaði gólfið, það þegar ég byggði millivegg í bílskúrnum (ég er álíka laghentur og meðal-lindýr) eða lét múra í veggina. Eða kannski eitthvað um lyfin sem ég hef tekið – eða brjálæðisköstin, vanmáttinn. En ég er bara búinn að segja þá sögu svo oft síðasta árið að ég hreinlega nenni því ekki. Þið verðið bara að ímynda ykkur þetta út frá þessum stikkorðum. Ég get kannski bætt því við að ég er sá eini sem finn fyrir þessu – og hef sennilega fengið þetta óþol af því að vera mikið í bílskúrnum (þar sem ég kom mér upp skrifstofu) – þar sem myglan er miklu meiri en inni í húsinu. Og nú er ég hættur að vera í húsinu allan sólarhringinn, einsog áður. Haustið Ég ætlaði að skrifa eitthvað um að haustið hefði liðið í rólegheitum. Eftir tíðindasamt ár var ég farinn að hlakka til þess að eiga ótruflaða haustmánuði til að skrifa. En myglan sem sagt kom í veg fyrir það. Haustið fór meira og minna í mygluna. Það voru samt rólegheit þarna inn á milli. Ég var duglegur að fara út að hlaupa og gera jóga og sinna fjölskyldunni. Í október var kosið. Ég kaus rétt en það gerðu ekki nógu margir. Ég man ekki hvort ég fór neitt – sennilega var ég bara mestmegnis heima. Og eitthvað skrifaði ég nú. Ég lagði lokahönd á Hvítsvítu-þýðinguna og í nóvember kom Athena – höfundurinn og vinkona mín – til landsins. Við lásum upp í Reykjavík, á ljóðakvöldi sem væri bæði vel sótt og þótti óvenju vel heppnað (það voru sennilega 14-15 skáld að lesa, hvert öðru betra og breiddin mikil). Við sátum fyrir svörum í Norræna húsinu. Og svo keyrðum við saman vestur, ásamt ungbarni hennar, manni og vinkonu, þar sem við lásum upp í Skúrinni á Ísafirði með félögum í Ós-hópnum. Það var allt saman dásamlegt, þótt veðrið hefði að sönnu mátt leika meira við ferðamennina. Í nóvember kom síðan Heimska út í Svíþjóð og fékk í sem stystu máli frábæra dóma (hún er líka að koma út í Frakklandi og hefur þegar fengið afar jákvæðar viðtökur – og er ekki einu sinni komin út). Það var talsverður léttir, því hún kom alls ekki svo vel út úr krítíkinni hérna heima. Gauti Kristmanns virtist beinlínis reiður yfir henni í Víðsjá – vitnaði í hana hér og þar og spurði með þjósti hvort þetta ætti að vera fyndið, eða kannski gáfulegt? Sem er allt í lagi, fólk má og á að láta bókmenntir fara í taugarnar á sér ef þær gera það. En ég er líka þakklátur fyrir að eiga ekki allt mitt undir þessari litlu eyju og takmarkaðri fagurfræðinni sem þar ríkir. En þegar bókin kom út fór ég sumsé í smá túr sem byrjaði hjá Finnlands-svíum í Ekenäs. Í Stokkhólmi var mér boðið með í málsverð hjá PEN-samtökunum. Hann var haldinn í heimahúsi í blokkaríbúð og var til þess að hitta móður Asli Erdogans, rithöfundar sem sat í fangelsi í Tyrklandi frá því í júlí og þar til í gær. Hún var komin til Svíþjóðar til að taka á móti Tucholsky-verðlaununum fyrir hönd dóttur sinnar. Í Malmö tók ég svo örlítinn þátt í uppákomu á degi hinna fangelsuðu rithöfunda. Þetta helgast ekki síst af því hve virkur útgefandinn minn (og góðvinur) er í réttindabaráttu fyrir tjáningarfrelsi. Frá Malmö fór ég til Kaupmannahafnar þar sem ég hitti vin minn, Martin Glaz Serup, og við flugum saman til Vínarborgar til að hitta vin okkar, Jörg Piringer. Við þrír vorum allir í rútunni frá Tyrklandi til Grikklands og höfðum þar kokkað upp verkefni sem við vorum mættir til að framkvæma. Ég náði ekki að sjá neitt af Vín – og hef aldrei séð hana áður – vegna þess að við sátum meira og minna allan tímann inni í lítilli íbúð í úthverfi borgarinnar og hömuðumst við að berja saman bók. Það náðist ekki en við erum samt komnir með nokkuð góðan grunn til að vinna með og ætlum að hittast aftur á næsta ári. Vetur Það kom svo aldrei vetur. Hann er varla kominn enn. Hefur ekki sést nema augnablik og augnablik, í mesta lagi. Svo kemur haustið aftur. Eða kannski smá vor. Stundum finnst mér vera mjög vorlegt. Hvað um það. Um miðjan nóvember gerðust tvær breytingar í lífi mínu. Annars vegar fékk ég skrifstofu úti í bæ – í gamla útvarpshúsinu. Það er orðið ansi mikið af sjálfstætt starfandi listamönnum og handverksfólki í miðbænum. Hinumegin við vegginn frá mér er Gunnar Jónsson, myndlistarmaður, og í næsta herbergi við hann er Elísabet frænka hans, arkitekt og umsjónarmaður Listasafns ASÍ (galleríið sem þau reka, Úthverfa, er líka í sama húsi). Á efri hæðina er residensía þar sem eru yfirleitt 1-2 erlendir gestalistamenn. Á ská hinumegin við götuna er systir mín með Klæðakot ásamt vinkonu sinni. Systir mín hannar Dórukotsvörurnar. Beint á móti henni er svo skraddarinn, sem mér skilst að hafi svo mikið að gera að ætli maður að fá hjá honum jólagjafir næsta árs sé best að panta þær núna. Ég hef reyndar ekki þorað inn til hans. Ég er svag fyrir svona fötum og svo selur hann líka hatta. Aðeins ofar við götuna, í gömlu Björnsbúð, er svo Gústi ljósmyndari með stúdíó og inn af honum er Kjartan arkitekt með kontór. Við hliðina á Hamraborg er Gamla skóbúðin, sem nokkurs konar sagnasafn, skilst mér, og á efri hæðinni þar situr Baldur Páll og forritar (en hann tekur reyndar líka ljósmyndir). En nú rak mig af leið. Hitt sem breyttist í lífi mínu var að ég fékk mér kort í ræktina. Það eru tæplega fjögur ár síðan ég byrjaði að hreyfa mig eitthvað af viti (það var eitt af því sem gerðist í skilnaðarkvíðanum 2013, það var nú meira árið) en ég hef aldrei verið í ræktinni. Ég fór fyrst á hlaupabretti á ævinni á hóteli í Uskudar í Tyrklandi snemma síðasta ár, bara af því það virkaði alveg vonlaust að ætla út í hlaupatúr. Hlaupabrettið var reyndar í loftlausri kjallarakompu þar sem var svo lágt til lofts að ég þurfti að gæta mín til að reka ekki höfuðið upp undir – og lét það duga mér sem reynsla í þeim bransa fram í nóvember, er ég fór inn í Stúdíó Dan í fyrsta skiptið síðan þar var haldið streetball mót snemma á tíunda áratugnum. Nú fer ég þangað flesta daga vikunnar þegar ég er í bænum – og hef þess utan sótt líkamsrækt í þremur öðrum löndum. Sennilega gerðist svo ekki margt fram að jólafríi. Nema vinna. Ég er mjög sáttur þegar því er þannig háttað, þegar ég fæ ró og næði – og get stundum staðið mjög frekjulegan vörð um ró mína og næði, ef þeim er hótað. Haukur Magg er kominn tímabundið heim frá Bandaríkjunum og við náðum að hittast einu sinni ærlega áður en ég fór – ég leyfði honum að raska ró minni. Það var hressandi. Bubbi fékk líka að raska ró minni eina kvöldstund – ég fór á Þorláksmessutónleika og sat svo með honum dágóða stund á eftir, þar sem við spjölluðum og hann las úr væntanlegri ljóðabók fyrir okkur félaga mína. Maður ætti auðvitað að hafa sem fæst orð um listaverk sem maður hefur séð lítið af – og eiga jafnvel eftir að breytast mikið áður en þau koma út – en af því litla sem ég heyrði er Bubbi að gera allt rétt. Eftir Bubba skutumst við Smári síðan á miðnæturheimsfrumsýningu á Rogue One. Bubbi og Star Wars er rokna tvenna sem rúmast varla á einu litlu kvöldi. Við fjölskyldan eyddum jólunum í Rejmyre hjá mágkonu minni. Þau voru óvenju íslensk. Ég tók með mér fyrirtaks lambalæri sem Smári vinur minn gaf mér áður en ég fór. Nadja hafði tekið með sér laufabrauð sem við steiktum og skárum út heima hjá Smára og Siggu ásamt fleira vinafólki. Þá tók ég líka með mér grænar baunir frá Ora (sem mér var sagt í dag að væru alls ekki óþekktar í Finnlandi á jólum, en þykja mjög framandi og lúðalegar í Svíþjóð), rauðkál og átta dósir af jólaöli. Þetta átum við ásamt með finnskum ofnréttum, kjötbollum og Janssons Frestelse á aðfangadag. Á jóladag átum við restina af hangilærinu með uppstúf í tartalettum – ég tók svo dálítið af reyktum laxi og plokkaði hann ofan í sams konar ílát, fyrir þá sem borða ekki kjöt. Á annan í jólum eldaði ég síðan kalkún og fann upp á fyllingunni sjálfur – hún var með perum, brauði, þurrkuðum eplum, lauk, sellerí og einu og öðru góðgæti. Nadja fékk sósu sem ég bakaði upp úr kirsuberjaserríi, leifar af vego-kjötbollum og fyllingu sem snerti aldrei fuglinn. Ég gerði líka sósu upp úr kalkúnasoði og rjóma og þær kláruðust báðar fáránlega fljótt. Kalkúnaleifarnar enduðu síðan daginn eftir í rjómasósu með pasta. Yasuragi og Mariella Jólagjöfin mín frá Nödju var síðan nótt á Yasuragi spa-hótelinu í úthverfi Stokkhólms. Þar fórum við í japönsk böð, sánur og heita potta, stunduðum jóga, Qi Gong, Do In og Zen hugleiðslu, smurðum okkur með kremum og átum fjórréttað á lúxusveitingastað. Þetta var alveg fullkomlega sturlaður staður. Allir þarna inni gengu líka um í alveg eins baðsloppum – líka á veitingastaðnum – sem maður fékk að eiga. Sem gaf þessu dálítið fíling einsog maður væri genginn í költ. Eina fólkið sem ég sá sem var ekki í svona slopp voru líka einu asíubúarnir á svæðinu. Þetta var allt mjög hvítt og flest fólkið þarna var sennilega margföldum tekjum á við okkur plebbana. Mér finnst ósennilegt að ég færi aftur á svona stað – þótt þarna sé ekkert mér á móti skapi, ég hef mjög gaman af allri svona leikfimi og hef alltaf haldið upp á vellíðan, enda sjálfskilgreindur hedónisti – og raunar ósennilegt að ég hefði efni á því, þetta er mjög grand jólagjöf. En þetta var sem sagt bæði fáránlega skemmtilegt og fáránlega áhugavert. Og alveg súrrealískt að stíga aftur út í raunveruleikann. Daginn eftir, sem var sennilega í gærmorgun – þegar við vorum búin í allri japönsku leikfiminni – hittum við börnin okkar aftur við höfnina, þangað sem móðurafi þeirra skutlaði þeim. Svo fórum við með Viking Line ferjunni Mariellu til Helsinki. Ég vann einu sinni við þrif á þessum bátum. Helsinkimegin – við sigldum ekkert, stigum bara um borð í höfninni og unnum í tvo tíma. Þá var ég eini hvíti maðurinn í tæplega 100 manna starfsliði en farþegarnir meira og minna hvítir og talsvert af ungu fólki í partíferðum. Þetta hefur breyst talsvert síðan þá. Í dag á áreiðanlega meirihluti farþeganna rætur að rekja út fyrir Evrópu (eða Norður Ameríku). Sérstaklega er mikið af finnskumælandi fólki með afrískar rætur. Sennilega segir þetta eitthvað um breytta samsetningu verkalýðsstéttarinnar á norðurlöndum. Ferjurnar eru ódýrasti ferðamátinn hérna á milli – og það er líka Duty Free – og þar er boðið upp á heiðarlegustu verkamannaskemmtun í heimi. Töframenn, boltasundlaugar, diskótek, ódýrt áfengi, (auðvelt) kviss og spilakassa. En mér datt líka í hug að ef til vill hefði sú staðreynd að svo margir innflytjendur unnu á bátunum spilað rullu í þessu öllu saman – að það hefðu hreinlega myndast einhver tengsl á þessum 15 árum sem liðin eru frá því ég vann þarna. Að báturinn væri raunverulegri valmöguleiki en margt annað. Að vísu var báturinn engum vinsamlegur þegar ég vann þarna. Bæði voru launin fyrir neðan allar hellur og svo þurftum við yfirleitt að fara í gegnum harða tollskoðun á leiðinni í land – úr vinnunni – þar sem við vorum spurðir hvenær við hefðum komið og hvenær við ætluðum að „fara heim“. Yfirvarpið var að það væru svo miklar líkur að við myndum reyna að smygla einhverjum flóttamönnum í land (þetta er 2001). Þessi vinna er enn rosalegasta reynsla af grófum, kerfislægum rasisma sem ég hef upplifað sjálfur (og það var ekki gerð mikil undantekning fyrir mig – sennilega bara gert ráð fyrir að ég væri ljós norður-afríkumaður, eða álíka, a.m.k. þar til passinn kom í ljós, því við þurftum auðvitað alltaf að vera með passann í vinnunni). Á meðan túristunum var hraðað í land í gegnum mörg tollhlið stóðum við allir í beinni röð við eitt einasta tollhlið – a.m.k. þar til búið var að landa túristunum – og okkur var gert að stimpla okkur út áður en við fórum í röðina. Einn daginn, þegar ég var að ganga út á lestarstöð í úthverfinu mínu – lengst úti í rassgati – fór ég að reikna út hvað ég fengi í raunveruleg laun fyrir þessa vinnu. Það tók mig klukkutíma að komast í vinnuna og klukkutíma að komast heim, launin voru fáránleg, og svo var maður klukkutíma í röðinni til að komast út úr bátnum. Þannig að það fóru alls fimm tímar í að fá greitt vond laun fyrir tveggja tíma vinnu. Ég sneri við á staðnum – enda hafði ég efni á því, á svona vinnustað vinnur enginn nema vegna þess að hann gæti orðið svangur. Hvítur, norrænn strákur verður aldrei svo svangur. Og á morgun er síðan gamlársdagur. Við erum í Finnlandi og erum eiginlega alveg planlaus. Við ákváðum bara að við vildum vera hérna. Gistingin reddaðist ekki fyrren í gær. En þetta er gott. Helsinki er alltaf dálítið heima. — Ég hendi sennilega í eina færslu fyrir næsta ár – nýtt áramótaheiti og svoleiðis. Vonir og væntingar.
Árið 2016 – fyrri hluti
Árið hófst á Ísafirði með sprengingum, einsog venjulega. Að vísu vorum við í Hoi An árið þar á undan og höfum þess utan verið í Oulu, Helsinki, Kaupmannahöfn og Rejmyre. Fylleríið sem tók við var epískt – við Valur bróðir enduðum á Metallicatrúnó með allt í botni í stofunni heima þar til tók að birta. Sem var undir lok mánaðarins, ef ég man rétt – rétt í tæka tíð fyrir sólarkaffið. Ég keypti mér skíðakort og Aram líka – við vorum duglegir að skella okkur. Nadja fór á fullt í gönguskíðamennskuna og endaði í Fossavatnsgöngunni – fyrir utan viðstöðulausan þrældóm í kajakróðri alltaf þegar veður leyfði. Hún hefur líka verið að dunda sér við æfingaakstur í rólegheitum. Lemmy Kilmister í Motörhead dó líka í lok árs 2015 – á meðan heimsbyggðin syrgði Bowie grét hjarta mitt fyrir Lemmy. Við félagarnir live-streamuðum jarðarförinni í bílskúrinni minni og drukkum jack í kók fram á rauðanótt. Ekki löngu síðar dó svo Bodil Malmsten, sem ég náði aldrei að hitta, en komst í pennavinfengi við í kjölfar þess að hún tók ástfengi við Illsku. Í lok janúar fór ég til London með Ástu Fanneyju, Andra Snæ (sem allir voru þá vissir um að yrði forseti) og Völu Þórodds. Við lásum upp á Rich Mix með hópi útlendinga. Hér erum við í neðanjarðarlestinni. The Tube. Auð sætin eru til marks um fjarvist okkar úr bókmenntasögunni, reikna ég með. Nema auða sætið hans Andra, það er forsetasætið – hann á kannski enn séns í bókmenntasöguna. Þegar ég hugsa út í það þá er hann reyndar með í síðustu. Í febrúar var Illska frumsýnd í Borgarleikhúsinu við ægilegan – og að mér fannst verðskuldaðan – fögnuð. Þegar sýningin fór á fjalirnar hafði ég áhyggjur af að hún yrði ekki góð og að mér myndi finnast ég ábyrgur fyrir því. Hvorugt átti við rök að styðjast – Óskabörn ógæfunnar áttu þessa sýningu og hún var frábær. Við Nadja fórum suður og Per, sænski útgefandi minn og góðvinur, kom frá Malmö og við héngum í borginni drjúga stund. Ég held að það sé dýrasta frí sem ég hef farið í. Við gerðum þetta líka fyrir nokkrum árum – að hanga í Reykjavík, fara út að borða og sulla á börum – og verðið hefur að minnsta kosti tvöfaldað. Það er í það minnsta alveg úr sögunni að maður geti leyft sér að kíkja ekki á verðlistann áður en maður sest niður. Við gerðum það tvisvar – þar af á einum stað sem ég hef sótt nokkrum sinnum – og það gerði nærri því út af við okkur. Mér er enn illt. Ég var svo tekinn fyrir á Útvarpi Sögu vegna leikritsins og vegna þess að ég talaði einu sinni (mjög) illa um Jón Magnússon í pistli á RÚV. Þá fékk ég af mér þessa skopteikningu í Mogganum. Það er einhvers konar heiður að vera á skopmynd með Pétri Gunnlaugssyni. Plokkfiskbókin Kom út um páska. Haukur Már útlitshannaði hana. Ég var búinn að vera að dunda mér við að henda í hana uppskrift og uppskrift, texta og texta, frá því í janúar 2013. Eiginlega byrjaði vinnan við þessa bók upp úr skilnaðinum (sem entist svo bara rétt svo út árið) – í einhverju hamslausu eirðarleysi milli stanslausra ferðalaga (ég var ekki nema fjóra-fimm mánuði heima þetta árið). Upphaflega var hugmyndin að skrifa eins ósennilega bók og ég gæti látið mér detta í hug sem follow-up á Illsku. Ég var líka í einhverri fýlu út í það almennt hve margar matreiðslubækur ollu mér sárum vonbrigðum og voru alger meðalmennska, bæði í matreiðslukúnst en ekki síður í konsepti og texta. Upp úr því fór ég að skoða alls konar skrítnar matreiðslubækur, meðal annars með textum um mat – altso textum úr bókmenntaverkum – en líka bækur á borð við 81 lättlagade recept för nybörjare eftir Georges Perec, sem ég las s.s. á sænsku, og Lantlig kokkonst från centrala Frankrike eftir Harry Mathews. Sú fyrri er eiginlega sama uppskriftin með mjög litlum breytingum 81 einu sinni. Sú síðari er bara ein mjög, mjög, mjög, mjög löng uppskrift að franska réttinum ‘farce double’ – sem er fylltur og upprúllaður lambabógur að hætti íbúa í La Tour Lambert. Afstaða fúturista til matargerðar – ekki síst spagettíáts – fannst mér svo fasínerandi, og keypti auðvitað á endanum fútúristamanifestóið í matargerð. Þá fékk ég líka dillu fyrir dillum í matargerð – svo sem einsog þessu með Ítalina og að mega ekki borða ost með fiski – og gerði einsog nútímamaðurinn gerir og sat og gúglaði í gríð og erg. Sem ég geri reyndar enn. Allt varð þetta einhvern veginn að Plokkfiskbókinni, sem er mín fyrsta og eina matreiðslubók, og sennilega eina matreiðslubókin – a.m.k. á íslensku – sem fjallar fyrst og fremst um sjálfsmynd, pólitík og sérsinnu. Þegar hún kom út bauð ég til heljarinnar plokkfiskveislu heima hjá mér í Sjökvist – með aðstoð Nödju, Möggu frænku minnar (sem komst nýlega í fréttirnar fyrir aðra matarveislu, jólaboð fyrir hælisleitendur) og Adda manninum hennar – en þau fjölskyldan kíktu vestur í páskaheimsókn. Upprunalega planið var að fá kongapönksveitina Mömmu Hest til að spila en svo sveik klarínettuleikarinn mig og stakk af – fyrirvaralaust! – til Reykjavíkur með sjúkraflugi til að eignast barn. Ekki að hann hafi þurft að fæða það, en hann taldi sig þurfa að vera á staðnum. Öddi bróðir minn Mugison hljóp hins vegar í skarðið og stóð sig með miklum bravúr. Hann mætti svo aftur í Sjökvist á páskasunnudag með heila rútu af poppstjörnum með sér, sem fékk upplestur á nokkrum hljóðaljóðum og eina uppskrift. Ég held ég hafi sjaldan selt jafn vel og þessum glöðu poppurum. Plokkfiskbókin held ég að hafi ekki náð neinni sérstakri metsölu – sem kom mér á óvart. Hún er eina bókin sem ég hef gefið út sem ég taldi sjálfgefið að myndi seljast hratt og mikið. Ekki að ég þurfi neitt að skammast mín fyrir söluna – ég veit reyndar ekki hver hún er, annað en að upplagið seldist ekki upp – en ég hef áreiðanlega aldrei skrifað jafn skemmtilega bók eða jafn gagnlega og kem aldrei til með að gera það. Það er furðulegt að hún skuli ekki til á hverju heimili. Tyrkland, sjálfsmorðstilraun og botnlangakastið Í apríl fór ég í fyrstu ferðina til Tyrklands – á ljóðahátíð í Uskudar (sem er asíumegin í Istanbul). Ég fór reyndar beint frá Frakklandi og gekk frekar brösuglega að komast. Þar hafði verið eitthvað að þvælast á bókmenntahátíð í Normandi – þar sem ég týndi passanum mínum, fékk neyðarpassa hjá konsúl, sem reyndist duga of skammt svo mér var vísað frá þegar ég ætlaði að tékka mig inn í flugið frá París til Istanbul. Hringdi í neyðarsíma utanríkisráðuneytisins, lét ræsa út vakt í sendiráðið, redda mér nýjum neyðarpassa með lengri gildistíma – keypti svo nýjan miða til Tyrklands (enda væri ég annars strand í Frakklandi) og fékk gistingu hjá Snæbirni Brynjarssyni, og frú, um nóttina. En ég sem sagt komst til Tyrklands. En var ekki sóttur á flugvöllinn, einsog mér hafði verið lofað, en það reddaðist nú. Ég gekk reiðinnar býsn um borgina – fleiri tugi kílómetra – og var furðu lostinn hvert sem ég kom. Sennilega er þetta einhver magnaðasta borg sem ég hef komið til. Bæði er hún sérstök – nánast hver fermetri er ólíkur öllu öðru sem ég hef séð annars staðar – og svo er hún svo innbyrðis ólík. Maður er eina stundina á markaði sem minnir á miðaldir (eða minnir mig á tölvuleiki einsog Quest for Glory II; já eða Þúsund og eina nótt) eða við götu þar sem hvert einasta háhýsi virðist vera verslunarmiðstöð sem selur bara einn tiltekinn varning – það er t.d. heil gata af stórum vöruhúsum sem selja bara barnaföt og ekkert annað. Ofan í þetta eru hæstmóðins hipsterahverfi, verkamannablokkir, fátækrahverfi, klassískari túristahverfi með monumental byggingum og ógurlegum breiðum af ferðamönnum. Og svo framvegis og svo framvegis. Allt með einhverjum ótrúlega sérstökum blæ. Það sem markaði sennilega dýpstu sporin var samt að sjá mann hóta því að kasta sér fram af háhýsi. Ég stóð þarna í félagsskap við ótal manns, á höfninni asíumegin, og horfði á hann í lengri tíma. Ég lýsti þessu svona á sínum tíma – korteri eftir að hann bjargaðist. “Take a picture of that instead” the boatman at the harbor said to a pair of tourists posing, pointing up into the air at the seagulls. “Take a picture of what?” they asked. And I looked up and saw him. I watched him on the ledge for what seemed to be forever. He fell, grabbed a hold, climbed back up, threatened to jump again and again – at one point he took up his wallet and seemed to want to bribe the police to leave him alone. Then he fell again, grabbed a hold, swung his legs around and climbed back up. Every once in awhile he’d bang his head on the window so hard you could hear it – or him – crack, six stories down on the pavement. At times he seemed drunk out of his mind and at times as if he were spiderman. And I thought: Should I keep walking? Do something? Will I ever again get the chance to see a man die? Will I be more or less jaded and deluded if I stay or if I leave? Is there humanity in watching, and if not whom am I debasing? Me? Him? Society? My heart was racing and I really needed to pee. I never looked away, not for a single moment. I took up the phone and took a photo for Instagram, and thought: this is nuts, I am not a person, I am a machine. Something must happen – my gaze must be broken before I urinate myself in public. And then suddenly he gave up and decided to go on. He took somebody’s outstretched hand and climbed in the window which promptly was shut behind him, sealing him within the house, within humanity, stuck with the living. I clapped. A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Apr 12, 2016 at 5:33am PDT Magaverkurinn Nóttina áður en ég fór svaf ég ekkert fyrir magaverk og hugði það vera sökum böreksharðlífis. Um morguninn var ég ekki frekar sóttur á hótelið, til að fara út á flugvöll, en ég var sóttur á flugvöllinn þegar ég kom. Ég beið fram á síðustu stundu, örvænti og pantaði leigubíl sem þusti með mig út á völl. Þar uppgötvaði ég að ég var ekki með neinar lírur – en hugsaði að það yrði varla vesen, þar sem ég gæti stokkið inn á Ataturkflugvöll og farið í hraðbanka. En ég var seinn og þyrfti að hafa hraðar hendur. Þá kom í ljós að á flugvellinum var mikið öryggistékk til að komast inn í sjálfa bygginguna og engir hraðbankar úti. Ég hljóp í einhverja hringi í panikki, með dauðans verk í maganum, stökk svo til baka og henti í bílstjórann því eina sem ég átti – 50 evru seðli – sem hann tók fagnandi, enda sirka þrefalt verð. Þegar ég lenti í Keflavík hálfum sólarhring síðar, eftir millilendingu guð einn man hvar, var ég aðframkominn af verkjum. Í Reykjavík fór ég beint upp í Kringlu, keypti mér kvalastillandi og harðlífistöflur, og lagðist svo til svefns án þess að skeyta minnstu um félagslegar skyldur við Möggu frænku mína eða fjölskyldu hennar. Ég var nokkuð skárri daginn eftir – flaug heim og hvíldi mig. Eftir 2-3 daga fór þetta aftur að versna. Ég hringdi upp á spítala á föstudeginum – í fyrsta skipti á ævinni sem ég hringi á lækni – og mér var fenginn tími á mánudegi. Nadja húðskammaði mig fyrir að krefjast ekki tafarlausrar þjónustu en í reynsluleysinu fannst mér einhvern veginn að það ætti að vera verk manneskjunnar sem svaraði í símann að leggja mat á það hversu áríðandi þetta væri – en hún vel að merkja spurði einskis. Ég sagðist bara þurfa að hitta lækni og hún sagði að ég gæti komið á mánudag. Svo kvöddumst við bara og ég skreið upp í rúm aftur með kvalastillandi. Á mánudegi var ég tekinn í prufur og á þriðjudegi kom í ljós að ég var með botnlangabólgu. Ég skildi aldrei almennilega hvernig þetta virkaði nákvæmlega – og endaði með fjóra ólíka lækna sem lýstu þessu allir hver á sinn veg. Nema að það var ekki hægt að skera mig strax, því sýkingin væri bæði svæsin og lókalíseruð (hafi ég skilið púslað upplýsingunum rétt saman). Ef farið væri að skera myndi sýkingin hugsanlega breiða eitthvað úr sér. Ég var lagður inn og fékk einhver kjarnorkusýklalyf í æð í um viku – ég átti að vera í tíu daga en eftir um sjö var líkami minn bara orðinn svo miður sín af lyfjagjöfinni að læknunum leist ekkert á að gefa mér meira. Þá var ég sendur heim með eitthvert hversdagslegt pensilín. Eftir sex vikur átti að skera mig – en þar sem ég yrði þá farinn úr landi (á flakk og svo til Svíþjóðar yfir sumarið) var því frestað fram á haust. Þegar til kastanna kom um haustið var ákveðið að það þyrfti alls ekkert að skera mig, enda hefði botnlanginn látið mig í friði í hartnær þrjá mánuði – og engin ástæða til að ætla að hann myndi þá láta neitt á sér kræla frekar, enda hefðu lyfin og líkaminn haft sýkinguna undir. Berlínarháski I: Snörur og þjófnaður Áður en ég lenti í Svíþjóð fór ég í stuttan rúnt um Frakkland til að kynna Illsku og svo beint til Berlínar á minningarathöfn um vinkonu mína. Þar dvaldi ég í um viku og hékk með Hauki Má og fleira góðu fólki – og afrekaði strax fyrsta kvöldið að láta mann, sem sagðist vera hælisleitandi (en var samt frá Evrópusambandslandi, svo það meikaði ekkert sens, hann var frekar fullur og ringlaður) ræna af mér símanum (iphone sem ég hafði keypt í Da Nang árið áður). Í einhverju sturluðu þrjóskukasti fór ég strax daginn eftir og keypti nýjan. Sem engum hefur enn tekist að stela. Það hefur að vísu held ég ekkert verið reynt. Nokkrum dögum síðar fór ég svo í minningarathöfnina. Hún var að mörgu leyti vinaleg en bæld. Að öllum líkindum framdi vinkona mín sjálfsmorð. En það var ekki nefnt og þegar við spurðum um dánarorsök var okkur svarað á þá leið að viðkomandi „vildi ekki taka þátt í slúðri um það“. Vinkona mín var þess konar manneskja – austurþýskur nagli – sem hefði getað dáið af nokkrum ólíkum orsökum og það sem hvarflaði að mér fyrst þegar ég heyrði tíðindin var lungnakrabbi (hún keðjureykti), bílslys (hún keyrði helst ekki hægar en 200 km/klst) eða sjálfsmorð, því hún var af ofsafenginni skapgerð. Og það hvarflaði að mér þarna í minningarathöfninni – sem var að sönnu falleg – að það sem vantaði í félagsskapinn væri no bullshit hömluleysið sem einkenndi vinkonu mína. Að hún hefði verið aflið í lífi þessa fólks sem sagði hlutina umbúðalaust og nú þegar hún var látin væri enginn eftir sem gæti séð til þess að aðstandendur hennar kæmust ekki upp með að væflast í kringum erfiðan sannleika einsog kettir í kringum heitan graut. En svo nefnir maður víst ekki snörur í húsum hinna hengdu. Berlínarháski II: Forréttindi hvíta mannsins og ofsi nauðgunarlyfja Nokkrum dögum síðar var svo ljóðakvöld á knæpu í borginni. Margir Íslendingar á listanum – en allir lásu á ensku. Ég las úr Óratorrek – sem kemur út í vor – og var tekinn á eintal á eftir vegna þess að ég tæki ekki í textanum nægt tillit til forréttinda minna sem hvítur karlmaður. Sem ég geri ekki, að vísu, nema kannski einmitt til að gera það ekki – ég held að bókmenntir eigi ekki að vera low-impact heldur high-impact og í þeirri afstöðu er vissulega fólgin ákveðin grimmd og ákveðið tillitsleysi. Ég velti þessu að vísu oft fyrir mér – grimmdinni og tillitsleysinu – en bara til þess að átta mig á virkni þeirra, ekki til að leysa þær upp. Síðla nætur kom í ljós – af ástæðum sem ég tíunda ekki hér – að ég gat ekki gist hjá Hauki Má um nóttina. Þá fékk ég gistingu hjá öðru vinafólki mínu en áður en þangað var haldið komum við við á annarri knæpu til að fá okkur einn lokadrykk fyrir heimför. Þar var okkur boðið upp á staup – ég man ekki hver bauð, held það hafi verið barþjónninn en eftir á að hyggja hljómaði það eitthvað ósennilega, svona þegar ég fór að púsla kvöldinu aftur saman. Nema hvað. Við vinur minn kláruðum úr okkar staupum en vinkona mín, kærasta vinarins, kláraði ekki úr sínu – á leiðinni út stakk ég úr því að hennar boði. Eftir þetta man ég ekki neitt og ekki hún heldur. Vinurinn sagði að í leigubílnum hefði kærastan hans farið að haga sér mjög furðulega sem endaði með því að þau fóru að rífast og við fórum öll út. Eftir nokkurt rifrildi fór hann svo aftur upp í leigubílinn og skildi okkur eftir. Hana rámar í að hafa heyrt mig kalla á sig – en annars fannst hún stjörf í hnipri í garði í nágrenninu um 40 mínútum síðar. Það var farið með hana á sjúkrahús og samkvæmt blóðprufu var hún með fljótandi alsælu í blóðinu. Ég man ekkert fyrren upp úr níu um morguninn. Þá rankaði ég við mér í neðanjarðarlestinni. Ég reyndi að komast heim (til Hauks Más) en gat einhvern veginn ekki fundið réttu lestina. Á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á því að þetta gengi ekki – ég var ekki í neinu ástandi til að rata neitt, og hafði vit á að skilja það – og fór í hraðbanka til að taka út pening fyrir leigubíl. Þar sem ég stóð við hraðbankann bankaði vingjarnleg kona í bakið á mér; ég sneri mér við og hún rétti mér passann minn, sem ég hafði haft í rassvasanum og hafði dottið í gólfið. Ef ég hefði ekki verið svona hellaður hefði ég sennilega hlegið (enda hefði týndur passi kostað mig fjórða neyðarpassann á innan við ári). Nokkrum dögum síðar, þegar ég var kominn í faðm fjölskyldunnar í Svíþjóð, og búinn að tala við vini mína um hvað hafði gerst (það var s.s. nauðgunarlyf í staupinu sem okkur var gefið), kom mér til hugar að kíkja í símann minn því það er skrefamælir í honum. Þá kom í ljós að ég hafði alls ekki sofnað í neðanjarðarlestinni heldur farið í 5 klukkustunda 15 kílómetra göngutúr um Berlínarborg. Það eru ekki gloppur í göngutúrnum fyrren alveg undir restina, þegar ég hefði byrjað að kíkja í lestarnar. Og ég man ekki neitt. Ekki bofs. Ekki óljóst neitt – það er allt gersamlega kolsvart, einsog það hafi aldrei gerst. Bugaður í Svíþjóð Ég tók sýklalyfjunum sem ég fékk þarna áður en ég fór frekar illa og var þess utan illa haldinn af mygluofnæmi (það er mygla í húsinu mínu, sem ég hef verið að berjast við í meira en ár). Þegar ofan á það bættist almenn óregla í þessu ferðalagi og ofan hana þetta eiturbrugg var ég orðinn mjög bugaður. Ég hef alveg reynt eitt og annað um ævina en ég hef aldrei fengið jafn svakalegan og langdrægan niðurtúr og eftir þetta nauðgunarlyf. Sennilega er það að einhverjum hluta andlegt líka – en jafnvel einföldustu hlutir voru gríðarþungir. Bara það að standa á fætur eftir morgunkaffið og horfa út um gluggann var einhvern veginn svo yfirþyrmandi að mann langaði að gráta. Þegar mér líður illa reyni ég alla jafna að hreyfa mig eins mikið og ég get – og ef það hefur verið óregla á mér er reglan sú að það sé erfitt að koma sér í gang, hlaupa af stað, en síðustu kílómetrarnir séu góðir. Þá kikkar inn eitthvað endorfín og manni líður aftur vel. En vikurnar eftir þetta var því ekki svo farið – þá var hver kílómetri bara erfiðari en sá á undan og þeir síðustu beinlínis óþolandi þungir. Fyrstu vikuna vorum við í Västerås en síðan fórum við til mágkonu minnar og fjölskyldu í Rejmyre. Nokkrum dögum síðar fór Nadja á ráðstefnu á suður Spáni og ég var einn með krakkana hjá tengdafjölskyldunni. Einhvern veginn fór allt úrskeiðis í samskiptum okkar – ég var lasinn og að reyna að hvíla mig, en þau stressuð og að vinna mikið og ætluðust til ýmislegs af mér sem ég hafði aldrei lofað að gera. Ég hef stundum tekið að mér eldhúsið þegar ég er hérna en var í engu formi til að gera það – þunglyndur og lasinn. Steininn tók svo úr þegar mágkona mín tilkynnti mér við matarborðið, þegar hún hafði kastað einhverju saman á síðustu stundu, að ég yrði að láta vita ef ég ætlaði ekki að elda (án þess að ég hefði nokkru sinni boðið mig fram). Ég lét gott heita og röflaði bara við Nödju í tölvupósti – beit á jaxlinn, beit í vörina og lét mig hafa þetta, fékk útrás annars staðar. Þegar Nadja kom síðan ákvað hún að konfrontera systur sína – án leyfis frá mér – sem varð til ægilegs rifrildis, sem ég var heldur ekki andlega í stakk búinn til að höndla. Gangan langa Ég ákvað að daginn eftir – þegar þau ætluðu öll í Kolmården dýragarðinn – myndi ég fara inn til Norrköping og eiga góðan dag einn með sjálfum mér, ná að vinna svolítið og hreinsa hugann, fyrst mér var líka farið að líða bærilega til heilsunnar. Ég vaknaði seint og teygði mig í símann til að skoða strætisvagnaáætlunina. Rejmyre er nokkur hundruð manna bæjarfélag úr alfaraleið og það fyrsta sem ég uppgötvaði var að það gekk enginn strætó á sunnudögum. Ég spratt á fætur til að semja við fólkið um að ég fengi að sitja með út á næstu strætóstoppistöð en var sagt að það væri alltof langur krókur. Mjög fúll settist ég niður við morgunkaffið og google-mappaði leiðunum tveimur og komst að því að leiðin sem lá framhjá strætóstoppistöðinni var um tveimur kílómetrum lengri en hin. Og snappaði. Mest með sjálfum mér, en snappaði samt og fór í eitthvert heiftarlegasta þrjóskukast sem ég hef tekið síðan ég var þriggja ára. Þegar þau voru farin gekk ég út á strætóstoppistöð. Tæpa átján kílómetra. Tók strætó til Norrköping og settist á kaffihús í tæpan klukkutíma. Að vísu þurfti ég fyrst að fara og kaupa mér föt því ég hafði svitnað svo mikið á leiðinni að mér var ekki stætt á að setjast neins staðar. Svo át ég ódýra pizzu, tók strætóinn aftur á stoppistöðina og gekk heim – nú í myrkrinu – og var kominn skömmu eftir miðnætti. Sár og þreyttur. Ég hefði ekki ímyndað mér það fyrirfram að það væri svona erfitt að ganga 36 kílómetra – en ég var í sjálfu sér ekki í góðum skóm. En þótt ég væri þreyttur var þetta líka gott – píslargöngur eru hollar þegar maður þarf á þeim að halda. Og þótt mér hafi ekki tekist að vinna mikið tókst mér svo sannarlega að hreinsa hugann og velta því fyrir mér hvað ég þyrfti að gera í framhaldinu. Daginn eftir stakk ég aftur af til Västerås og var einn þar fram yfir Jónsmessu – við jóga, hlaup, lestur og vinnu – þegar við fórum saman fjölskyldan til Finnlands. Þar héldum við upp á afmælið mitt 1. júlí á einum af mínum eftirlætis stöðum, Linnanmäki tívolíinu. Ég fór í alla rússíbanana með Aram (sem hann mátti fara í) og var meira og minna aftur kominn í lifandi manna tölu. Og árið nákvæmlega hálfnað. Ég held að seinni hluti ársins hafi verið minna dramatískur en sá fyrri. En ég mundi heldur ekki hvað þetta var allt saman dramatískt fyrren ég fór að skrifa það niður. Það er gott að ég er góður í að höndla drama.
Untitled
Saga Nýhils – ellefta brot brotabrots brotabrotabrots Haukur hannaði Nýhilsíðuna. Fyrirrennari hennar var kannski síðan NRTL – Nokkrar rafeindir tileinkaðar ljóðlistinni – sem hann bjó til sennilega rétt eftir að hann hætti í MH. Þar voru ljóð eftir mig (við þekktumst ekki enn) og það sem ég reikna með að hafi aðallega verið MH-ingar. Sem er kaldhæðið á tvo vegu – annars vegar voru þetta miklu stilltari og yfirvegaðri og væmnari ljóð en við vorum farnir að skrifa þarna fjórum árum síðar, og hins vegar sú að Nýhil beinlínis stillti sér upp gegn ljóðinu sem slíku og einhverri viðstöðulausri ástúð og umhyggju gagnvart því, sem lýsti sér annars vegar í endalausum greinaskrifum um að ljóðið væri ekki dautt og hins vegar í nafngiftum félagsskapa einsog Besti vinur ljóðsins og Ljóðvinir í Gerðubergi. Að tileinka rafeindir ljóðlistinni er sams konar velvild – sem var þá uppurin þegar Nýhil var stofnað. Einhvern tíma löngu seinna skrifaði Davíð Stefánsson ádeilugrein um mig („ Opið bréf til alls þess sem er EÖN “) þar sem hann líkti ljóðinu við gamla konu sem væri að staulast yfir götu (og mér við bláeygt fíflið sem í ofsafengnu aðstoðarkasti stórslasar konuna þegar hann ætlar að einhenda henni yfir götuna). Það var þessi afstaða – að ljóðið væri gömul, hálfblind kellingarugla og maður ætti að gæta sín í samskiptum við hana, svo hún hreinlega molnaði ekki undan snertingu – sem okkur fannst óþolandi. Sennilega hef ég líkt henni við annars konar átakaglaðari konu (en samt konu – allt var einsog áður segir kynferðislegt og ég var gagnkynhneigður og rétt skriðinn yfir tvítugt). Þegar Nýhilvefurinn fór í loftið haustið 2002 birtust þar alls kyns greinar – Haukur skrifaði talsvert um heimspeki, Viðar Þorsteinsson skrifaði um femínisma, ég skrifaði helling um bítskáldin, Grímur birti einhvern furðulegasta og skemmtilegasta einþáttung sem ég hef lesið („The Way of the Gay“ – sem ég finn ekki á wayback machine, en veit þó að er þar) og allir skrifuðu um pólitík. Svo birtust líka skrítnar hliðartilkynningar um eitt og annað sem var að gerast – og bara svona smávægilegt röfl, hálfgerðir statusar. Til dæmis kemur þetta fljótlega eftir Nýhilkvöld í Reykjavík, sem hefur verið haldið rétt fyrir kjördag 10. maí – ég átta mig ekki á því hver heimildin hefur verið eða hvort það var ég eða Haukur sem skrifaði: Það hefur samt líklega verið Haukur Már – ég var ekki svona mikill Houellebecq aðdáandi. En hvorugur okkar var á landinu, svo guð veit hver klagaði að allir hefðu verið stilltir. Á vefnum birtust líka hálfgerð manifestó – sem síðar voru hreinlega kölluð manífestó – og ég man svo sem ekkert hvað aðrir skrifuðu en ég sveiflaðist sjálfur milli þess að hóta því gróteskt að nauðga lesendum mínum í augntóftirnar (með textanum! meinti ég! auðvitað!) eða skrifa um mikilvægi dillandinnar í ljóðlist og pólitík. Að maður sem sagt dillaði sér. Kátína og ofbeldisfullt svartnætti og spennan þar á milli – líklega er þar með lýst fagurfræði minni frá Heimsendapestum og í gegnum Nihil Obstat. Þá birtist eitthvað af ljóðaþýðingum, kaflar úr bókum, tilkynningar um útgefin verk (t.d. íþróttatösku Nýhils, sem Halldór Arnar framleiddi í takmörkuðu upplagi – ég átti eina en hún týndist) o.s.frv. Flokkar voru „Ljóðadagur“ (sem innihélt alla frumskapaða list, líka smásögur og leikþætti), Mánudagur (sem voru pistlar) og Veröld (sem voru fréttir). Það var líka kommentakerfi, sem ég held að hafi verið afar fátítt annars, nema kannski á bloggum. Ekki að viðbrögðin hafi verið mikil – en einu sinni skrifaði þó mamma og sagði að ég hefði ekki verið alinn upp með það fyrir augum að ég gengi um og hótaði að nauðga fólki í augntóftirnar. Ég svaraði því einhvern veginn – með nýju manifestói, sennilega. Ég reyndi að fá eitthvað af þessu birt í blöðunum en fékk aldrei nein svör (og hef síðan eiginlega aldrei nennt að skrifa í íslensk blöð). Í byrjun árs 2003 ákváðum við Haukur svo að skiptast á að skrifa manifestó mánaðarins. Það entist í 2-3 skipti, líklega skrifaði ég einu sinni – og fyrsta meðvitaða manifestóið var áreiðanlega einhvers konar stafsetningarleiðbeiningar. Algerlega 100% straight-shooting heiðarlegar stafsetningarleiðbeiningar. Ef ég man rétt. Vefurinn átti eftir að fara í gegnum nokkrar uppfærslur. Fyrst misstum við lénið – nyhil.com – í hendur einhvers fjárglæfravíruss og fluttum okkur yfir á nyhil.org. Svo fórum við sennilega á blogspot einhvern tíma í kringum 2006-2007 – og um svipað leyti gerði Lommi nýja heimasíðu með alls kyns upplýsingaefni sem við Viðar höfðum samið (m.a. „sögu nýhils“) en Hauki Má ofbauð svo útlitið, sem hann sagði nasískt, að hún var tekin niður eiginlega strax og hún fór í loftið. Á blogspot síðunni fórum við Lommi einhvern tíma líka í manifestóstríð – skiptumst á að skrifa – og svo komu einhverjar vel hannaðar en frekar tómlegar Nýhilsíður í kjölfarið. Sem virkur og spennandi fjölmiðill entist Nýhilvefurinn sennilega ekki nema fram til 2005. Svona byrjaði þetta, tótal kaos: Og svona lauk því, stílhreinu og fínu:
Untitled
Í gærkvöldi las ég upp með Johnny Rotten. Eða – hann las alls ekkert upp. Hann tók bara við spurningum úr sal og bullaði síðan. Þetta var samt áhugavert, Johnny Rotten er auðvitað mannkynssagan og þarna var hann að svara fyrir sig. Hann talaði merkilega vel um fólk, miðað við orðstírinn sem fer af honum. Sagðist sakna Sid. Sagðist meira að segja sakna Malcolm McClaren. Og virkaði innilegur, eins innilegur og manni er fært að vera í þessum aðstæðum. En svo var auðvitað einhver snertur af sorglega trúðnum þarna líka. Sérstaklega þegar hann setti upp Johnny Rotten prakkaraglottið sitt – eða kom með erkitýpíska Johnny svarið (d. „Hver er eftirlætis tónlistarmaðurinn þinn?“ „ÉG!“). Svona einsog hann væri að leika sjálfan sig frekar en að vera hann sjálfur. Ég las tvö ljóð úr Óratorreki. Það gekk ágætlega en salurinn var eiginlega tómur. Og það er talsvert þægilegra að lesa fyrir fáa ef þeir eru í aðeins minni sal. Þetta var líka svona síðast þegar ég las, fyrir tveimur árum. Fyrsta klukkustundin í ljóðaherberginu er steindauð. Enda meikar meira sens að detta inn í upplestur þegar maður er búinn að fara á a.m.k. eina tónleika. Það fylltist svo allt þegar Rugl spilaði og var fullt þar til við fórum. Ég elti Ástu Fanneyju og impromptu hljómsveitina hennar upp á Kolabraut þar sem Ásta splæsti kampavíni á hersinguna. Saga Nýhils: Níunda brot brotabrots brotabrotabrots Ég skrifaði næstum öll ljóðin í Nihil Obstat fyrir sviðið í Versuchstation. Ég hafði lítið lesið upp fyrir þann tíma og aldrei svona reglulega. Og varð strax mjög upptekinn af sviðinu sem slíku, sviðinu sem verkfæri í ljóðlist, meðal annars til að transgressera – ganga of langt. Ekki að það hafi verið auðvelt að sjokkera árið 2002, eða beinlínis tilgangurinn, heldur langaði mig að kanna rýmið einsog hvert annað myndlíkingarsvæði og skoða hvar lesandinn kannaðist við sig. Þegar maður er með lítinn hóp af fólki sem mætir alltaf er hægt að miða ljóðlínunum nákvæmlega á vissa einstaklinga – tala til skiptis við Hauk, Ásthildi, Núma, Danna, Söru og svo framvegis í kaosi sem erfitt er að hnýta saman öðruvísi en sem pólífónískt portrett. Þannig er Nihil Obstat full af línum sem sumir úr hópnum skildu en aðrir skildu alls ekki; mikið tilvísanir í leyndarmál, slúður og einkasamræður í hópnum. Þetta er auðvitað ekkert nýtt – bítskáldin, sem ég var frekar upptekinn af, gerðu mikið af því að ríða saman ljóðmál úr einkalegum upplifunum sínum. Það er líka eitthvað beinlínis rafurmagnað við að taka líf annarra til handargagns og lesa þau svo ofan í sama fólk – vitandi að vissir hlutir mega ekki skiljast. En svo var ég líka bara að leita í tungumálinu að hlutum sem stuðuðu sjálfan mig. Mér leið (og líður) hins vegar ekki vel á sviði. Og ég las alltaf of hratt. Þegar ég spurði fólk (fyrir Berlínárið) hvernig upplesturinn hefði verið var svarið alltaf það sama: Þú verður að lesa hægar, gefa fólki smá tíma til að heyra orðin áður en þú ryðst áfram. Og þegar ég reyndi það varð ég enn stressaðri. Og beinlínis skalf. Fyrst byrjaði fóturinn á mér að skjálfa og þegar ég strammaði hann af með vöðvaafli byrjuðu hendurnar á mér að skjálfa – stundum svo mikið að ég gat varla lesið á blaðið sem ég hélt á. Þegar ég strammaði þær af byrjaði ég að stama. Í Berlín fór ég að snúa þessu við. Lesa hraðar og hærra og gefa algerlega skít í hvort fólk skildi hvað ég var að segja eða hafði tíma til þess að melta ljóðlínurnar. Ég hætti að nálgast upplesið ljóð einsog það væri einfaldlega flutningur á texta (nú er ég byrjaður að vinda ofan af þessu – og er að reyna að finna leiðir til þess að gera einmitt það, leiðir sem mér hugnast). Þegar ég hætti að halda aftur af mér hætti ég líka að vera jafn stressaður. Enn í dag líður mér best á sviði ef ég bara öskra viðstöðulaust (sem kemur fyrir). Þá er einsog taugaveiklunin eða feimnin eða hvað maður kallar það hafi einhverja eðlilega útgönguleið. Saga Nýhils – tíunda brota brotabrots brotabrotabrots Við rákum sjálf barinn á Versuchstation og innkoman þurfti helst að kovera leiguna. Ég man ekki hvað það var mikið, en einhvern tíma reyndum við að fá sendiráðið til að spotta okkur um þetta – sennilega var það svona 20 þúsund kall á núvirði – fyrir að halda mánaðarleg (meira og minna) íslensk menningarkvöld. En það var ekki séns. Engir peningar til, því miður. Sem okkur þótti alveg svolítið fyndið svar vegna þess að við fórum reglulega í partí í sendiráðinu – sem gestir múmara, sem voru þá iðulega plötusnúðar – og óráðsían í veisluhaldi fór ekkert framhjá okkur. Það var hægt að fljúga hálfu utanríkisráðuneytinu til Berlínar til þess að mæta á einhverjar hönnunarsýningu með drekkhlöðnum snittuborðum og léttvíni, en enginn áhugi á lifandi sjálfsprottinni menningu á svæðinu. Við vorum viðstöðulaust skítblankir (skuldum enn síðustu 3-4 mánuði í leigu á íbúðinni okkar; vorum eiginlega bornir út) og fannst þetta frekar súrt. En við nutum í sjálfu sér góðs af léttvínsbökkunum í sendiráðinu. Ég man líka að einu sinni þegar einn kokteillinn var að klárast þá fór Danni út á svalir og náði í tvo eða þrjá kassa af bjór og gekk með þá beint út. Dyravörðurinn stöðvaði hann í dyrunum og spurði hvert í ósköpunum hann þættist ætla að fara með þetta og hann svaraði bara „út“ og var ekki spurður neins frekar. Danni virkar (og er alla jafna) svo solid náungi. Á dyraþrepinu fyrir utan tróðum við síðan bjórunum inn á okkur og fórum á einhvern bar – þar sem við drukkum okkur hauslaus og enduðum öll ber að ofan á dansgólfinu. Án þess að kaupa einn einasta bjór. Og svo stálum við líka fullt af Teletubbies grímum af veggjunum. Einsog gefur að skilja man ég samt óljóst eftir þessu. Danni var líka sá sem oftast sá um barinn. Enda eina manneskjan í þessu fyllibyttubandalagi sem hafði yfir sér nokkra áru átorítets. Þetta átorítet notaði hann svo til þess að sannfæra fólk að það þyrfti mjög nauðsynlega að kaupa meiri bjór. Með þeim rökum annars vegar að við þyrftum að eiga fyrir leigunni – það var ekkert aflögu í heimilisbókhaldinu til að borga það ef barinn dekkaði það ekki – og hins vegar að hann væri að reyna að setja nýtt sölumet. Sem hann gerði iðulega (og varð svo tíðrætt um). Að minnsta kosti einu sinni var alveg sæmilegur afgangur af rekstri barsins, sem var áreiðanlega nýttur í að borga internetreikninginn svo við gætum uppfært Nýhilsíðuna (sem ég verð að segja frá síðar). Undir lok vetrar var okkur tilkynnt að við gætum ekki haldið áfram á Versuchstation. Kvöldin urðu alltaf lengri, háværari og trylltari – það var búið að vara okkur nokkrum sinnum við – en þetta gekk víst á endanum of nærri nágrönnunum. Við fórum og skoðuðum einhvern bar sem átti að taka við en mig minnir að hann hafi verið eitthvað of hannaður – of mikið sitt eigið rými. Kosturinn við Versuchstation var hvað hún var auð – strípaður hvítmálaður kassi með stólum, litlu sviði og bar. Svo var líka veturinn eiginlega á enda og óvíst hvort mér væri stætt á að halda áfram að vera í Berlín, af fjárhagslegum ástæðum – ég hafði þraukað allan veturinn á þriggja mánaða námslánayfirdrætti, án þess að ná að klára það sem ég þurfti til þess að fá sjálf námslánin (sökum blöndu af trassaskap af minni hálfum, röngum upplýsingum frá LÍN og tregu kerfi í Þýskalandi). Í öllu falli ætluðum við Haukur báðir til Íslands yfir sumarið, hið minnsta. Grímur – sem er kvikmyndagerðarmaður og af framsóknarættum – hafði meiri skilning á peningum heldur en við. Hann vissi meðal annars að þeir væru til og það væri hægt að sækja um þá. Sennilega hefðum við getað kríað út einhverja peninga fyrir Nýhilkvöldin í Berlín ef við hefðum gert það í gegnum rétta kanala, frekar en að fá bara betlifund í sendiráðinu. Það er ansi stór munur á þessum aldri – fyrir listamenn – hvort þeir skilji svona kerfi eða ekki, hvort þeir hafi aðgang að einhverri reynslu eða þekkingu kerfunum tengdum. Það er auðvelt að heltast úr lestinni einfaldlega vegna þess að maður áttar sig ekki á því hvernig neitt virkar. Í öllu falli þá fékk Grímur – sem var í Prag um veturinn en kom reglulega í heimsókn til Berlínar – þá hugmynd að sækja um styrki til þess að túra landið með ljóðafyllerí. Þegar við Haukur komum síðan til landsins um vorið – tókum rútu til London og flugum heim; í London hafði Haukur þurft að skilja stóran hluta af hafurtaski sínu eftir, af því við áttum ekki fyrir yfirvigtinni og lentum í epískum erjum við flugvallarstarfsfólkið – var Grímur sem sagt búinn að redda fullt af peningum og tilkynnti okkur einfaldlega að nú þyrftum við að fylla tvo bíla af ljóðskáldum, hann væri búinn að bóka okkur í gigg um allt land.
Untitled
[ég er í reykjavík og gleymdi að taka með mér ljóðabók] Reykjavík. Hressó. Það er ekki kalt en ekki nógu hlýtt til að maður nenni að sitja úti. Kaffið er þunnt. Það er blautt en ekki rigning. Helgi Hrafn pírati gekk hjá. Sighvatur Björgvinsson gekk hjá. Mér finnst einsog túristunum hafi fækkað síðan ég var hér síðast. Þeir eru enn í meirihluta samt. Já, heyrðu – það er Airwaves, ætti ekki að vera allt stappfullt? Sennilega er ég bara eitthvað viðutan. Einhvers staðar í nágrenninu er sennilega verið að mynda ríkisstjórn. Ég borðaði ríflegan hádegisverð á Sólon en mig langar samt að borða meira. Ég hangi bara á stöðum sem plebbar hefðu hangið á svona 2002. Ég er að fóðra í mér nostalgíuna. Blaut Reykjavík og þunnt kaffi þjóna sama tilgangi. 2002 voru fartölvur samt of þungar til að maður nennti að burðast með þær í bæinn. Ef maður þá átti nokkuð fartölvu. Mér finnst það sennilegt en það er ekki víst. Ég byrjaði daginn á því að hlaupa fimm kílómetra á hlaupabretti í Stúdíó Dan. Í kvöld les ég ljóð með Bubba Morthens og Johnny Rotten. Og Crispin Best, Ástu Fanneyju og Steven Fowler. En þau voru aldrei mér vitanlega í pönkhljómsveit. Ég var í pönkhljómsveit. Kjell Westö er í popphljómsveit – hann var að senda mér póst og segja mér að hann yrði á sömu bókmenntahátíð og ég í næstu viku. Að spila með koverbandinu sínu. Ég ætla að útskýra fyrir honum í löngu máli þráhyggju mína fyrir Appetite for Destruction. Annars er ég nú bara að hlusta á Van Halen. Ef mér tekst að læra Appetite alla í ár (ég kann hana eiginlega alveg) þá ætla ég að fara í splitt á næsta ári. Einsog David Lee Roth. Nei, djók. Ég ætla ekki í splitt. Ég var gerður fyrir annars konar mikilfengleika en að fara í splitt. Nema ég sé að hugsa um spíkat, ég rugla því stundum saman. Steinar Bragi gaf mér smásagnasafnið sitt, Allt fer. Það er borubrattasti titill flóðsins. Aftan á henni stendur að Steinar sé með rosalega mikla hæfileika í litlaputtanum. Það finnst mér mjög skrítinn staður fyrir hæfileika. Það er sá fingur sem maður notar minnst á lyklaborðið. Sama gildir í gítarleik. Eiginlega held ég að það séu mjög fá svæði mannlegrar starfsemi þar sem það kemur sér vel að hafa mikla hæfileika í litlaputtanum.
Untitled
Leystu mig upp, bróðir, með auga þínu sem lokast aldrei
sem lítur bara út, sér ekkert, bara skímuna og sólspeglað vatnið
milli laufa í júlígrænkunni, undir tré
í bláu tágarkörfunni sem bar þig stóran þegar allt í kringum þig suðaði
og þú varst einsog hunangið ég sjálf í gulum kjól, dökkum
í trénu, sífellt dekkri gulum, skrækari, æpandi upp
en þögult, upp í trjátoppinn,
sigur, litli bróðir, yfir öllu
af þyngd kórónunnar
finn ég fyrir höfði sólarinnar Katarina Frostenson – Ég sjálf í gulum kjól
Ég veit ekki hvort þetta er vel gert hjá mér. Frostenson er ekki beinlínis einföld í þýðingu. Ég þekki mikið af sænskum skáldum sem hafa hana í hávegum. Sjálfum finnast mér textar hennar mjög sjarmerandi og þessi afar fallegur, en það er ekki laust við að sjálfstraust mitt í sænskunni ráði ekki alveg við þessar skrítnu setningar, einsog eitthvað í mér kikni eða bugist. Mér finnst alltaf einsog ég sé að misskilja eitthvað og missa af einhverju. Sem er skrítið – það truflar mig ekkert á ensku að lesa brotna undarlega texta. En þá treysti ég líka enskunni minni betur. — Ég sá tvo spekinga úr minni stétt ræða Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs á Facebook. Annar þeirra var miður sín að Frostenson væri ekki lengur jafn sæt og hún var þegar hún kom á bókmenntahátíð 1992 – hinn sagðist ekki lesa „skandinavískan litteratúr“, því hann væri svo gegnsýrður af pólitískri réttsýni. Þriðji nefndi svo annars staðar eitthvað um að sigurvegarahópurinn væri full einsleitur – fyrir utan Frostenson voru þetta allt karlar í svörtum jakkafötum. Mér fannst það eitthvað skakkt líka – það getur margt búið í svörtum jakkafötum, alls kyns usli. Það liggur við að svört jakkaföt séu alltaf dulbúningur. — Stundum finnst mér einsog Trump sé löngu búinn að vinna, þótt það verði ekki kosið fyrren í dag. Fögnuður forheimskunnar vann. Tortóla vann á Íslandi. Glamour tímaritið hefur tilnefnt Bono sem konu ársins. Trump vinnur líka þótt Clinton vinni – það er sigur fyrir Trumpismann að það sé ekkert skárra í boði en þau tvö (þótt vissulega sé skárra ef hún vinnur). Mér finnst meira að segja að ég verði vitlausari sjálfur, dag frá degi, allt verði einu stigi heimskara frá augnabliki til augnabliks. — Ég get heldur ekki gert upp við mig hvort ég drekk of lítið kaffi eða of mikið kaffi.
Chieftains, farmers, pirates and class-traitors
Þessi pistill birtist í (frekar slakri) þýskri þýðingu í tas í Berlín fyrir helgi. To begin: an anecdote. The Icelandic State Radio RÚV has on it’s homepage an election test, designed to help us – the people – find the candidates whose opinions most accurately reflect our own. In the test we, like the candidates, are asked about the most common issues which we grade on a sliding scale: Do we agree 94% that Iceland should accept more asylum seekers? Do we disagree 13% that kindergartens should be privatised? 29% that kindergarteners organs should be harvested? What do we think about allowing alcohol to be sold in convenient stores – could we perhaps not care less? When I took this test the candidate whose opinions most accurately matched mine was Ásthildur Ósk Ragnarsdóttir, for Björt Framtíð – a newish social-democrat party. Ásthildur Ósk Ragnarsdóttir also happens to be „Hilda“ – my childhood sweetheart, the girl I was insanely in love with from age six to about eleven, when she brutally broke my heart and dumped me by mail. (Spoiler alert: I won’t be voting for her). So. If you want to understand Icelandic democracy, the first thing to note is that due to the size of the population – 340 thousand people, whereof around 245 thousand are eligible to vote – Iceland doesn’t much function like a nation, in the continental understanding of that word. Iceland is a kind of a family gathering, a feast slightly larger than a Greek wedding, where the guests happen to share their own common language and a natural border. The next thing to note is that with 12 political parties and 1.307 candidates running for 63 seats in a single house of parliament, 1 out of every 187 possible voters is also a candidate. As is to be expected with a nation of this size, almost everyone on the voters registry is at least distantly related to almost everyone else and the probability of anyone being at least semi-closely related to a high-ranking candidate – or knowing them personally – is therefore great. To put it mildly. So every time I criticize a political party on my Facebook feed, I need to state clearly, that my criticism does not refer to my friend Gylfi, my cousin Magnús, the wife of my friend Smári, the grandfather of my sons best friend, nor indeed my childhood sweetheart Hilda – who are indeed the onlyrepresentives of said parties worth their weight, and if only their parties were more like them, perhaps they would be electable. For if I don’t single them out and except them from the apparent evils of their parties, they will see it and anger-like it, and that will make our next social gathering either embarassing or violent. The only way to maintain this illusion of nationhood – or indeed that of a functioning democracy – is through intense denial and clinical codependency. Historically Iceland has been led by a coalition of the libertarian conservatives of the Independence Party and the national conservatives of the Progressive Party, sometimes supported by either of the two traditional left parties. I.e. farmers, chieftains and class traitors. Only once – from 2009-2013, right after the financial collapse – has the country been led by the left, without support or concessions to the right. Four years of diluted socialism during a time when much of the country’s economical policy was decided by the International Monetary Fund – in a history that reaches back to 930 AD. (Granted, Alþingi’s contemporary form is only about a 170 years old – before that Alþingi was mostly run by chieftains, foreign kings and heathen priests, which are demographics I have no problem with defining as thoroughly right wing). This year, though, things are supposed to be different. For one thing the Pirates – a party hard to pin down in the chieftains, farmers and class traitors model – are polling at around 20%, despite the right’s rabid attempts at painting these often colorful characters as deceitful, melodramatic crybabies and out-of-control hypocrits. The biggest scandal they’ve managed to pin on the Pirates so-far is that one of their leaders once imprecisely stated his education. On a LinkedIn profile. From 2006. The Social-Democrats in Samfylkingin – having spent their days in government trying to force-feed a non-willing public with an EU-application (now canceled) and the very unpopular Icesave-agreements – are slowly but surely disappearing. Considering that two decades ago, the party was literally formed in order to unite the left under one banner, that is insane. Their name – Samfylkingin – even means „the coalition“. With that name, you can’t poll at the bare minimum. Meanwhile, most of the Social-Democrat following, that hasn’t escaped to the Pirates, has gone to Björt Framtíð („Bright Future“ – perhaps named so to emphasis the obvious: the only thing they don’t share with Samfylkingin is their „bleak past“) and to the more right-leaning, Viðreisn, popularly seen as a more liberal(ist) split from the Independence party. For a full picture of the opposition to chieftains and farmers add to this two populist parties, Dögun (Dawn) and Flokkur Fólksins (The People’s Party), a semi-communist party called Alþýðufylkingin, the Humanists and the nationalists of Þjóðfylkingin – who though newly formed seem to have already imploded in a chaos of accusations, insinuations and malpractice, causing many to claim that the most powerful anti-fascist mechanism, when properly harnessed, is the unending stupidity of fascists themselves. But stray voters have a tendency to find their way home in the end. Party insiders are now trembling from election jitters, grasping at straws in every available. Of course they all claim to be the only one (in this Greek wedding) with a long term memory. Don’t you remember when cousin Siggi drank up all the Ouzo? Have we already forgotten who’s responsible for yesteryears rotten baklava? If we again hire the same horrible DJ, I’m going home! And to tell you the truth, having seen my country try and make many changes in the past years – a new constitution (stranded), anarcho-populist reform in Reykjavík (technocratism and liberal lip service), jailing bankers (it’s complicated, but ultimately unsatisfying), overthrowing the right wing government (only to vote them back in) – I’m fairly certain that after the weekend, we will be returning to a status quo of farmers and chieftains. The best we can hope for, is a few class traitors. Whereupon, of course, we’ll start hoping for a new revolution.
Untitled
What they preach in Clark County is false.
In the air, we are only negation. Someone says,
Our seat cushions are also floatationdevices! And home is also a vacation spot
where potions are served hot and good and we fill
our noses with the stuff of life-sized plastic. Before takeoff
I watch the sun reflecting in the snow. Úr ljóðinu On Children, How I Hate Them And Want To Corrupt Them, How You Know I Hate Them, And What That Could Mean úr ljóðabókinni Other People’s Comfort Keeps Me Up At Night eftir Morgan Parker. Ég á frekar erfitt með að keyra á hálfu tempói. Eða venjulegu tempói. Það er ekki bara eirðarleysi, mér líður beinlínis einsog ég verði allur sljór einhvern veginn ef ég er ekki að drífa mig. Ég hægi á mér og missi niður allt tempó, enda á að stara bara fram fyrir mig einsog uppvakningur. Þetta er eitthvað hákarlasyndróm. Sink or swim. Úr þessu þarf ég að bæta, annars enda ég bara útbrenndur. Ég brenndi einu sinni úr bílvél – fyrir langalöngu. Þá var ég að keyra til Patreksfjarðar að hitta kærustuna mína. Sennilega hef ég verið átján ára. Ég var með tónlistina stillta svo hátt að ég tók ekkert eftir því þegar vélin byrjaði að djöflast. Lögreglan stöðvaði mig þegar ég kom keyrandi inn í bæinn og spurði hvað væri eiginlega í gangi með bílinn. Það fer líka illa með mig að vera aftur á Facebook. Ég finn að maður verður smám saman átakafælnari og einhvern veginn hvumsa á samfélaginu. Það er eitt að takast á um pólitík – en síðan ég kom aftur hef ég verið afvinaður og fólk nákomið mér hefur dreift um mig óhróðri. Út af þessu fiskeldismáli, sem sagt, fyrst og fremst; og það best ég get enn einlæglega séð, að ósekju og í fullkominni hysteríu. Skrítnast er einmitt að lenda í þessu frá fólki sem maður hefur alls ekkert tekist á við. Sennilega hangi ég á Facebook fram að kosningum. Nema ég geri það ekki. Ég er líka að verða þreyttur á Íslandi. Ekki að búa á Íslandi heldur díla við Ísland. Ef maður fær borgað fyrir eitthvað, fær maður ekki borgað flug, ef maður fær borgað flug fær maður ekki borgaða gistingu. Maður fær sjaldan borgaðan taxta fyrir neitt. Og þetta er ekki spurning um smæð – miklu minni batterí í Svíþjóð haga sér ekki svona. Yfirleitt er ég ekkert mjög bugaður fyrren á miðvikudögum. Mig óar við morgundeginum.
Untitled
You get hungry,
you eat hot.
Home’s a cold delivery destination. Úr lokaerindi And the stars were shining eftir John Ashbery Það er ósennilegt að Ashbery fái nóbelsverðlaun í vikunni. En vegna þess að það er ósennilegt er það einmitt kannski sennilegt. Ég skýt þó á að frönsku- og enskumælandi höfundar fái frí í nokkur ár. Ég er skárri – en enn lasinn. Þarf að sinna pósti og Starafugli í dag. Og þessu (en svo tek ég mér nokkurra daga hlé frá nostalgíunni). Saga Nýhils: Sjöunda brot brotabrots brotabrotabrots Það er óvitlaust að hafa í huga að megi lesa úr þessum textum einhverja rómantíska afstöðu til fyrstu ára Nýhils – einsog mér þykir ljóst að megi – þá er sú glýja afar lítil í samanburði við þá sem maður burðaðist um með dagsdaglega á þessum tíma. Allir dagar voru – fyrir mér a.m.k. – einhvers konar barátta við vanmáttarkennd, sjálfsvorkunn, mikilmennskubrjálæði og upplausn hversdagsins. Sú barátta var áreiðanlega að mörgu leyti háð einmitt vegna þess að ég var frekar balanseraður annars – hún var altso viljandi, ég vildi að lífið væri í viðstöðulausu uppnámi frekar en að ég væri að reyna að rétta einhvern kúrs og komast inn á beinu brautina. Ég hafði miklu meiri áhyggjur af alræði beinu brautarinnar, en afleiðingum kaosins eða frumstæðra hvata. En svo hafði ég – merkilegt nokk – líka hálfgerða ímugust á þeirri tilhneigingu (sem ég þóttist sjá sums staðar í kringum mig; og hafa tendens til sjálfur, augljóslega) að maður félli fyrir eigin bóhemrómantík og léti það duga. Mér fannst algert skilyrði frá fyrsta degi að maður ynni fyrir pósunum. En mig sem sagt langaði að vera djöfullegur. Alveg einlæglega. Hugmyndin að Nýhilkvöldunum kom alveg áreiðanlega frá Hauki Má. Hann hefur oft sagt að ég muni margt úr ævi sinni betur en hann – að meðtöldum minningum frá því áður en við kynntumst – en ég hugsa að þetta muni hann áreiðanlega samt betur en ég. Við skrifuðumst talsvert á fyrsta árið hans í Berlín og þá komu upp ótal hugmyndir um allar þær borgaralegu sýslur sem við ætluðum að leggja fyrir okkur þegar ég kæmi til borgarinnar. Þar var efst á blaði að stunda skylmingar. Ég er ekki viss um að við höfum gert okkur grein fyrir því að skylmingar væru ætlaðar borgarastéttinni – raunar vorum við ótrúlega bláeygir á stéttir almennt, þótt við töluðum mikið um þær. Og kannski fannst okkur ekkert eðlilegra en að við höguðum okkur einsog borgarastéttin, nú þegar við værum fluttir til borgar. En stéttir. Útúrdúr. Þetta er allt jafn mikilvægt. Ég man eftir því einn daginn við Prenzlauer Allée að til okkar kom iðnaðarmaður á vegum leigusalans og hvað var skrítið að hann skildi bukka sig og beygja fyrir okkur – þegar hann þá á annað borð kom upp orði af respekt – frekar en að hrækja í okkur einhverju um að við værum vonlausir aumingjar að geta ekki bjargað okkur sjálfir, einsog hefði verið sennilegri hegðun hjá íslenskum iðnaðarmanni. En sá þýski hafði komið inn, séð bækur og ályktað að hér væru háskólanemar, vitað að við vorum fyrstuleigjendur (sem er nánast einsog að eiga hús í Þýskalandi), og hugsað með sér að við værum fínimenn. Nema hvað. Við fórum aldrei í skylmingar. Haukur Már fór hins vegar eitthvert kvöldið á stað í nágrenninu til þess að læra að dansa tangó. Ég man ekki hvort hann fór oftar en einu sinni og það skiptir í sjálfu sér ekki máli – það sem skiptir máli er staðurinn. Versuchsstation. Tilraunastöðin. Þetta var lítið rými sem Haukur uppgötvaði að hægt var að fá leigt fyrir litla sem enga peninga – og þá peninga mátti vinna sér inn með því að selja bjór af barnum (og jafnvel græða eitthvað klink ef vel gengi). Haukur skráði okkur til leiks og það fyrsta sem við gerðum, sem meðlimir Versuchsstation, var að mæta á árshátíðina – þar sem allir áttu að sýna brot úr starfsemi sinni. Af einhverjum orsökum mættum við mjög seint – eða þá ég hef bara gleymt öllu sem átti sér stað – og óundirbúnir skelltum við í upplestur á ljóði sem ég skrifaði fyrstu dagana í Berlín – Það er ekki að fara að hefjast neitt stríð – á ensku á meðan Haukur spilaði á píanó undir. Hugsanlega spilaði hann hreinlega Imagine. Það hljómar alveg ósegjanlega hallærislega að hugsa til þess; og mögulega misminnir mig, en það er sem sagt séns. Kannski var þetta það eina sem við höfðum með okkur. We Are Not About to Have a War og Imagine. Það er líka eiginlega sama lagið, bara í sitthvorri tóntegundinni. Versuchsstation var í alvöru svona 5 mínútna gang frá heimili okkar. Rýmið var svo lítið að ég skil enn ekki hvernig fólk fór að því að dansa tangó þarna inni. Og var þess vegna alltaf fullt (og raunar alltaf vel mætt). Í Prenzlauer Berg bjó þá óhemja af kunningjum og vinum – ég held að það hafi verið okkur afsökun, frekar en að við höfum séð fyrir okkur að þeir yrðu einu gestirnir. En við sáum þá a.m.k. fyrir okkur að við gætum fengið einhverja gesti. Meðal þeirra sem þarna voru má nefna krakkana í múm – Gunna, Örvar og Kristínu Önnu (Gyða var nýhætt); myndlistarfólkið Söru Riel og Daníel Björnsson, ásamt bróður Danna (sem varð löngu síðar maðurinn hennar Söru); Kára Gylfason (sem er nú fréttamaður á RÚV); heimspekingana Davíð Kristinsson og Hjörleif Finnsson; Unu Sveinbjarnar fiðluleikara, og Freyju Gunnlaugsdóttur klarinettuleikara, Laufeyju Guðnadóttir, íslenskufræðing, Snapskokkinn Núma Thomasson og Mána bróður hans (syni Jórunnar Sigurðardóttur). Ótal fleiri áttu leið í gegn og dvöldu um skemmri eða lengri tíma, t.d. Ásthildur Valtýs (afleysingu og systur Gyðu), Svavar í Prins Póló, Sindri Sin Fang, Sölvi bróðir Núma og Mána, Lóa Hjálmtýs, Pétur Már Gunnarsson myndlistarmaður (það var annar Pétur Már sem var í Nýhil) og svo Grímur Hákonarson, sem var í námi við FAMU í Prag og datt inn tvisvar-þrisvar um veturinn. Mig rámar líka í að hafa hitt Egil Sæbjörnsson eitthvað. Ég er ekki viss um að allt þetta fólk hafi komið á Nýhilkvöld, reyndar, en flestir voru fastagestir. Þetta var augljóslega fyrir Facebook og í staðinn fyrir event gerði maður flyera. Þarna má sjá að fyrsta Nýhilkvöldið hefur verið haldið 31. október, 2002, og það næsta 28. nóvember. Við vorum bókuð í salinn mánaðarlega. Á neðri flyernum neðst má sjá tilvísun í heimasíðu – sem er þá háskólasíða Hauks Más – og þar stendur að alvöru heimasíða sé væntanleg. Í upphafi voru Nýhilkvöldin alls ekki ljóðakvöld eða ljóðapartí – sennilega var það Grímur sem að ýtti okkur í þá átt síðar – heldur einfaldlega listviðburðir. Það var alltaf DJ og eitthvað af upplestrum en líka sýndar stuttmyndir, tónlistaratriði og alls konar rugl. Mig minnir meira að segja að það hafi einu sinni verið live viðreynsla af sviðinu (á vegum þýsks karlmanns sem var ástfanginn af Gunna Tynes).
Untitled
Hann horfir á James Bond-mynd af myndbandi. Konan hans leigði hana handa honum. Hann hefur ekki gaman af James Bond. Hann er 47 ára. Hann hefur ferðast til Kína og Afríku. Konan hans er uppi í svefnherberginu þeirra og skrifar elskhuga sínum bréf. Þau ætla að fara saman í átta daga útreiðartúr. Ragna Sigurðardóttir – úr bókinni 27 herbergi
Ég hef oft verið dálítið útkeyrður en sennilega sjaldan jafn útkeyrður og nú á föstudagsmorgun. Of mikil vinna, of mikið félagslíf, of mikið af öllu. Og flensa ofan í kaupið. Bæði var ég veikur áður en ég fór suður – í lokin á eldhúsruglinu – og í stað þess að batna almennilega versnaði ég bara aftur eftir því sem leið á vikuna. Ég hef meira og minna legið í rúminu síðan á föstudagsmorgun. Í gær reif ég mig upp og fór í mat hjá Smára, Siggu og Kalla (sem buðu upp á baneitraðan regnbogasilung). Og í dag er ég búinn að lofa mér í barnabíó klukkan þrjú. Þannig eru tólf dagar síðan ég bloggaði síðast og þá var ég líka útkeyrður og lasinn. Saga Nýhils: Sjötta brot brotabrots brotabrotabrots
Ég lauk við Heimsendapestir í Helsinki haustið 2001 og vann í henni á Ísafirði eftir áramót og fram á sumar. Hugmyndin var reyndar alls ekkert sú að koma heim, en mamma splæsti í miða svo ég gæti verið heima á jólunum og þegar þangað var komið bauð mín fjall af reikningum og lánum sem voru að falla á mömmu. Ég var ekki lengur með vinnu í Helsinki – hafði fyrst unnið við þrif í Svíþjóðarferjunni, Viking Line, og svo sem kokkur og altmuligmaður á ananda marga leikskóla. Á Ísafirði gat ég hins vegar alltaf gengið inn í bærilega launaða vinnu og þess utan búið hjá foreldrum mínum á meðan ég vann fyrir reikningunum. Haukur Már ritstýrði Heimsendapestum og fékk neitunarvald á öll ljóðin í henni – hann mátti ekki fikta í þeim að vild en hann gat beinlínis gert þau brottræk úr bókinni ef honum fannst ég ekki ná að gera þau nógu áhugaverð. Og það var slatti sem fékk að fjúka – þó ég hafi áreiðanlega hent fleirum viljugur en nauðbeygður. Síðan skrifaði hann einhvern þann digurbarkalegasta formála sem ég held að ég hafi lesið. „Bestu tíðindi íslenskrar ljóðlistar frá því við lærðum að lesa“. Mig minnir að það hafi verið upphafsorðin. Og svo svaraði ég honum í öðrum formála sem var ekki hógværari. Dóri gerði kápuna – sem er bara fjöldaframleidd ljósmynd brotin í tvennt. Hann framkallaði í Listaháskólanum í Helsinki og sendi mér. Ein af myndunum var af Mella vini mínum að drekka rauðvín úr plastflösku í hringekju við Eiffelturninn. Það var sú eina sem ég tók sjálfur – hinar voru náttúrumyndir frá Dóra. Ég prentaði innvolsið sjálfur í H-Prent á Ísafirði – mig minnir að ég hafi gert 160 eintök – heftaði, skar til og pressaði. Af þessum 160 fóru áreiðanlega út 20 kynningareintök á fjölmiðla. Þetta var sumarið 2002 og þá birtust enn dómar um ljóðabækur í nærri öllum fjölmiðlum sem vildu láta taka sig alvarlega (og þá voru enn til fjölmiðlar sem vildu láta taka sig alvarlega). Það breyttist svo hratt á næstu árum. Ég man eftir því að Eiríkur Guðmundsson hringdi í mig úr Víðsjá þegar ég var nýkominn úr baði – og svo var Víðsjá auglýst allan daginn þannig að í þættinum yrði rætt við skáld í baði. Bókin kom út í byrjun ágúst og fáeinum dögum síðar stakk ég af til Berlínar. Fyrst millilenti ég auðvitað í Reykjavík og í einhverju bríaríi og gúrku endaði ég þá í klukkustundarlöngu viðtali við Róbert Marshall á Útvarpi Sögu (sem var þá annars konar útvarpsstöð en í dag, a.m.k. fagurfræðilega). Það er enn lengsta viðtal sem ég hef farið í. Hann var þá í afleysingum og vantaði áreiðanlega bara einhvern til að fylla upp í rýmið. Ég man ekki hvort dómarnir komu fyrren ég var farinn úr landi. Þeir voru flestir jákvæðir – sérstaklega var Friðrika Benónýs kát með mig, líkti bókinni við Ský í buxum Majakovskís – en Geirlaugi Magnússyni fannst lítið til mín koma – án þess þó að hann væri grimmur, þetta var meira svona patróníserandi vinsemd, einsog gengur hjá fólki sem þykist of gott til að vera grimmt. Ég prentaði þessa tvo dóma út og hafði þá fyrir augunum í stofunni í Berlín – það væri eftiráútskýring að fullyrða nákvæmlega hvers vegna. Hugsanlega var það samt til áminningar um hvað væri við að etja. Hvernig þessi heimur liti út og við hverju maður mætti búast af honum. Ég held að það sé mikilvægt að venjast því að verk manns séu ekki allra – verk sem eru allra eru allt annars eðlis en það sem mig langar að skrifa. Ég veit það alveg, þótt ég þurfi stundum að minna mig á það. En það er sömuleiðis mikilvægt að leyfa sér að standa með sjálfum sér og rétta þeim löngutöng sem vilja hafa vit fyrir manni, og ekki síður að fagna þeim sem bjóða manni upp í dans.