Fiskars: Uppgjör og einkunnir

Fyrsti í #Fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 1, 2017 at 3:38am PST //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Ég man ekki hvað var fyrsta í fiskars. Sennilega er þetta þorskur með sólþurrkuðum tómötum og ólífum. Eitthvað þannig. Lítur girnilega út. Ég skýt á 7/10. #fiskars part deux A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 2, 2017 at 10:59am PST //platform.instagram.com/en_US/embeds.js

Annan dag fiskarsmánaðar var ég sennilega með rauðsprettu á byggbeði. Eða eitthvað. Skelfilegt að skrifa þetta ekki niður. Segjum 6/10. #fiskars vs pizzaföstudagur A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 3, 2017 at 11:29am PST //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Þriðji í fiskars var líka pizzaföstudagur. Skýrir sig sjálft. 8/10. Kedgeree #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 4, 2017 at 10:26am PST //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Fjórða í fiskars var kedgeree með reyktri ýsu. 7,5/10 (mjög gott en svolítið þungt). Rækjupasta #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 5, 2017 at 10:06am PST //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Fimmta í fiskars rækjupasta. 8/10. Fiskisúpa m/ þorski, rækjum og reyktum laxi #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 7, 2017 at 10:10am PST //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Sjötti. Sennilega var þetta ekki nema 6,5/10 – óeftirminnilegt. En það var áreiðanlega rjómi í þessu og hann klikkar sjaldan. Í öllu falli var enginn afgangur svo einhverjum hefur þótt þetta gott. Plokkfiskur á @messinnreykjavik #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 8, 2017 at 5:37am PST //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Sjöunda var ég kominn í ferðalag. Ég var ekki nógu ánægður með þennan plokkfisk – þetta var eitthvað smjörfræst. En ætla að gefa Messanum annan séns við tækifæri, það segja allir að þetta sé svo gott. 6/10. Túnfisksamloka #fiskars #wheninkef A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 8, 2017 at 10:13pm PST //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Leifsstöð. Spicy Tuna á Joe & The Juice. 6/10. Rækjusalat á Tante Gerda í Hamar #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 10, 2017 at 6:51am PST //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Hádegismatur í Hamar á Rolf Jacobsendagene. 5/10. Sjávarréttahornið á tapasdisknum mínum #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 11, 2017 at 9:59am PST //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Ég át líka talsvert af kjöti í fiskars, en þá með eða á öðrum tíma (í hádeginu þá mest). En alltaf einhvern fisk. 8/10. At Icelandic Fish & Chips #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 13, 2017 at 6:36am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Þetta var mjög gott. Svolítið hipsteraleg þessi smjörfroða og það hefði auðvitað átt að vera maltedik með en fiskurinn var alveg solid. 9/10. Víetnamskar vorrúllur með risarækjum og hnetusósu #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 14, 2017 at 11:24am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Heimkominn fór ég í víetnamska nostalgíu. 8/10. Regnbogasilungur, kartöflur og salat. #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 15, 2017 at 10:54am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Ég gerði svo mikið af brjálæðislega góðri hnetusósu með vorrúllunum – notaði hluta af afganginum til að smyrja þennan vestfirska silung. 8/10. Gufusoðinn steinbítur með jurtasósu. #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 16, 2017 at 12:18pm PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Þetta er sennilega eftirlætisréttur Nödju. Þessi sósa – sem er bara smjör, sérrí, kóríander, (thai) basilika, steinselja og skalottlaukur – er svakaleg. 8/10 (Nadja færi sennilega í 9,5/10. #fiskars vs pizzaföstudagur taka II: sardínupizza og plokkfiskhálfmáni A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 17, 2017 at 11:48am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Aftur kominn pizzaföstudagur. Það er plokkfiskur með bernaise innan í hálfmánanum. Plokkarinn fær 8,5/10. Hin 8/10. Sill och potatis #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 18, 2017 at 11:01am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Sænskasti rétturinn. 7,5/10. Chutneylax, indverskt salat og naan. #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 19, 2017 at 1:04pm PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Verst að fá bara frosinn lax. En sennilega stendur það til bóta með öllu þessu eldi. 7/10. Cod liver sandwich #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 20, 2017 at 5:10am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Þykkar franskbrauðssneiðar ristaðar á pönnu, hálf dós af lifur, hálft avókadó, lambhagasalat og „sterk sinnepssósa“ – hefði hugsanlega notað majones, en átti þetta til. Kúfuð skeið af svörtum hrognum. Salt og pipar. 9/10. Beikonvafin langa #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 20, 2017 at 11:09am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Nadja fór til Frakklands og þá var ástæða til að bæta kjöti í matinn. 7,5/10. Hvítlauksristaður skötuselur og ribeye. #fiskars #toolatergram A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 21, 2017 at 2:06pm PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Þetta var síðasti dagurinn með eldhús. Svo kom smiðurinn og tók af mér eldhúsið og ég færði allt mitt hafurtask inn í stofu. Þar sem ég kláraði fiskars á hrísgrjónapotti, örbylgjuofni, vöfflujárni og George Foreman Lean Mean Fat-Reducing Grilling Machine. 9/10. Tilbúinn réttur frá fiskbúð Kára Jó og hrísgrjón úr nýja hrísgrjónapottinum. #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 22, 2017 at 11:20am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Ég man ekki alveg hvað þessi réttur frá Kára var. Sennilega langa í sinnepssósu. Ég hafði pantað hrísgrjónapottinn frá Reykjavík og hélt að hann kæmi ekki fyrren degi síðar – en svo kom hann og ég vildi prófa. Ég notaði örbylgjuofninn til að elda lönguna og svo notaði ég hann ekkert meir. 6,5/10. Rúgvaffla með reyktum laxi. #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 23, 2017 at 11:12am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Karlakórinn var að selja reyktan lax. Ég fékk hann heimsendan í vinnuna. 8/10. Yum yum rækjunúðlur #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 25, 2017 at 2:46am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js „Tími til að njóta“. (Ég er reyndar alger sökker fyrir svona núðlum). 7/10. Hörpudiskrisotto #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 25, 2017 at 11:19am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Hrísgrjónapotturinn fékk að vinna fyrir laununum. Það er hægt að nota hann alls konar – t.d. steikja lauk í botninum. Ég segi ekki að risotto sem maður sinnir viðstöðulaust í góðum potti sé ekki betra – en þetta er ótrúlega próblemfrítt. Og hörpudiskurinn grillaður í Formanninum. 7,5/10. Fyrsti (og sennilega síðasti) vatnakarfinn minn. #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 26, 2017 at 11:25am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Ég keypti svona vatnakarfa í tælenska frystinum í pólsku búðinni (þegar tælensku búðinni var lokað breytist hún í horn í pólsku búðinni). Þegar ég kom heim fór ég að gúgla tegundinni – tinfoil barb hét þetta á umbúðunum – og fann bókstaflega enga uppskrift en mikið um að þeir væru hafðir fyrir gæludýr. Og eitthvað um að vatnakarfi almennt væri grillaður víða í asíu, bara svona beint upp úr vatninu. Ég gerði það en mæli ekki með því. Frekar leiðinlegur á bragðið og alveg skelfilega mikið af beinum. 3/10. #fiskars dagsins: ciabatta með rækjusalati A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 27, 2017 at 4:42am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Körfuboltastelpurnar voru að selja rækjur. Ég hef bara held ég aldrei gert rækjusalat áður en geri oft túnfisksalat með svipuðum prinsippum. Heimalagað majo gerir gæfumuninn (og er fáránlega auðvelt – majomafíunni hefur einhvern veginn tekist að sannfæra heiminn um að það þurfi að kaupa dollurnar þeirra því þetta sé eitthvað moj, en það er alger misskilningur). 7/10. Sushi #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 28, 2017 at 4:08am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Aftur fékk hrísgrjónapotturinn að trylla lýðinn. Ég er enginn ægilegur sushikall – en hvað gerir maður ekki þegar maður á ekkert eldhús? Þetta var líka ágætt. 7/10. Thai koon rækjur. #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 29, 2017 at 5:11am PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js

Þennan dag eldaði ég ekki neitt. Við fórum í mat til M&P um kvöldið og ég fékk mér þetta í hádeginu til að fiskarsa mig upp. 6,5/10. Gullkarfi í kókósmüslihjúpi með tortillaflögum, salati og salsa. #fiskars A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 29, 2017 at 12:44pm PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Þetta var ótrúlega gott. 9/10. Næstsíðasti í #fiskars : Asískar steinbítsbollur, spírusalat og rösti (frá Kára í Sjávarfangi). A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 30, 2017 at 12:17pm PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Þetta var líka alveg brjálæðislega gott. 9/10. Síðasti í #fiskars meets pizzaföstudagur meets ekkert eldhús. A post shared by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on Mar 31, 2017 at 12:17pm PDT //platform.instagram.com/en_US/embeds.js Í staðinn fyrir pizzur gerði ég quesadillas í Formanninum. Börnin fengu sín venjulegu pizzaálegg en ég gerði eina með surimi, avocado, mozzarella og sterku salsa og aðra með reyktum laxi, pestó, lauki og mozzarella. Sú fyrri fær 7/10 en seinni 8,5/10.

Untitled

19 dagar í útgáfu Sennilega birtist fyrsta ljóðið sem ég skrifaði í Óratorrek á Facebook og sennilega – ég man aldrei neitt – byrjaði það sem langur status og það var áreiðanlega annað hvort „Ljóð um dóttur mína“ eða „Ljóð um hörmungar“ eða „Ljóð um fyrirgefninguna“. Ég datt niður á einhvern talanda – einhverja leið til þess að tjá mig í setningum sem í senn héngu saman og leystust í sundur – og textinn kom allur á til þess að gera óþvingaðan hátt, sem mér fannst líka skipta máli, þessi ljóð eru ekki skurðaðgerðir heldur snjóflóð. Allen Ginsberg sagði að ljóðlistin væri listin að „grípa sjálfan sig við að hugsa“ – að „taka eftir því sem maður tekur eftir“ – og líklega reyndi ég að fara þveröfuga leið, að hætta að taka eftir og gera rantið að ljóðrænu verkfæri, gera síbyljuna – tungumálið einsog það birtist mér – að efnivið í einhvers konar retóríska/ljóðræna skúlptúra. Ég hef áður unnið talsvert með fundna texta – sérstaklega í Blandarabröndurum og Fönixnum – en í Óratorreki er eiginlega frekar að ég reyni að  herma eftir tungumálinu en að ég steli því og rímixi. Fundni textinn í  Óratorreki er tungumálið allt. Flest ljóðin í bókinni eiga sér eitthvert tiltekið tilefni eða þema sem þjónar einsog akkeri fyrir ljóðin til að hringsóla (eða reykspóla) í kringum. Þarna er ljóð um Evrópukeppnina í knattspyrnu, ljóð um hryðjuverkaógnina, ljóð sem var ort fyrir sýningu í Norræna vatnslitasafninu í Skärhamn og annað sem ort var fyrir sýningu í Gallerí Úthverfu á Ísafirði, það eru ljóð sem voru ort sem fyrirlestrar um bókmenntir, ljóð um ástandið á Gaza og ljóð um ástina, ort á brúðkaupsafmæli mínu og Nödju. Öll í sama bragarhætti. Og sennilega hefur ríflegur helmingur þeirra nú þegar birst einhvers staðar – mörg reyndar á öðrum tungumálum – og enn von á mörgum.

Untitled

Aram Nói er í fréttunum í dag . Gatan heitir að vísu Tangagata, en Tan-gata er ekkert verra. Aram komst síðast í fréttirnar í Västerås þegar hann var fjögurra ára. Þá tóku þeir sig til tveir félagarnir og stungu af úr pössun hjá vinkonu okkar. Þeir sögðust hafa ætlað að fara og fá sér pulsu í búðinni en föttuðu svo að þeir áttu enga peninga og náðust af lögreglunni úti við hraðbraut þar sem þeir voru að reyna að húkka sér far niður í bæ þar sem þeir ætluðu að sögn vegfaranda að „tjilla“. Vegfarandinn, sem hringdi á lögregluna, sagði víst líka að þegar hún hefði spurt hvað þeir væru gamlir hefðu þeir sagt henni að koma sér, þetta væri allt í lagi, þeir væru sex ára. En nú er þessi litli ólátabelgur bara orðinn ábyrgur þjóðfélagsþegn.

Untitled

Stundum þegar ég sest niður til að skrifa eitthvað fer hugurinn að leita sér að skoðun. Ég man að ég las eitthvað í dag og ég hafði á því skoðun. Sennilega var það frétt. Eða uppskrift. Kannski var það varðandi eitthvað sem einhver sagði við mig í tölvupósti. Eitthvað sem hefur með framtíðina að gera. En svo man ég bara ekki hvað það getur hafa verið og þá fer heilinn á mér að framleiða nýjar skoðanir á einhverju öðru. Einhverju sem skiptir engu máli. Einhverjum algerum tittlingaskít. Hausinn á mér kominn í rifrildisgír og ég byrjaður að garga á einhverja endemis fávita í hugsunum mínum. Það gengur augljóslega ekki. Þetta er alger endaleysa. Ég verð að hætta þessu.

Untitled

„Er ekki einhver opinber aðili sem getur gert athugasemdir við útgefanda og haft samband við bókasöfnin. Þetta hlýtur að stangast á við einhverjar reglur sem eiga að hafa það að markmiði að vernda börn.“
„Eftir að mér var bent á þessa færslu fór ég að blaða í fleiri bókum í seríunni og sá að þessi bók er ekki einsdæmi. Bækurnar hafa verið teknar úr umferð á Bæjarbókasafni Ölfuss og verða afskráðar á morgun.“
„Sá að þessi bók er á bókasafni skólans sem strákurinn minn er í og líklegast flestum grunnskólum. Ég er búin að senda línu á kennara stráksins og skólastrjórann [svo] um að ég vilji að þessi bók verði tekin af bókasafninu. Mæli með að foreldrar fari fram á það í skólum barna sinna.“ Helgi Jónsson er löngu alræmdur fyrir smekkleysi í bókum sínum, sem flestar eru ætlaðar börnum og unglingum. Þar ríkir talsvert „hispursleysi“ í kynferðismálum og skrifað er um viðkvæm efni einsog við ritvélina sitji skrautskrifandi fíll í postulínsbúð í boxhönskum. Um þetta hefur vinkona mín, ljóðskáldið og sagnfræðingurinn Kristín Svava Tómasdóttir skrifað eina skemmtilegustu grein á internetinu (sem verður, merkilegt nokk, ekki verri við tilvitnanir í bók Helga – sem er greinilega óborganleg). Í vikunni gerðist það að einhver fullorðinn ákvað að lesa þessar bækur.  Nánar tiltekið Gæsahúð fyrir eldri: Villi Vampíra. Og úr varð skandall þaðan sem tilvitnanirnar hér að ofan eru teknar. Pistillinn sem kom öllu af stað er með tæplega þúsund  shares , og fleiri hundruð  likes og athugasemdir. Ég fæ ekki betur séð en þær séu allar á eina leið: Bækur Helga Jónssonar eru fordæmalaust sorp (tékk) og þær ætti tafarlaust að fjarlægja úr bókasöfnum, ef ekki bara hreinlega banna þær (nei, heyrðu mig nú). Mótþróaröskunin í mér þolir svona lagað illa. Og þá hjálpar ekki til að innra með mér berjast tveir aðilar – rithöfundurinn með öll sín bókmenntaprinsipp og faðirinn sem vandar valið þegar hann kaupir bækur fyrir börnin sín. Já og sá þriðji, grunnskólalesandinn – horfinn núna, en það eimir eftir af honum – sem hætti að lesa í nokkur ár og áttaði sig svo á því í upphafi menntaskóla að það voru ekki bækur sem voru leiðinlegar, heldur helvítis unglingabókahöfundarnir sem voru að drepast úr meinleysi og kynleysi, akkúrat á sama tíma og ég stefndi hraðbyri í hina áttina. Sem betur fer eru þeir allir í sama liði. En svo virðist sem veröldin – eða í það minnsta virkir í athugasemdum, allir þúsund talsins – séu í hinu liðinu. Faðirinn segir: Fólk sem ofverndar börnin sín eignast trámatíseruð börn sem hafa aldrei séð neitt, upplifað neitt eða hugsað neitt (nema í beinni, hreinni línu). Þau verða einsog hysterískustu dæmin úr bandarískum háskólakampusum – úthverfabörn sem fá útbrot og bólur ef umhverfi þeirra er ekki siðferðislega sótthreinsað reglulega.  Það er ekki nóg með að fólk af slíku tagi sé óumberandi leiðinlegt heldur er það auk þess vansælt og illa í stakk búið til að takast á við lífið (sem er einmitt ekki sótthreinsað heldur siðferðislega skítugt, endalaus grá svæði, hávaði og læti). Grunnskólalesandinn segir: Þetta er nú meira ódóið þessi karl. Textinn beinlínis angar af kynferðislegri þrá í garð unglingsstúlkna [svona talaði ég í grunnskóla]. Ég gæti sennilega lesið að minnsta kosti tuttugu svona bækur í einni beit áður en ég kastaði upp. Hugsanlega er þetta samt áhugaverðara en 90% af meðalmennskunni sem finna má á bókasafninu – þetta er þó  almennilega lélegt, alveg óborganlegt drasl! Rithöfundurinn segir: Er fullorðið fólk í alvöru að hvetja til þess að bækur verði fjarlægðar úr hillum bókasafna vegna þess að því misbýður umfjöllunarefni og orðalag? Hefur þetta fullorðna fólk sjálft ekki lesið neinar bækur? Áttar það sig ekki á því að annars vegar er þetta hál braut – bókasöfn eru full af vafasömu efni og margt af því er líka afar lélegt, hreinsunum af þessu tagi gæti ekki lokið við bækur Helga, ættu þeim að fylgja nokkur sanngirni – og hins vegar laðast lesendur, sérílagi ungir lesendur, ekki síst að því sem er forboðið. Með fullri virðingu: Getum við ekki eftirlátið einræðisherrunum að banna bækur? Það er hægt að gera ýmislegt annað, ef maður er í athafnamóð – ef manni finnst þetta ekki barnaefni er til dæmis hægt að flytja þær í fullorðinsdeildina. En sá sem fjarlægir bók eða bækur úr bókasafnshillu í ofsafengnum vandlætingarmóð er á afar hættulegri vegferð. Það liggur við að slíkur gjörningur ætti ekki að vera leyfilegur nema að undangengnum réttarhöldum. Þá má bæta því við að sennilega er þessi tilhneiging einmitt hin hliðin – verri hliðin – á sama trailer trash hugsanaheimi og bækur Helga eru sprottnar úr.

Untitled

The origin of criticism lies in an innocent, heartfelt kind of question, one that is far from simple and that carries enormous risk: Did you feel that? Was it good for you? Tell the truth. Better Living Through Criticism:  How to think about art, pleasure, beauty and truth – A.O. Scott Það þarf því kraftmeiri rök til að sannfæra fólk sem það er ólíklegra til þess að  vilja sannfærast. Tveimur árum eftir að flugmaður stingur flugvél í sjóinn með 150 farþegum innanborðs er faðir flugmannsins enn sannfærður um að hann sé saklaus. Því hann þekkir son sinn, hann myndi aldrei gera svona, og þar með finnst honum ekki standa steinn yfir steini í röksemdafærslum yfirvalda. Skyld lögmál stýra því hvernig fólk bregst við neikvæðum listdómum. Hafi maður dálæti á listaverkinu, eða jafnvel bara listamanninum, er ekki ósennilegt að manni finnist allur  rökstuðningur neikvæðs listrýnis vera ómerkilegur, þunnur og jafnvel hreinlega  alls ekki til staðar.  Í gær birtist á Starafugli dómur eftir Ólaf Guðstein Kristjánsson um bókina  Perurnar í íbúðinni minni eftir Kött Grá Pje. Dómurinn var í neikvæðari kantinum – það eru sjaldan/aldrei gefnar stjörnur á Starafugli (það er ekki stefna, en ég fæ aldrei senda neina stjörnugjöf og kalla ekki eftir henni) en ætli væri ekki óhætt að segja að dómurinn hafi verið upp á tvær til tvær og hálfa stjörnu. Svona moðvolgur, frekar en beinlínis neikvæður. En þá ber að hafa í huga að flestir gagnrýnendur veigra sér við að sýna of mikla neikvæðni – þeir  vilja flestir gefa verkum séns og er á móti skapi að slátra. Það er sársaukafullt að  sjást ekki og það er nákvæmlega sá sársauki sem listamaður þarf að kljást við þegar hann eða hún fær neikvæðan dóm. Einhvers konar ósýnileika. Að það sem maður hafi verið að reyna að koma til skila – sem er alltaf misafmynduð spegilmynd af manni sjálfum – hafi ekki borist. En sársaukinn er líka til kominn af því að flest fólk (sem ég þekki) er með allavegana snert af því sem er kallað  impostor syndrome og gengur út á að finnast maður aldrei alveg eiga neitt skilið eða maður tilheyra þar sem maður er. Það er alveg sama hvað það er sem við gerum, línan á milli þess að vera áhugamaður – koma út af Karate Kid sjö ára sparkandi út í loftið – og þess að vera atvinnumaður – t.d. í hringnum úti í London á móti Gunnari Nelson – er alltaf óljós. Íþróttamenn hafa það að vísu fram yfir listamenn að árangur þeirra er alla jafna  mælanlegur . Annað hvort kemur maður fyrstur í mark eða ekki, þótt mér þyki sennilegt að þeir taki heppni með í reikninginn. Listamenn eru hins vegar alltaf fastir í viðstöðulausu  fake it till you make it og þess utan – allir hugaðir listamenn – stöðugt að leita að eigin annmörkum, ögra sjálfum sér og krukkandi í sálinni og leitandi að vitlausu beinum tilfinningalífsins. Og þá ber að hafa í huga að mikilmennskubrjálæðið („Ég er séní!“) er náskylt minnimáttarkenndinni („Allir hata mig“). Hægt er að þjást af þessu syndrómi „by proxy“ – þ.e.a.s. fyrir hönd einhvers annars. Listamenn kalla að vísu á mismikla hollustu og það er ekki alltaf í hlutfalli við frægð þeirra eða velgengni – eða svo hefur mér í það minnsta sýnst. En sumum listamönnum/listaverkum má hreinlega ekki hallmæla – það er einsog siðbrot, og það kallar á upphróp og læti. Fljótlega eftir að dómur Ólafs birtist á Starafugli hóf hann að fá sína eigin dóma – ekki einn og ekki tvo, heldur sennilega upp undir tuttugu talsins, á örfáum klukkustundum, mest á Twitter en líka á Facebook. Þetta er það næsta sem ómerkilegt menningarrit á borð við Starafugl kemst því að lenda í twitterstormi. Ólafur var vændur um að vera með prik í rassinum, gert var gys að kansellípönkstílnum sem hann skrifar (hann skrifar „alltént“; það þykir ekki par fínt á Twitter), sagt var að hann hefði ekki fært rök fyrir máli sínu (sem er einfaldlega af og frá), og jafnvel að hann hefði ekki tekið dæmi úr textanum (það er alltént ekki satt), að hann „skrifaði bara sjálfur vondan stíl“ (Ólafur sagði aldrei að stíll KGP væri lélegur, heldur að hann væri „ekki nógu góður“ – sem er tvennt ólíkt) og svo framvegis og svo framvegis. Fyrir utan einfaldar staðhæfingar um að bókin væri „víst góð“ frá ötulum aðdáendum KGP var ekkert rætt um bókina. Umræðan um fagurfræði hennar náði því aldrei út fyrir Starafuglssíðuna – verndarar KGP höfðu einfaldlega meiri áhuga á að greina hvað þeim þætti að rýninni en hvað þeim þætti gott við bókina. Sem er líka áhugavert vegna þess að margir þeirra kölluðu eftir umræðu um fagurfræði. En út frá ritdóminum – ekki listaverkinu. Þetta er auðvitað ekkert nýtt. Ritstjórinn ég er afar meðvitaður um að neikvæð rýni fær bæði meiri lestur og meira röfl. Þeir sem kunna að meta eitthvað eru nefnilega líka spéhræddir – þeir óttast að þeir hafi smitast af einhverju vondu. Það er nefnilega mjög mikilvægt í samfélagsmiðlaveruleikanum að kunna að meta réttu hlutina og hafa óþol fyrir röngu hlutunum. Og það er hætt við að við séum flest meðvituð um að við kúltúrkapítal flyst yfir á verk – hvort sem það kúltúrkapítal var þénað með sjarma listamannsins, fyrri verkum, mati annarra eða á annan hátt. Í bókinni sem er vísað til hér efst segir A.O. Scott meðal annars að það reiðist enginn röngum dómi heldur  réttum . Að maður reiðist að heyra sannleikann. Í sjálfu sér held ég að það sé orðum aukið – sannleikurinn um listaverk er, einsog komið er inn á í bókinni, alls ekki svo einfaldur. En maður reiðist því sem maður heldur að geti verið satt og því sem gæti orðið satt. Að maður kaupi heitustu plötuna í bænum og segi öllum að hún sé frábær og svo tveimur mánuðum seinna reynist þetta hafa verið fyrsta plata Offspring (sekur!). Því þá er maður sjálfur fífl. Það er hins vegar alveg gefið að það sem einum þykir frábært getur öðrum þótt alger skelfing og þarf ekki að þýða að neinn sé fífl. Ekki í alvöru. Ein af þeim furðulegu þverstæðum sem liggja að baki allri listrýni í dag er hin fræga hugmynd Kants um hið huglæga sem er jafnframt algilt. Góður gagnrýnandi er sá sem er í senn meðvitaður um að hann talar fyrir heimsbyggðina og að hann sér ekki út fyrir naflann á sér – er fastur í eigin höfði og eigin hjarta en hvers vinna er að vera málsvari fegurðarinnar sem slíkrar . Nú vill til að Ólafur Guðsteinn er sjálfur yfirvegaður maður og honum var alveg sama um fjaðrafokið – fannst það hlægilegt, og er enda gamall í hettunni. Hins vegar á það vel að merkja við um fæsta gagnrýnendur Starafugls (þótt sumir séu vissulega að eldast í hettunni á okkar vakt). En þegar fólk spyr sig almennt hvers vegna það sé verðbólga í stjörnugjöf, hvers vegna eitthvað listaverk hafi bara fengið jákvæða rýni – þegar það er augljóslega ekki fullkomið – eða hvers vegna meðalmennskan vaði uppi þá er að minnsta kosti hluti ástæðunnar sá að fullt af fólki skuli sjá sér ástæðu til þess að svara ritdómi – ekki í úthugsuðu löngu máli heldur snöggum stungum, ekki með yfirvegun heldur  samstundis , ekki eitt og eitt heldur í hjörð – svo gagnrýnandinn drukknar í aðfinnslum. Sennilega er þar ekki um að kenna einstaklingum heldur „eðli vefsins“ – sem býður upp á þetta. Ég ætla sjálfur að reyna að temja mér meiri hægð á næstunni – að hafa færri skoðanir opinberlega, en gefa mér meiri tíma og meira pláss til þess að útfæra þær. Góðar stundir.

Untitled

Ég lauk gærdeginum á að tæma eldhúsið mitt og færa það inn í stofu. Nú er eldhúsið tómt en allt á hvolfi annars staðar í húsinu. Það á að fara inn í vegg í eldhúsinu í leit að myglu. Ég ætla ekki að gera það sjálfur; ég er með iðnaðarmenn í þessu sem munu sennilega bæði rýja mig inn að skinni og leggja húsið í rúst. Nei, djók. Ég er sem sagt eldhúslaus. Í gær gerði ég líka snjókall með Aino, sem var „lasin“ heima (hún var bara með smá höfuðverk um morguninn, en hafði verið með hita daginn áður – ég er alltof linur við þessi börn). Og í gær gerði ég hvítlauksristaðan skötusel með ribeyesteik. Það er auðvitað frekar langt gengið að elda ribeyesteik þegar maður er að halda hátíðlegan #fiskars – fiskimars – en þegar ég tók þá ákvörðun var ég búinn að gleyma að Nadja yrði í Frakklandi seinnihluta mánaðarins. Og Nadja sem sagt borðar ekki kjöt. Því er kærkomið tækifæri fyrir kjötátak þegar hún er í burtu. Sem verður þá Surf&Turf – í fyrradag var ég með beikonvafða löngu. Í gær lauk ég líka við að þýða tvö ljóð eftir Derek Walcott sem birtast á Starafugli á morgun, en Walcott dó á föstudaginn síðasta. Í dag er ég mættur í vinnuna. Voðalega er oft erfitt að einbeita sér. Jæja.

21. mars

Það er alveg sama hversu oft dagar, það dagar alltaf aftur. Þetta er alveg bjargfast, ég hef trú á þessu, þetta hefur ekki brugðist mér hingað til. Í dag er 21. mars, dagur ljóðsins og afmælisdagur eiginkonu minnar sem situr í þessum orðum töluðum í flugvél á leiðinni til Frakklands, þar sem hún ætlar að sinna erindum næstu tvær vikurnar. Á Ísafirði er dóttir okkar lasin – eða hún er að vísu hitalaus, en segist vera með hausverk og fær því að vera heima einn dag til. En á morgun er það engin miskunn. Þá er það bara leikskóli og ballett og ekkert kjaftæði. Það er auðvitað ekkert meira viðeigandi fyrir mig en að vera giftur konu sem á afmæli á degi ljóðsins. Og heitir þess utan sama nafni og frægasta bók André Breton – Nadja . Hún er 39 ára í dag og þar með jafn gömul og Nadja Bretons varð nokkurn tíma, sé ég nú með gúgli og ekki laust við að mér finnist í senn morbid að uppgötva það – en ekki síður að  nefna það hér. Hvað er maður að tala um dauðann á afmælisdögum? Og aðrar konur á afmælisdegi konunnar sinnar? Héðan úr Sjökvist sendum við henni ástkærar afmæliskveðjur – sungum raunar fyrir hana í gærkvöldi, tókum upp á myndband og ég vaknaði í morgun fyrir allar aldir og sendi henni það í símanum. Á morgun mæta til mín smiðir og rífa niður eldhúsvegg í leit að myglu. Þá verð ég eldhúslaus í einhvern tíma – sennilega upp undir tvær vikur að minnsta kosti. Til þess að mæta eldhúsleysinu hef ég fest kaup á hrísgrjónapotti sem er á leiðinni til mín frá höfuðborginni. Hrísgrjónapotturinn mun, ásamt hraðsuðukatli og George Foreman Lean Mean Fat-Reducing Grilling Machine – og hugsanlega örbylgjuofni, sem er hér úti í bílskúr – taka á sig hitann og þungann af eldhússtörfunum. Sennilega mun ég sakna uppþvottavélarinnar mest – og vasksins.

Untitled

17. mars, 2017 Ég er hættur við megnið af áramótaheitunum mínum. Það er líka alltílagi. Ég stóð mig svo vel í áramótaheitunum í fyrra. Það er hugsanlegt að ég komist á skíði á morgun. Í sjálfu sér gæti ég sennilega farið í dag líka, en það yrði stress og ég nenni ekki stressi – eða nenni ekki meira stressi. Er að gefa út ljóðabók í næsta mánuði, þýða leikrit, skrifa skáldsögu sem er líka leikrit, ritstýra Starafugli (og skrifa tvo dóma fyrir hann) og yrkja ljóð fyrir Pétur vin minn, sem er fertugur á morgun. Mig sakar minna að ég sleppi því að vinna á laugardegi – og fari á skíði – en að ég láti einhvern annan um kvöldmatinn í dag og fari á skíði. Sem ég gæti auðvitað gert. Nadja myndi sýna því talsverðan skilning, enda hefur hún getað verið á sínum skíðum (göngu) í marga mánuði, en ég ekkert komist á mín (svig). Fiskars er í fullum gangi. Fiskimars. Í gær eldaði ég gufusoðinn steinbít í jurtasósu – ég fann þá uppskrift í tælenskri matreiðslubók á finnsku. Ég kann ekki finnsku nema rétt svo til að lesa matreiðslubækur. Kann bara rétt nógu mikið til að stauta mig í gegnum uppskrift. Og þessi sósa – kóríander, basilika, graslaukur, skalottulaukur í kraft- sjerrí- og smjörbaði – er fyrir löngu orðinn heimilisklassíker. Í dag mætast tvær hefðir í annað sinn – fiskars og pizzaföstudagur – og stefnir í eina sardínupizzu og eina sem er innbakaður plokkfiskhálfmáni. Ég er að reyna að gera upp við mig hvort ég nenni að gera bernessósu. Skrítið hvernig maður nennir sumu og öðru ekki. Ég skil til dæmis ekki allt það fólk sem nennir ekki að gera botn í pæ – svona beisik smjördeig – þótt ég átti mig á því að svona ofurfínt smjördeig einsog t.d. í croissant geti verið meira vesen en maður nennir. Ég hef gert það tvisvar og það var ekki vesensins virði. Sennilega verður það ekki vesensins virði fyrren maður er orðinn verulega góður í því. Ég á vinkonu sem er lærður croissantbakari og hennar smjörhorn eru engu lík. Mér finnst einsog ég sé aldrei búinn að drekka nóg kaffi. Kannast lesendur við þetta?

Árið 2017

Það er að verða búinn einn dagur. 364 eftir, held ég, nema það sé hlaupár. Sem minnir mig á að ég missti af hlaupsekúndunni í gær. Það er eitt og annað komið á dagskrá. Á memberberries -dagskrá eru Guns N’ Roses tónleikar í Finnlandi á afmælinu mínu. Á nýmóðins dagskrá er ferð með Nödju til San Francisco í ágúst. Þess utan er ég bókaður í að minnsta kosti þrjár ferðir til útlanda – tvær til Noregs og eina til Frakklands. Mér er svo alveg óhætt að reikna með einhverjum fleirum Frakklandsferðum, sennilega einni Bretlandsferð og ábyggilega líka einni Grikklandsferð (Illska er alveg að koma út á grísku). Vonandi sigrast ég á myglunni. Og hvað fleira? Svíþjóð og Finnland í sumar. Hugsanlega skottúr til Austurríkis eða Danmerkur, eftir aðstæðum. Í vor kemur svo ljóðabók – Óratorrek – ljóð um samfélagsleg málefni – ef ekki fer svo ósennilega að ég ákveði að mig langi frekar að vera með jólabók. Það er samt eiginlega alveg óhugsandi. En ég er mikið búinn að hugsa um hvernig mig langi að gefa bókina út. Mest langar mig að fara á túr um landið og lesa upp allan hringinn, einhvern tíma í vor. Ég hef ekki einu sinni farið hringveginn. En það er fullmikil framkvæmd (ég er byrjaður að skrifa annað og ferðast víst annars nóg) og ósennilegt að það sé gaman lengur – að stíga inn í túristasirkusinn. Þá gæti maður kannski allt eins farið til Benidorm. En mér finnst ástæða til að gera eitthvað almennilegt til að fagna bókinni – til að undirstrika útgáfuna. Það fór mikil vinna í hana – hún er massíf á alla kanta – og mér finnst að útgáfunni verði að fylgja einhver þyngd. Óratorrek er mér mikilvæg. Áramótaheitin Áramótaheit númer eitt er að leyfa mér að hafa sjálfstæðar og afdráttarlausar skoðanir á hlutunum. Það byrjaði svo vel að í gær lýsti ég því yfir að mér hefði þótt Skaupið léleg – sem er þó varla jaðarskoðun, einu sinni á góðu ári – og hef þurft að verja þá skoðun viðstöðulaust í hartnær sólarhring af því ég sé „fýlukall“. Kannski er þetta vonlaus afstaða nema maður þegi þá bara yfir skoðun sinni. Og kannski er það vandamálið við neikvæðar skoðanir á listaverkum almennt – það er svo þreytandi að hafa þær, það þarf að verja vanþóknun miklu meira en velþóknun. Stuttur pistill um hvað skaupið hefði verið frábært hefði ekki kostað mann neitt nema nokkur hi-fives. En þetta væri varla áramótaheit ef það væri létt. Einu sinni var ég duglegri við þetta – en sennilega þreyttist ég einmitt bara. Og hugsanlega höfðu félagsmiðlar þar eitthvað að segja. Varaáramótaheit númer eitt er að hætta á félagsmiðlum. Áramótaheit númer tvö er að lesa a.m.k. eftirtaldar kanónubækur, sem ég hef (að mestu) ekki lesið áður (ég byrjaði rétt fyrir jól): Ódýsseifur í þýðingu SAM (byrjaður) Ismail Kadare – Hershöfðingi dauða hersins Orlando – Virginia Woolf (í væntanlegri þýðingu Soffía Auðar, ég hef lesið orginalinn) Gunnar Gunnarsson – Fjallkirkjan Tolstoj – Anna Karenína / Stríð og friður Perec – My Life Herta Müller – Ennislokkur auðvaldsins Karen Blixen – Out of Africa Smásögur Flannery O’Connor Smásögur Alice Munro Thomas Mann – Töfrafjallið Ferrante – a.m.k. fyrstu bókina í fjórleiknum (hef annars bara lesið Days of Abandonment) Robert Musil – Mann ohne eigenschafte (sennilega á ensku, annars sænsku) Emily Bronte – Wuthering Heights HKL – Sjálfstætt fólk Svetlana Aleksevitsj – Secondhand Time Dickens – Tveggja borga saga (í væntanlegri þýðingu Þórdísar Bachmann) Sjón – Codex 1962 (búinn með fyrstu en ætla að endurlesa hana) Breton – Nadja Jakobína – Í barndómi Roberto Bolaño – 2666 Stefan Zweig – Veröld sem var (búinn) Áramótaheit númer þrjú er fjárhagslegs eðlis. Útfærslan er ekki alveg ljós – sennilega gef ég mér fyrsta mánuðinn til að sníða af því agnúana ef einhverjir reynast. En í grundvallaratriðum snýst það um að eyða ekki meira en þrjú þúsund krónum í sjálfan mig í einu. Hvað „í einu“ þýðir er auðvitað teygjanlegt. Sem og raunar „sjálfan mig“. En ég ætti þá t.d. að geta keypt nýja strengi í gítarinn ef þeir slitna en ekki nýjan gítar ef hann brotnar. Ég get farið út að borða – en það er takmarkað hvert og hvað ég get fengið mér. Á þessu verður a.m.k. ein undantekning – ég ætla að kaupa mér skíðakort (ef það verður þá skíðafært í vetur) og hugsanlega endurnýja ég kortið í ræktina í haust. Bæði er dýrara en þrjú þúsund krónur. Sennilega geri ég líka einhverjar undantekningar með Nödju – t.d. er ekkert óhugsandi að við förum dýrara út að borða á 10 ára brúðkaupsafmælinu okkar í ágúst.