Untitled

Það er búið að kaupa kaffivél á kontórinn. Forláta Russell Hobbs Retro kaffivél sem hellir upp á gott kaffi en ekki Senseoviðbjóð, í boði stjúpmóðurinnar í húsinu, Elísabetar Gunnarsdóttur, húsráðanda með meiru. *** Ég hef bráðum sinnt öllum smálegum aukaverkum og get farið að sinna stærri verkum – ég er sem sagt að reyna að hreinsa af borðinu hjá mér. Kannski er það samt bara frestunarárátta. En ég hef þá ekkert annað að gera sem þarf að gerast, ekkert framundan. Mér er ekki beinlínis létt.

Untitled

Ég gleymdi strax setningunni sem átti að opna bloggið í dag. Fyrstu setningu bloggs dagsins. Finnst einsog ég komi þessu ekki óbrengluðu út úr mér. Og hvorutveggja er alveg skiljanlegt, verður mér ljóst þegar ég man skyndilega og óforvarendis hver fyrsta setningin átti að vera: Það er ekki til neitt kaffi á skrifstofunni. Allir skrítnu kaffipokarnir í senseovélina eru á bak og burt. Ég get sjálfum mér um kennt. Ég hef ekki keypt poka í svolítinn tíma. Sem er að hluta til vegna þess að mér finnst þetta andskotans senseokaffi svo vont. Var einmitt að hugsa í gærkvöldi hvort ég ætti ekki að stinga upp á því við kontórsystkini mín að við splæstum saman í almennilega kaffivél – svona gamaldags uppáhellingamaskínu. En nú er enginn á kontórnum og ekkert kaffi. *** Ég hef ímugust á allri „styttingu“ náms. Ekki svo að skilja að mér finnist ekki að fólk megi drífa sig í skóla ef því svo sýnist – en ég held að það sé líka afar mikilvægt að maður gefi sér tíma til að læra. Sennilega væri alveg hægt að klára menntaskólann á hálfu ári ef það væri gert með bootcamp-laginu. En það væri ekki gaman fyrir flesta og maður hefði voða lítinn tíma til að sinna öllu hinu sem fylgir námi – sérstaklega því námi sem á sér stað fyrstu 25-30 ár ævinnar, þegar maður er að finna sjálfan sig og uppgötva heiminn, ákveða hver maður ætlar að vera (í mjög, mjög grófum dráttum) og hvað maður þarf að vera búinn að lesa áður en maður deyr. Ég var sjálfur fimm ár í menntaskóla og þótti það engan veginn nóg. *** Viðtal Piers Morgan við Owl&Fox var að mörgu leyti áhugavert. Ég velti því fyrir mér hvort það geti verið hlutverk fjölmiðlamanna að vera hreinlega jafn leiðinlegir og leiðinlegasti maðurinn heima í sófa. Vera fulltrúi íhaldsins – eða andstöðunnar við málstað viðmælanda – til þess að það samtal geti yfir höfuð átt sér stað. Þannig að karlinn eða kerlingin (eða kynseginfólkið) sem hristir höfuðið að sjónvarpinu og spyr: MÁ ÉG ÞÁ BARA EKKI BREYTA MÉR Í APPELSÍNU? fái einhvers konar svar við fordómum sínum. Ekki veit ég hvort að Piers Morgan er bara þannig karl eða hvort hann leikur bara slíkan í sjónvarpinu, argumentsins vegna, ég sé aldrei þennan þátt, en ég held mér sé fúlasta alvara með að slíkur afkimi geri kannski gagn (hugsanlega líka ógagn, en veröldin er heldur ekki alveg hreinar línur). Hitt er svo aftur valid spurning að hversu miklu leyti maður megi „sjálfskilgreina sig“. Maður er ekki bara sá sem maður upplifir að maður sé, heldur líka sá sem aðrir upplifa að maður sé (og sá sem maður upplifir að þeir upplifi að maður sé o.s.frv. o.s.frv.). Ídentítet er ekki svo einfalt að maður stýri því bara sjálfur – það er viðstöðulaus speglasalur af fordómum og ranghugmyndum, nánd og sannleika, þreifingum og samningaumleitunum. Stundum sjálfskilgreinir fólk sig líka rangt eða í trássi við eitthvað siðferði. Þannig er t.d. í mörgum íhaldsömum kreðsum „rangt“ að skilgreina sig sem verandi af öðru kyni en því sem samræmist kynfærunum sem maður fæddist með. Og, einsog Piers Morgan benti vissulega á, þá er „rangt“ í mörgum líberölum kreðsum að skilgreina sig sem verandi af öðrum kynþætti en sem samræmist þeim húðlit sem maður fæddist með (sjá Rachel Dolezal – eða skáldsöguna Your Face In Mine ). Enn fremur er t.d. rangt – faktúelt – af Lafði Makbeð að skilgreina sig sem saklausa, einsog nóbelsverðlaunahafinn JM Coetzee nefndi einhvern tíma í viðtali og bætti við: Við höfum einfaldlega ekki sjálfdæmi um hver við erum. Sem þýðir svo aftur ekki að við megum ákveða hverjir aðrir eru heldur – maður hefur ekki sjálfdæmi um hver maður er, en maður er samt eitt helsta átorítet í málinu. *** Ég held það sé afar mikilvægt að maður taki skýra ákvörðun um hvað það er sem manni finnst ekki til umræðu. Og maður átti sig á því hvar sú grensa liggur.  Ég held að margir – sérstaklega íhaldssamir fullorðnir karlar, merkilegt nokk – haldi að þeir séu ekki með neina grensu. Það sé allt til umræðu, ekkert yfir strikið, ekkert fáránlegt eða viðbjóðslegt. En það er misskilningur. Sennilega snýst þetta um heimspekilega nálægð við valdið sem ákveður hvað sé innan og utan rammans – því meira sem maður er sammála meginstraumnum (sem er hugsanlega líka meginþorri manna, vel að merkja, ekki bara ríka fólkið sem á fjölmiðlana – en samspil þeirra við meginþorra manna er vissulega flókið) því auðveldar á maður með að ímynda sér að allt sé í raun „uppi á borðinu“. Hins vegar er líka alveg rétt að þeir sem koma að borði meginstraumsins með bænaskjöl sín láta líka svolítið einsog þeir hafi einkarétt á siðferðinu. *** Af hverju höfnum við því annars alltaf sem útúrsnúningi þegar spurt er hvort maður megi skipta um kyn bara af því bara (en ekki af því maður hafi fæðst í röngum líkama) – eða látum einsog kynhneigðir og kynferði geti ekki verið smitandi einsog önnur látalæti mannanna. Ég held til dæmis að gagnkynhneigð og sískynferði sé mjög smitandi. Ég er alveg hvínandi smitaður og hef lært bæði frá unga aldri. En hvernig er þetta hluti af argumentinu – væri ég verri hommi ef ég tæki ákvörðun um það, frekar en ef það væri eitthvað sem ég „fæddist með“? Væri ég verri kona ef ég færi í kynskiptiaðgerð fyrir forvitni sakir? Er ekki eitthvað skrítið við að draga línuna þarna?

Untitled

Ég hef oft sagt að ég viti ekkert hvernig eða réttara sagt hvenær ég hef skrifað allar þessar bækur – og þær eru vissulega orðnar alltof margar. Mér líður yfirleitt einsog ég geri ekki annað en að stara á tölvuskjáinn, skrolla niður Facebook og vorkenna sjálfum mér gersamlega bugaður af heilaþögn, andleysi og köldu hjarta. Í dag er einmitt þannig dagur. Ég er með stórt verk í smíðum og a.m.k. ein mynd þess þarf að vera tilbúin í haust. En það gerist ekki neitt. Ég opna ekki einu sinni skjalið. Einsog mér sé það hreinlega um megn. Þannig verður það sennilega alveg þangað til að verkið er skyndilega tilbúið. Nema það gerist ekki og þá þarf ég einhvern veginn að ljúga mig út úr letinni. *** Ég pantaði mér af netinu fjóra andfasíska stuttermaboli en bárust bara tveir. Ég hef skrifað fyrirtækinu en ekki fengið svar. Bolina keypti ég gagngert til þess að klæðast þeim á Bókamessunni í Gautaborg í haust – þar sem fasíska tímaritið Ny Tid verður með bás, öllum til mikillar óþurfta r. Þar verð ég sennilega í fjóra daga, eða mér þykir í öllu falli líklegt að ég verði ekki lengur en fjóra daga. Fjórir andfasískir stuttermabolir ættu að duga. En tveir er áreiðanlega of lítið. Helvítis kapítalistar. Það eina sem þeir hafa sér til málsbóta er að þeir eru allavega ekki fasistar (nema stundum). *** Í svefnleysinu í gær fór ég að reikna út hvað ég þyrfti marga áskrifendur/stuðningsaðila til að geta borgað þeim sem skrifa á Starafugl smáræði og sjálfum mér annað smáræði fyrir ritstjórn og þess utan rekstrarkostnað við vefinn og komst að þeirri niðurstöðu að ef eitt þúsund manns greiddu fjögur þúsund krónur á ári gæti þetta gengið upp. Annars væri þetta of mikið hallæri og vesen. Og þá er spurningin: er raunsætt, in this day and age, að útvega sér eitt þúsund áskrifendur? Það kæmi vel að merkja aldrei til greina að læsa greinum eða vera með þannig rugl. *** Sennilega er ég bara lasinn. Andskotans.

Untitled

Heilinn í manni verður undarlega bakaður af svefnleysi og líkaminn einhvern veginn í senn þægilega lúinn og dofinn og sárþjáður. Ég vaknaði klukkan 2 að íslenskum tíma eftir u.þ.b. tveggja tíma svefn og fór út á flugvöll í Basel – frá Saint-Louis, sem er 5 mínútur frá flugvellinum. Svaf í kannski hálftíma í Easyjet síldartunnunni sem flutti mig yfir skýin og fimm mínútur í Reykjavík Excursions Flybus – sem eru ábyggilega þær rútur sem ég hef komið í þar sem minnst er fótapláss. Ég get bókstaflega ekki komið fótleggjunum fyrir. Og samt þrjóskast þeir við að troðfylla rútuna þannig að það er heldur ekki hægt að komast upp með að taka tvö sæti. OG SVO ER EKKI EINSOG ÞETTA SÉ NEITT SÉRLEGA ÓDÝRT. *** Í umræðunni um plastlokin og nauðganirnar finnst mér svolítið vanta – og þetta er nittpikking – að afar mörgum sem fá ógeð í glasið sitt er alls ekki nauðgað. Það þarf sem sagt ekki bara að kenna fólki að nauðga ekki, heldur kenna því að setja ekki ógeð í drykki annarra – jafnvel þótt það telji líklegt að það muni sleppa því að nauðga þegar að því kemur. Eða einhvern veginn klúðra því. Og fyrst við erum farin að tala um varúðarráðstafanir, þá hef ég mjög slæma reynslu af því að stinga úr drykkjum kvenna. Strákar, ekki gera það, ekki einu sinni þótt þær séu með límmiða á glasinu. Maður veit aldrei hvað er í þessu. *** Og þessu tengt, þá hef ég afar litla samúð með því að nasistinn Robert Spencer hafi orðið fyrir eitrun. Það er ljótt af mér, þannig á maður auðvitað ekki að hugsa (og auðvitað er líka ljótt að gera, einsog margir, og draga í efa sögu mannsins – ég hélt að allir væru hættir slíku eftir nauðgunarumræðuna). En ég segi samt einsog pabbi, og sennilega er það líka ljótt: ég hélt að maðurinn nærðist á eitri. Og stundum finnst manni bara ákveðið réttlæti í því að illa sé komið fram við vont fólk. Svona einsog þegar eineltisseggir lenda í því að vera rassskelltir. *** Ég er sem sagt úrvinda. Sit á BSÍ og hlusta á Bubbalögin í kippum og bíð þess að mega fljúga heim til mín. Ég á að fara klukkan 17. Morgunvélin (sem ég hefði ekki náð ef hún hefði farið á réttum tíma; og nú er uppselt í hana) er í athugun klukkan 12. Stærsta hagsmunamál Vestfirðinga – ásamt heilsársvegi milli suður og norðurfjarðanna – er almennilegur flugvöllur sem á er treystandi. Þetta er rugl. *** Fyrir þrítugt kemur meira kaffi, orkudrykkir, sykur, matur, hormónar og/eða sígarettur og áfengi algerlega í staðinn fyrir góðan nætursvefn. Þetta hef ég sannreynt. Eftir þrítugt verður maður bara þreyttur. Svo fær maður höfuðverk. Þá byrjar maður að kvarta, einsog aumingi, og þá er baráttan töpuð. *** Ef fluginu verður aflýst snemma get ég fengið hótelherbergi. Þá fer ég bara að sofa. Annars sit ég hér og vinn a.m.k. fram á hádegi og fer svo og finn mér matarbita niðri í bæ. Og sef heima hjá mér. Það er meira að segja hugsanlegt að ég nái í restina á danssýningu barnanna minna. *** Reykjavík er ekki bara túristabær heldur líka hipsterbær. Hvorutveggja veldur verðhækkunum – eins konar gentrífíeringu á ofurfæðu (miðbær Reykjavíkur var náttúrulega partíbær/svefnbær þar til upp úr aldamótum og að mörgu leyti fínn sem slíkur). Veitingastaðirnir eru góðir en skelfilega tilgerðarlegir. Og dýrir. En góðir. Og ef maður vill ekki tilgerðina er alltaf hægt að borða afar heiðarlegan mat á BSÍ, rómantískasta veitingastað þjóðarinnar. Og sennilega bara rómantískasta stað þjóðarinnar punktur. *** Þetta eru auðvitað ekki fréttir fyrir neinn. *** Stundum finnst mér einsog bloggið sé glatað listform/lífsform. Og stundum skil ég ekki hvers vegna allir eru ekki alltaf að blogga.

Untitled

Hér talar maður í útgáfuham. Eða kynningarham. PR-ham. Maður í einhverjum svona ham sem gerir honum kleift að selja bækur, snyrta sig til og tala um sjálfan sig í sjónvarpið. Ég er nýkominn úr viðtali á ÍNN og hef annars eytt deginum í að þeytast um höfuðborgarsvæðið með árituð og stimpluð Óratorrek, aðallega til Facebookvina – sem eru auðvitað margir hverjir, sennilega flestir, gamlir raunvinir og kunningjar – en ég er sem sagt minn eigin hypermobile bóksali. Ég tók mér smá frí til að fara út að hlaupa í Laugardalnum – sem var gott, sól en kalt, sérstaklega þegar ég var orðinn svitablautur – og þá hringdi Árni Matt upp á viðtal og ljósmynd fyrir moggann. Hann er svo naskur að hann heyrði strax að ég væri að hlaupa, sennilega var ég samt meira hressilega móður en bugaður – þótt ég sé oft líka bugaður á hlaupum – eða ég ímynda mér það, í það minnsta leið mér ekki einsog ég væri að fara að deyja. Ég á að hitta ljósmyndarann á morgun – bara spurning hvar. Hvar er geðveikast að láta mynda sig í Reykjavík? Á hvaða brautir á ég að beina þessum manni? Annars er ég bara góður.

Untitled

Ég tók upp á því nýlega að skrifa bara stök orð í glósubækurnar mínar, þar sem ég hafði áður skrifað nokkrar setningar um það sem helst þyrfti að gerast. Þær eru vel að merkja tvær, glósubækurnar, og ég geri engan greinarmun á þeim, nema stundum skrifa ég í eina og stundum í hina. Þetta eru svona to-do-listar, mestmegnis, áminningar um eitt og annað, og stundum tek ég upp á því að nota þær einsog almanak eða kladda og merki inn dagsetningar á opnur og blaðsíður svo ég geti áminnt mig marga daga fram í tímann. Þetta er sérstaklega hjálplegt þegar kemur að því að muna alla skilafrestina á Starafugli – hvenær hver átti að skila hvaða texta um hvaða verk. En nú man ég ekkert lengur hvað það var sem ég ætlaðist til þess að ég færi að gera. Ég hef bara ekki hugmynd um hvað neitt af þessu þýðir. Kannski þýðir það að nú sé kominn tími til að fara í páskafrí. Jú, ég ætlaði að blogga. Það stendur þarna. Tékk.

Untitled

Það keyrði maður

inn í hóp fólks

í Stokkhólmi

rétt í þessu Kunnuglegur ókunnugur maður;

ég er alltaf að sjá hann en ég veit ekkert hvað hann heitir

það veit enginn og sennilega heitir hann ekki neitt

ekki í alvörunni Þeir segja líka að einhver

hafi hleypt af byssu

eða byssum

en þeir segja ekki hver

eða hvern hann skaut Eða hún skaut

hán skaut

hé, þau, þeir

þið, þær

og við auðvitað

erum ekki undanskilin Ég meina, þið vitið hvað ég á við Stefan Löfven segir að það hafi verið ráðist á Svíþjóð

Ágúst Borgþór segir að þetta séu múslimarnir

og skipar Agli Helgasyni að vakna;

Guðmundur Andri segir þetta árás á fjölmenninguna

og ég er bara einhvern veginn

algerlega lamaður

bara alveg lamaður ég lýg því ekki

einhvern veginn

að liðast í sundur á tilfinningunum

einsog ég eigi eitthvað með það

eitthvað tilkall

einsog harmur sé sambærilegur

ofbeldi ekki alls konar hlutir

fullkomlega óskyldir innbyrðis

ekki sorgmæddur beinlínis

bara dálítið lamaður

og miður mín Lögreglan öskrar á fólk

í strætisvögnum

að hér hafi verið framið hryðjuverk

og það þurfi að fara frá borði;

ég er löngu hættur að skilja fréttirnar

og vona að það slokkni bráðum á þeim bara Og fleira er kunnuglegt, ég hef fyrir vana

að drepa tímann

á þessum götum

svefnlausri nótt

á McDonalds

þar sem er bannað að sofa

og kaffið er vont

þótt maturinn sé sannast sagna alltílagi

en ég var strandaglópur

og komst ekki neitt Þarna í nágrenninu keypti ég

Guns N’ Roses kaffifantinn minn

með brotna handfanginu

ég er alltaf þarna, finnst mér

og fremur dýr heyrnartól sem skemmdust fljótlega

og ég hef líka komið inn í Åhlens Vinir mínir og ættingjar eru alltaf að

merkja sig seif

eða merkja vini sína seif

á Facebook

í vinnunni ofar við götuna,

neðar við götuna

við þessi torg

næstu torg

og tengdapabbi minn er í Kína

og þess utan nýfluttur til Västerås

(ég var í alvöru búinn að gleyma því,

en bara í augnablik)

og ég vissi ekki að þið væruð

svona mörg

á lífi eða einu sinni dauð

og hvað þá örugg En það var sem sagt einhver maður

að keyra inn í þvögu

hóp fólks

í Stokkhólmi

bara rétt í þessu

og einhverjir eru alveg

100% steindauðir

og það er alveg að fara með mig

Untitled

Pönkrokk, þú ert stóri vælukjóinn minn – AllenGinsberg Ég ætla að klaga þig í heyrnarlausa mömmu mína!

Skelltu þér á gólfið

og éttu bleyjur ömmu þinnar, trommur,

hvaða djöfuls læti viltu byltingu?

Viltu heimsendi? Springa í tætlur með dínamíthljóðum?

Þetta hreyfir ekki við mér, Hærra, Grimmar!

Ríddu mér í rassgatið! Tottaðu mig! Fáðu það í eyrun á mér!

Mig langar í alla þessa bleiku kviðarnafla!

Lofaðu að þú skulir myrða mig í ræsinu með Fullnægingum!

Ég vil kaupa miða í næturklúbbinn þinn, mig langar að vera handtekinn!

Fimmtugur vil ég fara! Með svipur og keðjur og leður!

Rassskelltu mig! Kysstu á mér augað! Tottaðu mig útumallt

frá Mabuhay-görðum til CBGB’s landshorna á milli

Toppi til táar Gemmér rafmagnsgítarinn nakinn,

Pönk forseti, slafraðu alríkislögreglunni oní gríðarstóran trantinn á þér. Mabuhay-görðum, maí 1977. Úr  Maíkonungurinn

Untitled

Ég hef komið mér upp þeim vana að yfirgefa skrifstofuna um þetta leyti dags, fara í bakaríið og koma aftur með snúð og kaffi. Kaffið hérna er alls ekki gott, ég þoli alls ekki meira en 7-8 bolla af því, í allra mesta lagi (eiginlega er það svo vont að ég fæ mér oftast ekki nema einn) og það eru engir snúðar í boði. Ég þarf samt að fara að taka með mér meðgöngubolla í vinnuna; ég hugsa að sjálfbæra fólkinu myndi ofbjóða kaffibollafjallið hérna. Kannski ofbýður mér líka sjálfum, kannski kenni ég bara góða sjálfbæra fólkinu um mína eigin sektarkennd einsog þau standi yfir mér með ásakandi fingur. Týpískt ég.

Untitled

The art world, you may be shocked to learn, is underwritten by bankers and industrialists. The Hollywood studios are hotbeds of corporate greed. The masterpieces of Renaissance painting and sculpture were enabled by the patronage of corrupt popes and ruthless princes. The European novel arose as the looking glass and plaything of a vain and entitled bourgeoisie in an age of brutal colonial adventurism. The ancient marvels stuffed into Western museums from Berlin to Los Angeles were snatched from poor or militarily unlucky countries by imperial raiding parties, and the treasures themselves were more often than not artifacts of despotism and superstition. The objectification of women, the glorification of illegitimate power, the dehumanization of the Other—it all hangs seductively and poisonously before our eyes. If we adjust our perspective—or correct our naïve vision with properly skeptical lenses—we will see that what we have taken for beauty is really the afterimage of cruelty, inequality, intolerance, sexism, and greed. Úr Better Living Through Criticism: How to Think about Art, Pleasure, Beauty and Truth eftir A. O. Scott Í síðustu viku stóð samfélaginu ógn af því að börn læsu bækur Helga Jónssonar – af því í þeim er fjallað um kynferðisofbeldi (og ég sem hélt við værum alltaf að reyna að „opna umræðuna“ – en það er kannski ekki öllum boðið), og vegna þess að þær eru lélegar. Nú stendur samfélaginu ógn af því að börn lesi Engla alheimsins eftir Einar Má af því lýsingarnar þar á aðbúnaði geðsjúkra eru úreldar og þeir sem þær lesa því haldnir alls konar ranghugmyndum um Klepp. Minn skilningur á krafti bókmennta hefur reyndar alltaf falið í sér að þær geti verið alveg hryllilega mannskemmjandi. Að þær geti allt eins brotið okkur niður og haft skaðleg áhrif á umhverfi sitt – og reyndar, að það séu oft helst bækurnar sem  ætla ekki að gera neinum illt, heldur þvert á móti,  vilja vel , sem fari verst með okkur. Og þá sé ekki heldur endilega samasemmerki milli þess að þær séu  illa skrifaðar eða  léleg bókmenntaverk . Sennilega eru bækur af þessu tagi verri eftir því sem þær eru  betri bókmenntaverk , í merkingunni  kraftmeiri . Annars eru ægilegir fordómar í flestum bókum – það þarf ekki annað en að skoða hvernig skrifað er um íslensk þorp og smábæi í skáldsögum, þar sem allir eru þröngsýnir alkohólistar með nefið ofan í hvers manns koppi og minnimáttar verða alltaf út undan. Eða  yfirlætisleg sveitarómantíkin – vemmilegt nostalgíukast hins tilfinningasama menntamanns. Allar kvenpersónurnar sem gera ekki annað en dæsa af aðdáun á sínum mönnum – ef þær eru þá ekki fláráðar druslur. Og svo framvegis og svo framvegis. En það er ekki beinlínis það sem ég er að meina. Bækur geta verið góðar – vel skrifaðar og mannbætandi –  þrátt fyrir að vera börn síns tíma eða dálítið siðferðislega villuráfandi (eiginlega hef ég litla trú á höfundum sem leyfa sér ekki dálítið siðferðislegt villuráf – annað er til marks um oftrú á siðferðislegt yfirvald hvers tíma). Það er eitthvað annað. Kannski að ég eigi við einfeldnislegan hugsunarhátt sem dulbýr sig sem eitthvað meira – þunnildi sem tekst að sannfæra lesanda sinn (eða samfélag lesenda) um að hér sé gríðarlega mikil speki á ferðinni sem verði að taka alvarlega, þegar manni ætti að vera ljóst – ef maður gerði sér far um að skoða það og þyrði að fara gegn hersingunni sem segir til tískustrauma – að svo er alls ekki. Þar með er einsog hugsun mannsins – ekki höfundarins, heldur samfélagsins – hafi verið færð niður um bekk. Standardinn lækkaður. Í næsta prófi þarf maður ekki að fá nema 4 til að ná.