Untitled

Ég hef oft sagt að ég viti ekkert hvernig eða réttara sagt hvenær ég hef skrifað allar þessar bækur – og þær eru vissulega orðnar alltof margar. Mér líður yfirleitt einsog ég geri ekki annað en að stara á tölvuskjáinn, skrolla niður Facebook og vorkenna sjálfum mér gersamlega bugaður af heilaþögn, andleysi og köldu hjarta. Í dag er einmitt þannig dagur. Ég er með stórt verk í smíðum og a.m.k. ein mynd þess þarf að vera tilbúin í haust. En það gerist ekki neitt. Ég opna ekki einu sinni skjalið. Einsog mér sé það hreinlega um megn. Þannig verður það sennilega alveg þangað til að verkið er skyndilega tilbúið. Nema það gerist ekki og þá þarf ég einhvern veginn að ljúga mig út úr letinni. *** Ég pantaði mér af netinu fjóra andfasíska stuttermaboli en bárust bara tveir. Ég hef skrifað fyrirtækinu en ekki fengið svar. Bolina keypti ég gagngert til þess að klæðast þeim á Bókamessunni í Gautaborg í haust – þar sem fasíska tímaritið Ny Tid verður með bás, öllum til mikillar óþurfta r. Þar verð ég sennilega í fjóra daga, eða mér þykir í öllu falli líklegt að ég verði ekki lengur en fjóra daga. Fjórir andfasískir stuttermabolir ættu að duga. En tveir er áreiðanlega of lítið. Helvítis kapítalistar. Það eina sem þeir hafa sér til málsbóta er að þeir eru allavega ekki fasistar (nema stundum). *** Í svefnleysinu í gær fór ég að reikna út hvað ég þyrfti marga áskrifendur/stuðningsaðila til að geta borgað þeim sem skrifa á Starafugl smáræði og sjálfum mér annað smáræði fyrir ritstjórn og þess utan rekstrarkostnað við vefinn og komst að þeirri niðurstöðu að ef eitt þúsund manns greiddu fjögur þúsund krónur á ári gæti þetta gengið upp. Annars væri þetta of mikið hallæri og vesen. Og þá er spurningin: er raunsætt, in this day and age, að útvega sér eitt þúsund áskrifendur? Það kæmi vel að merkja aldrei til greina að læsa greinum eða vera með þannig rugl. *** Sennilega er ég bara lasinn. Andskotans.